Tindur 10 - Snæfellsjökull 8. mars 2008


23 Toppfarar á Snæfellsjökli...

Tíundi tindurinn í sögu Toppfara var sigraður laugardaginn 8. mars í glimrandi góðu veðri og flottustu göngu fjallgöngukúbbsins til þessa. Hvernig var hægt að toppa það sem á undan er gengið í þessum klúbbi? Jú, það virtist vera hægt enda segja gullfallegar myndir af göngunni ótrúlega sögu...

Alls 23 toppfarar og 2 fjallaleiðsögumenn gengu nánast frá þjóðvegi 574 við upphaf Jökulhálsleiðar í 125 m upp í 1.418 m hæð upp á nyrðri hnúkinn á tindinum. Gengnir voru alls 16,8 km á um 9:45 - 9:55 klst. með 1.283 m hækkun og mátti ekki tæpara standa þar sem rökkur var skollið á þegar komið var í bílana.

Þungt snjófæri alla leið, léttskýjað í upphafi, svo þoka og napur norðanvindur á leiðinni, en smám saman hreinsaði til svo Snæfellsnesið og Ísland allt um kring opnaðist fyrir augum okkar...

Ekkert kemur í stað svona dags!

Við hittumst á sama stað, N1 rétt fyrir 7:00 og lögðum af stað  með nýjum fjallaleiðsögumönnum, þeim Róberti og Arnari sem féllu strax inn í hópinn.

Tiltölulega heiðskírt var á himni þar sem morgunskíman var farin að lita næturmyrkrið og var fjallasýnin á leiðinni gullin  í sólarupprásinni...

Esjan, Akrafjall, Botnssúlur, Skarðshyrna og Heiðarhorn, Baula, Ljósufjöll... fjöllin okkar síðustu mánuði, öll böðuð í tærum snjó, bláum himni og gulri morgunsól.

...okkur langaði upp þessar hlíðar aftur í þessu snilldarveðri.

 

Hafursfell á Snæfellsnesi hér fyrir framan okkur í bílnum.

Færið gott á leiðinni, skafrenningur og hálka á köflum en annars auður vegur. Anzi vetrarlegt en sólin á lofti, bleik skýin léku við fjallatindana í bláma himins og huldu t. d. efri tinda Ljósufjalla vel. Varla að maður þekkti umhverfi þeirra í snjófönninni.

Það skyggði á upphaf ferðarinnar og syrgði þjálfara mikið að Grétar Jón hafði ekki komist í ferðina þar sem hann greiddi ekki fyrir leiðsögn á réttum tíma. Þetta var sveitin hans, alinn upp á Hellissandi, norðvestan Snæfellsjökuls og hann átti því meira í jöklinum en við hin sem ætluðum að leggja í hann þennan dag.

Þá vantaði einnig aðra trygga toppfara, þ. á m. Stefán Heimi frá Hellnum svo sveitungar Snæfellsjökuls létu sig vanta.

Komin að Jökulhálsleið við rætur Snæfellsjökuls, slóðinn ófær en þó hægt að aka bílunum einhverja 200 m áleiðis og skilja þá þar eftir.

Hvaða bíll var þetta þarna á undan okkur kyrrstæður?... Okkur brá á sama tíma og manni létti og svona andstæðar tilfinningar bærðust innra með manni það sem eftir leið upp á tindinn... Grétar Jón hafði sum sé tekið þá ákvörðun að ganga á eigin vegum upp jökulinn á undan hópnum, þar sem hann gat ekki hugsað sér annað en að ganga þennan dag á jökulinn.. sporin hans lágu fyrir framan okkur og sögðu okkur að hann var lagður af stað...

Kuldinn nísti þarna merg og bein og við spurðum okkur hverjum hefði dottið þessi vitleysa í hug... að ganga á Snæfellsjökul í byrjun mars eftir vetur sem þennan... Á sama tíma var veðrið svo fallegt að við vissum að við vorum ljónheppin... þetta yrði flottur dagur...

Gengið var upp Jökulhálsleiðina í sporum snjótroðarans til að byrja með og má hér á skilti lesa aðvaranir um jökulsprungur en skv. heimamönnum voru þó afar litlar líkur á slíku eftir snjóaveturinn mikla þetta árið, þó nauðsynlegt sé auðvitað að hafa allan vara á, sérstaklega þegar gengið er í ábyrgð fjölda manns.

Við skeggræddum félaga okkar sem var undangenginn okkur og í brjósti barðist aðdáun í hans garð fyrir hugrekkið, skilningur gagnvart sporum hans  en um leið áhyggjur af honum og ósk um að við myndum ganga hann uppi og hann gæti sameinast hópnum. Auðvitað vildum við hafa hann okkur við hlið... hann er toppfari frá upphafi vega í maí 2007, gengið með okkur ótal göngur og átti sannarlega skilið að vera hluti af leiðangrinum þennan dag.

Látum okkur þetta að lexíu verða. Svona leiðangur þarf að skipuleggja og manna með fyrirvara. Skráning og greiðsla fyrir tindferðirnar þurfa að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á fimmtudag hér með. Öðruvísi er ekki hægt að ganga að því vísu að komast með.

Það er eðlileg krafa að þurfa að hafa svigrúm til þess að kalla menn út til leiðsagnar á laugardegi þar sem um er að ræða fólk sem vinnur sína vinnuviku til viðbótar fjallaleiðsögn og getur því ekki stokkið með engum fyrirvara í leiðangur sem tekur jafnvel 16 klst eins og þessi gerði. Svona ganga er sport fyrir þá sem mæta og njóta dagsins en krefjandi vinna fyrir þá sem skipuleggja hana, halda utan um hana, gæta göngumanna í hvívetna, leiða gönguna, spora út slóða, gæta þess að allt sé í lagi, eru í viðbragðsstöðu og ábyrgð gagnvart hverju sem upp getur komið í svona fjölmennum og krefjandi leiðangri.

Lagt var af stað gangandi kl. 10:25 eftir kuldaleg tilþrif við kvenlega vatnslosun, klæðnað og aðrar græjur, en strax á fyrstu metrunum hristum við af okkur kuldann og dáleiddumst upp snjóbungur jökulsins.

Umhverfi og útsýni strax á fyrstu metrunum var töfrum líkast. Við vorum sannarlega í vetrarríki jökuls, hraunið allt um kring þakið snjó sem glampaði í marssólinni og framundan glitrandi jökulklakinn eins og heilt heimsveldi út af fyrir sig.

Einn magnaðasti tími ársins þegar vorið tekur við af vetri með bráðnun snævar í síhækkandi sól á himni og hærra hitastigi þar með þrátt fyrir hvítan vetrarbúninginn enn utanáliggjandi náttúrunni sem smám saman brýzt undan snjónum.

 

Stapafellið (526 m) var okkur á vinstri hönd og átti eftir að gefa svip á bæði upp- og niðurleið.

Kennileiti okkar að bílunum og glæsilegur minnisvarði um þetta fallega svæði sem Arnarstapi er strandarmegin.

Fljótlega greiddist aðeins milli manna en þó var hópurinn nánast allur á svipuðu róli og ljóst að göngur síðustu mánuði hafa skilað heilmiklu til margra í hópnum í vaxandi styrk og lengri endingu. Það skilar sér að ganga reglulega og árangurinn er fljótur að koma í ljós.

Langur dagur beið okkar. Mun lengri gönguleið en lagt var á ráðin með vorið áður  þegar Bára og Hjörleifur hjá fjallaleiðsögumönnum sömdu um tindana tólf fyrir toppfara.

Harður veturinn hafði sannarlega sett strik í reikninginn og gert okkur ókleift að keyra bílum nokkuð áleiðis upp að jöklinum.

Skýjafarið var jafn fallegt og landslagið...

Síbreytilegt og nánast göldrótt.

Við vorum gáttuð af hrifningu.

 

Hér er gengið framhjá Sönghellinum en að sumri til er þessi leið bílfær jafnvel kílómetrum áleiðis en hva?... við gengum þetta bara og nutum þess í besta veðri sem hægt var að óska eftir miðað við árstíma.

 

Halldóra, Arnar fjallaleiðsögumaður og Helga Sig. hér að skilja Stapafell að baki.

Gullfallegar myndir sem njóta sín best í mikilli stærð... 

Fegurð sem ljósmyndir ná bara brotabroti af.

Suðvesturströnd Snæfellsness hér í bakgrunni Arnars og Halldóru.

Sprengikraftur í himninum undan norðanvindinum sem lægði með deginum og átti eftir að gefa okkur brúnalogn á toppnum.

Fyrsta pásan.

Sælubros á hverju andliti.

Menn nutu þess að ganga í þessu veðri og umhverfi, það var ekki hægt annað en vera dolfallin.

Við vorum anzi fjölmenn sem endranær í tindferðunum og yfir meðaltalinu en veturinn fælir alltaf ákveðinn hluta frá.

Með vorinu fer aftur að fjölga og því má gera ráð fyrir fullri þátttöku í þeim tindferðum sem næstar eru á dagskrá; Eyjafjallajökli, Hvannadalshnúk, Fimmvörðuhálsi og Laugavegi.

Æskilegast er að í síðustu tindferðinni fyrir Hvannadalshnúk fari allir hnúksfarar á Eyjafjallajökul til að undibúa sig fyrir hæsta tind landsins. Athugið líka að göngur á Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul og fleiri fjöll eða jökla standast fyllilega samanburð við göngu á Hvannadalshnúk.

Svona dagar eru heilt námskeið í vetrarfjallamennsku beint í æð og á eigin skinni.

 

Gengið rösklega mót norðanvindinum.

Í þessari ferð reyndi minna á búnað og viðnám hans gagnvart veðri en oft áður og eins var brattinn eða hálkan ekki að ráði krefjandi hér en gönguvegalengdin og mikil samanlögð hækkunin var verkefni dagsins og frábært að sjá hópinn takast á við það af festu.

Þeir sem safnað hafa í reynslubankann síðustu mánuði eru fyrir löngu búnir að gera sig kláran fyrir hnúkinn. Aðrir þurfa að taka vel á því hér með fram að maí...

 

Vá, hvað maður gæti verið heilan dag á jökli sem þessum með myndavélina á lofti...

Sem fyrr segir innifelur fjallganga og önnur útivera óteljandi falleg augnablik sem myndavélin nær bara brotabroti af.

Að hugsa sér hvað svona dagur fyllir þá ótalmörg ógleymanleg augnablik í minningabankanum.

Þessi dagur var enda ómetanlegur held ég öllum sem þarna voru og engan veginn hægt að verðmerkja svona útiveru.

Samrýmdir toppfarar á ferð...

Hópurinn er mikið að þéttast þessa dagana og á núna svo margar góðar stundir saman sem bindur fólk böndum sem geta verið órjúfanleg til æviloka.

Raunir sem enda vel eða viðunandi binda menn fastari böndum en nokkuð annað. Eins þær raunir sem enda illa ef menn ná að vinna úr þeim og þjappast saman á eftir í reynslunni.

Árshátíð toppfara og hádegisskokkara í krafti skemmtinefndar komandi laugardag gerir mikið fyrir hópinn og kemur á rétta augnablikinu. Einmitt þegar krefjandi veturinn er að baki fyrir þau sem þraukuðu hann, erfiðustu göngurnar framundan og besti göngutíminn í hönd.

Það ERU spennandi tímar framundan...

Komin í nokkra hæð og Stapafellið að fjarlægjast.

Þarna voru Halldóra og Helga Sig. farnir að dragast aðeins aftur úr. Ekki má muna miklu á gönguhraða til að fari að greiðast úr stórum hópi þegar gengið er svona langa vegalengd.

Afráðið var að dreifa farangri þeirra á nokkra sjálfboðaliða og Ingi var slíkur öðlingur að taka bakpokann hennar Halldóru og bera hann framan á sér.

Fljótlega eftir þetta gengum við inn í þokuna með hækkandi hæð og skildum vetrarrjómablíðuna eftir í lægri hlíðum.

Í þokunni tókum við pásu og Róbert skoðar hér útprentun Roars af gps Íslandskortinu þar sem hann var búinn að merkja inn snjótroðaraslóðina og áætlaða gönguleið.

Róbert studdist sjálfur við ákveðna punkta og notaðist og við áttavita út frá gráðuvísun sem getur verið gott þegar maður vill spara batterí gps tækisins. Þetta er hluti af leiðangri sem þessum, að samnýta þekkingu og tæki sem fyrir eru í hópnum og finna þannig alltaf bestu leiðina.

Það voru allavega sjö gps tæki í hópi toppfara, þjálfarar með þrjú og Roar, Soffía og Þorbjörg með sín tæki og svo Grétar Jón sem gekk á undan okkur. Þeir sem eiga gps tæki eiga auðvitað að þjálfa notkun þeirra í þessum ferðum því kunnáttan kemur með reglulegri notkun.

Gengið var stuttlega áfram og svo afráðið að taka matarhlé og setja á mannskapinn beltin fyrir línurnar.

Arnar aðstoðar hér Þorleif en uppi voru kenningar um að konurnar fengju miklu betri þjónustu en karlmennirnir...

Við náðum ekki í Grétar Jón frekar en fyrr í göngunni vegna símasambandsleysis og urðum uggandi um hann í þokunni og kuldanum sem nú tók við í norðangarranum.

Ingi hér með bakpokann hennar Halldóru af tærum öðlingsskap.

Hópurinn er miklu sterkari en ella og afrekar mun meira en ella ef menn sýna umhyggju sem þessa gagnvart félögum sínum. Létt viðvik fyrir aðra sem lítið munar um getur gert gæfumuninn fyrir viðkomandi. Það er þetta með keðjuna í viðskiptafræðinni (eða er það félagsfræðin?)... hún er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn... Styrkjum því hvert annað því mönnum eru lagðar misþungar byrðar á herðar í fjallgöngum sem og í lífinu og það fá ekki allir sömu forgjöfina.

Gott er að hafa í huga að þeir sem ekki hafa bolmagn í sama gönguhraða og þeir fremstu, afreka í raun mest þegar göngunni er lokið. Þrautin var þeim erfiðari en hinna en þau kláruðu þrátt fyrir allt.

Halldóra Á. fékk sinn skammt af stríðninni í hópnum... hún gerði Inga sem sé óléttan (þarna sem hann gekk fyrst með bakpokann hennar framan á sér), giftist Erni í línunni gegnum sprungurnar og skildi svo við hann guðs lifandi fegin og dópaði loks þessi ósköp síðustu metrana þegar Bára og Arnar dreifðu nokkrum verkjatöflum á þá sem voru komnir með eymsli...

Við tók krefjandi kafli með talsverðri hækkun þar sem gengið var í þungum snjósköflum og þarna mæddi mikið á Róberti að spora út fyrstu skref.

Þá er kostur að vera aftast, þurfa ekkert að spora og ekkert að hugsa hvert er verið að fara.

Ókosturinn getur svo verið sá að í hálku eru sporin útmáð og orðin að svelli og það er ekki gaman að vera alltaf síðastur í svitabaði við að halda í félaga sína.

 

 

 

Landslag Toppfara á Snæfellsjökli...

Ekkert skyggni... bara hvítt allt um kring...

Reyndi að mynda hallann en vorum í kannski 40° halla þarna og hækkunin því fljót að skila sér í meiri hæð... þetta kom allt saman með þrautsegjunni.

Færið áfram gott þó þungt væri og engin hálka nánast.

Þarna vorum við komin í brekku með snjóflóðahættu, mjúkur snjór yfir harðfenni og Arnar fer hér að staðnum þar sem hver og einn gekk með 20 metra á milli yfir brekkuna að grjótbungum ofar að skipan Róberts.

Þegar þarna var komið upp fór Arnar fremst til að leysa Róbert af við snjótroðarastörfin og Bára og Örn gættu síðustu manna.

Smám saman fór að opnast landslagið allt um kring sem er alltaf svo mögnuð upplifun því skyndilega margfaldast heimurinn kringum mann og maður stendur barasta kannski skyndilega í brattri brekku sem manni finnst ná niður að sjó.

Sólin hafði verið að brjótast gegnum þokuna og við vorum farin að sjá móta fyrir einhverjum brekkum og snjóbrúnum og svo fóru að koma bláir gluggar. 

Örn með "Arnar"stapa á bak við sig út frá Stapafelli.

 

Uppi á hálsinum við svokallaðar Jökulþúfur fórum við í línur þar sem framundan var sprungusvæði fram að tindinum.

Komin hér í um 1.100 m hæð en óskaplega voru gps tækin þó ósammála stundum.

Blámi himins kom smám saman í ljós þarna sem við röðuðum okkur í línur og þegar lagt var af stað hafði allt hreinsast frá og við sáum tindinn fyrir framan okkur.

 

Suðurströnd Snæfellsjökuls birtist fyrst í þessu stórkostlega útsýni sem fór að blasa við okkur.

Hilma, Sigríður E., Þorleifur og Roar.

Stuttu áður en við komum upp á hálsinn heyrði Bára að hún fékk sms í símann í bakpokanum... skyldi þetta vera Grétar Jón?

Svo fékk Örn sms rétt á eftir... ÞÁ vissum við að þetta var Grétar Jón á toppnum. Sms-ið hans var hins vegar bara spurning hvort við værum búin að toppa. Hvað meinti hann? Hvar var hann?

Örn hringdi í hann og þá bara svaraði okkar maður ofan af tindinum... kominn alla leið á eigin vegum... Mikið var gott að heyra í honum.

Hann hafði lagt af stað úr bænum kl. 6:00. Lagt af stað gangandi kl. 9:00, gengið í 6 klst upp og beið okkar í tæpar tvær klst á toppnum þar sem hann sameinaðist hópnum og gekk með okkur niður.

Hnúkurinn fyrir framan okkur og svo hreinsaðist til á tindinum lengra í vestur (vinstra megin við mynd).

 

Halldóra Á.

Helga Sig.

Herdís Dröfn

Soffía Rósa

Halldóra Þ.

Lagt af stað í línum.

Kosturinn við línur er sá að það er haldið hópinn en ókosturinn er frelsisskerðingin.

Hvorki er hægt að fara hraðar eða hægar en línan, ekki hægt að stoppa né fara út fyrir og taka t. d. myndir... óþolandi fyrir þá sem eru eins og skopparakringlur í fjallgöngum og fyrir þá sem vilja stjórna sínum hraða... Aðrir kippa sér ekkert upp við þetta.

Maður skilur vel þá sem vilja ekki þennan ferðamáta en að sama skapi er ævintýralegt að ganga á jökli og við munum ganga á þá árlega áfram í þessum klúbbi.

Hraðari línan hægra megin á mynd, Róbert þar fremstur.

Arnar leiddi hægari línuna sem dróst svolítið aftur úr á endanum.

Tindurinn fyrir framan okkur birtist smám saman með tilheyrandi andköfum af hrifningu.

Hann eða þeir, því þeir eru tveir atarna sjást ekki ennþá hér á myndinni en nefnast Miðþúfa og Norðurþúfa en auk þeirra er Vesturþúfa sem lítið sést til en er næsthæst á eftir Miðþúfu.

Sá sem hér rís til hægri og er í austurhlíðum jökulsins á leiðinni upp nefnist Þríhyrningur.

Skýin að lyftast og færast til norðurs þar sem aldrei varð alveg hreint yfir en á endanum sáum við þó allt nesið og bæði suður- og norðurströndina.
Í einni pásunni tóku Bára og Arnar upp Íbufen og Parasetamól handa þeim sem voru orðnir verkjaðir undan eymslum og meiðslum sem þeir þurfa að takast á við á fjallgöngunum.

Sumir algerar hetjur að komast gegnum þetta þrátt fyrir allt og enginn komst upp með annað en að klára alla leið.

Tindur Snæfellsjökuls loks í sjónmáli á vinstri hönd Arnars.

1.446 m hár (1.442 m. skv eldra korti hjá landmælingum og nyrðri tindur 1.446 m. (Þríhyrningur) en var öfugt þennan dag, syðri tindurinn hærri að sjá- sjá www.lmi.is undir kortaskjá).

Nú í klákaböndum en er snjólaus að sumri til.

 Þetta er syðri tindurinn sem ekki gafst tími til að ganga alla leið upp á, en það skipti einhvern veginn ekki máli.

Nyrðri tindurinn hægra megin við Arnar úr sjónmáli myndavélarinnar sem nokkrar fjallageitur stukku upp á eftir koníakið á toppnum...

 

Seinni línan:

Halldóra Á.,  Örn, Helga Sig., Roar, Herdís Dröfn, Þorleifur, Soffía Rósa, Sigríður E., Halldóra Þ. og Hilma.

Við fetuðum okkur áfram og gáfumst ekki upp... þetta skyldi takast þrátt fyrir alla verki og þreytu...

Bára lamdi menn áfram með blíðuhótum...

Fyrri línan kom upp nokkrum mínútum fyrr og var alsæl á svipinn úr fjarlægð þegar við fetuðum síðustu metrana.

Grétar Jón beið okkar á hálsinum og honum var fagnað með lófum og faðmlögum...

Mikið var gott að sjá hann, hetjuna okkar og ljúflinginn.

Hann beið okkar í tæpar tvær klst. uppi og var með okkur þar með og á niðurleiðinni.

Hann er órjúfanlegur hluti af þessum fjallgönguklúbbi sem myndað hefur sterk bönd manna í millum sem slitna sjálfsagt ekki úr þessu frekar en jöklalínurnar sem við vorum bundin saman með, sama hvað gerist.

Það hafði hlýnað og lygnt á leiðinni á toppinn svo þegar upp var komið var orðið blankalogn og heiðskírt nánast kringum jökulinn.

Við áttum ógleymanlega stund þarna uppi og drukkum í okkur útsýnið, friðinn og sigurtilfinninguna sem því fylgir að toppa hátt fjall eins og Snæfellsjökul.

Róbert sést hér í fjarlægð kanna aðstæður á nyrðri tindinum, Norðurþúfu fyrir þá sem myndu vilja ganga hann.

 Íris Ósk kom með forláta koníak með sér í þessa ferð.

Þetta var 10. tindurinn hennar og klúbbsins, fyrsti jökullinn og besta ferðin til þessa.

Það var því ærið tilefni til að skála!

Ingi hér með koníakið og Íris Ósk með tind Snæfellsjökuls í baksýn.

Búið að hella í glösin sem voru úr plasti og nutu þess eins og við að það var algert logn þarna uppi.

Hversu oft er hægt að dekka upp borð með plastglösum í 1.400 m hæð á Íslandi?

Umgjörðin er eiginlega ómissandi á myndinni svo hún var ekki skorin burt... Ísexi, bakpoki, ullarbelgvettlingur, koníaksflaska, gönguskór og snjór... einhvern veginn svo órjúfanlegir og dæmigerðir hlutir vetrarfjallgangnanna nema áfengið sem hafði ekki verið með í för til þessa.

Við skáluðum fyrir jöklinum, Írisi, tíunda tindinum og því að vera svo heppin að hafa tekist þetta við þessar fallegu aðstæður.

Tónninn var þar með sleginn fyrir tindferðirnar.

Við skyldum skála í hvert sinn... kannski með sérmerktum staupum toppfara sem verða þá hluti af búnaðinum sem pakkað er niður í upphafi tindferðar..?

Auðvitað skelltu nokkrir sér upp á Norðurþúfu sem lokkaði menn svona líka til sín.

Hvað var annað hægt með svona hnúk fyrir framan sig?

Þau voru ekki lengi að þessu og veifuðu ísöxunum fyrir myndatökumanninn.
Toppfílíngur sem ekki skilst nema vera á staðnum...
Mynd frá Guðjóni:

Hilma, Ingi, Þorleifur, Örn, Þorbjörg, Alda, Kári, Íris Ósk, Soffía og Guðjón sem tók myndina og sendi mér.

Svona sigrar maður sjálfan sig og heiminn í dag... með því að standa á fjallstoppi og fá aldrei nóg af því að  staldra við og skoða útsýnið...

Mynd frá Írisi Ósk:

Tekin ofan af tindinum niður á hópinn.

Snjóhengjan var þarna til vesturs með snarbratta niður á nesið.

Það er næstum eins og við séum að detta fram af...

Jeminn, færið ykkur neðar...

Háfjallavímuspjall í notalegheitum brúnalognsins.

Sólin greinilega farin að lækka á lofti, langir skuggar en dagurinn samt eitthvað svo langur... vor í lofti eiginlega og við ekkert að hugsa til þess að það fari að skyggja... við sem mannskepnur í takti við íslenskt veðurfar og loftfar í ósjálfráðum vorhug sem veit að næturnar verða bjartar með sumrinu...

Komin upp eftir 8,9 km göngu í 1.418 m hæð á 6:30 klst.

Efri frá vinstri: Halldóra Á., Herdís Dröfn, Heiða, Kári, Hilma, Helga Sig., Halldóra Þ., Ingi, Þorleifur, Guðbrandur, Grétar Jón, Roar,Guðmundur, Örn og Bára.

Neðri frá vinstri: Sigríður E., Soffía Rósa, Alda, Íris Ósk, Þorbjörg, Rannveig og Ásta.

Flestir á leiðinni á Hvannadalshnúk eftir svona dag...

 

 

Svo lögðu nokkrir af stað á syðri tindinn sem er hæsti punktur jökulsins og nefnist Miðþúfa, þegar leiðsögumenn kölluðu menn til brottfarar.

Við tímdum varla niður þarna í síðdegissólinni og hefðum getað gleymt okkur áfram í háfjallavímunni en klukkan var 17:30 og tæpar tvær klst í sólsetur.

Okkar beið löng ganga til baka kringum sólsetur.

Hér sjást því syðri-hnúksfarar snúa við með fílusvip... nei það er ekki rétt...  þau eru alltaf glöð...

Við tökum þetta bara næst... alltaf gott að hafa ástæðu til að heimsækja fjall aftur...

Við mörkuðum okkar spor á Snæfellsjökli...

Skópum dýrmætar minningar af honum í huga okkar...

Og festum meira að segja á filmu skuggana okkar á annan hnúkinn...

 

Gleðin var í fyrirrúmi í þessari ferð.

Ingi hér að gantast á sinn ómetanlega máta og hláturinn aldrei langt undan hjá hinum...

Niðurleiðin hjá seinni hópnum...

Sá fyrri talsvert neðar.

Síðustu gestir Snæfellsjökuls á leið heim...

Blessaðir veri tindar Snæfellsjökuls...

... með kærri þökk fyrir gestrisni í hæsta gæðaflokki ...

 

Grétar Jón spekúlerar hér með Arnari, fjallaleiðsögumanni leiðina sem hann gekk einsamall fyrr um daginn.

Hann fór talsvert vestar en mun brattari leið og var búinn á því á leiðinni en gafst auðvitað ekki upp.

Að ganga einn svona göngu reynir meira og öðruvísi á en að ganga í hópi.

Um leið og á móti blæs er maður svo varnarlaust gagnvart náttúrunni og leikurinn svo ójafn.  Maður fær einhverja lítilmagnatilfinningu ef hlutirnir ganga ekki alveg upp (án þess að ég ætli honum það þarna). Takist manni hins vegar að sigrast á slíkum aðstæðum verður maður nánast ósigrandi í fjallgöngum...
Þá er ekki aftur snúið...

Guðjón

Ingi

Roar

Reyndir og klárir fjallgöngumenn sem gott er að fara með hvert á land sem er.

Halldóra Á.

Herdís Dröfn

Helga Sig.

Flottar fjallakonur sem gefa ekki eftir.

Skemmtinefndin að störfum á Snæfellsjökli...

Hún halaði inn þvílíka innkomu á árshátíðina að annað eins hefur ekki sést í þessum klúbbi... Enginn slapp undan...

Áróðurinn var á lofti en það er ómetanlegt fyrir hópinn að slíkt fólk taki að sér svona verkefni því það þjappar okkur enn meira saman.

Það er nauðsynlegt að aðskilja svolítið hlutverk þjálfara eða stjórnenda og svo þeirra sem hóa fólki saman á öðrum forsendum.

Það verður dásamlegt að hittast á öðrum forsendum en í fjallgöngugallanum eða hlaupagallanum og viðra það sem á undan er gengið.

Hér er gengið á Soffíu með að mæta og hún nánast barin til óbóta af skemmtinefndinni... "afhverju kemstu ekki...?"

Grétar Jón hér vinstra megin með höfuðkúpumerki á húfunni sinni...

Notað í árshátíðar-réttunum og örugglega verið gott vopn gegn jöklinum þegar hann barðist við hann í verstu þokunni og norðannæðingnum fyrr um daginn...

Ingi hér við sögufölsun...

Hann vildi meina að það hefði verið klofdjúpur snjór á Snæfellsjökli... sem það var reyndar kannski í verstu einstaka skrefunum... en Bára gat ekki tekið þátt í að taka mynd af manni á hnjánum að þykjast vera í klofdjúpum snjóskafli án þess að viðurkenna það... og stríða Inga aðeins í leiðinni!

Sporin í snjónum...

Þau voru þung á niðurleiðinni eins og upp...

Í línu er þetta enn erfiðarar þar sem enginn fær að ganga í sínum takti sem líkaminn leitar í þegar hann þreytist, til að spara orku á hagkvæman hátt...

Eiginlega var betra að fara út fyrir slóðann eins og sumir gerðu...

Margir duttu á þessum kafla undan toginu í línunum...

Það var hægara sagt en gert að halda takti við 12 manns á áttundu klukkustund við göngu í snjó...

Sólin settist smám saman og glitraði á fjallstindum Snæfellsness.

Óskaplega falleg sjón sem ljósmyndir geta best sýnt í mikilli stækkun en þó aldrei eins og það raunverulega er...

... verður að vera á staðnum...

Hópurinn í einni pásunni.

Laus við línurnar og farið að skyggja aðeins.

Skuggar Snæfellsjökuls færðust smám saman yfir nesið og skýjahula kvöldins tók við.

Þorbjörg, Halldóra Þ., Guðjón, Ingi, Örn.

Örn og Rannveig skóflast niður að gilinu sem var ægifagurt í snjónum og sjálfsagt ennþá flottara að sumri til.

Stapafellið nálgaðist óðum og lofaði okkur dekkjuðum bílum fyrir lúna fætur.

Í svona skyggni er ekki hægt að villast.

Eins og það er auðvelt í þoku eða skýjuðu veðri.

Tindurinn hvarf sjónum og heldur greiddist úr hópnum síðustu kílómetrana.
Sigríður E.

Helga Sig.

Arnar

Hópurinn umkringdur snjó að neðan og skýjum að ofan en ennþá gott skyggni út eftir suðurhluta Snæfellsness og suðvesturlands.

Gengin var beinni og styttri leið niður en upp eins og oft vill verða þegar skyggni batnar á niðurleið og þegar gengið er eftir gps að upphafsstað.

Þegar komið var að veginum loksins voru menn dauðfegnir að losna við skaflana svo síðustu metrarnir voru auðveldir.

Mikið var skeggrætt um komandi jökla og árshátíð.

Sumir orðnir talsvert þreyttir síðustu kílómetrana enda dagurinn mjög langur.

Á endanum varð þetta 16,8 km á 9:45 - 9:55 klst. upp í 1.418 m hæð (1.430? skv Roar - passaði alveg við Þorbjargar gps) með hækkun upp á 1.283 m (1.305 m skv Roar?).

Sólsetur var kl. 19:12 þetta kvöld. Við komum í bílana síðustu menn kl. 20:17 og vorum komin í bæinn um kl. 22:30...

Þeir sem ætluðu á árshátíðir og annað þetta kvöld voru í stórvandræðum en örugglega sælir með skiptin...
Svona toppar allt svoleiðis.

Ógleymanleg ferð í alla stað sem reyndi vel á hópinn fyrir sakir langrar gönguleiðar í þungu færi alla leið, en þó með veðrið í meðbyr, útsýni sem verðlaunaði allt saman  og stemmningu sem gaf aukaorku og linaði alla þreytu...

 Hreinasti hetjuskapur hjá þeim sem þarna voru...

Geri aðrir betur að ganga þennan jökul í þessu færi á þessum árstíma alla leið frá þjóðvegi!

Ingi bauð upp á Miller bjór þegar niður var komið að bílunum og sá bjór jafnaðist nánast á við bjórinn eftir maraþon... verkjastillandi, þreytustillandi og mýkjandi... dásamlegt nesti á leiðinni í bæinn við óðamála samræður um liðinn dag. Skilst að hann hafi svæft suma vel í bakaleiðinni...

Takk öll fyrir framúrskarandi frammistöðu, áræðni og þrautsegju... einstaklega glaðlega stemmningu og góðan félagsskap...

Höldum áfram að skrá þessa dýrmætu fjallgöngusögu klúbbsins sem er auðvitað ekkert annað en við sjálf og það hugrekki sem þarf til að leggja í hann sama hvað..!

Sjá nýja myndasíðu Toppfara og fleiri myndasíður félaganna af ferðinni undir tenglar.

gps prófíllinn frá Roar.

Skal setja minn inn síðar til samanburðar.

Gönguleiðin frá Roar.

 Svarta línan er snjótroðara-leiðin og gula okkar leið.

Mun beinni lína til baka.

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir