Perúferðin mikla 2011
2. hluti af 4:

Arequipa - Colca Canyon - Cabanaconde - El Condor - Chivay

Alls fóru 29 Toppfarar í stórfenglega ferð til Perú í Suður-Ameríku dagana 15. mars - 7. apríl 2011

Ferðin var farin á vegum Ítferða og undir leiðsögn Sæmundar fararstjóra
sem sniðið hafði dagskrána eftir könnunarleiðangur sinn um landið þremur árum áður...
og bar hún þess sannarlega merki á ævintýralegan máta;
metnaðarfull og krefjandi ferð þar sem hver dagur var nýttur til að kynnast bæði landi og þjóð
í fjórum ólíkum gönguferðum á víð og dreif um landið ásamt ýmsum skoðunarferðum í alls kyns byggðum og óbyggðum...

Ferðin reyndi vel á leiðangursmenn og það tók marga mánuði að melta hana eftir á...
og enn er hún í raun ekki fullunnin í hugum okkar og hjarta
sem segir allt um hátt ævintýrstigið... og erfiðleikastigið...

En eftir því sem árin líða gerum við okkur sífellt betur grein fyrir því hvurs lags ævintýri þessi ferð var
því þrátt fyrir kyngimagnaðar gönguferðir Toppfara um allan heim árin á eftir
þá virðist þessi ferð alltaf skipa efsta sæti í stórkostlegustu gönguferð erlendis í sögu Toppfara...

Gengið var um mjög ólík fjalllendi í Perú í kringum 3000+ m hæð þar sem lægst var farið í 2.100 m og hæst upp í 5.822 m...
með alls 135 km að baki eftir rúmlega 3ja vikna ferðalag um ólík lönd Perú...

Upp úr stendur að þrátt fyrir alla erfiðleika þá gaf ferðin okkur svo mikið
meðal annars djúpa vináttu og tengsl sem aldrei rofna...
 því tengslin mynduðust við alls kyns mótlæti og um leið einstök ævintýri á framandi slóðum
sem einhvern veginn er erfitt að útskýra fyrir þeim sem ekki voru í ferðinni...
sá sem þetta ritar nú árið 2018 finnur fyrir djúpri væntumþykju gagnvart öllum leiðangursmönnum Perúferðarinnar
og það er ómetanlegt að upplifa þá tilfinningu...

  Hér verður
fjallað um
2. hluta af 4:

Bærinn Arequipa í Suður-Perú
Colca Canyon á 2ja daga göngu
Þorpið Cabanaconde
Skoðunarferð til baka um Condor-útsýnisstaðinn og heilsubæinn Chivay

 

 

Sjá hér 1. hluti af 4:

Brottför frá Íslandi gegnum New York
Fjallaþorpið Cusco í Norður Perú
Sacret Valley
Inkaslóðin á 4ra daga göngu
Týnda borgin Machu Picchu

Sjá hér 3. hluti af 4:

Arequipa
Misty - 2ja daga háfjallaganga
Arequipa

 

Sjá hér 4. hluti af 4:

Höfuðborg Perú Lima
Fjallaþorpið Huaraz í norðurhluta Perú
Santa Cruz Trek í Andesfjöllunum
á 4ra daga göngu
Heimför gegnum Lima og New York

 

Ferðadagur 9 - alls 4 göngudagar að baki

Önnur gönguferðin af fjórum í Perúferðinni
2ja daga ganga niður og upp Colca Canyon gljúfrið

Miðvikudagurinn 23. mars 2011
Flug frá Cusco til Ariquipa
 

Ferðalýsing Ítferða:
Flogið til Ariquipa og skoðunarferð um borgina seinni partinn.
Gist á góðu 2ja til 3ja stjörnu hóteli í miðborginni. (eftir að fá nafn á hótelinu þar sem við skiptum um hótel frá ferð 2010).

Þegar við loksins lentum um miðnætti í Cusco á Hostel Amaru eftir ævintýralegu Inkaslóðirnar í 4ra daga göngu...
2ja klst. lestarferð og 2ja klst. rútuferð... sem tóku verulega í...
fengum við okkur súkkulaði og vatn... fórum í sturtu...
fluttum ljósmyndirnar úr vélinni í tölvuna til að rýma fyrir plássi fyrir næstu gönguferð...
gengum frá farangri eftir þessa krefjandi göngu í alls kyns veðrum í tjöldum...
og fórum að sofa um kl. 01:30...

... til þess að vakna snemma til að mæta í flug til að fljúga suður til bæjarins Ariquipa...

Jebb... þetta var Perúferðin mikla... táknmynd þess að nýta hverja einustu... einustu mínútu...

Allir þreyttir og svolítið svekktir að fá ekki að hvíla sig einn dag eftir Inkaslóðirnar sem var vel skiljanlegt...
en þetta var greinilega ofurferð... hver mínúta skipulögð til hins ýtrasta... og næsta ævintýri var handan við hornið...

Halldóra Ásgeirs, María S.og Guðjón Pétur voru orðin veik þennan morgun áður en við fórum í flugið
og smám saman veiktust fleiri í hópnum eftir því sem leið á daginn...
ferðalagið var því erfitt og reyndi vel á hópinn enn einu sinni...

Við þurftum að byrja ferðalag dagsins á að ganga með farangurinn nokkurn spöl frá hostelinu
þar sem rúta beið til að taka okkur út á flugvöll
því hverfið okkar og vegakerfið var ekki hannað fyrir stóra ferðamannaflutninga í rútum...

... svolítið skondið í ljósi umræðunnar nú árið 2018 á Íslandi um að takmarka umferð rúta og stórra ferðamannabíla
um miðbæjarhverfi Reykjavíkur og deilur um hvernig vesalings ferðamennirnir eigi nú að bograst með ferðatöskurnar sínar
gegnum snjó og hálku í öllum veðrum allt árið um kring alla leið að "einhverjum skipulögðum rútustæðum"...
... sem við nákvæmlega gerðum í perúska þorpinu Cusco í sumarfæri og blíðu...
ekki eingöngu af því bærinn þolir ekki þessa umferð heldur og af því verið er að vernda þessa fornu borg Inkanna :-)

Á flugvellinum kom í ljós að það var annað hlið og annar brottfarartími en okkur hafði verið úthlutað
og Sæmi bað okkur Örn um að hjálpa sér að tala við starfsmenn flugvallarins
en þau virtust ekki skilja ensku svo glatt... en með því að tala "einfaldlega" spænsku...
... veit ekki hvernig ég fór að því... hún bara bullaðist út úr manni eftir vikuveru í Perú
sem kallaði greinilega fram menntaskólaspænskuna svona tæra og skýra...
kom í ljós að flugið okkar var á öðru hliði og á aðeins öðrum brottfarartíma...
svo það bjargaðist vel eins og svo mörg önnur perúsk verkefni...
við vorum sannarlega í samfélagi þar sem allt gekk ekki endilega eins og fyrirfram útfyllt excelskjal
... sem var kannski upphaflega ástæðan fyrir því að við höfðum valið ævintýralega landið Perú...
... við völdum nefnilega ekki ævintýralega ferð til Spánar :-)

Upplitið var ekki gott á hópnum á flugvellinum né í fluginu...
sífellt fleiri veiktust en almennt voru samt flestir glaðir og jákvæðir þegar við lentum
eftir um 35 mín flug til Arequipa sem sagði allt um hversu ákveðnir menn voru í að njóta sama hvað á gekk...

Við fundum vel fyrir því að við vorum lent í funheitri og sólríkri eyðimörk...
gjörólíkt svala fjallaloftinu í Cusco... og hitinn fór hlýjum og huggandi höndum um okkur...
Þ
etta var dásamlegt þrátt fyrir veikindin sem hrjáðu menn og kærkomið eftir rakann í fjöllunum...

Og við okkur blasti tignarlegt eldfjallið sem beið komu Toppfara eftir þrjá daga...
El Misty í léttu skýjunum bak við flugvélina...

Hvílík tignarlegheit !
Þetta fjall réð greinilega lögum og lofum í þessari sveit...

Eftir okkur beið aðalskipuleggjandi ferðarinnar...
Raúl sem var eldklár, alltaf að og með lausnir á hverju strái
á hógværan máta eins og Sæma var einnig lagið að vera  :-)
en Raúl átti eftir að fylgja okkur það sem eftir leið ferðarinnar í Perú nema í Huaraz...

Hótelið í Arequipa var gott og skemmtilega öðruvísi hannað en maður átti að venjast... Hotel Margot...
í gulu gistihúsi við eina götuna sem lá frá Plaza de Armas...

Hótel með alls kyns herbergjum úti um allt á nokkrum hæðum í allar áttir
og lítinn skjólsælan og svalandi útigarði inni í því miðju...

Menn gátu valið sér herbergi um allt hótelið þegar þeir komu
en þeir veikustu höfðu engan kraft í það... sátu fyrir utan og gátu sig hvergi hreyft eftir flugferðina fyrir slappleika...
höfðu enga skoðun á því hvaða herbergi þeir fengju, þáðu einfaldlega það sem bauðst...
þráðu það eitt að komast í rúmið og á sitt eigið salerni... ansi sorgleg sjón...

Ástandið var ekki gott og áfram héldu menn að veikjast eftir því sem leið á daginn...

Arequipa er nútímaleg borg á perúskan mælikvarða "en eyðileg að mestu" stendur í dagbók þjálfara
og að mestu byggð upp á "stórum fátækrahverfum með hrörlegum húsum"
en í miðbænum var samt verzlunarmiðstöð og vestrænir veitingastaðir
svo nútíminn var greinilega að hasla sér völl í eyðimörkinni...

Þegar farið var upp á þak hótelsins... sem var magnaður staður að vera á... blasti eldfjallið tignarlega við
og var hálf yfirgnæfandi yfir borginni... maður tók andann á lofti og fylltist lotningu...
þetta var fjallið sem við ætluðum að klífa eftir nokkra daga... vá, þetta var kyngimagnað að sjá...
sami tignarleikinn og er yfir Kilimanjaro... en mun brattara...

... sjá hér til samanburðar...

El Misty var eiginlega líkara Mount Fuji í Japan...
fjall sem er á framtíðarlista Toppfara :-)
... eina sem hindrar þá göngu er langt og dýrt ferðalag til japan...
en mjög líklega eigum við eftir að fara samt...

Eða eins og Björn Matt benti á á lokuðum Toppfarahóp á fasbók í janúar 2018...
"ekki svo galinn kostur ef Wow fer að fljýga beint til Tokyo"...

Á þakinu var hægt að setjast og fá sér kaffisopa og njóta borgarinnar...

Það var gott að anda smá... slaka... vera borgaralega klæddur í nútímalegu umhverfi... hringja heim...
fá sér aðeins að borða úr bakaríinu á staðnum...
hengja út föt og búnað og velja hvað skyldi fara í þvott...

Dagskráin í ferðinni var svo þéttskipuð að stundum gleymdist að gera ráð fyrir að borða...
ótrúlegt hversu aðkallandi grunnþarfirnar verða á svona flóknu ferðalagi
og sé þeim ógnað fer allt fljótlega á hliðina...

Gistihúsið okkar... herbergi þjálfara á þessum svölum ásamt Gylfa og Lilju Sesselja...
fötin okkar, fjallgöngubúnaðurinn allur og skórnir lágu dreifð um allar svalirnar til þerris í eyðimerkusólinni...

Þjálfarar tóku að sér að finna stað til að þvo fötin fyrir alla,
helst þetta kvöld svo við fengjum þau nú hrein fyrir næstu göngu
en það þurfti ekki að leita langt... Raúl var með tengilið við hótelið
um að taka þvottinn fyrir allan hópinn og skila honum aftur um kvöldið...
frábær lausn sem stóðst alveg...
þvotturinn kom hreinn og sléttur til okkar um kvöldið
... kannski ekki beint ilmandi af Ariel Ultra... en samt hreinn og strokinn að perúskum hætti :-)

Arequipa minnti svolítið á Havana á Kúbu... sami gamaldags stíllinn... fábreytileikinn... töfrarnir...
eftir á... nú árið 2018... ber maður einhverjar hlýjar tilfinningar til þessarar borgar...
Mjög ólík fjallaþorpinu Cusco sem var einstakt að kynnast... þessi gaf manni allt aðra sýn á Perú...
hér var perúska sagan sögð á annan hátt...

Hér var það eyðimörkin sem talaði... ekki fjöllin... ekki ströndin... ekki skógurinn...

Raúl fræddi okkur heilmikið í rútunni frá flugvellinum
og Sæmi kom einnig með góð ráð um hvernig væri best að kynnast og njóta þessarar borgar...
en að hans mati var klaustrið Santa Catarina og múmíusafnið það merkilegasta við Arequipa
en hvorugt þetta var samt á dagskrá skoðunarferðarinnar sem var í boði seinnipartinn þennan dag...
og það endaði á að flestir vildu hvíla sig þegar þeir komu á hótelið
og fara á eigin vegum á safnið eða á klaustrið
að ráði Sæma...

Þjálfarar héldu áætlun ferðarinnar og mættu samviskusamlega í skoðunarferðina
og ætluðu svo að slaufa múmíusafninu inn í eftir á sem strákarnir höfðu mælt með
en fáir mættu enda fleiri orðnir veikir... og í skoðunarferðinni veiktust María E., Rikki og Örn
en þá þegar voru einnig Ágústa og Lilja Kr. orðin veik...
sumir með bæði uppköst og niðurgang, sumir eingöngu með annað hvort...

Skoðunarferðin varð því endasleppt og við ásamt fleirum fórum fyrr upp á hótel og misstum af múmíusafninu
sem var að sögn þeirra sem fóru mjög áhrifamikið...

Þar eru líkamsleifar litlu stúlkunnar geymdar sem fundust í fjöllunum
hafði varðveist í frostinu frá því kriingum 1450 - 1480 þegar henni var fórnað um 12-15 ára gamalli
en meybörnum var fórnað hér áður fyrr af Inkunum til guðanna í fjöllunum...
... flutt upp eftir og skilin eftir til að deyja undan krafti náttúruaflanna...

 https://en.wikipedia.org/wiki/Mummy_Juanita

Kvenþjálfarinn var ein af þeim sem ekki veiktust
og náði að fara í apótek og kaupa ógleðistillandi töflur fyrir allan hópinn
sem hún svo dreifði til allra sem vildu með því að banka á dyr allra á hótelinu og taka púlsinn á fólki...
það var misjafnt ástandið á hópnum þegar bankað var upp á hvert herbergi...
... mjög erfitt að upplifa svona ástandið á hópnum...
sumir veikir og mjög slappir, aðrir sprækir...
og allir með jákvæðar eða neikvæðar skoðanir á hvernig ferðin væri almennt,
hún var sannarlega krefjandi og reyndi vel á þolrifin en það var nauðsynlegt að halda jákvæðu viðhorfi
og gera það besta úr aðstæðum og hugsa lausnamiðað...
það var einfaldlega það eina skynsamlega í stöðunni...

Svona húmor hjá Heimi var bókstaflega lífsnauðsynlegur til að lifa af... jæja, kannski ekki lifa af :-)
... en líða betur en ella við þessar aðstæður sem við vorum í... með hálfan hópinn í magapest
og alla með alls kyns skoðanir á því hvernig ferðin væri... misheppnuð eða vel heppnuð...
það var ótrúlega ólík sýn manna á málin og stórmerkilegt að upplifa það...

Um kvöldið fóru þau sem höfðu heilsu út að borða á pizzastað en nokkrir af þeim voru samt slappir
og borðuðu ósköp lítið... og því var engin mynd tekin af þeim veitingastað því miður...

Eftir matinn er fundur með leiðsögumönnum um bæði 2ja daga göngunar niður í gljúfrið Colca Canon
og 2ja daga fjallgönguna El Misty sem voru framundan næstu fimm daga...

Sæmundur hélt smá kynningu á báðum ferðunum framundan þar sem mjög góðar upplýsingar koma fram og góðar lausnir
eins og möguleikar á að fá burðarmenn á fjallið og að við fengjum seinkaðan brottfarartíma á Colca Canyon
sem hentaði vel þeim sem voru veikir þá stundina...

Þjálfari tók orðið eftir fundinn og bað menn að vera jákvæða og fara vel með ferðina
 því hún væri stórkostleg þrátt fyrir allt mótlætið...
og menn tóku hjartanlega undir og mönnum virtist augljóslega vera létt...
andrúmsloftið varð jákvæðari eftir fundinn og menn fóru almennt glaðir í háttinn...

Úr dagbók þjálfara:

"Er mikið létt eftir fundinn og fer á herbergi í sturtu. Örn enn veikur en að jafna sig.
Næ ekki að hvílast og kaupi mér tvær litlar Cuzcoquenja bjóra í gestamóttökunni til að slaka á.
Fyrsta augnablik ferðarinnar sem ég slaka á og það var yndislegt.
Sef ágætlega en er vöknuð snemma þar sem umferðin úti truflar.
Colca Canyon framundan."

----------------------------

Ferðadagur 10 - Göngudagur 5 af 12

Önnur gönguferðin af fjórum í Perúferðinni
2ja daga ganga niður og upp Colca Canyon gljúfrið

Fimmtudagurinn 24. mars 2011
Akstur frá Ariquipa í gljúfrin og gengið niður í þau

Ferðalýsing Ítferða:
"Rúta kemur og nær í hópinn eldsnemma eða um 3.30, en fólk getur lagt sig á leiðinni að Cruz del Condor sem er um 5 tíma akstur.
Morgunmatur þegar komið er þangað?  Cruz del Condor er frábær útsýnisstaður, þar sem eru mestu líkur eru á að sjá hinn tignarlega fugl Kondorinn.  Eftir að stoppað hefur verið þarna í u.þ.b. klukkustund er haldið áfram í stærstu borg Colca Canyon, þar sem hádegismatur er snæddur á veitingastað.  Fljótlega eftir hádegismat byrjar gangan niður.  Um 16.30 er komið í fyrsta þorpið á svæðinu, San Juan de Chuccho, þaðan er haldið áfram í annað þorp, Coshnirhua þar sem gist er hjá innfæddum.  Leiðsögumennirnir elda kvöldmatinn fyrir hópinn."

Þennan morgun átti að vera brottför um kl. 3:30 en leiðsögumenn breyttu því í 6:30 sem var vel þegið...
en hugsa sér, þetta er samt svona snemma...
það var ekki skrítið að þessi ferð reif hressilega í menn !...

Við sem gáfum okkur nægan tíma í morgunverkin náðum að skjótast upp á þak hótelsins fyrir brottför
og njóta útsýnisins frá hótelinu í morguntærleikanum sem var sláandi fagurt að borgarumhverfinu slepptu...

El Misty eins og konungur eyðimerkurinnar yfir öllu saman...

Eftir morgunmat var farið í hraðbanka og litla matvöruverslun til að birgja okkur upp fyrir langan dag...

Við tók akstur í tveimur litlum rútum frá Arequipa um eyðimörkina yfir til Colca Canyon
sem var í um 160 km fjarlægð frá bænum...
... og þetta var sko engin venjuleg eyðimörk... alla leið upp í tæplega 5.000 m hæð hvorki meira né minna...

Dæmigert útsýnið úr rútunni... eyðilegt... fábrotið... óklárað... en samt heilmikið líf...

Mjög algengt að efri hæð væri ókláruð á húsunum í Perú
og skýringin var víst sú að menn fái niðurfelld einhver opinber gjöld ef húsið er í byggingu...
menn létust því sífellt vera með húsið sitt í byggingu...
úff, pant ekki semja reglugerðir og lög...
það skal alltaf fara út í svona hluti að reyna á mörkin á alls kyns ólíklegastan og ófyrirséðan máta :-)

Vinnufólk skoppandi á pallbílnum... algeng sjón í Perú...
ekki alveg sömu ströngu umferðarreglurnar og heima á Íslandi...
ekkert frekar en aðrar reglur og siðir og venjur í ferðamannabransanum sem við fundum oft fyrir...

... og hefðum eftir á... átt að fagna meira og hlæja frekar að...
njóta í stað þess að stressa sig yfir smáatriðum sem skiptu engu máli
í stóra samhengi þessa ævintýris sem við vorum með í fanginu allan tímann...
og átti frekar að minna okkur á hversu lánsöm við erum að eiga okkar líf á Íslandi í allsnægtunum og örygginu :-)

Við vorum í fríi... sitjandi í sætum í yfirbyggðri rútu með gluggum...
þau voru á leið í vinnuna sitjandi laus aftan á pallbílnum...

Í dagbók þjálfara er farið mörgum fögrum orðum um þessa rútuferð...
El Misty varðaði leiðina á aðra hönd og framandi eyðimörkin hina hliðina...

Fjallið togaði alla athyglina til sín og það var stórfenglegt að fá að hafa það fyrir augunum í nokkra daga
áður en við tókumst á við það af eigin rammleik...

Nú árið 2018 er þetta ennþá hæsti punktur sem Toppfarar hafa gengið á sem hópur...
en það gæti breyst ef menn skella sér á Kilimanjaro síðar á þessu herrans ári 2018 með Ágústi
því Kili er litlum 73 m hærra en þetta perúska fjallaverkefni okkar árið 2011 :-)

Grunnbúðir Everest í Nepal árið 2014 og fjallið Kala Pattar náðu ekki alveg svona hátt
(5.486 m á Base Camp og 4.643 m á Kala Pattar).

Hófsamari voru fjöllin í hina höndina að Andesfjöllunum en fögur engu að síður...

Á miðri leið... í líklega hér rúmlega 4.000 m hæð... var kaffistopp og við beðin að ganga rólega og í engum æsingi...
hæðin gæti vel sagt til sín og við gætum fundið fyrir háfjallaveiki
en við áttum samt að vera ágætlega hæðaraðlöguð eftir Inkaveginn og svefn í Cusco síðustu daga...

Svalasta vegasjoppa í sögu Toppfara... í sögu ritara... mjög sérstakur staður...

Sigga Sig og fleiri voru harðákveðnir í að sigra þetta fjall þarna hægra megin...
þrátt fyrir krefjandi dagana að baki og einhvurja magapest og aðrar vitleysur :-)

Sölubásarnir og perúsku konurnar sem maður gleymir aldrei...

Í rútunni áttum við dásamlegar samræður og stundir sem aldrei gleymast...
þarna styrktust bönd sem aldrei slitna...
alls kyns lífsreynslusögur og játningar fóru manna á milli sem aldrei komast að í erli dagsins...

Ingi og fleiri héldu uppi andlegum styrk og húmor í gegnum allt saman í Perú...
meðal annars með því að taka hljóðnemann í rútunni eitt skiptið og bera saman ferðaskipulagið okkar
og ferðamanns á Íslandi sem myndi þá fljúga í tveimur löngum flugum til Keflavíkur...
beint í flug til Egilsstaða og svo rakti hann álíka ferðalag í sömu sniðum og okkar
og maður fékk bara hroll yfir vegalengdunum og tímasetningunum...
já, við vorum á strembnu ferðalagi þar sem allir voru þandir til hins ítrasta :-)

Þessi rútuferð fór með okkur alla leið upp í 4.910 m hæð hvorki meira né minna...

Þetta var perúsk Hellisheiði... á svolítið hærri skala en okkar á Íslandi...

Hér áðum við lítillega og sumir fundu fyrir þunna loftinu og súrefnisskortinum en aðrir fundu ekkert..
þetta átti eftir að verða sínu verra á heimleið tveimur dögum síðar...

Hér keypti þjálfari trefil og veggteppi sem nú eru ansi dýrmæt...
keypt í 4.910 m hæð í perúskri fjallaeyðimörk...
algerlega ómetanlegt...

Litlar steinvörður á heiðinni...
salernin þarna ofar og það var meira en að segja það að "skjótast" þangað í þunna loftinu...

Hinum megin heiðarinnar blasti þetta útsýni við... vá hvílíkt útsýni ofan af akstursleið á heiði !

... og ekki var síðri aksturinn niður á láglendið aftur...
þorpin liggjandi í halla utan í fjallshlíðunum...
Vestfirðir og Austfirðir Perú með hamrabeltin yfirgnæfandi og hvíta fjallstoppana...
nema það vantaði sjóinn fyrir neðan...

Og svo sveif El Condor-inn yfir öllu saman... stærsti ránfugl í heimi... þessi rútuferð var veisla !

Það glitti á einum stað ofan í Colca Canyon á leiðinni og við vorum orðin ansi spennt...
mikið var gott að vera bara að fara í göngu í sól og blíðu niður í mót...
en ekki upp í þokukennd fjöll...

Við vorum í sólskinsskapi og þakklát fyrir það sem var framundan...
að ganga niður í gljúfur í miðjum Andesfjöllunum í ótrúlega mikilli hæð...
yfir 3.000 metrum...  en samt eins og láglendi...
það var eitthvað mjög mótsagnakennt við þessar hæðartölur...
við vorum einum kílómetra hærra uppi í loftið en ofan af sjálfum Hvannadalshnúk...
þremur kílómetrum hærra frá jörðu en vanalega á Íslandi... og samt að fara ofan í gljúfur...

Yndislegt að ganga í rólegheitunum af stað...
Raúl aftastur og við fengum nýjan leiðsögumann til að fara með okkur niður í gljúfrið...
hann Johann sem var skemmtilega ákveðinn og skeleggur...
og mun hreinskilnari og blátt áfram en perúsku leiðsögumennirnir almennt...

Við komum fljótlega fram á brúnir gljúfursins sem ætlunin var að ganga niður um...

Colca Canyon er sagt 3.270 m djúpt og 100 km langt og því af mörgum talið eitt stærsta gljúfur í heimi.
Staðsetning gljúfurins er sérstök að því leyti til að það er í miðjum Andesfjöllunum í 3.260 m hæð yfir sjávarmáli
og þar býr stærsti ránfugl í heimi... El Condor eða Kondorinn en vænghaf hans nær rúmum þremur metrum...

https://en.wikipedia.org/wiki/Colca_Canyon

Þriðji mest sótti ferðamannastaðurinn í Perú...
við sáum reyndar nánast  enga ferðamenn á okkar slóðum...
þeir voru greinilega uppi að horfa niður af ýmsum útsýnisstöðum enda ansi langt gljúfur...

Hvílík dýpt... hvílík þorp... hangandi utan í hlíðunum...

Sjá mátti hvert þorpið á fætur öðru ofan í gljúfrinu...
og göngustígana á milli þeirra... engir bílar hér... allt gengið eða á ösnum...
ef menn eiga erindi upp úr gljúfrinu tekur það lungann úr deginum að koma sér upp á brún...
gangandi eða á bak múlasna... enginn annar ferðamáti í boði...

Skemmtilegasta hópmynd ferðarinnar var tekin hér á brún Colca Canyon
í sólinni og gleðinni og þakklætinu sem var framundan
og flestir búnir að jafna sig á veikindunum sem hrjáðu menn í Arequipa...

Efst: Örn, Sæmundur, Heimir, Kári og Gunnar.
Halldóra Þ., Helga Bj., og Ágústa.
Mið: Rikki, Gurra, Simmi, Sigga Rósa, Gylfi, Halldóra Á., Roar, Sjoi, Gerður Jens., Inga Lilja,
Lilja Sesselja, Torfi, Alma, Sigga því miður í hvarfi!, Heiðrún og Gurra.
Neðst: Bára, Lilja Kr., Áslaug, Ingi, María E. og Guðjón.

Stígurinn sem við gengum lá eins og slanga niður í gljúfrið og var almennt góður stígur
en dýptin og leiðin var ótrúlega falleg og engu öðru lík...

Við nutum þess að ganga léttklædd og spjalla niður í mót...

Þurrt rykið lá yfir stígnum en það var enginn vindur þarna frekar en aðra daga í Perú...

Sjá hvernig gljúfrið sker sig í gegn með hlíðarnar niður í það í röðum...

El Condor eða Kondórinn vokaði yfir okkur og fylgdist með þessum stóra hóp...

Brattinn í hlíðunum á þessari leið er mikill og eina leiðin til að ná góðum slóða þarna upp
er að hlykkja honum fram og til baka...

Menn gengu á eigin hraða og sumir fóru rösklega niður
en aðrir mun rólegar enda ekki allir orðnir góðir af veikindunum...

og sumir veiktust meira að segja þennan dag eftir að hafa sloppið í Arequipa...

Lilja Kristófers varð enn veikari og endaði á að verea sú sem verst fór út í þessum veikindakafla ferðarinnar...

Þjálfari reyndi að ná hópmynd sem myndi fanga dýptina á leiðinni...
en það tókst ekki sérlega vel :-)

Yndislegir leiðangursmennirnir í þessari ferð...

María E., Kári Rúnar, Ingi, Ágústa, Heiðrún, María S., og Guðjón.

Þetta var mögnuð leið í einu orði sagt...

Oft alveg út á brún...

... og stundum vel stallað þannig að hópurinn dreifðist á nokkra staði í hlíðinni
ef maður var staddur aftast að horfa niður...

Önnur tilraun til að ná hópmynd í dýptinni...

Þetta var hreinlega allt of stórt landslag fyrir eina litla myndavél að halda utan um !

Við áttum eftir að horfa á þessar hlíðar daginn eftir og ekki skilja hvernig við komumst niður þessi hamrabelti...

Þetta var heitur dagur... funheitur...
og menn pössuðu sig að vera vel varðir með höfuðfati og eins léttklæddir og þeir komust upp með...

Vatnið stundum búið að sverfa sig vel inn í stíginn og gróðurinn með...

Hér sést vel hvernig slóðinn hlykkjaðist niður í brattanum...

Man ekki eftir að það hafi nokkurn tíma reynt á lofthræðslu á þessari leið enda breiður stígur allan tímann
en þetta var ansi bratt engu að síður...

Botninn að nálgast smátt og smátt... og auðvitað rann Colca-áin þar um sem gljúfrið er nefnt eftir...
en hvað þýðir orðið "colca" ? ... 
.. það er ekki einfalt að átta sig á því þegar þetta orð er glöggvað á spænsku...

Á miðri leið mættum við öldruðum hjónum með asna...

Maðurinn var blindur og konan leiddi hann með priki...

Hvernig var hægt annað en fyllast auðmýkt gagnvart lífsskilyrðum þessa fólks...
og vera þakklátur fyrir þau ómerkilegu verkefni sem á okkur voru lögð í þessari ferð
í samanburði við þá baráttu sem þetta fólk var að klást við alla daga... allt sitt líf...

Smátt og smátt komu þorpin niðri í gljúfrinu betur í ljós...

Algerlega kyngimagnað að ganga þessa leið og upplifa lífið þarna niðri...

Þjálfarar voru stundum á því að þessi gönguferð hefði verið sú flottasta af þessum fjórum í Perúferðinni...
þangað til þeir rifja aðeins betur upp hinar göngurnar... og eiga þá erfitt með að velja...
sem segir allt um hversu flottar allar göngurnar voru...

Síðasta kaflann minnkaði brattinn og hlíðarnar urðu meira aflíðandi niður
og þá gátum við séð stíginn slaufast niður alla leið á botninn...

Sjá hamrana sem við vorum að yfirgefa og komast í aðeins minni bratta...

Það var eins gott að fara varlega þegar farið var um slóðann í miðju hamrabeltinu...

Jú, kannski fannst einhverjum þetta smá óþægilegt...
en man ekki eftir neinum sem fraus eða nokkuð slíkt...

Þetta voru einfaldlega forréttindi að fá að upplifa...

Það var kannski ekki skrítið að leiðsögumönnunum þóttu við fordrekruð og smámunasöm með eindæmum
þegar þeir upplifðu okkur í samhengi lífs fólksins sem þarna lifði....
og var að fara að taka á móti okkur... hýsa... elda ofan í okkur... þjóna...
og gera okkur kleift almennt að upplifa það að ganga niður í og upp úr aftur... dýpsta gljúfurs í heimi...

En er Colca Canyon dýpsta gljúfur í heimi ?

Um það voru skiptar skoðanir... líka á veraldarvefnum...
hér er það... Caňón del Colca sagt næst dýpsta í heimi... á eftir nánast helmingi dýpra gljúfri í Kína...
og þetta verður bara flóknara ef maður glöggvar sig meira á veraldarvefnum :-)

https://www.google.is/search?dcr=0&source=hp&ei=SrCKWvnaEcfUwAK5977YCA&q=deepest+canyon+in+the+world&oq=deepest+can&gs_l=psy-ab.1.0.0l10.2597.5112.0.6997.12.9.0.2.2.0.216.997.0j6j1.7.0....0...1c.1.64.psy-ab..3.9.1026.0..46j35i39k1j0i131k1j0i46k1j0i203k1.0.Q821j9JmYL4

Eða hér kannski betri upplýsingar... svona er frumskógurinn í þessu...
http://www.orangesmile.com/extreme/en/deepest-canyons/index.htm

Af því svo les maður þetta orðrétt  á Wikipedíu:

"In May 1981, the Polish Canoandes rafting expedition led by Jerzy Majcherczyk, made the first descent of the river below Cabanaconde, and proclaimed the possibility of its being the world's deepest canyon. It was so recognized by the Guinness Book of Records in 1986, and a National Geographic article in January 1993 repeated the claim.[citation needed] The joint Polish/Peruvian "Cañon del Colca 2005" expedition verified the altitudes of the river and the surrounding heights via GPS."

https://en.wikipedia.org/wiki/Colca_Canyon

Þjálfarar fylgdu öftustu mönnum niður í gljúfrið og voru ekkert að stressa sig á tímanum...

Við vorum komin í paradís á jörð að manni fannst...
... steikjandi hiti og sólinni tekið að halla...

Við vorum mun seinni á ferð en upphaflega ætlunin var
þar sem við höfðum seinkað brottfarartíma frá Arequipa um morguninn um þrjá tíma...
lögðum af stað kl. 6:30 í stað 3:30...

Það var ævintýralegt að koma niður í botninn á gljúfrinu...

Þar biðu fremstu menn... ekki allir sáttir með að þurfa að bíða eftir síðustu mönnum
en daginn eftir sköfuðu Johann og Raúl ekkert utan af hneykslun sinni með það
hvernig menn þrýstu á að fá að halda áfram yfir brúna
og að veitingastaðnum sem var innan við klukkutíma frá brúnni...
... og vildu þannig ekki bíða eftir öllum hópnum...

En Johann var ákveðinn maður og gaf þetta ekki eftir...
og var hvergi banginn að segja álit sitt á hópnum eftir ferðina daginn eftir...

Þar sem þjálfarar fylgdu síðustu mönnum niður og í hús um kvöldið
þá fór þessi núningur alveg framhjá þeim sem betur fer :-)
... mikið var gott að vera bara í tímaleysinu aftast... núinu bókstaflega...
aftast er nefnilega oft best að vera... mesta slökunin og rólegheitin...
hvergi nálægt olnbogaskotnu stressinu fremst...
enda eigum við þjálfarar oft ansi ólíka upplifun í sömu göngunni...
 verandi fremstur og svo öftust :-)

Gönguheimarnir fremst... í miðjunni... og aftast í löngum göngum eru nefnilega oft mjög ólíkir heimar
en við reynum eins og við getum almennt í Toppfaragöngum að leyfa öllum að njóta sín
Það er okkar reynsla að ef einhver hópur þarf að sýna meiri tillitssemi (eða kannski þolinmæði) en aðrir þá eru það fremstu menn...
en eflaust eru ekki allir sammála því og telja að öftustu menn sýni mestu tilhliðrunina...
það eru margar hliðar á þessu...
fremstu menn fá sjaldnast að upplifa göngu á sínum hraða, þeir þurfa alltaf að bíða eftir öftustu...
öftustu finnst oft ekki nægilega lengi beðið eftir þeim og að þeir eru í andköfum að ná fremstu mönnum og fá litla hvíld...
en þá segja menn að þeir sem séu aftast séu nú bara að dóla sér
og ekki að taka nægilegt tillit til þeirra sem eru búnir að bíða mjög lengi og orðnir kaldir...

Þetta eru svo ólík sjónarmið að margir nenna ekki einu sinni að ganga í hóp almennt út af þessu...
fara bara á sínum hraða á fjall einir eða með fáum og þá þeim sem eru á þeirra hraða...
en það er merkilegt að sjá að það þarf ekki stóran hóp til að sjá þennan núning verða milli manna...
stundum ekki nema fjóra... og menn eru strax þá orðnir ósammála um hvaða gönguhraði skal vera hafður á göngunni...

Og svo eru það þeir sem eru í miðjunni og nenna hvorki að stressa sig fremst né aftast...
eru bara að njóta og yppta allta öxlum og fara burt þegar umræðan hefst um þetta :-)
já, þetta er nefnilega endalaus umræða og mörg ólík sjónarmið sem þarf að taka tillit til :-)

En sem einn hópur gengum við yfir ána og á stíg hinum megin... og svo aftur yfir ána innar...

Nánast ekkert láglendi niðri í gljúfrinu á þessum stað og þetta var virkilega ævintýralegt og fallegt...

Sjá stíginn liðast inn eftir...
gljúfrið upp með Mjólkuránni í Nepal á leið í Grunnbúðir Everest áttu eftir að minna á þessa leið
þremur árum síðar árið 2014...

Steikjandi hitinn niðri í gljúfrinu var sérstakur... enginn kælandi andvari...
en við vorum samt fegin að vera ekki að lenda í rigningu í náttstað eins og stundum á Inkaveginum...

Leiðsögumennirnir buðu upp á asna fyrir þá sem voru orðnir þreyttir...
niðurganga í marga klukkutíma tekur á og það var eðlilegt að einhverjir gæfu eftir...

Halldóra Ásgeirs sem hafði rúllað upp Inkaslóðinni með stæl þáði einn asnann fegins hendi...

Og Lilja Kr. sem veiktist sífellt meira frá því við flugum til Arequipa var þakklát að fá far með hinum asnanum...

Elsku dúllan, stóð sig svo vel þrátt fyrir allt og brosið aldrei langt undan mitt í vanlíðaninni...

Þetta var óskaplega falleg leið... en hún var upp og niður stíga, brekkur, brýr og þorp...

Kominn hádegismatur... ef "hádegis"mat skyldi kalla... klukkan var um fimmleytið síðdegis...
það munaði um þessa þrjá klukkutíma sem við stálum af morgninum... en hva, það skipti engu máli...
þetta var algert æði að vera þarna... hvað skiptir máli hvað klukkan segir ? ... í alvöru ?

Nú gátum við virt gönguleið dagsins fyrir okkur...
gengum niður af þessum brúnum um stígana sem hlykkjast þarna gegnum þetta klettabelti hér
 alla leið niður í botninn
og vorum nokkra klukkutíma á leiðinni...

Skemmtilegur áningastaður og það var gott að borða góðan mat og fá vestrænt gos með...

Yndislegt að vera í hitanum og notalegheitunum og melta það sem var að baki...

Þjálfari stalst inn í eldhús til að mynda aðstæður...
já, þetta voru snillingar sem þarna unnu...

Eftir notalegan hádegismat héldum við áfram inn eftir gljúfrinu í um klukkutíma að náttstaðnum
sem átti að vera allt öðruvísi en aðrir staðir í Perúferðinni... gist hjá heimamönnum...
en eftir allt volkið í tjöldum og veikindin og erfiðleikana var mismikill spenningur eftir þessari tegund af gistingu...
en sú átti nú eftir að koma okkur á óvart...

Asnarnir voru öllu vanir greinilega... og fóru með menn og birðar yfir brýr og gil og brekkur og þrönga slóða...

Farið að skyggja og við lentum í myrkri í náttstaðnum...

Hér gistum við... af mörgum talinn besti gististaðurinn í Perú...
hér áttu sumir bestu nóttina og sváfu eins og grjót allan tímann...

Loksins komin eftir ansi langt ferðalag... og sumir orðnir ansi veikir eins og Sigga Sig...

Brosið samt stutt undan í allri þreytunni... það var þarna hjá öllum hvort sem það sást eða ekki...
það klikkaði greinilega aldrei hjá Siggu Rósu sem brosir bókstaflega á öllum myndum í Perúferðinni,
magnað alveg :-)

Fíflalætin í strákunum voru enn til staðar svo ástandið var þá kannski ekki svo slæmt greinilega...
En eðlilega voru allir óþreyjufullir að komast í rúm og sturtu og önnur föt og mat og hvíld og kannski smá hvítt og rautt...

Gistiplássin í Danlo voru 7 herbergi með mismörgum rúmum
svo það þurfti að skipta hópnum niður í herbergi með mismunandi fjölda rúma
og finna út hvar best væri að þeir veikustu væru og að pör og vinir fengju helst að vera saman
og ekki bæði kyn saman nema um pör eða mjög góða vini væri að ræða...
þetta var flókið... og krafðist svolítillar umhugsunar... en tókst mjög vel að raða þannig að allir voru sáttir...

Sigga Sig og Heimir fengu 2ja manna þar sem Sigga var þarna orðin ansi lasin
og Lilja og Ágústa fengu hitt 2ja manna herbergið þar sem Lilja var versnandi af sínum veikindum
og var heppin að vera með Ágústu sem herbergisfélaga þar sem hún hlúði virkilega vel að henni
alla ferðina af stakri ljúfmennsku og um leið léttleika með aðstoð læknanna í hópnum...

Agalegt að þetta skyldi vera staðan á jafn mögnuðum stað og þessi heimagisting var
en það var því miður ekki við öðru að búast á framandi slóðum...

Engin herbergi voru eins... flest með moldargólfum og hangandi verkfærum á veggjunum...
aðrir í hlöðu með dýrin snusandi í kring...
enn aðrir nánast í þvottaherberginu með dót heimamanna á hillunum...

Þjálfarar vísiteruðu öll herbergin og fullvissuðu sig um að allir væru sáttir með sitt gistipláss og að vel færi um alla...
heilsufarið var batnandi hjá öllum nema ofangreindum sem fengu 2ja manna herbergin...

Sjoppa á bænum í anda íslenskra nammibúða...
ekki slæmt svona mitt í enn einni tegundinni af "óbyggðum" að manni fannst...

Það var sko opnuð rauðvínsflaska á sumum herbergjum...
en aðrir sniðgengu allt áfengi samviskusamlega í undirbúningi fyrir  El Misty
... krefjandi fjallgönguna sem beið okkar eftir tvo daga og var farin að valda talsverðum kvíða og streitu
meðal sumra í hópnum... eðlilega... þetta var fjallganga upp í tæplega 6.000 m hæð
þar sem vel reyndi á hæðaraðlögun... og menn voru búnir að fá snefil af hæðarveikinni á Inkaslóðinni
þar sem ógleði, svimi, höfuðverkur, mæði og þreyta voru í boði allt eftir því hvernig hver og einn þoldi hæðina...

Já, því miður erum við svo vön að hugsa fram í tímann að þó við værum stödd á dásamlegum stað
í einu merkilegasta gljúfri heimsins þá tókst okkur að láta hugann reika of mikið
til þess sem var framundan að þessari göngu lokinni
en þannig erum við vesturlandabúar...
alltaf að hugsa fram í tímann...

Dýralífið var blómlegt niðri í gljúfrinu... og mun líflegra en í svala loftinu í fjöllunum...

Johann var öðruvísi leiðsögumaður en hinir hæglátu menn sem almennt sáu um okkur í Perú,
þ.m.t. Sæmi sem er eitt ljúfmenni og nálgaðist verkefni ferðarinnar á sinn hátt...
og þannig lét Johann okkur heyra það ef honum mislíkaði afskiptasemi manna
eða ef við kunnum ekki nægilega að meta það sem var beint fyrir framan okkur og við veittum enga athygli...
merkilegur maður... óskaplega blátt áfram og nánast óþægilega hreinskilinn
en af eintómri virðingu fyrir þessari einlægni
 situr hann fyrir vikið einna mest í manni af þeim sem við kynntumst í Perú...

Johann fór yfir morgundaginn með okkur eftir matinn og lofaði dásamlegum degi
þar sem við myndum fara í sund innar í gljúfrinu... í sannkallaðri "vin í eyðimörkinni" ef svo mætti kalla
enda kallaðist staðurinn "'Oasis"...
og svo tæki við krefjandi ganga upp úr gljúfrinu með 1.200 m hækkun...

Þjálfarar fengu gistingu með Sæmundi og Kára í einu útihúsanna neðan við gististaðinn
og við höfðum það virkilega gott í einfaldleikanum eins og hinir...

Úr dagbók þjálfara:

"Kíkjum á öll herbergin og heilsum upp á fólkið og auðvitað er mesta gleðin hjá Skagamönnum og Skvísunum.
Fáum okkur smá rauðvín og svo er það kvöldmatur. Hann líkist mikið hádegismatnum og matnum á Inkaslóðinni.
Flestir borða ekki mikið. Spjöllum eftir matinn en enginn nennir að spila
þó hugmyndin sé góð hjá Inga eftir að Johann heldur smá fund um morgundaginn.
Erum þreytt og förum öll í háttinn um kl. 21:30.
Ég tek klukkustund í að skrifa í dagbókina en strákarnir fara beint að sofa.
Mikil dýrahljóð og vatnsniður og flugurnar láta ljósið ekki í friði.
Þori varla út að pissa vegna hundageltsins en fer samt um kl. 22:05.
Gekk vel sem betur fer og engir hundar komu til mín
en mér stóð ekki á sama og var skíthrædd því þetta glumdi svo allt í kringum mann."

--------------------------------

Ferðadagur 11 - Göngudagur 6 af 12

Önnur gönguferðin af fjórum í Perúferðinni
2ja daga ganga niður og upp Colca Canyon gljúfrið

Föstudagurinn 25. mars 2011
Gengið um gljúfrin og upp úr þeim í þorpið Cabanaconde

Ferðalýsing Ítferða:
"Morgunmatur um 7.30.  Gengið í 2 til 3 tíma uns komið er til Oasis, sem er á botni Colca Canyon. 
Á leiðinni er farið um þorpið Malata.  Þegar komið er í Oasis getur fólk farið í sundlaugina
og slappað af áður en hádegismatur er snæddur. 
Eftir hádegismat hefst erfiðasti hluti leiðarinnar, 1200 m. hækkun upp gilið í borgina Cabanaconde. 
Þriggja til fjögurra tíma ganga.  Kvöldmatur og gisting á hóteli í Cabanconde."

Flestir sváfu mjög vel þessa nótt í heimagistingunni.

Í dagbók þjálfara má lesa að þetta hafi verið besta nóttin í ferðinni,
þrátt fyrir að sofa á rakri bambusdýnu sem beyglaðist niður í miðjunni... ofan á moldargólfi við leirvegg...
með skordýrin í kring og dýrin þar í kring...

Yndislegur morgun... sveitin bókstaflega iðaði af lífi...

Stalst til að taka nokkrar myndir af bæ fólksins sem við gistum hjá...

Skótau heimamanna...

Matsalurinn þar sem við borðuðum í gærkveldi og svo morgunmatinn sem var framundan...

Herbergi skvísanna....

Þegar þjálfarar kíktu á Lilju voru góðar fréttir... hún svaf alla nóttina og leið betur...
... en gat reyndar svo lítið borðað og kastaði upp banananum síðar um daginn...
en spólum til baka... á þessum tímapunkti leið þeim stöllum mjög vel eftir nóttina
og Lilja var mjög lánsöm og þakklát að hafa Ágústu hjúkku sér við hlið...

Gleðin alltaf til staðar þrátt fyrir allt...
brosmildar konur með eindæmum og veikindin tóku það greinilega ekki af þeim sem betur fer...

Hreinlætisaðstaðan var misgóð á bænum en það kom á óvart hversu góð hún var...

Þetta var gullfallegur morgun... maður getur nánast heyrt í sveitinni þegar horft er á þessa mynd...
hugurinn fer hreinlega niður í iðandi lifandi Colca Canyon gljúfrið ef maður staldrar aðeins við...

Gönguleið gærdagsins... fórum við í alvörunni þarna niður í hlykkjóttum slóða utan í þessum klettum og hömrum ?

Ha, í alvöru... vorum við þarna í gær ?

Við vorum lengi í morgunmat og allir slakir og allir glaðir eftir góðan nætursvefn...

Við ræddum við konu bæjarins sem var með skóflu í hönd og mátti ekkert vera að einhverju hangsi
en samþykkti að vera með á mynd með öðlingunum Halldóru og Helgu...

Ansi hreint skemmtilegur staður að hafa gist á og borðað... við gleymum honum aldrei...

Hlóðirnar á bænum...

Burðarmaðurinn... sá sem sá um asnann... glaður og gefandi drengur... hvað hét hann aftur ?

Mikil synd að muna ekki nafnið á þessum öðlingi...

Hann bauð upp á ávexti af öllum gerðum og Johann sagði okkur frá að smitandi virðingu fyrir viðfangsefninu
sem var eitt af hans einkennum...

Fræðsla um dýralífið og plöntulífið í gljúfrinu og hvernig menn lifa þarna niðri
og halda í heiðri fyrrum lifnaðarháttum forfeðranna...
meðal annars Inkanna...

Alls kyns fíflaskapur og pælingar í gangi og enginn að flýta sér...

Meira að segja hér voru kosningaáróðursveggspjöld !
... og aðrar auglýsingar...

Þetta var dásamlegur morgunmatur... heitar pönnukökur með karamellusósu og bönunum...

Svo dúlluðumst við af stað... nenntum samt ekki að flýta okkur... eða hvað... ha, ekki leggja af stað strax ?

Skyndilega vorum við komin í búningaleik í boði heimamanna...

Áslaug, Sæmi og Halldóra voru fengin til að sýna þjóðbúninga heimamanna...
virkilega gaman að sjá þetta...

Johann tók Halldóru í fangið og fór létt með :-)

Allt nýtt sem til fellur... plastflöskurnar notaðar sem vatnsheld ílát fyrir tannbursta heimamanna
vaskurinn og borðið til að þvo sér á morgnana...

Hér vaska þau upp leirtauið...

Þvottahúsið...

Eldhúsið... nóg af pottum og pönnum... glóðirnar... plastumbúðir nýttar vel...

Eldhúsið... plastfötur eru til margs nýtanlegar...
sjá ávala steininn eins og vask eða vinnuborð fremst á mynd...

Húsfreyjan... röggsöm... skjót í vinnubrögðum og greinilega öllu von í samskiptum við þessa ferðamenn
...að hjálpa Halldóru að klæða sig úr...

Húsbóndinn... fjarlægur en vinalegur og hjálpsamur...

Frystir... ísskápur ?... gaskútur fyrir hellurnar tvær... bjórkassi... vatn á flöskum... stór pottur... matardiskar...
margnýttir plastpokar...

Það var alveg hægt að gleyma sér endalaust þarna og uppgötva sífellt nýja hluti...

Við kvöddum með virktum og miklu þakklæti...
með þjórfé og ýmsum gjöfum...
þennan gististað ætluðum við að varðveita vel í minninu og gleyma aldrei...

Sjá húsfreyjuna mörgum árum fyrr með dóttur sinni lítilli á mynd og tveimur vestrænum ferðamönnum
sem höfðu sent þeim myndina af sér...

Það var meira að segja sími á bænum sem við gátum fengið að nota...

Sjá hárið... hattinn... flísvestin...

Loksins lögðum við af stað frá þessum stórmerkilega bæ... hjóna sem var heiður að fá að kynnast...

Við tók mikið ævintýri í gegnum þorpið... og það næsta og það næsta...

... þar sem margt sérstakt bar fyrir augu...

Veðrið dásamlegt... hlýtt... lygnt... friðsælt...

Við gengum í gegnum mörg bæjarstæði...

... og í gegnum heilu þorpin...
Lilja gerði sitt besta til að njóta en leið ekki vel
og náði hvorki að borða almennilega né halda niðri því sem hún borðaði...
það var áðdáunarvert að sjá hana fara í gegnum þessa gljúfursferð veika allan tímann...

Og sjá hvernig Ágústa stóð með sinni í gegnum alla ferðina...

Við heimsóttum skóla á leiðinni...

Lærdómur dagsins...

Þau voru glöð... feimin... forvitin... og kannski smá leið að vera svona til sýnis... ?

Fengum líka að heimsækja heilsugæslu svæðisins...
eða "Medical Center" eins og það var nefnt...
einu heilbrigðisþjónustuna ofan í gljúfrinu á þessu svæði...
ef eitthvað alvarlegt hrjáði menn var eina leiðin að fara nánast dagleið upp úr gljúfrinu...

Umsýslusvæði þessarar heilsugæslustöðvar...
Við vorum stödd í þoprinu Malata.

Meðgöngueftirlit... eitt af mikilvægustu verkefnum stöðvarinnar ásamt ungbarnaeftirliti...

Hver eru merki meðgöngueitrunar... óeðlilegrar stellingar barns fyrir fæðingu...

Uppköst, bjúgur, hiti, bakverkir, áhyggjur, hríðir...

Viðbragðsáætlun í fæðingarhjálp...

Skrifborðið sem hjúkrunarfræðingurinn hafði til umráða...
Hér var ekki læknir á svæðinu - var það nokkuð annars ?

Hættur og viðbrögð við skordýrabiti... ?

Los simtomas - einkenni
Tratamiento - meðferð
Cuidado - varlega

Cuidado don la  = varist ...

Ef ekki er brugðist skjótt og rétt við getur þetta bit verið banvænt...

Heimakonur seldu okkur ávexti og drykki á leiðinni...

Þurrkaðir ávextir...

Við sáum svíni slátrað... öskrin í því voru skelfileg...
ein skelfilegustu hljóð sem maður hefur heyrt í lífinu...
gleymum þessu aldrei...
við vorum akkúrat að anga framhjá meðan þetta fór fram og ég tók eina mynd....
en þeir þurftu allir að taka á stóra sínum og halda vesalings svíninu sem barðist um...
maður táraðist og varð við af að sjá þetta... en svona var lífið í sveitinni...
engin sláturhús til að ná í kjöt fyrir fólk...
meðal annars okkur...

Stórmerkilegur göngutúr í gegnum gljúfrið og margt merkilegt að sjá...

Lítill strákur með bílinn sinn og allt of rúma húfu... mjög líkur krökkunum í Nepal...

Kaktusar um allt í þessum hita...

Við lækkuðum okkur svo alveg niður í gljúfrið síðasta kaflann...

... á mjög fallegri leið...

... í sama brattanum og deginum áður...

Litum til baka á þorpið Malata þar sem við höfðum farið í gegnum...

Kyngimagnað landslag og stærðarhlutföllin einhvern veginn önnur en við áttum að venjast...

Sjá slóðann í fjarska út eftir ásnum...

Raúl fræddi okkur um gróður og dýralíf...

Æj, man ekki hvað þetta var...

Útsýnisstaður hér en hópmyndin mistókst og var ekki í fókus því miður...

Nú héldum við alveg niður í botn og hitinn jókst með hverju skrefi niður í mót...

... var orðinn steikjandi þegar komið var hingað niður og við sáum laugarnar í hillingum þarna niðri...

Rauðar nærbuxur skildar eftir hér með þessum rauða steini sem búið var að mála yfir leiðarmerkingu...
sumt þarfnast skýringar en enga er að finna...

Komin yfir brúna og stutt í laugarnar...

Vá... já, þetta var sannarlega vin í eyðimörkinni... "The Oasis"...

Velkomin, já takk :-)

Hérna ætluðum við að baða okkur og slaka á og borða áður en haldið yrði upp úr gljúfrinu...

Fallegur áningastaður... hér voru sæti og borð undir risavöxnum pálmatrjám...

... ekkert slor...hoggnir út í tré... bæði stólarnir og borðin...

Þjálfarar báðu leiðsögumenn um að útvega rúm fyrir Lilju Kristófers sem var sárlasin
og í engu standi til að leika sér í sundi með hópnum...
því var reddað án vandkvæða að hætti Raúls og hún gat hvílt sig í ró og næði...

Við drifum okkur í sundfötin.. hingað út í ætluðum við sko að fara !

... og sáum ekki eftir því :-)

Þetta var virkilega notalegt og enn eitt ævintýrið í þessari ferð...

Foss innan um gróðurinn og mjög fallegt þarna...

Stuð og gleði og ekkert annað :-)

Æj, hvað þetta var frískandi...

Já, náði að fara með myndavélina aðeins ofan í laugina án þess að bleyta hana...

Mikið gott að slaka aðeins á og njóta...

Auðvitað urðum við að taka hópmynd í lauginni eins og annars staðar...

Halldóra Þ., Örn, Torfi, Gunnar, Halldóra Á., María E., Ágústa, Inga Lilja.
Bára, Gylfi, Ingi, Sigga Rósa, Lilja Sesselja, Roar, Helga Bj., Kári, Sigga Sig, Áslaug og Heimir.
en 11 manns slepptu lauginni.

Svo var gott að leggja sig aðeins í hengirúmunum eftir sundið...

Matur eftir laugina og allir endurnærðir...

Útsýnið frá matarborðinu...

... og í hina áttina að annarri laug... þær voru fleiri þarna í botninum...

En svo tók alvaran aftur við...
framundan var 1.200 m hækkun til að komast í gistingu næstu nótt í Cabanaconde...
náttstað sem var líklega allra sístur af þeim sem við upplifðum í Perú...
en það vissum við sem betur fer ekki þegar við lögðum af stað...

Lagt var af stað kl. 15:20...
og við áttum eftir að lenda í myrkri í náttstað síðustu menn
í glymjandi gleði og brjáluðu stuði...
en fyrstu menn náðu í dagsbirtu og fengu meiri tíma uppi og gátu hvílt sig...
en ástand manna var mjög misjafnt þegar upp var komið og sumra ansi bágborið...

Áður en gangan hófst urðu erfið orðaskipti milli manna vegna greiðslu á múlösnunum
sem fengnir voru aukalega fyrir þá sem ekki treystu sér til að fara upp gljúfrið með bakpokann sinn.

Í minningunni voru samt tveir múlasnar hluti af ferðinni og ætlaðir fyrir þá ekki kæmust upp gangandi
svo þetta er óljóst í smáatriðum við upprifjun en það voru allavega þrír sem fengu múlasna upp úr gljúfrinu.

Ritari þessarar ferðasögu missti sem betur fer alfarið af þessum orðaskiptum þar sem hún skrapp á salernið
þegar þetta átti sér stað en menn voru nokkrir ansi reiðir og með ólíka sýn á málin.

Leiðsögumennirnir Raúl og Johann voru ekki sáttir við þá framkomu sem þeir fengu varðandi þetta mál
og skildu ekki hvernig við fórum að því að fara í gegnum þessa ferð svona stór hópur
með mismunandi skoðanir og þarfir hver og einn...
... þeir höfðu greinilega ekki kynnst því hversu blóðheitir Íslendingar geta verið þó þeir komi frá köldu landi :-)
... og við þjálfarar og Sæmi gátum ekkert gert nema rætt þetta við þá,
beðist afsökunar fyrir hönd landa okkar  og reynt að sjatla málin eins og frekast var unnt
meðal annars bað kvenþjálfarinn Raúl að fella niður greiðslu Lilju fyrir múlasnann og hann græjaði það ef marka má dagbókina ?

ATH þetta er skrifað eftir dagbókinni og óljósu minni með múlasnana... hvernig var þetta ?
voru ekki tveir asnar innifaldir í göngunni og svo fengnir einhverjir aukalega
sem þurfti þá að greiða fyrir ?

Litið til baka... á vinina sem sannarlega var réttnefni :-)

Það var ólíkt annað að ganga upp úr gljúfrinu en niður... en samt...
einhvern veginn mun léttara en maður átti von á...
hnén voru t. d. sáttari hjá sumum því það mæðir mikið á þeim á samfelldri niðurgöngu...

Halldóra Á., María E. og Lilja Kr. fengu far með múlösnunum upp og bakpokar sumra fengu að fljóta með...

Þetta var síðasta gangan fyrir stóra fjallið...
menn vildu reyna sig í hæðinni með burðinn
og létu sig flestir hafa það að halda á dagpokanum upp úr gljúfrinu...
enda voru menn himinlifandi að ná að hækka sig um 1.200 m
upp í 3.670 m hæð með pokann á bakinu...

Það þykknaði upp á leið úr gljúfrinu... sólin var farin...
hún hafði verið á alveg réttum tíma fyrir okkur allan tímann...
okkur var nákvæmlega sama þó það kæmi rigning á þessum tímapunkti á leið upp brekkurnar
í rökkrinu sem fljótlega skreið inn með skýjunum...

Allt varð dulúðugt og öðruvísi en í björtu sólskininu
og við sem héldum hópinn síðust í hópnum áttum sérlega góðar stundir saman á þessum kafla
í rökkrinu og svo myrkrinu...

Ekkert mál að vera í rigningunni þar sem það var hlýtt og lygnt
en við fréttum síðar að þeir sem voru á ösnunum varð mjög kalt þar sem þær gengu sér ekki til hita
og voru ekki vel varðar gegn rigningunni á múlösnunum og komu hríðskjálfandi upp á hótelið...

.. man þetta samt ekki nægilega vel !

Mikið hlegið og mikið gantast...
þetta var ein ein útgáfan af perúsku ævintýri sem við höfðum ekki upplifað áður
og gleymist þessi uppganga aldrei...

Raúl, Simmi, Guðjón, María S., Sigga Sig., Heimir, Örn.
Gurra, Kári, Ingi og Heiðrún en Bára tók mynd.

Froskar og alls kyns kvikindi á leiðinni í myrkrinu og bleytunni...

Þetta var með eftirminnilegustu gönguköflum Perúferðarinnar...
við vissum ekkert hvar við vorum síðasta kaflann...
þvældumst einhvers staðar gegnum þetta fátæklega þorp
alla leið á hótel Cabanaconde...

Þar voru sumir af fyrstu mönnum löngu komnir upp og búnir að koma sér fyrir á hótelinu...
og sumir búnir að standa í ströngu að hlúa að veika fólkinu og þeim sem ofkældust nánast á múlösnunum...

Úr dagbók þjálfara:

"Þeir sem gengu með allt á bakinu voru himinlifandi eftir á því þeim tókst að hækka sig um 1.200 m
upp í 3.670 m hæð með bakpokann. Mikill sigur !
Gengum í myrkri síðasta klukkutímann og það var frábær stemning í hópnum.
Geggjað að koma inn í þorpið og að hótelinu í myrkrinu. Eins og að koma inn í kúrekamynd.
Ekki upp á marka fiska hótelið, Hotel Cabanaconde. Þröng herbergi og sameiginlegar sturtur og wc.
Við grútskítug en Sæmi og Halldóra Þórarins tóku á móti okkur
en þau tóku við Lilju Kr. þegar hún kom upp úr gljúfrinu og hjúkruðu henni þar sem hún var mjög köld.
Sæmundur hitaði hana upp með líkamanum og Halldóra Þ. græjaði heitar flöskur til að hita henni með.

Þegar við komum með síðustu menn upp fer ég beint á herbergið hennar og kíki á hana
en þá var spænski læknirinn kominn. Raúl túlkaði. Gátum kreist út vökva i.v. (í æð).
Þau höfðu gefið henni ógleðistillandi og síðan fær hún Paratabs vegna hækkaðs hita
sem þó var e.t.v. vegna þess að hún var orðin of heit.
Kastar upp verkjalyfjunum. Ég fær mér bara súpu og engan mat og leysi svo Ölmu af.
Við erum meira og minna inni hjá henni. Hún klárar vökvann um kl. 22:45 og losar þá loft og þvag sem var frábært.
Við Ágústa fögnum því innilega (þýddi að þarmahreyfingar væru til staðar sem er merki um heilbrigði í meltingunni). 
Sofnuð um kl. 24:00. Fer að sofa kl. 24:15.

Það er mjög sérkennilegt að lesa þessar línur í dagbókinni...
textinn er eins og rapport eða skrifleg skýrsla hjúkrunarfræðings á vakt...
... líðan, vökvainntaka, lyfjainntaka, verkun, lífsmörk, útskilnaður og þarmahreyfingar... allt skráð og allt tímasett...
hverjir gera hvað og í hvaða röð... ótrúlegt... en um leið ekki skrítið...
Lilja var óskaplega lasin og sú sem verst fór út úr þessum veikindum sem lögðust á hópinn í Perúferðinni
og aðallega þennan sólarhring í Arequipa sem af mörgum var eftir á að hyggja rakið til sólstings
en var ekki skýringin í tilfelli Lilju.

Meira úr dagókinni:

"Áslaug heldur ræðu yfir matnum sem var frábær þar sem hún bað menn að sýna virðingu,
ekki gera mál úr smáatriðum og hafa góða ferð.
Allir ánægðir með þetta, ég heyrði hana upp á herbergi Lilju og var fegin að hafa heyrt hana.
Fer seinna niður og bið um bíl sem gæti farið beint til Arequipa á morgun fyrir Lilju og aðra sem voru slappir.
Gætum farið á öðrum bíl í skoðunarferðirnar á leiðinni. Það er samþykkt af Jóhanni."

En ræðurnar þetta kvöld urðu fleiri og það misheitar og tilfinningasamar...

Johann byrjaði á að fara yfir morgundaginn
sem yrði skemmtileg keyrsla til baka til Arequipa með viðkomu á spennandi stöðum...
en fór svo að ræða orðaskiptin niðri í gljúfrinu og var ekki sáttur við þá framkomu sem hann fékk.
Þetta veldur því að fleiri standa upp og segja sína meiningu... og mikill tilfinningahiti í mönnum...

ritari hér ekki saklaus af því að verða of persónuleg og tilfinningasöm
frekar en fleiri og baðst síðar afsökunar á því eins og fleiri en þetta hreinsaði um leið loftið að einhverju leyti
og sættir urðu á endanum að mestu við þetta...

Erfitt að ræða mál þar sem sjónarmið eru ólík og miklar tilfinningar í spilunum
en af tvennu var líklega betra að allir töluðu út og menn gætu melt orð hinna og reynt að ná sáttum...
þetta var því krefjandi þroskaverkefni fyrir hópinn en líklega nauðsynlegur hluti af ferlinu þar sem titringur var í fólki
og ólík sjónarmið á lofti sem var mikilvægt að allir fengju að heyra...

Tölfræði göngunnar niður og upp úr gljúfrinu er ekki á hreinu þar sem gps-upplýsingarnar skoluðust til
hjá þjálfurum og fleirum í ferðinni eins og Inkaslóðirnar því miður en skv. wikiloc var þetta á að giska
um 26,5 km á 2 dögum úr 3.436 m hæð niður í 2.270 m og aftur upp í Cabanaconde í 3.321 m hæð
með alls hækkun upp á 2.964 m.

-----------------------------------------------

Ferðadagur 12 - 6 göngudagar af 12 af baki

Önnur gönguferðin af fjórum í Perúferðinni
2ja daga ganga niður og upp Colca Canyon gljúfrið

Laugardagurinn 26. mars 2011
Skoðunarferðir og akstur til baka frá Cabanaconde til Ariquipa

Ferðalýsing Ítferða:
"Morgunmatur um 8.30 og síðan er ekið til Chivay, þar sem fólk getur valið á milli þess að fara í heitu hverina þar eða bara skoðað borgina.  Hádegismatur þar sem hægt er að velja á milli hlaðborðs eða einstakra rétta. (ekki innifalið) Þriggja tíma akstur til baka til Arequipa, komið þangað milli 18 og 19. Gist á sama hóteli."

Við vöknum klukkan sex á Hóteli Cabanaconde með sveitina allt í kring.
Hundagelt um nóttina og hænsnin og haninn létu heyra vel í sér um morguninn.
Þjálfarar sváfu ekki vel þar sem rúmið vart hart, herbergið þröngt og allt einhvern veginn druslulegt...
en þegar maður leit út um gluggann og sá örbirgðina um allt í kringum hótelið
þá vakti það furðu manns að það væri yfirleitt hótel á þessum slóðum...
og maður hreinlega gat ekki kvartað...
við vorum á lúxusstað í samanburði við heimamenn sem tókust á við sitt hversdagslíf fyrir utan
í mun verri aðstæðum en okkur var boðið upp á á hótelinu...

Úr dagbók þjálfara:

"Við kíkjum beint til Lilju eftir að við vöknum
og hún er betri en ennþá lasin engu að síður og heldur litlu sem engu niðri.
Misjafnt ástandið á öðrum í hópnum en flestir sprækir og heilsan nokkurn veginn í lagi..."

Kvöldið áður höfðum við ákveðið að annar bíllinn færi beint til Arequipa með Lilju á sjúkrahús
og það endar með því að helmingur hópsins fer með í þeirri rútu í stað þess að halda ferðaáætlun
og fara í skoðunarferðirnar á leiðinni til baka...

Gatan sem hótelið var við... þetta verður seint talist Champs Elysees...

Sum sé... dásamlega lagið Suavemente... besame me... þýðir þá "kysstu mig hægt"...
svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt :-)
https://www.youtube.com/watch?v=WPiEbYSF9kE

... að maður tali nú ekki um lagið Besame mucho... sum sé kysstu mig mikið...
https://www.youtube.com/watch?v=LLsg_Lk819s

... og hér með spænska textanum og íslenskri þýðingu í flutningi hinnar dásamlegu Diönu Krall:
https://www.youtube.com/watch?v=pVezf3zi4Hg

Sem betur fer ná báðar rúturnar að fara á Cruz del Condor
sem er sérhannaður útsýnisstaður til að sjá risafuglinn Kondorinn...

... á brúninni yfir Colca Canyon...

Fannhvítir tindar Andesfjallanna í fjarska...
stórskorið Colca Canyon fyrir neðan okkur... og Kondorinn fljúgandi fyrir ofan okkur...
það var ekki skrítið að tugþúsundir ferðamanna kæmu fram á þessar brúnir á hverju ári...

Hér býr Kondorinn... stærsti fugl í heimi út frá vænghafi og þyngd...
vænghaf allt að 3,3 metrum... býr í Suður-Ameríku... gerir hreiður sín upp í allt að 5.000 m hæð...
venjulega 1-2 egg í hverju goti... einn lífseigasti fuglinn... getur lifað í allt að 70 ár...
tákn sex landa í Suður-Ameríku; Argentínu, Bólivíu, Chile, Ekvador, Kólumbíu og Perú...

https://en.wikipedia.org/wiki/Andean_condor

Þarna upplifðum við aðra ferðamenn en okkur sjálf í annað sinn á svipaðan hátt og í Machu Picchu...

Áhrifamikill staður og við fylltumst lotningu...

Sigga Rósa ansi svöl innan um svartklædda strákana...
Ingi, Guðjón Pétur, Simmi og Sæmi...

Gátum dólað okkur á stígum og klöppum og hugleitt og notið...

Svo var keyrt áleiðis til Arequipa og komið við á fleiri útsýnisstöðum þar sem ýmsustu sölustaðir voru...

Einstakt landslag... eins og í teiknimynd...
Colcaáin að hlykkjast um láglent gilið til að byrja með áður en það dýpkaði...

Það er ráð að grípa hluti sem mann langar í þegar maður sér þá í Perú
því maður veit aldrei hvort þeir eru í boði aftur síðar...
á þessu brenndum við okkur nokkrum sinnum í þessari ferð...

Litið til baka að beygjunni þar sem gljúfrið rennur svo á milli fjallanna...

Magnað landslag... sjá ræktarlandið allt niður á brún á sumum stöðum...

Ætlunin var að fara í bæinn Chivay og í heitu laugarnar þar og við röltum að þeim...
en ákveðum að sleppa þeim og rölta bara um og skoða...

Þarna fengum við dýrindishádegismat á fallegum stað...

Þetta var dásamlegt...

Veitingastaðurinn... Kondorinn saumaður í... ásamt klettahömrunum... kaktususum...
hvítu skýin komu í staðinn fyrir hvítu fjallstindana sem gnæfðu stundum yfir okkur ofan í gljúfrinu...

Mjög góð stemning og allir að njóta vestræna lífsins aðeins :-)

Lifandi tónlist á veitingastaðnum...

Hvernig var þetta hægt... litlar perúskar stelpur með Lamakálfa... við bráðnuðum bara strax...á staðnum...

Þær voru að fá sér ís og Lamadýrin vildu smá smakk :-)

Mannlífið blómlegt og eftirminnilegt á þessum stað...

Ávaxtamarkaðurinn...

Aðstaða kvennanna og barnanna sem stóðu í ströngu allan daginn...

Juanitan sem var send upp í fjöllin til fórnar guðunum.. þar létust þessar stúlkur...
en líkamsleifar einnar eru á múmíusafninu í Arequipa... hér stytta af eftirlíkingu styttunnar...

Eftir menningarferðina við gljúfrið var haldið yfir heiðina aftur upp í tæplega 5.000 m hæð...

Úr dagbók þjálfara:

"Ferðin yfir daginn gekk vel hjá okkur sem tókum rútuna sem tekur allan pakkann
en við sleppum heitu hverunum í Chivay og fáum frábæran hádegismat.
Er komin með niðurgang í rútunni og hleyp í ofboði á wc á heiðinni í 4.900 m hæð og svimar mikið.
Gerður skjögrar út og kastar upp en lagast fljótt. Bið Örn að hjálpa henni því ég er í vandræðum á wc."

Heiðin var sér ævintýraland út af fyrir sig...

Búpeningur í allri þessari hæð og ungur Perústrákur á vegakantinum sem datt...

.... en stóð strax upp aftur og hélt af stað gangandi með þessar byrðar...
svolítið önnur lífsskilyrði en okkar...

Við ritun þessarar ferðasögu birtist á sama tíma ótrúlegt viðtal í Fréttablaðinu við konu á áttræðisaldri
sem stofnaði samtökin "Vinir Perú" fyrir tíu árum...
Sigrún Klara Hannesdóttir...
af því "hún gat ekki gleymt skólausa stráknum" sem hún sá verða fyrir aðkasti skólafélaga sinna í Perú...
en hún hefur ferðast um allan heim og komið til fleiri en 100 landa...
... hún segir í lok viðtalsins að ef það sé eitthvað sem hún geti lært af öllum þessum þvælingi um heiminn
þá sé það að við Íslendingar ættum "
að skammast okkar fyrir að kvarta, við höfum allt og miklu meira en það"...

Og það er svo rétt... þetta var tilfinningin vikum saman eftir Perú... og eftir Nepal... og þar áður eftir Afríku...
... og bráir ekki af manni lengur...
þessi hneykslun á því yfir hvílíkum smámunum menn eru að kvarta og kveina í fjölmiðlum og alls staðar í samfélaginu...
með milljónir manna að lifa við svona aðstæður um allan heim...
níu ára strákur eða svo að bera þungar byrðar á bakinu vafið inn í sjal..
á miðri heiði með rigningarskúrana í kring og ferðamannarúturnar keyrandi framhjá...
og enginn að hjálpa honum....

http://www.visir.is/g/2018180218846

Brátt blasti El Misty við... tignarlegur og ógnandi... freistandi og kvíðavekjandi í senn...

Hverfin í Perú... já, yfir hverju erum við eiginlega að kvarta búandi á Íslandi ?

Þessar perúsku konur... hvílíkir töffarar !

Bílaflotinn... þegar hann sást...

Áróðurskosningaveggspjöldin um allt...

Eitt hringtorgið á leiðinni inn í Arequipa...

Seinni hópurinn lenti í Arequipa um kl. 16.30...

Mig rámar í einhvern hasar hjá fyrri rútunni á leiðinni yfir heiðina...
hvort það sprakk á dekkinu eða rútan bilaði eða hvað... man það ekki...
væri vel þegið að fá smá línur um hvernig sú ferð gekk þar sem við vorum ekki í þeirri rútu !

Við gistum ekki á sama hóteli í Arequipa þegar við komum til baka...
Núna gistum við á dásamlegu hóteli sem hét Casona Solar
www.casonasolar.com

Dásamlegur staður... stór herbergi... falleg útisvæði um allt... frábært starfsfólk...

Skvísurnar Halldóra Þ. og Helga Björns í herberginu sínu hæstánægðar eins og við...

Hótelstjórinn var einn af þeim sem maður gleymir ekki úr Perúferðinni...
alltaf hress, opinn, boðinn og búinn...

Þjálfarar fengu leiðbeiningar um hvar væri best að nálgast apótek
og fara og kaupa meltingarlyf handa Lilju en þegar þeir fara til hennar með það
eru Alma og Torfi þar fyrir og búin að kaupa sama lyfið :-)
Það var greinilega vel hugsað um þessa elsku
sem fékk stærri skammt af veikindapakka að kljást við en við hin...

En... alltaf að flýta okkur... við þurftum að koma okkur út að borða... nesta okkur... pakka...
við höfðum ekki mikinn tíma... strembinn... mjög strembinn dagur framundan á morgun...
hvað þá daginn þar á eftir...jebb... aldrei hvíld...
alltaf bara næsta verkefni um leið og það fyrra var búið...
með ólíkindum alveg !

Þjálfarar fóru út að borða með Sæma, Kára, Halldóru Þ., og Helgu Bj...

...á fínum veitingastað með svalir niður á aðaltorgið Plaza del Armas...
og El Misty þarna uppi yfir öllu saman...

Svo var farið á hótelið og spjallað við hina í hópnum...
allir glaðir og spenntir fyrir morgundeginum...
stelpurnar í rauðvíni og tómri gleði eins og vera bar
ekkert að stressa sig á einhverri fjallgöngu í mikilli hæð í fyrramálið :-)

Aðrir ekki eins sprækir og ákveða endanlega að sleppa göngunni á El Misty...
sumir búnir að ákveða það nokkrum dögum áður... jafnvel beint eftir Inkaslóðirnar...
einfaldlega hugnaðist ekki að vera í svona mikilli hæð og líða svona illa... maður skildi það vel...
veikindin hennar Lilju Kr. og fleiri settu strik í reikninginn en við vonuðum það besta fyrir hennar hönd
og þeirra sem voru enn að klást aðeins við veikindi og ekki alveg frísk en ætluðu sumir að fara á fjallið...
Sumir lögðu í hann hálf hikandi og með smá kvíða, jafnvel ugg í brjósti...
þetta yrði krefjandi og erfitt...

Úr dagbók þjálfara:

"Komum í Arequipa um kl. 16.30 og náðum aðeins að spjalla við fólkið og fá stöðuna á þeim sem voru slappir
áður en farið var út að borða með Sæma, Kára, Helgu og Halldóru og það er bara gaman.
Beint yfir Plaza del Armas með Mt Misty í kvöldsólinni... fjalli morgundagsins...
flýtum okkur í hraðbanka, kaupa vatn og náðum ekki einu sinni að fara í sturtu fyrir Misty-fundinn.
Hann gengur vel. Hlakka til að sigra 5.822 m hátt fjall. Vona að það gangi vel.
Pökkum og sturta og færi allar ljósmyndir yfir á tölvuna. Er í vandræðum með gps-gögnin.
Fáum óvænta heimsókn frá Inga og Heiðrúnu sem vildu þakka okkur fyrir alla ferðina
og peppa okkur upp og það var svo kærkomið. Þau voru frábær.
Erum að hlaða myndum í tölvuna og allt tilbúið um kl. 23:00,
sársyfjuð, vakna 05:00, morgunmatur 6:00, brottför 7:00."

Framhald hér í ferðahluta 3 af 4 um Perúferðina...
Fjallið El Misty 5.822 m...

Sjá einnig:

Ferðahluta 1 - Inkaslóðirnar 4ra daga ganga.

Ferðahluta 4 - Santa Cruz 4ra daga ganga.

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir