Tindferð 94
Skarðsheiðin endilöng frá austri til vesturs;
upp Mórauðahnúk um Hádegishyrnu, Miðkamb, Skessukamb, Skarðskamb, Heiðarhorn og Skarðshyrnu niður um Skessubrunna
sunnudaginn 2. júní 2013.


Skarðsheiðin endilöng
í allri sinni sjö tinda og fimm dala dýrð
... var gengin frá Mórauðahnúk í austri við Dragháls um Hádegishyrnu, Miðkamb,  Skessukamb Skarðskamb, á hæsta tind Skarðsheiðarinnar Heiðarhorn
og endað á  Skarðshyrnu um Skessubrunna

... sunnudaginn 2. júní í blíðskaparveðri en þunnri sólarþoku og súld til að byrja með sem léttist smám saman
og endaði í frábæru skyggni og mergjaðri fjallasýn  fyrstu tvo og síðustu þrjá tinda af sjö
þar sem vel sást yfir farinn veg af hæsta tindi og alla leið upp á jökla hálendisins...

Lagt var af stað við brúnna austan við Drageyraröxlina og gengið upp með gljúfri Villingaholtsár að Kerlingarfossi...

Rigningarsúld eins og laugardeginum áður sem olli því að við frestuðum ferðinni um einn dag...
en léttara yfir og þurrara þegar leið á daginn...

Sumar í lofti... enda var húsbíll hinum megin við ánna...

Litirnir sem finna má í lægri fjöllum og fellum utan í Skarðsheiðinni á alla vegu
má einnig finna í gljúfri árinnar og birkið ilmaði...

Við fórum í spor okkar frá því í janúar 2010 þegar gengið var frá Draghálsi upp á Hádegishyrnu og niður Mórauðahnúk...
...nákvæmlega hérna niður að ánni sem þá var ísilögð enda janúarmánuður...

 

...en sú ferð gleymist aldrei því einstakir litir gáfust þá á þessum myrkasta tíma ársins
með tunglið fullt í vestri og sólin að rísa í austri...
... en nú gengum við í fögrum jarðlitum svæðisins á ljúfasta tíma ársins...

Heitt í veðri en súldin truflaði öll fataplön... bolur eða skel... í eða úr...

Við skiptum um á mínútufresti eins og veðrið þennan dag
sem fór úr sól og blíðu í þoku og rigningardropa á mínútufresti fannst manni stundum...

Sjá hitaþokuna sem stafaði af grjótinu á leið upp á Mórauðahnúk...

Skorradalsvatn spegilslétt í fjarska og óskaplega stórt svona séð í heild sinni...

Fyrsti skaflinn kom snemma... Skarðsheiðin er ótrúlega snjóþung og verður aldrei snjólaus með öllu norðan megin...

Eftir svala fyrstu nestispásu var haldið af stað um Mórauðahnúk yfir á Hádegishyrnu... með sólina að slást við skýin...
hann var alltaf rétt að lyfta sér þennan dag og náði því loksins á miðri okkar leið...

Útsýnið niður í Kölduskál í Villingadal ef notast er við örnefni heimamannakortsins...

Mórauðihnúkur...

Regnboginn kom á þessari uppgöngu til marks um sólina sem lét rigninguna ekki í friði þar til hún þornaði loks upp...

Mórauðihnúkur er svo nefndur á fyrrnefndu korti heimamanna...

Moli og Bónó fengu þriggja laga fatnað utan um sig í súldinni og voru ekkert sérlega ánægðir með búnaðinn ;-)

Gotti var ekki lofthræddur fyrir fimm aura, fór út á allar snjóhengjur... stundum niður í hvarf...
og var alveg í stíl við landslagið þessi fagri íslenski ferfætlingurinn ;-)

Litið til baka um Mórauðahnúk og Skorradalsvatn...

Fossarnir innst í Villingadal eru tignarlegir þó lítið beri á þeim úr fjarlægðinni...

Þokan beið okkar uppi á heiðinni en það munaði óskaplega litlu að hún leystist upp og opnaðist...

Brátt vorum við komið að Hádegishyrnu...

...og ægifagrir norðurklettar Skarðsheiðarinnar tóku völdin...

Þarna lengst niðri mátti sjá Mófellið og Okið sem við gengum um á þriðjudegi um daginn...
já, lætur ansi lítið yfir sér en er heill heimur út af fyrir sig þegar nær er komið...
...leyndar perlur þarna á ferð...

Frábært að fá skyggni á fyrstu tindunum tveimur áður en þokan tók yfir efst á heiðinni sjálfri...

Litið til baka af Hádegishyrnu...

Þokan efst á Hádegishyrnu... strax þarna voru brúnirnar varasamar...
Þungar snjóhengjur sem gátu auðveldlega afvegaleitt menn fram af í þokunni ef ekki var farið varlega...

Katrín var kyrfilega merkt Toppförum... þjálfarar eru enn að klára lógóið fyrir fjallgönguklúbbinn svo menn geti fengið sér merkingar á fatnað og búnað... þetta er náttúrulega ekki hægt að vera svona lengi að koma því í verk... annars er hægt að panta svona frá saumastofu N1... göngum í það ef við komum þessu lógói ekki í verk á næstu vikum !

Á Hádegishyrnu var gengið við inn í þokuna...

Ofurmennin Björn Matt og Gerður sem hafa ásamt hinum aldurshöfðingjunum Guðmundi og Katrínu
mætt í erfiðustu göngur vetrarins og eru öll fjögur í toppformi...

Efst á Hádegishyrnu opnaðist svo fyrir skyggnið á smá kafla og menn gátu þá áttað sig á svipmiklum aðstæðunum þarna uppi...

Magnaður staður þar sem norðurbrúnirnar sáust vel fóðraðar snjóhengjum norðan megin...

Skálin milli Hádegishyrnu og Miðkambs þar sem við höfum snætt nesti í fimbulkulda...

Litið til baka á Hádegishyrnu...

Miðkambur var þriðji tindur dagsins...

Þar réð þokan ríkjum allan tímann eins og í fyrri ferð okkar á hann með hringleiðinni um Grjótárdal í janúar 2011
en sú ferð heldur enn sérstöðu sinni hvað varðar hrímaða göngumenn í sólarþokusleginni ægifegurð sem aldrei gleymist...

Við sáum alltaf brúnirnar þennan dag
og Örninn gætti þess að missa hvorki sjónar á þeim til viðmiðunar né ganga fram af þeim...

Þessi ganga hefði ekki verið möguleg nema með aðstoð gps
því landslagið þarna er síbreytilegt þó uppi á heiði sé og mjög villugjarnt í þoku...

Skyndilega vorum við komin að niðurgönguleiðinni af Miðkambi...
Klöngur um klettana á þessum stað er eina færa leiðin sem við vitum um þarna niður...

Færið mjög gott þennan dag... aldrei þörf á hálkubroddum sem betur fer og eftir á að hyggja fremur varasöm leið ef mikil hálka og
þörf er á jöklabroddum því brattinn er talsverður milli kambanna...

Litið til baka upp brekkuna...

Klettarnir ofan við niðurgönguna - sjá hengjuna vinstra megin... við vorum allan þennan dag með brúnunum í norðri...

Eftir Miðkamb var það Skessukambur... sem líka var í þoku allan tímann... eins og í nýársgöngunni 2012... en ekki í haustferðinni sama ár þegar við gerðum aðra tilraun og gengum kringum Súlárdalinn í mögnuðu veðri og skyggni allan daginn...

... en þegar við lækkuðum okkur af Skessukambi létti aftur til...

... og við sáum leiðina svipmiklu milli Skarðskambs og Skessukambs sem við röktum okkur eftir í október í fyrra...
þar með var skyggnið komið nánast samfellt það sem eftir lifði dags...

Þar niður var smá klöngur efst... svell aðeins á köflum en ekki nógu mikið til að það tæki því að fara í brodda
og ekki hægt að kvarta undan færinu...

Útsýnið af niðurgöngustaðnum niður í Súlárdal...

Bratt en vel fært um mjúkan snjóinn með vönu fólki...

Einn af mergjuðum stöðum gönguleiðarinnar þennan dag var um þessa skafla kringum klettana
niður af Skessukambi niður í Súlárdalinn...

Hérna borðuðum við nesti og horfðum á útsýnið...

Skyndilega heilsaði Skessuhornið okkur og tók til við að sópa skýjunum þar með af Skarðsheiðinni allri...
og hætti ekki fyrr en hún var spikk and span fyrir okkur til að mynda
og líta yfir farinn veg þegar við enduðum á hæsta tindi síðar um daginn...

Eftir nesti númer tvö af þremur var haldið niður í Súlárdalinn með brúnunum...

Litið til baka... við fórum ekki sömu leið um klettana og síðasta haust þegar við fórum hér beint upp af augum...
heldur öruggari leið í ár hægra megin við klettana, enda meira vetrarfæri núna...

Útsýnið af þessum brúnum er hreint út sagt magnað yfir á Skessukamb...

Moli hér að fara ansi langt út á snjóhengjuna...
Ótrúlega frakkir þessir ferfætlingar en virtust alveg vita hvað þeir voru að gera...

Kletturinn á leið niður af Skessukambi...

Komin niður í skarðið... þjálfari leitaði að stað til að taka hópmynd með Skessuhornið í baksýn...

... og þetta var afraksturinn með því að lyfta myndavélinni eins langt upp fyrir höfuð og hægt var...
en móðan um allt á linsunni eftir að þjálfari datt í hálkunni stuttu áður...
og alls ekki nógu hátt né nógu langt til hægri (skásta myndin af nokkrum!)  ;-)

Arnar, Ingi, Ástríður, Vallý, Katrín, Guðmundur og Gylfi...

Gengið úr "Súlárdalskarði" með hryggnum í áttina að Skarðskambi með vesturhluta Skessukambs í baksýn...

Mergjaður hryggurinn á þessari leið...

... og því var mál að koma sér upp á hann en vera ekki í hliðarhallanum neðar úr því færið var svona gott...

Veðrið var frábært þarna... það er bara bráðnandi snjór á linsunni sem truflar myndirnar og gefur þeim "blautt yfirbragð"...

Hvílíkar brúnir...

Norðurhlíðin á Skarðskambi með Hafnarfjallið og baksviðsfjöll þess nánast snjólaus þarna í vestri...

Skessuhornið í norðri...

Klárlega flottasti hryggjarkaflinn á Skarðsheiðinni...

Litið niður þverhnípið af hryggnum þar sem sjá mátti snjóspýjurnar niður eftir allri hlíðinni...
Mjög stór snjóflóð voru í norðurhlíðunum nær Hádegishyrnu.

Litið til baka eftir brúnunum með Skessuhornið vinstra megin...

Þetta var aldrei tæpt nema á einum stað en þar var það samt vel öruggt sunnan megin
og hægt að velja hvar maður nákvæmlega klöngraðist enda völdu menn sér sína leið ef þeim leist ekki á það...

Litið niður norðan megin... girnilegar snjóbrekkur en alltof bratt og langt...

Skarðskambur framundan...

Ásta H., ljósmyndari og Gotti með Dagbjörtu og Matta...

Ferfætlingarnir rúlluðu þessari göngu upp þrátt fyrir snjóinn, bleytuna, vegalengdina, klöngrið og brattann...

Súlárdalrhryggur í allri sinni hrikalegu dýrð...
Skemmtilegra að ganga hann til vesturs eins og við gerðum þennan dagheldur en austurs eins og við gerðum í október í fyrra...

Sjá hópinn að feta sig eftir brúninni hægra megin...

Einstakt að sjá hvernig snjórinn mýkti skarpar línur Skarðsheiðarinnar þennan dag...

Guðlaug, Anna Jóhanna, Guðmundur, katrín, Ástríður, Björn og...

Komið niður af hryggnum með þverhnípið norðan megin frá sjónarhóli fararstjórans...

Sjónarhornið frá aftari þjálfara ;-)

Maður fær aldrei nóg af að horfa á þetta Skessuhorn sem við gengum á þriðjudagskveld eitt í júlí árið 2010...
í blindaþoku og rigningarsúld fram á nótt... algerlega ógleymanleg afreksæfing...

Eftir því sem hryggurinn hækkaði vestan megin var ráð að koma sér inn í dalinn til að komast upp á Skarðskambinn...

Litið til baka ofan af efsta hluta hryggjarins... Skessukambur enn í skýjunum...

Dalurinn góði... sem við eigum notalegar minningar af frá því síðasta haust...

Skyggni að léttast til suðurs... grá skýjaslikja lá yfir Hvalfirðinum...
Voru þetta blaut ský eða mengun frá Grundartanga eða járnblendiverksmiðjunni...

Litið til baka frá dalnum...

Löng en góð snjóbrekka úr dalnum...

Færið hreint út sagt frábært þennan dag... nógu blautt til að gefa örugg spor á bröttum köflum... ekki snjóflóðahætta eftir mikla hlákudögum saman og enga snjókomu að ráði... og aldrei það hart að brodda þyrfti við...

Blíðan efst eftir dalinn með fallegar brúnirnar sem voru að baki... virkilega fallegur kafli á þessari leið...

Bónó fékk að fara í bakpokann á kafla...
og Moli í band þar sem hann var alltaf að afvegaleiða bróður sinn sem týndist þar sem hann rataði ekki til baka eins og Moli ;-)

Við gengum kunnuglega leið upp á Skarðskamb...

Skyndilega léttist þokan...

... og sólin tók við...

Á Skarðskambi fengum við útsýni og vorum hæstánægð...

Til suðurs var Tungukambur sem við þræddum okkur um á flottum hrygg síðasta haust...
einn af mörgum stöðum þessarar heiði sem leynir á sér þar til nær er komið...

Við áttum stefnumót við næsta tind... þann hæsta sem rís á Skarðsheiðinni og heitir Heiðarhorn...

Leiðin að þeim tindi var ekki síður falleg en hryggurinn sem var að baki...

... um mjúkar fjallsbrúnir á hægri hönd sem fönguðu okkur algerlega...

Enn og aftur þurftum við að krækja okkur fyrir klettana til að komast niður af fyrri tindi...

... og aftur gegnum skafla sem voru lungamjúkir... fram hjá helfrosnum klettum...

Litið til baka með hrímið enn að þykjast láta eins og það væri vetur á klettunum...

En í þetta sinn var hrímið drjúpandi blautt og dropaði stanslaust af því...

... svo ljósmyndarar hópsins fengu nóg að mynda...

Skarðsdalur... þar sem flestir ganga upp og niður um til að ganga á Heiðarhorn og Skarðshyrnu...

Eins og hendi væri veifað opnaðist fyrir hæsta tindinn á Heiðarhorni í vestri...

... og við fengum sólina til að skína á okkur þennan síðasta kafla leiðarinnar...

Litið til baka um leiðina frá Skarðskambi... fín leið í góðu færi en broddafæri um leið og það er hálka...

Enn ein hópmyndin en enn og aftur ekki með sólargeislana á hópnum og þar með allt of dimm...

Ásta, Rikki, Matti, Jóhanna Karlotta, Sigga Rósa og Vallý með Tungukamb í baksýn og allan Hvalfjörðinn...

Brúnirnar milli Heiðarhorns og Skarðskambs gáfu enn aðra upplifunina á leiðinni...

... að þessu sinni um lungamjúkar brúnirnar baðaðar snjóhengjum sem sköguðu ótrúlega langt út...

... með Blákoll og félaga hans á Hafnarfjalli sérkennilega snjólausa í andstöðu við snjóhvíta Skarðsheiðina...

... sem segir sitthvað um hvílíkt veðravíti Skarðsheiðin er...
togandi til sín vinda, kulda og úrkomu...

Hvílík fegurð...

Ef við hefðum fengið þetta veður allan þennan dag...
hefðum við verið nokkrum klukkustundum lengur að ganga því við ætluðum aldrei að slíta okkur frá dýrðinni...

Sjá brotið í snjóhengjunni...

Þarna hefðum við getað verið enn lengur...

... en það var mál að ganga á Heiðarhornið sjálft...

Litið til baka um hrífand brúnirnar í Skarðsdalnum... með tindinn á Skessuhorni að kíkja...

Þarna leyndist flottur útsýnisstaður...

Snjóhengjan sem skyndilega rofnaði svo hluti hennar féll niður... en við náðum því ekki á mynd...

Við verðum að taka hópmynd hérna... það var ekki á það treystandi hvort yrði skyggni uppi á Heiðarhorni þar sem skyggnið kom og fór allan þennan dag... enn og aftur með því að hækka myndavélina upp í loft... en tókst sæmilega í þetta sinn ;-)
Englar á ferð... ekki er hægt að hugsa sér betri ferðafélaga enda allt verður mögulegt í þessum félagsskap...

Heiðarhornið framundan...

Litið til baka...

Erfitt að velja úr flottum myndum af frábærum ferðafélögum þennan dag
hvort sem það voru tvífætlingar eða ferfætlingar...

Við stefndum óhefðbundna leið upp úr því færið var svona gott... svipaða leið og á Skyrtunnu fyrir mánuði síðan... ansi bratt þarna með brúninni... en við sáum þennan fína skafl sem hægt væri að spora... kvenþjálfarinn þó kominn með vöfflur yfir þessu leiðarvali þegar nær var komið og vildi fara hefðbundna leið upp... en Örninn og félagar þarna fremst héldu strikinu og vildu sjá aðstæður ennþá nær... og létu sem betur fer slag standa því flott var hún þessi uppkomuleið og eflaust sjaldfarin ef nokkurn tímann farin áður?

Steinunn og Vallý með Ástu enn aftar og brúnirnar fögru ásamt Skessuhorni og Skarðskambi þarna efst hægra megin...

Leiðin var greið til að byrja með...

Litið til baka.. sjá þykkar hengjurnar vinstra megin á brúnunum...

Færið fínt...

... en svo jókst brattinn...

Litið til baka enn betur yfir farinn veg... Skarðskambur flottur og er stundum villst á honum og Heiðarhorni úr fjarlægð...
ansi líkir þessir tindar norðan megin í Skarðsheiðinni...

Útsýnið til austurs að Botnssúlum sem glitruðu í sólinni ásamt Hlöðufelli, Skjaldbreið og hálendinu öllu sunnan Langjökuls og nágrennis...

Skarðshyrna hvíta þarna niðri og Esjan lengst í suðri...

Efsti kaflinn þar sem snjóskaflinn góði var vinstra megin við klettana...

Fín spor í snjónum sem allir pössuðu greinilega að troða vel fyrir næsta mann...

Litið til baka niður brekkuna frá fremsta manni...

Sjá djúp sporin sem urðu þó aðeins grynnri á versta kaflanum efst...

Menn voru þó ekki smeykari en svo að hrímaðir klettarnir voru myndaðir í gríð og erg úr sporunum...

Litið til baka frá neðsta mann neðar í brekkunnii...

Já, það var þetta hérna hægra megin sem menn voru að mynda
svona mitt í því sem þeir sem fyrir framan voru skulfu á beinunum að komast upp efstu þrepin...

... sem voru samt örugg alla leið enda yfirleitt best að fara beint upp svona brekkur í þessu snjófæri
frekar en hliðarhalla...

Hvílíkur hópur... reynslan þarna að skila sér ansi vel eftir stanslaust klöngur árið út og inn...

Fegurðin á þessum kafla engu lík...

Uppi fékk skjálftinn að hristast úr mönnum með mögnuðu útsýninu...

... og við skiluðum okkur á hæsta tind Skarðsheiðarinnar um fjögur leytið... eða hvað var klukkan annars þarna?

Litið til baka á nokkra sem tóku þennan flotta útsýnisstað vinstra megin til að taka myndir...
Eflaust þess virði...

Ingi tók myndir af nærumhverfi ekkert síður en fjærumhverfi  fyrir og í anda Heiðrúnar listakonu
og Gylfi var fyrirsæta á þessari ;-)

Ljósmyndararnir að skila sér inn...

Hvílík heppni að fá þetta flotta veður og skyggni á efsta tindi !

Besta hópmynd dagsins!
Tekin á Heiðarhorni - með brúnir, tinda, hryggi og kamba okkar að baki eins langt og augað eygði...

Ásta H., Lilja Sesselja, Arnar, Guðrún Helga, Örn, Ingi, Guðmundur, Steinunn S., Jóhann Ísfeld, Guðlaug, Matti og Dagbjört.
Gylfi, Jóhanna Karlotta, Steinunn Þ., Ástríður, Anna Jóhanna, Vigdís gestur, Katrín Kj., Vallý, Gerður, Sigga Rósa, Björn Matt., Rikki...

... og Bára tók mynd
...og Gotti, Moli og Bónó stóðu sig frábærlega í þessari ferð ;-)

Rikki var sá eini sem stóð undir nafni og skrifaði hópinn allan inn í gestabókina fyrir hönd hinna ;-)

... sem voru óðara horfin niður eftir myndatökur og útsýnisskoðun og nenntu ekkert að pæla í gestabók...

Leiðin niður af Heiðarhorni var lauflétt eftir allt klöngrið um kambana á meginlandinu...

... eins og manni fannst þetta erfið leið hérna í "gamla daga"...

Skarðshyrna var síðasti tindur dagsins...

... gengin "niður í móti" ofan af hærri tindum leiðarinnar...

Litið til baka að Heiðarhorni frá Skarðshyrnu...

Heiðarhorn og Skarðskambur... loksins vorum við búin að ganga þarna á milli...
ekki spurning að fara einhvern tíma á þessa tvo og niður Skarðsdalinn..

Færið þennan dag... bráðnandi snjórinn ofan á berginu...

Litið til baka að Heiðarhorni...

Botnssúlurnar enn og aftur sólbjartar... síbreytilegt veðrið og skýjafarið þennan dag...

Suðurbrúnir Skarðshyrnu eru flottar...

Heiðarhorn vinstra megin og Skarðskambur hægra megin...

Skarðsheiðina öll kamb fyrir kamb til austurs...

Á suðurbrúnum Skarðshyrnu þar sem við tókum einu sinni dásamlega hópmynd á þriðjudagskveldi með Akrafjallið í baksýn...

Snókur og Snóksfjall þarna niðri...

Útsýnið niður sunnan megin... Hvalfjörður, Esjan, Akrafjall að hluta og nær eru Skessubrunnar og Litlahorn sunnan í Skarðshyrnunni sem er ægifagurt og vert að ganga á einn daginn... og er þetta ekki öfugt hjarta þarna í Skessubrunnum...?

Það var sérkennilega gott að standa eftir allan "veturinn" þennan dag að horfa svona "niður á sumarið"...

Best að koma sér niður í sumarið...

... um snjóskaflana til að byrja með...

Sjá hjartalaga Skessubrunnana og Snók...

Heiðarhorn hér í baksýn Siggu Rósu og Jóhönnu Karlottu...

Fínasta leið en dvínandi hálka undir snjónum sem var aðeins að stríða okkur svona í lokin ;-)

... og smá klöngur í klettunum...

Klettarnir í Skarðshyrnu þegar litið var til baka...

Létt leið í samanburði við hvað manni fannst hérna í "gamla daga" var aftur tilfinningin sem við fengum...



Maður "snjóast" greinilega vel með árunum...

Heiðarhornið aftur komið í skýin... við vorum heppin...

Baksviðsfjöll Hafnarfjalls sem gleymast okkur aldrei í magnaðri tindferð í fyrra...

Rauðihnúkur hér framundan sem við gengum á, á þriðjudegi um daginn...

Litið til baka um niðurgönguleiðina af Skarðshyrnu sem nú er fjölgengin...

Skarðið niður um klettabeltið...

 

Ansi bratt en vel fært í mjúkum snjónum...

Hér varð alvarlegt slys í vetur þegar kona féll á broddum niður og slasaðist illa...

Ásta og Steinunn rifjuðu upp niðurgönguna af Kerlingu á 24 tindum árið 2011 sem þá var farin í glerhörðum sporum í snjónum
sem erfitt var að fóta sig eftir og engir voru broddarnir...

Mögnuð leið niður af Skarðshyrnu...

Heiðarhornið í baksýn...

Hér tókum við nesti og skeggræddum Laugaveginn þarnæstu helgi þar sem stefnir í fjölmenni ef veður er gott...

Veðrið hlýnandi með lækkandi hæð...

... og dásamlegt að fara þennan kafla niður í sumarið...

Suðurhlíðar Skarðshyrnu snarbrattar og svipmiklar... þessi skafl var síðasta "eldraun" dagsins ;-)

Ilmandi sumarið við Skessubrunna... þarna langar mann alltaf til að tjalda...

Fullkominn tjaldstaður ;-)

Gengið niður í græna sveitina...

... í mildri kvöldsumarsólinni að ganga sjö eða átta um kvöldið...

... jú, þessi hindrun var líka eftir... enginn að nenna að hoppa yfir...
og svo var rafmagnsgirðingin allra, allra síðasta hindrunin þennan dag náttúrulega ;-)

Alls 22 km á 10:44 10:45 klst. upp í 1.067 m hæð með 1.684 m hækkun alls miðað við 82 m upphafshæð með öllu.

Gangan í heild frá Drageyraröxl að austan niður um Skarðshyrnu að vestan.

Upphafshæð 73 m, Mórauðihnúkur 845 m, Hádegishyrna 976 m, Miðkambur 1.023 m, Skessukambur 1.046 m, Skarðskambur 1.051 m, Heiðarhorn 1.067 m og loks Skarðshyrna 963 m há skv. einu af fjórum gps tækjum þjálfara ;-)

Sjá gönguna í heild í samhengi við nokkrar fyrri Skarðsheiðargöngur:

Græna: Heiðarhorn og Skarðshyrna á kvöldgöngu á þriðjudegi 26. maí 2009.
Rauða: Skessuhorn á kvöldgöngu á þriðjudegi 5. júlí 2010.
Dökkblá: Nýársganga á laugardegi 2. janúar 2010.
Gul: Nýársganga á laugardegi 8. janúar 2011.
Ljósblá: Tindferð dagsins um Súlárdal 20. október 2012.

Auk þessa erum við búin að ganga á Mórauðukinn norðan undir Mórauðahnúk, Mófell og Ok sem rísa norðvestar undir norðurvegg Skarðsheiðarinnar og Rauðahnúk vestan megin við Skarðshyrnu
fyrir utan að ganga á Heiðarhorn og Skarðhyrnu nokkrum sinnum gegnum tíðina.

Takk fyrir dísætan sigurinn á þessum mikla fjallgarði...
...fyrir einstakan dag, eljuna og þrautsegjuna og áræðnina...
Svona dagur er eingöngu mögulegur með góðu formi, talsverðri reynslu og hæfilegu hugrekki...
en fyrst og fremst jákvæðu hugarfari ;-)

Laugavegurinn á einum degi framundan eftir tvær vikur og skínandi gott að vera búin að taka þessa "lokalönguæfingu" ;-)

Ath - unnið í flýti á mánudegi - á eftir að yfirfara allt mun betur í næstu viku!

Myndir þjálfara í heild hér:
https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T94SkarSheiInEndilong020613?authkey=Gv1sRgCNmPoYb0wfG2tQE

Þjálfarar fara nú í vikufrí til Noregs - sjáumst á Laugaveginum 14. júní og á næstu æfingu á Reykjanesi á mergjaðri leið þann 18. júní...
en verðum auðvitað í bandi fyrr !

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir