Æfingar alla þriðjudaga frá janúar út mars 2012
í öfugri tímaröð:

Miðfell og Dagmálafell 26. mars
Vetrarfjallamennskunámskeið dagana 20. og 21. mars
Drottning og Stóra Kóngsfell 13. mars
Hafnarfjallsöxl syðri 6. mars
Geirmundartindur 28. febrúar
Helgafell í Hafnarfirði 21. febrúar
Lambhagi og Vatnshlíðar Kleifarvatni 14. febrúar
Æfing féll niður 7. febrúar en nokkrir tóku Helgafell í Hafnarfirði mið 8. febrúar!
Smáþúfur Blikdal 31. janúar
Úlfarsfell frá Leirtjörn 24. janúar
Hefðarkonuganga á Mosfell 17. janúar
Esjan hefðbundin 10. janúar
Nýársganga á Eyrarfjall Hvalfirði 3. janúar


Vorlegt við Þingvallavatn
á Miðfelli og Dagmálafelli

Þriðjudaginn 27. mars bættum við tveimur litlum fellum við safnið með göngu um Miðfell og Dagmálafell austan megin Þingvallavatns á notalegri göngu með vor í lofti...

Gengið var upp norðurenda Miðfells og hryggurinn rakinn til suðurs með sæmilegt útsýni til fjallanna í kring.... meðal annars Arnarfells hér í vestri sem við höfum gengið oftar en einu sinni á en það fell er lægra og umfangsminna en Miðfellið en mun ógreiðfærara í sorfnum móbergsklöppum... sem enn eru þaktar mold og mosa á Miðfelli...

Arnarfell vinstra megin, Gjábakkavegur og Ármannsfell hægra megin með Botnssúlurnar í skýjunum...

Lilja og Gylfi með Reyðarbarmana sunnan Kálfstinda sem eru í skýjunum ásamt Hrútafjöllum... en þangað ætlum við í maí á hæsta tind Kálfstinda sem er sjaldfarinn þar sem hann rís mjög innarlega á tindahryggnum (ekki Flosatindur)...

Efst á Miðfelli var mastur sem við fengum að vita deginum áður að Skúli Wildboys hefði reist
ásamt vinnufélögum sínum hjá símanum forðum daga...

Súsanna og Ósk...

Tvær af eljusömustu göngumönnum Toppfara sem mæta aðdáunarvert vel allt árið um kring og láta hafa sig út í allt á fjöllum... enda uppskera þær eins og þær sá... ;-)

Ofan af hæsta punkti á Miðfelli var haldið áfram til suðurs að Borgarskarði sem sker sundur fellin með sólríkt útsýni á Hengilssvæðið og fögru tindana norðan Hellisheiðar...

Borgarskarð með Dagmálafell framundan...

Litið til baka á Miðfell frá Dagmálafelli...

Hæsti tindur Dagmálafells sem mældist 281 m hár en þaðan gafst einstakt útsýni yfir vatnið...

Vor í lofti

...og við nutum þess út í yztu æsar... á milli þess sem stöku rigningarskúrir gengu yfir svæðið... sem ásamt sköflunum og smá vindi minntu okkur á að það væru enn nokkrar vikur í sumardaginn fyrsta...

Mosinn mjúki...

...kær félagi okkar á fjöllum allt árið um kring en sérlega kærkominn þegar snjónum sleppir á vorin...

Ofan af Dagmálafelli var gengið í suður austan megin við Gönguskarð niður á MúlaHrafnsklettum þar sem sumarhúsabyggðin við austurstrendur Þingvallavatns komu í ljós...

Við Hrafnskletta ofan sumarhúsanna:

Gylfi, Lilja, Ísleifur, Soffía Jóna, Hjölli, Hugrún, Ásta Guðrún, Sirrý, Björn E., Rósa, Kristjana, Guðlaug, Ástríður, Ósk, Stefán, Katrín, Súsanna, Guðmundur, Anton, Kjartan, Ólafur, Jóhann Ísfeld og Örn en Bára tók mynd...

... og Jóhannes og Lilja Bj. voru undanfarar kvöldsins...

... Jóna, Rikki og Sigga Rósa gengu á Helgafell í Hafnarfirði...

... og Auður, Guðjón, Ingi, Lilja Kr., og Simmi gengu á Háahnúk á Akrafjalli...

... svo það má næstum segja að Toppfarar hafi æft í þremur landshlutum þetta kvöld...
Vesturlandi, Suðurlandi og Reykjanesi... ;-)

Til baka þræddum við okkur eftir hömrum Hrafnskletta til baka vestan megin fellanna beggja og snertum varla jörðina fyrir vorloftinu sem við nutum svo mikils að svífa um á... 

Alls 7,3 km á 2:17 - 2:23 klst. upp í 336 m og 281 m hæð með 351 m hækkun miðað við 130 m upphafshæð.

Hér með hefst sumartímabilið frá apríl út september og þá er brottör kl. 17:30 frá N1 Ártúni.

Páskarnir framundan eftir rúma viku og Eyjafjallajökull í sigtinu með gott veður þá helgina ;-)

Ein lítil sumarsaga frá sumarhúsabyrgðinni við Þingvallavatn og bænum Mjóanesi sem blasti við úti á vatninu:
... af því við vorum að tala um að það vantaði bara jarmið til að fulkomna vorstemmninguna þetta kvöld...

http://www.saudfe.is/forsida/344-hundur-far-lamb.html

 

 

Kveðja


Anna Elín, Sigga Sig með Þulu á herðunum og Ingi... á göngu um Brúarárskörð og Högnhöfða í júlí 2010.

Við kveðjum tíkina Þulu þeirra Siggu og Heimis en hún kvaddi um helgina eftir bráð veikindi.

Þula hefur verið með þessum fjallgönguklúbb frá upphafi árið 2007 og átt sínar góðu stundir á fjöllum með Toppförum
en var orðin lúin undir það síðasta í erfiðari göngum.

Ferfætlingar Toppfara eru orðnir órjúfanlegur hluti af hópnum og ætlum við að bæta þeim í félagatalið
enda ómetanlegur félagsskapur eins og sést við þann söknuð sem fráfall Þulu vekur innan hópsins.

 

Frábært
vetrarfjallamennskunámskeið
hjá Jöklamönnum

í vindi , úrkomu og blautu færi fyrra kvöldið
en sól, logni og glerhörðu hálkufæri seinna kvöldið

Þriðjudags- og miðvikudagskvöldin 20. og 21. mars héldu þrír leiðsögumenn hjá Jöklamönnum (Glacier Guides/Arctic Adventures - www.glacierguides.is og www.adventures.is ) vetrarfjallamennskunámskeið fyrir Toppfara þar sem ekki tókst að finna helgi fyrir atarna og mældist þetta mjög vel fyrir þar sem við höfum þrjú síðustu ár þurft að fella niður þetta námskeið vegna ónógrar þátttöku og snjóleysis...

Fyrri daginn voru veður válynd og fyrsta verkefnið að koma öllum bílum upp í Bláfjöll... og finna skjól til að tala saman en þetta tókst með ágætum innan um áhyggjur af að fenna inni í Bláfjöllum... og rættist úr veðri þegar að verklegum æfingum kom þó bleytan kæmi á endanum í veg fyrir að hægt var að klára efni dagsins svo ganga í línu eða snjóakkeri beið morgundagsins...

Farið var vel yfir misjafnar tegundir, notkunargildi og val á bæði broddum og ísexi
og æfð ganga á broddum með ísexi og sjálf ísaxarbremsan.

Helztu atriði voru eftirfarandi

Tegundir val og notkun mannbrodda (jöklabrodda):

*Eru misjafnir eftir því hvort um göngubrodda er að ræða eða klifurbrodda.

*Skiptir ekki höfuðmáli hvort séu 10 punkta eða 12 puntka. Tólf punkta með meira grip en tíu punkta léttari.

*Misjafnir eftir því hvort henta alstífum skóm eða milli/lítið stífum skóm - opnir broddar henta alstífum skóm (Scarpaskónum sem nokkrir hafa keypt í hópnum) en broddar með "körfu" að framan utan um tærnar og aftan utan um hælinn eru nauðsynlegir fyrir lítið stífa og millistífa skó til að veita stuðning á broddagöngu.

*o.m.fl. sem ekki er svigrúm hér til að nefna...
*Val á broddum á vefnum: http://www.rei.com/expertadvice/learn/crampons+snow+ice+climbing.html

Ganga á broddum:

*Stíga jafnt á yfirborðið svo broddarnir nái allir að grípa taki í hjarnið en ekki stíga á ská (eins og maður gerir í skóm og hliðarhalla þegar maður stingur jarkanum á skónum inn í brekkuna til að mynda syllu í jarðveginn - alls ekki gera þetta ef maður er á broddum heldur nýta alla broddana til að grípa  í hjarnið).

*Lyfta fótum vel upp til að reka ekki broddana í hjarnið og detta fram fyrir sig. Með broddunum erum við komin með "lengri fætur" og auðvelt að gleyma sér þegar líður á daginn og menn orðnir þreyttir eða kærulausir. Líkaminn vanur ákveðinni vegalengd sem hann þarf að lyfta fætinum upp og stíga næsta skref en þegar maður er kominn á brodda þarf maður að muna að lyfta hærra upp til að reka sig ekki niður undir.

*Ganga aðeins gleitt með smá bil milli fóta til að flækja ekki broddunum hvor í annan eða flækja broddunum í skálmarnar og detta um sjálfan sig af þeim sökum eins og margir hafa reynt (sbr. rifnar skálmar á hlífðarbuxum v/broddanna). Chaplin eða skíðastökkvarar hér fyrirmyndin.

*Taka stutt skref til að hafa betra vald á hverju skrefi.

*Stíga föstum skrefum niður í snjóinn en ekki léttum svo broddarnir nái að grípa vel í snjóinn (ef hált færi).

*Ganga með framhlið manns vísandi niður brekkuna ef undirlagið er mjög frosið, bratt og hált til að ná sem jöfnustu gripi - en ekki "ganga á hlið" eins og maður gerir vanalega á göngu í hliðarhalla. Á við í mikilli hálku, svelli eins og t.d. á
Kerhólakambi í desember 2007 þar sem við fórum vel yfir þetta og æfðum ofl. ferðum.

*Þegar hálkan er minni en samt til staðar skal ganga í hliðarhalla með því að snúa "efri" fæti, þ.e. fætinum sem er ofar í brekkunni í göngustefnu en "neðri" fæti um 45° niður í móti til að nýta betur yfirborð broddana og hafa meira vald/öryggi á göngunni. Með því að ganga zikkzakk upp brekku er gott að hvíla kálfana með þessu þar sem maður beitir efri og neðri fæti misjafnt eftir því hvernig maður snýr mót hallanundi brekkunni.

*O. m. fl. sem ekki er svigrúm til að taka saman hér - endilega sendið mér línu um mikilvæg atriði sem ég gleymi!


Færið var ekki gott til að æfa ísaxarbremsu þar sem snjórinn var blautur í slagviðrinu en menn eru öllu vanir og létu sig hafa það með hlátrasköllum eins og alltaf ;-)

Tegundir, val og notkun á ísexi:

*Skiptir ekki höfuðmáli lengd ísexinnar. Hér hefur áhrif hvort menn vilja geta stuðst við hana hálfpartinn sem staf (með því að hafa hana langa) eða bera eins létta exi með því að hafa hana stutta.

*Hvort handarband eigi að vera á henni eða ekki þá hefur það kosti og galla. Bandið kemur síður í veg fyrir að viðkomandi missi hana niður brekku ef hún dettur úr hendi (hangir á bandinu) og hún veitir stuðning við klifur (en þá erum við komin í annað en göngu á jökli/harðfenni á fjöllum). Ókostir bandsins eru m. a. þeir að það er óhægt um vik að snúa exinni milli handa eftir því hvorum megin maður snýr að brekkunni (t.d. þegar gengið er zikkzakk) og bandið skapar slysahættu ef viðkomandi rennur af stað og exin slæst til og frá á leiðinni niður og getur slegist illa í viðkomandi.

*O. m. fl. sem ekki er svigrúm til að taka saman hér - endilega sendið mér línu um mikilvæg atriði sem ég gleymi!

Að ganga með ísexi:

*Ef farið er í brodda skal alltaf taka ísexi með í hönd líka því þá er maður kominn í hálkufæri þar sem nauðsynlegt er að geta stöðvað sig með ísaxarbremsu.

*Halda skal í ísexina með breiðara skaftið fram og beittara skaftið snýr aftur (oddurinn) og venja sig á að halda alltaf á henni svona þar sem viðbragðið til ísaxarbremsu liggur beinast við í þessari stöðu.

*Ef gengið er í hliðarhalla skal ísexin ávalt vera í þeirri hendi sem snýr að brekkunni til þess að viðbragðið ef maður dettur sé einfaldara við að grípa til ísaxarbremsu.

*Sé gengið niður brekku getur verið gott að styðja ísexinni aftan við sig til að hafa stuðning/hald.

Ísaxarbremsa

*Ísaxarbremsu er ekki hægt að lýsa - hana verður einfaldlega að æfa verklega!

*Með því að halda alltaf rétt á exinni er maður viðbúinn eins og hægt er að grípa til hennar.

*Mikilvægt að halda henni sem næst brjóstkasanum þegar bremsunni er beitt og missa hana ekki of langt ofan við sig til að geta beitt líkamsþunganum á ísexina - lítið hald í henni ef maður er kominn lengst fyrir neðan exina sjálfa.

*Hinn hlutinn af líkamsþyngdinni á að fara á hnén og lítið/ekkert annað af líkamanum að snerta jörðina - til að láta líkamsþungann liggja á exinni annars vegar og hnjánum hins vegar en þetta getur skipt sköpum upp á að bremsan virki ef hjarnið tekur illa við.

*Broddarnir mega ALDREI snerta jörðina ef maður rennur af stað. Þetta er mikilvægasta viðbragðið því ef broddarnir rekast í hjarnið á hraðferð rennandi niður kastast menn til og fara í loftköstum niður án þess að geta nokkuð stjórnað sér og beitt exinni og geta slasast illa við það - en ekki síður við það að fóturinn mun höggvast móti mótstöðunni þegar broddarnir fara í hjarnið og ökklar eða aðrir hlutar fótar geta brotnað illa.

*Menn þurfa að æfa vel ísaxarbremsu, hún verður þeim eingöngu töm sem æfir hana oft og reglulega við allar aðstæður.

*Nauðsynlegt er að vera jafnvígur á hægri og vinstri hendi og æfa bremsuna á báðum þannig að hún sé manni töm beggja vegna og æfa fall með höfðu niður í móti á maganum og bakinu, fall frá hlið beggja vegna en ekki eingöngu með falli niður í móti á afturendanum eins og einfaldast er að gera.

*Gott er að fara alltaf yfir ísaxarbremsu í hvert skipti sem farið er á brodda og hún tekin í hönd ef menn gera það sjaldan á hverju ári og fyrir þá sem fara reglulega á brodda með ísexi að æfa sig í huganum á göngunni, taka hana í viðbragðsstöðuna önnur hendi á efra skafti og hin á neðra skafti og ísexin ber við brjóstkassa.

*Þegar ísaxarbremsa er æfð er öruggast að vera ekki á broddunum til að auka ekki slysahættuna og velja öruggt æfingasvæði, þ. e. svæði þar sem menn stöðvast sjálfkrafa neðar og ekkert tekur við annað en snjór, hvorki grjót, möl, gljúfur né annað.

*O. m. fl. sem ekki er svigrúm hér til að hafa - endilega sendið mér línu um mikilvæg atriði sem ég gleymi!

Eftir verklegar æfingar fengum við okkur að borða... rennandi blaut og orðin köld undir síðasta sopa... og þá kom sér vel að prófa neyðarskýli sem Jón Heiðar var með til sýna okkur hversu fljótt myndast hiti í skýlinu.... getur komið sér vel í slæmu veðri og hópurinn hitar sér saman við máltíð...

- Sjá vefsíðu Árna hér -

Seinni daginn var allt annað veður og færi... og þá var farið upp að Framsvæðinu í Bláfjöllum með sama jeppaveseninu því þangað er ekki mokað en allt reddaðist þetta með góðum vilja og snarheitum...

Alllir aftur í búnað og nú voru það belti og karabínur og línur þar sem farið var yfir val, ólíkar útgáfur og notkunargildi.

Jöklalínur skulu vera +/-8 - 10 mm þykkar og eru venjulegast um 80 metra með ca 8 m á milli hvers manns ef full lína og leiðsögumaður með sína aukalegu 20 m og flestar eru með smá teygjanleika í sér...en þetta fer að fjálfsögðu eftir fjölda í línu og mörgu fleiru og er breytilegt.

Okkur var sýnt hvernig mönnum er raðað í línur eftir fjölda og hnýttir í karabínuna á beltinu og látin æfa okkur á þessu sem stjórnandi hverrar línu... skipt svo í þrjá hópa og gengið á broddum með exina í línu upp suðurskálina.

Veðrið með eindæmum fallegt og gott og lína þrjú gleymdi sér í vangaveltum um leiðarval, mat á snjóflóðahættu og alls kyns pælingum á meðan hinar línurnar hröðuðu sér upp brekkurnar að snjóhengjunum þar sem við skyldum æfa einfalda sprungubjörgun við fall leiðsögumanns ofan í sprungu.

Efst í langri brekkunni, stuttu eftir að Freyr var búinn að minna okkur á að vera ávalt viðbúin, því þó þetta væri æfing þá gæti hvað sem er gerst og menn runnið af stað... rennur Willi sjálfur af stað niður brekkuna og Súsanna togast ofan af brúninni þaðan sem hún var komin upp en bæði náðu að beita ísaxarbremsunni og leiðsögumaðurinn að grípa í línuna þeim til halds og trausts. Þarna fór eins vel og hægt var en hefði getað farið illa því ef menn ná almennt ekki að stöðva sig með ísaxarbremsunni getur svona lína öll farið af stað niður brekkuna...

Súsanna bólgnaði upp og fékk rispu ofan við efri vör - líklega af ísexinni - en að öðru leyti slapp þetta hjá báðum þó sálin hefði tekið sitt högg - hvílík snerpa hjá þeim báðum, þessum öðlingum !!!

Þetta var djúpa laugin í ísaxarbremsu og við viðruðum atburðinn vel í línu þrjú;-)

Uppi á brúnunum blasti Stóra Kóngsfell, Drottning og Eldborg við... verkefnið síðasta þriðjudag... þar sem lína tvö var að matast þegar lína þrjú drattaðist inn á svæðið...

Lilja Sesselja, Sæmundur, Anton, Gunnar og Anna Sigga.

Sólsetrið ægifagurt... jebb, það er þetta sem við höfum verið að missa af vikum saman á fjöllum á þriðjudögum í hverju slagviðrinu eða hvassviðrinu á eftir öðru... nú, já, það er þess vegna sem þriðjudagarnir eru kallaðir æfingar... til að þjálfa sig í slæmu veðri... laugardagarnir svo til að uppskera í góðu veðri... það hlaut að vera... en smá svekk að finna hvers lags dýrð þetta er sem við höfum ekki fengið að njóta á þriðjudagskvöldum það sem af er vetrar á árinu 2012...

Eftir matarpásu var komið að einfaldri sprungubjörgun við fall leiðsögumanns ofan í sprungu þar sem fleiri en ein lína eru með í för. Við förum svo á sérstakt námskeið síðar þar sem farið er í allar gerðir sprungubjörgunar á jökli en til þess þarf heilt námskeið.

Tvær línur æfðu björgunina í senn og þriðja línan horfði á á meðan
og var björgunin framkvæmd þrisvar svo allar línur æfðu hvert hlutverk
en Gummi, Jón Atli og Ari tóku að sér hlutverk þess sem féll ofan í sprunguna...

Fyrstur var Gummi leiðsögumaður sem var látinn falla niður um snjóhengjuna og hans lína fékk þá kipp opg þurfti að halda honum með því að veita viðnám... Sæmundur hér að taka mesta höggið sem fyrsti maður á eftir leiðsögumanni og svo dreifðist þunginn á línuna eftir fjarlægð...

Á meðan fer önnur lína - björgunarlínan - leiðsögumaðurinn þar nálgast brúnina varlega þar sem yfirleitt er snjóhengja á brúninni og sprungan liggur breiðari innan undir snjónum - notar til þess snjóflóðastöng til að kanna snjóalög og finna hvar fasta landinu sleppir til að gæta að eigin öryggi - grefur þá með skóflu úr brúninni til að bandið grafist ekki eins mikið inn, setur svo bakpoka, skóflu eða annað til stuðnings til að línan skerist ekki inn í meðan á björgun stendur - leiðsögumaður sendir aukaspotta niður til þess sem féll ofan í sprunguna með hnút (aukalínan sem leiðsögumaðurinn er með hjá sér í pokanum (þessa 20 metra)) en hann mælir út circa hversu langan spotta þarf miðað við hvar sprungumaðurinn er farinn langt niður - setur karabínu á hnútinn og sá sem féll nælir karabínuna á sama stað á beltinu og hina karabínuna - tryggja skal með spurningu til sprungumannsins hvort karabínan sé örugglega læst og með samfelldu átaki björgunarlínunnar í nokkrum áföngum þar sem fremsti maður í björgunarlínunni kallar "bakka" er maðurinn smám saman togaður upp úr sprungunni - mikilvægt að allir kalli skipun fremsta manns aftar á næsta mann, menn séu samtaka, veiti gott viðnám og taki hlutverk sitt alvarlega svo allt fari vel . Á meðan heldur lína sprungumannsins vel í og tryggir að hann falli ekki neðar ef eitthvað mistekst við björgunarlínuna (t.d. við að festa sjálfur aukaspottann í sig). Til eru svo margar aðrar gerðir sprungubjörgunar sem fara þarf yfir á sérnámskeiði sem við tökum síðar eftir því hvort menn eru eingöngu tveir saman á göngu, ein lína á göngu etc.

ATH - laga þetta - bæta við og fara yfir!

Umræður sköpuðust við viðbrögð við falli leiðsögumanns ofan í sprungu ef eingöngu er um eina línu að ræða. Í því tilfelli skulu allir stöðva sig strax og veita honum viðnám - gefa honum svigrúm til að athafna sig upp úr sprungunni sjálfur, alls ekki fara úr línunni til að kanna með leiðsögumanninn né toga leiðsögumanninn upp úr sprungunni sem lína í heild, heldur gefa honum góðan tíma til að koma sér upp - þeir eiga allir að vera búnir að læra og þjálfa það að koma sér úr sprungu án aðstoðar.

Ef hópurinn togar þann sem fellur ofan í sprungu upp úr án hans samráðs eru mesta líkur á að hann stoppi efst neðan við sprunguopið á snjóhengjunni sem yfirleitt slútir yfir sprunguopinu og getur þetta valdið áverkum á leiðsögumanni og gert honum í raun ókleift að komast framhjá og upp á brúnina.

Sjá ferðasöguna þegar Soffía Rósa Toppfari og fleiri lentu í þessu atviki á Hvanndalshnúk 2009 þar sem hlutirnir fóru vel að lokum en ekki leit vel út meðan á því stóð þar sem þau urðu viðskila við meginhópinn, lentu í arfaslæmu veðri og engu skyggni, og þau biðu lengi að þeim fannst þangað til hann var kominn úr sprungunni  en leiðsögumaðurinn varð að láta pakpokann falla niður í sprunguna af því hann var togaður upp af hópnum undir hengjuna en þá fór gps-tækið hans með:

http://gbo.blog.is/blog/gbo/entry/521774/

http://mbl.is/greinasafn/grein/1210894/

Á leiðinni niður til baka að bílunum ofan af Bláfjallahrygg... já, við vorum sem sé stödd á okkar kæra Bláfjallahrygg sem við þræddum okkur um í jólatindferðini 2009 í engu skyggni og slæmu veðri ;-)...

... fórum við á ísaxarbremsunni einni saman inn í myrkrið... þar sem aðstæður gátu ekki verið betri...reyndar svo hált að maður var smeykur á köflum... og er allur lemstraður eftir átökin... með harðsperrur og allt saman... en mikið gott að geta æft þetta eftir kennslu gærdagsins...

Kæru Freyr, Gummi og Jón Heiðar:

Hjartansþakkir fyrir framúrskarandi gott námskeið. Við lærðum heilmikið í dúndrandi stemmningu bæði kvöldin og verðum dugleg að rifja upp fróðleikinn og viðhalda þekkingunni... í bígerð eru árleg vetrarfjallamennskunámskeið með þessu laginu þar sem farið verður í mat á snjóflóðahættu og viðbragði við snjóflóðum, frekari sprungubjörgun o.fl... og þjálfari gælir við hugmyndir um haustferð í ísklifur á Sólheimajökli...

Framundan eru spennandi jöklagöngur á Eyjafjallajökul, Snæfellsjökul, Þverártindsegg, Eiríksjökul og Kverkfjöll.. látum okkur dreyma um góða daga og tækifæri til að nýta vel það sem við lærðum þessi tvö kvöld með frámúrskarandi kennurum.

Sjá frábæra samantekt Gylfa af ýmsum atriðum frá námskeiðinu af Youtube:
Endilega bæta í eigið safn og deila á fésbókinni:

http://www.youtube.com/playlist?list=PLC3A2B3459411B2C5

Og skínandi góðar myndirnar hans: http://gylfigylfason.123.is/album/default.aspx?aid=224159&lang=en

ATH! Þessi texti er unninn í flýti og þarfnast viðbóta og leiðréttinga -
 - endilega sendið ykkar athugasemdir og pælingar - laga þetta og klára um helgina eða eftir helgi!

 

 

Drottning og Stóra Kóngsfell
... í enn einni skíðagleraugnagöngunni... og dularfullum rafstraumum...

Þriðjudaginn 13. mars mættu 38 manns til göngu á Eldborg, Drottningu og Stóra Kóngsfell í Bláfjöllum með enn eina rysjóttu veðurspánna yfir höfðinu... en þann dag gekk á með éljum á milli þess sem vor í lofti lofaði fram úr erminni á sér... og var réttur dagsins nákvæmlega svoleiðis...

Fyrsta hluta göngunnar um Eldborg og Drottningu gekk á með hvassri snjóhríð svo skíðagleraugun fór á andlitið í upphafi... en svo gengum við inn í betra veður það sem eftir leið á hæsta fjalli kvöldsins, kónginum... og enduðum í veðurblíðu svo það var varla að menn væru saddir eftir göngu kvöldsins...

Gangan um fagran gígbarm Eldborgarinnar var fínasta upphitun en á þessum kafla gerðust þeir sérkennilegu atburðir að nokkrir fundu fyrir litlum rafstraumum eða hvernig sem skal orða þetta... upp með fótum eða á baki, þ.m.t. aftasti þjálfari og verður þetta að teljast rannsóknarefni þar sem við ætlum að leita skýringa á þessu.. nánar síðar en við fyrstu sýn virðist þetta hafa tengst leiðni um málm (hálkubroddar og málmsleðar á bakpoka) en þó ekki þar sem einhverjir voru ekki með broddana á sér.

Eftir Eldborgina var leitað skjóls og hópurinn þjappaður saman með alla eftirfara innanborðs nema Anton...

...sem skilaði sér upp síðustu metrana á Drottningu og var fagnað innilega...

Upp drottningu var þétt farið en færið gott í mjúkum snjónum og hörðu grjóti...

Enn hvasst og úrkoma þar í 526 m mældri hæð í það skiptið...

 ...og við tókum hópmynd í hamnum:

Anton, Ágústa, Ásaug, Ástríður, Bára, Björgvin, Björn E., Brynja, Dóra, Guðlaug, Guðmundur, Gylfi, Halldóra Á., Herdís, Hugrún, Inga Þóra, Jakob, Jóhann Pétur, Jóhanna Fríða, Jóhanna Karlotta, Jóna, Katrín, Kjartan, Kristjana, Lilja Sesselja, Ninni, Ólafur, Ósk, Rannveig, Rikki, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Steinunn, Súsanna, Sylvía, Sæmundur og Örn.

Niður Drottningu er þessi líka skemmtilegi snjóskafl sem við renndum okkur niður alla leið á fljúgandi fart... eða gengum í mjúkum skrefum... snjórinn mismjúkur, misaurugur en blautur og vel þjappaður...

Yfir hraunið var farið að fjallsrótum Stóra Kóngsfells...

...en þjálfari hafði varað við gjótunum sem þar liggja á milli sem var líklega óþarfi... allt fullt af snjó þó vel geti reyndar leynst djúpir skaflar þar innan um og snjóbrýr yfir gjóturnar sem við höfum kynnst af eigin raun að geta verið varasamar sbr. gangan á Geitafell forðum daga...

Fararstjóri fór aðra leið en vanalega eða fyrr upp hlíðar Stóra Kóngsfells til tilbreytingar...

... og reyndist hún fínasta leið þar sem við gengum þá undir klettunum
sem vanalega eru "vinstri/vestari-sneiddir" framhjá í fyrri ferðum...

Áslaug skartaði sínum fegursta fjallgöngubúnaði... ;-)

... glænýjum, alstífum Skarpa-skóm sem eru að hennan sögn dásamlega hlýir...
Karlaskórnir eru appelsínugulir og hafa sést á fótum nokkurra karlkyns-Toppfara...

Ágætis skjól gafst í miðri hlíð Stóra Kóngsfell og þar fengu menn sér nesti áður en haldið var á tindinn...með útsýni yfir skíðasvæði Bláfjalla þar sem var líf og fjör þrátt fyrir hryssinginn... það voru greinilega fleiri en við sem létu veðrið ekki stoppa sig og fannst jafnvel ekkert að þessu veðri... eeeeekki eftir Hafnarfjallið...

Útsýnið ofan af Stóra Kóngsfelli er frábært... Þríhnúkar, Helgafell í Hafnarfirði og Húsfell eins og málverk í vestri...

...höfuðborgin, Esjufjallgarðurinn, Hengillinn og svo Vífilsfell í austri sem hér sést í fjarska...

Næst förum við á þessi fjöll síðla sumars með mosann og hraunið glitrandi fagurt...
...þar sem eldsumbrot svæðisins sjást vel úr þessari hæð...
... í friðsælu sólarveðri...

Niður var farið bratta leið um frosið grjót og mismjúkar skriður og góðan snjóskafl neðar...

... og meðfram Drottningu til baka með Stóra Kóngsfell hér í baksýn....

... á spjallinu sem aldrei fyrr að rifja upp Toppfara-partýið síðustu helgi hjá Hugrúnu Vasa-göngufara...

og nýuppgötvaðan fjallgönguklúbb í Skotlandi sem Jóhanna Fríða hafði samband við þar sem hún verður þar um þarnæstu helgi að ganga á Tinto Hill sama dag og við ætlum um Flekkudal Esjunnar... en þetta gæti verið fyrstu skrefin að myndun vina-fjallgönguklúbbs þar sem við fengjum skoska gesti og yrðum Skotfarar með heimsókn til þeirra og hvað eina...

Sjá frábæra vefsíðu þeirra: http://www.glasgowhmc.org.uk/index.php#M110-5400670760_13339dcd88_z

... og viti menn... Skotarnir fóru á vetrarfjallamensnkunámskeið í febrúar... hér eru nokkrar myndir frá því:
http://www.glasgowhmc.org.uk/photo-gallery/2012/winter-skills-february.html#65-IMG_0145

en aftur til Íslands...
Alls 4,2 km á 2:02 klst. upp í 472 m á Eldborg, 526 m á Drottningu og 600 m á Stóra Kóngsfelli með 387 m hækkun alls milli fjalla miðað við 430 m upphafshæð.

Blákollur, Svörtutindar, Rauðahnúkafjall og Skálafjall á dagskrá á laugardaginn í loksins góðu gönguveðri... við getum allt ef við göngum vikulega í gegnum svona veður og færð eins og þetta þó saklausa kvöld í Bláfjöllum...

Næsta þriðjudag og miðvikudag er svo vetrarfjallamennskunámskeið sem við mælum með fyrir alla Toppfara en þeir sem ekki komast eða vilja fjallgöngu frekar fara á Esjuna á eigin vegum eða eftir lyst eitthvurt annað ;-)

 

 

Hafnarfjallsöxl syðri
... í mestu veðurhremmingum á þriðjudagsgöngu til þessa..

Þriðjudaginn 6. mars 2012 bættu Toppfarar við nýjum tindi á Hafnarfjallssvæðinu með göngu á Hafnarfjallsöxlina sunnan megin frá Hafnardal og lentu í hróplegum andstæðum veðurs... þar sem lagt var af stað í lygnu og úrkomulitlu veðri í ágætis færi alla leið upp á efstu tinda axlarinnar og rétt áleiðis til baka... þar sem skyndilega varð alger viðsnúningur á veðri og á okkur skall hvassviðri í litlu sem engu skyggni, vaxandi myrkri og hálku ofan á brúnunum í tæplega 600 m hæð... og verða þessar aðstæður að teljast þær erfiðustu hingað til á þriðjudagsæfingu þar sem margt kom til, þ. e. hvass vindur, skafrenningur, snjókóf í fangið, ískuldi, ekkert skyggni á köflum, rökkur og svo myrkur og loks hálka í hliðarhalla eða klöngri á köflum...

Lagt var af stað neðan við sumarhúsin norðan megin Hafnarárinnar í mynni Hafnardals með verkefni dagsins; brúnir Hafnarfjallsaxlarinnar á vinstri hönd... en við áttum ekki bara stefnumót við tindinn þann því Anton var þarna ofar... hafði ruglað eitthvað í klukkunni sinni og lagt af stað um hálftíma á undan hópnum... hröðum skrefum í þeim tilgangi að ná hópnum sem hann taldi að hefði farið á undan sér... en komist að því í símtali við þjálfara stuttu síðar þegar honum var farið að lengja eftir okkur á miðri leið að svo var ekki, heldur hafði hann farið á undan... en þá var hann kominn svo langt upp eftir að það tók því ekki fyrir hann að snúa við og bíða okkar heldur halda áfram og hitta á okkur uppi á hryggnum.. svo fór þó aldrei og við fundum Anton hvergi uppi á fjallli sem olli okkur miklu hugarangri þegar veðrið versnaði... en auðvitað skilaði hann sér til baka, heljarmennið, án gps með Dimmu sér við hlið...

 Á hægri hönd inn Hafnardalinn var og verkefni næstkomandi laugardags - ef veður leyfir -  Blákollur í allri sinni dýrð... þar sem við ætlum reyndar ekki að þræða okkur upp vesturbrúnirnar sem hér sjást heldur þær austari frá Hálgsili í góðu færi alla leið, þar sem könnunarleiðangur þjálfara um síðustu helgi leiddi í ljós stórar glerharðar snjófannir frá efsta hluta Blákolls þar sem ekkert dugar annað en jöklabroddar og ísexi enda slysahætta talsverð í þessum bratta sem þar er efst við þær aðstæður...

En... þetta þriðjudagskvöld var færið gott gegnum kjarrið og inn gljúfur Hafnardals... blautur, ferskur snjór...

Lygnt veður og ansi heitt til að byrja með upp fyrstu brekkurnar sem teknar voru rösklega í vel þjálfuðum hópi...

Frekar fáir mættir þetta kvöld þar sem veðurútlit var ekki sérlega gott eða 29 manns en þjálfarar höfðu gefið færi á Esjunni sem varaleið ef veðurspá lofaði ekki sæmilegu og enduðu einhverjir á að fara þangað þó þjálfarar enduðu á að halda sig við planið...

...en á Hafnarfjallið mættu þau:

Alma, Anna Sigga, Anton, Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björn E., Guðlaug, Guðmundur, Gurra, Gylfi, Hólmfríður, Hrafnkell, Ingi, Ísleifur, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Fríða, Jóhannes, Katrín, Lilja Kr., Lilja Sesselja, Ósk, Simmi, Stefán, Súsanna, Thomas, Torfi, Willi og Örn ásamt Dimmu, Mola og Skugga...

Grátlega lítið skyggni þetta kvöld á þessum fögrum útsýnisslóðum
þar sem draumurinn var náttúrlega að ganga í sólarlaginu sem gefist hefði yfir útbreiddum sjónum í suðvestri...
... ef veðurguðirnir hefðu verið í lágstemmdu stuði en ekki svona hástemmdu þetta kvöld...

...svo í staðinn fengum við lágskýjað til að byrja með og snjómuggu ofar...

Gylfi, Ósk, Ingi, Ísleifur, Ásta Guðrún, Simmi, Jóhann Ísfeld, Súsanna, Anna Sigga, Guðmundur og Thomas...
... með ávæning af því sem
útsýnið er ofan af fyrsta góða útsýnisstað Hafnarfjallsaxlarinnar...

Þegar komið var á hrygginn sjálfan efst tók létt úrkomuþokan við...

...og við þræddum okkur eftir hryggnum í ágætis færi og góðu veðri enn sem komið var...

Fljótlega komin á næst hæsta tindinn á hryggnum en í þessu góða veðri vildum við rekja okkur eftir honum öllum þar til hann lækkaði norðan megin niður í dalverpið sem aðskilur Hafnarfjallsöxl syðri frá Hafnarfjallsöxl nyrðri ef svo má kalla þessar vesturbrúnir Hafnarfjallsins...

En á þeirri nyrðri stendur Vesturhnúkur Hafnarfjalls þar sem við höfum nokkrum sinnum komið við á þriðjudagsgöngum eða í tindferðum... en alla leið þangað gekk Anton þetta kvöld áður en hann sneri við...

Á efsta tindi gafst smá innsýn inn í hrikalegt landslagið á hryggnum sem lofaði svo góðu að þessi gönguleið verður aftur sett á dagskrá á næsta ári...og þá að sumri til því þetta verðum við að fá að skoða í almennilegu veðri...

Á norðurenda syðri axlarinnar snerum við við en áhyggjurnar af Antoni uxu jafnt og þétt þar sem ekkert sást til hans nema spor áfram eftir og niður um hrygginn þar sem hann lækkar heilmikið áður en hann heldur áfram nyrðri hluta sinn að Vesturhnúk... Jóhannes fjallamaður með meiru og björgunarsveitarmaður afréð að fara á eftir honum út eftir en sneri fljótlega við þar sem hvorki sást tangur né tetur af Tona... og þjálfari lét Tona vita að Jóhannes væri á leiðinni til hans en hann sá hann aldrei...

Í bakaleiðinni leituðum við skjóls fyrir nestispásu sem gafst ágætlega stuttu eftir að við snerum við en þá var veðrið farið að harðna og menn vildu lítið staldra við í kulda og vindi sem fór að láta á sér kræla enda vorum við þegar efst lét í 591 m mældri hæð skv. gps.

Nánast eins og hendi væri veifað skall á okkur afar slæmt veður með hvössum hliðarvindi úr vestri og suðvestri þar sem léttur snjórinn ofan af hömrunum og brúnunum skall á okkur með litlu sem engu skyggni þar sem sérlega erfitt var að sjá nokkuð út úr landslaginu... en fararstjóri rakti hópinn til baka sömu leið enda fljótlegra og öruggara að ganga með hryggnum frekar en í miklum hliðarhalla austan megin við hann... þó það hafi verið freistandi þar sem þar var eflaust meira skjól... en reynt var að leita skjóls austan við hrygginn eins og hægt var án þess að tapa áttum og gekk þetta vel til baka með reglulegum hléum til að þétta hópinn því fljótt greindist á milli manna og erfitt að tryggja að allir héldu hópinn enda var aftari lestarstjórinn strangur sem ljón við hjörðina við víðsjárverðar aðstæður þar sem lítið má út af bregða til að illa fari ef menn tapa hópnum...

Þegar eitthvað skyggni gafst á sekúndubrotum á köflum var landslagið kunnuglegt og fyrir þá sem venja sig á að lesa vel í landslagið á uppleið (sem er alltaf góð regla til að eiga auðveldara með að rekja sig til baka ef eitthvað bregst eins og gps-tækin geta t.d. gert) - var hægt að átta sig á hvar við vorum stödd hverju sinni og var slík sýn bundin feginleik á millli þess sem ekkert sást og erfitt að átta sig á staðsetningunni nema með gps... en Gylfi skáti og björgunarsveitarmaður stillti upp blikkandi höfuðljósi á síðasta kaflanum Antoni  til leiðbeiningar niður síðasta klaflann... en hann ásamt Inga ofl. hafði boðist til að bíða eftir Antoni í bakaleiðinni en þjálfari hreinlega bannað það með þá skýru ætlun að það væri forgangur að koma öllum hópnum heilum niður... áður en við færum að leita Antons... vitandi fyrir víst að ef menn halda ekki hópinn við erfiðar aðstæður eins og þessr eru hlutirnir fljótir að fara illa....

Uppi á hryggnum í tæplega 600 m hæð voru aðstæður verstar en fljótlega eftir að við tókum að lækka okkur niður af honum að stallinum við fyrsta útsýnisstaðinn skánaði veðri... en farið var beinustu leið niður að gljúfrinu til að spara tíma og var hún bundin létti sýnin niður til ljósa í byggð og á þjóðvegi í suðvestri... hvað þá þegar dökkur hryggur Blákolls staðfesti hversu stuttu var eftir niður eftir gilinu þar sem lítið mál var að fóta sig út eftir um kjarrið að bílunum... bílum sem NB voru límdir þekjandi snjóhríminu sem lamist hafði á þá í versta vindinum og úrkomunni meðan við vorum þarna uppi... og var skýrt til marks um þann veðurham sem þarna hafði geysað þegar verst lét...

Anton skilaði sér korteri á eftir okkur niður... og vorum við afskaplega fegin að sjá hann en hann hafði verið í stopulu gsm-sambandi við þjálfara allan tímann eins og samband, færi og aðstæður buðu upp á... og var aldrei í vandræðum þó hann lenti í erfiðu færi á köflum þar sem hálkubroddarnir dugðu varla... ekki með gps sem er ekki líkt honum... en ef rétt reiknast út frá kortum þá gekk hann um 4 km lengri vegalengd en við með talsvert mikilli hækkun og hækkun milli þessara tveggja axla fram og til baka... einn í myrkrinu og skafrenningnum... geri aðrir betur einir á ferð... það er nefnilega lítið mál að ganga á eftir margmenni þar sem menn og ljós þeirra lýsa upp það sem er framundan í samanburði við að ganga fremstur eða einn með sortan einan í veðurhamnum fyrir framan sig... en þjálfarar og fleiri í hópnum voru farnir að undirbúa leiðangur út eftir að leita hans og jafnvel kalla á utanaðkomandi aðstoð... það var því mikill léttir að sjá þennan mann... einn af sterkustu, jákvæðustu, eljusömustu, áræðnustu og tryggustu göngumönnum klúbbsins skila sér úr hremmingum veðursins á Hafnarfjalli þetta kvöld ;-)


Gylfi benti á fésbókinni á veðurathuganir Veðurstofunnar undir Hafnarfjalli þetta kvöld
þar sem glögglega
sést hvernig veðrið breyttist frá logni kl. 18:00 í 11-17 m/s kl. 21:00.

Það var svo satt best að segja jafn mikill léttir að skila öllum hópnum niður við þessar mjög svo krefjandi aðstæður þetta kvöld sem reyndu eflaust vel á hvern einasta mann en vonandi eingöngu til góðs því það er dýrmætt að lenda í erfiðum aðstæður á fjöllum til að kynnast því raunverulega hvers maður er megnugur, hvernig búnaðurinn virkar þegar virkilega reynir á hann og hversu mikilvægt það er að vera alltaf við öllu búinn, því svo sannarlega komast menn fljótlega að því við reglulega ástundun fjallamennku að alltaf getur brugðið til beggja vona á fjöllum með veður, skyggni, göngufæri og annað sem komið getur upp á... þá skiptir mestu að standa saman, bregðast við sem einn maður, hlýða fararstjóra, halda þétt hópinn, hjálpast að, sýna stillingu og yfirvegun og bíta á jaxlinn þangað til komið er í öruggar aðstæður... eins og þessi hópur gerði þetta kvöld svo aðdáunarvert má teljast...

 

Sjá þversnið af göngu kvöldsins þar sem sést hvernig við fórum upp á fjóra eiginlega hnúka
og sá hæsti var síðastur (591 m) og sá næsthæsti fyrstur (580 m)
... í mun fallegra landslagi en halda má úr fjarlægð... þarna verðum við að koma aftur.. !

Alls 6,8 km á 3:03 klst. upp í 591 m hæð með 796 m hækkun alls miðað við 66 m upphafshæð.

Sjá gönguleið dagsins í hlutfalli við allt Hafnarfjallssvæðið þar sem níu tindar Hafnarfjalls að okkar hætti sjást fyrir miðri mynd, Hróarstindar hægra megin, Blákollur neðst og Hafnarfjallsöxlin vinstra megin... Takið eftir Vesturhnúk vinstra megin ofar, en alla leið þangað fór Anton og til baka í samanburði við okkar svörtu leið. Sjá einnig hvernig við styttum bakaleiðina niður í gilið og slepptum króknum inn eftir dalnum.

Þetta kvöld voru lexíurnar margar:

*Veðrið getur versnað skyndilega og skollið fyrirvaralaust á: Veðurútlit var ekki sérlega gott þetta kvöld og skv. vindaspá átti að koma vindbelti með yfir 15 m/s á 2 - 3 klst-kafla yfir svæðið upp úr sexleytinu en þjálfarar afréðu að halda plani þar sem þeir ætluðu þá eingöngu að fara upp á fyrsta tind á hryggnum og til baka í þessu veðri, leiðin er einföld rötunarlega séð og einfalt að snúa við eða leita í skjól niður í Gildalinn austan megin við hrygginn og var ætlunin að snúa snarlega við ef veðrið versnaði sem gerðist mun hraðar en við áttum von á, fyrir utan hversu blekkjandi það var að veðrið var mun betra en við áttum von á í upphafi göngu og olli því að við leyfðum okkur að fara þetta langt inn eftir öllum hryggnum í stað þess að fara eingöngu upp á fyrri efsta tindinn eins og planið var miðað við veðurpá... enda var ætlunin aldrei að lenda í svona slæmu veðri þetta hátt uppi.

*Rötunarleg séð var þetta einföld leið þar sem hægt er að rekja sig eftir hryggnum fram og til baka allan tímann beinustu leið frá norðri til suðurs og öfugt og nota hrygginn/brúnirnar, þjóðveginn (hljóð og ljós), Blákoll, Giljatungu og Hafnardalinn sem kennileiti auk þess sem við vorum með Gildal til vara fyrir skjól ef veður yrði erfitt (spáð vestan- og vestsuðvestanátt - sem NB er hægt að nota sem kennileiti líka í slæmu skyggni, þ.e. vindáttina og hvaðan vindurinn kemur miðað við spánna, þó það geti brugðist í fjallasal eins og þessum þar sem vindarnir snúast auðveldlega, en með tímanum er hægt að þróa með sér tilfinningu fyrir því að lesa í skýra vindátt og óstöðuga fjallavindátt)... en... talandi um Gildal sem sé þar sem alltaf hefði verið hægt að leita niður í hann, þá gat það verið um leið varasöm varaleið að ákveðnu leyti því harðar fannir geta alltaf leynst í svona hlíðum sem geta verið varasamar ef um langar hlíðar er að ræða ef menn renna af stað, sérstaklega í myrkri eða erfiðu skyggni þar sem erfitt er að hafa yfirsýn yfir hópinn og stjórn á aðstæðum.

- Þjálfarar hafa tamið sér að merkja nokkra gps-punkta á leiðum sínum sem þeir rekja sig eftir til baka ef skyggni verður slæmt. Þetta kvöld var annar þeirra með merkta þrjá tinda og suðurendann á hryggnum sjálfum en hefðu eftir á að hyggja viljað báðir hafa merkt þessa punkta og eins eiga fleiri punkta á uppgönguleiðinni af hryggnum... en þegar landslagið er augljóst freistast maður til að finnast óþarfi að merkja punkta inn á svona leið... en greinilega er alltaf gott að hafa krítíska punkta merkta inn ef skyggni verður bókstaflega ekkert eins og þetta kvöld. Kosturinn við að elta punkt á gps frekar en notast við "trackback" eða elta "route" eða "track" er sá að sjaldnar þarf að horfa á gps- tækið að okkar mati (sem var erfitt þetta kvöld vegna veðurhamsins) og nóg að fylgjast með því að maður sé að ganga í rétta átt - en kannski eru ekki allir sammála þessu. Punktakerfið krefst þess engu að síður þá að allar hindranir þarf að merkja inn svo ekki sé verið að fara beinustu leið milli tveggja punkta yfir skyndilega hindrun eins og hamra, hengju, gil, vatn, ár etc heldur þarf þá sá krókur að vera merktur inn til að tryggja að maður beygi frá þeirri hindrun. Þessi umræða er botnlaus.... þ. e. hvernig er best að nýta gps-tækið til rötunar, sitt sýnist hverjum og menn temja sér ólík vinnubrögð, sumum finnst t. d. best að fylgja tracki eða trackback enda öruggasta leiðin til að tryggja að maður sé stöðugt að fylgja sömu slóð til baka.

- Að okkar mati er farsælast af öllu er að temja sér rötun án gps og horfa á tækið eingöngu sem öryggisventil - þróa stöðugt með sér tilfinningu fyrir landslaginu og tracka/rekja það inn í minnið hvar sem gengið er þannig að maður geti rakið sig til baka eftir minni og tilfinningu fyrir landslaginu, þ. e. leggja öll kennileiti á minnið og kortleggja landslagið í minnið. Þetta hafa þjálfarar meðvitað reynt að temja sér alla tíð fremur en að reiða sig um of á gps og reynst vel því það sparar vinnu við rötun (þurfa ekki stöðugt að horfa á gps-tækið) og má með sanni segja að þessi "náttúrulega kortlagning í minni" reynist vel þegar gengið er á sömu slóðum nokkrum sinnum og aldrei þarf að líta á gps-tæki til rötuna þrátt fyrir slæmt veður eða lélegt skyggni. Þetta kvöld gekk fararstjóri fyrst og fremst eftir minni en hefði ekki viljað vera án gps sem staðfesti reglulega á tveimur tækjum hvar við vorum stödd þar sem Örn og Jóhannes báru reglulega saman slóðina sem gengið var um en við erfiðar aðstæður eins og þessar þar sem menn geta verið fljótir að afvegaleiðast eða efast um hvar þeir séu staddir, er dýrmætt að vera fleiri en einn að einbeita sér að rötun og fá reglulega staðfestingu frá öðrum um að maður sé á réttri leið eins og aftasti fararstjóri gerði einnig í öllum pásum. Þess skal að lokum getið að Anton var ekki með gps-tækið sitt aldrei þessu vant, en náði að fara alla þessa leið einsamall í þessu veðri og skyggni sem segir margt um hvernig vanir menn geta gengið rétta leið eftir minni og eigin kortlagningu á landslaginu. Þá væri forvitnilegt að vita hvort Dimma hafi eitthvað aðstoðað við rötun, geta hundar það? - meira um það síðar þegar Anton hefur frætt okkur um það!

*Þessi ganga kenndi mönnum vel hversu mikilvægt það er að vera með allan búnað með sér óháð veðri og veðurútliti, maður veit aldrei. Skíðagleraugu, lambhúshetta, hlýir ullarvettlingar undir skjólgóðum belgvettlingum, gott höfuðljós, varabatterí (jafnvel varaljós), hálkubroddar, góður hlífðarfatnaður (með hettu!) o.s.frv... og hlý varaföt í bakpokanum ásamt vara-orkubirgðum (því maður veit aldrei hvenær maður lendir í að þurfa að halda kyrru fyrir klukkustundum saman á fjalli)... eru alltaf nauðsynlegur búnaður að vetri til... Eftir fimm ár í stanslausum fjallgöngum taka þjálfarar t.d. aldrei höfuðljós né vetrarbúnað eins og skíðagleraugu, ullarvettlinga, hlífðarvettlinga, lambhúshettu... upp úr bakpokanum... þetta ætti að vera staðalbúnaður að vetri til, í öllum tindferðum allt árið og í öllum sumarkvöldgöngum á há fjöll í yfir 800 m... NB þó að sumri sé eins og reynslan hefur sýnt okkur t. d. á Heiðarhorni í lok júní í fyrra þar sem nístingskuldi, vindur og hálka var uppi í þúsund metra hæð og á Hlöðufell í júlí 2009 þar sem harðir snjóskaflar töfðu för... o.m.fl.

*Það reynir sem aldrei fyrr á hversu erfitt það er um vik að stússast í búnaði sínum þegar veðrið er sem verst... það er auðvelt að opna bakpokann og ná í hluti, laga þá til og klæða sig í og úr þegar veðrið er gott... allt annað mál þegar veðrið er erfitt og einföld aðgerð eins og að skipta um vettlinga, renna upp rennilás, stilla höfuðljósið o.fl. getur nánast orðið óyfirstíganleg þegar kuldi, vindur, úrkoma, myrkur flækir málin og þá er nauðsynlegt að vera með alla hluti á réttum stað, vera búinn að græja sig áður en veðrið versnar, vera alltaf með ljósið tilbúið á hálsi eða höfði ef von er á myrkri síðari hluta göngunnar en ekki lengst ofan í pokanum, með aukavettlingana á aðgengilegum stað, með batterí í vasanum en ekki lengst ofan í bakpokanum ef maður á von á að þurfa að skipta í göngunni, vera alltaf með sömu hlutina á sama stað í bakpokanum svo maður þurfi ekki að leita að þeim né rifja upp hvar maður setti þá síðast... vera búinn að temja sér fumlaus og einföld handbrögð við alla umgengni með búnaðinn sinn og gjörþekkja hann... en þetta næst best með því að ganga sem oftast, nota búnaðinn sem mest og mæta í öllum veðrum...

*Þegar skyggni er mjög lélegt og veður slæmt er mikilvægast af öllu að halda hópinn. Ef menn verða viðskila við hópinn eða hluti hópsins missir af fremri mönnum er voðinn vís - því til að byrja með getur það uppgötvast seint að einhverja vantar, þeir sem eru í miðjum hópi geta orðið viðskila við bæði fremsta hóp og aftasta (sbr Skessuhorns-kvöldgönguna 2010) og allir tefjast við að finna þá sem týnast en það getur verið mjög erfitt að halda öllum gangandi og í lagi í slæmu veðri á sama stað meðan verið er að leita. Slíkar aðstæður flækjast mjög fljótt, fleiri týnast og eru mörg dæmi um óhöpp á fjöllum þar sem fleiri lenda í valnum en sá sem upphaflega tefst eða slasast þar sem það reynir á alla að halda kyrru fyrir á sama stað við erfiðar aðstæður. Aftari þjálfari var mjög strangur við að skipa mönnum að halda hópinn - eins og áður hefur gerst í erfiðum ferðum sbr. t.d. gosgönguna 2010 - vitandi vel að það er ekki þægilegt að vera að laga búnaðinn sinn og láta reka á eftir sér í leiðinni en vonandi skilja allir að þess þurfti. Það er okkar mat að við svona aðstæður verða allir að ganga sem einn maður og ef menn þurfa að laga ljós, vettlinga, hettu eða annað þá þurfa allir að vera meðvitaðir um að það sé meiri forgangur að halda hópinn og verða ekki viðskila, með því að ganga áfram og laga hlutina við næsta stopp eða á göngu eins og hægt er sem á að sjálfsögðu ekki alltaf við eins og með hálkubroddana þar sem nauðsynlegt er að stoppa... en það er skiljanlegt að erfitt sé að virða þessa reglu og menn lendi í vandræðum með að halda hópinn þegar verið er að laga búnað eða fatnað... en þá reynir á fararstjórann/þjálfarann að reka á eftir...

- Þegar verst lætur við rötun er það meginhlutverk þjálfara að halda hópnum saman og hann hefur takmarkað svigrúm til að hjálpa einstaka manni um leið og hann þarf að halda yfirsýn yfir allan hópinn og gönguleiðina og því mikilvægt að allir hjálpist að, en það var aðdáunarvert að sjá hversu hjálpsamir menn voru hver við annað enda hagur allra að allir séu í góðum málum (keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn). Í þessu veðri var mjög erfitt að rekja slóð sem strax fennti í enda myrkur og ljósin eiga erfiðara með að skína gegnum skafrenninginn.  Það er því mikilvægt að allir átti sig á því að þó báðir þjálfarar rati til baka þá getur sá síðari ekki vitað hvert sá fremri fer - upp á að halda alveg hópinn í mjög lélegu skyggni og auðvelt að vera viðskila á sama svæði - þó báðir séu á réttri leið. Ef aftari hópur týnir fremri hóp getur sá fremri ekki haldið áfram vitandi ekki hvað varð um aftari hóp (þó sá hópur rati sjálfur til baka) og því býður það upp á mikla erfiðleika fyrir heildina að halda ekki hópinn... fyrir utan að þetta gæti hæglega breyzt í þrjá hópa o.s.frv... - það er því einfaldlega lífsnauðsynlegasti hluturinn af öllu við þessar aðstæðu að halda hópinn allir sem einn.

*Hálkubroddarnir duga vel í þessu færi sem þarna var og engin þörf á jöklabroddum eða ísexi á þessari leið (enda hefði verið mjög erfitt að fóta sig á öllu grjótinu innan um snjóinn á jöklabroddum), en það getur fljótt breyst ef farið er í harða fönn með glerhálku og mikinn hliðarhalla eins og einstaka skaflar gáfu tilefni til að færið gæti farið að breytast í, því þar duga hálkubroddarnir ekki og því héldum við okkur á hryggnum þó fátt benti í raun til að hálkufæri væri neðar, en best að gera alltaf ráð fyrir því enda hægt að lenda í erfiðum glerhörðum snjósköflum hvar sem er þrátt fyrir alls kyns úrkomu og þýðu klukkustundum eða dögum fyrir gönguna, jafnvel á hásumri... En þar sem gengið var í grjóti og snjó og gjarnan í einhverjum hliðarhalla við hrygginn lentu menn sem aldrei fyrr í því að hálkubroddarnir runnu til á skónum og höfum við aldrei þurft jafn oft að laga þá til, en þarna kom til hliðarhallinn, grýtt landslagið, röskleg gangan, hvass hliðarvindurinn og líklega lenda þungstígir einstaklingar frekar í þessu vandamáli en léttstígir... og því ljóst að þrátt fyrir hversu mikið þarfaþing þessir hálkubroddar eru, þeir bókstaflega gera okkur keift að stunda meiri og mun skemmtilegri fjallamennsku að vetri til en ella - við myndum aldrei vilja vera án þeirra... þá eru þeir takmörkunum háðir eins og annar búnaður þ.m.t. NB jöklabroddar sem eru t.d. fljótir að þreyta menn í ökklum (krefjandi í hliðarhalla og grýttu landslagi), valda gjarnan blöðrum hjá fólki sem aldrei fær blöðrur (stífleiki á skóm hafa þar áhrif ofl), gera menn dettnari (broddarnir rekast í eigin skálmar og í jörð)... og þar sem ísexi er komin í hönd (og stafirnir þar með á bakpokann) - sem er skýr vinnureglan með notkun jöklabrodda þar sem menn eiga þá að geta stöðvað sig með ísaxarbremsu - þá verða menn gjarnan óstöðugari við gang þar sem flestir eru mjög vanir göngustöfunum sínum og verða jafnvægislausari eða óstöðugari við gang án þeirra... en allt þetta og fleira til gefur tilefni til að menn æfi sig reglulega á jöklabroddunum almennt og temji sér notkun þeirra ef þeir ætla sér í erfiðar vetrargöngur eða jöklagöngur árum saman! En aftur að hálkubroddunum: Við erum búin að komast að því að best er að vera í hálkubroddum sem eru frekar þéttir utan um skóna þannig að ráðlegast er að kaupa sér frekar brodda í minni stærð en meiri miðað við uppgefna skóstærð;  konur gjarnan frekar í small en medium og karlar gjarnan frekar í medium eða large frekar en large og extra-large.

... og margar fleiri lexíur hvers og eins og hópsins og þjálfara sem ekki er svigrúm hér til að nefna... enda farið hratt yfir í þessari vinnslu !... og þarfnast lagfæringa fram eftir vikunni...

... en allar uppbyggilegar ábendingar, innlegg og lærdómur vel þeginn í umræðuna hér!

Reynslumikil ferð
sem allir mega vera stoltir og ánægðir með að hafa komist í gegnum
og þakklátir fyrir reynsluna sem hún gaf ;-)
 !!! Lexíufjöldi ferðar segir allt um þjálfunarleg gæði hennar ;-) !!!

Þetta var aðdáunarverð frammistaða við krefjandi aðstæður sem gerast ekki mikið erfiðari á fjöllum!

Takk allir
fyrir eljuna, samstöðuna og hjálpsemina...
...sérstaklega Jóhannes, Gylfi, Ingi, Stefán og aðrir sem lögðu sína hönd á plóginn til að allt færi vel ;-)

Sjá frábært myndband sem Gylfi gerði um þessa göngu á Youtube:
http://www.youtube.com/watch?v=pp7hQPUt9uQ&feature=youtu.be&hd=1
 

 

 

Bjartur
Geirmundartindur

Þriðjudaginn 28. febrúar tóku 44 Toppfarar æfingu upp á hæsta tind Akrafjalls í björtu en svölu veðri til að byrja með og fínu skyggni þar sem endað var á skafrenningi og köldum vindi í 644 m hæð...

Lagt var af stað í kærkominni kvöldsólinni sem nú nær að lýsa upp allar æfingar okkar á þriðjudögum allavega hálfa leið
og við nutum lífsins til hins ítrasta í þessu fallega umhverfi sem landslag Akrafjalls og nágrennis býður upp á.

Snjóskaflinn í Skellibrekkum breyttist í jökul þetta kvöld þar sem mönnum varð tíðrætt um jöklagöngurnar framundan sem eru hverri annarri meira spennandi... Eyjafjallajökull... Snæfellsjökull... Þverártindsegg... Eiríksjökull... Kverkfjöll...

Mættir voru:

Efri: Óskar Wild, Jóna, Finnbori, Thomas, Olga Dagmar, Guðjón, Lilja Kr., Örn, Soffía Jóna, ingi, Elsa Þóris, Guðpmundur Jón, Jón St., Willi, Sigga Rósa, Ólafur, Hanna, María S., Sylvía, Björn E., Guðrún Ásta, Rósa, Ástríður, Súsanna, Valgerður L'isa, Ágúst, Anton og Ísleifur.
Neðri: Spá, Dimma, Hjölli, Gunnar, Björn, Sæmundur, Simmi, Gurra, Steinunn, Kjartan, Día,Áslaug, Katrín Kj., Auður, Stefán A., Anna Sigga, María E. og Bára tók mynd.

Gengið var ansi þétt upp með norðvesturbrúnum og vindurinn var í bakið
svo göngutíminn var með eindæmum góður þetta kvöld.

Færið gott til að byrja með í rökum jarðveginum upp að Guðfinnuþúfu áður en gengið var upp í snjólínu.

Snjóhengjur meðfram brúnunum og gæta þurfti sín í vindinum að vera ekki of nálægt
en
Spá og Dimma spáðu lítið í þetta í galsanum sem fylgdi ferfætlingunum allt kvöldið, jafnvel eftir að það dimmdi...


Ágúst, Gunnar, María og Ingi.

Þetta var í sjötta sinn sem við sem hópur göngum á Geirmundartind í alls kyns ferðum að kveldi, degi, sumri sem vetri úr ýmsum áttum á ólíkum gönguleiðum um fjallið... en þó nokkuð margir mættir þetta kvöld voru engu að síður að sigra hæsta tind Akrafjalls í fyrsta sinn... eða sjá hann í einhverju skyggni í fyrsta sinn... eða standa þar í dagsbirtu í fyrsta sinn eða...

Á göngu þetta kvöld var Akurnesingur nokkur einsamall á ferð en hann klöngraðist alla leið upp um Guðfinnuþúfuna og niður hana hinum megin og fór greitt yfir... enda löngu farinn niður þegar við snerum við af tindinum.

Útsýnið stórfenglegt
og skyggni gott en vindurinn blés harðar eftir því sem ofar dró... færið varð hálara og kuldinn beit fastar.

Útsýnið yfir Berjadal til Háahnúks þar sem við göngum eftir þessum brúnum í árlegri aðventugöngu í lok nóvember.
Heldur styttri og léttari gönguleið en í sama gæðaflokki hvað landslag og útsýni varðar...

Við fylgdumst með skýfalli yfir Melasveitinni og Hafnarfjalli
en sluppum sjálf alveg við úrkomu nema rétt efst í skafrenningnum þegar snúið var niður.

Akranes
Heimabær tólf Toppfara sem gætt hafa fjalllgönguklúbbinn ómetanlegri birtu, gleði og galsa ;-)

Stefán, Sæmundur, Anna Sigga, Willi, Áslaug, Óskar Wild, Ingi, Jóna, Auður, Thomas, Steinunn, Elsa, Sigga Rósa ofl.

Síðasta kaflann upp á tind fóru menn smám saman að setja á sig hálkubroddana og rökkrið seig yfir.

Landslagið tók á sig hrikalegri mynd en neðar með ísilöguð klettum sem slógu um sig þokuslæðu á köflum.

Gersemar Akrafjalls leyna á sér...

Dimma gætti hjarðarinnar vel og smalaði öllum upp á efsta tind...

Tindurinn sveiflaði þokusæðunni um sig eins og flamíngódansari og við fengum því notið frábærs útsýnis til allra átta í rökkrinu þegar slæðan hófst á loft... og rifjuðum upp ólíkar stundir á þessum stað í öllum veðrum á öllum árstíðum... á meðan við borðuðum og skelltum á okkur hálkubroddunum sem komu sér sérlega vel fyrir röska niðurgöngu sömu leið eða eilítið neðar í ágengum skafrenningi með vindinn í andlitið svo skíðagleraugu og lambhúshettur komu að góðum notum...


Jóna,  Sigga Rósa, Sylvía og Ásta Guðrún

Neðar tók sama blíðan aftur við og í byrjun göngunnar og skaflinn góði var tekinn í myrkrinu
á spjalli sem aldrei fer eins mikið á flug og niður fjallshlíðarnar...

Alls 7,3 km á 2:30 - 2:44 klst. up í 644 m hæð með 668 m hækkun miðað við 68 m upphafshæð.

Dásamleg æfing í yndislegum félagsskap
...þar sem hugurinn fór á flug og hugmyndir fuku út um allar jarðir...
 

 

Vor í lofti á
Helgafelli í Hafnarfirði

Á sprengidag, þriðjudaginn 21. febrúar mættu 37 Toppfarar á æfingu við Kaldársel
í blíðskaparveðri, logni, fimm stiga hita og skýjuðu...

Gengið var um Gvendarselshæð áður en haldið var á Helgafell í Hafnarfirði
og var færið gott um rakan jarðveginn og blauta snjóskafla...

Helgafellið reis snjólítið úr hrauninu en Lönguhlíðar og Vatnshlíðarhorn þar sem við gengum um fyrir viku síðan í þoku og vindi voru snjómeiri auk fjallanna hærra uppi í landi eins og Bláfjöll,Vífilsfell og Hengillinn...

Valahnúkar í baksýn með tind Húsfells í fjarska blárri ofan þeirra... Valahnúkar eru á dagskrá í haust en það er með eindæmum skemmtilegt að rekja sig eftir þeim öllum og mun meira ævintýri en áhorfist úr fjarlægð...

En það átti sannarlega einnig við um uppgönguleið kvöldsins á Helgafellið þar sem ávkeðið var að fara styttri leiðina upp um gilið en sú leið er mun svipmeiri en sú um öxlina... ekki spurning að fara þarna um aftur...

Jóhannes, Gerður og Sjoi að feta sig upp gilið í mjúkum snjónum...

Móbergsklappir Helgafells eru ævintýraheimur út af fyrir sig...

Það er ekkert skrítið að þetta sé næst algengasta fjallið sem gengið er á kringum höfuðborgina
á eftir Esjunni (að mati þjálfara)... ætli Úlfarsfell sé ekki í þriðja sæti?

Á miðri leið var komið inn á axlarleiðina
og
útsýnið tók að opnast til borgarinnar og nágrannabyggða í norðri og vestri....

Mættir voru:

Rikki, Sirrý, Kristjana, Bára, Jakob, Gerður, Rannveig, Sjoi, Björn E., Ástríður, Sigga Rósa, Björn, Elsa Þóris., Katrín Kj., Jóhannes, ÁSsta Guðrún, Súsanna, Steinunn Th., Guðmundur Jón, Gunnar, Guðlaug, Guðrún Helga, Sæmundur, Wili, Jóhann Pétur, Arnar, Soffía Jóna, Inga Þóra, Thoas, Sylvía, Guðrún Helga, Stefán A., Björgvin en Örn sem tók mynd í tilefni dagsins þar sem kvenþjálfarinn átti afmæli og var afmælissöngurinn náttúrulega tekinn hátt og snjallt  í þessum fagra fjallasal undir ferskum himninum sem iðaði af fuglalífi ;-)

En á mynd vatnar Ágúst Húsafells-skemmtinefndarmann sem hafði snúið fyrr við þar sem hann er að jafna sig á alvarlegum veikindum auk þess sem Gylfi og Lilja teljast með á æfingunni sem undanfarar ;-)

Friðsælt og fallegt veður í hita og svita sem bogaði af vetrarklæddum göngumönnum í þessu sumarlega veðri... þetta var yndislegt lúxusvandamál... að vera allt of heitt og fagna golunni á tindinum... eftir harðan veturinn síðustu þriðjudaga...

Nesti á tindinum í skjóli með borgina að "koma í ljós" með vaxandi rökkrinu eftir sólsetrið...

Við þessar frábæru aðstæður veðurs og færðar var ekki annað hægt en fara um klettaaugað á niðurleið sunnan megin... Gylfi og Lilja Sesselja - undanfarar kvöldsins - hringdu í þjálfara fyrr um kvöldið og létu vita að færið væri gott niður um það... þarna fannst meira að segja fínn snjóskafl sem farið var niður um í lungamjúku færi...

... þar sem við tóku mjúkur mosinn og blautur jarðvegurinn alla leið niður á slóðann sem lá kringum Helgafellið austan megin að austurenda Valahnúka þar sem menn straujuðu í myrkrinu til baka í bílana og enduðu á 6,9 km æfingu á 2.25 - 2:29 klst. upp í 164 m á Gvendarselshæð og 349 m á Helgafelli með 495 m hækkun alls miðað við 91 m upphafshæð...

Vorleg ganga
sem gaf sannarlega loforð um það sem koma skal með enn hærri sól á lofti
og sífellt meira sumri á komandi mánuðum... ;-)
 

 


Lambhagi og Vatnshlíðar
Kleifarvatni

Þriðjudaginn 14. febrúar mættu 49 félagar með sólgleraugu á æfingu...

 ... þau Anton, Arnar, Ásta H., Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björgvin, Björn E., Brynja, Elsa Þóris., Finnbogi, Guðlaug, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gylfi, Halldóra Á., Halldóra gyða, Hjölli, Hólmfríður, Hrafnkell, Inga Þóra, Ísleifur, Jóhann Ísfeld, Jóhann Pétur, Jóhanna Fríða, Jón St., Jóna Katrín, Karen, Katrín Kjk., Kjartan, Kristjana, Lilja Sesselja, Nonni, Ólafur, Óli, Ósk, Roar, Rósa, Sigga Rósa, Sigríður Sig., Sirrý, Súsanna, Svala, Unnur, Valgerður Lísa, Vallý, Willi og Örn...

... til að halda upp á þau tímamót að sólin sé enn á lofti þegar æfing hefst í fyrsta sinn á árinu... þó hvergi sæist reyndar til sólarinnar né sólsetursins um sexleytið... á strönd Kleifarvatns sem lét fremur eins og stórsjór en lygnt stöðuvatn...

Gengið var með norðurströnd Kleifarvatns upp á þúfurnar sem rísa í norðausturenda vatnsins og áleiðis á Vatnshlíðarnar sem áður hétu Hrossabrekkur og þóttu illfærar enda lá Dalaleiðin forna frá KrýsuvíkKaldárseli uppi á brúnum Vatnshlíða og niður í Fagradal sem er lítið gil eða vik í hlíðunum norðanmegin... þangað sem ætlunin var að fara að Vatnshlíðarhorni sjálfu... en veðrið gaf ekki færi á því heldur eingöngu brúnunum sjálfum...

Því var gengið með brúnum Vatnshlíða alla leið að vesturhorninu ofan Blesuflatar þar sem klöngrast var aftur niður góða leið í hrauninu og gengið á jafnsléttu m. a. um uppþornaðan hluta Lambhagatjarnar sem liggur norðan þúfnanna sem við gengum fyrst upp um...

... en þess skal getið að óljósar munnlegar heimildir eru til um óútskýrðar fornmannagrafir við Blesuflöt neðan hornsins þar sem við gengum og er auðveldlega hægt að gleyma sér á vefsíðu Ferlis-manna sem hér fjalla aðeins um málið en þeir eru óþreytandi í örnefna- og minjaleit sinni um Reykjanes og nágrenni:

 http://www.ferlir.is/?id=8166

Sjá umfjöllun þeirra um Reykjanesfólksvang - þessir menn eiga heiður skilið fyrir vefsíðu sína:

http://www.ferlir.is/?id=6694

Sjá hér einnig góða samangtekt af göngu Toppatrítlara sem þjálfarar hafa oft stuðst við þegar þeir fara á nýjar slóðir en hér ganga þau lengra meðfram vatninu og upp um Hvammahraun á langri sumargöngu:

http://www.toppatritl.org/ganga20100602.htm

Toppatrítl hefur haldið úti göngum alla miðvikudaga yfir sumartímann árum saman
og haldið úti góðri vefsíðu þar sem fá má upplýsingar um göngur þeirra: www.toppatritl.org


Ásta Henriks, Ósk, Kristjana og Lilja Sesselja

Nokkrir sjaldséðir hrafnar mættu aftur á æfingu eftir nokkurra vikna eða allt upp í margra mánaða fjarveru
og var kærkomið að sjá þau aftur þessar
elskur... sem vonandi skipa sér sem fyrst aftur í eljusama kjarnann sem varla lætur göngu framhjá sér fara ;-)


Unnur, Willi, Jóhanna Fríða og Karen?

Fararstjóri og nokkrir fleiri voru klæddir vinnu-regnjökkum eða álíka fyrir alvöru slagveður... það eru í alvörunni forréttindi að búa að þeirri reynslu að hafa lent í slíkum veðrum... svo að maður skuli hafa reynda þörf fyrir að koma sér upp búnaði eins og þessum... því hann er það eina sem dugar þegar veðrið lætur sem verst... en jú, það lét heldur illa á leiðinni á æfingu út í Hafnarfjörð... slagviðrið sem lamdi á bílrúðunum... en þurrkaðist skyndilega upp og skildi bara eftir sig hávaðarok þegar að Kleifarvatni kom svo ekki reyndi á vatnsheldni þetta kvöld heldur vindheldni sem var hálf uppskera... ;-)

Upp Vatnshlíðarnar gengum við góða öxl í mosa, möl og snjósköflum sem voru mjúkir og blautir... og enduðum í nestispásu utan í efstu brúninni í eina skjólinu sem gafst þetta kvöld... áður en hvass og dyntóttur vindurinn tók til við að slá okkur til og frá úr öllum áttum fannst manni ofan á  brúnum Vatnshlíðanna sem voru okkar eina kennileiti á för um þokuslegna heiðina að vesturhorninu... hólóttar og ógreiðfærar en um leið skínandi leið til að æfa fótafimina og jafnvægið... þetta veður hélt vöðvum og athygli vel við efnið kílómetrunum saman áður en vélrænt sléttlendið tók við á endanum...

Rökkrið tók fljótlega að skella á en við nutum ágætis útsýnis yfir Kleifarvatn og fylgihluti ;-) og rifjaðist upp jólatindferðin fyrir rúmu ári síðan sem var einstaklega falleg um alla sjö nyrðri tinda Sveifluhálssins og umhverfis Kleifarvatn á frekar langri göngu miðað við þennan árstíma eða alls 18 km á 7 klst.... algerlega ógleymanlegt að þræða sig kílómetrunum saman um strendur Kleifarvatns og skal endurtekið við tækifæri enda er eitthvað seiðandi aðdráttarafl við þetta vatn þó lítið hafi það skilað sér til okkar þetta kvöld fyrir hráslaganum...

Vatn sem er 10 ferkílómetrar að stærð og allt að 97 m djúpt... það þriðja stærsta á Suðurlandi? en líklega það eina sem býr yfir bullandi hverum neðansjávar og nokkra sem litið hafa dagsins ljós eftir að vatnsyfirborðið minnkaði með suðurlandsskjálftunum árið 2000...

Sjá fréttir af þeim atburði frá árinu 2001 þar sem yfirborð Kleifarvatns var orðið 4 metrum lægra
og flatarmálið minnkað úr
10 km að flatarmáli niður í 8 ferkílómetra en við eftirgrennslan kemur í ljós að þessi lækkun var farin að leiðréttast að hluta árið 2004 og vatnshæð komin í fyrra horf árið 2008 en nú er vatnsyfirborðið aftur orðið lágt sökum þurrka síðustu tvö sumur og tvo vetur þar sem lítið hefur snjóað:

Sjá frétt á Ruv um lækkað vatnsyfirborð Kleifarvatns í
desember 2010 - rúmlega viku eftir að við gengum þarna
í fyrrnefndri jólatindferð:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547194/2010/12/16/5/
og
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=622453
og
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2001/08/23/kleifarvatn_lekur/
og
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=250014&pageId=3427317&lang=is&q=Trave%20%FE%FDzkur%20togari%20h%E6tt%20kominn1963


Lilja Kr., Auður og Hanna.

Skvísurnar á Akranesi tóku sína æfingu á Akrafjalli og sendu samviskusamlega hópmynd..
svona gera bara alvöru æfingafélagar... ;-)


Sjá slóð okkar á gps-kortinu til að allir átti sig á hvar við gengum í afstöðu við vatnið.


Alls æfing upp á
5,8 km á 2:20 -2:24 klst. upp í 202 m mælda hæð á Lambhaga og 387 m  Vatnshlíð þar sem hún reis hæst með 449 m hækkun alls miðað við 141 m upphafshæð.

Sólin er komin til að vera...
...að hluta til á æfingu hér með þangað til næsta vetur...

Fögnum því með sól í sinni sama hvað veðuröflin gera ;-)

Húsafell um helgina og skínandi góð veðurspá fyrir Tröllakirkju á Holtavörðuheiði þar sem slæm veður hafa geysað meira og minna dögum og vikum saman... njótum þess að fá slíka daga á fjöllum eftir alvöru æfingar eins og þessa ;-)

 

 

Uppbótarganga á Helgafelli

Í fyrsta sinn í tæplega 5 ára sögu Toppfara var æfingu aflýst á þriðjudagskveldi þann 7. febrúar vegna veðurs þar sem sérstaklega var varað við stormi og yfir 20 m/sek á láglendi og mun meira á fjalllendi allt í kringum höfuðborgina, en á dagskrá var ganga á Geirmundartind á Akrafjalli. Þetta var sársaukafull ákvörðun af hálfu þjálfara sem hafa komist upp með að halda úti stanslausum æfingum öll þessi ár óháð veðri en neyddust nú til að láta undan veðuröflunum og ákváðu að taka þessa ákvörðun um hádegi á þriðjudeginum þó almenna reglan sé sú að það fellur aldrei niður æfing fyrr en á staðnum, einmitt til að einfalda allt tilkynningaferli kringum aflýsingar á æfingu, en í ljósi hækkandi bensínverðs og fyrri reynslu fyrir ári síðan á Smáþúfum þar sem æfing féll niður við fjallsrætur í aftaka veðri, þar sem margir hefðu viljað spara sér ferðina sem farin var að óþörfu að fjallsrótum... var þessi ákvörðun tekin og menn almennt sáttir og skilningsríkir með hana ;-)

Einhvurs lags tómleiki eða söknuður ríkti hins vegar á ýmsum vígstöðum klúbbmeðlima þetta kvöld þar sem margir dyggir meðlimir láta varla nokkra þriðjudagsgöngu framhjá sér fara, enda fór svo að Björn stakk upp á uppbótargöngu á Helgafell í Hafnarfirði degi síðar, miðvikudaginn 8. febrúar og þá mættu hann, Steinunn, Hólmfríður, Kjartan, Ágústa, Hrafnkell og Gylfi samviskusamlega og hittu Fjalla-Steina, gamlan Toppfara-félaga sem slóst með í för þar sem þessi mynd var tekin á símann hans Gylfa ;-)

Þjálfarar voru að vonum ánægðir með sitt fólk hvort sem menn bættu sér æfingaleysið upp á þennan hátt á Helgafelli eða með því að fara í ræktina eða taka göngu á eigin vegum á öðrum tíma í vikunni... en Búrfellsfarar frá síðastliðnum sunnudegi máttu svo sem vera sáttir með sitt þessa vikuna eftir gullinn göngudag tveimur dögum áður...

Það er umhugsunarvert hversu áþreifanlegt það var fyrir marga að fá ekki sína vikulega orkusprautu með fjallgöngu í góðra vina hópi á þriðjudegi... stundum er gott að skorta hlutina aðeins til að kunna að meta þá... æfingaleysið þriðjudaginn 8. febrúar minnir okkur á hversu ómetanlegt það er að geta farið út í óbyggðirnar og andað að sér hreinu fjallalofti... á nýjum spennandi stað í hvert sinn einu sinni í viku... og hlæja með félögunum upp í veður og vind... eða standa dolfallin á fjallstindi í logni og sól... allt árið um kring ;-)

Geirmundartindur á Akrafjalli er kominn á varadagskrá þriðjudaginn 28. febrúar...
... vonandi með leyfi veðuraflanna !

 

 

Smáþúfur í upphafsbirtu
 - já í birtu og því engar myrkurmyndir í þetta sinn takk -


Í fjallsrótum í mynni Blikdals Með Hnefa í Lokufjalli framundan

Þriðjudaginn 31. janúar mættu 42 manns á 215. æfingu...

 ...eða þau Alma, Anna Sigga, Auður, Árni, Bára, Björgvin, Björn, Dóra, Elsa Inga, Gnýr, Guðlaug, Guðmundur Jón, Gunnhildur, Gylfi, Halldóra Á., Hanna, Hólmfríður, Jakob, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Fríða, Jóhannes, Jón, Karen, Katrín Kj., Kjartan, Leifur, Lilja Bj., Lilja Kr., Lilja Sesselja, Nanna, Nonni, Ólafur, Ósk, Rannveig, Rósa, Súsanna, Sæmundur, Torfi, Valgerður Lísa, Willi og Örn...

... þar sem gengið var upp Arnarhamar og Smáþúfur í Blikdal Esjunnar í mun betra veðri en spáin hafði sagt fyrir um eða skýjuðu með sunnanáttina í fangið þegar ekki naut skjóls og úrkomulausu nema í blálokin síðustu metrana í bílana þegar þeir tóku loks að efna veðurspánna...

... en þess skal getið að nú blómstra útúrdúrar Toppfara sem aldrei fyrr því "pottfarar" hafa vaknað hressilega til lífsins og mæta nú aftur í heita pottinn eftir göngur á þriðjudögum... og hópur sem að sögn Lilju Bjarnþórs kallar sig "einfarar" á það til að mæta á æfingu á aðeins öðrum tíma en hópurinn en ganga sömu leið sem "undanfarar" eða "eftirfarar" og voru þau Elsa Inga, Lilja og Jóhannes í þeim hópi þetta kvöld þar sem þau voru um tíu mínútum á eftir okkur, gáfu ekkert eftir, fóru alla leið upp og tókst næstum því að ná okkur á tindinum en það var bara ískaldur vindurinn sem kom í veg fyrir nægan biðtíma hópsins eftir þeim... en þau voru einnig "undanfarar" síðasta þriðjudag á Úlfarsfelli þar sem þau mættu einni klukkustund fyrr á æfingu eins og svo oft áður ;-)

Þá skal þess og getið að Guðmundur Jón og Katrín voru einnig eftirfarar þetta kvöld - eins og ofurkonurnar síðasta þriðjudag á Úlfarsfelli - en þau náðu hópnum í fyrstu brekkunni eftir ansi rösklega göngu í hita og svita og skal hér með tekið ofan fyrir öllum undanförum og eftirförum því það er auðvelt að sleppa, hætta við eða stytta æfinguna ef maður er of seinn eða þarf að taka æfinguna fyrr um kvöldið á eigin vegum - já, það er aðdáunarvert að sjá þegar menn gefa ekki eftir og elta hópinn uppi, jafnvel hálfa æfinguna eða mæta samviskusamlega fyrr og taka sína æfingu ;-)


Fyrsta brekkan upp ásinn með Melahnúk, Dýjadalshnúk og Tindstaðafjall í fjarska.

En aftur að Smáþúfum þetta kvöld.. gengið var röskleg alla æfinguna upp brúnirnar... í mesta snjóskaflinum við fjallsrætur, mjúkri leðju á köflum og svo hálkublettum efsta hlutann við Arnarhamar og þúfuhnúkana smáu tvo þar sem sumir fóru í brodda en aðrir komust upp með að sleppa því en það var ótrúlegt að sjá hversu langt upp í 600 m hæð leysingarnar höfðu náð...

Alls 7,2 km á 2:40 - 2:50 klst. upp í 506 m á Arnarhamri og 601 m á Smáþúfum með 683 m hækkun alls miðað við 50 m upphafshæð.

Krefjandi æfing
sem menn mega vera ánægðir með að hafa tekið á þessum árstíma

Búrfell í Þingvallasveit aftur á dagskrá næstu helgi...
vonandi viðrar skaplega annan hvorn daginn
en við látum hvergi deigan síga
enda flottar göngur sem safnast í alla þriðjudaga
og við bíðum bara spennt eftir næsta flotta göngudegi
sem kemur alltaf á endanum sama hvað ;-)
 

 

Í dynjandi snjókomu... á Úlfarsfelli
... á kafi í snjó...

Þriðjudaginn 24. janúar mættu 44 manns til göngu á Úlfarsfell eftir snjókomu klukkustundum saman fyrr um daginn... jú og dögum saman þar á undan... eða vikum saman... mánuðina á undan... svo allt var á kafi í snjó... og áfram hélt snjókoman að dynja á göngumönnum meira og minna þetta kvöld...

Bjart var í upphafi æfingar þó formleg birtuæfing sé ekki fyrr en eftir viku, síðasta þriðjudag jánúarmánaðar... og verður þetta alltaf einn kærasti tími okkar á fjöllum því birtan er þeim svo kærkomin sem gengið hafa í myrkri síðustu vikur frá því upp úr miðjum nóvember... en þó er varla hægt að tala um myrkur því sannarlega hefur snjórinn prýtt fjöllin á öllum okkar göngum í vetur frá því í lok nóvember og lýst vel  upp þriðjudagskvöldin svo varla hefur þurft höfuðljós... nema rétt til að skerpa á gönguslóðinni...

Gengið var hefðbundin leið frá Leirtjörn upp suðvesturhlíðina á Vesturhnúk en þar afréðu þjálfarar að sleppa króknum yfir á norðurbrúnirnar því veðrið sýndist fara versnandi enda spáð þungri snjókomu og vindi er líða tæki á kvöldið... og héldu því yfir á Stóra hnúk sem er hæstur á Úlfarsfelli og haldið þaðan yfir á Litla hnúk í suðaustri þaðan sem tekinn var krókur niður og inn á skjólsælar suðurhlíðarnar niður á veg að bílunum.

Færið snjóþungt og hálka á köflum undir þykkum snjónum og veðrið í sama takti... snjóhríð að mestu en birti til á köflum
og
útsýnisins þá notið meðan skyggni gafst niður á byggðirnar á láglendi... en Úlfarsfell verður alltaf í uppáhaldi þjálfara sökum þessa glæsilega útsýnis sem það gefur ofan í byggð af ekki hærra fjalli...

Kjartan, Stefán, Anton, Rósa, Jóhanna Fríða og Árni E?

Torfi, Alma, Gunnar Viðar og María E.

Halldóra Á., Anna Sigga, Björgvin, ?, Sigga nýja.

?, Kristjana? Guðlaug?, Ásta Guðrún?

Willi og Gunnar Kr.

Lilja Sesselja?, Gnýr, Jóhanna Karlotta, Nanna, Sæmundur, Steinunn og Irma?

Halldóra Þorsteins og Sæmundur.

...en Halldóra náði hópnum á Litla hnúk eftir að hafa lagt af stað í göngu 25 mínútum síðar en hópurinn og eins náði Ósk hópnum á Stóra hnúk eftir töf á leiðinni að fjallinu en það var ekki heiglum hent að fara einsamall í þessu veðri og færð á eftir hópnum og ná honum - snilldarstelpur ;-)

Mættir í heild voru:

Alma, Anna Sigga, Anna, Anton, Árni E., Áslaug, Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björgvin, Björn, Eyþór, Finnbogi, Gnýr, Guðlaug, Guðmundur Jón, Gunnar Viðar, Gunnar Kr., Halldóra Á., Halldóra Þ., Herdís, Inga Þóra, Irma, Jóhann Ísfeld, Jóhanna Fríða, Jóhanna Karlottta, Karen, KatrínmKj., Kjartan, Kristjana, Lilja Sesselja, María E., Nanna P., Ólafur, Ósk, Óskar, Sigga S., Stefán, Steinunn, Sæmundur, Torfi, Vallý, Willi og Örn...

... en þar af voru Anna og Guðlaug að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum...

... og Dimma, Día, Moli, Skuggi, Spá og Þula réðu sér ekki fyrir kæti í snjónum og fóru örugglega yfir 10 km þetta kvöld...

... og Skagamenn tóku sína æfingu á Geirmundartind - frábært hjá þeim ;-)

Alls 4,4 km á 1:31 - 1:40 klst. upp í 319 m hæð með 320 m hækkun miðað við 93 m upphafshæð.

Búrfell í Þingvallasveit á laugardaginn
... frábært útsýnisfjall og tignarlegt umhverfi í góðu skyggni á allra Toppfara færi...
... ef veðurspá leyfir...

Endilega sendið mér línu yfir þá sem ég næ ekki að sjá á myndum hverjir eru!

 

Tekið ofan fyrir hefðarkonum
á Mosfelli

Helga - Katrín - Gerður

Þriðjudaginn 17. janúar heiðruðu Toppfarar aldursforseta Toppfara í stúlknaflokki ;-), þær Gerði Jensdóttur, Helgu Björnsdóttur og Katrínu Kjartandsóttur sem allar þrjár eru kringum sextuginn en þær stöllur eru með sterkustu göngumönnum Toppfara og eiga að baki erfiðustu fjöll landsins að ekki sé talað um há fjöll erlendis eins og El misty í 5.822 m hæð í Perú og Mt Toubkal 4.167 m í Marokkó á síðasta ári...


Halldóra Á. og Heiðrún sem gengið hafa á fjöll með Toppförum árum saman...

Gengin var hefðbundin leið frá Mosfellskirkju og þræddur hringur um fjallið upp suðurhlíðarnar, með norðurbrúnum á hæsta tind og að vesturbrúnum sem gáfu fallegt útsýni til höfðuborgarinnar og yfir Faxaflóa áður en snúið var til baka um giljóttar suðurbrúnirnar. Færi og veður með besta móti á Mosfelli til þessa... þrátt fyrir hálku, kulda og vind... þar sem við höfum hreinlega alltaf verið í krefjandi veðri og færi á þessu fjalli sem skráð hefur dramatíska sögu Toppfara um aurskriður og leirdrullu gegnum árin... ;-)


Karen og Inga Þóra en Karen var ein af nýliðum kvöldsins og naut sín vel...

Á tindinum þakkaði þjálfari þessum þremur hefðarkonum dýrmætan félagsskap þeirra í klúbbnum og hópurinn tók bókstaflega ofan fyrir þeim þrátt fyrir frost og vind enda heiður að slíkum konum sem eru okkur öllum ómetanleg fyrirmynd hvað elju, þrautsegju, áræðni, ósérhlífni og ekki síður geðprýði varðar því jákvæður, vinalegur og hlýr andi Toppfara sem jafna ræður ríkjum á fjöllum þar sem hópurinn fer um stafar ekki síst frá þeim stöllum ;-)

Mættir voru:

... Hallldóra Þ., Áslaug, Óskar, Jóhannes, Valgerður Lísa, Eyþór og Jón...

... Jóhannes, Eyþór, Willi, Jón, Árni E., Rósa, Olga Dagmar, Guðmundur Jón, Lilja Sesselja, Ólafur, Marolína?, Sylvía og Jóhanna Fríða
 með Helgu og Katrínu fremstar á mynd...

... Ólafur, Marolína, Örn, Sylvía, Jóhanna Fríða, Kristjana, ?, Anna Sigga, Björn gestur, Jóhanna Fríða, Ásta Guðrún, Rannveig, Nanna, Ingi, Gnýr, Jakob framar ásamt Antoni, Súsönnu, Gerði og Katrínu...

... Soffía Jóna, Ósk og Elsa Inga...

... Ingi, Halldóra Á., Gnýr, Heiðrún, Inga Þóra, Karen og Thomas...

En Björn maður Ástu Guðrúnar, Karen stjúpdóttir Ingu Þóru og Marolína vinkona Olgu Dagmar
voru að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum ;-)

Alls 4 km æfing á 1:25 - 1:27 klst. upp í 297 m hæð með 226 m hækkun miðað við 71 m upphafshæð.

Elsku Gerður, Helga og Katrín:

haf þökk fyrir aðdáunarverða jákvæðni ykkar, áræðni, ósérhlífni, vináttu og samstöðu
gegnum þykkt og þunnt á fjöllum síðustu ár.

Þið eruð okkur dýrmætar fyrirmyndir.

Megi gæfan gefa okkur öllum heilsu til að eiga ómæld ár framundan á fjöllum með ykkur innanborðs ;-)
 

 

Snjóstuð á Esjunni



Þrátt fyrir ófærð og illviðri tókst
tólf Toppförum, þeim Antoni, Árna E., Báru, Helgu Bj., Jóhanni Ísfeld, Jóhönnu Fríðu, Jóni Atla, Kjartani, Ólafi, Sæmundi, Willa og Erni... og einum gesti að nafni Siggu að ná sér í fínustu æfingu á Esjunni þriðjudaginn 10. janúar... með því að láta feykja sér upp Esjuhlíðar í þungum snjó, skafrenningi og einstaka vindhviðum sem þó slógu hvergi fyrri met... og fínasta skyggni allan tímann... og verður þetta að teljast eldskírn mikil fyrir nýliðann sem var að prófa göngu með hópnum og kemst vonandi á bragðið með hversu gaman það er að láta sig hafa það vel búinn og vel stemmdur í öllum veðrum og jafnvel myrkri... að berast með ljúfum vindinum eftir snæviþöktum fjallshlíðum og komast að því að veðrið er sjaldnast eins slæmt og það lítur út fyrir út um glugga og bíla...

 Vindáttin var hvöss að vestan en þó heilmikið skjól í hlíðunum og því komumst við upp með að fara slök nánast sleitulaust upp að áfanga fjögur neðan við Rauðhól og gátum þar velt vöngum yfir áframhaldandi göngu upp að steini sem þó var afráðið að fara ekki út í sökum gruns um hvassan vestanvind meðfram hlíðunum beint í fangið og hugsanlegar svellbungur í hlíðinni... en það var freistandi þar sem veðrið var ekki eins slæmt og það virtist vera í bænum...

Anton mætti með snjóþrúgur sem áttu vel við færi kvöldsins.... skíðuðu yfir skaflana og héldu vel í harðfenninu ofar...

Það sagði mest um slæmskuveðrið þennan dag janúarmánaðar sem lítið lét á sér kræla á fjallgöngunni sjálfri að þegar ekið var til baka í bæinn helltust margsinnis risavaxnar sjóöldurnar yfir bílana þegar farið var yfir Kollafjarðarbrúna við Esjurætur svo stansa varð nokkrum sinnum meðan sjórinn skolaðist niður af bílnum og reyna að halda áfram lengra eftir brúnni meðan skyggni gafst í ölduganginum... en þetta telst með sérkennilegustu lífsreynslum á akstursleið í fjallgöngu hingað til og langtum tilkomumeira en vindhviðurnar í fjallgöngunni sjálfri... og þegar mesti skafrenningurinn gekk áfram yfir bílinn á leið inn í borgina var orðið nokkuð ljóst að akstursleiðina var mun meira krefjandi en gönguleiðin þetta kvöld...

Alls 4,7 km á 1.32 - 1:37 klst. upp í 388 m við Mógilsá með 380 m hækkun miðað við 8 m upphafshæð...

Stórskemmtileg ganga
 á kvöldi þar sem ekkert var að því að vera skynsamur og halda sig bara inni
en gaf þeim sem stóðust ekki fjallið meira en margt annað við að glíma við færið og veðrið ;-)
 

 

Eyrarfjall í töfrandi næturbirtu
... skálað á tindinum fyrir spennandi ári 2012...

Fyrsta ganga ársins.... sló tóninn fyrir 2012 með töfrandi fagurri kvöldgöngu um Eyrarfjall í Miðdal
undir hálffullu tungli og stjörnubjörtu veðri, logni og brakandi frosnum snjó þriðjudaginn 3. janúar...

Gengið var vestan megin upp og tekin hringleið um fjallið með viðkomu á efsta tindi sem varla finnst í þessu landflæmi þarna uppi...
og farið niður um
Svartaklett meðfram brúnunum ofan mynni Hvalfjarðar.

Nýárskveðjur og hjartansknús einkenndu þessa æfingu
og einhver sérstök gleði stafaði af þessum göngumönnum sem þarna svifu um lendur fjallsins ...

Skálað var á tindinum fyrir nýju ári og þjálfari þakkaði félögunum fyrir einstakan anda innan fjallgönguklúbbsins sem dýrmætt er að varðveita vel til þess að hópurinn haldi áfram að þroskast og styrkjast fyrir jafn gefandi ævintýri á fjöllum og þegar eru að baki...

Klúbbur sem nú siglir inn í fimmta starfsárið þar sem haldið verður upp á 5 ára afmælið með öllum mögulegum fimmu-legum uppátækjum sem mönnum dettur í hug... allt er leyfilegt.... en þjálfarar eru þegar byrjaðir og blása til fimm tinda göngu á Skarðsheiðinni á laugardaginn ... til að hita náttúrulega upp fyrir ofurgöngunni á Botnssúlurnar allar fimm í júní...

Mættir voru 53 manns:

Anna Sigga, Auður, Ásta Guðrún, Ástríður, Bára, Björgvin, Björn, Dave, Dóra, Elsa Þ., Guðmundur Jón, Gunnar, Halldóra Ásgeirs., Heiðrún, Heimir, Helga Bj., Herdís, Hermann..., Hjölli, Hólmfríður, Hrafnkell, Ingi, Irma, Ísleifur, Jóhann Ísfeld, Jóhann Pétur, Jóhanna Karlotta, Jóhannes R., Jón, Nonni, Katrín, Kári, Kjartan, Lilja Kr., María E., Olga Dagmar, Ólafur, Ósk, Roar, Rósa, Sigga Sig., Steinunn, Steinunn Th, Súsanna, Sylvía, Vallý, Valgerður Lísa, Willi, Þorsteinn P., Þóra R. og Örn.

Þar af voru Jóhann Ísfeld og Olga Dagmar að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum ;-)

Margt var skrafað, planað og þakkað... og gangan var jafn friðsæl og veðrið... með áhrifamikið og upplýst útsýnið af svæviþöktum fjöllum allt um kring sem glitraði allan hringinn frá Esjunni í suðri að Skarðsheiðinni í norðri og út á Akrafjallið sjálft í vestri sem var sigrað í nýársgöngunni í fyrra í erfiðu veðri og gaf þá erfiðleikatóninn fram eftir vetri á ári sem heldur betur rættist svo úr þegar það fór að vora svo árið endaði með stæl á margnefndum Þríhyrningi...

Göngufærið með besta móti... harðfenni að mestu og létt að fara rösklega yfir
en heldur bratt niður af
Svartakletti sem þýddi bara eitt...

... að renna sér niður... og sumir tóku þetta alla leið... á góðum hraða með kúveltingum... og fóru aðra ferð ;-)

Alls 7,0 km á 2:45 - 2:51 klst. upp í 486 m mælda hæð með 469 m hækkun miðað við 61 m upphafshæð.

Takið eftir víðfeðmi fjallsins og líkindi við Akrafjall og Grímmannsfell sem bæði klofna inn að miðju.
Syðri hluti Eyrarfjalls nefnist Sandfell við Nónskarðið... næst ætlum við á Eyrarfjall Eilífsdalsmegin að sumri til...

Árið 2012 er mætt á svæðið
... töfrum líkast...
... megi það líkjast þessari göngu í einu og öllu...

Nýársganga á Skarðsheiðinni á laugardaginn og veðurspáin að verða lygilega góð...
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir