Tindferð 89
Miðdegishnúkur - Skarðstindur - Ketilstindur - Arnartindur - Hattur - Hetta
á Sveifluhálsi syðri
sunnudaginn 3. febrúar 2013

Alvöru vetrarferð 
um hringadróttinsslóðir Sveiflulhálss syðri


Miðjuhópmyndin þegar allt lék enn í lyndi með hluta af gönguleiðinni í baksýn -  Kleifarvatn hægra megin í horninu.
Örn, Óskar Wild, Lilja Sesselja, Sigga Sig., Guðmundur, Gylfi og Jóhanna Karlotta.
Súsanna, Áslaug, Día, Katrín Kj., Guðlaug, Gerður Jens., og Bára tók mynd.

Milli illviðrana fyrstu helgina í febrúar... gripum við lítinn veðurglugga... ekki í fyrsta sinn í vetur... og klöngruðumst um fallegu lágu fjöllin á Sveifluhálsi syðri og náðum rúmlega hálfri áætlaðri leið áður en snjóbylurinn skall á okkur síðasta eina og hálfa kílómetrann í bílana... og lentum sátt í bænum um fjögurleytið eftir 11,4 km göngu á 5:49 klst. upp í hæst 405 m hæð með 832 m hækkun alls milli tinda miðað við 161 m upphafshæð... ;-)


Sveifluhálsinn er klárlega Hringadróttinslegustu slóðir í sögu okkar... og vetrarbúningurinn dregur ekki úr þeirri

Veðrið var friðsælt til að byrja með, léttskýjað og lygnt með mánann á lofti í rökkrinu... og skyggni frábært... en það gekk fljótlega á með éljum milli góðra stunda og vindurinn bætti smám saman í... svo eftir 6,3 km göngu, við tindinn Hettu ákváðum við að láta þar við sitja og snúa við áður en hann bætti meira í sig veðurhamurinn... og tæpara mátti það varla standa... eftir notalega göngu til baka... en þó með skíðagleraugun komin á... milli tignarlegra tinda á alla vegu um baksviðið... og eina nestisstund milli vindhviðanna... lentum við í versnandi vindi og snjóstormi síðasta kaflann... í vindhviðum sem komu úr öllum áttum og hvössum éljum beint í andlitið... í lélegu skyggni þar sem Örninn fann góða leið yfir hálsinn til baka í bílana...


Fjallið Hattur / Hverfjall vinstra megin á mynd þar sem rjúkandi hverir voru beggja vegna...
Hetta tindurinn hægra megin á mynd en þar uppi snerum við treglega við þar sem veður fór versnandi og spáin var

Ansi hressileg upprifjun á gömlum töktum í krefjandi veðrum að vetri til... "meira svona" sögðu sumir... það var alltjent ansi gott að komast í smá veðurham til tilbreytingar og dýrmætrar upprifjunar... t. d. á því hvers vegna skíðagleraugu og lambhúshetta, ullarvettlingar og belgvettlingar... eru alger nauðsyn yfir vetrartímann... ;-)


Snjóslegnir göngumenn í lok ferðarinnar...

Frábær ganga með dásamlegum félögum
um einstakt landslag sem naut sín vel í vetrarbúningnum.

Ferðasaga með fleiri myndum í vinnslu út vikuna !

P.s:
Skuggi hvíir yfir þessum degi því daginn eftir þessa göngu fengum við þær fréttir að banaslys hefði orðið við Hátind Esjunnar þar sem 30 manna gönguhópur var á ferð.
Við vottum Fjallavinum og aðstandendum konunnar sem lést okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

----------------------------------------

Ferðasaga hefst:

Lagt var af stað í rökkri frá afleggjaranum að Hverahlíð... klukkan 8:52...

... en þá var nokkuð langt í sólarupprás en þó orðið það bjart að menn gátu sleppt höfuðljósunum frá byrjun...

Farið var upp á Miðdegishnúk... sömu leið og við komum niður í byrjun desember 2010 þegar við gengum á allan nyrðri Sveifluhálsinn
og kringum Kleifarvatn
í magnaðri ferð í blíðskaparveðri frá sólarupprás til sólarlags svo aldrei gleymist...

Kletturinn góði sem manni finnst nánast hanga á engu og geta farið af stað við minnstu jarðhræringar...

Sjá hann betur hér af mynd frá fyrri Sveifluhálsgöngunni þann 4. desember 2010.

Fínasta leið þarna upp þó ekki sé það árennilegt úr fjarlægð...

Klöngrið upp með klettinum... meira myrkur þegar flassið var notað...

Útsýnið til Kleifarvatns í morgunskímunni... með Gullbringu og Geithöfða og félaga í suðausturhorninu...

Blámi morgunsins tók við og allt varð töfrandi fallegt...

Veðrið friðsælt og fallegt... logn og úrkomulaust til að byrja með...

Uppgönguleiðin um berggangana á Miðdegishnúk var vel fær...

Uppi á Miðdegishnúk í 405 m hæð... þar var útsýnið magnað af ekki hærri tindi...

Hér sést til norðurs að norðurhluta Sveifluhálssins sem við þræddum okkur eftir í desember 2010...

Göngumenn að skoða landslagið vestan megin eða baksviðs
að Trölla- og Grænudyngju... Grænavatns- og Djúpavatnseggjum o.m.fl.

Við vorum þrettán í þessari göngu... þar af fjórir karlmenn... sem konurnar níu vildu endilega mynda ;-)

Enn og aftur... þrátt fyrir lág fjöll og fremur létta göngu um töfrandi fallegar slóðir...
mætti sami kjarninn og alltaf mætir óháð veðri, færð, fjallshæð eða erfiðleikastigi...
þjálfarar skilja ekkert í því hvernig þeir eiga að fara að því að fá fleiri í klúbbnum til að mæta í tindferðirnar
en þennan sama kjarna og alltaf mætir ;-)

Fyrsta hópmyndin... átti að vera tekin í þessu flotta skyggni sem þarna var... en við misstum af því þar sem éljagangur gekk snögglega yfir og tók skyggnið í smá tíma... við vissum að veðrið myndi versna er liði á daginn og áttum alveg eins von á að þetta yrði eina skyggnið sem við fengjum...

Niðurleiðin af Miðdegishnúk var því farin í minna skyggni en upp
og við syrgðum friðsæla veðrið sem fylgt hafði okkur upp á hnúkinn...

... en það glaðnaði strax til aftur og dýrðin beið okkar syðri hlutann af Sveifluhálsi...

...um kletta, gil og hnúka þennan dag... sem flestir voru nafnlausir....

... og sumir það flottir og aðskildir frá öðrum hnúkum á hryggnum að þjálfarar standast ekki mátið að nefna þá...

Sá fyrsti eftir Miðdegishnúk nefnum við hér með Skarðstind þar sem hann var allur sundurskorinn og skörðóttur á beggja bóga...
þar til annað nafn sannast... og mældist hann 374 m hár.

Hann var það brattur sunnan megin að við þurftum að fara niður um gilið vestan megin...

Þaðan gengum við meðfram honum í töfraveröldinni sem þarna leynist baksviðs...
þar sem minni hryggir og hnúkar koma i röðum meðfram Sveifluhálsinum...

... og aftur flaug Örninn á undan okkur upp á næsta hnúk... með þann villta í humátt á eftir... 
en hann var of brattur til að fara niður um sunnan megin...

 ...svo við sneiddum framhjá honum og nefnum hann ekki úr því við fórum hann ekki...
kannski telst hann bara til Skarðtinds... sjáum til síðar...

... og upp á næsta gengum við á góðu klöngri með hálkubroddana á fótum á góðri leið
sem er ekkert síðri en gangan um nyrðri hluta Sveifluhálss...

Smá klöngur á köflum en aldrei tæpt... við nefndum þennan Ketilstind - 361 m...
þar sem Ketilsstígur og Ketill eru örnefnin næst honum...

Landslagið magnað í alla staði í þessum vetrarham...

Framundan í fjarska var Arnarnípa og félagar...

Allt snjóbarið eftir úrkomu næturinnar...

... svo útlínur alls komu vel í ljós...

Þessi ansi brattur norðan megin svo við slepptum honum í þessu færi...

... en það var hægt að fara upp hann vestan megin...

... sem við gerðum eftir góða nestispásu um 10:30...

Þarna fór ekki á milli mála að við vorum á slóðum Lord of the Rings...

Færið fínt þó halda mætti annað af myndum...

Dalurinn milli Sveifluhálss og minni hryggjar í vestri... töfraland sem við verðum að skoða í góðu tómu... góðu veðri... að sumri til líka...

Guðmundur og Katrín, Sigga Sig og Áslaug og Óskar Wild að laga græjurnar ofar...
það eru forréttindi að ganga með þessu fólki á fjöll...
líklega ástæðan fyrir því að menn mæta í tindferðir aftur og aftur...
betri félagsskap og líkamrsækt er ekki hægt að hugsa sér...

Jú, niðurleiðin brattari eins og á fyrri tindum... sunnanhlíðarnar greinilega sorfnari en þær nyrðri...

Þennan fjórða tind nefndum við Arnartind - 378 m - þar sem hann er næstur Arnarnípu sem er örnefni á kortum og hlýtur að vera hvassi tindurinn sem reis sunnan þessa... - sjá næstu mynd:

Framundan voru enn fleiri tindar... ótrúlegt landslag þarna... en sá hvassasti þennan dag... og einn af þeim sem við fórum ekki upp á... var þessi sem við drögum þá ályktun að sé Arnarnípa... en forvitnilegt að sjá síðar hvort það sé rétt? -ath!

Nú fórum við niður austan megin og ekki upp á þverhnípta strítuna... þurftum að taka tillit til vetrarfærisins...

...en þarna er hægt að klöngrast og leika sér ennþá meira í sumarfæri...

Það gekk á með éljum... einhverjir fóru í hlífðarbuxur og skíðagleraugun voru komin á ennið hjá sumum...

Skyggnið hvarf með éljaganginum...

... og vindurinn jókst á köflum...

... en svo létti til og veðrið varð aftur gott..

Við litum stöðugt til veðurs... í suðri var þungt yfir... það var eins og illviðrið vofði yfir okkur...

... en vindurinn var austanstæður... frekar að austnorðaustan en nokkurn tíma austsuðaustan...
og því voru þungu skýin að hörfa undan vindinum frekar en að koma yfir okkur...

Útsýnið niður að Kleifarvatni sem nú var norðaustan við okkur en ekki lengur samhliða...

Eitt af sjarmanum við þessa leið eru þessar endalausu litlu hækkanir og lækkanir...

... gegnum síbreytilegt landslag... eins og að vera í nammilandi fjallgöngumannsins...

Hópmyndin sem var tekin á miðri leið og er í upphafi ferðasögunnar...

Við vorum að nálgast hverasvæðið sem tók að ilma og rjúka framundan okkur...

Fyrsti hverinn af nokkrum sem á vegi okkar varð...

Litið niður af hálsinum á suðurhorn Kleifarvatns með Litla og Stóra Lambafell þarna niðri og vatnsföllin af hverasvæðinu, Seltúni sem var beint fyrir neðan okkur... og þar voru ferðamenn að skoða sig um á svæði sem búið er að ganga vel frá með stígum og brúm yfir bullandi hverina af öllum stærðum og gerðum...

Gylfi athugaði með hitann... snjófölin dró vel fram hitann í berginu þarna undir okkar á þessari leið...

Litið til baka í norður um Sveifluhálsinn...

Litið til syðsta hluta Sveifluhálssins sem eftir var... í fyrstu töldum við þetta vera tindinn Hatt... en ef nokkur kort eru skoðuð mætti telja þetta vera Hverafjall og tindinn sem við vorum á Hatt... það var endanleg niðurstaða þessa ritara en verður snarlega endurskoðað ef menn senda athugasemdir til mín!

Við stöldruðum þarna við og virtum fyrir okkur jarðhitasvæðið...

Hattur var þá fimmti tindur dagsins og mældist 374 m hár.

Við héldum áfram og ákváðum að bíða með Hverafjall þó afar fagur tog freistandi væri... ef við ætluðum að ná eitthvað áleiðis urðum við að halda áfram... göngum á þennan fallega tind í næstu ferð eða á þriðjudagskveldi einu síðar...

Þarna var brattasti kafli dagsins...

... smá klöngur niður klettana... Óskar Wild með hjálparhendurnar á lofti eins og alltaf...

Nú kom endalaust klöngrið á þriðjudögum sér vel... ;-)

Wildinn sagði Súsönnu að henda bara stöfunum niður því hann væri vanur að sækja þá fyrir hana... og hún tók hann á orðinu... en þá var hann nú bara í gríni að rifja upp stafinn hennar sem fór niður klettana á Dyrfjöllum í Borgarfirði eystri forðum daga í ágúst 2010... nokkru síðar seig Óskar eftir stafnum í annarri ferð sinni um þessi fögru fjöll og skilaði Súsönnu stafnum á haustfagnaði Toppfara í október sama ár við dúndrandi hlátrasköll okkar hinna sem ætluðum ekki að trúa okkar eigin augum... hvílíkur öðlingur ;-)

Ógleymanleg með öllu sú ferð sem við lifum ennþá á...

Fagurt var landslagið þarna...

Þegar litið var til baka mátti sjá annan "heitan reit" sem hafði farið framhjá okkur þarna uppi...

Örn ákvað að fara upp á hrygginn í vestri aftur og geyma jarðhitasvæðið við Hverafjall..

... og við skildum funheitt Hverafjallið eftir...

Grænavatn:

Í grein Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings segir í tímaritinu Náttúrufræðingnum frá árinu 1950 segir orðrétt:

"Suður í Krýsuvík er lítið stöðuvatn, Grænavatn, sem fengið hefur nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Þetta litla vatn er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krýsuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg.” 

Fengið að láni frá hinum frábæra vef: http://www.ferlir.is/?id=4091

Krýsuvík... en þar er nú starfandi meðferðarheimili fyrir vímuefnaneytendur í bata:

http://www.krysuvik.is

Ofan við Hverafjall... urðu ákveðin kaflaskil... niðurganga var framundan að lægri tindum í talsverðri fjarlægð á síðasta hluta Sveifluhálssins þar sem Drumbur beið þolinmóður... það gekk á með éljum og ómögulegt var að segja hvort yfir okkur gekk enn einn éljagangurinn sem svo hyrfi jafnsnögglega og hinir og milda veðrið héldi áfram... eða hvort veðrið væri raunverulega að versna... en þarna var klukkan 12:51 og þjálfarar tóku þá ákvörðun að snúa við í ljósi veðurspárinnar þar sem við höfðum þá þegar gengið 6,4 km og áttum eftir að fara svipaða vegalengd til baka þó á láglendi væri og í einhverju skjóli fyrir austanvindinum...

Við ákváðum að enda gönguna á síðasta tindi dagsins... tindinum á hægri hönd... hlýtur að vera Hetta sem er á kortunum
því skv. landslaginu á staðnum var enginn annar tindur afgerandi á aflíðandi heiðarhryggnum sem þarna var sunnar (nafnið Hetta er aðeins sunnar á gps-kortinu en staðsetningar örnefna eins og fjallatinda er oft mjög ónákvæm á gps-map-source-kortinu).

Svo við klöngruðumst upp síðasta tind dagsins um suðurhlíðarnar...sem mældist 411 m hár og var hæsti tindur dagsins...

... og fengum ágætis veður og gott skyggni uppi... élin voru farin í bili...
svo það læddist að manni efi um hvort við værum of fljót að snúa við... en sá efi reyndist ástæðulaus þegar á leið...
... og við stundum því fegins hendi upp i miðri snjóhríðinni í lokin hversu gott það var að við skyldum hafa snúið við á þessum tímapunkti...

Niður var farið um austurhlíðarnar og stefnan tekin um baksvið Sveifluhálss... um dalinn vestan hans þar sem leynast smærri hryggir í óteljandi myndum hans... svo sannarlega áhugavert að skoða þetta svæði aftur að sumri til í betra veðri...

Team Orange

Litur dagsins var sérkennilega í stíl... allir í rauðu/appelsínugulu og þrjú voru í svörtu að meðtöldum myndatökumanninum sem var Gylfi.
Takk Gylfi minn fyrir lánið!

Bára, Lilja Sesselja, Katrín, Súsanna, Guðlaus, Sigga Sig., Jóhanna Karlotta, Örn, Óskar Wild, Áslaug, Gerður Jens. og Guðmundur Jón
en Gylfi tók mynd.

Dalurinn var krókóttur... hæðóttur...klettóttur... mjög svo ævintýralegur...

... en því miður í versnandi veðri svo dýrðarinnar var ekki notið nægilega...

... þó ævintýrið héldi áfram...

....og við fengum fínustu upprifjun í vetrargöngutöktunum þegar skíðagleraugu, lambhúshetta, ullarvettlingar, belgvettlingar o.fl.
verða óaðskiljanlegur hluti af búnaðinum í bakpokanum...

... en nokkrir voru ekki með allan búnað með sér... sem segir að hluta til eitthvað um hversu gott veður við erum farin að ganga í í tindferðunum... kannski of góðum... og lítið lent í erfiðum veðrum á þriðjudögum í vetur...

Þessi ganga vakti okkur aðeins til umhugsunar um hversu mikilvægt það er að æfa sig á erfiðum veðrum því það er aldrei hægt að ganga að því vísu að fá ekki á sig vind, kulda og úrkomu þó menn stilli sig inn á góð veður að mestu...

Við einfaldlega megum ekki missa niður hæfnina gegn erfiðum veðrum... því fjallgöngur og útivera á Íslandi krefst þess skilyrðislaust að menn kunni að bregðast við versnandi veðri á öllum árstímum og algerlega óháð veðurspá... því veður í yfir 800 m hæð á þessu landi er alltaf ófyrirsjáanlegt og óháð veðri á láglendi, óháð árstíð (blindbylur á Fimmvörðuhálsi í júlí) og óháð veðurspá sem getur skyndilega breyst hratt.

Með vaxandi vindi minnkaði skyggnið...
og landslagið sagði lítið til um hvar við vorum stödd því við vorum baksviðs...

því það var einsleitt í fjölbreytileika sínum...
og því var gengið eftir gps...

... og stefnt á punktinn sem þjálfarar höfðu merkt inn í skarðinu sem ætlunin var að fara yfir að bílunum...

... milli okkar og skarðsins voru hins vegar minni hryggir og klettar...

... sem erfitt var að átta sig á hvort færir væru eður ei í hríðinni...

... sérstaklega þegar snjókófið varð sem mest og maður sá varla næsta mann...

... en þjálfarar völdu álitlega leið á milli tveggja hnúka... þó það þýddi smá klöngur þar sem ekki var vitað hvort fært væri hinum megin...

...en svo reyndist vel vera og við komumst greiðlega að skarðinu
þar sem ekkert annað beið okkar en að lækka okkur niður á láglendið að bílunum... 

... sem þýddi að þeir sem ekki voru orðnir snjóbarðir eins og Guðmundur hér í skarðinu...

... urðu það á endanum eftir niðurgönguleiðina að bílunum...

Guðmundur og Katrín... með sterkustu og eljusömustu göngumönnum klúbbsins... mæta í nánast hverja einustu tindferð og þriðjudagsæfingu
frá því þau byrjuðu í janúar 2011... og uppskera eins og þau sá...

Við stóðumst ekki mátið að taka hópmynd í lok ferðar eftir snjóvolkið í lokin...

Allir glaðir eftir flottan göngudag og smá slag við veðrið...

Fjallaástríðukonurnar Sigga Sig og Gerður Jens sem allt geta og allt gera... láta sig nánast aldrei vanta...
með bros á vör öllum stundum... konur sem eiga fá sína líka og við þjálfararnir tökum ofan fyrir...

Örninn var kominn með snjóskegg..

... og þéttar snjólúffur...

... snjótaglið í bílnum sem fór að bráðna ásamt öllu öðru á leiðinni... við skiluðum okkur ansi blaut heim...

Ævintýrinu lauk með smá aðstoð við erlenda ferðamenn sem ekki komust leiðar sinnar í versandi veðrinu við Kleifarvatn á fólksbíl... Óskar Wild dró þau yfir hálsinn og við héldum öll hópinn á eftir þeim alla leið í bæinn þar sem veðrið versnaði stöðugt svo það mátti varla tæpara standa með að lenda í þæfingsfærð til byggða... þar beið okkar ljúfur sunnudagseftirmiðdagur sem fljótlega féll þó skuggi á þegar fréttir tóku að berast af slysi á Hátindi Esjunnar og við urðum harmi slegin þegar ljóst var daginn eftir að um banaslys var að ræða...

Alls 11,4 km ganga á 5:49 klst. upp í hæst 405 m hæð með 832 m hækkun alls milli tinda miðað við 161 m upphafshæð.

Hugur okkar er hjá Fjallavinum og aðstandendum konunnar sem lést.

Heimförin - fegursta lagið hans Ásgeirs Trausta:

http://www.youtube.com/watch?v=9TM3M5u_pt8&list=FLVtQ58VOFpkn21UNog7D7nA

Heim á leið, held ég nú
hugurinn þar er
hugurinn þar...

Ljós um nótt, lætur þú
loga handa mér
loga handa...

Það er þyngsta raun
þetta úfna hraun...

Glitrar dögg, gárast lón
gnæfa fjöllin blá
gnæfa fjöllin...

Einn ég geng, einni bón
aldrei gleyma má
aldrei gleyma...

Löng er för, lýist ég
*lít samt fram á veg*

Heim á leið, held ég nú
hugurinn þar er
hugurinn þar...

Ljós um nótt, lætur þú
loga handa mér
loga handa...

Það er þyngsta raun
*þetta úfna hraun*

Söngur: Ásgeir Trausti - Texti: Einar Georg Einarsson
Dýrð í dauðaþögn 2012.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir