Blauta helgin í Húsafelli
"Tilraunin á Ok"


Slyddan náðist vel á mynd þar sem blaut snjókornin hvítnuðu undan flassinu...

Alls tóku 51 Toppfari þátt í vetrarferð klúbbsins í Húsafell helgina 28. - 30. janúar og 49 þeirra gerðu tilraun til að ganga á fjallið Ok í stormandi slagviðri en þurftu frá að hverfa eftir 2,4 km göngu á 1:38 klst. uppi í 482 m hæð. Í staðinn var snúið til baka og Guðjón Pétur bauð okkur í göngu gegnum skóginn í Húsafelli þar sem hluti af hópnum sneri þar við og náði 11 - 12 km göngu alls á meðan hinir héldu lengra áfram upp í Kaldadal og meðfram Hvítá á leiðinni til baka sem gerði alls 15,6 km á 5:14 - 5:17 klst. og var veðrið lítið skárra niðri á láglendi þó þar væri mannhelt...

Úr varð skínandi góð búnaðarprófun þar sem verulega reyndi á bæði skó og fatnað á annað hátt en í krefjandi tindferðinni í byrjun mánaðarins á Skarðsheiði. Nú var það bleytan og vatnsheldnin sem allt snerist um og við fengum að finna fyrir því á eigin skinni hversu erfitt er að halda almennilega á sér hita í 1) kulda (kringum frostmark) og 2) vindi (hvössum eða stöðugum) þegar maður er orðinn 3) blautur (mjög slæm þrenna)enda er það í svona veðrum sem margoft hefur orðið mannskaði gegnum tíðina hjá ferðalöngum á Íslandi sbr. t. d. banaslysið á Fimmvörðuhálsi 1970 þegar þrjú fórust þar illa búin í hvassri suðaustan rigningu (sjá áhrifamikla lýsingu á þessari ferð í bók Jóns Gauta "Gengið um óbyggðir" - Almenna bókafélagið 2004)... og mýmörg fleiri dæmi...

Eftir rennblauta gönguna tók sveitt laugardagskvöldið við í boði metnaðarfullrar skemmtinefndarinnar þar sem grillað lambalæri og meðlæti kom kærkomnum hita í innstu yflin... þar sem fersk skyrterta að hætti Björgvin bætti upp kolvetnatap dagsins... þar sem borðskreytingakeppnin sló hitakappi í kaldar kinnar... þar sem sannleiksþristakeppni Ástu Henriks hitaði upp í kolunum... þar sem orðaleikur Björgvins komu heilanum aftur í gang... þar sem gítarsöngur Rikka og Siggu Rósu þöndu hitanum í raddböndin... fyrir næturlangan hláturinn... þar sem danstónlist af öllum gerðum kom endanlega hita í þá kroppa sem enn voru ekki orðnir heitir eftir daginn... og endaði kvöldið í sama blauta en glaða Toppfaraandanum og ríkt hafði um daginn...

Lagt var af stað frá Gamla bænum í Húsafelli sem stendur við Bæjargilið klukkan 8:24 og var veðrið ágætt til að byrja með;
 myrkur, lygnt og úrkomulaust en þó stöku él snjókorn og smá gola á köflum.

Gengið var vestan megin við gilið upp ásinn sem liggur meðfram giljunum
og fór fljótlega að blása meira með hverjum metranum ofar sjávarmáli.

Færið var hált og sköflótt frá byrjun en allir í góðum málum þar sem þjálfari ráðlagði mönnum að járna sig við brottför á Gamla bænum þar sem fyrsta brekkan var sú brattasta á þessari leið og von á hálkubungum ofarlega. Lítið fór þó fyrir þeim þar sem slyddan bleytti vel upp í frosinni jörðinni og við vorum í fínasta færi megnið af leiðinni.


Blautur snjórin var fljótur að hlaðast utan á fötin og bleytan átti þar með greiða leið inn ef nokkur smuga gafst...

Þjálfarar höfðu lagt upp með síðustu dagana fyrir ferðina að litlir möguleikar væru á að ná tindinn vegna slæmrar veðurspár þennan dag og höfðu ákveðið að stefna á hálfa leið eða 5 - 6 km upp eftir og snúa svo við. Í upphafi göngunnar var ljóst að þessi áætlun gæti jafnvel ekki staðist vegna veðurs og því var lagt upp með að taka einn kílómetra í einu og meta aðstæður og ástand manna hvert sinn út frá því hvort haldið skyldi áfram eða snúið við.

Þetta gekk vel til að byrja með og eftir 1 km var veður og ástand manna gott. Eftir 2 km í rúmlega 400 m hæð hafði veður hins vegar versnað til muna með hvössum mótvindi og lélegu skyggni og fyrirskipaði þjálfari öllum að fara í allan sinn búnað á þeim tímapunkti; lambhúshettu, skíðagleraugu, belgvettlinga... og pakka niður höfuðljósunum því þau myndu bara flækjast fyrir í slæmum aðstæðum þegar erfitt er að athafna sig vegna veðurs enda var þarna farið að birta af degi.

http://www.youtube.com/BaraKetils#p/a/u/1/SPwEks_UkA8


Guðjón Pétur orðinn drekkhlaðinn af slyddusnjó  sem bókstaflega hlóðst  utan á menn og búnað eins og segull...

Eftir þetta var skyggni mjög lélegt og mótvindurinn ansi erfiður svo hópurinn var þéttur eftir 2,4 km göngu.
Hér fóru menn að velta því fyrir sér að snúa við og augljóst að ekki yrði gengið mikið lengra í svona veðri.

Þjálfari tók púlsinn á mönnum og virtust flestir á því að ganga aðeins lengra en voru alveg eins til í snúa við og taka göngutúr neðar í betra veðri og því var ákveðið að snúa við á þessum tímapunkti þar sem einhverjir voru farnir að blotna og stutt í að kólna.


Sigga Sig vel í prjónapilsi sem varð hvítt af snjó og þungt af bleytu í kjölfarið
en að var ein af lexíum dagsins að prjónuðu pilsin eru í íþyngjandi í þessari úrkomu.

Í 482 m hæð eftir 2,4 km göngu á 1:38 klst. var því snúið við til baka og voru menn eftir á flestir sáttir við það þegar málið var rætt niðri í skóginum, sérstaklega þegar menn voru orðnir blautir og kaldir fljótlega á niðurleið eða niðri í Húsafelli, svo þeir gátu jafnvel sumir ekki tekið lengri gönguna vegna kulda. Að okkar mati hefðum við getað barist áfram einhverja hundruð metra í þeim tilgangi að allir hefðu gengið á eigin mörk hvað veður varðar en um leið hefðum við getað lent í vandræðum með einhverja í hópnum sem hefðu blotnað enn meira og kólnað og eins hefðum við getað farið að lenda í óhöppum í þessum vindi (óveruleg meiðslahætta þó vegna snjósins og aflíðandi brekku) og þá eru málin fljót að verða flókin í erfiðu veðri.

Eins er það alltaf umhugsunarvert hve langt á að ganga þegar aðstæður eru erfiðar því eins og hollt og gefandi það er að lenda í erfiðum aðstæðum og sigrast á þeim, með tilheyrandi orkugjafa fyrir sjálfstraustið, þá er þetta tvíeggja sverð og ákveðin hætta á að ef menn lenda í erfiðum aðstæðum sem þeim finnst þeir ekki ráða við þá geta þeir orðið fráhverfir fjallgöngum í krefjandi veðrum í kjölfarið og jafnvel gefist upp á þessari útiveru. Þetta er raunveruleiki sem átt hefur sér stað í þessum klúbbi sem og annars staðar.

Um leið og við snerum við breyttust aðstæður og í stað þess að berjast hvern metra áfram fukum við niður eftir heiðinni og veðrið virtist versna þó við værum að lækka okkur enda engin leið að ná almennilegum ljósmyndum á þessum kafla...

Skyggnið var einnig slæmt og fremstu menn fljótir að hverfa í þokuna ef þeir síðustu héldu sér ekki vel við efnið...

http://www.youtube.com/BaraKetils#p/a/u/0/1Iu0OxQGUMI


Meira að segja myndatökur voru nánast óframkvæmanlegar á fjallsrótum Ok-sins...

Veðurslagsmálahundarnir:

 Anna Sigga, Anton, Auður, Alma M., Arnar, Ágústa, Ásta Bjarney, Ásta H., Bára, Björgvin, Björn, Brynja, Dóra, Einar Rafn, Guðjón Pétur, Guðmundur Jón, Guðmundur K., Guðrún Helga,  Gurra, Gylfi Þór, Hanna, Heiðrún, Hildur Vals., Hulda, Ingi, Irma, Jóhanna Karlotta, Jóna, Katrín, Kjartan, Lilja K., Lilja Sesselja, María S., Nonni, Ósk, Rikki, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Simmi, Sirrý, Snædís, Súsanna F., Stefán A., Steinunn, Sæmundur, Svala, Vallý og Örn.


Gylfi Þór og Guðmundur Jón greinanlegir gegnum búnaðinn...
Guðmundur Jón var með dökk skíðagleraugu sem töfðu för hans þar sem hann sá mjög lítið í gegnum þau í snjóbylnum.
Hja Gylfa Þór safnaðist sífellt móða innan á gleraugun sem minnti mann á Skessuhornsgönguna forðum daga.

Þegar loksins gafst smá skjól og við tókum pásu var tekin hópmynd og menn náðust á mynd...


Auður með dæmigert fjallabros sem skreytir göngur Toppfara á dýrmætan máta...

Ekki vantaði hláturinn á köflum og brosið í grennd þrátt fyrir veðrið...


Heiðrún með sama fjallabrosið á vör...

Það er sterk og kjarnmikil upplifun að berjast gegn slæmu veðri uppi á heiði vel búinn, heitur og þurr... heldur verra ef maður er orðinn blautur og kaldur en á þessum tímapunkti voru einhverjir farnir að blotna og kólna á meðan aðrir blómstruðu...

Vel gekk að fara til baka og veðrið skánaði með lækkandi hæð yfir sjávarmáli
en því slotað aldrei alveg þó komið væri niður á láglendið.

Hvaða búnaður virkaði og hver ekki?

Þjálfari kallaði eftir tölvupóstum félaganna með upplýsingum um hvaða skór/klæðnaður hélt og hvað hélt ekki. Eftir þessa ferð voru örfáir enn á þurrum skóm og einhverjir enn þurrir að ofan og jafnvel þurrir alveg á neðri hluta líkamans. Reynsla hópsins sýnir að í langvarandi slagviðri heldur ekki dýrasti fatnaðurinn frekar en annað og allt verður blautt en á því eru hugsanlega undantekningar. Það hefur verið okkar niðurstaða gegnum tíðina að það eina sem dugar er að vera í ullarfötum að innan og sjóklæðnaði að utan...

Er raunverulega vatnsheldur hlífðarfatnaður til annar en sjóklæðin?

Sjá niðurstöður neðst í þessari frásögn undir "Lexíur".

Brekkan niður með Bæjargili var ansi brött á köflum og menn þurftu að fóta sig varlega í vindinum og hálkunni.

Loksins sást eitthvað af landslaginu...

Gengið var vel til vinstri, vestan með Bæjargilinu þar sem það teygist vel úr því gili með fossum ofan af brúnunum sem getur verið hættulegt að ganga fram á í lélegu skyggni og hálku í lækjum sem liggja fram á brúnirnar þannig að maður getur hreinlega runnið af stað og fram af...

Smám saman tók kærkominn gróðurinn við sem gaf gott hald síðustu metrana niður brekkuna.

Hér áði hópurinn við lítið gil og einhverjir fengu sér smá nesti en þarna hefði aðalnestistíminn átt að vera þar sem gangan inn skóginn teygðist vel í tíma og menn voru orðnir svangir eftir bardagann uppi á heiði... næring er ein af þremur leiðum til að vinna gegn ofkælingu ásamt þurrum fötum og hreyfingu...

Blautt og kalt... mönnum kólnaði fljótt við að stoppa enda vonlaust að halda sér heitum þegar maður er blautur og kaldur
nema með mikilli brennslu á hreyfingu.

Björn, Sæmundur, Vallý, Súsanna, Gylfi Þór og fleiri bak við búnaðinn...


Fjallsræturnar niður að veginum við Bæjargilið með Húsafellsskóginnog sumarhúsabyggðina framundan.

Þetta var í annað sinn sem þessi klúbbur fær annað eins veður í tindferð, þessa beljandi slyddu í hvössum vindi og svo ausandi rigningu á láglendinu svo menn urðu mis gegnsósa af bleytu og kaldir og hraktir þegar yfir lauk. Hin ferðin var á Ármannsfell í febrúar 2008 þar sem við skiluðum okkur skjálfandi af kulda og hvít á fingrum sum hver í bílana og Jón Ingi varð alvarlega kaldur þar sem hlífðarbuxurnar gegnblotnuðu og hann var í engu innan undir: http://www.fjallgongur.is/tindur9_armannsfell_160208.htm

Litið til baka upp að Bæjargili... við gengum hægra megin upp ásinn en gönguleiðin vinstra megin (sem við fórum ekki) er betri útsýnisleið hvað gilið varðar og tilvalinn hringleið þarna um að sumri til.
Gilið greinist í fleiri gil ofar og leynir verulega á sér og eins er spennandi að ganga ofan í því sem okkur sýndist vera fært að gera.

Gengið var niður á veg og framhjá Gamla bænum og sumir íhuguðu það alvarlega að fara inn í hús þar sem þeir voru orðnir blautir
en um leið var ekki einu sinni komið hádegi og flestir með þörf á að hreyfa sig meira áður en flúið væri inn í hús...


Guðjón Pétur, Örn, Ásta H. og Ingi

Gangan inn í skóginn var krydduð smá lækjartiplun svona til að koma nýju blóði á hreyfingu...
...og bleyta nú örugglega skóna þeir sem ekki nenntu að passa sig ;-)

Í skóginum íhuguðu síðustu menn uppreisn vegna nestisleysis... hvenær máttum við eiginlega fá að borða ?
"Það er bara rétt hérna... inni í skóginum... bara 500 metra lengra"... ;-)

Skógarstígurinn í Múlaskógi þar sem við loksins fengum okkur nesti.

Við ofkælingu eru þrennt mikilvægast og gert í þessari röð ef mögulegt er:

1. Fara í þurr föt
(auka einangrun og draga úr hitatapi - mikilvægast).
2. Borða
(framleiða hita með hitaeiningum, einföld kolvetni og sykur mikilvægast og gerir orkurík fæða meira gagn en hiti í drykk t. d.)
3. Hreyfa sig
(til að framleiða hita).

1. Einhverjir fóru í þurrt sem þeir áttu í bakpokanum en flestir voru með allt blautt utan á sér og í bakpokanum
(héldu einhverjiar bakpokahlífar?).
2. Loksins kom næringin!
3. Við vorum búin að halda okkur vel á hreyfingu en það hafði ekki dugað hjá öllum til að halda sér nægilega vel heitum enda getur það orðið nánasts ómögulegt ef menn komast ekki fyrst í þurr föt.

Eftir nestið var haldið lítið eitt áfram út stíginn þar til komið var að beygju inn með skóginum aftur til baka og hér sneru 26 manns við en þá þegar höfðu 2 snúið fyrr við vegna bleytu og kulda og segir þetta allt um ástandið á veðrinu, búnaði og mönnum eftir vosbúðina.
Enginn hætt kominn en mönnum hætt að líða vel og heiti potturinn lokkaði grimmt ;-)


Koníakið yljaði svo um munaði raunverulega...
Steinunn, Snædís, Kjartan, Guðmundur Jón, Ingi, Ágústa, Anton, Irma, Guðjón Pétur og Örn.

Við vorum því eingöngu 21 manns sem héldum áfram undir leiðsögn Guðjóns Péturs, sum vel þurr en önnur hálf blaut en engum farið að líða illa og löngunin í erfiðan túr þar sem maður yrði virkilega blautur - kaldur - þreyttur áður en yfir lyki var freistingunni um að snúa við í pottinn öllu yfir terkari ;-)

Arnar, Guðrún Helga, Ásta H., Ágústa, Kjartan, Ingi, Katrín, Guðmundur Jón, Anton, Irma, Örn og Björgvin.

Gengið var inn á Kaldadal um Skagfirðingaflöt eftir veginum til baka
meðfram lækjarsprænu sem rennur svo í Hvítá norðar og farið var greitt og glatt...



Kaldadalshópurinn við "gljúfrin" í einum af sprænunum sem mynda Hvítá:
Efri:
 Arnar, Guðrún Helga, Örn, Sæmundur, Lilja Sesselja, Anton, Kjartan, Ingi, Anna Sigga, Stefán og Ásta H.
Neðri: Guðmundur Jón, Katrín, Ágústa, Irma, Steinunn, Snædís, Björgvin, Guðmundur K. og Guðjón Pétur.
Bára tók mynd og Dimma hélt utan um sína menn ;-)

Tignarlegur og ægilegur staður...

Snædís og Irma.

Það segir allt um hve sterkar konur eru í Toppförum að þær voru 10 af þessum 21 manna hópi sem fór í Kaldadalinn
og þó vantaði margar af sterkustu göngukonum klúbbsins í þennan hóp...

Anton og Lilja Sesselja með gljúfrin í baksýn og í góðu skyggni hefði Strútur risið yfir landslagið í fjarska í norðaustri...

Hátunga og Tunga heita hæstu tindar þessa fells sem reis framundan okkur í norðri.

Hvar var Húsafell-ið sjálft?

Ágústa, Stefán A., Sæmundur og Steinunn... auðvitað hvarf brosið aldrei...

Öðru hvoru fór snjóblásnir bílar framhjá okkur og jafnvel heil lest af björgunvarsveitarbílum og voru menn þar inni með sama svipinn á andlitinu og við höfðum; "hvað eru menn eiginlega að þvælast svona uppi á fjöllum í þessu veðri"? ;-)

Loksins komum við "heim" í Gamla bæ... sannarlega orðin blaut flest öll svo bullaði jafnvel í skónum en sæl og glöð með ansi góðan göngutúr þrátt fyrir brjálað veður... já, 15,6 km á 5:14 - 5:17 klst... við gátum verið ánægð með afrekið...


Snædís, Anton og Irma komu keyrandi frá Reykjavík eins og Alma, Hulda og Ósk (sex manns)
og áttu því tæpan 2 klst. akstur að baki þegar þau mættu fyrir klukkan átta um morguninn... geri aðrir betur...

Gleðin og þakklætið með krefjandi en skemmtilega göngu í félagsskap af hæsta gæðaflokki réð ríkjum í þessari ferð... eins og alltaf... og að mati þjálfara má taka ofan fyrir öllum þeim 49 manns sem mættu galvösk til göngu klukkan átta á myrkum laugardagsmorgni í vindi og stöku úrkomu með slæma veðurspá í farteskinu og algera óvissu um hvort nokkuð yrði hægt að ganga yfirleitt vegna veðurs... göngumönnum sem héldu gleðinni á lofti gegnum allt volkið fram á sjöttu klukkustund... og ekki síst þeirra sex sem mættu alla leið frá Reykjavík eftir tæplega 2 klst. akstur frá því rúmlega sex um morguninn... en þar á bæ vantaði ekki þakklátt brosið eftir blautan dag frekar en fyrri daginn...

Björgvin sem stjórnaði skemmtinefndinni af metnaði og ósérhlífni... Guðmundur K. sem bættist í hópinn í janúar en hefur mætt í nánast allar æfingagöngur síðan þá og báðar tindferðirnar sem hann var himinlifandi með þó krefjandi væru... og Steinunn sem lét sig ekki vanta á kvöldvökuna þó hún ætti svo eftir að keyra í bæinn um kvöldið þar sem hún þurfti að mæta til vinnu á sunnudeginum...
Geri aðrir betur segir maður nú bara aftur um svona fólk ;-)

Þversnið af göngunni...



Gula línan er ganga dagsins og
svarta er ganga þjálfara á Ok í byrjun janúar en þá fórum við austan Bæjargilsins til að skoða það.
Þessi ganga skráist í safnið sem "
tilraun á Ok" þar sem við gengum á fjallsræturnar og við stefnum síðar alla leið...

Heiti potturinn var það besta sem hægt var að fá eftir volk dagsins... bústaðafólkið flest í sínum pottum um svæðið en við á Gamla bænum og fleiri í berskjölduðum pottinum þar sem rigningin og rokið buldi áfram á okkur... svo þeir sem sátu norðan megin fengu það óþvegið áfram á meðan suðurhliðin var í skjóli... þetta var alvöru veður sem skellti ekki á eftir sér fyrr en á mánudagskveldinu...


Hildur Vals og Ásta H.
Móða enn á myndavélinni eftir volk dagsins...

Eftir pottinn var enginn tími til að leggja sig hjá skemmtinefndinni... nú þurfti að koma borðum og stólum fyrir, nýta þau húsgögn sem fyrir voru
í húsinu og finna sæti fyrir alla 43 gestina sem við áttum von á um kvöldið...

Undirbúningur hófst kl. 16:30 og menn mættu samviskusamlega og töfruðu fram dýrindismáltíð kvöldsins.

Vinkonurnar Jóna og Sigga Rósa sáu um salatið og er Sigga Rósa komin með "áralanga reynslu" af því að
standa við þetta borð og skera salat fyrir tugi Toppfara ;-)

Arnar, Nonni og Örn sáu um að grilla 8 lambalæri og fengu andlegan stuðning frá Dóru og Guðrúnu Helgu og heimsókn frá félögunum eins og Einari Rafni hér sem var í fyrstu tindferðinni sinni með hópnum ásamt Jónu konu sinni og fengu ekki alveg það besta sem gefst á fjöllum ;-)

Lilja K., Hanna og Anna Sigga sáu um kartöflurnar og sósuna... hvílíkt lostæti...

Björgvini tókst af stakri snilld að töfra fram skyrtertu með jarðarberjum og bláberjum í eftirrétt fyrir allan hópinn...


Ásta Henriks fór í fjöruferð til að ná í skrautið fyrir borðið skemmtinefndarinnar...

Á meðan menn grilluðu, skáru grænmeti, hituðu kartöflur, suðu sósu og útbjuggu eftirrétt
stóðu hinir í stórræðum að raða borðum, leggja á borð og skreyta...

Ásta Henriks og aðrir listamenn skemmtinefndarinnar sáu um borðskreytingu hennar en nefndin borðaði í eldhúsinu eins og sönnum húsmæðrum sæmir á meðan hinir snæddu í stássstofunum... en þar sem í nefndinni eru eingöngu góðhjartaðir einstaklingar sem ekki geta hugsað sér að gera upp á milli félaganna enduðu þau á að skemmtu sér konunglega við að útkljá borðskreytingakeppnina á jafnræðisgrundvelli... en þau hafa með öllu hafnað aðdróttunum um að niðurstöður keppninnar segi allt um þeirra hugarfar heldur vísa í keppendur og segjast ekkert hafa getað gert í málinu nema það besta úr því sem komið var ;-)

Kyssilegasta borðið... rómantískt og rautt...

Arnar, Guðrún Helga, Dóra og Nonni.

Nautnalegasta borðið... það var hægt að borða skreytinguna...

Rikki, Einar Rafn, Sigga Rósa og Jóna.

Gr... borðið... hálfberir karlmenn og bleikir varalitir...

Þetta var stórt borð og ekkert minna en tvær myndir dugðu fyrir skvísurnar:

Brynja, Ásta Bjarney (í heimsókn), Anna Sigga og Steinunn.

Hinn hlutinn af gr... borðinu:

Ágústa, Lilja K., Kristín Gunda (í heimsókn), Auður og Brynja.

 Bjartasta borðið...

Gylfi Þór, Lilja Sessellja, Sæmundur og Kjartan en klaufaskapur þjálfara veldur því að Kjartan er ekki á myndinni, því miður.
Getur einhver sent mér mynd af þessum hópi með Kjartani á mynd?

Saklausasta borðið... afrikanskur stíll og barnadiskar og -glös...

Kristín Gunda, Ásta Bjarney og Ásta Þórarins.

Spilltasta borðið sem fyrst var valið rauðvínslegnasta borðið af nefndinni... þar til hún komst að þessu með Bangsímon...

Jóhnanna Karlotta, Rósa, Súsanna F., Svala og Vallý (og Gylfi).



Dónalegasta borðið... alveg augljóst... pípulagnir hvað?
Björn (gestur á borðinu), Simmi, Guðjón Pétur, Heiðrún, Ingi, María S., og Gurra og svo Guðmundur K. sem gestur
en Björn og Guðmundur gistu í Gamla bænum með skemmtinefndinni en það var bara ekki meira borðpláss í eldhúsinu!


Hildur Vals., Sigga Sig. og Stefán Alfreðs.

Eftir matinn sem gat ekki verið ljúffengari tók skemmtinefndin við og fór hamförum...
í skemmtiatriðum á borð við borðskreytingakeppnin sem Stefán Alfreðs las upp niðurstöður af,
3ja sannleikskorna leik Toppfara - hver er maðurinn -  sem sló í gegn undir stjórn Ástu Henriks
og orðaleik Björgvins en ákveðið var að hafa framhald á þessum leikjum sökum stakrar snilldar þeirra...

Síðar um kvöldið tók Rikki við á gítarnum og Sigga Rósa stjórnaði söngnum...

Það eru margir ástríðufullir söngmenn í hópnum og það var ekkert gefið eftir ;-)

Eldhúspartýið var óstöðvandi og hætti ekki fyrr en að ganga fjögur um nóttina...

Danssveiflan inni við var í fullkomnum takti við slagviðrið sem hélt áfram að bylja á gluggunum úti frá því nóttina áður..



Björgvin mætti með danslög í þúsundatali...

...sem gat verið flókið að velja úr í mestu danssveiflunum...

Hóp-dans-knús í lok kvöldsins...
Þetta er síðasta lagið...
þetta
er síðasta lagið...
þetta er
síðasta lagið...
þetta er síðasta
lagið....

Þjálfarar þakka öllum sem gáfu ekki eftir og mættu þrátt fyrir allt...
Og öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn til þess að þessi helgi heppnaðist svona vel...
Sérstaklega vilja þeir þakka metnaðarfullu skemmtinefndinni sem lagði mikla vinnu við að kokka saman alveg frábært kvöld eða þeim Ástu Henriks, Björgvini, Hönnu, Hildi Vals. og Siggu Sig og eins sérlega góðu aðstoðarmönnunum þeim Sirrý og Stefáni Alfreðs ;-)
Svona lagað gerist ekki að sjálfu sér !

Heim fórum við á sunnudeginum reynslunni og gleðinni ríkari... og veðrinu slotaði ekki fyrr en á mánudagskvöld... því það var janúar og sá mánuður hefur reynst okkur ansi þungbær veðurfarslega séð... hann ætlaði greinilega ekki að linna látunum fyrr en febrúar  tæki við...

Sjá allar myndir þjálfara á http://picasaweb.google.com/Toppfarar/T49OkHusafell290111#
Sjá tvö myndbönd af göngunni á Youtube: http://www.youtube.com/BaraKetils
Og frábærar myndir félaganna á fésbókinni: www.facebook.com

Lexíur göngunnar
Hvaða búnaður hélt í þessu veðri?
Er raunverulega vatnsheldur fatnaður til?

Þjálfari kallaði eftir upplýsingum frá klúbbmeðlimum með hvaða búnaður virkaði og hvað gaf sig í þessari vasklegu ferð sem vel reyndi á búnað hvað bleytu og vatnsheldni varðar þó menn hafi hingað til verið í góðum málum í frosti, kulda og vindi:

Hvítu héldu vatni - svörtu láku.

Jakkar sem héldu:

  • Nýir jakkar frá Cintamani - Katrín og Guðmundur Jón.

  • Gamall og margnotaður 2ja laga jakki frá Zo-on - Anton.

  • Primaloft úlpa frá Zo-on (þykk) hélst þurr allan tímann - Bára.

  • North face summit 3ja laga - blotnaði á bringunni en líklega gegnum opið hálsmál (aldrei þvegið hann)- Gylfi Þór.

  • North face summit 3ja laga -alveg þurr - Lilja Sesselja.

  • Cintamani 3ja laga hélst þurr nánast allan tímann, aðeins bleyta á öðrum handlegg - Ásta H.

  • North face hélt alveg, hefði getað gengið lengur, ekkert kalt - Ágústa.

  • Cintamani, eldri gerð, hélst svo til þurr - Rikki.

  • BERGHAUS Gallinn (úlpa og smekkbuxur) er meira en 20 ára gamall galli úr þykku GoreTex efni með soðnum saumum – gallinn blotnaði ekki í gegn en buxurnar blotnuðu í gegn rétt neðst á skálmunum  - Stefán Alfreðs.

     

Jakkar sem blotnuðu:

  • Nord Blanc jakki frá Íslensku Ölpunum var alveg blautur í gegn, ekki þurr þráður - Lilja K.

  • Nord Blanc dúnúlpa lak í gegn - Lilja K.

  • Primaloft úlpurnar orange frá 66°N láku alveg hjá öllum sem voru í þeim - Hanna, Hulda, Sæmundur, Örn (eru ánægð með hana annars).

  • Regatta jakki, gamall og margnota lak alveg - Jóhanna Karlotta.

  • 66°N 2ja laga - hélt ekki, láku alveg í gegn - Sæmundur.

  • Glymur 66°N var aðeins farinn að blotna í gegn. Hann á að strauja eftir þvott til að endurheimta góða vatnsheldni (strauja á 2 punktum, stendur í leiðbeiningum og á þvottamerki) en það gleymdist fyrir ferðina. Einnig spurning að nota sérstök þvottaefni fyrir slíkar flíkur, t. d. Biotex Outdoor - Alma M.

  • Didrikson rain - gömul og dugað vel hélt ekki en rennilásar voru opnir ofl. - Sirrý.

Buxur sem héldu:

  • Nýjar buxur frá Cintamani - Guðmundur Jón.

  • Glymur buxur frá 66°N sem eru einstaklega léttar og liprar og sennilega best vatnsheldu öndunarbuxurnar, alla vega sem framleiddar eru hér, 35.000 mm vatnsheldni - er úr s.k. Event efni, 3ja laga - Alma M.

  • Cintamani 3ja laga - Lilja Sesslja.

  • North face hélt alveg, hefði getað gengið lengur, ekkert kalt - Ágústa.

  • BERGHAUS Gallinn (úlpa og smekkbuxur) er meira en 20 ára gamall galli úr þykku GoreTex efni með soðnum saumum – gallinn blotnaði ekki í gegn en buxurnar blotnuðu í gegn rétt neðst á skálmunum  - Stefán Alfreðs.

Buxur sem láku:

  • Margnotaðar 3ja laga buxur frá Zo-on (orðnar götóttar) láku alveg en hafa dugað vel til þessa - Bára.

  • Regatta 2ja laga láku alveg - Örn.

  • Norc Blanc notaðar soft shell buxur (10.000 vatnsheldni) sem hafa dugað vel láku alveg - Lilja K.

  • Regatta buxur, gamlar og margnota láku alveg - Jóhanna Karlotta.

  • Cintamani buxur láku alveg - Ásta H. - ATH betur!

  • 66°N 2ja laga - hélt ekki, láku alveg í gegn - Sæmundur.

  • 66°N buxur gamlar héldu ekki - Sirrý.

  • Cintamani 3ja laga urðu blautar - Gylfi Þór.

  • Cintamani 3ja laga - rennblotnaði - Ásta H.

  • Cintamani 2,5 laga láku þar sem neðsti hluti bakpokans nuddaðist við og eins á fótum þar sem leggghlífar nudduðust við - Rikki.

Skór sem héldust þurrir:

  • Meindl - gamlir og margnotaður - var alveg þurr í þeim (fór allan hringinn)- Guðmundur Jón.

  • Scarpa - Hekla - algerlega þurr í þeim (fór allan hringinn) - Alma M.

  • Scarpa - var alveg þurr (fór allan hringinn) - Sæmundur.

  • Meindl island lady - annar skórinn lak, hinn ekki, veit eki afhverju (vaxaði fyrir ferð) - Ásta H.

  • HanWag vandaðir þýskir millistífir gönguskór með goretex filmu og vibram sóla, stífleiki B7C - láku ekkert - Ágústa.

  • VIKINg skór frá Ellingsen - láku ekkert, skraufþurr þó legghlífar væru utan á buxum - Rikki.

  • TREZETA - GoreTex úr leðri urðu vel blautir en héldust nánast alveg þurrir að innan

Skór sem láku:

  • Gritex gönguskór úr Hagkaupum og Húsasmiðjunni - dugað vel en rennblautir svo hellt var úr þeim þrátt fyrir að vera með legghlífarnar innan undir hlífðarbuxurnar - Bára.

  • Meindl sem borið var á leðurfeiti og hitaðir méð hárblásara (aðferð sem hefur gefist vel til að koma feitinni lengra inn) og dugað vel árum saman en blotnuðu nú - Sirrý.

  • Flestir voru blautir í fætur en þar hafði áhrif að menn voru með legghlífarnar utan á skálmunum eða buxur og legghlífar voru orðnar blautar og bleytan átti greiða leið inn.

Innrifatnaður annar en ullarfatnaður sem blotnaði ekki:

Peysa úr Ultrafleece efni frá MOUNTAIN EQUIPMENT (fjólubláa peysan) + rúllukragapeysa úr teygjanlegu fleece efni  frá 66°N + síðerma bolur frá úr gerviefni frá  NEWLINE + buxur (þykkar) úr fleece efni frá 66°N + nærföt úr gerviefni frá HELLY HANSEN - Stefán Alfreðs.

Vettlingar sem héldu hita eða láku ekki:

  • Ullarbelgvettlingar héldu mörgum í hópnum heitum allan tímann þó þeir væru orðnir blautir utan yfir í hinum ýmsu hlífðar-beltvettlingum sem allir láku að því best er vitað.

Vettlingar sem héldu ekki hita eða láku:

  • Flísvettlingar - varð bæði blaut og köld - Katrín

  • Marmot-belgvettlingar sem sagðir eru vatnsheldir rennblotnuðu fljótt (margreynt í gegnum árin í þessum klúbbi en þeir kosta nokkra þúsundkalla og hafa ekki virkað betur en fóðraðir belgvettlingar úr Rúmfatalagernum á mörgum sinnum lægra verði - Ásta H., Lilja K., Örn.

  • Zo-on belgvettllingar, margnotaðir gegnum árin og duga vel í kulda og vindi en leka í bleytu og voru rennblautir - Bára.

  • North face heavy utanyfirhanskar - gáfu sig - Gylfi Þór.

  • "Vatnsheldir", skíðabelgvettlingar (óþekkt tegund) láku alveg - Rikki.

  • Vettlingar – tvöfaldir fingravettlingar – ytri vettlingar úr GoreTex efni og innri vettlingar úr fleece efni – frá ANNO DOMINI 2000 – innri vettlingarnir héldust þurrir mjög lengi en þeir blotnuðu í gegn að lokum - Stefán Alfreðs.

Höfuðföt sem héldu:

  • Cintamani lambhúshetta - heitir Torfi hélt vel - Alma M.

  • Ullarlambhús  frá Intersport (ekkert merki) - dugað í mörg ár og heldur alltaf vel hita þó blotni - Bára.

  • 66°N lambhúshetta - Sirrý

  • Lowe Alpine rauða derhúfu með flísi inni í og  eyrnarhlífum - Sirrý.

  • 66°N Orange sjóhattur regnheldur hélt vel í þessari ferð - Sirrý.

  • Höfuðföt – tvennar þunnar lambhúshettur – ytri hettan úr Flecce efni og innri hettan úr silki (100%) –blotnuðu lítið en ég var með úlpuhettuna yfir þeim meirihluta leiðarinnar og hún blotnaði ekki í gegn - Stefán Alfreðs.

Sokkar sem héldu:

  • Vegard ULVANG norskum ullarsokkum úr merinoull héldu vel hita þó hellt hafi verið úr skónum - Sirrý.

  • Ullarsokkar héldum mönnum almennt heitum f ætur þó þeir væru orðnir blautir.

  • Tvennir sokkar – þykkir ytri sokkar úr gerviefna/ullarblöndu (BRIDGEDALE) og þunnir innri sokkar úr gerviefnablöndu (BRIDGEDALE) – annar af ytri sokkunum blotnaði örlítið að ofanverðu en hélst þurr að öðru leyti – innri sokkarnir blotnuðu ekkert - Stefán Alfreðs.

Skíðagleraugu sem virkuðu ekki:

  • Of dökk - ? nafn? - svo erfitt var að sjá gegnum þau í byl og lélegu skyggni - Guðmundur Jón.

  • Scott hjólagleraugu, tvöfalt gler - Móða safnaðist fyrir í þeim og erfitt að sjá (JHM sport Stórhöfða) - Gylfi Þór.

Bakpokahlífar sem héldu:

  • Brunner all out door - Íslensku alparnir - hélt vel - Sirrý

Þeir sem voru með farangur pakkaðan inn í plastpoka innan í bakpokunum héldu farnagri sínum þurrum - Stefán Alfreðs, Bára o.fl.

Sjá allar lexíurnar úr ferðinni í ferðasögunni í heild - endilega sendið mér ykkar lexíur:
http://www.fjallgongur.is/tindur49_ok_290111.htm
 

Nokkrar góðar lexíur sem fara í safnið:

*Hafa legghlífarnar innan undir hlífðarbuxunum svo að bleyta renni ekki innan undir og beint ofan í skóna. Best að venja sig bara á þetta alltaf því maður veit aldrei hvenær það kemur úrkoma óháð veðurspá og veðurútliti. Þegar gengið er í snjósköflum er líklega tilhneiging til að hafa legghlífarnar utan á buxunum en ef snjóskaflarnir eru orðnir hnédjúpir þá sópast snjórinn ofan í skóna inn eftir legghlífunum í staðinn fyrir að renna milli hlífanna og buxnanna og eiga erfiðara með að komast þaðan inn á innri buxur og skó.

*Ef menn voru með legghlífarnar utan á hlífðarbuxunum þá átti bleytan greiða leið niður með þeim og ofan í skóna og það segir minna um hvort skórnir voru vatnsheldir eða ekki. Þeir sem voru með legghlífarnar innan undir en blotnuðu samt voru klárlega í skóm sem ekki héldu vatni. Eins er erfitt að líta framhjá því að ef skór láku með rennblautar hlífðarbuxur liggjandi utan á skónum (óháð legghlífum) og yfir þeim þá áttu þeir skór erfitt með að haldast þurrir (buxurnar liggja utan í þeim og leiða bleytuna milli efna). Það er greinilega samband á milli þess að vera í þurrum skóm og þurrum buxum.

*Ekkert annað en ullarvettlingar duga í vetrarveðri. Ullin helst þurr þó hún blotni en önnur efni verða köld og halda ekki hita ef þau blotna!

*Ullarnærföt héldu mörgum heitum allan tímann í þessari ferð. Þjálfarar fara ALDREI á fjöll að vetri til án þessa klæðnaðar, sama hvernig veðurspáin er eða veðurútlit og þjálfarar og margir félagar mælast til þess að fara aldrei á fjöll að betri til nema í ullarnærfatnaði.

*Ullarpeysur héldu nokkrum sem í þeim voru vel heitum að ofan óháð því hvort menn blotnuðu í jakka eða ekki.

*Ullarfötin sem voru utan á, pilsin, treflar o.fl. blotnuðu þegar snjór hlóðst utan á þau og þau þyngdust mikið við það sem var til trafala.

*Tvær konur fengu krampa eftir gönguna, Lilja K sem var orðin verulega blaut og köld og tók styttri hringinn í skóginum og Katrín sem fór alla leiðina og var ekki kalt en báðar eru sterkar og vanar göngukonur. Kramparnir skrifast á vökvaskort þar til annað sannast en eins leika steinefni ákveðið hlutverk í krömpum og hafa menn komist að því að magnesíum virðist koma í veg fyrir krampa við mikið álag (maraþonhlauparar og víðavangs/fjallahlauparar).

*Það má ekki líða of langur tími að nestistíma þegar menn eru orðnir kaldir (þó erfitt sé að stoppa vegna kulda) því næring er ein leið til að koma hitaeiningum í kroppinn (lexía þjálfara og ekki í fyrsta skipti).

*Löng stopp eru erfið þegar menn eru orðnir kaldir (hreyfing til að halda hita) og því þarf að stoppa stutt ef hægt er og allir að vera meðvitaðir að halda takti við hópinn, m. a. með því að fara af stað á sama tíma og hinir en ekki byrja á að teygja vel á hópnum með því að fara seinna af stað.

*Það er þess virði að stoppa og fara í þurrt, skiptir öllu til að ná upp hita þegar maður er blautur og kaldur.

*Skíðagleraugun voru nokkrum til trafala í ferðinni vegna þess að þau þvældust fyrir, voru of dökk eða of móðug. Eins eiga þeir sem ganga með gleraugu erfiðara með að vera með skíðagleraugu og þurfa að komast upp á lag með að nota þau með því að æfa notkun þeirra þegar færi gefst því í erfiðum aðstæðum er erfitt að vera í vandræðum.

*Til að viðhalda vatnsheldni hlífðarfatnaðar þarf að fara eftir leiðbeiningum á hverri flík. Má þvo hana í þvottavél eða á eingöngu að skola af henni undir sturtu? Hvaða þvottaefni má nota. Alma bendir á Biotex Outdoor,  Sirrý bendir á NIKWAX TECHWASH (Wash-in cleaner for waerproof textiles.... Cleans safely, revitalises breathability & water repellency. Recommended for Gore-Tex´, Sympa Tex, Permatex, eVENT and Nikwax analogy)  - til þess að þvo útivistarfatnað þ.e. úlpur og utanyfirbuxur, tjöld og fl. gefur vörn við þvott - keypt 66°Norður.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir