Æfingar alla þriðjudaga frá apríl út júní 2011
í öfugri tímaröð:

Heiðarhorn 28. júní
Hafnarfjall fimm tindar 21. júní
Molddalahnúkar 14. júní
Mórauðakinn 7. júní
Vörðuskeggi 31. maí
Tindstaðafjall og Dýjadalshnúkur 24. maí
Stardalshnúkar og Skálafell á Mosfellsheiði 17. maí
Grænavatnseggjar, Djúpavatnseggjar og Grænadyngja 10. maí
Sköflungur 3. maí
Arnarfell 26. apríl
Litli og Stóri Meitill 19. apríl
Móskarðahnúkar 12. apríl
 

Hörkuvetur á Heiðarhorni

Við lentum í sannkölluðum vetrarham á Heiðarhorni þriðjudagskveldið 28. júní
þegar 27 Toppfarar tóku langa og krefjandi kvöldæfingu sem endaði í 6°C frosti á hrímuðum hæsta tindi Skarðsheiðarinnar...

Veðurspá með ágætum hvað skýjafar og hitastig varðaði en norðaustanátt í kortunum sem átti lítið að lægja er liði á kveldið... kaldur vindur í sólinni í bænum þennan þriðjudag en lygnara seinnipartinn þegar við hittumst í Ártúni... 18°C hiti í Mosfellsbæ á leiðinni og sumarblíða... en orðið hvasst undir Esjunni og Skarðsheiðinni á leiðinni... og hífandi rok þegar við lögðum bílnum við rætur Skarðshyrnu sunnan megin Skarðsheiðarinnar... með úfin skýin í slagsmálum við tinda Skarðsheiðarinnar sem við ætluðum að sigra þetta kvöld í mesta sakleysi á bjartri sumargöngu...

Við göntuðumst með að taka bara Laugavegsgöngu í bænum í sólinni með svaladrykk við höndina frekar en slást við vindinn á einu bjartasta kveldi sumarsins... það var einhvern veginn enginn tilbúinn í stóran slag við veðuröflin... enn södd eftir harðan veturinn... en við ákváðum að sjá hvernig gengi... þetta leit ekki vel út miðað við ástandið við fjallsrætur og við áttum alveg eins von á að þurfa að snúa við... en þegar Toppfaraandinn fer í gang er hann óstöðvandi... og lét ekki staðar numið fyrr en á tindinum sjálfum í lygilega vetrarlegum aðstæðum, glerhálir klettar, klakahrönglandi grjót, hrímaðir göngumenn, frosnar myndavélar...

Heldur dró úr vindinum til að byrja með enda eitthvurt skjól frá fjöllunum gegn norðaustanvindinum til að byrja með og við vorum einhvern veginn komin í góðan gír þessa fyrstu kílómetra...

Svo góðan að þrátt fyrir grýtta leið, brattar brekkur, vaxandi kulda og krefjandi vind beint í fangið allan tímann upp... létum við ekki bugast og þrjóskuðumst við að klára annan tindinn af tveimur þetta kvöld...

Á endanum sneru sex við á uppleiðinni af ýmsum orsökum... það var ekkert skrítið... hífandi mótvindur og kuldi er ekki það sem maður óskar eftir í fjallamennsku í lok júní... ekki þegar maður berst við óblíð veðuröflin allan veturinn og þarf að hlaða batteríin að sumri til þennan stutta tíma sem það ræður ríkjum... þegar það nær þá völdum... ef einhvern tíma á þessu ári... nei, við verðum að hætta að barma okkur yfir þessu veðri... og gleymdum okkur stöku stund við plön um gönguferðir á Ítalíu í brakandi sumarsól og rauðvínssmökkun í lok dagsins... þar til vindurinn feykti manni á næsta stein og maður hélt áfram að básúnast yfir þessu vetrarveðri á Íslandi um hásumarstíma...

Gróðurinn lætur samt ekki bugast... sumar á ólíklegustu stöðum í felum fyrir vindi og kulda...þó ekki sjáist til þess ofar hlíða...

Snjóskaflarnir tóku við síðasta hálftímann á tindinn... vel færir og blautir að mestu... og smátt og smátt kristallaðist grjótið í klaka og hrímugir klettar í hálu grjóti tóku á móti okkur alla leið á tindinn...

Við vorum stödd í ísaköldum og grafalvarlegum vetri og máttum hafa okkur öll við að koma öllum búnaði í notkun, lamhúshettu, belgvettlingum, ullarfötum, hlífðarfatnað, skíðagleraugum... og hefðum sjálfsagt snúið við á þessum tímapunkti ef ekki hefðu "bara verið rúmir 400 metrar á tindinn"... það var synd að klára ekki alla leið úr þessu...

Uppi var agalega kuldalegt og ekkert skyggni á þessum frábærar útsýnistindi... við flýttum okkur að taka hópmynd áður en kuldinn hreinlega yfirbugaði okkur... mælir Einars sýndi -6°C... það var erfitt að trúa því ekki miðað við hrímið og kuldann sem þarna beit... þó svona lág tala sé með ólíkindum miðað við hitann niðri við bílana þrátt fyrir vindinn þar fyrr um kvöldið og rjómablíðuna sem þar ríkti svo í lok kvöldsins...

Ís-lenskur tindur:

Efri: Jóhanna Karlotta, Þórdís, Stefán A., Einar Sig., Guðmundur Jón, Valdís, Katrín Kj., Auður, Kjartan, Örn, Hildur Vals., Lilja K., ?, Hugrún.
Neðri: Sæmundur, Brynja, Bryndís, Elsa Þóris., Ágústa, Lilja Sesselja og Bára tók mynd.

Á mynd vantar Önnu Elínu, Önnu Siggu, Ágúst, Gunnar, Maríu E.,  og Jóhann Pétur sem sneru fyrr við.

Beint niður úr kuldanum... gegnum hrímuga kletta og ískaldan vindinn í bakið...

Svo kaldan og napran... hvassan og hvínandi að við fukum niður úr skýjunum jafnsnöggt og vindrokan... þar sem sólin skein í heiði í sumarlegu landslagi Hvalfjarðar og Faxaflóa sem trúðu okkur ekki þegar við reyndum að segja frá því í hverju við lentum þarna uppi...

Þetta hjarta varðaði för okkar og þá vissum við að við vorum örugg... með Ástu Henriks í hjartanum og vangaveltur um hvernig ljósmyndasýning af snilld hennar gæti orðið að veruleika... kannski er heimurinn of harður fyrir hreina og tæra snilld..

Við tókum niðurleiðina í nánast einum rykk... með einni pásu í grænni lautu reyndar... á eingöngu 1:43 klst. miðað við 3 klst. uppgöngutíma... við sannarlega fukum / hlupum niður undan kuldabola sjálfum sem svei mér þá á ekki bara heima á Heiðarhorni því það má spyrja sig í alvöru talað hvort nokkur tindur á suðvesturhorni landsins eigi viðlíka sögu um af ísilögðum hrakförum og veðurbarningi gegnum tíðina eins og Heiðarhorn...

Alls 11,4 km ganga á 4:43 - 4:49 klst. upp í 1.070 m hæð með 1.124 m hækkun skv. gps miðað við 92 m upphafshæð...

Ansi vel af sér vikið miðað við aðstæður...

Lygilega vetrarleg kvöldganga á hásumarstíma sem vart verður endurtekin...
... nokkurn tíma... vonandi...


 

Sumarsólstöður á Hafnarfjalli


Miðhnúkur og Gildalshnúkur efst á mynd með neðstu hlíðar Klausturstunguhóls og Vesturhnúks sitt hvoru megin á mynd.

Á bjartasta degi ársins þriðjudaginn 21. júní gengu 36 Toppfarar á fimm tinda í Hafnarfjalli í í sólríku veðri
en köldum norðan vindi og frábæru útsýni yfir höf, vötn, lönd og jökla suðvesturhornsins...

Gengið var inn dalinn og upp brattar, grýttar og lausar skriður Klausturstunguhóls þar sem vel tók í kálfa og læri...

... sérstaklega hjá Jökulsgljúfurförum sem áttu tæpa 36 km göngu að baki fyrir þremur dögum norðaustanlands og skiluðu sér mislemstraðir eftir helgina á þessa æfingu... að ónefndum þeim sem gengu Leggjarbrjót, Botnssúlur og annað um helgina.. ;-)

Hægt er að ganga inn skriðuna á Klausturstunguhól í hliðarhalla og má gjarnan sjá slóða þar inn eftir
en við fórum upp með hryggnum og nældum okkur í heilmikið klöngur í leiðinni enda gott veður og færi til að leika sér á fjöllum...

Útsýnið óborganlegt yfir Borgarnes og nágrenni...

Fjallasýnin tandurhrein allt kvöldið og enn einu sinni gengum við um Hafnarfjall í fallegu og sólríku útsýnisveðri... þessu veðravítis-fjalli sem sumum hefur varla fundist þorandi að ganga um... enda voru margir í hópnum að fara á fjallið í fyrsta sinn.. við vorum sannarlega einstaklega heppin með veðrið þrátt fyrir norðangarrann...

Brátt kom helsta vekrefni kvöldsins í ljós... bratt klettaklöngur um klettavegginn í Klausturstunguhól sem geymir rauf eina eða geil gegnum beltið sem fært er öllum einörðum göngumönnum... sjá merkingu á staðsetningu myndinni... en geil þessi á sér margar sögur af göngumönnum sem gert hafa dauðaleit að henni og þurft að snúa við... - sjá veraldarvefinn:

Blogg Leós nokkurs - mjög skemmtileg frásögn - en þeir fara öfugan hring við bókina og finna ekki geilina þrátt fyrir ítrekaða leit og enda með að ganga Katlaþúfumegin norðaustan við Klausturstunguhól niður (sem er skemmtileg leið NB) og eru í kapphlaupi við myrkrið að komast í bílana. Það er ótrúlega grátlegt við söguna að það er mynd af geilinni í frásögninni, en þeir fara bara ekki nógu nálægt henni líklega til að átta sig á að þetta er hún!
http://leor.123.is/blog/record/287363/

Blogg Sigurpáls Ingiberssonar sem oft er með skemmtilegar lýsingar af fjallgöngum:
Þau fóru einnig öfugan hring og fundu ekki geilina þrátt fyrir ítrekaða leit og sneru við:
http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/333251/

Þá skal þess loks getið að þjálfarar fundu þrjár aðrar geilur í könnunarleiðangri um Hafnarfjall haustið 2010, allar sunnan við þessa. Ekki var hægt að sjá slóð eftir fólk um þær en þær virtust jafn auðveldar uppgöngu en flóknari hugsanlega neðan frá um klettabeltið þaðan... það er ekki nóg að finna smugu gegnum klettana ef ekki er hægt að komast að þeim stað í beltinu með sæmilegu móti eins og við fundum vel fyrir þetta kvöld...

Brátt kom magnað útsýnið til fjallanna í austri í ljós... tindar Skarðsheiðarinnar tignarlegar en kuldalegar í snjónum... óðum samt að þurrka sig fyrir Toppfara sem ætla að ganga á þá næsta þriðjudag eftir viku í enn lengri kvöldgöngu en þessari
en einfaldari þó hvað gönguleið varðar...

Þetta var sannnkölluð klettaklöngurs-æfing þetta kvöld... og menn völdu sér ekkert endilega léttustu leiðina upp...
það eru margir ástríðufullir fjallaklöngrarar
innan klúbbsins...

Hvar í ósköpunum er hægt að fara þarna í gegn...? ...engar áhyggjur... það er fín leið þarna í gegnum...

Klettabeltið að koma betur í ljós og hliðarhallinn jókst eftir því sem innar dró...

Geilin er lengsta raufin (dimm lína) vinstra megin við lengsta snjóskaflinn næst okkur á mynd.

Sjá snjóskafla-hjartað hægra megin við skaflinn til heiðurs Ásta Henriks... ;-)

Sjá göngumenn fyrir miðri mynd í bröttum brekkunum en góðum mosa og haldgóðum klettum sem gáfu góða leið til að klöngrast þarna yfir um... engin furða að menn finni þetta ekki þegar nær dregur... hægt að þrælast heilmikið þarna um í leit að smugu...

Færið varla orðið gott, enda tóku þjálfara með sér ísaxir til öryggis ef höggva þyrfti spor í harða snjóskafla sem gjarnan sitja þrjóskastir eftir fram á sumarið...

Harður jarðvegur sem rétt var að losna undan snjóskafl er svo önnur tegund af hindrun á svölum stöðum á köldum sumrum
og við lentum svolítið í slíku færi en náðum vel að sneiða framhjá því þegar þurfti og þetta sóttist vel í sterkum gönguhópi sem getur orðið allt... ;-)

Brattinn við geilina var ansi mikill en þar þéttu menn hópinn og sátu með magnað útsýnið í fanginu...
Einn flottasti
áningarstaður á fjöllum sem gefst í nágrenni Reykjavíkur...

Geilin var svo lítið mál eftir klöngrið um harðan jarðveginn í brattanum...

Klettabeltið sem við fórum um þegar litið var til baka ofan af norðurhlíðum Miðhnúks... og Tungukollur þar á bak við... fyrsti tindur af sjö sem hópur Steina - Fjallagarpar og geitur - gekk um þetta sama kvöld á sólstöðugöngu eins og við...

Björn og Ósk með Borgarfjarðarbrúnna lengst fyrir neðan...

Hafnarfjall er eitt af uppáhaldsfjöllum þjálfara enda svipmikið og fjölskrúðugt með eindæmum...

Ingi fræddi félagana um landslagið og fjallasýnina á fjöllunum sínum á þessu svæðisem hann hefur gengið um
argsinnis með fjölskyldu sinni og einsamall á ferð...

Fegurð kvöldsins var stundum hvassbrýnd eins og norðanvindur... á milli þess að vera mjúk eins og sólin...

Miðhnúkur tók við af Klausturstunguhól... en samkvæmt heimamönnum er þessi tindur nafnlaus og heitir ekki Þverfell eins og ranglega stendur þá í bók Ara Trausta og Péturs Þorleifs... við skírðum hann því Miðhnúk á
haustgöngu Toppfara um alla tinda Hafnarfjalls í október 2010...
...þegar klúbbmeðlimir voru með hvert ógleymanlegra skemmtiatriðið á fætur öðru sem við rifjuðum upp þetta kvöld...

Jú, smá klöngur í viðbót... þetta er nú "eeeekkert" eftir Klausturstunguhólinn...

Jú, og smá hér niður líka... svo er þetta búið... bara góður slóði það sem eftir er...

Gildalshnúkur í fjarska... hæsti tindur Hafnarfjalls...

Snæfellsjökull reis síðastur í fjallaröðinni eftir endilöngu Snæfellsnesi þetta kvöld... snjólaus orðinn á tindunum...
...hann verður hugsanlega aftur á dagskrá snemmvorið 2012...

Klettaklöngrarar kvöldsins:

Arnar, Ásta H., Bára, Björgvin, Björn, Bryndís, Dóra, Einar S., Gerður J., Guðrún Helga, Helga Bj., Helgi R., Hermann, Hildur V., Hugrún, Ingi, Jóhan Pétur, Jón Atli, Katrín Kj., Kjartan, Leifur, Nonni, Ósk, Simmi, Sigga Rósa, Styrmir, Súsanna, Svala, Sæmundur, Thoma, Þóra, Þórdís og Örn.

Þar af var Styrmir að koma í sína fyrstu göngu með hópnum og Simmi að koma í fyrsta sinn eftir Perúferðina... fagnaðarfundir miklir... og rifjað upp sögulegt fjölda-símtalið við Ingu Lilju úr Ásbyrgi síðustu helgi þar sem Perúfarar lýstu fyrir henni söknuði allra Perúbúa... nei, ég meina Perúfara í hennar garð... og reynt að kaupa hljómfagurt símanúmerið hennar með sexum... og NB opinberlega skorað á hana hér með á veraldarvefnum að hún eigi ein Perúfara eftir að mæta aftur í göngu eftir ferðina... ;-)

Næst síðasti tindur kvöldsins var Suðurhnúkur... sem er nafnlaus á kortum en við skírðum í fyrra... og auðvitað fóru nánast allir hér upp... og við rifjuðum upp í hláturskasti grenjandi fyndið skemmtiatriði "vina Ágústu" frá haustfagnaðinum í fyrra sem sló metið hvað furðulegheit varðaði þó erfitt sé að gera upp á milli ótrúlegra skemmtiatriða í þeirri ferð ;-)

http://www.youtube.com/BaraKetils#p/u/3/HOO2C9mQnGU

Ofan af Suðurhnúk fukum við yfir á Vesturhnúk í ísköldum vindi sem sagður var fara niður undir frost á vindmæli Inga... og við nutum þess ekki eins mikið og verða vildi að standa á þeim brúnum þó óborganlegar séu þar sem þær liggja snarbratt niður á þjóðveg eitt að Borgarnesi...

 

Niður síðasta hluta göngunnar geystumst við svo eftir ægifögrum vesturbrúnum fjallsins...

Í síðustu geislum sólarinnar sem entust okkur akkúrat alla leið niður að bílunum...
þegar síðasti maður skilaði sér þangað á sama augnabliki og sólin hóf að hverfa bak við Snæfellsnesið...

Logandi flott kvöldganga

...sem telst til þeirra erfiðari og fegurri í sögu klúbbsins... alls þó ekki nema 8 km á 4:41-5:07 klst. upp í 852 m hæð efst
með
1.203 m hækkun skv. gps miðað við 108 m upphafshæð...á heilmiklu skriði og klifri um skriður og kletta...

Við nýttum kvöldið... veðrið... fjallið vel... ansi vel af sér vikið...
 


 

Sumarkvöld á Molddalahnúkum

Loksins kom sumarið... aftur... þriðjudaginn 14. júní... á friðsælli kvöldgöngu um Ölkelduhálssvæðið þar sem gengið var um Molddali og um Reykjadal með viðkomu í funheitri Klambragilslauginni...

Gengið var upp á Molddalahnúka sem kalla má austari og vestari... því Ölkelduhnúkarnir fá að vera hinum megin hversins... og var farið upp suðurhlíðar þeirra austari í mosagrónum hlíðum og smágrýti...

Þar uppi gafst gott útsýni yfir Molddali og yfir á Ölkelduhnúka sem rísa þá lægri við eiginlegan Ölkelduhálsinn, Tjarnarhnúk, Hrómundartind lengst til vinstri á mynd og Lakahnúk við hliðina á honum nær... og yfir á  Dalaskarðshnúk sem hér sést á mynd með rjúkandi hverinn utan í sér og Dalaskarðið á milli hans og Dalafells þar sem við gengum
í febrúar í vetur í vatnskenndri tindferð... og borðuðum nesti við hverinn...

Hinum megin Molddala risu þá vestari Molddalahnúkar ef svo má segja... frekar en Ölkelduhnúkar eins og við vildum kalla þá fyrir þremur árum síðar... og Ölkelduhnúkarnir þá hinum megin gljúfursins... með rjúkandi háhitasvæðið allt um kring yfir á Hengilssvæðið, Nesjavelli og Dyrafjöll... og meira að segja með Þingvallavatnið í fjarska...

Mættir voru 37 manns...

Brynja, Ágústa, Þórdís, Bryndís, Jóhanna Karlotta, Þóra, Elsa Þóris., Sæmundur, Kjartan, Katrín Reynis, Anna Sigga, Lilja Sesselja, Helgi R., Anna Elín, Valdís, Einar, Anna Rún, Ágúst, Rósa, Arnar, Guðrún Helga, Roar, Halldóra Á., Einar Rafn, Katrín Kj., Jóna, Hildur G., Guðmundur Jón, Dóra, Nonni, Kári, Sjoi, Gerður Jens., Örn og Björn fremst á mynd, en Bára tók mynd.

... í hveragufunni...

Ofan Klambragils gengum við niður í Reykjadalinn meðfram heitri Klambragilsánni...

... en létum ekki framhjá okkur fara rjúkandi heitan Klambragilshverinn sjálfan þar sem bullandi heitir hverir, gráir, gulir, rauðir.... lituðu svæðið hljóðum og útfellingum... já, alla leið niður dalinn...

Lítilsháttar rigning bættist við goluna uppi á Molddalahnúkum og við ákváðum að sleppa Ölkelduhnúk(unum)
og tókum styttri leiðin niður að heitu lauginni í ánni...

Hún var snarpheit og hressandi.. svo kæla þurfti sig með öli og álíka... og við skiluðum okkur funheit á fisléttum 3 kílómetrum aftur í bílana og vorum enn vel uppgufandi eftir baðið á leið heim... eftir 9,6 km á 3:45-3:52 klst. upp í 440 m hæð hæst með alls hækkun upp á 708 metra...

Rjúkandi heit kvöldganga...

...svona til að hita okkur vel upp fyrir Jökulsárgljúfur um helgina...
komnar tveggja stafa hitatölur á fim og fös...
... þetta er allt að koma ;-) ... þ.e.a.s. sumarið... var það ekki annars...?


 

Mórauðakinn skal það vera

Við nánari endurskoðun er ljóst að Mófellið er vestar undir Skarðsheiðinni eins og þjálfari lýsti í gærkveldi... ljósu rúmlega
300 m bungurnar neðan við Skessuhornið sem enda efst á hnúk sem kallast Ok og er í rúmlega 500 m hæð...
fleiri kort styðja þessi nöfn þarna staðsett en ella auk atriða eins og staðsetning bæjarins Mófellsstaða.

Mórauða fellið sem 37 klúbbmeðlimir gengum upp á þriðjudaginn 7. júní nefnist Kinn á korti heimamanna og við köllum hana Mórauðakinn þar sem hún rís undan Mórauðahnúk í Skarðsheiðinni sem eitt sinn hefur hrist af sér þetta fallega, litríka berg...

Við náðum okur í smá sumar með göngu um ilmandi Selsskóginn áður en haldið var á grjótið ofar hlíða...

Grjót sem prýtt gæti flottustu tónlistarhús með stolti...

Myljandi litríkar og formfagrar svo unun var yfir að ganga... og erfitt að fylla ekki bakpokann...

Skorradalurinn friðsæll og fallegur með vatnið utan um sumarhúsin og fögur fjöll í fjarska eins og Baulu...

Lilja Sesselja og Súsanna ætla með hópnum í spennandi göngu um hin hrikalegu Jökulsárgljúfur þar næstu helgi... sem formuðu m. a. tröllslegt landslagið í Ásbyrgi í ofsafengnum hamfarahlaupum.. þar sem við ætlum flest að gista í tjöldum með perúskum hætti... með hlýja svefnpoka að vopni gegn svala íslenska sumrinu... og kannski ekkert fara í sturtu... enda bara einn göngudagur...

Uppi á Mórauðukinn var gengið fram á fallegan útsýnisstað yfir Skorradal í norðri og Skarðsheiðina í suðri
og fengið sér nesti...

Sjá hvíta snjófölina í Hafnarfjallinu fjær en akstursleiðin þetta kvöld var með eindæmu vetrarleg... í nánast slyddu og éljagangi... með gönguleiðir okkar fyrr í vor snjófölar og vetrarlegar að sjá... og Hvalfellið t. d. enn í meiri snjósköflum en nokkru sinni áður í sögu klúbbsins en það var meira að segja snjólaust í fyrra á sama tíma... hvar er sumarið...?

Með ægifagurt Skessuhornið yfir okkur...
þar sem við gengum upp á þriðjudagskveldi í fyrra í ógleymanlegri miðnæturgöngu á þriðjudagskveldi...
voru mættir:

Efri: Leifur, Björgvin, Hermann, Guðjón, María S., Hjölli, Gurra, Thomas, Anna Rún, Jóhannes, Ósk, Jón Atli, Ingi, Þóra, Örn, Þórdís, Helgi, Sigga Rósa, Katrín, Anna Sigga, Lilja Sesselja, Elsa Þóris, Helga Bj.
Neðri: Gerður, Áslaug, Día, Dóra, Dúna, Bryndís, Jóna, Tína, Ágústa, María E., Auður, Súsanna, Einar S., Katrín R. og Svala.
Bára tók mynd.

Þar af var Anna Rún að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum og Gurra að koma í fyrsta sinn eftir Perúferðina
og Jón Atli að mæta eftir talsvert hlé vegna meiðsla.

Við skoðuðum vel norðurhlíð Skarðsheiðarinnar sem enn er í vetrarskapi
og veltum fyrir okkur næstu göngu þar um í framhaldi af fyrri nýársgöngum síðustu tvö árin...

Jæja, allt í lagi... Mófellið er þá þarna... og Skarðsheiðar-Okið framundan hér á mynd... förum þar upp á næsta ári...

Það er svo enn annað Ok á Snæfellsnesi.... þetta er satt.... ;-)

Smá snjóskafl til að leika sér í... að hugsa sér... snjór í 400 m hæð í júní...

Auður, María, Ágústa og Þóra með líparítslegnar hlíðar Mórauðukinnar í baksýn og Mórauðahnúk yfirgnæfandi... jú, ekki spurnig að þarna er góð leið upp að sumarlagi... við verðum að fara þarna einn daginn og koma kannski niður á afskaplega spennandi stað annars staðar í Skarðsheiði... best að segja ekki neitt fyrr en að því kemur...

Til baka var farið um Selflatirnar sem rísa ofan sumarhúsabyggðarinnar
og fjöll eins og Baula, Strútur, Eiríksjökull, Ok, Fanntófell og Þórisjökull fengu vel notið sín allan hringinn...

Ótrúlega svöl golan en klárlega miklu betra veður en á akstursleiðinni og við prísuðum okkur sæl að ná þó þessu veðri...

Hey, það er smá sumar hérna... ef þið gangið inn í skóginn þá er alveg logn þar og þá er ekkert svo kalt og það er smá gróðurlykt og svona og svei mér þá ef manni finnst ekki vera komið smá sumar... ég meina það er lauf á trjánum... það hlýtur að fara að koma þetta sumar... ;-)

Göngunni lauk eftir 7,3 km á 2:50 - 2:3 klst. upp í 568 m hæð með 684 m hækkun miðað við 102 m upphafshæð...

Kolur er klárlega með "tími ekki heim - Toppfara veikina"... lætur Hermann alltaf elta sig uppi og sækja sig í fangið þegar göngunum er lokið... forfallinn fjallgönguhundur... eins og fleiri hundar Toppfara sem eru órjúfanlegur hluti af hópnum... en þó vildi það leiðinlega atvik til að Tína sem gengið hefur með okkur í tvö ár glefsaði tvisvar í Maríu og svo í Jónu í þessari göngu svo þær þurftu að leita á Læknavaktina til að fá stífkrampasprautu (NB eingöngu yfirborðsáverkar!).

Því skal hér með komið á framfæri að í vor hafa nokkrar athugasemdir borist vegna hundanna í hópnum og þar sem við teljum það mikilvægan hluta af lífi Toppfara að hafa ferfætlingana með í för viljum við ítreka eftirfarandi við alla hundaeigendur:

Halda þeim hjá sér og/eða setja þá strax í bandi ef:

* þeir eru órólegir eða með læti
* farið er um tæpistigur/klettaklöngur/brekkur þar sem menn geta verið óöruggir
* ef þeir eru að trufla göngumenn almennt eða komið er með athugasemdir vegna þeirra
* í matmálstímum - sérstaklega ef þeir eru að sækja í mat göngumanna
*fleira?

Það er mikilvægt fyrir alla að þessara atriða sé gætt svo lífið í klúbbnum geti áfram gengið snurðulaust fyrir sig í fjallgöngunum því okkur þykir orðið óumræðilega vænt um þessa fjórfættu félaga Toppfara en öllum þarf að líða vel á göngunum og svona slys mega helst ekki gerast.


 

Í vetri á Vörðuskeggja

Það er ekki að spyrja að þrautsegjunni í þessum hópi... að láta sig hafa það í lok maí að fara í hreina og tæra vetrargöngu á þriðjudagskveldi... þann 31. maí... upp í 814 m hæð... upp á einn af þessum tindum sem blasa alla leið frá Reykjavík... sjálfan Vörðuskeggja... með ekki góða veðurspá í veganesti... í jú, logni til að byrja með... en svo vindi, kulda, hálku, slyddu, snjóéljum, og svo rigningu og mótvindi til baka... en alltaf í sama gleðitóminu... eins og ekkert bíti á menn... frekar en vanalega...

Gengið var inn með Skeggjadal um hraun, möl og mosa og upp með klettaklóm Skeggjans ógurlega sem reis hrikalegur í fjarska umlukinn þokunni...

Ný sýn á karlinn þar sem við höfum tvisvar farið sunnan megin um Sleggjubeinsskarð eftir Húsmúla og með Innstadal til baka sem er 12,5 km leið og ansi hressileg þriðjudagsganga... einsu sinni þar fyrir utan snúið við á Húsmúla vegna slæms veðurs... eins og í hin skiptin og þetta kvöld... sem sé fjórum sinnum verið á Henglinum í erfiðu veðri... næst förum við lengri leiðina um Sleggjubeinsskarð síðla sumars í blómstrandi fallegu veðri og færi... ekki spurning...

Færið gott lungað úr leiðinni en hálka ofar og enn frost í sköflum...

Flestir án keðjubrodda og gekk uppgangan vel um löngu brekkuna en þar læstist þokan um okkur alla leið á tindinn
eftir ágætis skyggni á köflum neðar.


Björgvin, Hanna og Kjartan í aukakróknum í klettunum... ævintýralega mikilvægir klúbbfélagar...

Auðvitað þurftum við að klöngrast aðeins í klettunum... er þetta að breytast í klifurklúbb eða hvað... nei, bara svo mönnum leiðist ekki... krydda smá kvöldið... æfa grjóthrun með því að dreifa grjóti niður á næsta mann... nei, nei, hvaða vitleysa... þjálfarar voru ekki búnir að fara þessa leið á Vöruskeggja áður og fóru bara aðeins fyrr upp en hefðbundið er af því það sást góð leið þarna uppp... og Anton togaði okkur upp síðasta klettahaftið eins og herforingi... guðisélof fyrir þessa herramenn í klúbbnum ,-)

Á tindinn... í þoku, slyddu og vindi... fóru:

Alma M., Anna Elín, Anna Sigga, Anton, Arnar, Auður, Ágústa, Bára, Björgvin, Bryndís, Dóira, Elsa Inga, Gerður J., Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Helga Bj., Helgi, Hermann, Hildur Vals., Jóhann Pétur?, Hanna, Jóhannes, Jón Júlíus, Katrín Kj., Kjartan, Lilja Bj., Lilja Sesselja, Ósk, Rósa, Soffía Rósa, Torfi, Valdís, Þórdís og Örn.

Þar af voru Helgi og Þórdís að koma í fyrstu gönguna með hópnum en þau ætla með okkur á Fimmvörðuháls á fimmmtudag og Soffía Rósa að mæta í fyrsta sinn eftir langt meiðslahlé... vonandi komin til að vera sem oftast með okkur á fjöllum... ;-)

Niður var farið hefðbundinn hring utan um tindinn og niður snjóbrekkuna sem lokkaði menn niður á afturendann...
Askan yfir snjónum og þokan hálf öskugrá líka...

Skyggni neðar og við sáum út eftir öllum Skeggjadal inn að Dyradal þar sem málmfákarnir biðu í röðum eftir því að ferja okkur aftur inn í steingelda steinsteypuna í vestri...

Blaut og köld en stórskemmtileg ganga...

...á 2:25 - 2:35 klst. alls 6,7 km upp í 814 m hæð með 647 m hækkun miðað við 362 m upphafshæð...

Fimmvörðuháls á fimmtudaginn... sjálfan uppstigningardag... í góðri veðurspá... á tvö ný fjöll sem fá sitt pláss í fjallaskránni... Magni og Móði... langt síðan við sáumst...
 


 

Gljúfurganga upp
Tindstaðafjall og Dýjadalshnúk

Hún byrjaði vel æfingin þriðjudaginn 24. maí þar sem gengið var úr Miðdalnum norðan Esjunnar upp Kerlingargil áleiðis á Tindstaðafjall og Dýjadalshnúk í lygnu veðri og hlýrra en var í bænum þegar lagt var í hann úr Ártúninu...

Náttúran lofaði góðu upp með gilinu og við nutum fuglasöngs og dúnmjúkra móanna sem lofuðu sumri brátt... svo brátt...
já, það er að koma er það ekki....

Þetta var ansi þétt upp brattar hlíðar Tindstaðafjalls austan megin gilsins og lítið skildi á mili fremstu og síðustu manna
þar sem það var ekki hægt að fara þetta nema ákveðið þétt upp.

Fjallasýnin tandurhrein undir háskýjuðum vindastroknum himninum og brátt blasti uppáhaldsfjall Toppfara við ;-)...
Ok-ið
og svo Fanntófell, Þórisjökull, Hvalfell og Botnssúlur fjær hér á mynd og Eyrarfjall, Meðalfell, Reynivallaháls, Múlafjall og Þyrill nær...ásamt fleiri fjöllum allan hringinn eftir því sem ofar dró...

Eyrarfjall beið niðri snjólaust og saklaust og í norðri röðuðu tindar Hafnarfjalls og Skarðsheiðar sér upp og menn rifjuðu upp magnaða göngu á Blákoll undir stjórn Hönnu frá því síðla veturs...

Tindstaðahnúkur var vel kleifur þessa leið og mældist Tindstaðafjall hæst 761 - 781 m eftir gps á okkar leið áleiðis á Dýjadalshnúk sem myndar vesturhorn Tindstaðafjalls.

Útsýni af Tindstaðahnúk var glæsilegt, m. a. yfir til Þórnýjartinds og Nónbungu sem forma Eilífsdalinn fræga sem Hjölli gerði ógleymanlegan sumarið 2008... og við ætlum niður um ofan af Þórnýjartindi á krefjandi þriðjudagskvöldgöngu í september í haust...

Landslagið ofan á Esjunni þegar snjóa leysir.. grýtt heiði og mosagróin að hluta...
en útsýnið magnað um alls kyns fjallasali allt upp á hálendi...

Akrafjall í fjarska þar sem Akranesdeildin tók æfingu fyrr um kvöldið upp á Háahnúk og hringdi sig samviskusamlega inn, þ. e.  þau Ingi og Heiðrún, Simmi og Gurra en þeirra var sárt saknað, sérstaklega af Perúförum sem ekki hafa hitt Simma og Gurru frá því í Suður-Ameríku í apríl...

Dýjadalshnúkur var hrikalega kuldalegur því hann bauð bara í kaffi vestan megin í bröttum hömrunum...

... í skjóli fyrir ísköldum vindi sem lítið minnti á sumarið sem á að vera mætt á svæðið... en við minntum okkur á að við gætum ekki kvartað... hvorki með nokkra sentimetra af snjó né ösku á svæðinu... og gátum þakkað fyrir að ná yfirleitt kvöldgöngu í auðu færi og hreinu lofti á þessum sögulegu tímum...

http://mbl.is/frettir/innlent/2011/05/25/aska_skreid_med_joklinum/ og
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/05/20/snjokoma_a_egilsstodum/

Hópmyndin var bara tekin á garranum:

Alma M., Anna Elín, Anna Sigga, Anton, Auður, Áslaug, Ásta H., Bára, Bryndís, Dúna, Einar Rafn, Elsa Inga, Elsa Þ., Guðjón, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Jóhann, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Hanna, Nonni, Jóna, Kjartan, Kristín Gunda, Leifur, Lilja B., Lilja K., María S., Ósk, Rikki, Roar, Rósa, Sigga Rósa, Sigga Sig., Svala, Sæmundur, Thomas, Torfi og Örn.

Niður af Dýjadalshnúk var leiðin greið og bein en heldur bratt og þétt svo vel reyndi á hné og læri... vestan megin með Kerlingargili sem, jú við verðum að ganga upp með síðla sumars eitthvurt árið með enga snjóskafla, enga vetrarvinda, enga klakafossa... bara í fuglasöng, flugnaskýi og blómahafi... upp eftir öllu gljúfrinu því við sáum leið upp úr því alveg innst sem lofaði góðu...

Alls 5,3 km ganga á 2:38 - 2:48 klst. eða heldur styttra en þjálfarar áætluðu upp í 781 m og 735 m hæð
með
731 m hækkun alls miðað við 128 m upphafshæð...

Flott ganga
...sem reyndi vel á í bratta en gaf þeim mun meira útsýni á ekki lengri leið ;-)
 

 

Nýjar slóðir á
á Stardalshnúkum og Skálafelli
... með einstöku útsýni ...
 


Móskarðahnúkar vinstra megin, hæsti Stardalshnúkur hægra megin nær og Skálafellsöxl fjær hægra megin.

Á 182. æfingu þriðjudaginn 17. maí mættu 38 manns við bæinn Stardal og gengu nýja leið upp á hæsta Stardalshnúkinn áleiðis upp suðvesturöxl Skálafells og hlutu einstaklega flott útsýni að launum um allan fjallahringinn kringum höfuðborgina og yfir fjallasali Esjunnar, Hvalfjarðar, Langjökuls, Þingvalla, Nesjavalla, Bláfjalla og Reykjaness...

Áræðni og þrautsegja voru orð dagsins þar sem bratti og löng vegalengd var framundan og ekkert pláss fyrir hik eða leti... og því er engin leið að vita hvað Kjartan, einn af sterkustu göngumönnum klúbbsins,  er að gera á þessari mynd innan um félaga sína, Hildi vals., Lilju K., Jóhannes, Hermann, Örn, Guðmund Jón, Katrínu og Inga ;-)

Ofan af Stardalshnúkum blasti gönguleiðin upp á Skálafell við og virtis auð og fær eftir fremur harðneskjulegan vetur og kalt vor síðustu daga þar sem þjálfurum datt í hug að notast þyrfti við keðjubrodda efst..
sem svo reyndist ekki vera raunin sem betur fer...

Fjallasýnin varð strax áhrifamikil ofan af Stardalshnúkum í saklausri 438 m hæð...
Hér til
Móskarðahnúka sem nú skipta óðum yfir í hlýja sumarlitina sína og eru alltaf jafn lokkandi...

Sjá Bláhnúk lítinn en fagurmótaðan beint ofan hópsins neðst á Móskarðahnúkum.


Hæsti Móskarðahnúkur í baksýn

Mættir voru:

Anton, Arnar, Auður, Áslaug, Ásta Þ., Bára, Björgvin, Bryndís, Dóra, Dúna, Elsa Þóris., Elsa Inga, Guðmundur Jón, Guðjón Pétur, Guðrún Arndís, Guðrún Helga, Gunnar, Halldóra Á., Hanna, Hermann, Hildur Vals., Ingi, Jóhann, Jóhannes, Jón Tryggvi, Jón Júlíus, Katrín, Kjartan, Lilja B., Lilja K., Lilja Sesselja, María E., Ósk, Roar, Stefán A., Thomas, Þóra og Örn... með Díu, Drífu, Kát og Kol og Tímon jafn skoppandi glöð...


Stardalshnúkar í baksýn og enn lengra er Grímmannsfellið útbreidd í fjarska.

Eftir fremur létta göngu upp á Stardalshnúka gegnum Miðhamra var arkað yfir dalverpið yfir á Skálafellsöxl sem bókstaflega kallar á að vera klifin... þeim sem á annað borð mæna sífellt upp á fjöllin úr bílnum á leiðinni til Þingvalla... og það var enginn bilbugur á mönnum eftir nestispásuna...

Halldóra Ásgeirs og Roar sneru þarna niður dalinn að bílunum og nýttu vel þann kost að geta tekið hálfa æfinguna fremur en að sleppa henni alveg sökum þess hve löng hún var og er það engin spurning að menn geri þetta í sumar; ef þeir komast ekki alla leið, að ná sér engu að síður í góða fjallgöngu með hópnum fyrri hluta kvöldsins óháð svigrúmi með tíma eða form...


Kistufell Esjunnar í baksýn, Þverárkotsháls og Hátindur.

Bröltið upp á Skálafellsöxl var krefjandi upp þétt hornið en greiðfært og gott færi... og var mönnum vel verðlaunað erfiðið með frábæru útsýni sem skyndilega gafst yfir allt svæðið þegar upp á öxlina var komið og enn meira frá vörðunni... meðal annars á Hátind sem Stefán Alfreðs fór með félagana á þegar þjálfarar voru í fríi síðasta sumar í óborganlegu ævintýri...


Ok, Botnssúlur, Búrfell, Hlöðufell, tindaraðirnar og út af mynd voru Hrafnabjörg og Tröllatindar næstkomandi laugardagsins, Kálfstindar, Hekla o.fl.

Auðvitað gengum við alla leið á hæsta tind þó hann væri í meira en kílómeters-fjarlægð frá vesturvörðunni... þar sem við vildum sjá útsýnið betur austan megin... og það var þess virði... fjöllin í Hvalfirði, sunnan Langjökuls og á Þingvöllum blöstu við í austri undan svölum vindinum enda ríkti enn vetur þarna uppi á þessu vetrarfjalli þó veðrið væri mun betra en við áttum von á þetta kvöld.


Jósepsdalafjöllin, Bláfjöll, Þríhnúkar, Grindaskörð, Reykjanesfjöllin og nær er Grímmannsfell alveg útbreitt með Leirvogsvatn Lómatjörn og Geldingatjörn nær.

Aldrei virðist vera logn á Skálafelli... við höfum aldrei getað staldrað þar uppi í fjórum göngum Toppfara þarna upp... en það var ekki hægt að kvarta því þetta var besta skyggni og útsýni sem við höfum fengið ofan af þessu fjalli og við lögðum endurnærð á sálinni af stað til baka eftir þessa víðfeðmu fjallasýn þó ansi langur gangur væri framundan eftir allt bröltið upp... jú, jú, þetta var krefjandi æfing eins og lagt hafði verið upp með...


Leirvogsvatn, Lómatjörn og Geldingatjörn.

Niðurleiðin gekk vel meðfram fallegu gili sem óðum er að "sumrast" og menn tóku rásina hver á sínum forsendum alla leið í bílana enda skildi ansi mikið milli fyrstu manna og síðustu eða 3:38 - 4:12 klst. á 9,2 km langri leið upp á 438 m háan Stardalshnúkinn og 791 m hátt Skálafellið með alls 815 m hækkun með öllu miðað við 174 m upphafshæð.

Alvöru kvöldganga á einstaklega gott útsýnisfjall
...með nýrri sýn á Skálafell sem hækkaði um mörg stig á fjallavísitölunni ;-)
 


 

Litadýrð á friðsælli þriggja vatna leið
Upp á Grænavatnseggjar, Djúpavatnseggjar og Grænudyngju
Meðfram Spákonuvatni, Grænavatni og Djúpavatni...


Hópurinn að fara framhjá Spákonuvatni með tindana á Fagradalsfjallssvæðinu í baksýn
en Anton fór með félagana þar um í apríl til að æfa fyrir 24 tinda.

Tveimur dögum eftir stórfenglega göngu á Hrútsfjallstinda mættum við alls 32 manns á æfingu þriðjudaginn 10. maí og fengum sannkallaða litaveislu á Reykjanesi í blíðskaparveðri þó einn skúr hafi aðeins flækst þarna fyrir á kafla...



Gengið var meðfram þremur vötnum sem liggja kringum
Sogin
og var
Spákonuvatn fyrsti spegill kvöldsins með Keili í fjarska úti í hrauninu...



Gengið var upp með hryggjunum sem liggja milli vatnanna
og vöktu
Trölladyngja og Grænadyngja yfir okkur allan tímann...



Sogin skörtuðu sínu fegursta og fjöllin allt um kring nutu sín vel í veðurblíðunni... meðal annars Fíflavallafjall hér efst á mynd sem er á dagskrá vorið 2012 og Sveifluháls í fjarska hægra megin sem við þræddum okkur um í blíðskaparveðri í desember 2010...



Grænavatnseggjar voru skínandi klettaklöngur í svipmiklu landslagi...



Niður þær þurfti að klöngrast aðeins niður að
Grænavatni sem var eiginlega minna grænt en hin vötnin
en maður verður að trúa kortunum...



Þegar gengið var frá suðurströndinni meðfram Grænavatni og upp á eggjarnar utan með
Djúpavatni skreið síðdegisskúr yfir okkur með hálfgerðu útlensku yfirbragði í þessum lofthita, vatnsmagni og hverfulleika...



Hryggurinn vestan við
Djúpavatn sem rís hæstur kringum vatnið er nafnlaus eins og litla fellið austan við vatnið svo þjálfarar leyfðu sér að skíra hrygginn Djúpavatnseggjar í samræmið við Grænavatnseggjar sem hér rísa svipmiklar ofan við Grænavatn með Keili í þokunni vinstra megin á mynd.


Trölladyngja, Grænadyngja í fjarska vinstra megin.

Á Djúpavatnseggjum hætti ekki að rigna eins og þjálfara vonuðust til því þar uppi átti að borða nesti með 360° útsýni á fallegum tindi... en í staðinn skelltum við í okkur smá næringu í skjóli við klettinn og héldum svo áfram blaut og svekkt yfir þessum skúr sem kom eiginlega eins og þruma úr heiðskíru lofti þetta friðsæla kvöld.


Grænadyngja í baksýn

Niður úr rigningunni gengum við í betra veðri gegnum lækjarfarveginn um Sogin en þar var allt náttúrulega rennandi blautt eftir að nýlega hafði verið hellt úr fötum himinsins svo gönguleiðin meðfram læknum varð enn blautari en ætlunin var...

Litirnir á háhitasvæðunum í Sogunum voru alveg alvöru...

Leirinn loddi við skóna eins og lím.. jebb, þetta var náttúrulegur skóáburður sem þjálfari fer ekki ofan af að
er bara hollur fyrir skóleðrið ;-)

Sirrý var alveg í stíl við fallegt umhverfið og gleymdi sér við myndatökur í allri dýrðinni
eins og fleiri Toppfarar eiga til að gera í svona
töfraheimi  ;-)

Þegar ekki var lengra komist í drullumallinu var farið upp meðfram fossinum og haldið á eitt stykki fjall til viðbótar...

Stundum renna Toppfarar saman við umhverfið og verða eitt...

Þannig fullkomnast útiveran í einhverjum sameiginlegum takti og veldur því að væntumþykja manns og vinátta gagnvart landinu kallar mann sífellt aftur út að ganga... sama hvað veður, annríki, úrtölur í umhverfinu eða aðrar hindranir reyna...

Ofan úr suðurhlíðum Grænudyngju blasti göngusvæði dagsins við,
 jarðhitasvæðið og hryggirnir á
Grænavatnseggjum og Djúpavatnseggjum.

Keilir er eitt af þessum fjöllum sem halda glæsileika sínum öllum stundum þrátt fyrir lága hæðartölu enda fær það að standa eitt og sér upp úr landslaginu en það er merkilegt nokk lægra (378 m) en það hæsta sem við gengum á þetta kvöld...

Betra útsýni yfir gönguleið kvöldsins...
Djúpavatn vinstra megin, Djúpavatnseggjar, Sogin og Grænavatnseggjar hægra megin.

Auðvitað gátum við engu eirt fyrr en tindi Grænudyngju var náð og það var þess virði... ofan af henni gafst útsýni til borgarinnar og norðurfjalla höfuðborgarinnar og hraunin öll á Reykjanesi með fjöllum sínum og fellum.... meira að segja til Ásfjalls í Hafnarfirði sem er í algerum sérflokki ;-)



Gárungar
hópsins voru í essinu sínu... eins og vanalega
og voru ekkert að skafa utan af því... frekar en vanalega ;-)

Mættir voru:

Leifur, Thomar, Rósa, Rikki, Anton, Kalli, Kári, Sjoi, Alexander, Katrín, Gerður, Örn, Jóna, Sigga Rósa, Kjartan, Anna Elín, Kristín Gunda, Bryndís, Jóhann, Guðmundur Jón, Þora, Guðrún Arndís, Dósa, Nonni, Hermann, Hildur, Guðrún Helga, Halldora Gyða, Guðrún Helga, Arnar, Óli og Sirrý en Bára tók mynd og Drífa, Kolur og Von voru þarna einhvers staðar...

Niður af Grænudyngju var loks snúið til baka ofan af þessu fallega og mjúka fjalli
og vorum við í fyrsta sinn að sjá landslagið á því hreint og þokulaust.


Glittir í Spákonuvatn vinstra megin á mynd.

Þeir sem vildu fengu síðasta tindabröltið á klettunum sem rísa utan í suðvesturhlíðum
Grænudyngju
og sjást hér hægra megin á mynd.

Þjálfari skoraði auðvitað á menn að taka alltaf allt sem gefst á göngu og tæpur helmingur hópsins lét sig hafa það ;-)
frekar en að strauja beint í bílana um ljúft gilið meðfram klettunum...



Sólarlagið þetta kvöld var fallegt og Keilir lét okkur ekki í friði... hey, sjáiði mig...
Sólin settist logandi roðagullin þegar við vorum komin í bæinn til að fullkomna kvöldið...

>

Leifur og Alexander létu þennan ekki framhjá sér fara áður en þeir fóru heim...

Afskaplega falleg ganga

...á alls 7 km leið á 3:01 - 3:05 klst. upp í 394 m, 367 m og 381 m hæð
með alls hækkun upp á
621 m miðað við 242 m upphafshæð.


 

Sumarið kom á Sköflungi

Loksins gengum við í góðu veðri... með skyggni... fuglasöng... grasgrænku (það var smá!)... sól á lofti...
og nutum þess niður í tær að taka hörku kvöldgöngu í vestasta hryggnum sem rís í eða við
Dyrafjöllin á Nesjavallasvæðinu
þriðjudaginn 3. maí...

Nokkrir Perúfarar voru mættir til leiks úthvíldir og stálhressir...
 
Hrútsfjallstindafarar spenntir en áhyggjufullir yfir veðurspánni næstu helgi...
 Ok-tindafararnir hvergi smeykir og til í allt eftir afrekið síðastu helgi...
  þrír
nýir meðlimir, þau Árni, Kristín Erla og Svavar...
 og síðast en ekki síst hann Óskar Wild
Fjallhress frá Egilsstöðum sem ætlar með okkur á Hrútsfjallstinda
ásamt Skúla Wild Fjallhress þann 7. maí... ef veður leyfir...

Vörðuskeggi Hengli,
Ásta Henriks, listrænn ljósmyndari Toppfara sem er að hugsa um að fara aftur 24 tinda í ár,
Bryndís sem ætlar á Hvannadalshnúk næstu helgi,
Halldóra Gyða sem er að æfa fyrir maraþon í Kaupmannahöfn eftir tvær vikur og Laugaveginn í júlí
og
Óli en þau hjónin gengu á Eyjafjallajökul fyrir rúmum tveimur vikum en lentu í leiðinlegu veðri og engu skyggni...

Útsýnið og landslagið yndislegt þetta kvöld...

Hengillinn í skýjunum... og enn í vetrinum...

Kári, Lilja og Auður á sínum röska gönguhraða svo nánast var gengið út úr myndinni... 
( ljósmyndaranum þóttu það forréttindi að ná þeim á mynd ;-) )
...ásamt félögum sínum og syðsta hluta Sköflungs í baksýn...

Smám saman reis hryggurinn þar sem hann er skornastur í suðri...

... og klöngrið jókst...

Eggjarnar á Sköflungi sunnan við stærsta skarðið í honum eru illkleifar... hægt að klöngrast upp á þær á ýmsum stöðum við illan leik í lausagrjóti en lítið hægt að fara um þær að ráði, svo við fórum austan megin við þær og vildum ekki láta þar við sitja þar sem landslagið átti bara eftir að verða ævintýralegra sunnar á hryggnum....

Tignarlegt og greiðfært... og snjóskaflarnir sem þjálfarar óðu yfir í könnunarleiðangri fyrir viku síðan nánast horfnir...
...það er greinilega komið sumar...

Nestispásan sem þjálfarar voru búnir að lofa var tekin á fallegum stað sunnan við sorfnar eggjarnar
með lækkandi hrygginn þar með.

Þar þurfti þjálfari endilega að verða voða alvarlegur og fara að nöldra smá um úrgang og umgang og svoleiðis mál
en þess skal þó minnst að best er að taka
allan sinn nestisúrgang með sér þegar gengið er í óbyggðum (þ.e. setja þá líka hýði og allt af nestinu í poka) því að það er hreinlegast fyrir þá sem á eftir koma - en þar sem rök þeirra sem vilja meina að lífrænn úrgangur megi verða eftir standast ágætlega (það má t.d. spyrja sig hvort sé umhverfisvænna fyrir jörðina á endanum í heild að lífrænn úrgangur úr matnum pakkist í plastpoka og fari með öðru rusli eða eyðist upp í náttúrunni) - vill þjálfari höfða til mats hvers og eins með þá afstöðu og mælist til þess að ef menn vilja að lífrænn úrgangur fari sína hringrás úti í náttúrunni þá gangi menn vel frá honum undir steini eða með öðrum greftri svo hvergi sjái á umhverfinu fyrir næstu sem ganga um svæðið ;-)

Varðandi um-yfir-gang þá líkti þjálfari hópnum við fílshjörð sem engu eirir þegar hún fer um (gleymist engum sem séð hefur í ferðalögum í Afríku þar sem hjörðin gengur þvert yfir tjaldstæði!)... og var þar ansi dramatískur eins og hún á oft kyn til... ;-) ...en pössum mosann og gróðurinn, þetta eru vinir okkar í raun þegar gengið er um hrjóstruga íslenska náttúru sem mýkist þakksamlega við hverja mosaþúfu, stingandi strá eða þrjóskt blóm... þessir snillingar af náttúrunnar hendi eiga skilið að fá að standa fyrir að standast íslenska veðráttu ;-)

Ha?... fórum við í alvörunni þarna upp og niður í fyrra...?

Útsýnið í pásunni ekki af verri endanum, m. a.  niður að Þingvallavatni og fjallakransi þess þar sem nær okkur, hinum megin Folaldadala risu Jórutindur og Hátindur sem við klifum í ágúst í fyrra í blíðskaparveðri miklu svo seint gleymist... þremur vikum eftir ævintýralega ferð á Dyrfjöll og Snæfell á norðausturhluta landsins.

Skuggar Sköflungs nær í stíl við tindana fjær enda í raun hluti af sama fjallgarði sem kallast Dyrafjöll og liggur eins og nokkrir misbreiðir hryggir frá suðri til norðurs með misdjúpa og breiða dali á milli... það hefur mikið gengið á hér í eina tíð...

Brjálað stuð

...hjá Auði, Hildi Vals., Hermanni, Vallý, Kára, Antoni, Ágústu, Lilju K., og Hjölla... ;-)

Mest var hlegið þegar bakpokinn hennar Lilju rúllaði af stað niður brekkurnar...
og næst mest þegar enginn af strákunum fór á eftir honum...
það var bara Liljan sjálf sem allt kann sem hljóp á eftir sínu hafurtaski
og þurfti ekki hjálp í þessu né öðru...

Auðvitað kláruðum við hrygginn til enda... ekki annað hægt á björtu sumarkveldi þegar tíminn stendur í stað og allt gleymist nema núið... þar til þreytan sagði til sín í bakaleiðinni og áhyggjur yfir klukkunni, vinnudeginum á morgun
og fleira leiðinlegt rauf
kyrrð kvöldsins...

Nýir svipir á hryggnum og töfrandi fallegt umhverfi sem var þess virði að keyra sig út fyrir...

Minni eggjar sem einnig voru teknar með austurhlíðarbrölti...

Björn, höfðingi Toppfara sem farið hefur í margar af erfiðustu göngur hans frá upphafi...
Óskar Wild, heiðursfélagi Toppfara og annar af tveimur leiðsögumönnum fjallgönguklúbbsins Fjallhress sem hann stofnaði með Skúla Wild í fyrrahaust en þeir ganga með félaga sína á fjöll einu sinni í mánuði og ætla með yfir 20 manna hóp á Hnúkinn
þann 21. maí;  http://wildboys.123.is/home/ ...
Kjartan, einn af sterkustu og ötulustu göngumönnum klúbbsins frá fyrsta degi...
og
Áslaug sem allt getur enda hluti af kjarnagöngumönnum Toppfara
sem gæða fjallgönguklúbbinn einstökum jákvæðum anda er skiptir sköpum á ögurstund...

Öll á leiðinni á Hrútsfjallstinda næstu helgi... eða hvað segir veðurspáin núna...?

Fríður flokkur á ferð :

Alma M., Anna Sigga, Anton, Arnar, Auður, Ágústa, Áslaug, Ásta H., Ásta Þ., Bára, Björgvin, Björn, Bryndís, Einar Rafn, Einar S., Elsa Þ., Elsa Inga, Gerður J., Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Halldóra Gyða, Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Jóhann Pétur, Jóna, Hanna, Katrín, Kári Rúnar, Ketill, Kjartan, Kristín Erla, Kristín Gunda, Leifur, Lilja B., Lilja K., Óli, Óskar, Rikki, Roar, Rósa, Sirrý, Snædís, Svavar, Thomas, Torfi, Valdís, Vallý, Þóra og Örn... ásamt Dimmu, Díu, Kát, Kol, Von og Töru... fleiri ferfætlingar ?

Þegar lítið sem ekkert var eftir af hryggnum... þarna sem hann rann út og hvarf í hraunið... snerum við til baka og straujuðum hver á sínum hraða alla leið í bílana og skildu rúmlega 20 mínútur milli æstustu og rólegustu manna ;-)

"Hey, Óskar... þarna eru svona dyr í fjöllunum okkar... jú, jú, það er satt, þetta er svolítið flatt og lágstemmt
hérna fyrir sunnan"

EKKERT í líkingu við Dyrfjöllin þeirra Skúla og Óskars...
sem þeir sýndu Toppförum í fyrrasumar við ógleymanlegan orðstír...

Þeir sem eiga þau fjöll eftir er bent á dagskrá http://wildboys.123.is/home/ í sumar ;-)

Ásta Henriks, Sirrý, Björn, Lilja B., og Ketill að geysast um Folaldadali til baka
með góða sýn á hrjúfan hrygginn á Sköflungi vinstra megin á mynd.

Dásamlegt sumarævintýri

...sem endaði með heilum 9,0 km á 2:56 - 3:17 klst. upp í 432 m hæð hæst
með
570 m hækkun alls miðað við 388 m upphafshæð.

Pant fá svona fallegt og friðsælt kvöld aftur... sem fyrst... í næstu viku takk... alltaf... eða næstum því alltaf... eða svona annað hvert skipti væri gott.. því það er gaman í góðu veðri og slæmu ef það er skipt nokkuð jafnt á milli ;-)
 


 

Hlýjir en hvassir vorvindar
á Arnarfelli

Fyrsta æfing sumarsins var á vinalega litla fellið í austurenda Þingvallavatns þriðjudaginn 26. apríl og mættu 26 manns.


Guðmundur Jón, Rósa ofar, Katrín, Hermann, Snædís, Guðrún Helga, Dóra, Nonni, Gísli, Kjartan og hanna... en margir hverjir á þessari æfingu hafa mætt mjög vel síðstu vikur þrátt fyrir erfið beður og gefa aldrei eftir.

Gengið var upp norðaustan megin og fellið þrætt til suðurs með vindinn úr suðaustri svo hvassan á köflum
að menn héldu varla velli á efstu tindum...

Landslagið og útsýnið hins vegar svo fallegt... og engin úrkoma úr lofti... og vindurinn svo hlýr... og oft ansi skjólgott...
að við nutum hvers augnabliks...

Í grænni lautu... bráðum ;-) ! ... voru mættir:

Efri: Gísli, Leifur, Björgvin, Guðmundur Jón, Katrín, Guðrún Helga, Örn, Thomas og Hanna.
Neðri: Ósk, Snædís, Súsannam, Svala, Hermann, Helga Bj., Kristín Gunda, Nonni, Día, Kjartan,Lilja Sesselja, Dóra, Drífa, Anton, Sæmundur, Anna Sigga, Rósa, Irma og Bára sem tók mynd.

Landslagið á Arnarfelli sveik ekki og við fundum alls kyns skjólgóða staði til að borða nesti
og safna kröftum gegn frekari vindi... jebb, það er aftur kominn "nestistími" á þriðjudögum... nú lengjast göngurnar og við tekur hver fjallaperlan á fætur annarri í sumar !

Niður af fellinu klöngruðumst við í suðvesturendanum og fórum gegnum eyðibýlið að Þingvallavatni.

Voru þetta íslenskar Inka-rústir eða hvað... ? ;-) - nánar síðar.

Slóðinn meðfram vatninu er svipmikill og við nutum þess að fara um lendur og strendur en ekki tinda og toppa...

Stundum aðeins tæpt en engan bilbug að finna á fólki sem fer upp um allt og út um allt öllum stundum ;-)

Fjallasýnin skýjuð að ofan en auðþekkjanleg eins og Ármannsfellið hér í norðri.


Kjartan, Örn og Hanna ætla á Hrútsfjallstinda eins og aðrir 20 Toppfarar...

Hrútsfjallstindafarar höfðu í nógu að snúast að pæla í alls kyns búnaði
...og saka þá sem gengu aftast og möluðu um heima og geima að vera komna með malaríu...


Gengið með norðurendanum við Arnarsetur.

Frábær æfing í sumarbyrjun sem kveikti vor-von í brjósti með því að gefa okkur sjö kílómetra notalegheit á 2:26 - 2:33 klst. upp í 251 m hæð (síðari tindurinn mældist hærri!) með 414 m hækkun alls.

Sumarið er komið... ...

...í hjartanu og vonandi á fjöllum næstu daga :-)


 

Meitluð afreksganga...
á bæði Litla og Stóra Meitil í erfiðu veðri og langri vegalengd á löngum tíma...
Svona æfingar herða menn til alls mögulegs og ómögulegs...


Brekkan niður af Litla Meitli með heiðina milli meitla og Stóra Meitil í fjarska efst á mynd.

Alls létu 34 Toppfara hafa sig út í að ganga á bæði Litla og Stóra Meitil þriðjudaginn 19. apríl á því sem átti að vera saklaus æfing á Litla Meitil og jú, hugsanlega á þann Stóra í leiðinni ef vel viðraði... en svo fór að gengið var á báða Meitlana þrátt fyrr erfiðar veðuraðstæður... sem versnuðu þegar á leið og skiluðu mönnum í bílana í rökkri, rennandi blautum og hröktum eftir 3ja og hálfs tíma göngu... Hvað voru þeir eiginlega að pæla?


Gengið í snjólínu frá fyrsta skrefi.

Lagt var af stað um sunnanvert taglið á Litla Meitli og bungur hans þræddar smám saman upp á hæsta tind með ágætis útsýni til fjalla í kring, en ekki lengra, enda buldi veðrið á Hellisheiði þegar við ókum upp eftir og um sunnanvert landið þó við værum í sómasamlegu veðri þarna á sjálfum Litla Meitli.


Brúnirnar á Litla Meitli.

Ákvörðun um að stefna á Heklu eftir tvo daga á skírdag var í umræðunni en framundan eru páskar með fádæma slæmri veðurspá um allt land nema helst á noraustanverðu landinu... villtu vinirnir okkar fyrir austan eru í miklu betri málum en við... sem erum að reyna að kreista út veðurglugga fyrir Heklu næstu fimm daga!


Útsýnið til suðurs á Litla Sandfell og Geitafell fjær með þjóðveginn um Þrengsli niður á láglendi.

Perú-brandarar og ýmsir gullmolar þaðan skutu okkur hlæjandi upp hlíðarnar og menn plönuðu þvílíka lúxus-tjaldferð í Skaftafelli þegar gengið skal á Hrútsfjallstinda þann 7. maí og létu þeir allan þennan snjó í 100 m hæð yfir sjávarmáli ekkert hafa áhrif á þau plön... enda er sumardagurinn fyrsti ekki fyrr en síðar í vikunni ;-)


Klettaborg Litla Meitils

Veðrið var með skásta móti á minni Meitlinum og við vorum í sólskinsskapi þrátt fyrir þennan óhemjugang í veðrinu þessa mánuðina.... fyrir utan reyndar þegar þjálfari skammaðist út í það og fullyrti að aldrei hefði annað eins vetrarlegt vor gengið yfir Toppfara... erum við að borga brúsann síðustu ár fyrir gegndarlaust góðviðrið síðustu ár...?


Félagar sem víla ekkert fyrir sér... og hafa fengið sinn skammt af erfiðum veðrum í vetur...

Hópmyndin á tindinum tókst ekki og dró þjálfari þá ályktun að  myndavélin væri í mótmælaaðgerðum vegna kulda og veðurs en þó náðist þessi af hópnum að yfirgefa tökustað... því mættir voru:

Anna Sigga, Anton, Auður, Ágústa, Áslaug, Bára, Björgvin, Björn, Bryndís, Elsa Þóris., Gerður Björns., Gísli, Guðmundur Jón, Halldóra Ásgeirs., Hermann, Hjölli, Hugrún, Irma, Hanna, jóhanna Karlotta, Katrín Kjartans., Katrín Reynis., Kjartan, Lilja Sesslja, Ósk, Roar, Rósa, Sirrý, Súsanna, Svala, Thomas, Þóra og Örn.


Útsýnið ofan af Litla Meitli yfir heiðina milli meitla og að Stóra Meitli í snjóþokunni lengst í fjarska hægra megin

Ofan af Litla Meitli leit þetta ansi vel út... leiðin að Stóra Meitli var saklaus og auðveld að sjá... þjálfari minnti á að vegalengdin væri rúmir 2 km á milli hvora leið og veðrið ætti að versna eitthvað fram eftir kveldi... þetta blekkti mann oft svona séð úr fjarlægð en þetta væri náttúrulega hollt og gott, sérstaklega í ljós þess að framundan eru stór verkefni á fjöllum... og það var náttúrulega engan bilbug á mönnum að finna... auðvitað færum við á báða Meitlana úr því við vorum komin staðinn...


Sjá glitta í Stóra Meitil hvítan í fjarska bak við dökka klettinn.

Og við lögðum í hann niður fallegar brekkurnar á Litla Meitli í norðri
og vorum fljótlega skottandi hratt á láglendinu milli meitla...


Færið var nógu blautt til að keðjurnar voru ekki notaðar af flestum þetta kvöld á þessum lágu fjöllum.

Þegar Stóri Meitill var í seilingarfjalrægð í suðurhlíðum versnaði veðrið og það fór að blása með snjóhríð og minna skyggni en fyrr um kvöldið. Þá var hins vegar svo stutt eftir... bara 1,1 km... bara 400 m... við héldum ótrauð áfram og gáfum ekkert eftir.


Irma, Svala og Halldóra Ásgeirs sem allar hafa lent í honum kröppum með Toppförum.

Allir vel búnir og öllu vanir... líka nestis-tíma-leysi í þessu friðlausa veðri og öllum harða pakkanum sem fylgir því að vera í Toppförum ;-)


Snúið undan brjáluðum vindi... en ekki brjáluðum ljósmyndara ;-)

Uppi var ekkert skyggni og í fjórða sinn í þessum klúbbi stóðum við á hæsta tindi á Stóra Meitli í roki og engu eða litlu skyggni nema í fyrstu göngunni 24. nóvember 2007 þegar vetrarsól skein í heiði en ískaldur vindurinn rak okkur niður: http://www.fjallgongur.is/aefingar/2_aefingar_okt_des_2007.htm

Þá tókum við æfingu á laugardegi og fannst þessi leið fín dagsganga sem tók 3:10 klst...

Nú var þriðjudagskvöld og við vorum á æfingu...

... og við rukum niður af tindinum eins og svo oft áður og röktum okkur um heiðina milli meitla og niður af Litla Meitli vestan megin aðeins of snemma framhjá klettaborginni en fengum skjól í staðinn og áfram eftir þúfum og hrauni alla leið að bílunum.. með vindinn stanslaust í andlitið og fangið... sífellt minnkandi birtu með rökkrinu... og smám saman blautari og blautari eftir snjóhríð sem breyttist í beljandi rigningu... og skiluðum okkur loksins í skjól eftir 3:25 - 3:45 klst. göngu á alls 10,1 km langri leið  upp í 492 m og 539 m hæð með 678 m hækkun miðað við 220 m upphafshæð - hvaða bilun var nú þetta?

Jú, bara afrek á þriðjudagskveldi sem menn mega vera afskaplega ánægðir með og þakklátir því svona æfing herðir þá sem tóku hana - hvað þolir maður ekki þegar svona lagað er hægt að gera á æfingu í erfiðu veðri?

Menn voru bókstaflega teknir út úr þægindahringnum sínum... þeir sem þoldu það ekki þurfa að fara miklu oftar út úr honum... til að losna við óöryggið gagnvart erfiðum aðstæðum og krefjandi tindferðum... Þeir sem þoldu að fara út úr þægindahringnum sínum voru himinlifandi með kvöldið enda mæta þeir í tindferðir með bros á vör og tilhlökkun í hjarta því veður, erfiðar aðstæður, myrkur o.s.frv.... ógnar þeim ekki.

 Munið að svona æfing skilar manni jú líkamlega sterkari eftir strembna göngu við erfiðar veður-aðstæður en fyrst og fremst sálrænt sterkari því með auknu sjálfstrausti á fjöllum vita menn hvers þeir eru raunverulega megnugir og óttaþröskuldurinn gagnvart erfiðum veðrum og löngum göngum hækkar og veldur því að menn leggja öruggari í erfiðar ferðir sama hvað.
 


 

Vetrarharka á Móskarðahnúkum

177. æfing og sú fyrsta með þjálfurum eftir Perúferðina var þriðjudaginn 12. apríl á Móskarðahnúka
og mættu 38 manns og fimm hundar.

Veðurspá var ekki mjög hagstæð og í samræmi við rysjótt veðrið sem ríkt hefur samfellt alla síðustu viku og spáð í þeirri næstu á Íslandi... en þetta leit vel út á staðnum og var lygnt og milt mestan part göngunnar en hörkubylur efst og ekkert skyggni.

Þegar komið var ofan við Bláhnúk og hliðarhallinn góði utan í næst hæsta Móskarðahnúkanum tók við inn að skarðinu 
skelltum við hálkjukeðjunum undir skóna þar sem færið harðnaði upp úr 600 m hæð.

Ásta Þórarins að setja gömlu góðu hálkugormana undir en Þóra og Ósk komnar með keðjurnar frá Kahtoola... og af brosinu að dæma geta þær greinilega ekki beðið eftir því að halda áfram inn í veturinn sem ríkti þarna uppi ;-)

Inn í snjóþokuna gengum við og fengum því miður aldrei útsýni hvorki á fagurt nærumhverfið né niður í sveitir og byggðir á láglendinu svo þetta var í fyrsta sinn sem við fengum ekki gott veður á Móskarðahnúkum í finmmtu ferð Toppfara þangað upp.

Í skarðinu milli hnúkanna var fremur hvasst og hálkan versnaði til muna síðasta spölinn upp á hæsta tind, svo þau þrjú sem ekki voru á keðjum, heldur eingöngu gormum, urðu frá að hverfa og bíða niðri í skarði.

Þetta tókst ágægtlega alla leið, þrautsegjan og eljan sagði til sín þegar hálkublettirnir voru orðnir samfelldir
og vindurinn vildi feykja mönnum fram af eða niður um... en skyndilega vorum við komin upp og ansi ánægð með að klára við fremur erfiðar aðstæður.

Hópmynd á tindinum..?... neibb, ljósmyndarinn fauk bara þarna úti á nösinni og mátti þakka fyrir að haldast á jörðinni og halda hópnum í sjónmáli svo við snerum við aftur sömu leið... og allar áætlanir um að þræða sig á hina hnúkana í ægifögru útssýni með hvíta, ljósa tinda Móskarða glitrandi í kvöldsólinni voru úr sögunni að sinni... þarna uppi sást hvorki tangur né tetur af vorinu...

En það var ekki hægt að kvarta því þrátt fyrir allt, einhvur fögur lönd á framandi slóðum og slíka hluti þá er  "Ísland langbest" og Perúfarar vissu sem var að hressandi vindurinn, herðandi kuldinn, þjálfandi hálkan, fannhvítur snjórinn og kampakátir göngufélagarnir sem ekkert víla fyrir sér... eru allt forréttindi sem við megum ekki gleyma að kunna að meta... því þau eru - öll atriðin sem eitt - öfundsverð þeim burðarmönnum og leiðsögumönnum sem við kynntumst í Perú því sumir þeirra höfðu aldrei ekki einu sinni upplifað snjókomu í lífiinu... hvað þá gengið á fjöll sér til gamans... í góðum skóm og dúnmjúkri úlpu...

Hópmyndin tókst hins vegar í skarðinu neðan við tindinn því menn voru ekki lengi að verða við beiðni þjálfara um eina mynd
af sér eftir "endalausar hópmyndir í tæpan mánuð af einhverjum fámennum hópi Perúfara" ;-)

Anton, Ágúst, Ágústa, Ásta Þórarins, Bára, Björgvin, Bryndís, Elsa Inga, Elsa Þórarins, Gísli, Guðmundur Jón, Halldóra Gyða, Heiðrún, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Hjölli, Hugrún, Ingi, Irma, Hanna, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Júlíus, Katrín Kjartans, Katrín Reynis., Kjartan, Leifur, Óli, Ósk, Roar, Rósa, Sirrý, Snædís, Svanur, Sæmundur, Þóra og Örn.

Og Dimma, Drífa, Kátur, Kolur og hvað heitir aftur hundurinn þinn Jóhannes, ótrúlegt hvað ég man það aldrei!?

Niðurleiðin var ansi snögg niður snjóskafla og mjúkar brekkur að slepptri hálkunni, en veðrið var áfram hörkulegt ofan fjallshlíða þar sem Hátindur Esjunnar mátti ekki einu sinni vera að því að sýna sig í bardaganum við vetrarskýin.

Einhvern veginn tókst okkur að fara einn samfelldan snjóskafl niður allar heiðarnar að mosanum
 og bunan var tekin á afturendanum eða fótunum eftir smekk og halla...

Sannkallað íslenskt vetrarævintýri beint í æð svona áður en vorið tekur endanlega við... eða hvað...? sem endaði á 7,1 km á 2:58 - 3:10 klst. upp í 832 m mælda hæð (gps-tækið var ekki að ná þessum lágu hæðartölum eftir Perú) - (807 m opinbert) með 672 m hækkun miðað við 160 m upphafshæð.

Ísland er best...

...bara sængin, rúmið, maturinn, vatnið, loftið, vindurinn, hreinlætið, fjölskyldan, óbyggðirnar, stemmningin, Toppfararnir, fjölbreytnin, harkan, einfaldleikinn, fámennið, einlægnin... að  maður tali nú ekki um björtu sumarkvöldin því nú dimmir rúmum 3 klst. fyrr í perú... og að maður tali nú ekki um velmegunina... hvað við höfum það margfalt betra en fólkið í Suður-Ameríku... verum þakklát fyrir Ísland og þau tölfræðilegu ólíkindi að hafa fæðst á þessari litlu eyju í norðurhafi ;-)

Ísland

Þú nafnkunna landið, sem lífið oss veittir,
landið, sem aldregi skemmdir þín börn,
hvert þinnar fjærstöðu hingað til neyttir,
hún sé þér ódugnaðs framvegis vörn.

Undarlegt samband af frosti og funa,
fjöllum og sléttum og hraunum og sjá
fagurt og ógurlegt ertu, þá brunar
eldur að fótum þín jöklunum frá.

Fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði,
fjöll sýni torsóttum gæðum að ná.
Bægi sem kerúb með sveipandi sverði
silfurblár ægir oss kveifarskap frá.

Þó vellyst í skipsförmum völskunum meður
vafri að landi, ég skaða ei tel,
því út fyrir kaupstaði, íslenzkt í veður,
ef hún sér vogar, þá frýs hún í hel.

Ef læðuskaps ódyggðir eykjum með flæða
út yfir haf vilja læðast þér að,
með geigvænum logbröndum Heklu þær hræða
hratt skalt þú aftur að snáfa af stað.

En megnirðu ei börn þín frá vondu að vara
og vesöld með ódyggðum þróast þeim hjá,
aftur í legið þitt forn aþá fara,
föðurland, áttu og hníga í sjá.

Bjarni Thorarensen (1786-1841) - Skólaljóð.

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is