Tindur 20 - Háasúla laugardaginn 24. janúar 2009


B O T N S S Ú L U F A R A R N I R

... sem Háasúla feykti ofan af sér...

...við erfiðustu aðstæður til þessa í sögu klúbbsins ...


Mynd: Efri: Linda Lea, Herdís S., Roar, Sigríður Sig., Örn, Hildur Vals, Ingi, Helga Bj., Hjörleifur, Þorbjörg og Gnýr.
Neðri: Guðjón, fjallaleiðsögumaður, Stefán Heimir, Simmi, Ragna, Guðjón Pétur og Bára tók mynd.

Tekin á niðurleið í "Súlnasal" (nafngift okkar)  eða fjallasalnum milli Syðstu Súlu og Miðsúlu með útsýni til austurs.
þ.e. komin niður úr illviðrinu NB! svo við skelltum okkur í eina hópmynd í "logninu" að okkur fannst !

Afreksfólk sem sannarlega varð reynsluríkara en áður í vetrarfjallamennsku við verstu aðstæður... í vindhviðum sem ekki var stætt í... með frostbit á kinn... í fljúgandi hálku undir mjúkri snjómjöll... í bröttum hlíðum súlnanna...

Við höfum ekki tölu á hve oft menn fuku um koll, lögðust niður, bröltu á fætur og duttu...

...en ógleymanleg er sýnin þegar hópurinn féll allur ítrekað um koll eins og varnarlaus spilaborg og átti í erfiðleikum með að koma sér aftur á fætur því hviðurnar áttu til að standa lengi yfir... eða koma með offorsi augnabliki síðar...


Mynd: Ennþá standandi... flestir... í hlíðum Háusúlu með klett hennar framundan...

Það var glimrandi gönguveður fyrri hluta dags með gjöfult útsýni úr súlunum þegar komið var í skarðið milli þeirra syðstu og þeirrar í miðið í austri... en snarlega breyttist veðrið úr kyrrsælli útivist við glymjandi hlátrasköll... yfir í stórhríð sem sífellt sló okkur harðar svo hörfa varð úr hlíðum Háusúlu með klettinn glæsta í fanginu...


Hér er snilldarmynd frá Rögnu sem hún sendi fyrir alla til að njóta.
Slagurinn við vindhaminn í skarðinu milli Syðstu og Miðsúlu þar sem hann var hvassastur...

Sumir töldu þetta vera sinn síðasta tind á verstu augnablikunum... Ekki að ástæðulausu, þetta voru krefjandi og framandi aðstæður fyrir suma í hópnum... en vonandi ekki þær síðustu... við stöndum sterkari á eftir fyrir frekari slag við vetur konung... það er sigurinn í svona orrustu sem gefur sætt bragð af lífinu... svona þegar maður er kominn í hlýjuna og lognið heima í stofu með eingöngu minningarnar og myndirnar af öllu saman sem fá mann til að trúa því að maður lifði af þessar víðsjárverðu aðstæður...

 

---------------------the story begins-------------------

Sextán lögðum við af stað laugardagsmorguninn 24. janúar ásamt Guðjóni Marteins fjallaleiðsögumanni sem var kletturinn okkar þennan dag og leiddi okkur styrkri hendi um óðs manns stigu en við höfum ekki notið leiðsagnar hans síðan á Hvannadalshnúk í fyrra svo endurfundir voru kærir. Örn ætlaði að fylgja síðasta manni og Bára flakkað á milli sem tengiliður og fylgdist með ástandi hópsins í heild... báðir þjálfarar fegnir að skipta um hlutverk frá vikulegu æfingunum.

Við byrjuðum á að skoða kort af svæðinu sem Guðjón sýndi okkur... hvar ætluðum við upp þennan dag?
Ingi, Hjölli, Roar, Simmi, Guðjón Pétur og Guðjón leiðsögumaður sem gekk eftir áttavita og fyrirfram útreiknuðum stefnum í þessari göngu en naut gps-aðstoðar Roars þegar bylurinn var sem mestur í bakaleiðinni.

Lagt var af stað kl. 8:33 í myrkri með höfuðljós en fljótlega mátti sjá fyrstu birtu himins í suðaustri... sólin var að koma upp eftir rúman klukkutíma...

Í fjarska í myrkrinu sást glitta í ljós... það voru nýleg spor í snjónum frá upphafsstað og við höfðum séð jeppa lagt meðfram slóðanum á leiðinni... voru þetta snjósleðamenn?... nei, ha tjöld?... í alvöru?...

Brandarar flugu um að við værum að nálgast grunnbúðir... en þarna voru á ferð nýliðar í Björgunarsveit Garðabæjar á vetrarfjallamennskunámskeiði... við öfunduðum þá ekki að hafa þurft að gista nóttina... hún var vindasöm og hraslagaleg... en kannski prófum við þetta einn daginn...

Fljótlega slökktum við ljósin í ljósaskiptunum með snjóinn sem birtugjafa og glæsileg fjallasýn Þingvalla naut sín í sólarupprásinni... Hér í pásu með Búrfell Þingvalla í baksýn... tind næstkomandi septembermánaðar á leiðinni um Leggjabrjót á haustmánuðum.

Svo var sólin komin upp og súlurnar stungu sér upp úr snjóbreiðunni með hverjum metranum ofar sjávarmáli... hér í rúmlega 700 m hæð með Miðsúlutinda hvassbrýnda framundan.

Loks vorum við komin í hin glæsilega fjallasal súlnanna austan megin sem við skírðum Súlnadal í stíl við Súlnagil vestan megin... við vorum enn í blíðskapaðveðri með hjartað hoppandi af gleði yfir því að hafa drifið sig af stað í þessa ferð... við vorum sko heppin með veður...

Við tók snjóhengjan í skarðinu milli Syðstu og Miðsúlu sem var aðeins hál efst... og sem átti eftir að reynast örlagaríkur staður í bakaleiðinni... Sjá tind Miðsúlu í baksýn.

Syðsta Súla hinum megin og skálin hennar sem við höfum farið upp um og niður um að vetri sem sumri...
Ennþá blíðskaparveður og fjallasýnin gullfalleg...



Mynd: Efst í Súlnadal með glæst útsýnið til Hvalfjarðarbotns.

Við nutum útsýnisins og horfðum löngunaraugum á Vestur-, Syðstu- og Miðsúlu sem umkringdu okkur...
Æji, hvar er þessi
Háasúla... afhverju er svona langt í hana...?

Gengið var niður í skála ÍSALP efst í Súlnadal þar sem við fengum okkur nesti en þrátt fyrir lélega umgengni forvera okkar og þörf á viðhaldi á þessum skála sem langt og bratt er upp til, er mikilvægt að vera þakklátur fyrir stað eins og þennan sem verður til eingöngu fyrir sjálfboðavinnu... hann kom okkar leiðangri t.d. mjög vel... ansi gott að geta aðeins farið inn í kakósopa...

Það var sérkennilegt en á þeim tæpa hálftíma sem við stöldruðum við í skálanum breyttist veðrið skyndilega og vindhviðurnar lögðu af stað... skýin hrönnuðust upp... og snjókoman hófst...

Bakpoki Hjölla sem lá úti við skálann eins og annar farangur þeyttist skyndilega af stað niður Súlnadalinn og Guðjón, leiðsögumaður á eftir... jamm... það jók í vindinn og snjórinn fór að blása um allt...

Okkur var ekki til setunnar boðið og lögðum af stað frá skálanum upp skarðið milli Vestur- og Miðsúlu áleiðis að Háusúlu.


Mynd: Sjá kletta Háusúlu ofar

Færið var hált þegar komið var yfir skarðið, vindurinn jókst með hverju skrefi og gangan sóttist seint. Menn voru komnir í vandræði með að fóta sig, Þeir sem ekki voru á negldum skóm (eins og Ingi) eða í gormum runnu til og sumir gáfust upp og tóku til við að festa á sig broddana með aðstoð félaganna, en það var tímafrekt enda ekki auðsótt að athafna sig í þessum halla með vindinn beljandi upp með hlíðinni.

Þjálfari gekk fram og aftur með hópnum og reyndi að lesa í hvern mann líðan hans og ástand...
Hverjar voru aðstæður  neðar...?... ef einhver rynni nú af stað, hvert myndi hann lenda... jú, bara í hlíðinni sem varð meira aflíðandi neðar.
Gljúfrið hrikalega þarna í fjarska (sem við verðum að skoða að sumarlagi síðar) var ekki það nálægt að nokkur hætta stafaði af...

Guðjón var farinn að höggva fótfestur í hjarnið og áfram jókst vindurinn. Á ákveðnum tímapunkti varð ljóst að menn urðu að setja á sig broddana... lengra var ekki haldið annars. Það var mat þjálfara og Guðjóns að slíkt væri ekki möguleiki fyrir þetta stóran hóp sem ekki er allur vanur að setja þá á sig í þessum halla og þessu veðri, fara úr vettlingum og reima... afráðið var því að snúa við... Háasúla yrði ekki sigruð að sinni... ekki svo að skilja það væri ekki löngu ljóst á leiðinni um hlíðina... en við sem sé komumst ekki alveg að klettunum eing og Guðjón stefndi að áður en hann ætlaðiu að snúa við með hópinn. Við skulum í raun þakka fyrir að illviðrið skall ekki á síðar þar sem við hefðum þá verið klöngrandi í klettunum...

Bakaleiðin sóttist vel en kófið var slíkt að menn voru fljótir að hverfa inn í bylinn en þjálfarar tengdu fyrsta og síðasta mann svo ekki skildi á milli. Hjálpsemi ríkti milli félaganna og fengu þjálfarar ómetanlega aðstoð hjá þeim sem megnuðu að aðstoða næsta mann. Enn jók í vindinn en nú var hann með okkur og það var eins og Háasúla sópaði okkur af sér harðri hendi... nei, engar heimsóknir núna...

Þjálfari var tvisvar uggandi um hópinn í heild í þessari ferð, í fyrra sinnið á þessum tímapunkti þegar snúið var við í hlíðum Háusúlu þar sem veðrið versnaði enn og menn komnir í vandræði með að fóta sig og festa á sig broddana. Sú hugsun skaust upp í hugann hvort illviðrið væri komið til að vera það sem eftir liði dags, því þá yrði róðurinn þungur alla leið til baka... en reynslan og skynsemin sagði manni að okkar biði skjól við Miðsúlu fyrir austanhvassviðrinu og það rættist... 
Í Súlnadal tók við nánast heiðríkja í samanburðinum þó enn feyktu þar vindhviður okkur að skálanum.

Í skálanum söfnuðu menn líkamlegum og sálrænum kröftum... kyngdu vel, og skutu höfðinu gegn bylnum... við skyldum ganga sem einn maður, helst án þess að stoppa, klára skarðið í suðri og eftir það yrði þetta þægileg heimferð í betra veðri með lækkandi hæð...

Á þessum kafla gengum við aftur upp í 931 m hæð og duttum ítrekað á leiðinni, lágum í hvassasta vindi í sögu klúbbsins efst í skarðinu og biðum þess að vindinn lægi eitthvað þar sem ætlun Guðjóns var að klofa yfir snjóhengjuna í aðeins rólegri vindhviðum. Vindinn lægði hins vegar ekki svo við fikruðum okkur yfir hengjuna með Guðjón í fararbroddi... farið var afturábak og menn hjálpuðust að yfir hjallann, þjálfarar og meðhjálparar fylgdu síðustu mönnum.

Á þessum tímapunkti varð ekki öllum um sel og sumum leið illa, ekki að ósekju, vindurinn beit fast gegnum ullarlambhúsið og ástandið var ekki lífvænlegt til langs tíma litið, en þetta var bara spurningin um að koma sér þarna yfir... fáeinum metrum neðar beið okkar logn að okkur fannst og þar vorum við strax farin að hlæja og hlakka í adrenalínskjálftanum yfir lífsreynslunni... þetta var þrekraun af bestu gerð... við komumst klakklaus frá henni og sterkari en áður...

Niðurleiðin um Súlnasalinn í austri varð svo sífellt lygnari og hlýrri. Við enduðum í hláku og blautu færi um slóðir sem bundnar voru klaka og snjó um morguninn á uppleiðinni... skrítnar þessar Súlur... þær skipta endalaust um ham og ekki í fyrsta sinn í öðrum búningi á niðurleið en uppleið...

Lexíur ferðarinnar voru nokkrar eins og alltaf:

*Hálkugormarnir eða negldir skór koma sér alltaf vel í vetrarferðunum og skiptu miklu máli í þetta sinn.
*Skíðagleraugu eru nauðsynleg í vetrarferðunum.
*Lamhúshetta er nauðsynleg í vetrarferðunum.
*Aukavettlingar eru nauðsynlegir í vetrarferðunum.
*Belgvettlingar ssem eru vindheldir eru nauðsynlegir í vetrarferðunum.
*Ullarvettlingar eru nauðsynlegir í vetrarferðunum.
*Bakpoki nægilega stór fyrir brodda og ísexi er nauðsynlegur í vetrarferðunum.
*Hjálpsemin sem er ríkjandi í hópnum skiptir sköpum í krefjandi ferðum sem þessum.
*Það er mikilvægt að vera í takt við hópinn og stoppa ekki nema nauðsyn krefji á sumum tímapunktum til að tefja ekki leiðangurinn í heild að óþörfu heldur geyma erindið þar til næst er stoppað.
*Gott er að vera með skjótfengna orku við hendina í krefjandi ferðum.
*Minni enn og aftur á hve mikilvægt það er að allir láti vita ef þeim líður illa og þeir þurfa aðstoð. Flestir í hópnum hafa átt slíkar stundir í tindferðunum og eru bæði skilningsríkir og viljugir til að aðstoða næsta mann.
*Talstöð er nánast nauðsynleg í svona veðri fyrir samskipti fyrsta og síðasta leiðögumanns.
*Þjálfari ætlar að koma upp merkjakerfi fyrir hópinn til að láta vita með handbendingu hvort mönnum líði illa og þeir þurfi aðstoð, menn vilji snúa við, halda áfram eða séu hikandi (fjórar bendingar).
*Og góð ábending frá Guðjóni Pétri: Ef einhver verður viðskila við hópinn er mikilvægt að halda kyrru fyrir og bíða þessa að hópurinn finni hann en ekki fara af stað að leita að hópnum, þar sem leit til baka er heillavænlegust þegar hópurinn fer að leita (regla sem almennt gildir og þarf að vera almennt meðvituð innan hópsins).

 

"Sælar að sinni súlur... "

Dagurinn var frábær í alla staði og reynslan slík að það var aukaatriði að komast ekki á tindinn...
Upplifunin af þessum degi er persónuleg hverjum og einum... en allir urðu reynslunni ríkari á einhvern hátt.. sumir kannski hikandi við að koma sér aftur í jafn erfiðar aðstæður... en aðrir enn hungraðri en nokkru sinni í annað eins ævintýri á fjöllum að vetri til...

Tölur dagsins:
17,5 km á 8:00 klst. upp í 931 m hæð með hækkun upp á 762 m.

Áhrifamiklar lýsingar félaganna má lesa á Facebook, í hlaupadagbókinni og öðrum síðum Toppfara
- sjá undir Tenglar - m. a. einlæg frásögn frá Lindu Leu:
www.lindalea.blog.is

Sjá allar myndir af göngunni á www.picasaweb.google.com/Toppfarar

Þjálfarar þakka öllum sem fóru í þessa ferð og stóðust þrekvirkið... sérstakar þakkir fá þeir sem hlúðu að félögum sínum, reimuði brodda á hina og aðstoðuðu við að ná í eða festa hluti úr bakpokum hinna, lánuðu skíðagleraugu, gáfu orku, hvatningu og hlýju... sérstaklega hefur verið tjáð þakklæti með þessa þætti og koma þjálfarar því hér með á framfæri.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir