Tindur 84 - Hafursfell Snæfellsnesi laugardaginn 22. september 2012

 Hryggjabrölt á Hafursfelli

Hrífandi fjallseggjar Hafursfells sem varða Snæfellsnesið sunnan megin bættust loks í safn Toppfara laugardaginn 22. september þegar þrettán leiðangursmenn lögðu í hann og uppskáru krefjandi klettabrölt í mögnuðu útsýni, góðu veðri og frábæru skyggni.

Þessi þétti þrettán manna hópur vildi greinilega ekki láta bjóða sér bara upp á "létta og laggóða göngu"... og hafði engan sérstakan áhuga á að "vera kominn í bæinn á skikkanlegum tíma fyrir kvöldmat"... svo Hafursfellið var tekið að hætti klúbbsins... og brölt upp og niður tvo tinda og bankað á dyrnar á þeim þriðja... áður en yfir lauk... með rúmlega sjö kílómetra sveitasælugöngu til baka kringum fjallið ;-)

Vá hvað þetta var flottur dagur !

Lagt var af stað frá gámastæðinu við þjóðveginn suðaustan megin við Hafursfellið
og byrjað á brölti yfir Stórahjall áður en stefnt var inn Þvergil...

Í veganesti var spjall við bóndann að Dalsmynni sem var ekki lengi að láta sjá sig við gámana þegar hópurinn birtist... en hann sagði göngur um Þverdal og Geldingadal algengastar og sagði ekki marga fara upp á hæsta tind, fannst við heldur frökk að stefna þangað...

Þvergil er einn af fimm dölum sem finna má í Hafursfelli... skreyttur þvergilsá og fossum niður eftir fjallinu...

Lilja Sesselja, Ástríður og Ásta Guðrún...
Það var dásamleg stemmning í hópnum þennan dag og við nutum þess að vera bara þrettán á göngu eins og einn maður ;-)

Haustlitirnir í listaverki náttúrunnar voru óborganlegir alla leið upp á fjallsbrún...

Veðrið var með besta göngu-móti... lygnt, hlýtt og skyggni frábært... rigningin lét ekki sjá sig nema í nokkrum dropum í fimm mínútur í örþunnri skýjaslæðu á tindinum sem ekkert náði að hylja og hvarf jafn skjótt og hún kom... og jú, hún buldi á bílnum á leiðinni út úr og inn í bæinn... auk þess sem við fylgdumst með skúraleiðingum í grennd beggja vegna fjallsins... sem aldrei voguðu yfir sér til okkar ;-)

Berjalandið... óbojóboj... við máttum ekkert vera að því að ganga á fjall...

Þetta var hreinlega fallegasta berjalandi sem við höfum rekist á á okkar göngum...
rækiber og bláber allt í graut og allar gerðir haustlita blandað út í...

Blankalogn og hlýtt... við vorum tínandi af okkur spjarirnar inn dalinn...

Skarðið í miðju Hafursfelli... þaðan sem vítt er til allra átta... við stefndum þangað...

Litið til baka niður dalinn með bæinn Dalsmynni þarna niðri...

Efst í skarðinu var smá klöngur sem náði alla leið upp á topp...

Þverdalur í allri sinni dýrð með Hrútaborg og Kolbeinsstaðafjall að hrista af sér morgunskýin...

Fínasta göngufæri í blautum jarðveginum eftir rigningar síðustu daga...

Komin upp í skarðið með útsýni upp eftir Stillum og yfir til Þríhnúka sem áttu aldeilis eftir að fanga okkur öll...

Anton að klára upp í skarðið með Stillurnar allar útbreiddar...

Orðin svöng... vildum ekki borða neðar í skjólinu... og völdum það sem við kunnum best... að borða á góðum útsýnisstað í gjólunni sem hverfur um leið og maður bítur fyrsta bitann í samlokuna og sýpur á fyrsta kakósopanum... með landið og miðin fyrir framan sig til að auðga andann...

Eftir matinn var síðasti spölurinn eftir upp á tind frá skarðinu... ansi líkt Kaldbak á Vestfjörðum þar sem hægt er að keyra alla leið upp í skarðið sem er mun hærra en þarna og þá er gangan upp á hæsta tind Kaldbaks ansi stutt enda á allra fjölskyldnafæri en sú leið er þó mun greiðfærari en þessi upp á Hafursfellið...

Klöngur var það alla leið í brattri brekkunni og líklega fremur ófært um leið og hálka er komin á svæðið...

Fjall dagsins var víðfeðmt... geymir fimm dali og fimm tinda eftir því hvernig menn vilja telja... hreint ævintýraland þar sem hægt væri að sníða nokkrar þriðjudagsperlur... ef það bara væri aðeins nær Reykjavík... ;-)

Útsýni til norðurs ýfir á norðurtind Hafursfells... þessi hryggur sem er eflaust vel göngufær...
kom vel til greina sem uppgönguleið hjá þjálfurum en skarðið vann...

klettastrítan á leið upp á tind sem gaf mikinn svip á landslagið...

Hvílíkir litir þennan dag...

Klettastrítan og Þríhnúkadyrnar... staðir sem við gleymum aldrei...

Útsýnið til austurs batnaði sífellt... Hrútaborg og Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli sem bæði bíða eftir heimsókn Toppfara...

Útsýnið ofan af efsta tindi til Stilla og Þríhnúkahryggjar... Við litum hýru auga til tindsins fyrir miðju og létum okkur dreyma um að komast alla leið af honum yfir og í skarðið ofan við Geldingadal en okkur hafði samt sýnst miðhryggurinn ófær yfir á skarðið... sem reyndist rétt þegar við klönguðumst þennan tind síðar um daginn... og urðum að snúa við...

Hlíðarvatn og Oddastaðavatn í fjarska... Hítarvatn hins vegar á bak við fjöllin enda umkringt á alla vegu...

Stillurnar fögru...

Á hæsta tindi Hafursfells... eina úrkomubelti dagsins á okkar svæði kom akkúrat yfir þegar við vorum þarna uppi... þokan búin að gæla við tindinn um morguninn og var búin að yfirgefa svæðið en kom þarna aftur með okkur en við sáum alveg í gegnum hana og hún stóð ekki yfir steini einu sinni... þarna sveimuðu fuglar um allt á hraðferð upp og niður brúnirnar...

Útsýni til strandar í suðri að Þríhnúkum í Hafursfelli...

Útsýni til norðurs yfir á norðurhryggi Hafursfells sem gaman væri að ganga einn daginn um...
og Svartafjall og Skyrtunna í þokunni enn fjær en þau fjöll verða vonandi gengin í apríl á næsta ári skv. dagskránni 2013... ;-)

Hópmynd gegn sólinni sem var sífellt að skína gegnum skýin... með síðari tind dagsins í baksýn vinstra megin og dyrnar í Þríhnúkum hægra megin...

Niðurgönguleiðin gekk vel um bratta hlíðina af stakri fótafimi...

... með mosann mjúkan á öllum mikilvægum stöðum...

... niður í fallega "Þver-skarðið" aftur...

Klöngur var mál dagsins... eins og svo oft áður...

Ekkert voðalega spennandi leið í mikilli hálku... betra að hafa þá nóg af snjó til að fóta sig...

Úr skarðinu var farið yfir í Stillurnar...

Hinn tindinn... hrygginn sem rís fyrr miðju fjallinu og er mosavaxinn alla leið en ansi brattur...

Við þóttumst alveg komast þetta alla leið...

... og stóðum við það...

Gott hald í blautum jarðveginum og mosi alls staðar til að gefa fast land ef grýtið var slétt...
en þetta var hressilegur hliðarhalla á köflum...

Stundum þurfti að snúast kringum kletta og klöngrast upp hjalla...

Minnti á Skessuhorn og Hafnarfjall, Smjörhnúka, Kistufell og Hátind
en þetta var samt brattara, tæpara og minna hald en á þeim leiðum
svo mönnum stóð ekki alveg á sama þó alltaf væri leiðin örugg í sjálfu sér með þverhnípið neðar...

Úff, gott að hvíla sálina uppi á hryggnum...

Hrygg sem tilkynnti okkur brattur og ófær sunnar að við værum í sjálfheldu
því hann kærði sig víst ekkert um að tengjast syðri og austari hryggjum þarna í seilingarfjarlægð...

Við vildum náttúrulega klára alla leið upp á þennan tind...

... og bröltum hálfgalna leið upp á tindinn...


Mynd fengin að láni frá Lilju Kr. af fésbók - takk Lilja!

...sem sem hefði fengið Mica og Alju í Slóveníu til að taka stafina af hverjum manni...
skipandi "keep safety distance"..

Tókum myndir á verstu... bestu stöðum...

... og nutum tignarlegs útsýnisins af þessum fallega hrygg...

Litið niður hrygginn til suðurs frá tindinum...
Verðum einhvern tíma að klöngrast upp á tindana sem umkringja Geldingadal þarna hinum megin...

Við urðum að snúa við sömu hrikalegu leiðina og inn eftir...

... með samhentu brölti sem einn maður...

... en þetta skánaði með hverju skrefinu til baka...

... og var fljótlega orðið öruggara...

Fengum ekki nóg af litadýrðinni þennan dag...

Hliðarhallinn ansi mikill á köflum en haldið gott í mosanum...

... og menn studdu hver annan og stóðu þétt saman...

Loksins komin úr hliðarbrattanum...

... og stefnt í mat niður í dalnum...

Forvitninni var ekki alveg svalað í töfralandi Hafursfellsins... dyrnar við Þríhnúka í suðvesturhryggnum höfðu freistað okkar frá því á hæsta tindi þegar við spekúleruðum í hvaða leiðir væru mest spennandi um fjallið... og við stefndum þangað í eftirskjálftunum ofan af Stillum...

Notalegasta matarpása í sól og logni ólíkt gjólunni og þokunni í fyrri matarpásunni undir hæsta tindi fyrr um daginn...

Skyldi ekki vera vel göngufært þarna upp í skarðið...?... flottar þessar dyr...

Hæsti tindur - skarðið - hinn tindurinn ofan við Stillur...

Dyrnar í Þríhnúkum... við sáum ekki eftir því að taka þennan krók þangað...

Glæsilegra eftir því sem nær dró...

Undanfararnir komust strax að því að það var ekki vel fært niður hinum megin sem okkur hafði látið okkur detta í hug ;-)

Útsýni inn Snæfellsnesið... að Rauðukúlu og "hálendinu við Ljósufjöll" sem var óðum að hrista af sér skýin...

Sem fyrr var uppgönguleiðin mun greiðfærari en áhorfðist úr fjarska...
og landslagið stórbrotnara en ætla mátti...
eins og svo oft áður... ;-)

Þarna vorum við endanlega bergnumin af hafrinum sem steytti hornin sín kokhraustur
og við máttum vart mæla fyrir aðdáun...


Mynd fengin að láni frá Ástríðu af fésbók - takk Ástríður!

Þetta var tröllvaxið landslag... sem minnti oft á hæsta tind Vestfjarða og nágrenni hans...
en þær slóðir hreyfðu svo við manni að aldrei varð maður samur á eftir...

Það væri hægt að finna torsótta leið þarna niður... eini óvissuþátturinn er hvort að fært sé neðar þar sem ekki sást til... stundum enda svona gil í hamraflugi (þornuðum fossi) þar sem hvergi er hægt að fara niður um en okkur leist ekki á þessa leið...

Hamraveggurinn smám saman að hrynja kringum þessar fallegu tröllvöxnu klettastrítur...

Ljúfmenni dagins:
Örn, Guðmundur, Katrín, Ósk, Ásta Guðrún, Ástríður, Gylfi, Anton, Lilja Kr., Sigga Sig., Björn Eiríks., Lilja Sesselja og Bára tók mynd.

... með Rauðukúlu í baksýn...
og öll hin fjöllin á Snæfellsnesi sem voru orðin skýlaus með öllu eftir því sem leið á daginn...
þangað til skúraleiðingarnar komu aftur yfir ;-)

Þau allra hugrökkustu fóru út á klettinn ofan við gilið...
Katrín, Guðmundur, Örn og Gylfi en vantar Lilju Sesselja á myndina...

... og við hin tókum bara mynd af þeim í eggjandi dyragættinni...

Örn kannaði aðeins leiðina út eftir klettunum...

En við fórum svo bara úr dyrunum niður í dalinn...

Bærinn Miklaholtssel sem átti eftir að koma við sögu okkar síðar um daginn...

Dalurinn Skál var hlýr og mjúkur...

Litið til baka um gönguland dagsins; upp í Þverskarðið, á hæsta tind vinsta megin og á tindinn ofan við Stillur...

... og Þríhnúkana og dyr þeirra í baksýn í suðri...
með þrjár dásamlegar konur á tali í forgrunni, Lilju Sesselju, Ósk og Ásta Guðrúnu ;-)

Hinir englarnir... Ástríður, Örn, Katrín, Anton, Lilja Kr., og Björn Eiríks.

Jú, það var vel fært niður sunnan megin við fossinn... þjálfarar höfðu ætlað norðan megin við hann ( þ.e.a.s. Bára vildi það ;-) ) til að vera örugg með að lenda ekki í tafsömu klöngri neðst sem stundum vill verða ef maður fer of fljótt niður - sbr. klöngrið í restina á Botnssúlum ofan af Vestursúlu o.m.fl.) en Anton skaust þarna yfir um á undan hópnum og fullvissaði Örn ( sem vildi ekki óhlýðnast Báru ;-) ) um að þetta væri vel fært svo við vorum í góðum málum að þurfa ekki að þvera ánna og þræða fyrir fossinn ;-)

Já, já, já... gat ekki verið betra göngufæri...

Niðri beið kona nokkur... Guðríður Pétursdóttir frá bænum Miklaholtsseli með nesti fyrir gangnamenn
sem henni sýndust vera að koma þarna niður Skálina... en voru víst allt of margir og reyndust vera göngumenn Toppfara...

Fyrrum Kópavogsbúi að hennar sögn, sem ásamt manni sínum keypti jörðina á efri árum og hóf skógrækt í landinu ofan við bæinn...
í svipmiklum suðurhlíðum Hafursfells... sem við áttum eftir að ganga um í bakaleiðinni...
dásamleg kona sem hélt áfram göngu sinni inn landið í leit að gangnamönnum með nesti í hendinni...

Við máttum halda áfram... áttum eftir 7 - 8 km til baka að bílunum... vorum komin hinum megin við fjallið eftir að hafa gengið það þvert og endilangt... rúmlega 8 km ef farið yrði um veginn skv gps hjá Gylfa, 4,7 km í beinni línu skv gps þjálfara sem vonuðust í botnlausri jákvæðninni til að það yrðu bara í mesta lagi 6 km með króknum kringum fjallið... en endaði í rúmum 7 km með því að ganga létt utan í hlíðunum eins og við gerðum...

Og það var gengið og gengið... um berjamó, skógrækt, mýrlendi, graslendi, hjallagróninga, kindagötur, hestagirðingu... alla leið í bílana alls rúmlega 7 km leið á dásamlegu spjalli... sem var þess virði frekar en að fara sömu leið til baka... því í farteskinu var komin ansi víðfeðm þekking á Hafursfellinu beggja vegna og í miðið ;-)

Veðrið orðið svo gott að meira að segja Ljósufjöllin sem eru alltaf að fela sig... böðuðu sig í sólinni milli skýjanna...

Glæsilegir tindar Þríhnúka í suðri...

Þessi rafmagnsgirðing var á fullum straum aldrei þessu vant... ;-)

Hrútaborg... sem er á dagskrá í nóvember á þessu ári... veifaði prúðbúin og tilbúin... ásamt Tröllakirkju í Kolbeinsstaðafjalli...

Þessi hluti leiðarinnar var tekinn á spjalli og hlátri... eins og vanalega...

Hestahjörðin sem naut þess að fá gesti...

Hjallarnir í sunnanverðu Hafursfelli ná sumir ansi langt upp eftir Geldingadal
og eru afskaplega spennandi gönguland síðar meir...

Hestaknús á leiðinni...

Loks glitti í bílana... með Hafursfellið skýlaust og friðsælt í bakgrunni og Stórahjalla í forgrunni...

Það sem þessi hópur leggur ekki á sig í kílómetratali...
 til að njóta alls þess sem eitt stykki fagurt fjall hefur upp á að bjóða ;-)

Alls 15,8 km á 8:09 - 8:16 klst. upp í 761 m hæð á hæsta tindi og svo 708 m á Stillum og 487 m við Þríhnúka
með alls hækkun upp á
1.282 m miðað við 57 m upphafshæð.

Leiðin á korti... sést vel hversu langur vegur var framundan til baka eftir fjallabröltið...
Þessi hópur lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna ;-)

Leiðin á google-earth...

Dásamlegur dagur með ljúflingum sem létu sem betur fer slag standa
og uppskáru "létta og laggóða göngu" með fullt af all svakalegum fylgihlutum...
í boði samstillts hóps þar sem allt getur gerst í krafti fámennisins ;-)

Allar ljósmyndir þjálfara úr ferðinni hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T84Hafursfell220912#
og fullt af frábærum myndum leiðangursmanna á fésbók!
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir