Bláfell á Kili
laugardaginn 7. september 2013
 

7 - 9 - 13
Bláfell á Kili

Það viðraði ekki nægilega vel fyrir Prestahnúk við Langjökul og Þórisjökul laugardaginn 7. september þar sem von var á stormi vestan til á landinu síðar þann dag og því var afráðið að ná Bláfelli á Kili í safnið þar sem betur viðraði hinum megin Langjökuls... og það var sætur sigur því Bláfellið er eitt af nokkrum fjöllum/gönguleiðum sem hafa verið á dagskránni en ekki náðst vegna veðurs eða færðar...

Talan sjö var vel við hæfi þennan dag.... sjö, níu, þrettán... en heldur var þetta fámennt og óvanalegt... sjö manns mættir með þjálfurum... fámennasta tindferð Toppfara ásamt Baulu þann 1. maí 2009... en þeim mun góðmennara var það ;-)

Stemmningin þeim mun þéttari, vinalegri og notalegri fyrir vikið... það sveif einstaklega góður andi yfir þessum degi...

Bláfellið er ekki flókið uppgöngu...

Móbergsklappir með lausagrjóti í byrjun...

... sem voru vel færar í formfögru landslaginu...

... og svo tóku skriðurnar við... mosaslegnar og þéttar í sér eftir rigningar sumarsins 2013 sem eiga sér engan líka síðustu áratugi
eða fjörutíu ár aftur í tímann eða svo...

Með í för voru nokkur úr kjarna fjallgönguklúbbsins sem láta sig nánast aldrei vanta í tindferðir eða þriðjudagsgöngur... og fara því allar ferðir áreynslulaust og með háum "að njóta stuðli"... og svo nýliðinn Arna... sem var að bætast í hópinn fyrir mánuði síðan... var reyndar tímabundið í Toppförum hér áður fyrr... en hefur nú mætt í allar þriðjudagsgöngur í mánuð og féll algerlega inn í hóp afslappaðra og eljusamra göngumanna þennan dag sem nutu þess að spjalla um margþætt verkefni lífsins... innan um mosa og grjót...

Þoka lá yfir hæstu tindum Bláfells því miður... við vorum að vona að vindurinn myndi feykja súldinni af öllu saman er liði fram að hádegi.þ.. nokkurs konar undanfari illviðrisins... en það var nú ekki... blíðskaparveður og þokan því algerlega í friði þarna uppi... það fór ekki að fjúka fyrr en við vorum í kaffi-kæruleysinu í Útey upp úr þrjúleytinu... og komið var hvassviðri í Reykjavík þegar við lentum þar upp úr fimmleytinu...

Við hurfum því smám saman inn í þokuheim Bláfells sem er skýsækinn og úrkomusækinn að sögn heimamanna...

Í 890 metra hæð tók snjórinn á sér að kræla...

... hérna var greinilega ýmislegt búið að ganga á...

Hvítara varð það ofar svo að nánast náði skíðabrekkustandi... ;-).

Þiðnandi klaki á grjótinu og uppsafnaðir skaflar millum steinanna...

Þessi taktlausi snjór var á undanhaldi í þíðunni þennan dag...

Katrín fann góðan anda á Bláfelli...

Draugur... jólasveinn... nei, auðvitað var þetta verndarandi...
Hann brosti blítt til okkar og gerði sitt fyrir töfrana þennan dag...

Grýttara varð það ofar...

... og klakinn lék við grjótið...

... sem mátti sín lítils og var óðum að hverfa inn í vetrarklærnar...

Á tindinum var klakabundið mastrið og við vorum dolfallin yfir vetrarríkinu sem þarna var...

Veðurbarinn klakinn...

... varð verðugt myndefni ljósmyndaranna...

Það var eins gott að verða ekki fyrir klökunum sem hrundu úr mastrinu því það var hálfpartinn þíða þennan dag þó okkur fyndist óskaplega kalt þarna uppi... líkega örfáum gráðum ofan við frostmark... það var kalt að fara úr vettlingunum...

Formfegurð er eitt af perlunum sem við týnum upp með augunum á fjallgöngum... jafnvel þó gengið sé um mannvirki á fjallatindum...

Sigga Sig og Katrín fóru á kostum með myndavélarnar sínar...

Það var fínasta skjól við skúrinn á tindinum...

... og sæti fyrir fjóra ;-)

Strákarnir lágu hins vegar makindalega í snjónum og hituðu sig upp fyrir vetrarlega nestistímana sem framundan eru næstu mánuðina..

Jú, hópmynd í klakabundnum mastrinu... 
Við skemmtum okkur konunglega í þessari ferð með þakklæti og vinsemd að leiðarljósi... ;-)

Nokkrar nýjar upplifanir gáfust í þessari tindferð... til dæmis að klára tindinn og nestið og leggja af stað niður FYRIR HÁDEGI ;-)
Það hefur aldrei gerst áður í sögunni eða hvað?

Niðurleiðin var því miður sú sama og upp þó þjálfarar hefðu alltaf ætlað flotta hringferð um Bláfell með tilraunakenndu klöngri um klettabeltið norðan við tindinn...

Það hafði aukist aðeins í vindinn á tindinum og við þorðum ekki öðru en að koma okkur niður með storminn yfirvofandi...

... en það var blíðskaparveður rétt neðan við tindinn þegar þokunni leysti...
voðalega voru þessir þjálfarar eitthvað stressaðir yfir þessari veðurspá... ;-)

Suðurlandið var baðað sólskini í léttu skýjafari...

... og Jarlhetturnar sem höfðu verið skýjaðar að mestu um morguninn léttu smám saman á sér er leið á daginn...

Englar á ferð... sjá þokuna ofar að leika sér við tindinn...

Stóra Jarlhetta að verða skýlaus og Kambshettan hans Gylfa líka... og fleiri nafnlausar Jarlhettur sem bíða eftir nafngiftum okkar næsta sumar ;-)

Bláfellið er víðfeðmt, giljótt og margskipt... hægt að sauma saman ýmsar útgáfur af göngum á það og ekki leiðinlegt ef við eigum eftir að fara þarna um síðar með útsýni þá ofan af tindinum til Kerlingarfjalla og skoða aðeins betur norðurhlutann...

Fagrar eru þær jarlhetturnar... með allra flottustu fjöllum sem Toppfarar hafa gengið á...

Léttskýjaðra sunnar í landinu...

Það hlýnaði fljótt og vel þegar neðar dró... ótrúlegt hvað það skiptir oft um veður upp úr 800 m hæð hvort sem það er sumar eða vetur...

Við fengum ekki nóg af Jarlhettunum og rifjuðum upp göngurnar á þær...



Stöku, Stóru og Syðri Jarlhettur árið 2011  þar sem við fengum magnað veður og dásamlega liti í landslaginu... og tókum aukatúra á Stöku Jarlhettu og eina eða tvær af Syðri Jarlhettum sem krydduðu ferðina með stórkostlegum sjónarhornum og landslagi...



og Nyrðri, Rauðu og Innstu Jarlhettur árið 2012... þar sem við fórum í miklum bratta og lausagrjóti á hæsta tind og fórum ótroðnar slóðir á Rauðu Jarlhettu og enduðum á skriðjökulsgöngu sem á sér engan sambærileika í sögu fjallgönguklúbbsins...

Í báðum þeim ferðum var enginn snjór á Jarlhettunum en nú var Innsta Jarlhetta sem er þeirra allra hæst - hér hægra megin á mynd, ansi hvít niður hlíðarnar og því líklega illfærari en á okkar göngudegi í fyrra...

Smá skreytingar í neðstu fjallshlíðum...

... áður en láglendið tók við að bílunum...

Litið til baka með hvítan efstan hlutann af Bláfellinu og þokuslæðinginn að gæla við tindinn...
...meiri skýsæknin alltaf hreint í þessum tíndum ;-)

Það er eitthvað við þetta veðurbarna, formfagra, hreina, litríka, dulúðuga landslag hálendisins
sem fær mann til að fara þangað aftur og aftur...

Smá Jarlhettumynd af fáum en yndislegum leiðangursmönnum þennan dag ;-)

Alls 8,8 km að baki á 4:48 klst. upp í 1.228 m hæð með 1.058 m hækkun alls miðað við 575 m upphafshæð...
Þetta slefaði varla upp í meðal-þriðjudagsgöngu ;-)

Það var vel við hæfi að enda daginn á því að kíkja í vöfflukaffi til Björns og Heiðrúnar...

...í notalega bústaðinn þeirra í Útey og spjalla áður en haldið var í bæinn um kaffileytið...

Takk elsku hjón fyrir gestrisnina og vináttuna...
Þau eiga líka bústað á Siglufirði þar sem einhverjir Toppfarar munu gista í haustfagnaðarferðinni í byrjun október...

Haf þökk elsku vinir fyrir dásamlegan dag sem þrátt fyrir mjög fáa kílómetra... stutta og einfalda göngu... ekkert skyggni á tindinum,...vetur í efstu hlíðum og fámenna mætingu fer í gullmolasafnið sakir notalegheitanna og vináttunnar sem sveif yfir vötnunum þennan dag ;-)

Allar myndir þjálfara í ferðinni hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T97BlafellAKili070913#

Og frábærar myndir leiðangursmannaá fésbók.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir