Tindferð 51 - Fimm tinda ganga kringum Eilífsdal laugardaginn 12. mars 2011


Fullkominn dagur á fjöllum


Eilífstindur í Eilífsdal neðst hægra megin á mynd með Hvalfjörð, Hafnarfjall og Skarðsheiði í fjarska...
...og þrjá Toppfara á útsýnisstað sem einkennir tignarleg hamrabelti dalsins...

Laugardaginn 12. mars fóru 23 Toppfarar í 51. tindferð klúbbsins og gengu á fimm tinda á Esjunni á hringleið kringum Eilífsdal
í logni, rjómablíðu og tæru útsýni allan hringinn...

Þetta var önnur tilraun til að fara þennan hring þar sem ferðinni hafði verið frestað helgina áður vegna aftakaveðurs og það var sannarlega þess virði... Þetta var einnig þremur dögum fyrir 3ja vikna ferð klúbbsins til Perú sem þýddi að margir af kjarna klúbbsins voru ekki mættir enda uppteknir við að pakka og græja... Þá var þetta fyrsta jöklabroddaganga vetrarins þar sem skylda var að mæta með slíkt og ísexi í hönd en allt þetta þrennt hafði eflaust áhrif á fremur fámenna tindferð að sinni í þessu besta veðri vetrarins til þessa... og er þá ónefndar þær flensur sem hömluðu einhverjum för eins og Báru, þjálfara of fleirum... svo Örn var einn fararstjóri í ferðinni en naut dyggrar aðstoðar Stefáns Alfreðssonar sem bauð sig fram til að gæta síðasta manns og kunnum við honum hjartanlega miklar þakkir fyrir það auk allra þeirra sem réttu félögum sínum hjálparhönd á göngunni almennt ;-)


Með sunnanverða Skarðsheiðina útbreidda í baksýn... og Grjótárdal lengst til hægri sem genginn var í byrjun ársins í annarri gullinni ferð...

Þetta voru þau...

 Ketill, Hermann, Roar, Anna Sigga, Irma, Kjartan, Leifur, Elsa Þóris., Hildur Vals, Katrín, Rósa, Guðmundur Jón, Anton, Björn, Jóhannes, Jóhanna Karlotta, Óskar Wild(boys), Hjölli, Ásta Sig. (gestur), Stefán Alfreðs., Ásta Henriks og Áslaug.

Ásamt drottningunum Dimmu og Díu... og áðurnefndu gestunum Ástu Sig, vinkonu Jóhönnu Karlottu sem ekki hefur látið sig vanta í eina einustu tindferð í vetur (alvöru staðfesta á fyrsta vetri!)... og Óskari Wild-boys sem keyrði alls 950 km til að komast með félögum sínum á fjöll... og lýsir vel þessum yfirvegaða og ósérhlífna öðlingsdreng sem heiðraði hópinn með kærkominni nærveru sinni þennan dag ;-)

... og að lokum skal vakin athygli á því að báðir aldursforsetar Toppfara, þeir Björn og Ketill hikuðu hvorugir við að fara í þessa ferð... sem segir allt um í hvaða gæðaflokki þessir höfðingjar eru...

Lagt var af stað kl. 8:58 í logni og heiðskíru veðri með fyrsta tind dagsins yfirgnæfandi í suðri... 

Þórnýjartind sem ekki er oft genginn að því er við best vitum.

Þetta var einn af þessum dögum sem geisla af fegurð frá upphafi til enda þar sem engan skugga ber á allan tímann...

Gengið var eftir veginum til að nýta brýnnar yfir árnar (Eilífsdalsá?) og farið um land bæjarins Eilífsdals.

Brekkan upp á Þórnýjartind er ansi löng og brött á köflum sem sóttist seint í klöngrinu en vel engu að síður miðað við aðstæður.

Allir með brodda með sér og klárir í slaginn en snjórinn var mjúkur til að byrja með...

Ofar jókst harkan í snjósköflunum en landslagið mýktist með hækkandi sól
sem breiddi geilsana sína glitrandi yfir landslagið í kring sem var stórkostleg sýn.

Úff... þetta var löng brekka... aðalhækkun dagins tekin í einum pakka í byrjun... ekkert mál... menn voru þakklátir að hafa haft form, svigrúm, heilsu og tíma og... til að komast upp á fjöll á svona gullnum degi.

Eyrarfjall í baksýn og Hafnarfjall og hæsti tindur Skarðsheiðarinnar, Heiðarhorn ásamt Skarðshyrnu systur sinni enn fjær...
með
Blákoll við Hafnarfjall dekkra fjallið vinstra megin í fjallgarðinu en Hanna býður upp þá göngu þann 22. mars í fjarveru þjálfara vegna Perúferðarinnar...

Akrafjall í baksýn en Skagamenn voru fjarri góðu gamni að sinni og var þeirra sárt saknað ásamt fleirum sem nánast aldrei láta sig vanta í tindferðirnar...

Klettarnir upp á Þórnýjartind eru skemmtilegir uppgöngu og auðveldir að sumri til þó halda mætti annað úr fjarlægð enda hefur fjallið virst mönnum illkleift án búnaðar og er því ágætis dæmi um að oft leynast góðar uppgönguleiðir þar sem ekki virðist vera kleift í fjarska.

Fyrsta klöngrið á efsta hlutanum upp á Þórnýjartind.

Þetta eru fjögur belti sem klöngrast þarf um áður en komið er upp og í svellhörðum snjósköflum er þessi leið ekki fær nema í jöklabroddum.

Þetta slapp hins vegar alveg þennan dag, einhverjir fóru í brodda en flestir létu keðjurnar duga
og fremstu menn hjuggu spor í hjarnið fyrir hópinn með ísexinni sem er ágætis verkfæri í fjallgöngum að vetri til...

Brattinn orðinn meiri hér.

Komin yfir eitt versta haftið.

Sjá sumarhúsabyggðina í fjarska niðri við Nónbungu þar sem síðasti gangan átti eftir að enda síðla dags.

Í aflíðandi brekku síðustu metrana upp fyrsta tind dagsins, Þórnýjartind sem mældis 679 m hár.

Með mynni Eilífsdals neðar, Meðalfell, Reynivallaháls og Brekkukamb í fjarska...

Loksins fengu menn að borða... að lokinni erfiðustu brekku dagsins... fyrsta tindinum... og rúmlega 2ja klukkustunda göngu... með ólýsanlega fagurt útsýnið í fangið yfir Hvalfjörðinn og fjallgarð hans.

Við tók ganga á tind nr. 2 eða þann hæsta á Esjunni, sjálfa Hábungu og var útsýnið enn jafn fagurt... hvergi ský á himni og ekki hægt annað en fagna því innra með sér að vera á þessum stað á þessum tíma.

Nónbunga, Meðalfell, Reynivallaháls, Þrándastaðafjall, Þyrill, Brekkukambur... fjöllin suðaustan og austan megin í Hvalfirði...

Sjá brúnirnar á meginlandi Þórnýjatinds vetan megin með snjóhengjum og Skarðsheiðina eins og landakort í fjarska.

Áðurnefnd fjöll Hvalfjarðar og nú fór að sjást til Hvalfells og Botnssúlna sem glitruðu hvít og skær í vetrarsólinni.

Þetta var langur gangur frá Þórnýjartindi en leiðin var skreytt tignarlegum hamrabrúnum við Eilífstind sem rís innar í dalnum.

Færið orðið hart á þessum berskjaldaða stað sem vindurinn eirir engan veginn á slæmum dögum...

Allir í keðjubrodda hér... ekki gott að renna af stað í hliðarhalla og fara fram af brúnunum...

Skálatindur í Eilífsdal í baksýn... síðasti tindur dagsins sem genginn var í lok dagsins þegar sólinni var tekið að halla.

Sjálfur Eilífstindurinn, nibban niður af klettunum með beltið í kring þar sem myndin er tekin af hópnum efst í ferðasögunni.

Milli Þórnýjartinds og meginlands Esjunnar liggur rimi sem tengist líka yfir á Tindstaðafjall og var dýrmætt að fá þetta skyggni þennan dag til að átta sig á landslaginu í þessum heimi Esjunnar.

Brúnir Þórnýjartinds á leið að Eilífstindi... stórar snjóhengjur sem varasamt er að ganga fram af sé farið þarna um í slæmu skyggni.

Eilífsdalur útbreiddur fyrir framan göngumenn. Þvílíkt útsýni...

Anton og Dimma á góðum stað... ekki hægt að biðja um meira í þessu lífi en svona dag á fjöllum...

Mottó dagsins var að njóta en ekki þjóta ;-)

Það þurfti ekki að segja mönnum það oft... til þess var fegurðin allt um kring of mikil til að láta hana framhjá sér fara...

Næsti viðkomustaður dagsins var einn af mögnuðum útsýnisstöðum Eilífsdals... kletturinn sem rís yfir Eilífstindi sem er ókleifur venjulegum fjallamanni neðar í hamrabeltinu en er eflaust spennandi verkefni klifrurum sem einatt leika sér í Eilífsdal... (sjá efstu mynd af honum).

Þarna sveima hundruðir fugla í ríki sínu allt árið um kring og gera menn smáa í mannlegri tilveru þeirra sem þarna fara um...
en maður fer stærri inni í sér frá svona stað...

Stórfenglegur staður...


Örn, Áslaug og Roar.

Perúfarar dagsins voru eingöngu þrír...

...aðrir að pakka, í flensu, uppteknir, að sinna fjölskyldunni eða á annan hátt vant viðlátnir þar sem þrír daga voru í brottför...

Frá Eilífstindi var haldið inn á heiðina með stöðugri hækkun að Hábungu.

Eilífsdalur svipmikill ásýndum í baksýn og við tók snjóbreiðan að þessum afskekkta stað fjalllgarðsins...

Á öðrum tindi dagsins...

Hábungu (914 m) í 922 m mældri hæð eða, hæsta hluta Esjunnar var blankalogn og óhindrað skyggni til fjalla, sjávar, sveita og borga
llt um kring og verður erfitt að toppa þá upplifun á þessum stað aftur...

Útsýnið vestur til sjávar með Háatind á Akrafjalli hægra megin á mynd.

Auðvitað var tekin hópmynd á hæsta tindi ;-)

Hálkan þennan dag... hart hjarn og mjúkt snjófjúk á köflum.

Tveimur og hálfum kílómetra frá Hábungu var gengið á þriðja tind dagsins og þann næst hæsta á Esjunni
en hann var löngum talinn sá hæsti eða
Hátindur (909 m) í 918 m mældri hæð.

Þaðan gafst nýtt útsýni til suðurs og austurs af norðurbrúnum Eilífsdals um fjöllin okkar öll
sem safnast hafa í safnið gegnum árin á þriðjudögum steinsnar frá Reykjavík...

Móskarðahnúkar í sinni tignarlegu sýn en þeir eru á dagskrá Hjölla næsta þriðjudag 15. mars
og svo á dagskrá þjálfara þegar þeir koma frá Perú þann
12. apríl...

Tærleiki dagsins... brakandi blíða og óendanlega fallegir hvítir og bláir litir síðla vetrarins...

Ljósmyndarar dagsins voru margir góðir... Ásta Henriks hér að mynda það sem fer framhjá okkur hinum og Roar sem tók einstaklega fallegar myndir í ferðinni.

Katrín og Guðmundur Jón fjær en þau eru ein af þeim sem mætt hafa í (nánast) allar tindferðir frá því þau skráðu sig í klúbbinn.

Klöngrast niður af Hátindi...

Reisulegasta tindi Esjunnar í raun og sá eini sem ekki er hægt að kalla bungu eða kamb...


Það var keðjufæri mest allan daginn...

"Eilífsklettur" var fjórði tindur dagins... ágætlega reisulegur tindur sem rís yfir botni Eilífsdals og er nafnlaus á kortum en þjálfarar skírðu "Eilífsklett" í könnunarleiðangri um daginn þar sem hann á skilið staðfesta/skilgreinda tilvist á göngu manna um svæðið að okkar mati ;-) ...og mældist hann 906 m hár eða lítið lægri en hæstu tindar Esjunnar.

Þaðan var útsýnið glæsilegt um dalinn að Eilífstindi í fjarska hægra megin á mynd í klettabeltinu.

Hildur Vals. og Óskar Wild... betri ferðafélaga á fjöllum er ekki hægt að óska sér...

Hópmynd fyrir botni Eilífsdals

Engin leið að vita hvenær menn verða aftur þarna uppi í viðlíka veðri og eins gott að festa það á filmu!

Rósa, Stefán A., Roar, Hermann, Anton, Anna Sigga, Ásta Sig., Ketill, Jóhanna Karlotta, Björn, Kjartan, Día, Elsa Þóris., Hjölli, Óskar, Áslaug, Katrín, Huðmundur Jón, Jóhannes, Irma, Ásta H., Leifur, Hildur Vals. og Örn tók mynd.

... og með útsýninu...

Ekki hægt að fara upp á nokkurn stein þarna til að ná þessu betur á mynd enda engin leið að fanga fegurð dagsins á filmu hvort eð er.

Brúnirnar að Skálatindi...

Sums staðar finnst manni eins og það sé hægt að klöngrast þarna niður en hindranir gætu legið neðar
því það er dalur þarna innst í dalnum sem þarf svo að fara niður úr niður í dalsbotn.

Fjallamenn sem ekkert víla fyrir sér... Jóhannes, Ketill, Leifur...

Skálatindur (mældur 827 m) var síðast tindur dagsins... svipmikill hluti af fjallasal Eilífsdals sem veitir áhrifamikið útsýni yfir dalinn og yfir á Þórnýjartind sem var frumraunin þennan dag og sést vel hægra megin á myndinni (uppgönguleiðin um rimann) ásamt meginlandi hans sem liggur að Kistufelli nær Blikdal og genginn var í sama mánuði í fyrra í glæsilegri átta tinda ferð sem þó skákar engan veginn veðrinu þennan laugardaginn hér og nú árið 2011...

Síðasti leggur leiðarinnar lá svo niður af Skálatindi um Nónbungu niður í dalsmynni aftur.

Sólinni tekið að halla en enn nokkuð hátt á lofti sem gefur mars-mánuði forskot sem enginn annar vetrarmánuðu hefur með snjó yfir öllu í lok vetrar...

Útsýnið einstakt þennan síðasta legg... Hvalfjörðurinn í öllu sínu fjallaveldi með Meðalfellsvatn spegilslétt hægra megin.

Hreinleiki dagsins...

Ofan við þennan kafla vildi til óhapp sem fór sem betur fer vel.

Kjartan gekk utarlega í hlíðinni vestan megin og rann skyndilega af stað en náði að stöðva sig í snjónum en hefði vel getað farið lengra niður og endað í grjóti. Örn og Óskar fóru á eftir honum og allt slapp vel en þetta var ágætis áminning um hve fljótt getur brugðið út af og hve mikilvægt er að fylgja leið þjálfara.

Úff... best að brosa bara að þessu úr því vel fór sem betur fer... ;-)

Hvalfell og Botnssúlur í fjarska ásamt næsta dal Esjunnar á dagskrá 2012... Flekkudal með Hjalla í Sandsfjalli hægra megin mynd.

Eilífsdalur í lok dagsins... engin leið að átta sig á hvílík fegurð leynist þarna nema fara alla leið á staðinn...

Síðustu metrarnir voru svo farnir ofan af Nónbungu og gegnum sumarhúsabyggðina á veginum að bílunum.

Sjá þversnið gönguleiðar dagsins...

Brattinn upp Þórnýjartind sést vel vinstra megin og hvernig menn lækka sig niður á útsýnisstaðina í dalnum en hækka sig á milli upp á tinda dagsins og þann hæsta mælda 922 m hár á Hábungu.

Gönguleið dagins á gps-tækinu.

Mjórri línan er ganga dagsins en sú breiðari er könnunarleiðangur þjálfara fyrr í mars en þá fóru þeir öfuga leið og niður af Þórnýjartindi en ákváðu að á þetta löngum degi væri öruggara að fara óþreyttur erfiðasta hluta leiðarinnar og í bjartsýniskasti ákváðum við að bæta Hábungu og Hátindi við tinda dagsins ef veður yrði gott... það meira en rættist... svona veðurblíðu var varla hægt að óska sér og erum við afskaplega þakklát fyrir að fá svona góðan endi á vetrinum áður en við yfirgefum landið og höldum til fjalla í Suður-Ameríku...

Stórkostlegur dagur á fjöllum

...sem sjaldan gefst af slíkum gæðum sem þessum að vetri til hvað veður, skyggni, útsýni og færð varðar... að ekki sé talað um göngufélaga sem ekkert toppar... hjartansþakkir fyrir framúrskarandi frammistöðu, samheldnina, hjálpina og vináttuna... á alls 22 km leið á 8:40 - 8:49 klst. upp í 922 m hæð hæst með 1.364 m hækkun alls með öllu miðað við 103 m upphafshæð.

Myndir félaganna á fésbókinni klikka ekki... tær snilld !

Ljósmyndir þjálfara hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T51Eilifsdalur120311#

Þesi ferðasaga verður lagfærð frekar í apríl eftir Perúferðina!
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir