Lærdómsríkt og sérlega faglegt snjóflóðanámskeið
með norðursljósum í lokin

Þriðjudaginn 17. mars 2015 kenndi Jón Heiðar Andrésson hjá Asgard Beyond - www.asgardbeyond.is okkur helstu grunnatriði í mati á snjóflóðahættu og viðbrögðum við snjóflóðum... en þetta kvöld skörtuðu Bláfjöll sínu fegursta í blankalogni og heiðskíru veðri... þar sem dansandi norðursljós háloftanna fengu okkur varla til að tíma að fara heim í lok námskeiðs enda þau fegurstu í sögu klúbbsins...

Hér verður tekið saman það helsta sem farið var í á námskeiðinu og vísað í Leif Örn Svavarsson, fjallaleiðsögumann og Everestfara og ýmsan fróðleik af veraldarvefnum.

Við byrjuðum á leiðarvali:

Almennt skal sniðganga brekkur þar sem snjóflóðahætta er til staðar og velja öruggar leiðir um hryggi, grjót og aflíðandi brekkur eða halda sig í jöðrum gilja ef unnt er. Snjóflóðahætta er mest þar sem snjór safnast saman, í giljum, hvilftum og skálum og forðast skal að ganga í miðjum brekkum. Brestir í snjóþekjunni sem þjálfarar hafa t. d. upplifað í könnunarleiðangri fyrir klúbbinn á Trönu og Múla 2013 og fleiri í klúbbnum gleymast aldrei þeim sem hafa upplifað, en ef þeir heyrast þegar gengið er í brekku þá skal snúa við hið snarasta.

Almennt er sagt að snjóbrekkur í 30 - 50 % halla eru skilgreindar sem hættusvæði en snjóflóð geta fallið utan þessara prósentutalna að sögn Jóns Heiðars og allt niður í 25% skv. Leifi Erni sem skrifar kaflann um snjóflóð í Fjallabók Jóns Gauta Jónssonar, okkar gamla leiðsögumanns í Toppförum. Gott er að temja sér frá upphafi að meta halla í brekkum og þróa með sér tilfinningu fyrir honum, t. d. með því að nota lófa og útréttan þumal (45% halli þá beint upp af 90% horni - sjá glærurnar á veraldarvefnum) eða stilla upp stöfum og mynda 90% horn (sjá Fjallabókina)... eða nýta tæki ef þau eru til staðar eins og áttavitann sem sumir geta mælt halla, og nú á tímum snjallsíma sem margir hverjir mæla halla ef þeir eru lagðir á yfirborðið... prófum þetta í göngum !

Litlar brekkur geta spýjað niður snjóflóði eins og stórar... sbr. snjóflóðið sem við sáum á Þingvöllum forðum daga á Búrfellsgöngunni í brakandi blóðu þann 5. febrúar 2012 og alltaf þarf að horfa á heildarmyndina, hvað er fyrir neðan okkur og ofan? Þó við séum stödd á "öruggum" stað geta snjóbrekkur verið fyrir ofan okkur sem geta sent niður snjóflóð á okkur... og ef við erum á tæpistigum þá getur slíkt snjóflóð sópað okkur fram af... sbr. gangan meðfram gljúfri Laxár í kjós í fyrra vetur þar sem fleiri en eitt snjóflóð náði út í ánna og hefði sópað okkur út í á... og því skal forðast að standa undir bröttum snjóþungum brekkum sbr. Drottningargilið sem við skoðuðum, en ef ekki verður hjá því komist skal dreifa hópnum og senda einn í einu eins og við gerðum í fyrstu göngunni okkar á Snæfellsjökli o.fl. ferðum.

Nýfallin snjóflóð í umhverfinu eru augljósasta vísbendingin um yfirvofandi snjóflóðahættu eins og við höfum oft séð í okkar göngum, og gott er að venja sig alltaf á að hafa auga með því hvar sem við göngum, horfa á þessar brekkur og sjá hvernig snjóflóðið hefur fallið, hver er hallinn á brekkunni því þannig gerir maður sér fljótt grein fyrir hversu saklausar brekkurnar geta verið og hversu algeng snjóflóð eru að vetri til sbr. Þverártindsegg 2012 þar sem við sáum mörg snjóflóð og heyrðum þau falla allt í kring. Rúllandi snjóboltar eru einnig merki um snjóflóðahættu og höfum við oft séð þá í okkar ferðum sbr. Vatnshlíðin í fyrra o. m.fl.

Veðrið dagana fyrir göngu er nauðsynlegt að skoða að vetri til m. t. t. snjóflóðahættu. Skafrenningur eða hríðarveður = uppsöfnun mikils magns snævar á stuttum tíma (þar sem snjórinn hefur ekki haft tíma til að bindast neðri lögum) og snögg hlýnun = asahláka, rigning eða sólargeislun á suðurhlíð (bráðnun veldur að binding gefur sig og styrkur minnkar) eru aðalhættumerkin.

Skafrenningur er meginorsök náttúrulegra snjóflóða, þ. e. ekki þeirra sem skíðamenn eða aðrir valda með umgangi sínum um brekkurnar. Ef vindur og úrkoma er dagana á undan á því svæði sem ganga skal um verðum við að gera ráð fyrir snjóflóðahættu alls staðar þar sem snjór hefur safnast fyrir. Hlémegin eða uppsöfnunarmegin eru varasamir staðir á meðan útséðir staðir þar sem snjóinn hefur sorfið af eru öruggari. Brekkur þar sem sól skín allan daginn verða varasamar er líður á daginn (suðurhlíðar) en daginn eftir sólríkan dag verður norðurhlíðin varasamari ef næturfrost var um nóttina þar sem snjórinn hefur náð að bindast að sunnan en ekki að norðan. Hlýnun styrkir svo almennt snjóþekjuna þegar tíminn líður og er því eingöngu varasöm til að byrja með.

Mat á snjóalögum:

Mikilvægt er gera sér grein fyrir því að snjóflóðahætta er alltaf til staðar þar sem snjór safnast upp, að hann geti verið lagskiptur og að mesta hættan skapast þegar efstu snjóalög liggja ofan á veikari lögum neðar, þ. e. efri lög eru illa bundin neðri lögum og renna af stað undan fallþunganum... eða eins og Jón Heiðar orðaði það þá yfirvinnur fallþunginn þá samloðun sem er í snjóalögunum þannig að þyngdarafl jarðar togar snjóinn bæði til sín og niður á við eftir því sem hallinn er meiri þar til togkrafturinn verður meiri en samloðunarkrafturinn.

Ein vönduð prófun getur gefið góða vísbendinu um ástand brekkunnar, en um leið verður að gera sér grein fyrir því að ástandið getur verið annað á öðrum stað og því þarf alltaf að horfa gagnrýnið á eigið mat og endurtaka prófun ef ástæða er til. Margar snöggar prófanir á víð og dreif á svæðinu geta þannig gefið betri mynd en ein góð mæling (Leifur Örn). Útivistarfólk getur haft áhrif niður á 1,5 metra (og kallað fram snjóflóð með umgangi) en almennt er talið nóg að gera prófun niður á 1 metra (ath?).

Snjóþekja þar sem mjúkur snjór er á yfirborði snjóþekjunnar sem þéttist smám saman þegar neðar dregur án þess að skörp skil séu á milli laga, er almennt metin örugg og án teljandi snjóflóðahættu, en þetta getur breyst á sama svæði þannig að harður snjór liggi skyndilega ofan á mýkra lagi og þar er hættan klárlega til staðar. Flekaflóð eiga sér stað þar sem heilu snjóalögin bindast illa við mýkra undirlag og skríða af stað í heilum fleka eins og einhverji í okkar hópi hafa séð.

Samþjöppunarpróf:

Til að meta þetta grafa menn snjógryfjur eins og við gerðum þetta kvöld á öruggum stað sem um leið á að gefa góða mynd af því svæði sem verið er að meta... um  1 m á breidd og 2 m á lengd og 1 m á dýpt... og við mátum snjóalögin á rannsóknarhliðinni  (1 m hliðarhliðinni) með því að ýta og stinga í snjóinn frá efsta lagi að neðsta... Ef hnefi stingst inn er snjóalagið hættulega mjúkt, ef fjórir fingur ganga inn þá er það frekar mjúkt, einn fingur (meðal), einn blýantur (frekar hart) og loks hnífur gengur inn (hart).

Ef veikustu lögin eru efst er lítil snjóflóðahætta, ef sterk lög eru efst og veik neðar þá er hætta til staðar.

Því næst gerðum við 30 cm breiða og djúpa súlu niður eftir öllum veggnum sem Jón Heiðar skar fínlega með snjósög
og þar horfðum við á lögin og gerðum svokallað Samþjöppunarpróf eða Compression Test.

Samþjöppunarpróf
Compression Test Easy = CTE 1 -10 með hendi frá úlnlið.
Compression Test Medium = CTM 11 - 20 með hendi frá olnboga.
Compression Test Hard = CTH 21-30 með hendi frá öxl.

...og æfðum þetta öll í gryfjunum okkar síðar um kvöldið.

Í sýnikennslunni losnaði hluti þekjunnar af súlunni við CTM13 eða svo?

...og þá tók Jón Heiðar þann part frá og kannaði nánar veika lagið á þekjunni sem brotnaði í prófinu (kubbaðist af súlunni og bendir til veikleika sem bendir til snjóflóðahættu)...  með stækkunargleri og kristallaspjaldi (og hitamæli), til að sjá betur útlit snjókornanna, stærð, þéttleika, samloðun (og hitastig með sérmæli?)...  en slíkar mælingar kallast "stækkað samþjöppunarpróf" (e.Extended Compression Test) og gefa góða vísbendingu um ástandið í viðkomandi hlíð og öðrum sem snúa eins gagnvart snjósöfnun og sól. Prófunin gefur staðlaðar tölulegar niðurstöður sem menn miðla sín á milli og bera þannig saman vitneskju um snjóalög ýmissa svæða.

... og við fengum að skoða... en þetta mat gefur m. a. færi á að meta hvort snjóflóðahættan sé að minnka og þá hversu hratt.

Sjá ýmis myndbönd á veraldarvefnum:

https://www.youtube.com/watch?v=crwvFn67e5Q

og:

https://www.youtube.com/watch?v=_HoGgXneLm4

Fyrirlestur:

https://www.youtube.com/watch?v=VF5Bg_qyJpg

Já, það var brjálað stuð þetta kvöld og mikið hlegið
og veðursins og kennslunnar notið til hins ýtrasta...

Til að tryggja áreiðanleika er gerð önnur súla til að gera samanburðarprófun...

... þar sem sama niðurstaða á að koma út og í fyrri mælingu...

... en það gerðist ekki og því hefði þurft að gera enn aðra sem oft er gert og jafnvel fleiri...

... en við skelltum í hópmynd þar sem við gleymdum okkur og sólin var sest...
með Stóra Kóngsfell og hluta af Drottningu í baksýn...

Örn, Ester gestur, Ágúst, Magnús, Svala, Björn, Vallý, Helga, Irma og Jón heiðar en Bára tók mynd.
Eingöngu tíu manns á námskeiðinu sem var mikil synd þar sem þetta var virkilega lærdómsríkt
og mjög margt gagnlegt sem við lærðum á þessum örfáum klukkutímum...

Verklegar æfingar:

Nú var að gera þetta sjálf...
skipt í þrjá hópa þar sem grafin var gryfja og skornar út súlur og gert mat á snjóalögum og Compression Test...

Strákarnir voru saman inni í gilinu þar sem snjóalögin voru breytilegust...

Ágúst, Björn og Magnús...
þeir nýttu æfingatímann til að fá sér smá að borða sem var ekki galið þar sem við gleymdum því svona formlega :-)

Irma var með þjálfurum á þéttasta svæðinu upp með hlíðinni...

... og stelpurnar voru fjórar saman hinum megin við gilið í svipuðum snjóalögum og þjálfarar og Irma...

Helga, Svala, Vallý og Ester... ekki leiðinlegt hjá þeim frekar en fyrri daginn :-)

Farið að skyggja en mannsaugað er svo mikið flottara en allar myndavélar og fúnkeraði mun lengur en þær...
enda náttúruleg birta um allt...

Irma að gera samþjöppunarpróf

... og losa frá það sem kubbaðist af við prófið til að meta veika lagið...

Meðan á þessu stóð fékk Jón Heiðar útkall frá björgunarsveitunum vegna snjóflóðs í Bláfjöllum sem fólk var hugsanlega í... og tók nokkur símtöl þar sem svör voru mísvísandi og Jóhannes Toppfari hringdi einnig þar sem hann fékk sama útkall og datt við auðvitað í hug - vitandi af okkur á þessu námskeiði í Bláfjöllum... en svo var útkallið afturkallað þar sem í ljós kom að snjóflóðið var gamalt.

En hvað skal gera ef snjóflóð fellur á hóp af fólki
eins og okkur á göngu?

Skiptir sköpum að vera með snóflóðaýli (þar sem lífslíkur minnka hratt fyrsta klukkutímann)... sem því miður er ekki almenn eign gönguhópa á Íslandi, enda leitast menn þess í stað við að sniðganga snjóflóðahættusvæði en engu að síður ef við skyldum lenda í flóði þá er staðan margfalt betri ef allir eru með ýli svo hægt sé að finna mþá sem lenda undir (ýlirinn sendir boð frá viðkomandi og því er ýlirinn stilltur á sendingu) og til að hægt sé að rekja sig til þeirra sem eru  með ýli með því að stilla ýlinn sinn á "móttöku". Snjóflóðastöng hjálpar við að staðsetja viðkomandi endanlega og skófla svo við að grafa. 

Þriggja loftneta ýlar í dag einfalda og stytta leið umtalsvert þar sem þeir eru með stefnuör og fjarlægðarmælingu
eins og gps-tækin þegar verið er að eltast við einn punkt.

Í upphafi göngu er ráðlegast að prófa mælana hjá öllum í hópnum eins og við gerðum á Baulu hér forðum daga, með því að allir kveiki á sínum, stilli á sendi og fararstjóri stillir sinn á móttöku og lætur alla ganga framhjá til að kanna hvort þeir virki allir og svo þarf að prófa hans sendi í lokin. Ef lent er í snjóflóði eru allir þannig örugglega stilltir á sendingu og þeir sem komast upp úr flóðinu verða þá að muna að stilla allir sinn á móttöku og byrja að leita...

Reyna skal að staðsetja þann eða þá sem lentu í snjóflóðinu sem nákvæmast beint eftir flóðið, ekki færa til hluti sem finnast heldur skilja þá eftir á nákvæmlega þeim stað, ef það hjálpar síðar til við erfiðleika með að finna viðkomandi við nákvæmari staðsetningu. Ýlirinn nemur í um 20 m radíus í allar áttir. Ef margir geta leitað með ýli skal halda 40 m fjarlægð á milli manna, en ef maður er einn að leita skal skipuleggja leit með því að fara niður snjóflóðið með um 20 m fjarlægð frá einum flóðjaðrinum að hinum og skáskera sig niður með um 40 metra á milli þannig að enginn blettur fellur utan 20 m radíusins sem ýlirinn nemur.

Þegar búið er að staðsetja viðkomandi er gengið eftir ýlinum og farið varlega þegar komið er í 5 m fjarlægð þar sem ekki er gott að þjappa meira snjóinn ofan þess sem grafinn er (loftun) og byrja þarf fínleit svokallaða... þar sem farið er nákvæmlega eftir ýlinum eins og hægt er þar til minnstri fjarlægð er náð. Þá er hafin staðsetning með snóflóðastöng þar sem stungið er í spíral út frá staðnum sem ýlirinn benti á og byrjað að grafa þegar búið er að stinga í hinn grafna (stöngin látin standa þar sem stungið var í hann til að gefa skýra staðsetningu)... en þessi partur af leitinni, fínleitin, vefst helst fyrir mönnum þegar á reynir skv. Leifi Erni í Fjallabókinni

Moksturinn er og vandmeðfarinn þar sem fara skal um 1 metra neðan við fundarstað og grafa geil neðan við stöngina með því að stinga skóflunni niður með hliðarveggjum og moka snjónum með jörðu frekar en að lyfta honum og ef fleiri eru að moka þá færa þeir þennan snjó enn fjær.

Við prófuðum leit með nokkrum ýlum sem voru þetta kvöld og það var mjög skýrt hvernig ýlirinn nam þann sem var með hann frekar en þá sem reyndu að villa til um fyrir leitarmönnum og voru ekki með ýli svo þetta var mjög áreiðanlegt í raunvirkni.

Já, 91 m í þessa átt... en ef þessi tækni á að virka í okkar hópi þá þurfa allir að vera með ýli... eða allavega tveir og þá verður annar þeirra að vera sá sem lendir í flóðinu og hinn ekki til að þetta nýtist... og ekki yrði hægt að staðsetja nokkurn annan sem ekki er með ýli svo það er eiginlega allir eða enginn ef vel á að vera því ef þessi eini sem ekki er með ýli reynist vera sá eini sem lendir ofan snjóflóðsins þá nýtur allur hópurinn ekki góðs af því að vera allir mðe ýli... fyrr en utanaðkomandi hjálp berst sem er með ýli... en þá geta verið liðnar dýrmætar mínútur...

Norðurljósadýrð...

Kvöldið endaði á þvílíkri norðurljósadýrð að annað eins hefur ekki sést í göngum í þessum klúbbi þó oft hafi það verið flott...
en nú voru þetta allir litirnir og algerlega magnað að upplifa...

Litla myndavél þjálfara nam þetta auðvitað ekki almennilega í allri sinni takmörkun...

... en þau voru óteljandi augnablikin sem gaman hefði verið að fanga á mynd...
... og andrúmsloftið einstakt þarna í fannhvítum og tandurhreinum fjöllunum
sem skreyttu loftlínuna sem logaði ofan við okkur...

.. og við reyndum að halda einbeitninni við leit eftir snjóflóð með ýlunum...
en það gekk misvel hjá mönnum enda erfitt að halda athyglinni á einhverju manngerðu tæki um leið
og náttúran lék listir sínar alls staðar ofan okkar...

Frábært kvöld og heilmikill fróðleikur
sem við skulum halda við í göngunum
en upp úr stendur:

*Mikilvægast að vanda leiðarval, kunna að meta snjóflóðahættu og sniðganga snjóflóðahættusvæði með öllu.
*Temja sér að lesa sífellt í landslagið og gera sér það eðlislægt að meta snjóflóðahættu hvar sem gengið er í snjó.
*Alltaf meta veður dagana og klukkustundirnar fyrir göngu að vetrarlagi til að meta hættu á flóðum.
*Vera alltaf með skóflu, sög, snjóflóðastöng og ýli meðferðis ef mögulegt.
*Ekki hika við að gera snjógrýfjun og samþjöppunarpróf ef við þurfum þess.
*Vera með varaplan ef snjóflóðahætta er til staðar og ekki hika við að breyta plani frekar en tefla í tvísýnu.
*Æfa þessi atriði reglulega og ræða þau innan hópsins.

Kærar þakkir Jón Heiðar fyrir einstaka fagmennsku og ljúfmennsku við okkur eins og alltaf
þetta var virkilega gagnlegt !

Sólheimajökull um helgina þar sem læra skal broddatækni, leiðarval, áhættustjórnun, áhættumat og ísklifurtækni...
en ekki hefur viðrað til þess arna síðustu tvær helgar og þessi þriðja helgi í mars er svo sem ekki brjál... góð heldur
en sleppur vonandi vel í mildu, hlýju og vonandi frekar lygnu og úrkomulitlu veðri :-)

Aukatindferð hugsanlega í loks mars 28/3 ef einstaklega vel virðar og þjálfarar komast... erum orðin ansi eirðarlaus eftir fallegum göngudegi eins og var þennan þriðjudag þar sem við fundum það svo glöggt hvað það er ólýsanlega gott að vera í fjöllunum
á fallegum degi að vetri til :-)

ATH!
þessi samantekt á eftir að yfirfarast leiðréttast og bæta við helst heilmiklu við... næstu daga,
endilega komið með athugasemdir ef eitthvað er ekki rétt með farið eða má bæta við !
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir