Tindur 34 - Átta tinda ganga um fjallahring Blikdals í Esjunni
laugardaginn 20. mars 2010
... þegar gosið hófst í Eyjafjallajökli á Fimmvörðuhálsi kl. 23:30 um kvöldið...

Átta tinda bros um Blikdal
... í brakandi blíðu...

34. tindferð Toppfara var laugardaginn 20. mars um fjallakransinn kringum Blikdal í norðvestanverðri Esjunni. Þátttökumet í tindferð var í göngunni þar sem alls mættu 53 manns að meðtöldum sex gestum og Lilju Bjarnþórs sem tók fyrsta hlutann með hópnum og Hjölla sem fór niður af þverfellshorni. Gengið var frá mynni Blikdals upp á Melahnúk, Dýjadalshnúk, Tindstaðafjall, Kistufell, Hábungu, Þverfellshorn, Kerhólakamb og Smáþúfur með viðkomu á ýmsum fögrum útsýnisstöðum á leiðinni.

Snarbrattar hlíðar Esjunnar nutu sín vel í góðu skyggni mestan hluta dagsins þar sem sólin skein í heiði frá láglendi upp í um 850 m hæð í lygnu og hlýju veðri. Efst var gengið inn í létta snjóþokuna og var gangan líkast jökulgöngu í brakandi hörðu færi og bjartri snjódrífu sem gaf nokkur snjókorn og svala golu á milli þess sem það létti til og opnaðist við brúnirnar.
Færið
var með besta móti (fyrir utan leðjuna á kaflanum ofan af Smáþúfum)
og bjart og nánast úrkomulaust
veðrið skákaði spánni og öllum áhyggjum af erfiðu veðri þennan dag.

Þjálfarar brutu upp gönguna með því að gera stólpagrín að ítrekuðum tilraunum bæði þjálfara og Toppfara til að sigra hæsta tind landsins og tóku smærri hópmyndir á hverjum tindi þar sem myndaðir voru þeir sem "reynt hafa að fara á Hnúkinn en ekki tekist", "þeim sem farið hafa alla leið á Hnúkinn", "þeim sem ætla á Hnúkinn í ár", "þeim sem ekkert hafa haft með Hnúkinn að gera hingað til" og svo fengu sjósundsmenn hópsins sér mynd, þá þeir sem eiga nafn með upphafsstafnum H en það eru alls 24 manns af 111 félögum klúbbsins  og loks var tekin mynd af "vinum Ágústu" þar sem þeir voru hvorki meira né minna en fimm af sex gestum göngunnar og þar af voru tvö frá Reyðarfirði sem komu gagngert í þessa göngu sem lið í æfingu þeirra fyrir á 24 tinda um Glerárdal í júlí.

Alls luku 51 manns um 26 km (25,2 - 26,3 km) göngu á 8:35 - 8:51 klst. upp í 558 - 739 - 791 - 851 - 925(914) - 771 - 859 - 597 m hæð með 873 m hækkun frá byrjun að hæsta punkti miðað við 53 m upphafshæð en úrin mældu hækkunina samtals milli tinda alla leiðina um 1.471 m en taka þarf þeirri tölu þó með nokkrum fyrirvara.

----------------------------------------

Lagt var af stað úr bænum kl. 8:00 og gangandi af stað kl. 8:42 frá malarstæðinu norðan við vigtarplanið.

Hnefi í Lokufjalli - Melahnúkur - Dýjadalshnúkur og Tindstaðafjall framundan á mynd.

Snjólínan hafði heldur betur færst niður um marga metra nær sjávarmáli um nóttina þar sem þá snöggkólnaði svo færið í þessari göngu var einkar hagstætt, en í lok dags var fölin horfin af fjöllunum eins og sjá má í fjallasýninni af fyrstu myndum og þeim síðustu þennan dag.

Veðrið var lygilega gott miðað við veðurspá... sólskin, engin úrkoma og varla hreyfði vind...

... eða hálfskýjað, SV6 og 5°C skv veðurstofu.

Gengið var með gljúfri Blikdalsár sem er gullfallegt og verður skoðað betur síðla sumars og stefnt á Melahnúk sem var fyrsti tindurinn af átta þennan dag.

Hópurinn hér að liðast upp fyrstu alvöru brekkuna eftir þétta hækkun úr 54 m upphafshæð frá bílunum.

Tindur 1 - Melahnúkur í 558 m mældri hæð (537 m skv korti).

..."misheppnaði hópurinn"...

Efri: Bára, Lilja B., Þorsteinn, Guðjón Pétur, Örn, Íris ósk og Roar.
Neðri: Halldóra Þ., Simmi og Ingi.

Fyrstu myndina fengu þau sem "...reynt hafa að ganga á Hnúkinn en ekki komist alla leið..." Bára átti þar metið eða þrjár tilraunir, þar af tvær með Toppfara síðustu ár og eina árið 2003 með Erni og nokkrum langhlaupurum...

Akrafjallið var haft í baksýn og þótti við hæfi þar sem Skagamenn skipuðu hálfan hópinn.

Áfram var haldið för ofan af Melahnúk og inn að norðvesturhlíðum Dýjadalshnúk með stórkostslega fjallasýn til Hafnarfjalls og Skarðsheiðar hér í baksýn.

Ekki var hópurinn nægilega samstilltur fararstjóranum og þvældust of ofarlega um brattar hlíðarnar með tilheyrandi hálku og hefðu betur elt Örn sem fór talsvert neðar og slapp við sleipa og bratta leið. Ætlun hans var að fara svo beinustu leið upp brekkuna þegar komið væri nógu innarlega í dalinn og klettunum sleppti efst, en það er yfirleitt betra þegar um mjög bratta og hála brekku er að ræða, að fara beint upp frekar en að vera í hliðarhalla eins og flestir lentu í með óþægðinni :-)

Öftustu menn settu því á sig gormana til að hafa betri fótfestu en þeir tóku upp á því að skoppa hver á eftir öðrum niður brekkuna en Ingi var ekki lengi að skjótast með galdraprikinu sínu á eftir þeim og koma þeim óðum til eigenda sinna aftur.

Hildur Vals, Heiðrún og Roar hér að gorma sig.

Akrafjallið með snjóhatt, Jóhannes hér fremst á mynd og hópurinn að sniglast upp brekkuna.

Hér sneri Lilja B. við og Bára fylgdi henni til baka um hlíðina en Lilja stendur í hásinameiðslum og má kallast góð
að hafa þó farið
9 km þennan dag .

Komið var upp á Dýjadalshnúk í blíðskaparveðri, logni og sól og mögnuðu útsýni niður í Blikdal, til sjávar og Miðdals.

Þarna var tekin fyrsta nestisstund dagsins.

Stórbrotið gljúfur Kerlingargils hér aftan við göngumenn, Miðdalur og Eyrarfjall sem er á dagskrá árið 2011...

Tindur 2 - Dýjadalshnúkur í 739 m mældri hæð.

..."Vinir Ágústu"...

Af sex gestum göngunar voru fimm runnir undan rifjum Ágústu og þótti þvi ekki annað stætt en hafa þau á sérmynd...
"
...vinir Ágústu..."

Efri: Steinunn (Toppfari sem kom í hópinn fyrir tilstilli Ágústu), Valdís, Hjálmfríður og Róbert.
Neðri: Ágústa, Brynja og Einar.

Hjálmfríður og Róbert komu frá Reyðarfirði til að taka þátt í göngunni, sjá http://www.fjardabyggd.is/Reydarfjordur/
Staður sem skartar mörgum spennandi fjöllum... að mati þjálfara bjóða
Austfirðir upp á mögnuðustu fjöllin á Íslandi...
Kannast ekki einhverjir við að fá hálsríg þegar ekið er austur fyrir land?
Þau eru að æfa sig fyrir
24 tinda í Glerárdal í júlí eins og nokkrir í Toppförum, sjá www.24x24.is

Einn af flottum útsýnisstöðum Dýjadalshnúks... hægt er að fara aftan við þennan út á litla klettanös sem slær flestum útsýnisstöðum við en okkur fannst það ekki fýsilegur staður í hálkunni að sinni...

Sjá myndband þjálfara nr. 1 af 3 á þessum tímapunkti:
http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/15/ljoPqbjCSiA
 

Frá Dýjadalshnúk var lagt í hann upp á Tindstaðafjall.

Gjóskulegir skýjabólstrarnir lágu í suðri yfir hæsta hluta Esjunnar en við vorum í sólinni ennþá...

Tindur 3 - Tindstaðafjall í 791 m mældri hæð.

..."Hnúksfarar"...

"...Þeir sem ætla á Hnúkinn í ár..." fengu sérmynd hvort sem þeir ætla með Toppförum eða í öðrum leiðöngrum.

Efri: Valdís, Róbert, Hjálmfríður, Steinunn, Örn, Sigrún, Hjölli, Hildur Leifs., Rósa, Þorsteinn, Óskar Bjarki, Hrafnkell, Ketill og Bára.
Neðri: Einar, Ágústa, Áslaug, Vallý, Anna Elín, Inga Lilja, Heiðrún, Guðjón Pétur, Petrína, Lilja K., og Fríða.

Hvílíkt dúndurlið... vá hvað það verður gaman hjá okkur 15. maí...

Af Tindstaðafjalli var gengið í átt að Kistufelli en milli þessara fjalla liggur rimi sem aðskilur rétt svo Blikdal og Miðdal
og gaf gönguleiðinni magnaða fjalla-sala-sýn í góðu veðrinu.

Kistufell hér framundan með rimann á milli.

Hildur Leifs og Ásta Henriks að koma að rimanum.

Þórnýjartindur út af mynd en er yst á fjallsbrúnunum vinstra megin.

Hann verður genginn í næstu dalagöngu Esjunnar um Miðdal og Eilífsdal árið 2011 eða síðar...

Tindur 4 - Kistufell í 851 m mældri hæð.

..."Sæfarar"...

Sjósundsmenn hér á mynd en nokkrir innan hópsins hafa aldeilis haldið sig við þá iðkun meira og minna
í allan vetur án þess að gefa eftir...

Efri: Hildur Vals., Snædís, Ásta H., Kári Rúnar, Dóra P., Áslaug og Hrafnhildur Tryggva.

Neðri: Sigrún, Gerður, Anna Elín, Hildur Leifs., og Ágústa.

Þess skal getið að Áslaug og Dóra hafa afrekað það að synda alla leið út í Viðey...

Útsýnið ofan af Kistufelli til norðausturs yfir í Miðdal, mynni Flekkudals, Meðalfells og Reynivallahálss með Laxárvog vinstra megin (Meðalfellsvatn í hvarfi) og nyrsta hluta Þórnýjatinds hægra megin nær á mynd.

Sif, Þorsteinn, Lilja K. og Guðjón Pétur fremst á mynd með rimann í baksýn.

Íris Ósk, Toppfari ársins 2007 og Anna Elín, hörkugöngumaður, með Eyrarfjall og Skarðsheiðina í baksýn.

Hópurinn með Erni, fararstjóra á þéttum gönguhraða.

Næst fremstu menn...

Miðjan á hópnum...

..."þeir síðustu verða fyrstir...

Ofan á Kistufelli tók snjóbreiðan við á rösklegri göngu til suðurs í átt að Hábungu.

Þessi síðasti kafli að hæsta tindi minnti á jökulgöngu á góðum degi; brakandi gott færi, engin hálka og engin þörf á broddum, gormum eða snjóþrúgum... með þoku og sólargeislum innan um snjókornin...

Skýjabólstrarnir í suðaustri voru "náttúrulega" að reyna að segja okkur að það væri von á eldgosi í Eyjafjallajökli áður en dagurinn rynni
en við heyrðum það  ekki...

Síðari riminn að heiðinni sem tekur við og myndar meginland Esjunnar.

Þarna þurftum við að lækka okkur frá 851 m niður í 766 m áður en 914 m tók við á Hábungu.

Einar, Valdís, Ásta H., Petrína og Sigga Sig. með Eilífsdal á vinstri hönd... þriðja dal dagsins... en hann verður eilíflega greyptur í minni Toppfara eftir stórkostlega göngu um hann undir stjórn Hjölla sumarið 2008 þegar þjálfarar tóku sér hlé, þar sem menn komu ekki heim af þriðjudagsgöngu fyrr en hálf tvö um nóttina, en sá dagur sló margra ára veðurmet í Reykjavík...

Sjá ferðasöguna á vefsíðu Hjölla: http://www.hjolli.com/Toppfarar/

Stelpunum tókst að finna góðan vatnslosunarstað fyrir okkur allar áður en haldið var upp á helbera heiðina...

Vallý og Svala... hörkukonur sem víla ekkert fyrir sér...

Ketill, Día, Áslaug, Svala og Inga Lilja... öll á leiðinni á Hnúkinn nema Svala... eða hvað Svala?

Þokan tók við þegar komið var upp í um 850 m hæð og þó sólargeislarnir lífguðu stundum upp á þokuna fram á hæsta tind þá ríkti þar vetur með gjólu og lítils háttar snjókomu og engu skyggni.

Gleðin réð ríkjum á tindinum eins og vanalega og mönnum fannst skrítið að hafa enga brekku til að setjast á,
bara hvítt sléttlendið eins langt og augað eygði... "ekki tindur fyrir fimm aura" myndi fimm ár strákur eflaust segja ;-)

Sigrún, Sigga Rósa og Hermann hér í hláturkasti...

Varðan á tindinum var meira í snjókafli en fyrir mánði síðan þegar þjálfarar fóru könnunarleiðangur um svæðið og allar áhyggjur af leðjufæri og blautum snjósköflum reyndist greinilega óþarfar... þarna ríkti ennþá hávetur þó farið sé að vora á nágrannafjöllum höfuðborgarinnar...

Tindur 5 - Hábunga í 925 m mældri hæð (914 m).

..."Átta tinda farar"...

Hér voru allir göngumenn dagsins teknir í mynd... í stafrófsröð:
Anna Elín, Ágústa, Áslaug, Ásta H., Ásta S., Bára, Björgvin J., Dóra., Elsa Inga, Fríða, Gerður, Guðjón Pétur, Halldóra Þ., Hanna Steina, Heiðrún, Hermann, Hildur L., Hildur V., Hjölli, Hrafnhildur T., Hrafnkell, Inga Lilja, Ingi, Íris Ósk, Jóhannes Svavar, Jo´n Július, Kári Rúnar, Ketill Arnar Leifur, Lilja K., Petrína, Reynir, Roar, Rósa, Sif, Simmi, Sigga Rósa, Sigrún, Snædís, Steinunn, Svala, Vallý, Þorsteinn og Örn.
Á mynd vantar Lilju Bjarnþórs sem stendur í hásinameiðslum og fór hluta af leiðinni.

Af Hábungu var stefnt á aukatind í göngunni sem þjálfarar höfðu hugsað sér að bæta við ef veðrið væri gott...
Hjölli ætlaði niður af
Þverfellshorni þar sem hann var í kapphlaupi við tímann vegna vinnu...
og að sjálfsögðu fylgdum við honum niður að "horni"...

Þegar komið var fram á brúnirnar í suðri sem rísa yfir gönguleiðinni upp að steini,
þynntist þokan smám saman og útsýnið blasti við til borgarinnar.

Heiðin frá Hábungu Þverfellshorni meðfram suðurbrúnum Esjunnar.

Komin að vörðunum við Þverfellshorn... útsýnið var áhrifamikið niður að borg og sundum.

Gljúfurdalur Esjunnar í vestri... fjórði dalurinn sem við litum niður um þennan dag.

Tindur 6 - Þverfellshorn í 771 m mældri hæð (770 m).

..."Hnúkarar"...

"Þeir sem farið hafa alla leið á hæsta tind landsins í 2.110 eða 2.119 m hæð... sællar minningar."

Efri: Leifur, Sigga Sig., Ásta H., Jóhannes Svavar, Petrína, Hjölli, Sigga Rósa, Kári Rúnar, Hrafnhildur T., Björgvin J.

Neðri: Vallý, Sif, Gerður, Hildur V., Snædís, Els Inga og Svala.

Hjölli kvaddi hópinn og dreif sig í vinnuna...

Einn ötulasti göngumaður Toppfara frá upphafi sem farið hefur tvisvar 24 tinda og leitt félaga sína mörgum sinnum um spennandi slóðir,
meðal annars í hellaskoðun um
Raufarhólshelli...

Sjá www.hjolli.com.

Frá Þverfellshorni var gengið í norðvestur að brúnum Blikdals í dalsbotni hans þar sem Kerhólakambur beið okkar.

Upplifunin var mögnuð þegar hamrarnir birtust úr þokunni og það var smá synd að hafa ekki óskert útsýni um dalinn í heild sinni frá þessum punkti til norðurs (mikið vill meira!) en dalsbotninn er umfangsmikill og skorinn nokkrum sinnum með tilheyrandi hamraveggjum sem gerir hann margskiptan.

Snædís, Hrafnhildur T. og Ketill.

Hamrarnir í botni Blikdals á leiðinni á Kerhólakamb.

Þarna voru snjóhengjur sem sýndu vel hvernig þær geta boðið hættunni heim ef gengið er fram á þær í engu skyggni án þess að þekkja svæðið og vita hvar menn eru nákvæmlega staddir.

Jóhannes Svavar, Elsa Inga, Ásta H., og Gerður með brúnirnar í baksýn.

Sólin kom svo smám saman þegar við náðum Kerhólakambi og landslagið birtist okkur allt um kring.

Inga Lilja, Björgvin, Sigga Rósa, Sig, Ágústa, Brynja og Steinunn.

...með bros á vör og gleði í hjarta...

Ketill, Hildur Leifs., Íris Ósk, Örn, Vallý, Svala og Anna Elín.

Sjá myndband þjálfara nr. 2 af 3 á þessum tímapunkti:
http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/14/mvMfyt4pDSY
 

Tindur 7 - Kerhólakambur í 859 m mældri hæð (851 m).

"Háin á hengjunni"

Alls heita 24 Toppfarar af 111 manns nafni með uppphafsstafnum H... 
"
Háin í hópnum" eða "Háin á hengjunni eða hugrökku Háin" eins og þau kölluðu sig
fengu sérmynd af sér á næstsíðasta tindinum.

Efri: Hermann, Hanna Steina, (Halldóra) Sif, Heiðrún, Hrafnhildur T., Hrafnkell.

Neðri: Hjálmfríður, Halldóra Þ. Hólmfríur (Fríða), Hildur V., Halldóra (Dóra) og Hildur Leifs.

Af Kerhólakambi sem nú var skýlaus með öllu eftir nokkur snjókorn hálfri mínútu fyrr... svona voru skýin nú létt á sér þennan dag... var gengið í vestur yfir á Kambshornið.

Brúnir Tindstaðafjalls og Kistufells í baksýn göngumanna hér.

Systurnar Día og Drífa náðust rétt svo á mynd á miðju skoppi innan um aðrar dífur Toppfara.

Kambshornið með óskert útsýni til vesturs yfir sjó og land Skagamanna... Akranes og Akrafjall.

Brattinn ágætur ofan af Kambnum en ekkert sem menn hafa ekki margoft klöngrast um áður
á góðum þriðjudegi til þjálfunar...

Snjóbrekkan í baksýn er brekkan sem við renndum okkur niður um fyrir ári síðan þegar okkur datt skyndilega í hug að ganga Kerhólakamb á þriðjudagsæfingu og fengum frábært útsýni og blankalogn á tindinum eftir hörkuvind á uppleið...:

Sjá upprifjun á þeirri æfingu sem telst til þeirra eftirminnilegri:
http://www.fjallgongur.is/aefingar/7_aefingar_jan_mars_2009.htm

Niður af Kambshorni var mosinn tekinn við að mestu og snjórinn kvaddi smám saman.

Sjá myndband þjálfara nr. 3 af 3 á þessum tímapunkti:
http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/13/2oqsJipdgnQ

Klöngrið niður síðasta hjallann.. nauðsynlegt eftir endalaust spáss um flatar heiðar...

Þar sem veðrið var gott fór Örn með okkur fram á vesturbrúnir Esjunnar sem gnæfa yfir Vesturlandsveg
þegar ekið er um
Kjalarnes og Grundarhverfi.

Inga Lilja á heima á Kjalarnesi og fékk að sjálfsögðu heimamynd af sér.

Ein af ómetanlegum félögum Toppfara sem bæst hafa í hópinn frá því í haust og mætir nánast alltaf... enda stefnir hún á
24 tinda ásamt Áslaugu, vinkonu sinni...

Vesturbrúnirnar með höfuðborgina í baksýn.
Þarna hefðum við getað spásserað um lengi...

Skagamenn fengu ekki sérmynd af sér þennan dag þar sem þau tilheyrðu öll öðrum hópum dagsins
...en hver stenst mátið þegar þeir bregða á leik...?

Lilja K., Simmi, Heiðrún, Hanna Steina og Ingi.
Á mynd vantaði Guðjón Pétur, Petrínu og Þorstein frá Skaganum...
...geri Reykvíkingar betur í mætingu...

Tindstaðafjall og Kistufell með Toppfara svo smáa í þessum viðfeðma fjallasal...
Ef Esjan væri
jökull hefði hún ekkert fyrir því að gleypa okkur í einum bita...
Ef hún væri
eldfjall værum við með gott útsýni úr stofuglugganum...
Ef hún væri
bóndi værum við heimalningar hennar..
En við erum
vinir hennar...

Smáþúfurnar framundan... "ekkert eftir..."... menn "ekkert" lúnir og bara glaðir með gott veður og gott færi...

Þúfurnar fá ekki virðulegt nafn en eru engu að síður í 600 m hæð sem er sama hæð og "steinninn" á Esjunni og lágu þarna lengst niðri sem var einhvern veginn svo afstætt en nafnið skiljanlegra í félagsskap hærri fjalla og hvassari hamra allt um kring.

Toppfarar í takt við náttúruna með félögum sínum Smáþúfum...

Fjallasalurinn þegar litið var til baka... brúnir Kerhólakambs og hamraveggirnir í botni Blikdals... dalur sem er óbyggður og ósköp eyðilegur til samanburðar við norðurdali Esjunnar... en undurfagur í auðn sinni og skartar fögrum fossi í dalsbotni sem gaman væri að skoða á góðum sumardegi... og ganga yfir nokkra tugi lækjarspræna sem renna niður dalinn báðum megin niður í Blikdalsá... og sjá hvernig þessi litla spræna sem byrjar frá fossinum endar í tikomumiklu gljúfri í dalsmynni... svoleiðis göngutúr inn úr og til baka væri um 14 km langur...

Síðasta formlega nestispása dagsins á Smáþúfum með útsýni til norðvesturs.

Tindur 8 - Smáþúfur í 597 m mældri hæð (585 m)

...Sjálfstæði hópurinn...

Þau sem EKKI ætla á Hnúkinn, hafa EKKI farið á Hnúkinn og hafa EKKI reynt að fara á hann... eða þau sem "ekkert hafa með Hnúkinn að gera" fengu sérmynd og töldust sjálfstæðust af öllum þar sem Hnúkurinn er jú mikil tískubóla þessi árin um leið og það er staðreynd að Ísland skartar mörgum meira spennandi fjöllum en Hvannadalshnúk...

Gönguleiðin okkar hinum megin gljúfursins í í byrjun dagsins fyrsta kaflann... nú vorum við að loka hringnum. l

Regnboginn skreytti síðasta kafla leiðarinnar og toppaði daginn með margbreytileika sínum í takt við dag sem var síbreytilegur hvað varðandi veður, færð, útsýni og gönguleið...

Á kafla við Smáþúfurnar kom loksins leðjan sem menn höfðu óttast eftir hlýindi vetrarins og menn sukku upp að ökkla...

Einar, Ágústa og Valdís bregða hér á leik.

Niðri við Vesturlandsveg beið okkar svo fyrirtaks tjörn til að skola skóna áður en farið var í bílana.

Petrína, Sigga Rósa og Ketill.


Gönguleið dagsins með hækkunum og lækkunum.


Blikdalshringurinn sem þjálfari var búin að dreyma um að fara með hópinn í tvö ár og varð loksins að veruleika...

Hvítar merkingar eru flögg sem þjálfari hefur merkt inn gegnum tíðina á svæðinu - svona til upplýsingar fyrir þá í hópnum sem nú æfa sig í notkun gps...

Algengustu punktarnir almennt þegar notast er við gps eru upphafsstaður eða bíllinn (lífsnauðsynlegur punktur)  og áfangastaður (toppurinn t. d) en svo er mikilvægt að merkja inn vafasama staði eða hættur eins og rimann milli Tindstaðafjalls og Kistufells, góð kennileiti eða staði sem menn vilja hafa viðkomu á, allar beygjur og afvegaleiðir milli áfangastaða svo ekki sé farið beina línu milli punkta þegar það er ókleift eða beinlínis hættulegt (þ. e. þá með það í huga að gengið sé milli 2ja punkta í engu skyggni eins og alltaf skal gera ráð fyrir að geti gerst).

Gönguleiðin frá Google Earth

Frammistaða allra í göngunni var frábær og gaf mörgum tilefni til þess að efast ekki lengur um eigin getu á að sigra Hvannadalshnúk... eða fara 24 tinda... og leggja þjálfarar til að menn láti sig fara að hlakka til 15. maí... og 10. júlí...

Á
Hnúknum og Glerárdalshringnum verður auðvitað um erfiðari göngur að ræða með meiri hæð og hækkun, en vegalengdin er svipuð á hæsta tindi landsins og þetta var hálfur Glerárdalshringur sem er afskaplega gott fyrir sjálfstraustið... 24 tinda farar  eru einir af nokkrum góðum hópum sem hefðu mátt fá  sérmynd af sér í þessar göngu...eins og hjóleiðamenn hópsins, Fjallkonurnar, Skagamenn o.m.fl. en valið tók mið að því að ná öllum einstaklingum inn á allavega eina mynd svo margar góðar hugmyndir urðu frá að víkja... en sjö tinda gangan um Hafnarfjall bíður okkar í okbóber með októberfest (haustfagnaðurinn) þann dag og þar eru þjálfarar búnir að ákveða að vera með keppni þar sem hóparnir verða fyrirfram ákveðnir fyrir göngu og menn keppa í frumleika um "bestu hópmyndina"... verðlaunaafhending verður um kvöldið á ballinu í Miðgarði :-)

Já, það var nefnilega hláturinn sem  feykti okkur hringinn um Blikdal og að sjálfsögðu munum við  hlæja okkur alla leið á Hnúkinn...
Hvað biður maður um meira á þessum tímum ?

Framundan eru tvær jöklagöngur næstu vikurnar; Snæfellsjökull 2. apríl og Eiríksjökull 17. apríl þar sem við æfum notkun lína, brodda og ísexi með Bergmönnum - www.bergmenn.is - og við skorum á alla að taka þátt í annarri eða báðum þeim göngum þar sem jöklar hafa sérstakan sjarma og eru eitt af sérkennum Íslands sem gera það að einu magnaðasta landi í heimi !

Frábær göngudagur í góðu færi og fallegu veðri með fjölbreyttu útsýni
...og besta fólki í heimi...

Sjá myndbönd þjálfara úr ferðinni og öllum ferðum Toppfara:
http://www.youtube.com/user/BaraKetils

Sjá frábært myndband Áslaugar Melax af göngunni:
http://www.youtube.com/watch?v=1FRe6dgHEvo&feature=fvsr

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir