Tindur 46 - Vestursúla og Norðursúla 6. nóvember 2010


Í tæru vetrarríki á
Vestursúlu og Norðursúlu


Norðursúla og Vestursúla í töfrum fyrstu morgunskímunnar... á fyrstu skrefum dagsins kl. 9:19...
Þessi sýn nægði til að fullkomna daginn fyrir manni... en þarna var ævintýrið rétt að byrja...

Alls lögðu 32 Toppfarar í leiðangur á Botnssúlur laugardaginn 6. nóvember
og uppskáru klingjandi kristaltæran dag á fjöllum með stórkostlegu útsýni og skyggni sem fátt toppar
úr glæstum fjallgarði Súlnanna sem ríkja eins og kóngur í ríki fjalla í botni
Hvalfjarðar...

Lagt var af stað kl. 9:09 í algeru logni og -5° hita á bílastæðinu.

Færið var hált frá byrjun en vel fært og ísilagðir fossar Hvalskarðsár skreyttu fyrstu kílómetrana
þar sem gengið var um vestari hluta Leggjarbrjótsleiðarinnar upp á
Hrísháls Sandhryggnum við Súlurnar.


Björn, Leifur og Gerður á leið upp á sandhrygginn á Leggjabrjót.

Glymur ísilagður og snjóhvítt Hvalfellið blöstu við okkur á vinstri hönd
og það var gefandi að fara um slóðir sem við höfum hingað til eingöngu farið um að sumri til eða hausti.

En nú ríkti veturinn og við fengum eina af þessum köldu nestispásum sem einkenna vetrartindferðirinar
við fjallsrætur þar sem heitt kakóið yljaði vel...


Hvalfjörður með Þrándarstaðafjall,Reynivallaháls og Brynjudal vinstra megin og Múlafjall fyrir miðju, Botnsdal hægra megin og Þyril lengst til hægri.
Akrafjall í fjarska vinstra megin, Blákollur í Hafnarfjalli og Skarðsheiðin öll hægra megin með Brekkukamb nær við Þyril.

Það var ekki hægt að kvarta... hár bærðist ekki á höfði og skyggnið var stórfenglegt út á haf, upp yfir fjöll og inn á jökla...

Lilja K., Óskar Bjarki, Björn, Rikki og Elsa Þóris á fyrstu skrefunum upp fjallsrætur Vestursúlu
með
Hvalfellið á vinstri hönd og Baulu lengra í fjarska í sólinni vinstra megin við Hvalfellið.

Gleðin var við völd og brosið var komið til að vera það sem eftir lifði dýrð dagsins...

Lilja Sesselja, Ásta Henriks., Gylfi Þór, Heiðrún og Ingi með Hvalfjörðinn í baksýn.


Gengið upp á Vestursúlu í rúmlega 900 m hæð á þessum kafla..

Veðrið var lygilega gott miðað við veðurspánna dagana á undan og færið brakandi gott...
Lygnt og hlýnandi eftir frost síðustu daga en frostið ríkti samt á efstu tindum
og náði
-10° í vindkælingu golunnar efst skv. mælinum hans Inga.



Þegar komið var upp á hrygg Vestursúlu fangaði dýrðin okkur...

Ingi, Björn, Gerður og Ketill hér að fara um Vestursúluhrygg með Þingvallavatn, Hengilinn og Búrfell í fjarska.
Björn og Ketill eru elstu meðlimir Toppfara og báðir komnir á
áttræðisaldur en þeir hika ekki við nokkra fjallgöngu á dagskránni 
og hafa upplifað mörg af
stærstu ævintýrum klúbbsins eins og þennan dag...


Með norðurvegg Syðstu súlu í fanginu, Þingvallavatn, Vestmannaeyjar, Tindfjallajökul, Heklu...
svo fátt eitt sé nefnt sem ekki sést á myndinni.

Á suðvesturhrygg Vestursúlu tók eitt af þessum mögnuðu augnablikum fjallamennskunnar af manni öll völd...
Maður greip margsinnis andann á lofti og var
hrærður yfir áhrifamikilli fegurðinni sem engar myndir fá lýst...

Sjálfur heimurinn - að manni fannst - blasti við okkur allan hringinn
í
360° kristaltæru útsýni með gullna vetrarsólina í fjarska...


Botnssúlufarar dagsins með eitt víðfeðmasta útsýni sem gefst á saklausri dagsgöngu á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur....

Efri frá vinstri: Steinunn, Gunnar, Hermann, Snædís, Leifur, Örn, Lilja Sesselja, Jóhannes, Elsa, Ingi, Heiðrún, Hjölli, Áslaug, ketill, Rósa, Óskar Bjarki, Frank og Björgvin.
Neðri frá vinstri: Rikki, Steini J., Hann, Gylfi Þór, Gerður, Björn, Lilja K., Jóhanna Karlotta, Irma, Hildur Vals., Helga Bj., Ásta H., og Ágústa með Tínu en á mynd vantar Dimmu, Díu og Drífu.
Bára tók mynd.

Drukkin af fegurðinni sem þarna ríkti gengum við áleiðis á hæsta tind Vestursúlu í austur.

Syðsta súla frá skarðinu ofan af Vestursúlu... norðvesturveggur hennar sem er ókleifur án hjálpartækja en hæsti tindur sést vel vinstra megin og er farið upp á hann austan megin með hryggnum eða upp skálina af súlnadal (í hvarfi).

Þarna er stefnan að standa fyrsta þriðjudag í júí 2011 í miðnæturgöngu...

Búrfell á Þingvöllum...
...þar sem við börðumst við hvassan vindinn í október 2009 í fyrra og gengum Leggjarbrjót frá Þingvöllum niður í Hvalfjörð...
Með
Þingvallavatn vinstra megin og Hengilinn allan á bak við sig og Jósepsdalsfjöllin hægra megin.


Lilja K., Frank, Ágústa og Ketill.

Síðustu metrarnir upp á Vestursúlu voru vel færir og ennþá vorum við án hálkubrodda...

Litið til baka frá brekkunni neðan við tindinn...
Björn, Rikki og Ásta H. með
Leggjabrjót, Esjuna, Akrafjall og syðri fjöll Hvalfjarðar í baksýn.

Á tindi Vestursúlu blasti ólýsanlegt útsýni við okkur óskert allan hringinn...

Óskar Bjarki með Skjaldbreið, Hlöðufell, Kálfstind, Skriðu og Skriðutinda
og tindahryggi
Skefilsfjalla, Klukkutinda, Tindaskaga og jafnvel Kálfstinda hægra megin.
Og næst rísa
Háasúla vinstra megin og Miðsúla hægra megin.

Austurhryggur Vestursúlu, Miðsúla og skarðið milli Mið- og Syðstu súlu þar sem glittir í Hrafnabjörg t.d.
Ef vel er að gáð má sjá
Botnsskála Alpaklúbbsins - ÍSALP fyrir neðan Miðsúlu
(dökkur blettur neðan við hlíðarnar hægar megin við miðja mynd).

Hvalvatn með neðsta hluta austurhlíða Hvalfells niður að vatni vinstra megin.
Þverfell (á vinnulista) fyrir miðju, Ok (jan2011), fjær, Fanntófell (á vinnulista) reisugt hægra megin við miðju
og glittir í
Þórisjökul (nóv2008) fjær og Kvígindisfell (á vinnulista) nær.
Einn daginn skulum við ganga kringum þetta vatn á
vetrargöngu upp með Glym...



Á Vestursúlu í
1.104 m mældri hæð (1.089 m opinber hæð) tók kór hópsins lagið, já, já, "kórfarar" og söng "Á Sprengisandi" með karlaraddir í fyrsta versi, kvennaraddir í öðru versi og allir saman í síðasta versi við stormandi lukku viðstaddra, þ.e.a.s. okkar sjálfra þar sem enginn átti þarna leið um á sama tíma ;-) ...og allur kuldi sem þarna nísti í -10°C frosti svitnaði og dropaði af mönnum við þessa nýju áskorun ;-)

Kórsöngur eftir 7,8 km göngu á 3:34 klst. í rúmlega 1000 metra hæð og -10° vindkældu frosti... geri aðrir betur...

Sjá upptöku á youtube síðar !

Af tindi Vestursúlu gengum við yfir á Norðursúlu með Hvalfell og Hvalvatn í bakgrunni...
að ekki sé talað um heiðina yfir í
Skorradal og t. d. Baulu, Tröllakirkju á Holtavörðuheiði og lengra norður...

Háasúla (okt2011) með Stóra Björnsfell vinstra megin utan í Þórisjökli, Jarlhettur í sólinni fjærst (sept2011) og Kerlingarfjöll enn aftar (á vinnulista), Skjaldbreið (sept2009) aftan við Háusúlu og glittir í Hlöðufell (júlí2009) aftan við hana, Kálfstindur við Högnhöfða (júlí2010) þar næst (á vinnulista) og Skriða og Skriðutindar (á vinnulista) hægra megin.

Magnaðast var að sjá Jarlhetturnar og Kerlingarfjöll...

Norðursúla mældist 1.010 m en er sögð 2.003 m há eða 86 m lægri en Vestursúla.
Hún gaf enn annað útsýni óskert yfir vesturhluta landsins með
Hvalfellið svo saklaust fyrir neðan okkur handan Hvalskarðs.


Skálafell, Móskarðahnúkar, Esjan öll, Akrafjall og fjöllin öll sunnan Hvalfjarðar í röð að Brynjudal.

Niður af Norðursúlu fórum við ekki hefðbundna leið til baka um súlurnar
heldur héldum bratta leið niður meðfram nafnlausu
gljúfrinu sem klýfur hlíðarnar milli súlnanna norðvestan megin. 

Á þessum kafla fengu menn loksins að reyna aðeins á fætur og útsjónarsemi 
eftir einfalda aflíðandi göngu upp á báða tindana...

Enda kom að því í mesta brattanum að hálkubroddarnir kæmu að góðum notum...

Hópurinn hér að járnabinda sig með fallegt Hvalfellið í baksýn.


Gunnar, Hildur Vals., og Björn í góðum málum með Hvalfjörðinn í baksýn.

Þetta var afskaplega hollur bratti upp á rúmlega 50° þegar verst lét...

Við klöppuðum Antoni lof í lófa fyrir framtakssemina við að kaupa hálkubrodda á allt liðið... þeir virkuðu betur en hálkugormarnir, það var auðveldara að setja þá á sig, þeir skoppuðu ekki niður hlíðina ef maður missti þá og þeir færðust ekki eða losnuðu auðveldlega af skónum.

Þess skal hér getið að Reynir sendi okkur línu um daginn og lét vita að festingarnar á broddunum hefðu losnað af hjá honum
um daginn á fjöllum, svo hann rann niður 20 metra þar sem hann var á ferð (veit ekki hvaða fjalli) en þetta er umhugsunarvert svo endilega látið mig vita ef slíkt er að gerast hjá fleirum því þá þurfum við að tryggja betur festingarnar!

Loks var komið að perlu þessarar niðurleiðar... gullfallegum fossi sem ekki á sér nafn...

Þegar síðustu menn gengu fram á brúnir fossins og þá blasti þessi sýn við...
...hópurinn að fá sér síðla
hádegismat (aðalréttinn) í grýttum, frosnum botni hylsins...
Sýn þeirra á okkur standandi á brúninni við fossinn var víst ansi áhrifamikil...

Ísalagðir klettar allt um kring undirstrikuðu fegurð staðarins.


Sjá stærðarhlutföllin í samhengi við Hönnu, Áslaugu og Lilja Kristófers.

Þjálfarar fundu ekki nafn á þessum stórfenglega fossi við eftirgrennslan eftir könnunarleiðangur um svæðið í október...
Nafn og/eða hvaðeina blogg annarra af þessum slóðum óskast hér með!



Neðsti hluti fossins endaði í
frostdropum fyrir ofan klakann sem hefur smám saman frosið upp á móti...

Nákvæmlega þetta gerir vetrarferðirnar að stærstu upplifunum í fjallamennskunni sem gefast að okkar mati...


Dóra, Helga Bj., Rósa, Steini, Gerður,Steinunn, Elsa Þóris, Örn, Rikki, Ásta H, Ketill, heiðrún, Björgvin, Leifur, Gunnar... og Día að sníkja...

Þetta var einn af þessum nestisstöðum sem maður gleymir aldrei...


Lilja K., Heiðrún, Ágústa, Hildur Vals., Snædís, Rósa, Örn, Irma, Steinunn, Steini, Ketill og Gerður.

Og eftir frosið hádegishléi' var auðvitað hlegið heil ósköp til að koma hita í kroppinn aftur...


Ha...? snúa við...?... ooohhhhhh.......óóóóóóóó.........kkkkkkkkk......eyeyeyeyeyey.......ókey...

En... þegar við vorum lögð af stað frá fossinum niður kallaði kvenþjálfarinn skyndilega alla upp aftur til að taka mynd... við alls kyns lukku viðstaddra... sumir vildu meina að þarna fyrst hefði hún litið upp og séð fossinn... sjálf sagðist hún ekki hafa munað eftir að taka hópmynd þar sem kórsöngurinn átti upphaflega að fara þarna fram en þar sem hann var þá þegar afgreiddur upp á tindi þá hafði heilinn hakað við fossinn sem afgreitt mál þar til "innra eftirlitið" (gæðastjórnun!) kveikti á perunni með að hópmyndin var ekki afgreidd... eða þ.e.a.s.... þetta verður aldrei útskýrt almennilega.... ;-)

En það var þess virði að snúa við...
Þetta var einn af þessum
gullnum stöðum fjallamannsins sem maður veit aldrei hvenær hópurinn heimsækir aftur...



Fossinn sem fraus áður en hann lenti... 
Súlufoss?
Engar myndir ná að sýna fegurðina sem þarna ríkti...
Kristaltær var hún upp á heilar tíu...
Maður bara biður ekki um meira...

En nú getum við horft á dökka blettinn í norðurhlíðum Norðursúlu (sem líka sést á "sumarmyndum" )
og við vitum nákvæmlega hvað er þarna...

Þetta er náttúrulega fyrirtaks tónleikastaður fyrir góðan kór í framtíðinni...

Niður frá Súlufossi klöngruðumst við um grjót og hjalla, mosa og möl niður á graslendið í Hvalskarði
að fyrstu sprænum
Hvalskarðsár sem á upptök sín í skarðinu en ekki í Hvalvatninu sjálfu.


Björgvin, Jóhannes, Rósa, Gunnar, Björn, Hermann, Helga Bj., Ágústa, Örn, Lilja K., Leifur, Hildur Vals. og Elsa Þóris með Norðursúlu í baksýn...
Loksins náði maður mynd af fremstu mönnum !

Auðvitað var gengið á brosinu og gleðinni sem einkennir þennan hóp öllum stundum...

...meðfram Hvalskarðsá sem rann í allri sinni frosnu dýrð niður í Botnsdal þar sem hún sameinast Botnsá neðst...

Og við nutum hverrar mínútu í stórbrotnu landslagi og skyggni... en til marks um afslöppun dagsins þá vorum við aldrei þessu vant lengur á niðurleið en uppleið eða 3:34 klst. upp og 3:44 klst. niður fremstu menn!... (miðað við Vestursúlu reyndar).

Hvalfell með frosnar sprænurnar frá sér niður í árfarveg Hvalskarðsár í forgrunni.

Pilsaþytjur Toppfara...
(sbr. pilsaþytur)

Áslaug, Steinunn, Lilja K., og Ágústa með tinda dagsins í baksýn.


Hvalskarðsá á leið niður í Botnsá í auðmjúkri fylgd aðdáendanna í Toppförum...

Smám saman hlýnaði er neðar dró og við enduðum á sömu slóðum og um morguninn á Leggjabrjótsleiðinni niður í Botnsdal.

Glymur í klakaböndum

Ægifagur sjálfsagt í nálægð...
Þarna verðum við að ganga upp eftir að vetri til einn daginn...
og taka hringleið um
Hvalvatn í leiðinni...

Síðustu kílómetrana fóru menn á sínum hraða gegnum skóginn og að bílunum í kyrrsælu vetrarins...

Helga Björns bauð upp á mýkjandi staup fyrir lúna göngumenn
og við skáluðum fyrir enn einum
dýrðardeginum að baki okkar áður en haldið var heim svífandi um á hamingjuskýi...


Litið til baka á afrek dagsins... enn gott skyggni og lygnt og hlýtt...
Norðursúla og Vestursúla úr Hvalfjarðarbotni 16. september 2007.
Sjá hluta af fossaröð Hvalskarðsár vinstra megin í mynd... sú á er heill töfraheimur út af fyrir sig...

Takið eftir dökka blettinum beint undir tindi Norðursúlu... fossinn sem fraus áður en hann lenti... Súlufoss t. d....


Kort af svæðinu sem er á skilti í Botnsdal.

Á sumum kortum er Vestursúla merkt Miðsúla (m.a. í MapSource) en í nýrri bókum/skrifum/kortum af Botnssúlum er Vestursúla vestust og Miðsúla tindurinn milli Háasúlu og Syðstu Súlu, vestan við Súlnaberg.
Þá fær
Súlnaberg mann stundum (frá vissum sjónarhornum) til að vilja kalla þann hrygg Austursúlu sem sjöttu súluna þar sem þetta berg rís eins og hver önnur súla í þessum fjallasal (t. d. frá Ármannsfelli og úr Svartagili).

Alls voru 17,2 km að baki þegar stórbrotinni göngu dagsins lauk á 7:18 - 7:27 klst. upp í 1.104 m og 1.010 m
með
1.363 m hækkun alls miðað við 65 m upphafshæð.

Við vorum heilum kílómetra lengur á göngu en áætlað var en héldum tímaáætlun nokkuð vel upp á á rúma sjö tíma á afslappaðri göngu
og vorum komin í bæinn rúmlega hálfsex...
Gylfi Og Lilja Sesselja náðu vel í tíma á tónleikana með Páli Óskari og Sinfó sem hófust kl. 17:00 (náðu að fara á fésbókina m.a.s. og setja inn mynd!) því þau róku rásina eftir Vestursúlu og náðu þar með rjómanum af deginum og kvöldinu... meðan við hin virtumst draga það fram í lengstu lög að göngudýrðinni lyki ;-)



Sjá hér tímalengdina - 3:34 klst upp á Vestursúlu og 3:44 klst. til baka.

Stórkostlegur vetrardagur á fjöllum

Svona dag geymir maður hamingjusamur í hjartanu eins lengi og maður lifir...
eins og svo margar aðrir tindferðir í þessum klúbbi...
með kærustu félögum á fjöllum sem hægt er að hugsa sér ;-)

Takk öll
fyrir jákvæðnina,
eljuna,
samheldnina
og gleðina
sem gerir upplifunina á svona degi að kristaltærri og ógleymanlegri minningu...

Allar myndir þjálfara úr ferðinni á myndasíðu Toppfara:http://picasaweb.google.com/Toppfarar

Og fullt af fráæbærum myndum félaganna á fésbókinni: www.facebook.com.
 


Fyrri göngur Toppfara á Botnssúlur:
 


Á Syðstu súlu 6. október 2007 í miklu hvassviðri alla leið upp en logni á tindinum og sólarblíðu á niðurleið... ein af þessum krefjandi tindferðum sem kenndu mönnum á veðrið og hvernig manni er margverðlaunuð eljan með því að mæta og halda út sama hvað...

 

 


Guffi, Örn, Karl A., Ingi og Roar á æfingu á Syðstu súlu 12. ágúst 2008 þegar við gengum 14,1 km á 4:40 klst. í einni af þessum afreksgöngum á þriðjudagskveldi sem meðlimir klúbbsins víla ekki fyrir sér!
Stefnum á hana aftur á miðnæturgöngu í byrjun júlí 2011...

 

 


Tindferð á Háusúlu 24. janúar 2009 þar sem við lögðum af stað í veðurblíðu en þurftum að lúta í lægra haldi fyrir veðrinu þegar ofar dró og snerum við áður en við náðum tindinum... í hálku, bratta og hvassvirði... Þessi ganga á enn hvassasta vindinn sem Toppfarar hafa lent í þar sem við margsinnis hrundum allur hópurinn eins og spilaborg niður á jörðina og þurfum að sæta færis til að komast yfir skarðið milli Syðstu súlu og Miðsúlu með því að bíða og halda okkur á jörðinni fyrir vindinum í nokkrar mínútur (þeirri stund gleymir maður aldrei)... (snilldarmynd frá Rögnu).
Stefnum á Háusúlu í október2011...

 

Eftir svona ferðir skilja menn afhverju þjálfari er endalaust að prédika um ullarvettlinga, belgvettlinga, lambhúshettu, skíðagleraugu, hálkubrodda... ;-)

 

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir