Tindur 56 Hekla á skírdag og sumardaginn fyrsta 21. apríl 2011
 


Hamskiptin á Heklu

Við vorum 21 Toppfari sem létum löngunina til að fara á fjöll um páskana yfirstíga úrtölur veðurspárinnar sem varla gaf smugu allar hátíðirnar og gengum á Heklu á skírdag og sumardaginn fyrsta fimmtudaginn 21. apríl sem virtist vera skásti dagurinn.

Veðrið var með besta móti til að byrja með, logn og sólarglæta en drottningin sjálf í skýjunum og mátti ekkert vera að því að fá gesti þegar komið var fram yfir hádegi og stöðvaði för göngumanna þegar 2,2 km voru eftir í tindinn...

Bílfærið var ekki beisið á leiðinni upp eftir en þetta slapp á fimm mis stórum jeppum... og viljugum bílstjórum...  með einu kaðlatogi...

... með Hekluræturnar svo freistandi framundan að við gátum ekki beðið eftir að komast úr bílunum...

Við gátum lagt bílunum við hraunkantinn á Skjólkvíarhrauni í ekki meira en 2,4 km frá vanalegum upphafsgöngustað
sem var mun lengra upp eftir en nokkur þorði að vona...

Það var sannkölluð blíða til að byrja með þegar við lögðum af stað kl. 9:50...

Við vorum í sólskinsskapi því svona fallegur dagur var framar öllum vonum og spám...

Föngulegur kvennaflokkur Toppfara sem vílar ekkert fyrir sér...
Lilja Sesselja, Steinunn, Lilja Bjarnþórs, Hugrún, Elsa Inga, Anna Sigga og Elsa Þóris...

Rauðaskál í vetrarbúningnum...

Fyrstu rúma tvo kílómetrana vorum við að ganga þar sem vanalega er ekið inn eftir og það var sérkennilega gaman...

Sólin skein á köflum gegnum skýin og við vorum í brakandi góðun færi til að byrja með...

Fljótlega hertist þetta þó og við skelltum á okkur hálkukeðjunum sum hver.

Guðmundur Jón hér að aðstoða Katrínu en þau hjónin hafa sýnt einmuna staðfestu frá því þau byrjuðu í klúbbnum
og mæta nánast alltaf óháð veðri, bæði á æfingar og í tindferðir.

Pása hér og útsýnið gott til vesturs...

Brúðarslörið hennar Heklu úr hrauni skákar glæsilegustu konungabrúðkaupunum... 

Smám saman þyngdist færið þegar ofar dró og vindurinn jókst eins og spár höfðu sagt til um að myndi gerast eftir hádegið...

Lilja Bjarnsþórs, Hugrún, Hjölli og Björn.

Matarpása... sú fyrri þennan dag... í skjóli fyrir sæmilega vindasömu veðrinu... en allir vanir öllu á fjöllum...

Anna Sigga, Elsa Inga, Thomas, Björn, Irma, Björgvin, Steinunn og Hugrún.

Til að byrja með sást móta fyrir landslaginu en svo lokaðist fyrir allt skyggni og gengið var eftir vindi, færi, landslagi og  gps...

Varðandi snjóflóðahættu:

Almennt töldu þjálfarar ekki snjóflóðahættu til staðar þar sem leiðin var aflíðandi, brekkurnar stuttar og snjóalög líklega vel frosin saman þetta snemma vors eftir litlar umhleypingar. Með réttu má þó segja að snjóflóðahætta hafi þó verið til staðar þar sem við gengum í bröttustu brekkunum (30°-45°) og það hlémegin þar sem skafið getur ofan af hryggnum og safnast fyrir efst (gjarnan flekaflóð) og í norðurhlíðum þar sem hættan er meiri á köldum vetrardögum og eftir líklega samfellda úrkomu vikuna á undan. Ætlunin var að ganga með hryggnum alla leið (hefðbundin leið) en til að vera í skjóli var farið vestan megin við hrygginn og þá var öruggast að vera efst eins og við gerðum þar sem það er öruggasti hlutinn sé nauðsynlegt að fara um brattar brekkur. Skyggni var samt lítið og ekki hægt að fullyrða hversu ofarlega við vorum (þá öruggari) en það staðfestist þó öðru hvoru þegar létti til og við sáum upp á brún enda lentum við á rauðahrygg þegar við snerum við en hann myndar brúnina á hryggnum á kafla.

Öruggast hefði verið að halda sig ofan á hryggnum og taka skóflupróf í mestu brekkunum og í raun er varasamt að ganga um svona svæði í engu skyggni þar sem erfitt er að meta brekkurnar, lengd, halla ofar eða neðar og snjóalög.

Undir lokin var þetta orðið dæmigert skaflajark þar sem fararstjórinn hjó spor með skónum hvert skref á milli þess sem hann reyndi að fylgjast með gps-úrinu til að halda beinni stefnu á tindinn... og halda jafnvægi gegn hvössum vindinum úr suðaustri... en snjófargið gaf okkur leyfi til að elta ekki nákvæmlega hefðbundna gönguleið heldur fara í beinni línu upp til að spara vegalengd og vera aðeins í skjóli fyrir suðaustanáttinni með því að þræða okkur neðar undir hryggnum norðvestan megin.

Skyggnið varð svo slæmt á tímabili að fremstu menn voru fljótir að hverfa inn í snjófjúkið...


Nei! Ég vil ekki snúa við!

Þarna var haldinn fundur, Gylfi Þór vildi snúa við og Lilja Bjarnþórs ákvað að fara með honum niður.

Gengið var á línuna og menn spurðir hvað þeir vildu gera, flestir harðákveðnir í að halda áfram
og ekki tilbúnir til að snúa við en einhverjir voru þó aðeins farnir að hika.

Við kvöddum því Gylfa og Lilja Bjarnþórs og horfðum á þau fara greitt yfir niður en Gylfi er búinn að ganga á Heklu nokkrum sinnum og einu sinni einsamall þegar við fylgdumst með honum á fyrsta ári Toppfara. Lilja hins vegar í sinni fyrstu göngu á Heklu eins og helmingur hópsins og varð að lúta í lægra haldi fyrir þessu veðri, en sigurinn verður þeim mun sætari þegar hún nær tindinum í næstu ferð ;-)

Við hin héldum áfram en komum fljótlega að bröttum kafla og flughálum svo allir fóru í keðjur og þjálfari í brodda þar sem einn var á gormum sem dugðu ekki gegn færinu svo hann gæti fengið lánaðar keðjurnar.  Í ljós kom að þetta var Rauðiklettur svokallaði sem skreytir síðasta hlutann upp á Heklu og gefið hefur okkur góðan útsýnisstað gegnum tíðina og jafnvel fallega myndaumgjörð.


Hugrún að taka mynd á snúningspunktinum í brjáluðum vindi... vindurinn kom ekki í veg fyrir hlátur á verstu augnablikunum...

Þarna var vindurinn orðinn svo hvass og færið svo hált að við áttum erfitt með að fóta okkur gegn vindinum
og því
játuðum við okkur sigruð... í 1.136 m hæð.. og snerum við.

Niður rúlluðum við með ágætis útsýni til norðnorðausturs yfir leiðina sem við áttum eftir til baka
og reyndum að sætta okkur við að hafa ekki náð alla leið að sinni... 

Leiðangursmennirnir
... sem voru ákveðnir í að ná sér í góða fjallgöngu þrátt fyrir allt:

Efri frá vinstri: Ketill, Hugrún, Thomas, Hjölli, Björn, Elsa Þóris, Jóhannes?, Björgvin?, Rósa, Anton.
Neðri frá vinstri: Lilja Sesselja, Anna Sigga, Guðmundur Jón, Steinunn, Örn, Katrín, Elsa Inga? og Irma.
Á mynd vantar Gylfa Þór og Lilju B. sem sneru við stuttu fyrr en allur hópurinn.
Bára tók mynd.

Við tók tignarleg niðurganga gegnum hraunskreyttar fannirnar með ágætis útsýni til norðvesturs og og úfin skýin yfir okkur.

Stöðugt meira útsýni og hlýrra og sólríkara veður.. en meiri vindur sem greinilega sópaði skýjunum harðar burt en fyrr um daginn og við litum reglulega til baka til að fullvisssa okkur um að veðrið væri örugglega áfram slæmt þarna uppi þó það væri orðið svona gott neðar...

Það er sálrænt það erfiðasta við að snúa við að ganga fljótlega í mun betra veðri og hugurinn er enn staddur þarna uppi
allur af vilja gerður til að berjast áfram hvað sem allri skynsemi líður...

Höfðingjar Toppfara
...létu sig ekki vanta í þessa ferð...
frekar en aðrar erfiðustu ferðir klúbbsins...
enda ætla þeir báðir á
Hrútsfjallstinda þann 7. maí...

En merkilegast af öllu þennan dag var sú staðreynd að báðir tveir fóru þeir sína fyrstu göngu á Heklu á sjötta áratugnum...


Björn gekk á Heklu ásamt félögum sínum, Grámönnum? árið 1956.

Ketill með konu sinni, Auði Ástu árið 1957 og gengu báðir vestan megin upp frá bæjunum 
eins og þá tíðkaðist, gegnum torsótt hraunið... líklegast í lélegri skóbúnaði og fatnaði en nú gefst...


Anton, Hugrún, Ketill.

Við tókum líka mynd af þeim sem búið hafa á svæðinu kringum Heklu og átt allt sitt heimili/viðurværi undir þessu eldfjalli...  eldfjalli sem meiri hætta stafar af á Íslandi en nokkru öðru...

Eldgos Heklu hafa valdið miklu tjóni og lagt heilu landsvæðin og byggðir í auðn.
Skv. eldri ritum Markúsar Loftssonar hefur Hekla eytt 5 hreppum og 100 býlum en þessar tölur eru taldar lægri en raunveruleikinn!

Hekla er eldhryggur eða eldkeila eftir því hvernig menn líta á það og er eldstöðvakerfi hennar um 40 km langt og um 7 km breitt
en aðalsprungan sem klýfur Hekluhrygginn er um
5,5 km löng og þaðan hafa flest eldgosin komið..

Hún hefur verið virk í árþúsundur, gosið fimm stórum sprengigosum síðustu 7.000 árin en stærstu gosin voru fyrir 4.000 árum og 2.800 árum þar sem rekja má gos þessi í jarðvegi um allt norðurland og norðausturland. Mesta gjóskulag sem fallið hefur á Íslandi kom úr gosinu fyrir 2.800 árum sem talið er ofsafengnasta gos hennar og þekur um 80% af landinu en það hefur og fundist á norðurlöndunum. Alls hafa 23 gos verið á sögulegum tíma; árin 2000, 1991, 1980, 1970, 1947, 1913, 1878, 1766, 1725, 1693, 1636, 1597, 1554, 1510, 1440, 1389, 1341, 1300, 1222, 1206, 1158, 1104 en Heklurannsóknir hófust fyrir alvöru í gosinu 1947 og hafa þau verið vel rannsökuð eftir það.

Upplýsingar um öll Heklugos og annar fróðleikur í Heklusetrinu Leirubakka:
http://www.leirubakki.is/Default.asp?Page=257

Upplýsingar af vef Hálendishótelsins í Hrauneyjum:
http://hrauneyjar.is/IS/Ahugaverdir-stadir/Hekla,-eldfjallid-vidfraega_231/default.aspx


Örn, Bára, Ketill, Hugrún.

Og þjálfarar fengu mynd af sér með fjölskyldumeðlimum sínum þar sem þau voru ekki að fara í fyrsta sinn saman á Heklu...

Áfram var haldið eftir þennan myndagjörnin sem kom í staðinn fyrir myndatökur á toppnum
því eitthvað urðum við að gera okkur til dundurs úr því tindinum var ekki náð ;-)



Björn, Steinunn og Hugrún á góðu niðurgönguspjalli sem er eitt af því besta við fjallgöngudaga sem þessa...
þegar maður gengur saddur og sæll með dagsverkið til byggða og fer sáttur að sofa...

Þrátt fyrir allt ljómaði Hekla og allt hennar brúðarslör þennan dag
í sólargeislum sem börðust við að ná gegnum úfin skýin sem voru ráðríkari...

Stundum litum við til baka... svo friðsælt og fallegt í sólargeislunum... neibb... það var ekki fært þarna uppi...

Björgvin og Björn með útsýnið óskert til vesturs.


Valafell og Valahnúkar í fjarska.

Síðustu rúma 2 kílómetrana gengum við ofan við bílslóðann sem vanalega nær inn með Skjólkvíahrauni
en það hraun kom úr gosinu
1970 og er því ekki eldra en það... 

Brrakandi fallegt veður þó vindurinn kæmi í bakið..
...vindur sem ekki var til staðar á þessum hluta leiðarinnar fyrr um daginn
og benti til þess að hann hefði færst til muna í aukana er leið á daginn.


Björn og Ketill

Höfðingjahraðinn virkar vel... jafnt og þétt... alla leið... á öll fjöll... í öllum veðrum... sama hvað...

Bílarnir tóku svo á móti okkur baðaðir vorsólinni í fallegum krumlum Skjólkvíahraunsins
og við vorum orðin léttkædd á síðasta kaflanum...

Að baki voru 13,5 km á 6:00 - 6:04 klst. upp í 1.136 m hæð með 967 m hækkun
og brosið var komið til að vera það sem eftir lifði dags...

Þjálfari hafði látið sér detta í hug að hafa brottför kl. 4 eða 5 þennan dag úr bænum til að grípa þennan veðurglugga sem opnaðist á miðvikudagskvöldið.. og þegar hann spurði hópinn eftir gönguna hvort menn hefðu mætt á N1 svona snemma var svarið skýrt "já"... Lexía dagsina hjá þjálfara var því án efa sú að næst leggjum við í hann þetta snemma, svona rétt eins og menn gera á Hnúknum og hærri fjöllum landsins, til að grípa besta veðrið því líklegast hefðum við þá náð á tindinn.

Sjá leiðina sem við fórum - gula sýnir gönguna þennan dag og sú svarta gönguna okkar um haustið 2009.

Þversnið af göngunni í hæð og vegalengd.

 

Auðvitað skreyttum við svo daginn í lokin með smá-jeppahasar...

Björgvin hér fastur í snjófullum bílslóðanum á Dómadalsleið en Gylfi dró hann upp úr þessu á meðan við stelpurnar skríktum á hliðarlínunni...
og héldum áfram að sannfæra okkur um að úfin skýin þarna í fjarska efst á Heklu væru ekki mannheld...

Glæsileg as always...

Og meira að segja með smá vor í lofti... svo Anton stakk upp á viðkomu í Fossabrekkum áður en ferðin endaði en sá staður er hluti af Hellismannaleið sem er tiltölulega ný gönguleið heimamanna frá Rjúpnabrekkum við Heklurætur, um Áfangagil, Landmannahelli og endað upp í Landmannalaugum  - alls um 56 km leið á 3 dögum sem er á framtíðardagskrá Toppfara...

Sjá vefsíðu heimamanna: http://www.nefsholt.com/default.cfm?id=253&page=sidur&lang=1&brid=1504

og á fésbókinni: http://www.facebook.com/pages/Hellismannalei%C3%B0/101139806634438


Hjölli, Elsa Þóris, Anton, Guðmundur jón, Lilja Sesselja, Thomas, Björn, Jóhannes og Örn.
Steinunn, Irma, Katrín, Rósa, Gylfi Þór, Björgtvin, Ketill, Hugrún, Elsa Inga, Lilja B., og Anna Sigga.

Fossabrekkur eru vin í fallegri eyðimörk Heklu og þar tókum við eina "gleðilegt sumar" - mynd í tilefni þess að við vorum ekki bara að ganga á skírdegi heldur og fyrsta degi sumarsins þar sem ævintýrin bíða okkar í röðum...

Gleðilegt sumar elsku Toppfarar !

Í þessari ferð tókust á góð veður og slæm veður því þrátt fyrir að veðrið stöðvaði för upp að tindi að sinni
þá gengum við í fallegu veðri mestan partinn og fengum frábæran dag á fjöllum...
Megi góða veðrið sigra að lokum í sumar ;-)

Sjá allar myndir þjálfara: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T56Hekla210411#

Sjá myndir félaganna á fésbókinni og fleiri myndasíðum þeirra: www.facebook.com.

-----------------------

Sjá ýmsa tengla tengt Heklugosum:

Upplýsingar um öll Heklugos og annar frábær fróðleikur í Heklusetrinu Leirubakka:
http://www.leirubakki.is/Default.asp?Page=257

Upplýsingar af vef Hálendishótelsins í Hrauneyjum:
http://hrauneyjar.is/IS/Ahugaverdir-stadir/Hekla,-eldfjallid-vidfraega_231/default.aspx

Frá veðurstofunni frá því í síðasta gosi árið 2000:http://hraun.vedur.is/ja/heklufrettir.html

Veðurstofan varðandi viðbrögð við eldgosi utandyra:
http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/eldgos_vidbrogd/

Vefmyndavélina á Búrfelli af Heklu á veðurstofuvefnum: http://www.ruv.is/hekla

Hekluvöktun varðandi jarðskjálfa og eldgosahættu: http://hraun.vedur.is/ja/hekluvoktun

Sjá umfjöllun Morgunblaðsins á göngu á Heklu 24. júní 2009:
 http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/24/hekla_togar_i_ferdafolk   

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir