Tindur nr. 5 Syðsta-Súla í Botnssúlum 6. október 2007

Tindur nr. 5 Syðsta-Súla sem er hæsti tindur í Botnssúlum var genginn laugardaginn 6. október af 25 toppförum og leiðsögumönnunum Guðjóni og Jóni Gauta.

Vá! Þvílík ferð um töfrandi fjallasal í vetrarbúningi og veðravíti...

Ferðin var sú mest ögrandi í sögu klúbbsins og söguleg fyrir þær sakir að margir tóku á stóra sínum, áttu ekki von á að komast alla leið, vonuðust jafnvel innst inni eða vildu snúa við og sigruðust því á sjálfum sér með styrk hópsins að baki.

Einnig voru einstaklingar þarna að sigra sitt hæsta fjall eða jafnvel fyrsta fjall sem eru stór persónuleg tíðindi. Þessi ferð hafði því mikið gildi fyrir flesta ef ekki alla í hópnum, þar sem fremur reyndi á andlegan styrk en líkamlegan eins og Karl orðaði það. Gerum okkur grein fyrir því að slíkur sigur hefur þetta sæta bragð sem veldur því að fjallamennskan lokkar mann sífellt aftur inn í óbyggðirnar...

Safnast var saman í bíla í Ártúnsbrekkunni og lagt í hann um kl. 8:10 áleiðis Þingvallaleið að Svartagili suðaustan Botnssúlna í hráslagalegu veðri, talsverðum vindi og kulda.

Gengið var svo af stað kl. 9:03 eftir stutta tölu Jóns Gauta þar sem þeir Guðjón lögðu þá þegar upp með að þurfa vísast að sleppa hryggjarleiðinni að tindinum vegna hvassviðris og fara inn með dalnum og suðvestur á toppinn.

 Þeir vissu sem var að veðrið var að breytast og von á logni og hlýju þegar liði á daginn. Þetta var því frekar spurning um tímasetningu, hvar hópurinn væri staddur þegar helgarveðrið góða tæki völdin og hér leyfist að fullyrða að það hafi gerst kl. 13:00 þegar fyrstu toppfarar voru komnir upp á tindinn og síðasta vindhviðan hrein yfir þá þar með og svo ekki söguna meir... svona eins og "nú þetta eruð þið... gjörið svo vel að ganga í bæinn" ... alveg eins og Hekla fyrir mánuði síðan!

Veðurspáin fyrir þessa helgi var góð alla rigningarvikuna á undan og sýnu betri á sunnudeginum, en svo versnaði þessi spá eftir því sem leið á vikuna, með blárri kulda og hærra roki...

Þjálfarar og leiðsögumenn vakta veðurspána vikuna fyrir hverja tindferð og hafa ávalt þann vara á að fara á sunnudegi ef ekki gefst á laugardegi. Ekki var talin ástæða til þess þennan dag, þar sem veðrið átti að vera snöggtum skárra á laugardeginum en alla vikudagana á undan... sól í fyrsta skipti í langan tíma og jú, kuldi og vindur, en það var nú einu sinni kominn október og við ekki að ganga að sumarlagi lengur...

Fljótt lærist í útiveru að gæta þarf hófs í að stíla inn á "betra veður", þar sem veðurspá getur alltaf breyst milli daga og ekki er árangursríkt að fresta mikið göngum í eltingarleik við betri veðurspá, þó dæmið á sunnudeginum undirstriki það ekki í þetta skiptið. Slíkur eltingaleikur getur endað á því að ekki er farið yfirhöfuð, en það er ekki lenskan í þessum klúbbi!

Þessi fjallgönguklúbbur færir auðvitað ferð á laugardegi yfir á sunnudag ef veður er slæmt á laugardegi... en ekki ef veður er eingöngu betra á sunnudegi.

Hafa ber einnig í huga að erfiðara er að fara krefjandi göngu á sunnudegi með vinnuvikuna framundan, heldur en að eiga sunnudaginn til hvíldar og/eða jafnvel fjölskyldusamveru ef svo ber undir, svo það er til nokkurs að vinna að halda laugardeginum til farar sé þess kostur.

Þennan laugardag áttu þó eftir að renna tvær grímur á þjálfara og leiðsögumenn varðandi staðfestuna með laugardaginn, þar sem kuldinn beit í kinnar og rokið rann stríðum straumum á hópinn fljótlega eftir að hann var lagður af stað frá malarstæðinu við Svartagil...

Genginn var vegaslóði til að byrja með og svo um mosagróið land með Búrfell á vinstri hönd og Ármannsfellið á þeirri hægri, en Súlurnar földu sig bak við hurðina eins og þær væru ekki tilbúnar til að fá okkur í heimsókn alveg strax... vildu kannski nota norðurrokið til að þrífa aðeins fyrst fyrir gestina?... það var þó aldrei...

Fjallasýnin suður að Þingvallavatni var óskert frá upphafi ferðar og mátti vel sjá Búrfell við Úlfljótsvatn, Arnarfellið við Þingvallavatn, Hengilinn upp frá Nesjavöllum, áðurnefnd Ármannsfell og Búrfell í Þingvallasveit og Kjöl hinn syðri, jafnvel Skjaldbreiður fyrir norðaustan og fleiri fjöll... sem sé komið heimboð frá þeim hér með...

Frost var í jörðu nánast frá fyrstu skrefum göngunnar og fljótlega orðið léttilega hvítt yfir, svo ekki fór á milli mála að við vorum í ríki náttúrunnar þar sem vetur, vor, sumar og haust eiga hvert sinn tíma og renna ekki svo glatt út í eitt eins og í borginni.

Rennblautur jarðvegurinn eftir rigningarnar síðustu daga hafði frosið efst þessa aðfararnótt í næturfrostinu og fljótlega vorum við komin undir frostmark á göngunni með hverri hækkun í metrum.

Hér naut ekki varma af mannabyggð eins og í bænum þar sem öll horn árstíðanna slípast af og úr verður einhver ávöl borgarárstíð allt árið um kring út um gluggann með skýjuðu eða rigningu flesta daga, +/- rok og svo sól eða snjó öðru hvoru... Sumir hafa orðað þetta þannig að það "það ríki bara ein árstíð í Reykjavík".

Ekki fjarri sanni því oft er nóg að fara aðeins út fyrir borgina til að fá árstíðirnar raunverulega beint í æð... t. d. með göngutúr eins og þessum, þar sem maður kemst að því að jú, það er komið haust og veturinn er að ganga í garð... við komumst að því af eigin raun þennan dag!

Fyrsta áning var í ágætis skjóli með svið Þingvallasveitar í fangið og ekkert betra en að njóta þess að vera með sterk bein fyrir göngu sem þessa.

 

Gengið var úr mosagrónu gróðurbelti og möl upp í skriður  Syðstu-Súlu og enn sást lítið til hennar en þarna hraunuðu hvað verstu vindhviðurnar yfir okkur og sumir áttu erfitt með að halda velli og halda áfram... menn lágu í jörðinni, gáfu jafnvel eftir einhver skref til baka, en þá kenndi Guðjón mönnum að fara niður á hnén eða sitja af sér verstu hviðurnar sem við og gerðum hálf týnd í þessum aðstæðum.

Strax þarna komu vöfflur á mann hið innra og vangaveltur um hvað við værum eiginlega að gera þarna í þessu veðri... við kæmumst aldrei upp á topp ef rokið var svona bálhvasst í lítilli hæð...

Þegar komið var að fjallsrótum og skriðurnar baðaðar snjóflyksum var áð í annað skipti, en þetta skyldi vera megin nestistíminn þar sem fyrirséð var að ekki yrði veður til þess að stoppa eftir þetta...

Mönnum var ráðlagt að klæðast betur meðan á nestistímanum stóð, þar sem kuldinn var farinn að stinga og eins var ráð að hafa naslið í seilingarfjarlægð þar sem ekki var talinn möguleiki á að vera að taka af sér pokann eftir þetta í rokinu...

Þarna var vatnsflaska þjálfara sem hékk utan á bakpokanum komin í klakabönd og stutt í að ekki var lengur hægt að drekka úr henni... slíkt var frostið við rætur Syðstu-Súlu.

Við tók þolinmóð ganga upp skriðurnar og dreifðist talsvert úr hópnum eins og vanalega því litlu má muna ef menn eru að dóla sér við fataskipti, myndatökur eða fjörugar umræður.

Í einni vindhviðunni hóf Jón Gauti upp söngröddina og stappaði í menn stálinu með karlakórsfílíngnum og vá, þarna skapaðist sko mikil orka... en að hans sögn er þessum söng eingöngu beitt við sérstakar aðstæður...

Við verðum að læra þennan texta og taka hann með í nesti fyrir stundir sem þessar, ... þegar andinn þarf orku fremur en líkaminn...

Vind tók að hvessa aftur þegar ofar dró og var erfitt að halda sér á fótunum, hvað þá taka myndir.

Nægt var þó myndefnið með glæsilegu útsýni yfir Þingvallasveitina og á hérna sést Ármannsfellið í baksýn baðað sólarljósi frá úfnum himni.

Til suðausturs sást alla leið til Vestmannaeyja í pásunni stuttu áður en það var rétt eftir að Guðmundur rifjaði upp göngur sínar á Syðstu-Súlu í maí 2006, tvær helgar í röð í mögnuðu útsýni og sólríkju. Slíkar stundir gleymast ekki og auka virði göngunnar í samanburði, því það er alltaf gaman að kynnast fjalli við ólíkar aðstæður.

Fljótlega var komið að austurenda hryggjarins sem prýðir Syðstu-Súlu en þar upp með er hefðbundin leið að tindinum.

Þennan hrygg var ljóst að við myndum ekki ganga því þarna gerði meira hvassviðri en áður og menn lögðust orðlaust niður með uppgjafarsvip á andlitinu og ýmsar hugsanir væntanlega í kollinum...

Jón Gauti hóaði fólki saman eins og hægt var með hálfan mannskapinn skríðandi með jörðinni og tilkynnti að við skyldum ganga með dalnum og þaðan suðvestur á tindinn. Veðrið færi skánandi því Guðjón hefði fylgst með Þingvallavatni og sérð hvernig gárurnar voru farnar undan vindinum og orðið lygnt á vatninu... skjólið væri því á leiðinni upp á hálendið líka...

Skyndilega tóks Óttar á loft og skall á jörð og samferðamenn  og var varla svo að menn gætu aðstoða hann við að standa á fætur, hver og einn haldandi sér í næsta stein... og þá töldu örugglega sumir að ferðin yrði kölluð af, við færum ekki lengra...

En, nei, skjólið beið okkar í dalnum því vindurinn er alltaf mestur í skarði og meðfram hliðarbrúnum fjalla, eða alls staðar þar sem um hann þrengist eða heftist og því ráð að koma sér sem fyrst frá slíkum stað.

Þjálfari heyrði í Óttari á sunnudeginum og þá var handarbakið bólgið, en vonandi ekki brotið. Bestu batakveðjur til hans og vonandi notar hann meiðslin sem tákn um frækna för og elju og græðir þannig hönd með huga...

Fljótlega þegar gengið var svo niður í dalinn milli Syðstu-Súlu og Mið-Súlu lygndi í skjóli fjalla.

Þarna gátum við haldið uppi samræðum og gleymt okkur í sal náttúrunnar, umlukin glæsilegum veggjum kletta og skriða.

Tignarlegir tindarnir komu í ljós og við vorum sannarlega komin í ævintýraheim Botnssúlna með ægifegurð þeirra undirstrikaða þunnu lagi snævarins.

 

Þegar komið var að syðstu súlunni var hópurinn þéttur og rætt um uppgönguleiðina og þjálfari ákvað að mynda hópinn í heild þarna þar sem ekki var fyrirséð hvernig síðasti kafli göngunnar færi - sjá mynd efst.

Og menn mynduðu hvert annað... en hér eru Íris Ósk, Hrafnhildur, Emilía og Hrönn, fjallakonur með meiru, sem gefa aldrei eftir og eiga ógrynni fjalla í pokahorni framtíðar...

Mið-Súla sést þarna í baksýn en hún er 1.055 m há og ókleif nema með hjálparbúnaði, en til samanburðar er Háasúla norðan með 1.023 m og Vestur-Súla 1.086 m, en við stefndum í 1.093 m.

Nokkrir kjarna-toppfara komust ekki með í þessa ferð og höfðu menn á orði að fegurð þessa fjallasalar væri slík að hingað yrðum við að koma aftur með þeim í betri veðurham og dóla okkur um hlíðarnar, skoða tindana frá öðrum hliðum og kíkja í fjallaskála ÍSALP sem reis neðar í dalnum.

 

 

Í skarði fjalla er sem fyrr segir oft verstu vindhviðurnar sem er rökrétt þegar hugsað er til þess að vindurinn þarf að þrengja sér milli tveggja fyrirstaða.

Þetta fór ekki framhjá okkur þegar gengið var vestur að skarðinu milli Syðstu-Súlu og Mið-Súlu. Norðanvindinum tókst nánast að feykja nokkrum okkar fram af þar sem við stefndum áleiðis suðvestur.

Þarna lögðust menn ítrekað í jörðina til að halda jafnvægi og tókst þjálfara ekki að taka mynd niður í Botnsdal eins og öðrum tókst, þrátt fyrir þrjóskulega tilraun.

Eiginlega má maður þakka fyrir að hafa ekki brotið myndavélina eða misst hana út í buskann... nú eða vettlingana sem þurfti að halda á meðan á myndatöku stóð um leið og maður reyndi að halda sér á fótunum og halda í við hópinn...

Eftir þessa orrustu við vindinn vorum við komin í skjól með hlíðinni en hik var komið í suma leiðangursmenn og upp hófst rekistefna um hvort snúa skyldi við eða halda áfram síðasta spölinn.

Flestir gátu ekki hugsað sér að snúa frá tindinum sem núna var í seilingarfjarlægð, en óskaplega var skiljanlegt af sumum að hafa ekki fleiri vopn í handhraðanum fyrir norðangarranum. Munum að mörk hvers og eins eru misjöfn en með reynslu sem þessari safnast smám saman í reynslubankann og maður verður sterkari í næstu viðureign.

Leiðsögumenn réðu auðvitað ferðinni og tóku stjórn á næstu skrefum með því að feta hópinn eftir hlíðinni því við vorum komin í skjól og þótti eðlilegast að snúa ekki við að svo stöddu.

Klöngrið var varasamt en brattinn ekki hættulegur, eingöngu slök hlíðin fyrir neðan svo þegar brattasti kaflinn var framundan, fóru leiðsögumenn á undan í könnunarleiðangur til að kanna aðstæður á leiðinni upp á topp. Þeir komu til baka eftir stutta stund og hóuðu hópnum upp með þá fyrirætlun að fara í litlum hópum á tindinn sjálfan til að tryggja öryggi.

Þegar fyrsti hópurinn var hins vegar kominn upp, stóð hann af sér eina hvassa vindhviðu en svo ekki söguna meir og afgangurinn af hópnum gat dólað sér upp í logni og blíðu.

Þarna virtist um brúnalogn á toppnum vera að ræða, en blíðan hélst þar með á niðurleiðinni, svo að öllum líkindum breyttist veðrið nákvæmlega á þessum tímapunkti úr hvassviðri í lognið sem ríkti þar með þessa helgina... galdrar sögðu sumir.. allavega töfrar...

Sérstakt andrúmsloft ríkti á toppnum, menn hvíldu sig eftir klöngrið, nærðu sig, tóku myndir, nutu hrikaleik útsýnisins, slógu hver öðrum á bak eða í lófa, hlógu og brostu... kölluðu fram eldri minningar...

...eða gáfu sigurmerki eins og þeir Jónas og Guðmundur gera hér hægra megin á mynd...

...tindurinn var í höfn við erfiðari aðstæður en nokkru sinni í þessum hópi... slíka tilfinningu er ekki hægt að orða heldur nauðsynlegt að upplifa... hún veldur því að maður horfir alltaf upp á við á alla tinda hvert sem maður fer... með hugsuninni "hvernig ætli ég komist þarna upp..."

Náttúrulega drukkin af sigri, tindi, háloftum, nú eða fersku lofti ofan í lungun, sátum við þarna í nokkrar mínútur og tímdum ekki að fara niður...

Að sigra tindinn, sama hver hann er, eru verðmæti sem ekkert veraldlegt toppar...

...það vita þeir sem þarna stóðu og reyndu á eigin skinni...

Á niðurleiðinni var betur hægt að virða útsýni Botnssúlnanna fyrir sér á alla kanta.

Þarna sést yfir hrygg Syðstu-Súlu sem vanalega er genginn og bíður okkar síðar í betra færi.

Því miður fór svo að einn ferðafélaga ákvað að bíða af sér lokahnykkinn á tindinn en slík uppákoma er alltaf sár fyrir viðkomandi og leiðangurinn í heild.

Við því er ein góð lausn... að leggja í hann aftur sterkari en áður eftir svona slag...

 

Mirek fra Póllandi var með okkur í þessari för og var að eigin sögn í fyrstu fjallgöngu lífs síns.

Soffía var einnig að sigra sinn fyrsta háa tind og eru þessir áfangar dýrmætir jafnt þeim sjálfum og okkur sem hópi, því það eru verðmæti fólgin í því að góðir hlutir gerast í krafti fjöldans.

Margir í þessum fjallgönguklúbb hafa svipaða sögu að segja, sumir gengið sín fyrstu fjöll með klúbbnum og margir áfangar í höfn frá því í maí 2007... varðveitum þetta og högum seglum svo að ævintýri gerist í hverri höfn... þá er gaman að lifa...

Niðurleiðin var sömu leið til baka og áttu sumir erfiðar með að klöngrast niður hlíðina en upp þar sem gróft grjótið var hált í frostinu.

Annað var nú með fjallaleiðsögumennina, þeir skokkuðu eins og geitur kringum okkur og voru uppi kenningar um klaufir og fleira...

...ætli þetta skrifist ekki bara á reikning reynslunnar... svo einfalt er það...

Munið sjálfstraust er stærsti vöðvinn sem hægt er að þjálfa!

 

Hérna sést til Mið-Súlu hægra megin og Háusúlu beint af augum og veltum við því fyrir okkur hvernig væri að klífa þessa tinda.

Þeir eru víst allir eiginlega ókleifir án hjálpartækja, en þó má prófa sig eitthvað áfram og þarf að kanna þetta nánar fyrir næstu ferð.

Nokkrir í ferðinni höfðu frá skemmtilegum sögum að segja í fyrri för á þessum slóðum.

Sem dæmi rifjuðu Gylfi Þór og Þorbjörg upp sínar minningar og væri gaman að fá þær á síðuna fyrir hina til að lesa...

 

Íris Ósk, Emilía, Guðmundur, Kristín og Hrafnhildur með Ármannsfellið í baksýn í góðu tómi til að spjalla.

Áfram hélst lognið og fleiri vindhviður fengum við ekki, svo brosið var komið til að vera á andlitunum og eru ekki ennþá farin af sumum ef marka má umræður á æfingunni þriðjudaginn eftir á Úlfarsfellinu.

Það verður ekki af glæsilegum tindum Mið-Súlu skafið frekar en þessum fjallagarði í heild eins og sést á myndinni hér fyrir neðan:

Niðurgangan er sérstakt ferli þar sem hugur og líkami melta það sem á undan er gengið.

Menn ganga í eigin þönkum og gleyma sér... eða spjalla sem aldrei fyrr eins og drukknir menn... en það er náttúruleg víma sem er afskaplega holl fyrir sál og líkama...

Fjallamennska er heilsurækt í hæsta gæðaflokki þar sem bæði líkami og sál fá þjálfun og upplifunin er raunveruleg en um leið listræn... alveg eins og kjarni náttúrunnar... harka og fegurð samofið í bland!

Hugurinn raðar upplifuninni í minninga-bankann og reynslubankann... og líkaminn einsetur sér í bókstaflegri merkingu að vera sterkari þegar næstu átök verða því hann hefur ríka aðlögunarhæfileika og lagar sig sífellt að aðstæðum hverju sinni. Sé honum boðið upp á fjallgöngu reglulega gerir hann sitt ítrasta lífeðlisfræðilega séð, til að standast þær aðstæður eins vel og honum er auðið.

Fljótlega máðist snælínan út og við vorum komin í gróður og íslenskan mosann.

Síðasta nestispásan var notaleg í sífellt batnandi veðri, lygnara og hlýrra en fyrri part dagsins.

Jón Gauti sagði okkur skemmtilega sögu og það var notalegt að njóta útsýnisins með afgangnum af nestinu.

Hér með er ráð að taka með sér heitan drykk á brúsa því það er víst kominn vetur í næstu ferð... Sama er með klæðnaðinn, hann þarf að standast vetraraðstæður af verstu gerð og miklu auðveldar að komast frá svona degi í góðum búnaði.

Syðsta-Súla ásamt gestum laugardaginn 6. október 2007...

Frá vinstri efri: Grétar Jón, Hjörleifur, Mirek, Soffía, Íris Ósk, Örn, Stefán, Karl, Kristín, Rannveig, Jónas, Sigríður, Guðmundur, Hrönn, Gunnar, Óttar.

Frá vinstri neðri: Jón Gauti, Helga, Margrét, Þorbjörg, Bára, Gylfi Þór, Halldóra og Jón Ingi.

Vantar á mynd Emilíu sem skrapp frá og Guðjón fjallaleiðsögumann sem tók myndina.

Við væntum þess að þegar við göngum á Syðstu-Súlur næst með þeim sem misstu af þessari ferð, þá komi sá með sem náði að stíga öðrum fæti á toppinn og standi með okkur jafnfætis á tindinum næst...

Þá verður kannski gengið með þessum hrygg upp á topp hér í baksýn eða farið sömu leið og þennan dag, allt eftir lyst, veðri og vindum.

Mikið var spjallað í sólarblíðunni síðustu metrana og þegar fækkað var fötum og menn farnir að sólbrenna síðustu metrana var orðið hálf óraunverulegt að hafa verið við vetraraðstæður þarna uppfrá...

Sjá frábærar myndir af ferðinni frá bæði Jóni Gauta á myndasíðu hans:...
http://picasaweb.google.com/jongauti/SydstasulaToppafarar

... og Gylfa Þór á hans síðu en þar er neðst einnig myndband sem gefur innsýn í hvassviðrið þennan dag:
http://www.sotthreinsun.is/toppfarar/ 

 

Auðvitað var þessi ferð flottari en ganga í nánast sumarveðrinu sem ríkti sunnudaginn eftir, þó það hefði að sjálfsögðu verið glimrandi göngudagur líka...

...sigur á ögurstund sem þessari er sætari en nokkuð annað...

Frábær dagur í góðum hópi með framúrskarandi leiðsögumönnum, en margir hafa haft á orði og sent bréf til að lýsa ánægju sinni og þakklæti með styrka leiðsögn fjallaleiðsögumanna þennan dag, þeir björguðu deginum...

Tölur dagsins:

Gengið í 6:24 klst.
Leiðin var
13,74 km skv gps þjálfara en 12,4 km skv gps Hjörleifs - hvað sögðu önnur gps? Varla þeyttist þjálfari 1,3 km milli manna og myndatökusjónarhorna??? Þetta er ráðgáta!
1.093 m hár tindur að baki.
Hækkun upp á
970 m.
Við vorum nánast akkúrat
4 klst upp á topp og tæpar 2,5 klst niður...

 

  

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir