Tindferð 151
Syðsta súla Botnssúlum
laugardaginn 2. desember 2017

Helfrosin Syðsta súla
á dimmasta tíma ársins
í fallegu skyggni og útsýni en hvössum vindhviðum

Hæsti tindurinn í Botnssúlum var sigraður í svelluðu færi og erfiðum vindi
þar sem hvassar, ófyrirsjáanlegar vindhviður léku aðalhlutverkið...
en skyggni og útsýni kyngimagnað í þessum hrikalega töfrandi fjallasal...

Syðsta súla 1.093 m með 16,9 km göngu á 6:32 klst og 1.319 m hækkun...

Hörkuganga með frábærum félögum sem sumir hverjir voru að fara í fyrsta sinn á jöklabrodda
en aðrir að rifja upp margar ógleymanlegar Toppfara-göngur í þessum fjöllum...
gerist ekki mikið flottara um hávetur !

Agnar, Arngrímur, Maggi, Gunnar Viðar, Ingi, Örn, Davíð og Jón
en Bára tók mynd og Batman gætti hjarðarinnar :-)

------------------------------

Tindferðirnar í desember hafa ekki verið margar frá upphafi árið 2007...
en af aflýstum tindferðum er desember algengasti mánuðurinn þar sem það gerist
yfirleitt vegna veðurspár, tímaleysis og dræmrar mætingar
og því voru þjálfarar harðákveðnir í að ná þessari ferð á 10 ára afmælisárinu
og höfðu vit á að velja ekki mjög erfiða né langa göngu
með tiltölulega stuttum akstri...

En eins og við er að búast á þessum árstíma þá spillast akstursskilyrði að fjallsrótum mjög fljótt þegar vetur skellur á
og því var ekki bílfært alveg að uppgöngustað á Botnssúlurnar og við lögðum bílunum rúmlega kílómetra frá vanalegum uppgöngustað
en komumst þó aðeins lengra með ferjun á hópnum í ofurbílnum hans Magga...

Spáin sagði fyrir um mikinn vind að vestan eða norðvestan... tiltölulega hlýtt veður samt, léttskýjuðu eða heiðskíru...
og því var eini áhættuþátturinn hvað veður varðar vindurinn... ekki kuldi, úrkoma né lélegt skyggni...

Það blés hressilega frá byrjun göngunnar en við vorum við því búin og allir tilbúnir í þann slag þar sem skýjafarið var með okkur
og sólin átti að vera samferða upp á tind...

Botnssúlurnar voru hins vegar í skýjunum efst þennan morgun... eins og oft er þegar hvasst blæs... þá eru efstu tindar fjallanna gjarnan ekki sjáanlegir og úfningurinn slíkur að mann langar ekkert upp í þetta veður þarna uppi...

En við vorum vongóð og vissum að það átti að létta heldur til með hádeginu og héldum kokhraust áfram
upp lendurnar og hlíðarnar að þessum kyngimagnaða fjallgarði sem leynir alltaf á sér
og geymir ævintýri í hvert sinn sem maður heimsækir hann...

Löng er hún aðkoman að Botnssúlum og fjallgangan sem slík ekki mikil þegar loksins er komið inn í dalinn sjálfan
... hækkunin sem í öllum þessum fyrstu kílómetrum því mun meiri en maður gerir sér grein fyrir í raun...

Við keyrðum austur á Þingvelli í myrkri... lögðum af stað í ljósaskiptunum... og fljótlega varð dagbjart...
og loks kíkti sólin upp af sjóndeildarhringnum þegar vel var liðið á uppgönguna...
en lítið sást samt til hennar sökum skýjafarsins... en það sem sást var töfrandi...

Ljósmyndarar hópsins reyndu að fanga dýrðina og við áðum í fyrra nestisstoppi göngunnar í einu giljanna við fjallsrætur...

Hart snjófæri og fínasti hraði á hópnum... við vorum eingöngu níu manns... og engin kona utan þjálfara því miður...

Krókódílagil kölluðum við nestisgilið okkar... hann beið og virtist sæta færis að grípa bráð sína þarna niðri...

Áhættugreining á hópnum sjálfum sem þjálfarar gera alltaf fyrir hverja tindferð sýndi að reynslustuðillinn var ansi víður... með í för voru þaulvanir göngumenn klúbbsins sem og nýlegir félagar... sumir hverjir aldrei gengið á ísbroddum áður... og einn gestur sem er alltaf óræð stærð en við höfum viljað leyfa gestum að prófa að koma í göngur með okkur þó þeir séu ekki skráðir félagar og engin reynsla af því hvort þeir spjari sig í krefjandi ferð eins og þessari...
og enn einu sinni kom á daginn að það þarf ekki að hafa áhyggjur af svona gesti... Jón Oddsson, vinur Arngríms... ferðafélagi hans í Nepal um daginn upp í Grunnbúðir Everest... lék sér að þessari göngu og var oft meðal fremstu manna á leið upp og niður...
vonandi fáum við að njóta krafta hans aftur í göngu með okkur :-)

Þegar við vorum komin undir fjallsrætur Syðstu súlu var ráð að fara í keðjubroddana
þar sem erfitt var að fóta sig öruggur í hliðarhallanum þennan langa kafla niður að dalnum
en ekki voru allir með þessa brodda með sér... eingöngu ísbroddana sem var skiljanlegt... en lexía þessarar göngu var m.a. sú að það borgar sig hreinlega að vera alltaf með keðjubroddana þó um ísbroddagöngu sé að ræða því það koma oft langir kaflar í neðri hluta fjalla sem henta vel keðjubroddum en síður ísbroddum...

Davíð tók nokkrar æfingar í ísaxarbremsu á miðri leið... og sýndi meistaratakta... en þeir náðust því miður ekki á myndm :-)

Himininn ægifagur á leiðinni upp eftir um morguninn... og í bakaleiðinni eftir hádegið...
hún reis ekki mikið hærra á loft en þetta í þessu skelfilega skammdegi sem nú ríkir...

Loksins fór að glitta í Miðsúlu... háfjallayfirbragð hennar er tignarlegt og þjálfari gleymir aldrei þegar hún upplifði sýnina á þennan tind fyrst árið 2007... Jón og Arngrímur... nýkomnir frá Nepal... þar sem gengið er undir mörgum af hæstu fjöllum heims... sem eru yfir 8000 m háir... voru ekki alveg að tengja jafn mikið við alpakenndu nostalgíuna sem kvenþjálfarinn var í þegar þarna var komið... :-)

Loksins komin í dalinn og þá var stutt að sjálfri fjalluppgöngunni...

... en hér var harðfennið enn meira og brekkurnar byrjaðar...

... svo þeir sem ekki voru með keðjubroddana meðferðis fóru í ísbroddana
til að geta fótað sig af öryggi upp eftir...

Já, þetta var allt annað á broddunum...

Dalurinn... nafn hvurs er ekki skráð á kortum
en Súlnadalur er hinum megin við skarðið sem liggur milli Syðstu súlu og Miðsúlu...
og mætti þessi því vel heita  Súlnasalur eystri ef ekkert nafn er til...

Komin á staðinn þar sem hópmyndin var tekin í fyrstu Toppfaraferðinni á Syðstu súlu í október 2007...

Miðsúla... við höfum tvisvar gengið á hana... með Háusúlu og Súlnabergi 24. september 2011
og svo með öllum Botnssúlunum í sögulegu afreksferðinni 30. júní 2012...

Leiðin um öxlina á Syðstu súlu liggur upp þennan hrygg...
ekkert mál að sumri til en við tókum ekki áhættuna í þessu frosna færi og erfiðu vindhviðum sem ríktu þennan dag
þar sem þræða þarf sig stundum meðfram klettum með hátt fall niður í dalinn...

Frábær hópur þennan dag en því miður engin kona nema kvenþjálfarinn...

Agnar, Arngrímur, Maggi, Gunnar Viðar, Ingi, Örn, Davíð og Jón
en Bára tók mynd og Batman passaði hjörðina :-)

Nú var stutt eftir... tindurinn í sjónmáli og "bara" eftir að þræða sig upp brúnirnar hér...
þetta var klárlega skásta leiðin upp... skálin sjálf upp eins og við fórum 2007 var ekki spennandi þar sem allt var frosið
og svellað... hryggurinn ekki öruggur vegna vindhviðanna og brúnirnar hér því skástar og vonandi í skjóli að hluta...

Nokkrir voru ekki komnir á ísbrodda hér... ennþá eingöngu á keðjubroddunum en nákvæmlega þetta er aðalástæðan fyrir gagnrýni á þá gegnum tíðina... þeir fá menn til að fresta því að fara á almennilega brodda þar til þeir eru komnir of hátt og í of mikinn bratta... og það reyndist rétt í þessu tilfelli eins og stundum áður...

Langtum betra að vera kominn á ísbrodda
og þurfa ekkert að spá í að fóta sig í hallanum heldur bara stinga broddunum vel ofan í ísinn...

Sumir voru að fara í ísbrodda í fyrsta sinn í þessari göngu
og því var gott að æfa þá notkun og kynnast endaleysunni við að þræða þeim á sig og festa nægilega vel...
en Arngrímur og fleiri lentu í því að þurfa að stytta þá og herða eftir að vera búinn að ganga þá af sér...

Öxlin á Syðstu súlu... hvassar ófyrirsjáanlegar vindhviður um allt og við vorum mjög fegin að vera niðri í dalnum...

Fremstu menn komnir vel upp brúnina en einhverjir byrjaðir að klæða sig í broddana...

Útsýnið til Miðsúlu og Háusúlu.. gangan á þessar tvær er allt of sjaldan rifjuð upp...
stundum falla sumar tindferðir milli þilja einhvern veginn og lifa ekki nægilega vel í munnlegri geymd...
eins gott að skrifa alltaf ferðasögu af öllum ferðum... þetta skolast annars allt til og gleymist á endanum...

Litið til baka frá fremstu mönnum... sjá frosið færið...

Stundum voru skaflarnir fínir og við gátum sporað vel út fyrir næsta mann...

... en stundum var allt klakað og svellað og þá var mál að vanda sig og fara hægt og varlega yfir..

Agnar enn í keðjubroddunum en Ingi og Örn sem voru ofar farnir að sjá að þessir broddar dugðu ekki...
það er einhver mýta stundum ríkjandi að það að ákveða að fara í ísbroddana snemma sé veikleikamerki..
eða að það sé þess virði að sjá hvort menn komast upp með að sleppa þeim og spara einhvern tíma með því...
en að þýðir bara að það þarf svo að fara að klæða sig í þá í miklum halla og verri vindi...
við eigum að vera búin að læra að það borgar sig að fara í þá snemma því það er einfaldlega svo gott að vera í þeim...
miklu minna vesen og einfaldara að fóta sig :-)

Sólin barðist við að koma sér upp á yfirborð jarðar og upp úr þessu skýjaþykkni sem lá við sjóndeildarhringinn
og stundum tókst henni að slá gullnum strengjum um allt... en þess á milli var allt grátt og svalt...

Leiðin upp... svelluð og í halla... og í miklum vindhviðum sem voru verstar efst við brúnina...

Allir komnir í brodda hér og það var miklu betra :-)

Nú gekk þetta vel... það komu góðir kaflar þar sem skjól var af fjallsbrúnunum en svo skullu á vindhviðum án fyrirvara
og við þurftum að stöðva för, jafnvel leggjast og skríða...

Allir himinlifandi með þennan barning... þetta var sko gaman...

Ofar blasti Vestursúla við í öllu sínu veldi... langur hryggur frá meginlandinu við Háusúlu og Miðsúlu...
þarna upp þræddu Gunnar, Ingi og Jóhannes sig í Botnssúluferðinni stóru árið 2012...

Efst var snjórinn mýkri á kafla og skafið í skafla sem var gott en þeir voru ansi harðir...

Magnaðar brúnirnar ofarlega þar sem sýnin á Vestursúlu var sláandi flott...
hér var vindurinn mikill og myndatökur af skornum skammti...
og því engar myndir teknar fyrr en á tindinum í smá skjóli af honum...
versti kaflinn héðan og upp... það sópaðist einhvern veginn mikill vindur þarna á milli
og við urðum að leggjast á fjóra fætur og halda okkur með ísexinni til að fara á milli...

Komin upp og sigurinn var ansi sætur... í 1.101 m hæð í þessu veðri á þessum árstíma í þessu færi... var vel gert... sérstaklega af þeim sem ekki eru vanir þessum vetrarferðum... svona gerð greypist í minnið... taugakerfið sem vill ná góðum tökum á svona erfiðum aðstæðum og hafa meira vald á þeim aftur... bara geggjað að upplifa svona fjallgöngu á þessum árstíma !

Enda var gleðin við völd í öllum vindinum sem þarna var... svo miklum að það var ekki sjenst að standa fyrir hópmyn...
eina leiðin var að sitja í smá skjóli af tindinum og Örn gat smellt af mynd neðan við tindinn...
og þjálfarar tóku  því miður enga mynd til vesturs yfir hrygginn sem liggur af Syðstu súlu niður í Súlnadal
en sá hluti er mjög tignarlegur... þar var einfaldlega nægt verkefni að halda sér sitjandi og taka myndir þannig...

Jón, ,Arngrímur og Davíð efstir.
Agnar, Gunnar, Ingi, Maggi og Bára með Batman framan
og Örn tók mynd.

Ansi sætur sigur fyrir þessa félaga... Jón, Arngrím og Davíð sem voru að koma hingað í fyrsta sinn...
frábærir nýliðar sem við erum afskaplega ánægð með að hafa í klúbbnum :-)

Agnar hér með Magga og Erni en Agnar var líka að koma hér í fyrsta sinn...
... man ekki með Magga - var hann að sigra Botnssúlur í fyrsta sinn... getur alveg verið... ATH! :-)

Vinirnir Ingi og Gunnar hins vegar að koma hér enn einu sinni eins og þjálfarar... en alltaf jafn gaman...

Sjá tölfræði Toppfara af Botnssúlum:

Botnssúlur
Háasúla
931
(ekki alla leið)
762 17,5 24. janúar 2009 8:00 16 Tindferð 19
2. 1.060 1.994 179 19,5
með Miðsúlu og Súlnabergi
24. september 2010 9:08 14 Tindferð 65
3. 1.031 2.282 173 24,5
Allar Botnssúlurnar fimm!
30. júní 2012 14:22 23 Tindur 80
Botnssúlur
Norðursúla
1.010 1.362 65 17,2
með Vestursúlu
6. nóvember 2010 7:18 32 Tindferð 46
2. 1.018 2.282 173 24,5
Allar Botnssúlurnar fimm!
30. júní 2012 14:22 23 Tindur 80
3. 1.014 1.287 74 17,8
með Vestursúlu
5. mars 2016 7:39 15 Tindur 126
Botnssúlur
Miðsúla
1.053 1.994 179 19,5
með Háusúlu og Súlnabergi
24. september 2011 9:08 14 Tindferð 65
2. 1.067 2.282 173 24,5
Allar Botnssúlurnar fimm!
30. júní 2012 14:22 23 Tindur 80
Botnssúlur
Syðsta Súla
1.095 970   13,7 6. okt. 2007 6:24 25 Tindferð 5
2. 1.100 930 14,1 12. ágúst 2008 4:40 14 Æfing 55
3. 1.107 1.136 174 13,4 5. júlí 2011 5:36 32 Æfing 189
4. 1.123 2.282 173 24,5
Allar Botnssúlurnar fimm!
30. júní 2012 14:22 23 Tindur 80
5. 1.101 1.319 159 16,9 2. desember 2017 6:32 9 Tindur 151
Botnssúlur
Vestursúla
1.089 1.362 65 17,2
með Norðursúlu
6. nóvember 2010 7:18 32 Tindur 46
2. 1.098 2.282 173 24,5
Allar Botnssúlurnar fimm!
30. júní 2012 14:22 23 Tindur 80
3. 1.097 1.287 74 17,8
með Norðursúlu
5. mars 2016 7:39 15 Tindur 126

Sjá hrygginn út eftir þar sem við höfum oftast komið upp... en alltaf í sumarfæri...
líklega í lagi ef ekki er erfiður vindur en fara þarf samt varlega á tveimur tæpum stöðum meðfram klettum...
annars fínasta leið...

Við reyndum að njóta sigursins þrátt fyrir vindinn...
og náðum einhverjum myndum en allt of fáum og allt of einsleitum
með alla sitjandi að halda sér í svo þeir fykju ekki niður af fjallinu...

Við ætluðum sömu leið niður...

Sjá útsýnið til Háusúlu... magnaður fjallasalur...

Ævintýraleg mynd... birtan einhvern veginn önnur þarna skyndilega... ekkert mál fyrst skrefin niður...
en svo skall vindurinn á okkur og við skriðum að hluta til þarna niður...
og engin mynd tekin í þessum barningi...

Litið til baka upp eftir á sigrihrósandi hópinn...

... og síðustu menn að jafna sig á skriðkaflanum þar sem vindurinn var lygilega mikill...

Svo var þetta ekkert mál niður þar með og bakaleiðar-spjallið hófst...
þetta sem maður gengur hífaður á alla leið í bílana...

Ofurhundurinn Batman er öllu vanur með þessum hóp... hefur stundum verið orðlaus yfir því sem boðið er upp á...
en er alltaf broddaður og vel búinn... þéttur feldur gegnum kuldanum og vindinum og góðar klær á hverjum fæti...
sem kom sér vel á upp- og niðurleið í svellinu...

Brúnirnar á Syðstu súlu á hryggnum sem liggur alla leið yfir á Miðsúlu...
við snjóhengjurnar sem leggjast yfir skarðið hér lágum við og sættum færis í versta veðri sem við höfum lent í í sögu klúbbsins
þegar reynt var að ganga á Háusúlu í janúar 2009...

Skelfilegur vindur þar sem við féllum eins og spilaborg nokkrum sinnum
og þurftum að liggja og bíða af okkur vindhviðuna og sjá til hvort við gátum haldið áfram... gleymist aldrei...

Magnaður fjallasalur...

Gleðin eftir svona göngu er ósvikin og ómetanleg... langtum sætari en eftir venjulega útiveru...
þess vegna erum við endalaust í þessu fjallabrölti... þetta er svo gaman ! :-)
... og við tímum ekki að missa þessa hæfni niður...

Mjög skemmtilegar sögur og upprifjanir fóru fram í þessari ferð... frábær félagsskapur... og dásamleg samvera...

Frostklærnar sem læstust um alla súlurnar..

Við vorum mjög rösk niður í dalinn...

... og ákváðum að fá okkur að borða áður en hliðarhallakaflinn hæfist úr dalnum...

Litið til baka á síðustu menn í tómu sögustundar kæruleysi :-)

Kvenþjálfarinn uppgötvaði að hún hafði einhvers staðar orðið viðskila við ísexina sína á uppleiðínni
og við reyndum að feta okkur í sömu slóð á á leið upp eftir til að svipast um eftir henni... en hún fannst hvergi...

Á þessum kafla niður í dalnum lentum við í skyndilega í versta vindinum... skyndilega skullu í bakið á okkur vindhviður sem feyktu fyrst eingöngu Arngrími um koll og öftustu menn horfðu á hann liggja í valnum... og svo stuttu síðar kom önnur hviða og fjórir lágu stráfelldir og runnu meira að segja áfram á klakanum og sumir lentu á hinum göngufélununum... ótrúlegt alveg...

... og við rifjuðum upp versta vindinn í sögunni... þar sem Háasúla á enn metið...
en það er mál að velja topp tíu verstu vindgöngurnar...
eins og aðrar topptíu göngur í mestu bleytunni... besta veðrinu... o.s.frv...
þjálfarar ætluðu að gera þetta á 10 ára afmælisárinu 2017 en höfðu ekki tíma...
vonandi náum við að gera þetta árið 2018 !

Nestisstund... þar sem sumt rann af stað í harðfenninu og við þurftum að hlaupa eftir því :-)

Gunnar og Ingi drifu sig af stað til baka eftir nestið en við hin héldum hópinn og Bára leitaði að exinni sinni...

Sólin að setjast aftur yfir Hengilinn...

Krókódílagilið... exin var ekki þar...

... en fallegt var það...

Leiðin til baka var ótrúlega löng... enn og aftur...
merkilegt hvað maður er oft hissa á því að hafa farið um svona langan veg upp eftir á fjall...
Búrfell í Þingvallasveit hér á hægri hönd.

Fossabrekkurnar eru fallegar að sumri og voru klakaðar í desemberkuldanum...

Hver á sínum hraða á spjallinu og veðrið mun betra hér þó það væri vindur því hann var í bakið...

Færið enn erfitt... klaki yfir öllu og auðvelt að renna og detta...
best var að vera í keðjubroddunum alla leið í bílinn...
notagildi þeirra er ótvírætt í svona færi þar sem alger óþarfi er að vera á ísbroddunum ...

Litið til baka... Syðsta súla núna auð en lítið um heiðskíru eins og spáin hafði sagt fyrir um á íslenska og norska...

Fossaröð... og snjóskaflagöt...

Komin að ánni þar sem við urðum að stikla yfir um morguninn en engin mynd var tekin af því í rökkrinu...

Gekk vel og hægt að komast á þurrum fótur yfir...

Jeppinn hans Magga fór yfir aðra ánna á leiðinni um morguninn en hún kom undan klakanum sem var vel fær gangandi...

Sjá hvernig áin rennur undan klakanum hér...

Batman var ekki lengi að finna leið yfir í bílinn aftur til að sjá hvort einhver ætlaði að gefa honum eitthvurt góðgæti...
en þjálfarar höfðu farið yfir ofar í ánni....

Þetta virtist hálf ófært... en svo var þetta lítið mál...
Syðsta súla í baksýn...

kvenþjálfarinn tók myndband af akstrinum hér yfir og deildi á fasbók Toppfara og Youtube rás Toppfara:

Alls 16,9 km á 6:32 klst. upp í 1.101 m hæð (1.126 m - en sögð 1.096 m)
með alls hækkun upp á 1.319 m miðað við 159 m upphafshæð.

Dísætur sigur og mögnuð ferð í skammdeginu... Maggi náði líka mjög flottri þriðjudagsæfingu á Vífilsfelli vikuna á eftir og fór sáttur til sjós yfir hátíðarnar og á ekki eftir að koma til baka aftur fyrr en í lok janúar... þá er gott að ylja sér við vímuna og orkuna sem svona ganga gefur... við hin vorum og sammála því að við gátum farið með góðri samvisku inn í jólahátíðina með svona dagsferð í farteskinu... mikið var gott að ná loksins góðri desembertindferð þar sem þær hafa allt of oft fallið niður !

Nýtt og spennandi ár framundan 2018 þar sem við ætlum að taka eftir allri orkunni sem göngurnar gefa
og allri heiluninni sem af landslaginu...náttúrunni... fegurðinni stafar í hverju skrefi...
það er algerlega ómetanlegt að geta farið í svona göngur og reynt á jafnt sál sem líkama... og skilað sér sterkari og glaðari til baka...
takk fyrir okkur elskurnar :-)


Fyrri níu göngur Toppfara á Botnssúlur... hver annarri sögulegri og fegurri: 

Dulúðug vetrarferð á Vestursúlu og Norðursúlu í hrímaðri snjóþoku:
Vestursúla og Norðursúla í mars 2016

Klúbbganga á Syðstu súlu í boði Gylfa í sumarfríi þjálfara:
Hvenær nákvæmlega ? ath ! -  og vantar ferðina með Antoni líka !

Ein allra flottasta tindferðin í sögunni og hrein afreksganga - allar fimm Botnssúlurnar í einni göngu
og það í glimrandi fallegu veðri og skyggni allan tímann:
Allar 5 Botnssúlurnar í júní 2012

Frábært veður og útsýni með krefjandi klöngri á Miðsúlu og Háusúlu:
Miðsúla og Háasúla í september 2011

Gullin kvöldganga í einstaklega fallegu veðri á Syðstu súlu:
Syðsta súla í júlí 2011.

Töfrandi falleg vetrarganga með skrautlegum útúrdúr á Vestursúlu og Norðursúlu:
Vestursúla og Norðursúla í nóvember 2010

Frábært veður og útsýni á rösklegri kvöldgöngu á Syðstu súlu:
Syðsta súla í ágúst 2008.

Krefjandi vetrarferð í tilraun á Háusúlu í mesta vindi sem um getur í sögu Toppfara og á enn rok-metið:
Háasúla í janúar 2008

Fyrsta ferðin á Botnssúlur í krefjandi veðri sem snarbatnaði er á leið - sætur sigur á fyrstu dögum klúbbsins:
Syðsta súla í október 2007.

 


 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir