Tindferð 167
Vestursúla og Norðursúla Hvalfirði
laugardaginn 2. mars 2019

 

Einstök veröld
á Vestursúlu og Norðursúlu

Níu Toppfarar gripu tækifærið og skelltu sér á Vestursúlu og Norðursúlu
laugardaginn 2. mars í algeru logni og sól á tindinum
með einu glæsilegasta útsýni sem gefst á fjallstindi á suðvesturhorni landsins...

-----------------------

Ferðasagan hér:

Lagt var af stað kl 8:02 eftir akstur úr bænum kl. 7:00...
og gangan endaði á að vera 8:02 klst. löng svo þessari fallegu tölfræði sé haldið til haga hér í upphafi :-)

Botnssúlurnar í skýjunum og ekki mjög spennandi að sjá frá Botnsdal...
en það átti eftir að breytast...

Bílastæðið tómt um morguninn...
en ekki þverfótað fyrir ferðamönnum og öðrum íslenskum göngumönnum þegar niður var komið átta tímum síðar...
en þökk sé veraldarvefnum eru erlendir ferðamenn hér á hverjum degi allt árið um kring nú orðið...

Byrjað var á að fara hefðbundna Leggjabrjótsleiðina til Þingvalla...

Milt veður og leysingar á slóðanum svo um munaði...

Fossinn Glymur ófrosinn og saklaus að sjá miðað við oft áður á þessum árstíma...

Einu sinni fórum við í byrjun mars 2014 upp með honum... yfir ána... og kringum Hvalvatn...
og tókum aukakrók upp á Hvalfell í bakaleiðinni... í blíðskaparveðri...
sem varaplan þar sem ekki viðraði á Bjarnarhafnarfjall þá helgina...
og uppskárum mergjaða ferð sem aldrei gleymist..

En nú var hálfgert vor í lofti... og ískuldi langt undan... sem og allir vindar...

Veðurspáin hafði verið sólrík og mergjuð fyrr í vikunni og þess vegna bærði þessi hugmynd á sér
í kjölfarið á umræðum við Agnar Toppfara í þriðjudagsgöngunni
sem sagðist vera að spá í að fara á þessar tvær Botnssúlur sem hluta af Hvalfjarðaráskoruninni um tólf tinda fjarðarins...
og nýta að sjálfsögðu þessa glimrandi veðurspá... og með þar var boltinn farinn af stað...
og endaði með aukatindferð með Erninum þar sem Báran var upptekin í Vasaloppet í Svíþjóð þessa helgi...

Og uppskeran var ekki af verri endanum...
mergjuð dagsganga í Botnssúlunum í glimrandi veðri sem beið hópsins ofar...

Jú... þær voru eitthvað farnar að undirbúa sig fyrir blíðuna... og sólina...
og útsýnið sem bjóða skyldi gestum þennan dag...

Hvalfellið líka orðið skýlaust en Inga Dagmar, hlaupari og leiðsögumaður Íslenskra fjallaleiðsögumanna
gekk með hópinn sinn, sem heitir Herðubreið, á Hvalfell þennan dag og hittust hóparnir á niðurleið síðar um daginn
og var sérlega gaman að hitta á Ingu Dagmar eðalkonu...

Enn var sumar niðri... en veturinn beið uppi... blíður og mildur...

Sorglega fáir mættir...

Ólafur Vignir, Bjarni, Georg, Bjarnþóra, Guðmundur Jón, Birgir, Agnar og Styrmir gestur, vinur Agnars
en Örn tók mynd og Batman og Gutti skottuðust með.

Bjarnþóra var í sinni annarri tindferð með hópnum en hún skráði sig í klúbbinn í janúar
og er að gera einmitt það rétta... bara mæta og ganga...
þannig kemst maður strax inn í hópinn og öðlast reynslu og sjálfsöryggi fyrir allar göngur...
en hún er með góða reynslu úr fjallgöngum sem skýrir að hluta til óhikandi mætinguna :-)

Móða því miður á myndavél þjálfara til að byrja með...
en hér var formfagur Brynjudalur að koma í ljós smátt og smátt...

Dásamlegur félagsskapur...
kosturinn við svona lítinn hóp er að þá verður hann mjög þéttur í ferðinni og nándin einstök...

Múlafjall... það er eitt af tólf tindum Hvalfjarðar og er ekki á dagskránni í ár... menn þurfa að fara það á eigin vegum
nema við blásum til aukaferðar í haust... en þá er oft léleg mæting samt... sjáum til samt... kannski bara í vor ? ! :-)

Snjóalögin að hörfa undan vorinu... er það ekki bara ?... snjórenna hér undurfögur...

Náttúran er langtum flottari en öll mannanna verk...

Smám saman tók að létta til um allt og sólin að skína...

Botnssúlurnar voru að verða ansi girnilegar að sjá...

Hvalfellið farið að baða sig í sólinni í norðri...

Kominn tími á brodda en fyrirmæli voru um að allir væru með ísbrodda og ísexi...
það vantaði hjá nokkrum og reyndi vel á það í bakaleiðinni... en þarna var þetta saklaust og létt...

Magnað útsýni er af vesturhlíðum Vestursúlu yfir Brynjudal og alla leið til Akrafjalls...

Sólin mætt... og þá verður allt svo gott... hlýtt... milt... yfirstsíganlegt... stórfenglegt...

Gutti að líta eftir síðasta manni... hann leyfir Batman algerlega að ráða... en þeir eru samt góðir vinir...
valdastigi hundanna er mjög skýr...

Hvalfjörðurinn að verða geislandi fagur að sjá...

Vestursúla geislandi í sólinni...

Brosið á andlitum manna hvarf varla þennan dag...

... og minnti á fyrstu göngu Toppfara á Vestursúlu og Norðursúlu- sjá hér ofar...
sem var farin í nóvember 2010... í sömu friðsældinni... en ekki alveg sömu sólinni...

Það var ekki hægt annað en njóta fegurðarinnar sem alls staðar blasti við í öllum áttum...

Tiltölulega nýfallinn snjór á lægri fjöllum og eldri snjór í sköflum undir...

Fögnuður... með að vera einmitt þarna... á þessum stað... á þessum tíma...

Okið... Fanntófellið... Kvígindisfellið... Hvalvatnið... Hvalfellið...

Hjartalögun Hvalvatns að koma í ljós... þarna gengum við árið 2014 í dásamlegri ferð...
sjá hér neðar:

Hópmyndin var þá tekin austan megin við vatnið með Hvalfellið í baksýn á Skinnhúfuhöfðanum...
... þarna skein sólin síðari hluta göngunnar eftir skýjað veður fyrri hluta dagsins...
en algert logn var þennan dag og mikill friður...

En aftur að Vestursúlu...
stutt var í brúnirnar ofar og dýrðin var að koma í ljós smátt og smátt...

Norðursúla norðan megin...

Byrjað var á að fara upp Vestursúlu en við höfum bæði byrjað á Norðursúlu og Vestursúlu í fyrri ferðum
og tekið aukakrók að fossinum sem rennur undir Norðursúlu og er ægifagur að sumri og hausti...
en hulinn snjó og ís þegar líður á veturinn... og þá ekki eins spennandi viðkomustaður...

Norðursúla komin í sólbað... loksins... og orðin miklu hlýlegri að sjá...

Útsýnið til austurs farið að sjást betur...

Vestursúla og brúnir hennar eru einstaklega fallegar...

Síðustu metrarnir upp á brúnir Vestursúlu með Norðursúlu í baksýnog Hvalfellið enn fjær...
og Okið efst hægra megin ásamt Fanntófelli sem við gengum loksins á í september í vetur
í frábæru veðri sem rættist vel úr...

Frábært færi... ekki þungir skaflar og ekki hífandi hálka...

Örn tók langt myndband af göngunni upp á brúnir Vestursúlu
og það er magnað að horfa á það... sjá hér:
 

Töfraheimur sem vert er að njóta að ganga rólega og horfa...

Hundarnir leiddu gönguna enda var Batman ekki að koma hér í fyrsta sinn
og þóttist eflaust vita allt :-)

Litið til baka... hér röktum við okkur síðast í móðu og engu skyggni árið 2016;

... og sáum ekkert...

Nú var hins vegar einmuna blíða... og þetta var besti staðurinn til að vera á...

Háasúla... lægst en næst bröttust af Botnssúlunum og varasöm á uppleið...
hægra megin er hryggur Vestursúlu niður í skarðið milli Háusúlu og Miðsúlu...

Miðsúla rétt vinstra megin við miðja mynd... og Syðsta Súla hægra megin...
en á þá síðarnefndu höfum við oft farið og oftar en einu sinni að kveldi til...

+A Miðsúlu hins vegar eingöngu tvisvar og í bæði skiptin í krefjandi klöngri enda bröttust og varasömust
og ekki endilega fær öllum...

Fyrri ferðin hér en þá var farið á Miðsúlu og Háusúlu...
og kvenþjálfarinn var ein af þeim sem þorði ekki þennan síðasta kafla upp og beið neðar...
þetta var ekki fyrir alla...

Og hér þá allra flottustu Botnssúluferð frá upphafi... og ein af topp tuttugu Toppfaraferðum frá upphafi
á allar Botnssúlurnar fimm í júní árið 2012 þar sem komið var í bæinn eftir klukkan 22:00...

Syðsta súla getur svo sagt margar sögur af Toppförum...

... nú síðast í desember 2017... í varasömu færi og erfiðu veðri... en mergjaðri göngu...
en þá var kvenþjálfarinn eina konan í göngunni...
sem segir allt um hvernig konurnar hafa verið að gefa eftir síðustu ár... ólíkt fyrri árum Toppfara...
erum við að eldast svona illa eða hvað er að gerast... þurfum við að fá yngri konur inn ?
... eða erum við farin að hika allt of mikið... einu sinni fórum við alltaf allt sama hvað...
og létum okkur hafa það... eins og


Æj, hvað manni þykir vænt um þetta fólk á þessari mynd...
Ingi sá eini sem er ennþá... en nokkrir samt ekki langt undan og alltaf á leiðinni aftur...

... eins og hér... á þriðjudagsæfing á Syðstsu súlu 12. ágúst 2008...

... þegar við uppskárum kyrrlátt kvöld í yfir 1.000 m hæð sem er einstakt að upplifa
á saklausu þriðjudagsveldi að sumri til...

Þetta var hins vegar næst besta veðrið sem við höfum fengið á Vestursúlu frá upphafi...
og það allra besta að vetri til...

Kyngimagnað að vera í yfir þúsund metra hæð í blíðskaparveðri... alls ekki sjálfgefið í byrjun marsmánaðar...

Það er ekki mikið pláss á sjálfum tindi Vestursúlu
og því röðuðu menn sér kringum tindinn í nestistímanum og gátu valið um útsýni...

Það var stórfenglegt í allar áttir...

Einstök mynd... verður hér með ein af uppáhalds þjálfara...

Tær fegurð Botnssúlnanna var áþreifanleg þennan dag...

Svo tandurhreinar... og formfagrar... og saklausar að sjá...

Agnar, Georg, Batman, Ólafur Vignir, Bjarni, Guðmundur Jón, Bjarnþóra og Birgir
en Styrmir náði ekki að fara alla leið og þarf að koma sér í betra form og Örn tók mynd
og Bára var erlendis.

Frábær hópmynd og Bjarnþóra hefði auðvitað átt að standa með hinum...
en það blekkir hversu lítið pláss er þarna... og bratt niður í allar áttir...
í harðfenni er það ekkert grín þegar fallið er niður í dalsbotn...

Vestursúla var kvödd og farið yfir á Norðursúlu sem er saklausust
og sú eina af Botnssúlunum sem hefur verið dregin í efa hvort eigi að teljast með
en hún er mjög svipmikil frá ákveðnum sjónarhornum og á auðvitað að hafa sinn sess eins og hinar...

Útsýnið ofan af henni til norðausturs...

Þarna var annar kyngimagnaður útsýnisstaður sem gaf aðra sýn á landslagið í kring...

Menn voru í skýjunum... bókstaflega...

Hvalfellið þarna niðri... gaman að sjá svona ofan á það...
en það er samt yfir 800 m hátt og því ekki svo mikið lægra...

Frábærir ferðafélagar... vonandi náum við að ganga saman á fjöll áratugum saman ennþá...

Litið til baka á Vestursúlu...

Það var notið alla leið og enginn að flýta sér...
því var þessi ganga ekki hröð þrátt fyrir sterkan, röskan gönguhóp og fámennan
en það getur munað heilmiklu þegar svona fáir eru á ferð...

Hjartalögun Hvalvatns sést vel hér... þetta kenndi Ásta Henriks okkur að sjá og upplifa !

Þarna yfir gengum við frá Háusúlu og enduðum á Norðursúlu og Vestursúlu árið 2012:

... og lentum í smá klöngurvandræðum niður af Vestursúlu
í viðleitni til að stytta sem mest legginn niður á Leggjabtrjót til að komast til baka...
en það náðist ekki nægilega góð mynd af því samt...

Friður... vinátta... fegurð... tærleiki... víðátta... Ísland er best í heimi...

Stuð... tignarleikur... ógnarstærð... alpakennd... samvera... ferskleiki...

Haf þökk Botnssúlur... fyrir að gefa okkur enn eina kyngimagnaða gönguna um slóðir ykkar...

Einstakur staður og einstakur dagur...

Sem betur fer skelltu menn sér í göngu þennan dag... þeir eru ekki sjálfgefnir svona dagar...

Skýin tóku að hrannast upp á tindana stuttu eftir að menn yfirgáfu súlurnar...

Örn valdi bratta leið niður af Norðursúlu... þá sömu og við höfum farið áður...
og þá sömu og þjálfarar fóru fyrst í könnunarleiðangri
og við féllum fyrir... en þar þurfti að höggva spor fyrir þá sem ekki voru með ísbroddana meðferðis...
lexían sú mun án efa tryggja að menn gleyma þeim aldrei aftur...
eitt af því óþægilegast og hættulegasta sem hægt er að gleyma eru ísbroddarnir...
enda förum við stundum ekki af stað nema allir séu með þá meðferðis...
og nýleg dæmi um að menn hafi þurft að snúa við eins og á Klukkutindum í október síðast liðnum...

Þarna gekk Inga Dagman og hópurinn hennar Herðubreið í þessari sömu veðurblíðu
og hóparnir hittust á niðurleið síðasta kaflann í bílana...

Eftir sporagerðina var þetta rösklega farið í hliðarhalla að hryggjarleið uppgöngunnar
en það er líka hægt að fara niður í Hvalskarð og rekja sig niður með ánni
sem er mjög skemmtileg leið og við höfum farið oftar en ekki...

Allir fullhlaðnir náttúrulegri orku...

... og þakklátir með glæsilegan dag...

Snjóföl neðar og svo auð jörð...

Ekki lengur skyggni á tindunum... þetta var ansi vel stillt af þennan dag...

Hér orðin ansi kuldalegt til fjalla... á stuttum tíma... allt orðið grárra...
vá, hvað þessi dagur var vel nýttur...

Lækjarsprænur að fara yfir neðst...
og Gutti skellti sér bara út í þá með fremstu mönnum...
en hikaði hér til að meta hvaða leið skal fara ofan af þessu grjóti...
og fór ekki lengra... fékk far með næsta göngumanni :-)

Alls 17,6 km á 8:02 klst. upp í 1.090 m á Vestursúlu og 1.013 á Norðursúlu með alls 1.329 m hækkun úr 65 m.

Fullkominn dagur á fjöllum og ljóst þegar maður heyrði í Erni og félögum
að þau voru nokkra daga að hrista af sér vímuna sem þessi ganga gaf... svona á að gera þetta...
skella sér og nýta fallega daga... ekki hika og æfa afsakanir... þó þær eigi auðvitað oft við...
en við vitum af eigin reynslu að það er mjög auðvelt að tína þær til ef hikið er nægilega stórt...

Skínandi góð æfing fyrir Rótarfjallshnúk enda voru þeir margir í þessari göngu...
og mikilvægt NB að þeir sem fara í þá göngu taki nokkrar svona krefjandi dagsgöngur
til að geta haldið út eins og leiðsögumenn biðja sérstaklega um að þessu sinni...
svo höldum vel á spöðunum fram í maí...
væri gaman að ná Hvalfellinu og Múlafjallinu ef áhugi og veður leyfir !
 

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir