Í frosti og funa

Á Dalafelli
upp á Dalaskarðshnúk
yfir Kyllisfell
kringum Kattartjarnir
niður um Reykjadal
og ofan í Klambragilslaug...

Þar sem fjöll og fell, gljúfur og gil, lækir og mýrar, tjarnir og vötn, hverir og uppsprettur, náttúrulaugar og sundlaugar
komu við sögu í heillandi andstæðum hita og kulda...


Morgunmatur við rjúkandi heitt hverasvæðið vestan undir Dalaskarðshnúk

Alexander, Alma M., Anna Sigga, Anton, Ágústa, Áslaug, Ásta Snorra., Bára, Björgvin, Dúna, Einar Rafn, Elsa Þ., Guðmundur Jón, Gunnar Viðar, Halldóra Á., Hanna, Heiðrún, Helga Bj., Hermann, Hildur Vals., Ingi, Irma, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Atli, Jóna, Katrín, Kjartan, Lilja B., Lilja K., María E., Ósk, Roar, Rósa, Sigga Sig., Snædís, Súsanna F., Sæmundur og Örn.
Og Dimma, Día, Kolur og Tína skófluðust með í snjónum...
Þar af voru Dúna og Jón Atli að koma í sína fyrstu tindferð með hópnum

Í fimmtugustu tindferð klúbbsins laugardaginn 19. febrúar var farin fjölbreytt gönguleið um háhitasvæðið norðan Hveragerðis þar sem vatn í ólíkum birtingarmyndum kom við sögu og tóku 39 Toppfarar þátt í vatnaleiðangrinum.

Veðrið var framar öllum vonum og öllum veðurspám í léttskýjuðu veðri með sólina mestan part á lofti og fremur léttan vindi úr austri sem var hægari en spár gerðu ráð fyrir og virkaði eins og saklaus gola á mann eftir "storminn" sem geysað hefur með hléum það sem af er árinu.

Lagt var af stað gangandi kl. 8:51 frá malarstæðinu við ánna í smá vindi en hlýju veðri og háskýjuðu.

Dalafellið framundan úr fyrstu hlíðum með rjúkandi heita hveri á leiðinni
en þarna eru góðir slóðar sem mikið er farið um gegnum hversvæðið í upphafi gönguleiðar inn að
Reykjadal.

Við fórum hins vegar fljótt út af slóðanum og beint upp á Dalafellið sem gaf ansi gott útsýni ofan af ekki hærra fjalli.

Komin á hrygginn á suðurhluta Dalafells og framundan heiðar fellsins að hæsta tindi norðan megin.

Litið til baka yfir heiðar Dalafells og kambana upp austurhlíðar Hellisheiðar með þjóðveg eitt í sjónmáli.

Já, veðrið var ansi gott... gat verið að við yrðum heppin og spáin myndi ekki rætast...?

Búnaður í umræðunni... Perú... og sumarið framundan... enda vor í lofti og þá er sumarið alltaf í seilingarfjarlægð í huganum...

Á leið á næst hæsta tind á Dalafelli í góðu snjófæri með léttskýjaðan himininn ofan okkar.

Stefnt á hæsta tind Dalafells með gljúfrið á Folaldahálsi hægra megin á mynd þar sem Grænsdalur (nafn á korti... eða Grændalur, Grænidalur) tekur við austan við Dalafell ólíkt Reykjadal sem liggur vestan við fellið.

Skálafell á Hellisheiði í fjarska hvítt sem stríta á Hellisheiðinni en það er á dagskrá í byrjun mars
og
Molddalahnúkar hægra megin sem við gengum fyrst á 2008 og ætlum aftur á núna í sumar 2011...

Hengillinn í fjarska hvítur með Vörðuskeggja hægra megin eiginlega í hvarfi fyrir austari bungum.

Úr Dalaskarði fórum við vestan megin við Dalaskarðshnúk niður í Reykjadal í leit að skjóli fyrir fyrsta nestistíma dagsins.

Smá snjóhengja á leiðinni sem Ósk og Halldóra Ásgeirs renndu sér náttúrulega niður um eins og hinir ;-)

Er þetta ekki bara fínn nestisstaður... hlýtt og notalegt í hveragufunni í snjónum...

Frost og funi voru sannarlega vættir dagsins...

Södd og vel hvíld eftir einstaklega fallegan nestisstað lögðum við aftur í hann upp á Dalaskarðshnúk.

Yndislegt veður og brakandi skemmtilegt færi...

Dalaskarðshnúkur framundan.

Litið til baka... Sigga Sig og Alexander með Reykjadal og Klambragilslaug í fjarska neðar
og
Molddalahnúkar ofan þeirra og lengst í fjarska er Skálafell á Hellisheiði.

Ofan af Dalaskarðshnúk blasti Álftatjörn við með Kyllisfellið hvítt í fjarska og Folaldahálsinn framundan
með glæsilegu gljúfri sem líður niður í
Grændalsbotn.

Ingi og Sæmundur fremstir á mynd með félaga sína fjær eins og Ósk, Gunnar, Ágústu, Önnu Siggu, Ástu Snorra, Helgu Bj., Súsönnu, Irmu, Hönnu, Björgvin, Lilju K., Ölmu, Halldóru Á., Anton, Roar, Kjartan og Lilju Bjarnþórs.

Og hérna eru þessar elskur nær á mynd ;-) ...undarlega alvarlegur svipur á sumum sem er mjög sjaldgæf sjón... ;-)

Til viðbótar sést nú í Alexander, Guðmund Jón, Dúnu, Katrínu, Siggu Sig. og Heiðrúnu.



Gljúfrið á
Folaldahálsi milli Dalaskarðshnúks og Kyllisfells var ansi fallegt og þar stukkum við yfir eina lækjarsprænu.

Ósk að gera sig klára fyrir lækjarhoppið...

Friður og fegurð voru líka vættir dagsins...

Lögð af stað upp á Kyllisfell.

Við þrjóskuðumst við að fara í hálkukeðjurnar þar sem færið var að mestu gott
en hálkublettir þó innan um og erfitt að fóta sig um leið og það var einhvur bratti á leiðinni.

Litið til baka ofan úr hlíðum Kyllisfells í átt að Dalafelli sem þarna sést með Grændal vinstra megin við sig
og
Dalaskarðshnúk hægar megin sem skyggir á Reykjadal sem er í hvarfi hægra megin.

Sjá glitta í þjóðveg 1 upp á Hellisheiðil.

Hópurinn að þétta í skjóli við fellsbrúnina á Kyllisfelli.

Jú, það var betra að fara bara í hálkukeðjurnar...

Komin á góðan útsýnisstað á Kyllisfelli en það mældist hæst 493 m hæð aðeins sunnar.

Þaðan var glimrandi fagurt útsýni um fjallahringinn kringum Þingvallavatn og nærliggjandi svæði
en jöklarnir og eldfjöllin fjær földu sig í skýjunum.

Bára lét hópinn snúa við til að ná hópmynd frá þessum fagra stað eins og nokkrum sinnum áður... agalegt...
en það var alveg þess virði eins og áður þegar menn lenda í þessu óleik þjálfara...



Hópmyndin dýrkeypta

Með tindahrygg
Hrómundartinds vinstra megin á mynd, Stapafell aftan hópsins og Kattartjarnahryggi hægra megin nær.
Norðan Þingvallavatns rísa
Búrfell, Botnssúlur, Ármannsfell og aðeins sést í Hrafnabjörg og á ströndinni austan  megin eru Arnarfell og Miðfell.
Allt fjöll sem komin eru í safn Toppfara nema
Hrafnabjörg sem er á dagskrá í lok maí 2011 og Miðfell sem er á framtíðarplani...



Stapafell, Kattartjarnahryggir, Kattartjarnir og Súlufell nær.

Skyggni var tært um fjallasalinn á Ölkelduhálsi og kringum Þingvallavatn og landslagið tignarlegt í vetrarklæðunum

Hanna, Alexander, Hermann, Ásta Snorra, Sæmundur og Björgvin með norðurhlíð Kyllisfells í baksýn.

Kattartjarnir eru óhugnanlega fallegar... en voru helfrosnar og snævi þaktar þennan dag...



Snarbrattir og ægifagrir austurklettar þeirra
rísa svartir yfir djúpbláum tjörnunum að sumri til.
TjarnirÞær nutu því miður sín lítils í snjósköflunum.

Jóhannes á einum af sínum góðu útsýnisstöðum...

Þar sem tjarnirnar voru frosnar og snævi þaktar gengum við hreinlega yfir þær þverar í stað þess að taka krók kringum þær
og stytti þetta gönguferðina í heild um tæpan kílómetra.

Sjá móta fyrir strönd tjarnanna hægra megin á mynd þar sem vanalega þarf að ganga í fjöruborðinu og sneiða meðfram klettunum fyrir miðri mynd en þar er kaðall ofan í klettunum til að komast hjá því að blotna við að fara meðfram klettunum að sumri til.

Jóhannes renndi sér niður skaflinn niður á tjarnirnar og verður gaman að skoða þennan stað þar næsta sumar en eins og sjá má á mynd er möl næst klettunum þarna en vatnsyfirborð Kattartjarna sem og annarra vatnasvæða hefur minnkað mjög mikið síðustu ár.

Nestistími við vesturhlíðar Kattartjarna með sólina brakandi bjarta á himni.

Ekki alveg hlýjasti tími ársins en hópurinn öllu vanur
og þetta var lúxusaðstaða miðað við kaldar, brattar, vindasamar fjallshlíðar...

Red Alert
...er nýr hópur í búnaðarliði Toppfara sem óðum fer vaxandi
og er kominn í samkeppni við
Team Orange...

Hláturinn mættur á svæðið til að hita menn upp eftir svalt nestið...

Eftir Kattartjörnum var gengið í snjónum og þjálfarar syrgðu fegurð svæðisins sem ekki fékk notið sín í þessum snjófargani
en við látum okkur bara hlakka til að skoða þetta síðar...

Álftatjörn fékk sömu útreið og Kattartjarnir... þveruð hikstalaust þar til menn komu að blautri ræmu í suðvesturendanum og stöldruðu við þessa áminningu um að menn væru nú að "ganga á vatni"...

Þar var hópurinn þéttur og menn skoppuðu yfir blautlendið sem virtist vera lækur sem rennur gegnum tjörnina og sást móta vel fyrir honum, kannski af því hann er heitari en tjörnin eða hvað... ekki gott að vita.

Ingi, Áslaug, Ósk, Sigga Sig., Heiðrún, Hermann og Halldóra Ásgeirs.

Komin að Reykjadal aftur með Molddalahnúka og Ölkelduhnúka framundan.

Gönguleiðin niður í dalinn var undir snjó og við skófluðumst áfram.

Þjálfarar völdu bröttu leiðina niður í dalinn þar sem snjófærið var gott
og var þetta ágætis verkefni á þessum "flata" göngudegi.

Gunnar og Anton skelltu sér lengri leiðina eftir gönguleiðinni þar sem þeir fengu sér langa góða sleðaferð í snjóbrekkunni...

Brekkan niður að hópnum innst í Reykjadal.

Molddalahnúkar vinstra megin og Ölkelduhnúkar eins og við nefndum þá árið 2008 hægra megin þar sem kort eru misvísandi
en eftir á að hyggja er Ölkelduhnúkur líklegast hinum megin dalsins og þessir tveir þá nafnlausir... eða hvað?... sjá síðar...

Hópurinn þéttur í Reykjadalnum.

Komið að heita hvernum innst í Reykjadal.
Hann er úr alfaraleið en vel þess virði að skoða.

Það var ólíkt sumarlegra innan um þennan jarðhita...

Ágústa, Gunnar, Hanna, Anna Sigga, María, Halldóra Á.,
Björgvin, Sigga Sig., Heiðrún, Hildur Vals., Hermann, Jjóna, Lilja K., Dúna og Sæmundur.

Heiti grái hverinn með Gunnar, Björgvin og Jónu nær á mynd.

Vamos a la playa
Förum á ströndina... í Reykjadal... þetta hljómaði betur en förum í lækinn í þessu kalda en fallega umhverfi...



Í Reykjadal voru andstæðurnar hróplegar með bullandi heita hveri allt um kring í snjóhvítum dalnum og rjúkandi heita
Klambragilslaugina sem lykkjaðist lokkandi þvert niður dalinn og náði að sigra sautján göngumenn ofan í áður en gengið var til baka í bílana...

Það var nóg að gera í Klambragilslaug... tvær 2ja manna grúppur þegar í læknum á sitt hvorum staðum og meðan við böðuðum okkur bættust tveir hópar við og enn annar skoðaði sig um.
 

Allt erlendir ferðamenn nema við og áttum við... íslensku víkingarnir...  erfiðast með að stinga tánni, hvað þá meira ofan í lækinn...

Eigum við nokkuð að fara ofan í... æj, nei, ég ætla ekki... jú, hva, þetta er ekkert mál, maður sér sko ekki eftir því... ha, nei, þetta er ískalt!... ég nenni þessu eiginlega ekki, förum bara í heita pottinn í Hveragerð... ha, ætlar enginn ofan í... jú, við ætlum, auðvitað, það var planið, ekkert væl, þetta er ekkert mál...

Uno cerveza poco a la playa de Reykjadalur ;-)

Alma, Sæmundur, Jón Atli, Kjartan, Örn, Gunnar, Björgvin og Áslaug með Tínu sem vildi vera með í öllu... líka að baða sig í læknum og skildi ekkert afhverju henni var ekki boðið ofan í ;-)



Þau sem létu sig hafa það að "fara á ströndina í Reykjadal"... og eiga nú Klambragilslaug í vetrarklæðum í safninu: 
Alma, Anna Sigga, Ágústa, Áslaug, Bára, Björgvin, Dúna, Elsa, Gunnar Viðar, Hanna, Jón Atli, Kjartan,
Lilja K., María E., Súsanna F., Sæmundur og Örn.
... eða eins og Ágústa sagði á fésbókinni... "
loðhúfa og bíkini... aldrei upplifað það áður..."

Við vorum fljót upp úr og í fötin aftur... þetta var í alvörunni ekkert mál frekar en að sumri til og einhvern veginn alltaf svo frískandi upplifun að taka smá bað í náttúrunni... kannski vakna fornar frumur í manni við þennan gjörning sem gefa manni einhverja aukaorku sem svífur með mann síðasta hluta þessarar leiðar í bílana aftur...

Litið til baka inn dalinn þar sem fólk var farið að fara ofan í.

Síðasti kaflinn að bílunum er 3 km langur meðfram ánni og meðfram heitum bullandi hverum, gráum, brúnum og gulum...

Stundum ansi tæpt meðfram þessum raunverulega lífshættulegum hverum... sérstaklega í hálkunni
en færið var gott þennan dag og kannski frýs aldrei þarna að ráði vegna jarðhitans...?

Björgvin að þvera Klambragilsá á leiðinni.

Komin að síðustu hlíðunum niður af Dalafelli þar sem við sameinuðumst síðustu metrunum á sömu leið og um morguninn.

Fyrstu rigningardropar dagsins tóku að leka úr skýjunum þegar við gengum að bílastæðinu... eins og veðurþáttaspáin hafði sagt fyrir um að myndi gerast... upp úr klukkan fjögur...
Þetta var með ólíkindum góð tímasetning og veðrið var langtum betra en spár og vonir stóðu til...
... enn einu sinni...

Alls 16,1 km á 7:14 - 7:19 klst. (tæplega 7 klst. þeir sem ekki fóru í laugina) upp í 407 m (Dalafell), 455 m (Dalaskarðshnúkur og 493 m (Kyllisfell) hæð með alls hækkun upp á 1.033 m miðað við 81 m upphafshæð.

Sjá gps-kort af göngunni í heild hér fyrir ofan.

Nærmynd svo hér fyrir neðan við þar sem sést hvernig við gengum yfir Kattartjarnir og Álftatjörn.

Funheitt vetrarævintýri á léttu nótunum...

Sem endaði í heita pottinum í Hveragerði með rigningardropana á leiðinni heim
eftir yndislegar göngudag sem var svolítið öðruvísi en hefðbundin fjallganga upp og niður brattar hlíðar...

Sjá frábærar myndir hjá myndasmiðum Toppfara á fésbókinni: www.facebook.com.

Allar myndir á þjálfaramyndasíðu Toppfara: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T50DalafellReykjadalurEtc190211#

Því miður náðust engin myndbönd úr ferðinni hjá þjálfurum.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir