Tindferð 118
Lýsuhyrna, Hrafntinnuborg og Smjörhnúk (Rauðakúlur)
föstudaginn 1. maí 2015
 

Stórglæsileg ganga á Snæfellsnesi
í glitrandi veðri og ólýsanlegu útsýni
krefjandi bratta og svelluðu færi

Loksins komumst við á Lýsuhyrnu og félaga föstudaginn 1. maí í glimrandi fallegu veðri...
þar sem bratti og ís léku stærstu hlutverk dagsins...
og sjaldfarni tindurinn Smjörhnúkur (Rauðakúlur) kom verulega á óvart með mögnuðu útsýni um Vesturlandið allt...
Stórkostlegur dagur og með þeim allra flottustu... enn og aftur í sögunni...

Þetta var fimmta tilraunin til að ganga á Lýsuhyrnu og félaga... frestað í fyrra vegna veðurs og svo aflýst vegna veðurs...
frestað í apríl vegna veðurs og aftur frestað síðar í apríl vegna veðurs og farið á Þingvallafjöllin og loks farið nú á verkalýðsdeginum 1. maí... degi sem aldrei hefur brugðist okkur gegnum árin...

Baula 1. maí 2008... fámenn ferð í miklum bratta og snjó en mögnuðu brúnalogni...
Engin kröfuganga farin 1. maí 2009.
Kálfstindar syðri og fjölfarnari 1. maí 2010... krefjandi ferð í miklum bratta og hálku og frábæru veðri...
Hrafnabjörg, Tröllahnúkar og Þjófahnúkur 1. maí 2011... mikill bratti í fallegu en svölu veðri...
Kálfstindar hærri og sjaldfarnari 1. maí 2012... falleg ganga í litlu skyggni og þungu færi...
Svartafjall, Snjófjall og Skyrtunna 1. maí 2013... í bratta og hálku og dásamlegu veðri...
Ýmir og Ýma í Tindfjallajökli 1. maí 2014... mögnuð ganga í brakandi blíðu og góðu færi...

Stórmerkilegt að þessi dagur - 1. maí - hefur aldrei klikkað í veðri
og eingöngu einu sinni klikkað í skyggni árið 2012...

... og merkilegt hvað þetta eru margar af bröttustu leiðunum í klúbbnum
sem við erum að fara þennan 1. maí... eitthvað mikið upp á okkur té-ið þennan kröfugöngudag... :-)

Lýsuhyrna hægra megin við Lýsuskarð sunnan frá...

... og Ánahyrna þá hinum megin Lýsuskarðs en á sumum kortum er þetta öfugt farið
og erfitt að segja hvort er hvað...

Gengið var frá Lýsuhólsskóla og farið gegnum gamalt frjálsíþróttasvæði...
þar sem Örninn gat rifjað upp fyrir okkur gamla tíma þegar hann keppti í þrístökki á þessari braut m. a. :-)

Veðurspáin var með ágætum þennan dag... það átti að létta til og vonandi að vera sól og blíða...

Jökulinn í vestri þó með skýjahuluna ofan á kollinum... og hulan sú fór aldrei...
en þrír fjallaskíða-Toppfarar voru staddir þar ásamt fjallaskíðagenginu sínu,
þeir Jóhannes, Kjartan og Óskar Wild...
og þeir sváfu í tjöldum við jökulrætur... ekki í fyrsta sinn á þessu vori...!

Gengið var upp á öxlina á Lýsuhyrnu sem var grýtt og brött en vel fær...

Ánahyrna... eða Lýsuhyrna hinum megin...  en ætlunin var að koma þarna niður í loks dags ef allt gengi eftir...
úr því varð samt ekki... þetta var of frosið og bratt frá Rauðakúlum...

Skínandi góð stemning í hópnum enda loksins gott veður til að ganga...

Litið til baka, þéttur brattinn upp öxlina en færið ennþá gott og allt sumarlegt...

Mjög falleg leið þarna upp til að byrja með...

... og allir í góðu formi eftir röskar þriðjudagsgöngur
og krefjandi síðustu tindferð sem var á fjögur fjöll sunnan Þingvallavatns
í stuttum en fallegum veðurglugga...

Smá klöngur...

...en ekkert til að tala um...

Sólríkara sunnan megin og hún tók brátt að skína á okkur líka...

Magnað útsýni eftir því sem ofar dró...
ekki skrítið að maður sé að þessu fjallabrölti alltaf hreint...

Hiti og sviti eftir barninginn upp... en smá gjóla þegar ofar dró...

Í stað þess að beygja til vinstri og fara skarðsmegin upp á efri hluta Lýsuhyrnu héldum við áfram upp brattann...

... sem brattnaði smátt og smátt en við tókum einhvern veginn varla eftir því...

... blöðruðum bara út í eitt og héldum ótrauð áfram..

... en þetta var löng brekka og orðin ansi brött... 45° eða svo...
grjótið orðið hart og fönnin frosin svo spora þurfti gegnum skaflana...

... svo þegar hingað var komið leist mönnum ekki á blikuna og með skaflinn þarna helfrosinn var ekkert vit í að halda áfram í þessum bratta...
í hærra hitastigi hefði þetta verið fínasta leið til að spora sig áfram... en ofar var enn brattara og því var þetta í raun aldrei góð leið...

Því var ákveðið að snúa við sem var synd þar sem heilmikill tími hafði þá þegar farið í að brölta þarna upp...
en Örninn tók á sig sökina og sá eftir því að hafa ekki valið meira aflíðandi leið...
við höfum oft komist upp með að þvælast upp brattar axlir og oft líta svona leiðir verr út en þær eru þegar á hólminn er komið
en það átti ekki við í þessu tilfelli...

Svo hann skaust niður með öllum hópnum og sporaði snöggvast út góð spor í glerhörðum skaflinum til að komst yfir í betri brekku í átt að skarðinu..

Allir í hálkubrodda eða jöklabrodda, þjálfari mælti með hálkubroddum þar sem við vorum mestmegnis á grjóti og mjög erfitt að fóta sig á jöklabroddum í grjóti í þetta miklum halla... úr því væri verið að spora vel yfir skaflinn sem fara þurfti yfir á leið til baka... en skiptar skoðanir voru með það og þeir sem voru vanari fóru í jöklabroddana sína sem var vel enda komust þeir þá öruggir yfir skaflinn og þurftu ekki að elta hópinn. Það var hins vegar mat þjálfara að hálkubroddarnir hentuðu almennt betur þarna, sérstaklega fyrir þá óvanari því að fara skyndilega á jöklabrodda í miklum halla og miklu grjóti skapaði að hennar mati meiri slysahættu en að vera í hálkubroddunum og með göngustafina í báðum höndum eins og menn eru vanir því þegar farið er í jöklabrodda þá er betra að gera það í minni bratta við betri aðstæður og komast vel í gírinn á þeim í þægilegri halla. Með réttu var og bent á að hafa ætti ísexina í hönd þegar farið væri yfir skaflinn þar sem hann var löng og brött brekka niður, en það var líka mat þjálfara að í þessum halla væri ráðlegast að allir héldu sama striki og kæmu sér yfir skaflinn með stuðningi stafanna sem þeir eru vanir og svo gæfum við okkur góðan tíma til að fara í jöklabrodda og með ísexi í hönd eftir það... en þetta er alltaf matsatriðið hverju sinni og ágætis dæmi af okkar hálfu um hvers vegna sveigt er framhjá reglunni með að í miklum bratta og hálku skal ganga í jöklabroddum og með ísexi í hönd til að geta stöðvað sig ef maður rennur af stað svo sitt sýnist alltaf hverjum og einum í þessu.

Vel gekk að þvera skaflinn á eftir Erni hjá flestum...

Ólafur Vignir og fleiri sem voru komnir á jöklabroddana fóru bara yfir ofar
enda ótrúlega gott að vera kominn á alvöru brodda í þessu harðfenni ef menn eru á annað borð vanir þeim...

Aðrir ekki eins vanir jöklabroddunum og þá var gott að fylgja hópnum og fara í sporin yfir fönnina...

Gunnar var einstaklega hjálpsamur í þessari ferð sem og fyrri ferðum og lóðsaði menn hægri vinstri yfir skaflinn...

Þetta gekk vel niður um grjótið en bratt var það og fara þurfti varlega...

Brekkan enda löng og ekki þægilegt að vera í þessum bratta og þessu harða færi svona ofarlega í þessari brekku...
áttum einfaldlega ekki að vera þarna eftir á að hyggja en svona getur "áfjáðningurinn" dregið menn áfram :-)

Fyrstu menn sem fóru yfir og komust í minni halla tóku mynd yfir til okkar hinna og þar sést lengdin og brattinn á brekkunni vel...
í bullandi harðfenni er þetta ekki góður staður til að vera á...

Innar í hyrnunni minnkaði brattinn
og brekkan teygði sig hóflega bratt upp á hrygginn sem liggur til norðurs að Hrafntinnuborgum...
Þarna fórum við öll í jöklabroddana og þjálfari fór yfir broddatæknina og ísaxarbremsuna...
sem við höfum rifjað upp oftar en einu sinni í vetur enda menn með þetta alveg á hreinu
þó flesta vantaði samt æfinguna á broddunum það sem eftir er vetrar...

Misjafnlega góðir þessir broddar... sumir á sínum eigin, aðrir fengið lánað eða leigt...
og ekki endilega að þeir pössuðu hverjum og einum þar sem einir dugðu t. d. ekki á skó nr. 38...
og einhver þreyta var komin í aðra... fínt að fara í alvöru broddagöngu og láta reyna á búnaðinn
og sjá hvort hann er enn að standa sig og hvað má laga og læra af svona degi til að halda þessu vel til haga...

Mikið gott að vera komin á broddana... enn og aftur kom þessi feginleikur sem því fylgir að fara á jöklabroddana
þar sem tilhneigingin er alltaf sú að fara of seint í þá... og þarna koma hálkubroddarnir því ekkert við,
þessi tilhneiging hefur einkennt þá fjallamenn sem við höfum gengið með löngu áður en hálkubroddarnir komu við sögu
enda eru þeir bara örfárra ára gamlir...

Það var enda glerhálka þarna ofar og versnaði frekar en hitt...

Ingi hafði farið alla leið upp í brekkunni bröttu þarna fyrr og hringdi niður ofan af hryggnum norður af Lýsuhyrnu til að vara okkur við
en þetta gekk mjög vel á jöklabroddunum enda gerðir fyrir þess lags færi...

Arnar var sá eini af þeim sem ekki var í nógu góðum málum, eingöngu með annan jöklabroddann í almennilegu lagi og gekk því á hálkubroddunum alla leið upp á Lýsuhyrnu sem var ekki gott, en hann lét sig hafa það og fékk svo lánaða gömlu sex punkta broddana hjá Inga lánaða þegar við náðum loksins í skottið á honum á Hrafntinnuborgum...

Síðustu metrana upp á Lýsuhyrnu tók útsýnið að opnast okkur í allar áttir um Snæfellsnesið...

Við vorum ansi ánægð með að ná þessu eftir svaðilförina fyrr um daginn...

... og ansi svöng eftir átökin enda er streita og ótti orkufrek fyrirbæri fyrir líkama og sál
og mikilvægt að fylla á tankinn eftir erfiðan kafla eins og þann sem var að baki..

.

...en gott hljóð í mönnum þrátt fyrir þennan vandræðagang í leiðarvali þjálfara
og allir til í að halda áfram för enda jöklabroddarnir alveg að gera sig...

Lýsuhyrna teygir hrygginn sinn til norðurs svo freistandi var að ganga hann eins og Ingi gerði
en við áfréðum að leggja ekki í það þar sem það gæti orðið tafsamt og við máttum ekki við meiri töfum á þessum degi
þar sem eingöngu einn tindur var í sigtinu...

Sólin tekin að skína sífellt meira og meira og gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi síðar um daginn...

Tignarlegt útsýni ofan af hyrnunni sem er eiginlega þríhyrnd þarna efst
og óvíst hvaða tindur er hæstur þar sem gps-tækin voru ekki sammála..

Útsúnið inn á Snæfellsnesfjallgarðinn til austurs...
Hóls- og Tröllatindar og Elliðatindar þarna í fjarska hægra megin og við rifjuðum upp þær
og margar fleiri magnaðar ferðir á Snæfellsnesi eins og
Helgrindur 2009 og Helgrindur 2011

Ljósufjöll 2007 og Ljósufjöll 2010
Smjörhnúkar og Tröllakirkja í Hítardal 2011
Hrútaborg 2012
Hafursfell 2012
Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli 2013

Svartitindur, Snjófjall og Skyrtunna 2013
Bjarnarhafnarfjall 2014

... að ekki sé talað um Snæfellsjökul í þremur geggjuðum ferðum... 2008... 2010... 2012...

... og gleymi örugglega einhverri... samt eigum við svo marga tinda eftir... :-)

Jæja, við ákváðum að fara yfir á austari tindinn
til að sjá hvort hann væri hærri eða lægri en sá í miðið þar sem við borðuðum nestið...

Hann var aðeins hærri en sá fyrri... munaði misjafnlega miklu eftir tækjum, einn eða tveir metrar eða jafnhár...

Útsýnið yfir á Þorgeirsfell sem við verðum að ganga á einn daginn...

... og útsýnið til vesturs yfir á jökulinn... við vorum ekki að trúa því að þau fengju ekki hreinan tind þau sem voru að skíða þarna...
en svo fór því miður, svo þau fóru aldrei alveg upp á tind og Kjartan og Óskar reyndu aftur daginn eftir
en sami vindurinn og lélega skyggnið tók af þeim tindinn þar sem það er ekki gott að fjallaskíða nema hafa skyggni...

Hópmynd ef skyggnið myndi versna en ekki lagast... sem betur fer gerðist það síðara...

Ólafur Vignir, Arnar, Guðrún Helga, Sigga Sig., Gerður Jens., Guðmundur, María E., Guðmundur V,
Gunnar, Ástríður, Súsanna, Alda, Örn, Ósk og Kolbrún gestur Guðmundar...
Ingi ekki með þar sem hann var kominn á undan og Bára tók mynd :-)

Þá var lagt í hann... sjá hrygg Lýsuhyrnu hægra megin og stífa tindinn þar við hliðina vinstra megin og svo skálina enn lengra
... skv. kortum er skálin Hrafntinnuborg, en ekki þessi áberandi flotta stríta sem stingur sér upp úr landslaginu og sést vel til af láglendinu og þjóðveginum - en skv. heimamönnum er það Hrafntinnuborg... til að gæta sannmælis er ráðlegast að kalla hana Syðri Hrafntinnuborg...

Rauðakúlur hvíti pýramídinn þarna lengst í fjarska og hvassi tindurinn vinstra megin við miðja mynd er Örninn sem átti eftir að skreyta útsýnið af Rauðakúlum með endemum glæsilega... en skv. Snæfellsneskorti Reynis Ingibjartssonar heita Rauðakúlur "Smjörhnúkur" og Örninn heitir bæði Örn og Tröllkarl með Tröllkerlinguna vestar og Tröllbarn minna vesta á milli þeirra en þetta er líka mismunandi milli korta...

Íslenski mosinn fyrirfinnst á ótrúlegustu fjallstindum og er dásemdin ein...

Niður af Lýsuhyrnu var farið beinustu leið niður í dalinn í hliðarhalla...

... en það var meira en að segja það í þessu gallharða færi og brátt voru menn farnir að hiksta en með yfirvegaðri broddatækni hófst þetta allt saman og það var hollt og gott að finna hversu vel tekur í ökklann í þessa miklum halla og eins hversu mikilvægt það er að beita broddunum rétt... nýta yfirborðið allt, taka stutt skref, stíga fast niður, hafa bil milli fóta og lyfta vel upp... stíga fram með efri fót en 45° með neðri og ef menn urðu þreyttir þá beina tánum niður á við og taka hliðar saman hliðar...

Í þetta var farið ítarlega og æft vel á Sólheimajökli í mars í algerum ísbrekkum (sem og í fyrri vetrarfjallamennskunámskeiðum síðustu ár )
 en á Sólheimajökul mættu ekki margir sem var mikil synd þar sem það nýttist þá fáum
og hefði sannarlega gefið mönnum meira öryggi þar sem færið þennan dag var svipað og á glerhörðum skriðjöklinum...

Brattinn sést vel hér... ísexin skal ávalt vera í hendi þegar farið er um svona brattar fannir á broddum en í grjótbrekkunni góðu fannst okkur í lagi að vera með göngustafina í stað þeirra þar sem þetta var bara einn skafl þarna... eftir það hefðu allir átt að pakka niður báðum stöfum en þar sem gengið var á broddum nánast allan þennan dag, voru sumir með staf í hendi hinum megin... sem er samt ekki rétt þar sem það hindrar flæði ísaxar milli handa eftir því hvort gengið er með hærri hluta brekkunnnar á hægri hönd eða vinstri þar sem ísexin skal alltaf vera "brekkumegin"...  og þessu sem og fleiru hefðu þjálfarar átt að skerpa betur á, en á móti er vel vitað að stafir gefa öryggi og jafnvægi sem er líka mikilvægt að hafa í svona erfiðum brekkum... en ef menn fara í svona broddaferðir 1-3 á ári þá verður það þeim fljótt tamt að vera kominn í brodda og með ísexi í hönd og nýta hana í stað þess að hafa stafina... stafirnir geta nefnilega gefið falskt öryggi t. d. þar sem menn stinga þeim niður og treyst því að fá stuðning, en þeir eiga það til að renna í svona harðfenni og þá er slysahættan aukin í stað þess að dregið sé úr henni...

Arnar var enn á hálkubroddunum frekar en lélegu jöklabroddunum niður þessa brekku og rann skyndilega af stað, en gat stöðvað sig með ísexinni og Gunnar náði að styðja við hann einnig... ekki þægileg upplifun en hann tók mosann á þetta og var kominn í skárri halla neðar og fékk svo betri brodda lánaða hjá Inga sem fyrr segir...

Ósk var í broddum sem voru of rúmir og ekki var hægt að minnka eins og þurfti, en hún var í skóm nr. 38
svo sumir broddar eru hreinlega ekki fyrir allar stærðir á skóm...

Brátt vorum við komin í skárri halla og þá gekk þetta vel...

... en var samt erfitt því þessi hliðarhallli er krefjandi og tekur vel í ökkla, jafnvægi og nýja vöðva...

Hrafntinnuborg... strítan eða skálin... skálin skv. kortum en strítan skv. heimamönnum
og við stefndum á strítuna...

... enda langtum meira lokkandi en skálin...

Þarna var sólin komin það sem eftir lifði dags...

... og allt varð svo fallegt og bjart... Lýsuhyrna að baki Gunnari og Ósk.

Litið niður ofan af Hrafntinnuborg á hópinn að tínast inn...
Ánahyrna þarna hinum megin...

Skálin sem Hrafntinnuborgar-nafnið er á, á kortum... spurning hvort er hærra... leit mishátt út eftir því hvaðan var horft...
virðist lægri héðan frá og þessi mynd er ekki tekin efst af Hrafntinnuborg.

Sama glerjaða færið upp á Hrafntinnuborg og á Lýsuhyrnu...

... en fljótlegt var það þó hart væri...

Litið til baka niður skarðið þar sem við komum upp eftir grjótbrekkuna góðu...

Þarna beið Ingi eftir okkur eftir að hafa farið einn á tind Lýsuhyrnu
og eftir öllum flotta hryggnum út frá henni til norðurs, sem væri gaman að ganga einhvern tíma um í sumarlegra færi...

Sólar- og nestispása og gott að vera til...

Litið til baka... síðustu menn að koma upp...
Hvítihnúkur og Svartihnúkur þarna norðan megin en þeir voru varaplan ef ekki væri fært á Smjörhnúk (Rauðakúlur)...
... og sumir tindar þarna nafnlausir en staðsetning Hvítahnúks er svolítið á reiki eftir því hvaða kort maður les...

Hrafntinnuborg var ísuð og hál efst og eftir helfrosna grjótskaflabrekkuævintýrið var ekki stemning fyrir frekari barningin við glerhálku
 í bratta svo við slepptum þessum síðustu metrum upp á hæsta tind...

... og lágum bara í tómu kæruleysi þarna í sólinni og nutum lífsins...

Jú tökum eina hópmynd ofan af henni líka úr því sólin var komin :-)

Ekkert mál að skjótast þarna upp en sautján í röð í algeru svelli var ekki að gera sig
ef við ætluðum að halda ferðaplani þennan dag...

... svo við tókum bara hópmynd ofan af Hrafntinnuborg með útsýni til Snæfellsjökuls og Ánahyrnu nær...

Smjörhnúkur (Rauðakúlur) voru næstar í röðinni... hvíti pýramídinn þarna lengst efst til vinstri... miðjutindur í fjallgarðinum og við vissum að þaðan yrði magnað útsýni enda hæsti tindur dagsins og sá sem þjálfari og fleiri vildu helst ekki sleppa... sem var eins gott að við gerðum ekki...
höfðum samt EKKI hugmynd um fegurðina sem þarna beið...

Bongókuldablíða :-)

Þetta var brakandi fallegt og yndislegt...

Við straujuðum yfir og þurftum að missa hæð niður í Lýsuskarð...

Það bókstaflega glampaði af glerjuðum ísnum á Lýsuhyrnu...
í aðeins hlýrra veðri hefði þetta verið ekkert mál og viðfangsefnið verið snjóflóðahætta en ekki harðfenni...

Ingi og Gunnar skelltu sér upp skálina í Hrafntinnuborg en á Landmælingakortinu á veraldarvefnum
er nafnið staðsett á bæði skálinni og strítunni en í gps-map-source á skálinni...

Smjörhnúkur (Rauðakúlur) trónandi þarna yfir fjallmassanum...
ansi langt í hana en hva, sólin hátt á lofti og okkur langaði þarna upp...

Lýsuvatn er þarna niðri undir snjónum... allt í snjó og ís og því ekkert mál að fara yfir skarðið...

Sama harðfennið svo saklaus brekkan kallaði á krókaleið niður...

... en við vorum ekki lengi að klára hann og héldum vel áfram...

Smjörhnúkur (Rauðakúlur) þarna efst og sjá mátti bláma vatnsins gegnum snjóinn vinstra megin...

Litið til baka... við voru létt og ómerkileg í samhengi snævarins á ám og vötnum þarna...

Auðvitað rennir maður sér niður svona brekku...
en þó ekki á jöklabroddunum eins og Gunnar gerði með þjálfara-mömmuna aðvarandi á hliðarlínunni...

Allt frosið og fast...

Við lækkuðum okkur niður í 477 m hæð áður en gengum upp í 915 m hæð sem reyndist hæðin á Smjörhnúk (Rauðakúlum)
þó sagðar séu 897 m eða svo eftir því hvaða kort er horft á...

Þetta var langt og strangt...

... hált og bratt...

... sólríkt og heitt...

... og sífellt magnaðra og fegurra eftir því sem ofar dró...

Við tókum þetta í nokkrum köflum og þéttum hópinn reglulega...

Hvílík fegurð...

Gleðin ríkjandi enda ekki annað hægt í þessum fannhvíta fjallasal með himinblámann og sólina skríkjandi yfir okkur...

Síðasta pásan fyrir síðustu brekkuna...  nú var stutt eftir... hér voru menn þreyttir og hefðu þurft að borða einhverjir
en við vildum borða uppi, enda farin að fá óljósan grun um að við værum að ganga inn í töfraveröld þarna uppi...

Svo það var bitið á jaxlinn og haldið vel áfram síðasta kaflann...

... þar sem magnað útsýnið togaði okkur sífellt ofar...

Glerjuð hálkna versnaði eftir því sem ofar dró en við vorum orðin öllu vön og tókum þetta á yfirvegun og rólegheitum...

Brúnirnar í augsýn sem og tindurinn...

... og útsýnið til norðurs tekið að opnast... Bjarnarhafnarfjall þarna í fjarska...

Upphrópanir og andaktugheit "ómuðu" um allt...

Þetta voru magnaðar brúnir sem við vorum komin á...

... og vesturhluti Snæfellsness blasti skyndilega við í allri sinni sólardýrð...

Litið til baka á hópinn að týnast inn séð frá fremstu mönnum...

Bara smá eftir upp á besta útsýnisstaðinn...

Þetta var algerlega magnað...

Við gátum varla haldið áfram...

... þarna var gott að vera og bara njóta...

Kolbrún gesturinn hans Guðmundar rúllaði þessari göngu upp þrátt fyrir brekkuvesen og krefjandi færi...

Hvílíkur staður til að vera á !

Það var eins gott að við slepptum þessum tindi ekki...

Gerður sérlega ánægð þar sem hún hefur gengið á flesta tinda á Snæfellsnesi og átti Rauðakúlur alltaf eftir...

Lýsuhyrna og Hrafntinnuborg svo smáar þarna niðri... það munar um rúma 200 m í hæð milli þessara tinda...

Tignarlegur fjallgarðurinn vestan okkar og austan Helgrinda blasti við... var þetta Örninn og Tröllfjölskyldan?
Já... þetta voru þau... Gerður las af kortinu sínu í nestispásunni og við fórum yfir fjallahringinn.

Uppi var varla hægt að setjast niður fyrir útsýni...

Litið til baka...

Magnaður tindur og einn sá óvæntasti í sögunni...

Hrútsfjallstindafarar hæstánægðir með alvöru broddaþjálfun dagsins...

Vá, þetta var tignarlega fagurt...

... varla pláss fyrir okkur öll þarna uppi...

María og Gunnar Perúfarar... frábærir ferðafélagar í skínandi gleðinni sem skein af öllum...

Þetta var stórkostlegt útsýni í allar áttir...

... hvert sem litið var...

... og jú, smá verkefni að finna pláss fyrir alla til að setjast mót sólu og halda áfram að njóta..

... hefðum ekki mátt vera mikið fleiri en sautján manns...

Brattinn niður langar brekkurnar sitt hvoru megin nást ekki á myndunum...

Flott leið um þjóðleiðina gömlu um Lýsuskarð...
en allt of einföld leið samt og alger nauðsyn að skjótast upp á fjöllin í leiðinni ef form leyfir
því útsýnið svíkur engan...

Þarna borðuðum við nesti og nutum stundarinnar...

Svona staður skákar flottustu veitingastöðum í heimi...

Jebb, þetta var alvöru fjallstindur...

Hópmynd með Snæfellsjökul vinstra megin...

... og Kirkjufellið hægra megin...

Hefði þurft að taka þetta á "panorama"... en fjallið Örninn fékk að vera með þar sem hann trónir þarna í miðjunni í fjarska...

Myndatökumaðurinn í Nepal-pilsinu...

Kominn tími á heimferð eftir eina af þessum gullnu stundum á fjallstindi sem dregur mann alltaf aftur af stað...

Ágætis færi á tindinum sjálfum...

... en glerhart neðar og í hlíðunum...

Ákváðum að þræða okkur samt aðeins inn að Ánahyrnu og fara þaðan niður á öxlina ofan Lýsugljúfurs...

Ansi fallegur hryggur sem gaman væri að ganga um að sumarlagi... eða allavega í blautara færi en var þennan dag...

Litið til baka upp Smjörhnúk (Rauðakúlur)...

Örninn eða Tröllkarl 934 m... með Tröllbarn og Tröllkerlingu 874 m vinstra megin fyrir aftan...
... ætli það sé fært upp þessi fjöll... jú, er það ekki ?... þarna vestan megin er smá aflíðandi..

Hryggurinn var glerháll og fljúgandi harðfenni beggja vegna...

Gunnar tók mynd af ísmyndunum á grjótinu...

Súsanna, Kolbrún, Guðmundur Víðir... og hinir...

Svo hált að það þurfti að vanda sig í hverju skrefi...

Íslenski fáninn með í för hjá Súsönnu sem alltaf flaggar í tindferðum...

Þetta var ekki þægilegasti staðurinn til að vera á í þessu færi...

Of bratt og of hált til að ná að þvera þessa hlíð yfir á öxlina...
kvenþjálfarinn vildi ekki sjá þessa snjóhengju nálægt hópnum þar sem hún væri eflaust gaddfreðin
og ekkert nema tafsamur farartálmi... betri væri krókur en kelda :-)

... svo við lækkuðum okkur niður í skálina og þveruðum þaðan...

Tandurhreint og fagurt í síðdegissólinni...

Loksins smá tak í snjónum á þessum fjúkskafla...

Arnar á sex gadda broddunum hans Inga...
ekkert tak í fremri hluta fótar og því tók í á bröttustu köflunum að ná nægilega góðu gripi...

... mun þægilegra að hafa tólf gadda brodda...

En þetta gekk vel í rólegheitunum...

Enn ein ísbrekkan... ætlaði þetta aldrei að vera búið? :-)

Sumir orðnir þreyttir á jöklabroddunum og farnir að skipta yfir á hálkubroddana
 en færið slíkt að þeir urðu að fara aftur yfir á betri brodda...

Svo var þetta loksins búið í þessum halla...

... og grjótið tók smám saman við...

... en við tímdum samt ekki að fara úr broddunum fyrr en þetta væri pottþétt orðið mjúkt færi og meðfærilegt...

... svo við kláruðum alla leið niður á broddunum...

Lýsuskarð og svo Lýsugljúfur hér sunnan megin...

Lýsuhyrna... eða Ánahyrna...

Úff, þarna fórum við upp, ekkert mál í mjúkum snjó... en stórmál í fljúgandi hálku eins og við fengum...

Hér var loksins farið úr broddum og aðeins áð fyrir lokakaflann..

Fallegir fossar þarna...

... en enn að mestu í klakaböndum eins og allar sprænurnar...

Það sem ein svona renna getur gert fyrir mann... bara alger endurnæring á langri niðurleið :-)

Ísilagðir lækirnir og allt fallega klakabundið...

Loksins tók mjúkur mosinn og grjótið við...

... og við vorum snögg niður í sólina og hitann og láglendið...

... ef hita skyldi kalla... ansi svalur vindurinn þarna niðri en gott að fá sér einn kaldan...

Sæluvíma á leiðinni heim eftir ansi flottan dag sem kom á óvart og sérlega gaman að rifja upp allar fyrri ferðir okkar
á fjöllin sem blöstu við eftir öllu Snæfellsnesinu... það sem við erum búin að gera þessi átta ár sem eru að baki...  jeminn eini !!! :-)

Alls 15,1 km á 9:39 klst. upp í 655 m á Lýsuhyrnu, 689 m á Hrafntinnuborg og 915 m á Rauðakúlum
með alls hækkun upp á 1.449 m miðað við 40 m upphafshæð
og talsverða lækkun niður í Lýsuskarð milli tinda.

Allar myndir þjálfara hér:
https://plus.google.com/photos/104852899400896203617/albums/6150276041138685489?banner=pwa
Hvílíkt útsýni - þetta var algerlega magnað !

Lexíurnar voru heilmargar í þessari ferð... bæði hjá þjálfurum og leiðangursmönnum... sem segir allt um gæði þessarar ferðar...
þetta var alvöru... og ein besta sönnun þess hvers vegna það er þess virði að koma sér alla leið upp á þessi fjöll þó það sé erfitt og krefjandi... uppskeran er hreinlega alger veisla og ekki verra þegar hún kemur á óvart eins og þennan dag :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir