Tindferð 73 - Nónbunga laugardaginn 24. mars 2012
 endaslepptri tilraun til að taka níu tinda um Flekkudal Esjunnar
en snúa varð við á fyrsta tindi vegna veðurs


Fokið niður í Flekkudal
...eftir endasleppta tilraun til að taka
níu tinda göngu um Flekkudal



Laugardaginn 
24. mars var ætlunin að taka níu tinda göngu um Flekkudal í miðnorðurhluta Esjunnar með viðkomu á Nónbungu, Paradísarhnúk, Skálatindi, Eilífskletti (okkar nafngift), Hátindi, Laufskörðum, Seltindi, Esjuhorni og loks Sandsfjalli. Veðurspá var sólbjört og óvenju hlý en mikill vindur var í kortunum sem við freistuðumst til að efast um þar sem ræst hafði vel úr síðustu helgum hvað veður og vind varðaði... en enduðum á að komast eingöngu á Nónbungu og snúa við neðan við snjóbrekkuna upp á Paradísarhnúk þar sem vindurinn var orðinn vonlaus til göngu og menn farnir að fara á hnén í mestu hviðunum...

Ansi súrt eftir allt tilstandið... en þennan laugardagsmorgun fengum við engu að síður bókstaflega gullna morgunstund í sveitinni... gengum gegnum bæjarhlaðið á bænum Flekkudal með hesta á beit og hunda í girðingu... stutt í grænt grasið að manni fannst og hlý sumargolan lék við vanga okkar í saklausum Flekkudalnum sjálfum sem var mitt í þessari sumarblíðu greinilega alls endis grunlaus um þá vinda sem geysuðu ofar þegar skjólinu sleppti úr suðaustri...

Paradísarhnúkur framundan hvítur efst í fjarska... hann gnæfir yfir Flekkudal en gegnt honum hinum megin á hryggnum skagar annar tindur niður í Eilífsdal og nefnist Skálatindur... við munum ganga á báða þessa tinda á þriðjudagsgöngu þann 22. maí sem verður okkur einhver sárabót... en þá verður gengið frá Eilífsdal um Nónbungu...

Þjálfarar hafa og sett þessa níu tinda göngu kringum Flekkudal á dagskrá sem aukatindferð
á
uppstigningardag þann 17. maí...

Sumar... já sumar fremur en vor var í lofti og bardagi árstíðanna var háður fyrir fótum vorum...

...milli spriklandi lækjarspræna sem með liðsstyrk frá lofthitanum og sólinni
sópuðu snjósköflunum niður á þrautsegjunni einni saman...

Útsýnið til austnorðausturs um austurhluta Meðalfellsvatsn með Meðalfellið sjálft lengst í fjarska og bæjarstæði Grjóteyrar og Flekkudals framar á mynd en við vatnið liggja sumarhúsabyggðir sem blésu manni líka sumrinu í brjóst...

Þau voru hreinlega söguleg þessi hlýindi helgarinnar og við furðuðum okkur á þeim andstæðum sem veðrið sýndi þennan dag í samanburði við nístandi frostið síðustu helgi á Blákolli og félögum þar sem við gengum í harðfenni og helfrosinni jörð allan tímann...

Irma og Ósk með vesturhluta Meðalfellsvatns í fjarska og Reynivallaháls fjær ásamt vesturskotti Meðalfells... báðir þessir múlar sem ásamt fleirum móta krókaleiðirnar inn í Hvalfjörðinn að sunnan- og austanverðu eiga eftir að bætast í safn okkar en við erum búin með Brekkukamb og Þyril og ætlum á Múlafjall í sumar... þau eru ekki mjög mörg fjöllin sem við eigum eftir að ganga á á suðvesturhorninu... en þó fleiri en halda má sé vel að gáð...

Á brúninni upp á Nónbunguna sjálfa tókum við skaflinn en þarna blés vindurinn einna hvassast og menn þurftu ítrekað að bíða af sér verstu vindhviðurnar á þessum kafla og þeim sem á eftir kom uppi á lendunum... orðin berskjölduð fyrir suðaustan áttinni og ekki lengur undir skjólgóðum verndarvæng Flekkudals...

Komin upp á Nónbungu og tignarlegir tindar Eilífsdals komu í ljós... Þórnýjartindur hér hægra megin á mynd sem var sigraður í einu besta vetrarveðri í sögu klúbbsins í mars í fyrra um Eilífsdal... og aftur genginn á síðsumarskvöldgöngu sem endaði í myrkri i fyrra... Það var vaxandi mistur í lofti sem skyggði ótrúlega mikið sýn þennan heiðskíra dag eftir því sem vindur jókst enda sáum við á tímabili ekki Skarðsheiðina fyrir mistri...

Paradísarhnúkur vinstra megin og Skálatindur hægra megin framundan... nokkru áður voru þjálfarar farnir að sja fram á að við myndum ekki komast nema eingöngu áþá og snúa þyrfti þar við vegna veðurhamsins en... neðan við þessa snjóbrekku játuðum við okkur sigruð... lögðum ekki í að fara hana gegn þessum vindi þar sem óvíst væri með göngufærið í skaflinum og hættan á að fjúka ofan á snjófönninni niður í Eilífsdal hreinlega  orðin of mikil... flestir á því að snúa við og einhverjir ákveðnir í að bíða tindana af sér þegar þjálfarar tóku þessa ákvörðun en allir sáttir enda versnaði veðrið hratt rétt á meðan við ræddum málin...

Steinunn, Arnar, Hjölli, Nonni, Jóhanna Karlotta, Irma, Guðlaug, Dóra, Lilja Kr., Anton, Guðrún Helga, Örn, Hildur V., Ástríður, Sigga Sig., Guðmundur, Katrín, Ósk og Ísleifur en Bára tók mynd og Día og Dimma smöluðu ;-)

Hvílík synd að ná ekki fallegri tindferð þennan dag... nokkrir með í för sem sátu með sárt ennið síðustu helgi, nokkrir sjaldséðir hrafnar einnig loksins mættir og Guðlaug að taka sína fyrstu tindferð með hópnum... en við þessu var ekkert að gera... þessi vetur og sá síðasti hafa reynst okkur þungbærari en þeir fyrstu í sögunni og við komin í sæmilega æfingu með að taka ákvörðun um að snúa við sbr. Ok-ið í fyrra og Hekla...

Við ákváðum að fara niður í Svekkelsisdal... eh, nei, Flekkudal og sjá til með frekari göngu þar eftir veðri og vindum
í einhverju skjóli ef mögulegt væri... en óhapp á niðurleið flækti þau plön, fyrir utan að menn hreinlegu nenntu á endanum ekki að þvælast meira í þessu roki...

Fórum þetta rösklega um blauta skafla og mjúkan mosa...

... og reyndum að sætta okkur við orðinn hlut...
vonandi ber sumarið betri daga en þennan eilífan barning við veðrið síðustu mánuði...

Veðrið strax betra í brekkum Nónbungunnar ofan í Flekkudalnum og hugurinn fór aftur á flug upp hlíðarnar... en skynsemin fullyrti að vindurinn væri enn slæmur þarna uppi og versnandi ef marka mátti veðurspánna sem hingað til rættist eins og stafur í bók...

Í saklausu skrefi niður hlíðarnar misstígur Dóra sig og við töldum hana hafa tognað eins og nokkrir hafa lent í gegnum árin, allir í hjálparsemisgírnum svo hún fékk stuðning á ökklann frá Guðrúnu vinkonu sinni og verkjalyf hjá Lilju, en hún fann til í hverju skrefi og haltraði niður brekkurnar...

...á milli þess sem hún tók snjóbrekkurnar tugi metrana niður sem var mikið lán að hafa þarna, sérstaklega eftir á þar sem í ljós kom að hún reyndist ökklabrotin og var komin í gifs eftir helgina. Menn geta greinilega gengið eins og herforingjar með slíkan áverka á sama hátt og menn hafa haltrað ansi verkjaðir með tognun á ökklanum enda slæmir áverkar báðir og batatíminn nokkrar vikur.

Flestir komnir niður á örskotsstundu og göngunni lauk eftir 4,7 km á 2:29 - 2:50 klst. upp í 549 m hæst þar sem snúið var niður með 586 m hækkun alls miðað við 72 m upphafshæð...

Lautarferð í lokin við bílana... ekki einu sinni almenntilegt skjól þar en það skásta í boði þennan dag...
og Örn fékk teppi frá Antoni þegar hann sagði að ekkert vantaði nema það lautina ;-)

Við gefumst ekki upp
...og stefnum á þessa göngu á uppstigningardag 17. maí !
Þeir sem mættu 24. mars greiða ekki fyrir hana þá.

Myndir þjálfara: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T73Nonbunga240312#
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir