Tindur 127
Hestur Snæfellsnesi
laugardaginn 3. apríl 2016
 

Alpakenndur könnunarleiðangur
á sjaldfarna fjallið Hest
í fullkomnu veðri, færð og útsýni
Hvílíkur dýrðarinnar dagur með mögnuðum göngufélögum
sem eru alltaf til í að kanna ókunnar slóðir og bæta nýjum fjöllum í safnið


Mynd tekin ofan af Hrútaborg þann 11. nóvember 2012.

Hið snarbratta og glæsilega fjall Hestur á Snæfellsnesi hefur oft blikkað okkur ansi lokkandi
ofan af fjöllunum í kringum sig... og við létum loksins til skarar skríða
eftir að hafa frestað þessari göngu tvisvar frá því í fyrra út af veðri
þar sem við vildum ekki kanna leiðir á þetta fjall nema í góður veðri og færð...

Fjallasýnin var skýlaus og tær á Snæfellsnesi þegar lagt var af stað úr rigningarblautri borginni klukkan sjö um morguninn...
og Hestur stór þarna keikur og tilbúinn innan um pýramídana sína...

Við fengum góðfúslegt leyfi hjá staðarhaldara bæjarins Þverár til að fá að geyma bílana okkar við fjallsrætur Sjónarfells...
mjög fallegur bær og sumarhúsabyggð innst við enda bæjarvegarins...

Vor í lofti... þetta var klárlega vortindferð... milt, hlýtt og lygnt veður... yndislegt...

Fjallasýnin óborganleg og tindarnir blöstu alls staðar við... og við gerðum okkur grein fyrir því að við erum búin að ganga á alla þekktu tindana á þessum hluta Snæfellsness... Hrútaborg og félaga hennar þarna á milli hennar og Tröllakirkju í Kolbeinsstaðafjalli... en bæði þessi fjöll gáfu okkur alveg mergjaða göngudaga í brakandi sólarblíðu og skyggni... líklega erum við ekki að gera okkur grein fyrir því hvers lags verðmæti raunverulega eru að baki !

Glæsilegur bærinn Þverá þar sem gangan hófst við enda vegarins...

Járnstigi var yfir girðinguna...
við erum miklu vanari því að klöngrast í klettum en svona manngerðu dóti :-)

Hafursfellið í allri sinni fimm hryggja dýrð...
sem geymir magnaðar minningar  um ævintýralegan könnunarleiðangurToppfara þangað árið 2013...

Svartafjall og Snjófjall... Skyrtunna er enn í hvarfi...

Litið til baka á Kolbeinsstaðafjall og félaga... skýjað að mestu til að byrja með og lognið eftir því...

Nesti á teppalagðri bungu með snjóinn allt í kring... og Svartafjall og Snjófjall í baksýn...

... og svo fór Skyrtunna að kíkja til okkar líka þarna á milli...
gengum við virkilega á
þessi þrjú fjöll... og eru í alvöru komin þrjú ár síðan...? !

Ágúst tók magnaðar myndir þennan dag... það var veisla að skoða myndirnar hans...
https://www.facebook.com/agust.runarsson/media_set?set=a.10208798952481369.1073741996.1539905831&type=3&pnref=story

Svo brokkaði Hesturinn sjálfur skyndilega út úr snjóauðninni... og við gripum andann á lofti...
þetta formfagra og dularfulla fjall sem hvergi virðist vera hægt að lesa um göngu á
nema hjá henni Kristjönu Bjarnadóttur sem heldur úti svo skemmtilegum gönguskrifum...
https://bubot.wordpress.com/2009/09/27/i-utleg%C3%B0-a-sn%C3%A6fellsnesfjallgar%C3%B0i/

Skýjafarið síbreytilegt og sólin að brjótast smám saman fram...

Við urðum að taka mynd af þeim sem fóru á þessi þrjú pýramídlaga fjöll fyrir þremur árum síðan :-)
Guðmundur Víðir, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Katrín Kj., Örn, Arnar, Ósk og Bára...
Batman fór ekki en var aldrei þessu vant til í að vera með á mynd :-)

Já, drífum okkur á hestbak !

Við vorum í dulúðugum snjófjallasal þar sem kyrrðin var alger og útsýnið magnað...

Sólin tók að baka okkur á þessum tímapunkti og fór ekki fyrr en við lögðum af stað niður af Hesti...

Bláminn tók að bera svo fallega við fjöllin í kring
að við máttum ekkert vera að því að ganga og bara horfðum og tókum myndir  og...

Göngufærið með besta móti... harðfenni undir laufléttu nýföllnu snjólagi...

Svartafjall þarna að kíkja á gestina sem voru á leið á Hest...

Tröllakirkja í Hítardal og Smjörhnúkar þarna lengst til vinstri ens ú ganga er ein sú allra flottasta í sögunni
eins og
Hrútaborg þarna hægra megin.

Seinni brúnin að fjallinu Hesti þar sem við gátum virt fyrir okkur dýrðina...

Takk fyrir að mæta... svo þessi ferð yrði að veruleika...
Ágúst, Guðmundur Jón, Ólafur Vignir, Örn og Batman, ekkert að nenna að vera með í myndatöku,
Guðmundur Víðir, Kolbrún, Doddi, Njóla, Guðrún Helga, Ingi, Arnar, Sarah, Katrín Kj., og Ósk en Bára tók mynd.

Stór fjöll leyna á sér..., og virðast nær en þau eru... og maður gengur og gengur... og er aldrei kominn...
en við vorum samt einhvern veginn svo snögg að því...
kannski af því það var svo gott veður og stemningin svo glimrandi skemmtileg...

Sjá smæð mannsins í samanburðinum við fjallið... já, þetta er glæsilegt fjall og sérstakt í lögun...

Sáta... með Sátuhnúk þarna dökka strítu upp úr fjallinu...
sagt er að Hestur hafi átt að fá Sátuna en ekki náð til hennar...
Við þurfum að ganga á þetta fjall einhvern tímann... taka langa snjógöngu og enda á þessum hnúk
sem eflaust er flottari þegar nær er komið...

Það greiddist vel úr hópnum hér því öftustu menn tímdu ekki öðru
en taka myndir af endalausri dýrðinni sem þarna var...

... sem var ekki skrítið... allt svo mikið stórfenglegra en manngerða lífið í borginni...

Skyrtunna... og Ljósufjöll...sem geyma enn eina mögnuðu ferðina á fjall á Snæfellsnesi...
 og Botna-Skyrtunna sem við eigum enn eftir...

Ósk og Njóla að ganga í þessum fjallasal sem sjaldan er farinn...

... við vorum baksviðs hjá píramídunum á Snæfellsnesi....

Panoramamynd þar sem fjöllin sjást öll vestan megin og Batman skokkar þarna um með hópinn hægra megin...

Broddatími... hér fóru allir í ísbrodda...

Komin í græjurnar og þjálfarar rifjuðu upp broddatækni og ísaxarbremsu...

...sem er alltaf gott að gera ef mánuðir líða á milli notkunar
sama hversu oft maður hefur rifjað það upp áður...

Sólin farin að slá töfrum á allt umhverfið...

... og við urðum að beita okkur hörku að halda áfram og tefja ekki meira...

... því veðurspáin sagði að það myndi þykkna upp er liði fram yfir hádegið og fara að rigna...

Skyrtunna... við náðum að fara upp á vinstri öxlina þarna um árið...
eigum alltaf eftir þennan síðasta spöl á efsta tind... og tökum hann í næstu ferð... gott að eiga eitthvað eftir... :-)

Ljósufjöll að austnorðaustan... hvílík fegurð...

Suðurbrekkurnar upp á Hest eru saklausar til að byrja með...

... en brattna svo smám saman...

... færið gott sem betur fer...

... þjálfarar höfðu áhyggjur af því að þetta myndi svellast ofar...
sem hefði þýtt að við kæmumst ekki alla leið upp því þetta eru langar, brattar brekkur og nauðsynlegt að vera með gott hald...

Útsýnið batnaði hratt með hverjum metranum upp á við...
sem er aðalástæðan fyrir því að við viljum þvælast upp á þessi fjöll en ekki bara neðan við þau...

Grjóthart hjarnið þarna undir léttum snjónum efst...

Ekki snjóflóðahætta þegar ofar var komið þar sem við vorum í 45 - 50% halla
enda var stutt í grjótið þarna undir...

... en við þræddum grjótið eins og við gátum til að vera örugg...

Tröllakirkja í Hítardal og Smjörhnúkarnir... vá hvað þeir voru flottir á sínum tíma...
jú, við verðum að endurtaka göngu á þessa tinda sem fyrst... kannski á afmælisárinu mikla á næsta ári... 2017...

Þetta gekk ótrúlega vel... um 200 m hækkun frá fjallsrótum...

Brattinn orðinn meiri...
Ágúst gleymdi ísbroddunum sínum og rétt komst upp með að vera eingöngu á keðjubroddunum
þar sem við gátum mótað góð spor fyrir hann á verstu köflunum...

Batman fór þetta á klónum... en rann stundum svolítið niður... en komst alltaf upp aftur... og var stundum bara að leika sér...

Flottasta fólk í heimi... svo einfalt er það nú bara !

Dýrðarinnar fegurð Hests kom smám saman í ljós þegar ofar dró...

Sólin steikti okkur á þessum kafla... í suðurbrekku án nokkurrar gjólu...
sem beið í skarðinu og var bara léttir eftir hitann og svitann á uppleiðinni...

Þarna var versti kaflinn... smá bunga í brekkunni og erfitt að móta spor
en allir stungu vel niður broddunum og gættu þess að halda góðu spori fyrir næsta mann...

Hér stóð ekki öllum á sama og það var ráð að fara yfir í skarðið og meta aðstæður fyrir frekara tindabrölt...

Gleðin glumdi þegar menn komust á bak "söðlinum"...
á öruggt "land" í skarðinu og fegurðin blasti við beggja vegna Snæfellsness...

Hvílíkur staður til að vera á !

Það var ljóst að mati þjálfara að hæsti tindur yrði ekki genginn með hópnum í heild enda fýsti menn ekki að gera það að sinni....
þar sem færið var orðið hart efst og von á enn harðara ofar...
en Ingi og Doddi ofurmenni vildu aðeins leika sér og kanna þennan hæsta tind...

Örn bauð mönnum hins vegar upp á þennan hverjum sem vildi...
og það endaði á að nánast allir gengu á hann allt til enda...

En fyrst skyldi tekin hópmynd...
ef það skyldi nú þykkna upp sem við vorum skíthrædd um að tímabili á leið upp brekkurnar...
en það gerðist ekki fyrr en eftir matarpásuna á leið niður...

Hópmyndin fjær í betra samhengi við umhverfið...

Hestur kom okkur verulega á óvart þegar nær var komið og er ágætis dæmi um
hversu magnaðir svona fjallsbrúnir og tindar eru alveg óháð því hvort þeir líta freistandi út neðan frá eður ei...

Og þá hófst bröltið á vestari tindinn...

...taglið á Hestinum...

Mögnuð leið sem minnti á Tröllatinda við Hólsfjall frá árinu 2009...
sem við þurfum einmitt að endurtaka... vonandi á næsta ári...

Grjótið öruggt hægra megin en ísað... snjóskaflinn vinstra megin frosinn í sólarleysi norðurhlíðarinnar...
við gættum þess að vera sem mest grjótmegin og sem minnst "snjóskafls-/snjóhengjumegin til að vera örugg...

...en þetta var allt þétt í sér og hundurinn valsaði um skaflinn neðan við okkur án þess að hika...

Það var ekkert hik á Guðmundi Jóni og Erni fremst á þessari leið...
þökk sé þeim að við hin þorðum á eftir...

Magnaðir göngufélagar þessarar ferðar eru einfaldlega ástæðan fyrir því að svona ferðir eru mögulegar...
hjónin Doddi og Njóla sem eru alltaf til í allt og með smitandi ástríðu fyrir fjallgöngum...
enda er Kilimanjaro á næsta ári ekki síst þeim að þakka :-)

Jú, við skulum öll koma okkur þarna yfir á þennan hæsta og taka mynd...

Þetta er ekkert mál...

Arnar Mond Blanc-fari að skila sér upp úr skarðinu...

Batman róaði okkur heilmikið á þessum kafla með yfirvegun sinni...

Hópmynd á einum flottasta útsýnistindi í sögunni !

Og Bára fékk líka mynd af sér... þjálfarar í sinni fyrstu mynd á fjallstsindi með hundinum sínum Batman...
jú, það var þess virði að fá mynd af sér á þessum stað...

Bakaleiðin var ekki síðri....

Já, Hestur er greinilega snarbrattur til suðurs og norðurs...

Niðri í skarðinu... í söðlinum... fengum við okkur nesti og héldum svo niður...

Og það var svo merkilegt að um leið og við lögðum í hann niður... tóku fyrstu snjókornin að falla...
það var farið að þykkna upp og sólin var farin... nákvæmlega þegar við vorum búin að ganga á tindinn og borða...

Batman aðeins að gá hvort einhverjir molar hefðu dottið í snjóinn áður en hann hélt niður á klónum sínum...

Doddi og Ingi á leið á hæsta tind... þeir voru ekki lengi að þessu !

Sjá skýjafarið... dimmara yfir og þessi gullna birta var farin...

Þarna voru þeir drengirnir og gengu á báða tindana... það var ísaðra þarna uppi...
sem betur fer fórum við ekki að berjast með hópinn þarna upp skjálfandi á beinunum...
þó einhverjir fleiri hefðu eflaust getað farið þarna... það verður bara næst !

Komnir til baka og voru ekki lengi að koma sér alla leið niður bröttu brekkurnar...

Við ákváðum að fara beinna niður og sniðganga þessa bröttu útbungu í hliðarhallanum á uppleiðinni...

Strákarnir komnir neðar... þetta er ekkert mál... :-)

Og við fundum fína leið niður með klettunum...

... þar sem haldið var mun betra í snjónum en á uppleiðinni...

Fljótlega var þetta meira aflíðandi og við gátum straujað niður...

Broddar af og nú beið okkar rúmlega 7 km ganga til baka í bílana...

Doddi og Ingi fóru sem sé á báða tindana vinstra megin... á faxið..
hópurinn fór allur í skarðið þarna í miðjunni, söðulinn, og svo fóru flestir á hrygginn hægra megin, taglið...
Uppgönguleiðin var hægra megin í snjónum meðfram grjótinu þegar það var,
niðurleiðin milli stærstu klettanna þarna á miðri mynd...

Bakaleiðin var furðulega létt...
við svifum ölvuð til baka eftir þennan magnaða dag sem enn og aftur toppar allt
og heimtar að fara á topptíu listann sem er nú þegar með tugi gangna á biðlista þangað...

Farið að þykkna upp í suðri frá því fyrr um daginn og svo áttu þessi fjöll líka eftir að hverfa í súldina...

Súld sem kom ekki til okkar fyrr en á síðustu metrunum...

...nákvæmlega þegar það voru 576 m í bílana tók að rigna og við flýttum okkur niður brekkurnar síðasta spölinn...

Alls 18,2 km á 7:25 klst. upp í 832 m hæð með alls hækkun upp á 952 m miðað við 71 m upphafshæð.

Það voru nokkrir Póllandsfarar í þessari göngu... sem nú undirbúa sig fyrir hæsta fjall þess lands í september... þar sem einn slóvakískur fjallstindur verður og klifinn í Tatrasfjöllunum sem mynda landamæti Póllands og Slóvakíu... auðvitað fékk maður sér einn pólskan kaldan á leið heim... en það var eiginlega ekkert fútt í honum... maður var svo ölvaður eftir þessa göngu að það gat hreinlega ekkert toppað það sem að baki var þennan dag...

 

Ganga dagsins gula slóðin beinustu leið á Hest frá bænum Þverá þar sem staðarhaldara gáfu okkur góðfúslga leyfi til að geyma bílana og leggja af stað... bláa slóðin magnaða gangan á Svartafjall, Snjófjall og Skyrtunnu þann 1. maí 2013 og rauða slóðin á ævintýralegt Hafursfellið 22. september 2012... allt krefjandi, snarbrött og töfrandi formfögur fjöll sem gefa okkur minningar sem lifa um ókomna tíð... og komu okkur hvert með sínu lagi á bragðið með að leggja sífellt í hann aftur...
til að upplifa þessa tæru snilld sem þessi dagur á Hesti gaf okkur enn einu sinni...

Slóðin nær þar sem sést hvar hópurinn fór og svo hvað vantaði upp á á hæsta tind
þar sem Doddi og Ingi fóru en þeir gengu upp í x m hæð.

Hjartansþakkir elsku félagar fyrir að leggja alltaf í hann aftur með okkur
og vera alltaf til í að kanna nýjar slóðir sama hvað !
Þið eruð einfaldlega langbest :-)

... og NB ekkert af þessum verðmætum sem svona dagar skapa
hefðu orðið að veruleika nema einfaldlega af því menn eru til og mæta...

Svona ferð fer í sérflokkinn og jafnast á við flottustu jöklagöngur
en við höfum gjarnan náð slíkum göngum með hækkandi sól og snjóinn enn í fjöllunum
í apríl og maí við undirbúning fyrir okkar árlegu jöklagöngu í Vatnajökli
og sem ég segi enn og aftur... enn einu sinni náðum við að fanga slíkan dag...
 


 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir