Haustganga 29. ágúst 2009
 

Hekla í heiðskíru !

Alls tóku 31 Toppfarar þátt í haustgöngu fjallgöngukúbbsins 29. ágúst sem í þetta fyrsta sinn var
fjalladrottning Suðurlands
og hæsta fjall þessa landshluta fyrir utan jökla... 
(þó það sé lítill jökull utan í henni)

...sjálf Hekla í allri sinni dýrð á fallegum síðsumarsdegi...

Og vörpuðu Toppfarar skuggum sínum óhikað um myljandi hrauni eldfjallsins
í hífandi gleði með gott gönguveður á fallegri slóð...

... og sjálft Ísland fyrir útsýni...

Þar sem veðrið var með besta móti var bílum ekki ekið upp öxlina heldur lagt af stað gangandi frá malarstæðinu við Skjólkvíar  sem þýddi að göngutúrinn lengdist frá upphaflegri áætlun.

En gangan sóttist vel í góðu færi og veðri og vorum við komin í snjórönd við 1.100 m hæð...
...snjólínu sem lá sérkennilega utan í hrauninu eins og íshröngl.

En stuttu eftir að við fórum yfir nýjasta hraunið frá gosinu 2000 sem óðum er að myndast smá slóði um þó enn sé það mjög úfiið áðum við með nesti og  þjálfari var með smá fróðleik um Heklugöngur og Heklugos:

Þar kom m. a. fram að þekkt eru 17 gos í Heklu á sögulegum tíma. Nú eru níu og hálft ár liðið frá síðasta gosi og hefur Hekla á tuttugustu öld gosið árin 1947, 1970, 1980 (-1981), 1991 og svo 26. febrúar 2000 svo það er komið ákveðið mynstur um gos á ca 10 ára fresti. Gosið 1947 stóð yfir í 13 mánuði og gosið 1970 gaf af sér Skjólkvíarhraun sem bílarnir liggja við á akstursleið að fjallsrótum en þá gaus við rætur Hekluhryggjarins í suðvestri og norðaustri... 

 Hekla er næst stærsta eldstöð landsins á eftir Grímsvötnum en sú allra skæðasta
þar sem hún hefur lagt að velli fimm hreppi og yfir 100 bæi...

Fyrstir til að klífa Heklu voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson aðfararnótt 20. júní árið 1750 en sögusagnir voru um fyrri ferðir, m. a. í Íslandslýsingu Odds Einarssonar Skálholtsbiskups sem talin er rituð um 1590 þar sem segir að fáeinir menn hafi reynt að klífa Heklu án þess að takast það, en þó hafi Oddur haft spurnir af einum manni er upp hafi komist og séð hvernig var umhorfs en orðið vitskertur á eftir og látist stuttu síðar...

Dulúð Heklu á sér engan líka...

...né andstæður hennar...
sem birtust m. a í
íshrönglinu í svörtum vikrinum austan megin í þessu litla gili annars vegar
og
mosagrænu rauðhrauninu hins vegar.

Veðrið lék við göngumenn eins og spáin hafði sagt til um með heiðskíru veðri, N10 og 11°C
og hvergi örlaði á gosi þegar fyrri tindinum var náð...

 

...eftir 2:39 klst. göngu.


Hugrún, Steinunn, Örn, Ketill, Arnar - af Arnkötlustaðaætt - Bára tók mynd - 30. maí 2009.

Sjá hér sama stað á tindi Heklu nákvæmlega 3 mánuðum fyrr,
laugardaginn 30. maí þar sem við stöndum við Gestabókarhylkið
sem er NB
frosið inn í rúmlega 2ja metra háan ísvegg kringum það - sjá vinstra megin við göngumenn !

(þetta var sem sé smá útúrdúr til að sýna margbreytilega mynd Heklu milli mánaða !
( Engin Hekluganga er eins! )

Og auðvitað var gengið á báða tindana en sá syðri mælist alltaf aðeins  hærri skv. gps
sem mældi þá þennan dag
1.502 m og 1.509 m háa

Útsýni var til átta jökla og óteljandi fjalla allt um kring...

Komin á syðri tindinn í suðvesturhluta Heklu með Þríhyrning í fjarska vinstra megin....


Mýrdalsjökull - Tindfjallajökull - Eyjafjallajökull

Og við nutum þess að sjá Vestmannaeyjar... Surtsey (sem ekki sést oft)... Eyjafjallajökul, Tindfjallajökul, Mýrdalsjökul, Torfajökul, Háskerðing,  Hrafntinnusker, Laufafell, Öræfajökul / Vatnajökul, Tungnafellsjökul (Guðjón gat kreist út með manni þá sýn...), Hofsjökul með Kerlingarfjöllum öllum skýlausum eins og annað þennan dag, Arnarfell, Langjökul, Jarlhettur, (hvað með Þórisjökul... man ekki eftir að hafa skyggnst eftir honum...), Hlöðufell, Högnhöfða, Skjaldbreiður, Botnssúlur... o. m. fl...

Flottustu Toppfararnir sem kenna okkur hinum að allt er hægt sé vilji og staðfesta fyrir hendi...
Við sem yngri erum sjáum að við eigum
nóg af árum eftir á fjöllum með þessar fyrirmyndir í hópnum...
Björn sem verður 70 ár í desember og gekk á Kilimanjaro í sumar í tilefni þess
og 
Ketill sem verður 72ja í desember og var á sinni fimmtu Heklugöngu, þar af annarri í ár...

 

Efri frá vinstri:
Petrína, Sigrún, Guðbrandur, Þorbjörg, Rannveig, Ketill, Helga Bj., Sigga, Ásta, Alda, Björn, Guðjón, Helgi Máni, Finnbogi, Gylfi Þór, Heiðrún og María.
Neðri frá vinstri:
Jón Þór, Linda Lea, Nína María, Bára, Örn, Þorsteinn, Hildur Vals., Ella, Guðbjörg, Íris Ósk, Lilja, Alexander, Ingi og Júlíus.

Aftur var snúið á nyrðri tindinn og skrifað í gestabókina.

Með Langjökul, Kjöl, Sprengisand... o. m. fl. í hinar áttirnar...
Gylfi Þór - Ketill - Björn - Guðjón Pétur

Ingi Pípó stóðst ekki mátið og mátaði sig við pípulögnina sem geymdi gestabókina
sem Petrína var að klára að skrifa nafnið sitt í...

 Nokkrir klúbbmeðlimir voru að fara í sínu fyrstu laugardagsgöngu með klúbbnum auk þess sem fjórir gestir komu með í ferðina til að kynnast klúbbnum en annars var rúmur meirihluti hópsins að ganga á Heklu í fyrsta sinn við þessar frábæru aðstæður
sem gerast vart betri en þennan lukkulega laugardag...

Alexander fann hellinn sinn...
Líklega sá sami og myndin var tekin af honum fyrir tveimur árum á Heklu (myndin í félagatalinu!) í fjórðu tindferð Toppfara
(þó þjálfarar hafi haldið annað þarna - sé það þegar farið er yfir gömlu myndirnar að þetta er líklega sami hellirinn!)
En hann hefur þá breyst talsvert í tímans rás - sjá samanburðinn í myndasafni Toppfara á
http://picasaweb.google.com/Toppfarar

Rauðkembingar, Löðmundur, Krakatindur, Rauðufossafjöll m. a...

Fjær glitraði Vatnajökull með Öræfajökul svo skýran að vart var hægt að trúa þessu útsýni...

Skyggnið var lygilega gott eins og oft í fjallgöngum að hausti til.

Örn tók smá vinstri beygju framhjá úfna hrauninu og tók skaflana frekar niður og inn að gígnum sem var góð bakaleið.


Síðustu skrefin að bílunum með Búrfell í fjarska

Fjallganga í hæsta gæðaflokki með fólki sem kann að njóta augnabliksins og gleðjast í góðra vina hópi á fjöllum.

Trackið úr ferðinni er gult - fjólublá er slóðin frá því 2007 .
Sjáið muninn við að aka upp á öxlina - munar
3,7 km og rúmlega 200 m hækkun.

Gangan endaði í 15,9 km á 5:44 klst. upp í 1.509 m mælda hæð skv. gps þjálfara (1.491 m skv. Landmælingum)
með
985 m hækkun frá 524 m upphafshæð...

Takk fyrir frábæran dag elskurnar...

...er nokkuð skrítið að Hekla sé uppáhaldsfjallið manns ?

Sjá allar myndir á myndasíðu Toppfara:
http://picasaweb.google.com/Toppfarar

Og frábærar myndir hjá Gyfa Þór með frásögn undir hverri mynd á framúrskarandi myndasíðunni hans:
 
www.123.is/gylfigylfason

Sjá slóðir á fróðleik um Heklu:

Umfjöllun Morgunblaðsins á göngu á Heklu 24. júní 2009:
 http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/24/hekla_togar_i_ferdafolk/ 

Upplýsingar um öll Heklugos og annar fróðleikur í Heklusetrinu Leirubakka:
http://www.leirubakki.is/Default.asp?Page=257

Sirrý sendi þessar slóð frá Hálendishótelinu Hrauneyjum með góðum upplýsingum um Heklu og öll Heklugosin:
http://hrauneyjar.is/IS/Ahugaverdir-stadir/Hekla,-eldfjallid-vidfraega_231/default.aspx

Og frá veðurstofunni frá því í síðasta gosi árið 2000:
http://hraun.vedur.is/ja/heklufrettir.html

Veðurstofan varðandi viðbrögð við eldgosi utandyra:
http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/eldgos_vidbrogd/

 

 



Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir