Tindferð 173
Fimmvörðuháls frá Skógum í Þórsmörk
laugardaginn 8. júní 2019

Fádæma blíða
á Fimmvörðuhálsi
þar sem stórbrotið landslag... dásamlegt veður
og frábærir ferðafélagar fullkomnuðu daginn


Efri: Erna, Kolbrún Ýr, Heiða, Davíð, Magga, Þorleifur, Róbert, Dóri, Sigrún E., Lizy, Bjarni, Lára H., Kristín Hulda, Björg, Lára B., María Hlín, Sigga Sig., Ísak.
Neðri: Leifur, Guðný, Dalía, Daði, María Bj., Arney, Bjarnþóra, Gísli, Sigga Rósa, Gylfi, Lilja Sesselja, Guðrún Jónína, Agnar, Biggi, Arnþór, Örn, Batman.
Bára tók mynd og á mynd vantar Katrínu Kj. sem gekk frá þórsmörk hálfa leið upp og til baka - og bílstjórann hann Guðmund eðalmann :-)

Alls gengu 37 manns... 18 vaskir Toppfarar... 18 dásamlegir gestir... einn íslenskur fjárblendingur...
og einn slóvenskur laumufarþegi sem var kærkominn í hópinn...
 hefðbundna leið yfir Fimmvörðuháls í fjórða sinn í sögu Toppfara laugardaginn 8. júní 2019
í dásamlegu veðri allan tímann og stórkostlegri náttúruupplifun svo ekki sé meira sagt...

Mikill áhugi var á þessari ferð og fjöldi gesta meldaði sig inn á viðburðinn svo það endaði með að við stækkuðum rútuna og fengum 37 manna sem fylltist strax... en Guðmundur Guðnason hjá fjölskyldufyrirtækinu Rútubílum sem nú er í samstarfi við Trex hélt vel utan um okkur með sinni stöku snilld og leyfði meira að segja Katrínu Kjartans að vera samferða sér inn í Þórsmörk þar sem hún treysti sér ekki ennþá svona langa leið á nýja hnénu, en hún endaði á að fara dýrindisgöngu úr mörkinni upp á Morinsheiði og til baka með ljósmyndun og slökun eins og best verður á kosið á þessum slóðum...

Eftir hefðbundna hópmynd við Skógafoss var haldið upp hinn alræmda stiga
sem alltaf tekur úr mönnum orku í upphafi gönguleiðarinnar yfir Fimmvörðuháls
og læðir sterklega inn efanum hjá flestum um hvort maður geti yfirleitt farið alla þessa leið...

...en menn fóru rólega hver á sínum hraða og Örn gaf öllum góðan tíma til að safnast saman uppi
eftir þessi "gringo killer steps" eins og þeir kölluðu lengsta kaflann á Inkaslóðinni í Perú forðum daga 2011...

Skógafoss ofan frá... þó maður sé að fara þetta í fimmta sinn
eru áhrifin alltaf jafn mikil við að upplifa landslagið sem Skógáin gefur alla leið upp á heiðina að brúnni...

Sauðfé var á beit um allt á leiðinni upp
og því fékk hundurinn Batman ekki að vera laus heldur var í bandi alla leiðina upp að brúnni...

Fryssandi fossar Skógár voru hver öðrum fegurri og í raun þyrfti maður að fara þessa leið upp að brúnni og niður aftur í rólegheitunum...
virða hvern einasta foss vel fyrir sér... og njóta úðans sem af þeim stafar á sólardegi eins og þessum...


Drangshlíðarfjall... Daltindur... við ætlum á þetta fjall einn daginn að vetri til...

Leiðin hinum megin við ánna er mjög freistandi... við höfum haft augastað á henni árum saman... en að sögn Útivistar er ekki vel liðið af heimamönnum að stórir hópar gangi þeim megin upp og skapi hefð fyrir slóða þar... svo við slepptum þeim möguleika sem við stóðum frammi fyrir í lok maí þegar ætlunin var fyrst að hafa þessa göngu... laugardaginn 25. maí... þar sem Umhverfisstofnun hafði lokað leiðinni upp á hálsinn að brúnni vegna álags frá 1. mars til 1. júní... og þjálfurum hugnaðist ekki að bjóða mönnum upp á að ganga jeppaslóðann upp á brú og missa af allri fossaröðinni... en sem betur fer var ekki nægur áhugi á þessari göngu þarna í lok maí og því aflýstum við ferðinni... en reyndum aftur þessa helgi 8. júní... viku eftir Hellismannaleið... og þá komst rífandi kraftur í mætinguna.... sem betur fer... við hefðum ekki viljað missa af þessari göngu á einmitt þessum blíðskapardegi...

Leiðin upp með Skógá er vel við haldið og möl í slóðanum langa leið upp áður en grasbörðin taka við...

Leiðin er greinilega mikið farin og ferðamannastraumurinn skilur sannarlega eftir sig spor hér
eins og á fleiri vinsælum stöðum á landinu síðustu ár...

Eyjafjallajökull í baksýn hér... og fjórar frábærar konur sem við vorum að hitta í fyrsta sinn... 
María Hlín og Lára Bæhrenz frá Tindum... og Lizy og Sigrún Eðvalds frá Veseni og Vergangi...

Sjá hér hvar malarslóðinn er búinn og moldarslóðinn gegnum mosa og gras tekinn við...

.. eins og við þekktum hann eingöngu áður fyrr... áður en ferðamannafjöldinn kallaði á betri slóða síðustu ár...

Leiðin upp með Skógá var fjölbreyttari en okkur minnti...
við vorum hér síðast sumarið 2011 með svarta ösku yfir öllu eftir gosin 2010...

Við hefðum viljað vita nöfnin á fossunum og fjöldann...
einu sinni þekkti maður einhverja en það er svo langt síðan síðast..
þeir ku vera 28 alls... einhverjir sögðu 34... finn þetta ekki á veraldarvefnum svo glögglega...
staðreyndir óskast ef einhver lumar á þeim takk ! :-)

Gönguhraði þessa 36 manna leiðangurs var sem einn maður í takt nánast allan tímann
sem var framar vonum þjálfara... þjálfara sem reka bara sinn fámenna og persónulega fjallgönguklúbb
þar sem flestir þekkja hvor annan í þaula eftir skrautlegar ferðir í gegnum tíðina...
þjálfara sem eru búnir að bjóða dagsgöngur í rúm tólf ár og fengu jú þennan fjölda hér áður á gullaldarárunum
sem vert er að fara að kalla svo þar sem 30-40 Toppfarar NB mættu í hverja ferð...

... en heldur hefur fækkað í dagsferðunum síðustu ár og 10 manns plús mínus er eðlilegra ástand...
alltaf þéttur hópur þar sem við þekkjum getustig hvers og eins
og vitum hvort menn geta tekist á við gönguverkefni dagsins hverju sinni...

Nítján gestir sem við vissum engin deili á voru því áhyggjuefni okkar svefnlausu nóttina fyrir þessa ferð...
en þær áhyggjur reyndust með öllu óþarfar...
ein í hópnum var reyndar hikandi og efins um eigin getu til að byrja með
svo þjálfari íhugaði að láta hana snúa við og fá fyrir með rútunni inn í Þórsmörk
en það hefði verið mikil synd því hún rúllaði þessari göngu svo upp þegar á leið
enda létt á fæti og bar með sér röskan gönguhraða :-)

Heiður himinn... blíður andvari... steikjandi hiti á köflum... svöl gola á köflum...
þjálfari ráðlagði mönnum að leggja léttklæddir af stað frá Skógum og flestir urðu við því og fækkuðu fötum...
hinir fækkuðu þeim smám saman þegar á leið uppgöngunnar... en uppi á hálsinum var lítið eitt svalara á köflum
og þá réttlætti maður allt of mikinn klæðnaðinn sinn (þjálfari var ekkert skárri í þessari íhaldssemi með klæðnaðinn ! :-))
... til þess eins að steikjast svo í honum aftur þegar neðar dró hinum megin...
þessi endalausi barningur við föt og lofthita... maður minn :-)

Hornfell og Hornfellsnípa skreyta gönguleiðina vestan megin Skógár...
og minntu enn og aftur á að þau eru ennþá á biðlista fyrir dagskrá Toppfara ásamt Drangshlíðarfjalli við Skógafoss...
já... göngum á þessu fjöll einn flottan laugardag að vetri til takk... með allt ísað og kristalfallegt :-)

Ofar urðu slétturnar meiri inni á milli fossanna en leiðin ennþá gullfalleg...

Við tókum eftir því að erlendur ferðamaður fylgdi hópnum... og hélt sig á sama hraða og við...
hann var með allt á bakinu og í ljós kom að hann var viljandi að fylgja hópnum þar sem hann hafði séð að við ætluðum yfir hálsinn...
hann var með allt á bakinu til að gista í Þórsmörk í tvær nætur þar sem hann ætlaði að ganga og skoða sig um daginn eftir
áður en hann tæki áætlunarrútuna í bæinn sem þar með hæfi sínar daglegu áætlunarferðir til og frá Þórsmörk yfir sumartímann...

Þjálfarar ráku strax augun í að hann var í bol merktum Ljubljana maraþoninu
en við vorum næstum því búin að taka þátt í því ári eftir magnaða Slóveníuferð Toppfara árið 2012
þar sem land og þjóð heillaði okkur upp úr skónum... og því féllu þjálfarar algerlega fyrir þessum prúða manni... 23ja ára nema sem er hér á Íslandi við nám í hálft ár og fer af landi brott í lok júní... en eftir gönguna kom í ljós að Tomaz var einn af nokkrum sem reyndu að komast með í þessar ferð eftir að hún var uppseld... og því hafði hann líklega leyst málið með því að koma sér sjálfur í Skóga og skella sér svo inn í hópinn til að vera ekki einn á ferð yfir hálsinn... hann var allavega velkominn með okkur og það var gaman að kynnast honum... mikill fjallamaður, klifrari og mjög öruggur í klöngri á Heljarkambi... gekk skoppandi létt allan daginn þó hann væri með allt á bakinu og skíðaði nánast niður Bröttufönn á skónum sínum... sagðist hafa alist upp við að fara hverja helgi upp í fjöllin með fjölskyldunni sinni...

... en við sáum það glöggt í okkar Slóveníuferð að fjallamenningin er langtum meiri í Slóveníu en hér á landi... þar hittum við einmitt heilu stórfjölskyldurnar á göngu lengst uppi í fjöllunum... allir með sína stafi, græjur og bakpoka og gangandi létt og örugg um tæpistigurnar... merkilegt land Slóvenía sem á sér enda sinn sérstaka sess í Toppfarahjartanu
eftir þessa ógleymanlegu ferð sem er ennþá ofarlega á lista þjálfarar yfir okkar allra bestu ferðir...

Gljúfrin í Skógá eru stórfengleg þegar að þeim er komið...

Storbrotin og hrikaleg... það væri hægt að vera hér heilan dag og virða bara fyrir sér lífríki árinnar...

Regnbogi í fossinum... þetta var ægifagurt...

Við gáfum okkur mjög góðan tíma til að njóta í þessari göngu
og bílstjórinn sem vissi af brottfarartíma kl. 19:00 frá Básum eftir göngu og grill var tilbúinn til að sveigja þann tíma aðeins ef svo skyldi fara að við yrðum lengur á ferðinni... og þarna strax vissum við að það myndi reyna á þetta því dagurinn var of fagur til að flýta sér upp þessa leið...

Dýpsti hluti gljúfursins í Skógá líklega... leiðréttingar óskast !

Lilja Sesselja og Bjarnþóra voru rétt klæddar... okkur hinum var of heitt...

... en fáir nenntu að fækka fötum því allir vissu að það yrði svalara ofar...

Beygjan neðan við Hornfellsnípu er með kyngimögnuðustu stöðum Skógárinnar...
litli fossinn sem rennur undan stígnum er hreinasta undur...

Fremstu fjórir menn... Batman telst með segja menn... mynd tekin af Bjarnþóru
sem líka arkaði alltaf fremst... meðvitað til að æfa sig... og koma sér í besta formið nokkurn tíma...
til fyrirmyndar einmitt að gera þetta... ekki skilgreina sig aftastan og halda sig sífellt þar...
heldur staðsetja sig framar, jafnvel fremst og leyfa sér ekkert annað en að halda sama gönguhraða og þar er...
einmitt þannig verður maður sterkur og eykur þolið fljótt...
þetta er jú þjálfun eins og annað... ekki lögmál hversu hratt maður getur gengið...

Þessi foss var einn sá fegursti... hvítur og ferskur...

Fegurðin var fryssandi fögur...

Alls 28 fossar... við þyrftum að hafa sérstaka fossaferð hér upp... mynda hver og einn og telja og skrá niður nöfnin...
ekki galin vetrarferð í klakaböndum...

Flott skiltin sem komu reglulega á leiðinni... reyndar voru vegalengdir ekki að passa...
greinilega tekin bein lína með gps til að fá vegalengdina... því þarna vorum við búin að ganga 6,5 km...
og því munaði tæpum 2 km á vegalengdinni...

Nú fóru hálendisheiðarnar að birtast ofan við sjónarrönd...

... við vorum að nálgast heiðarnar neðan við jöklana sem glitruðu í sólinni...

Hér var tjaldbúi að viðra sig í morgunsólinni... jú, það hlýtur að mega tjalda hér til einnar nætur...
þetta er ekki þjóðgarður er það ? ... við veltum þessu fyrir okkur en vorum ekki viss...

Aldrei dauður punktur á þessari leið... ef maður bara leit í kringum sig og var að njóta...

Tveggja fossa gljúfrið framundan... og mosinn svo fallegur niðri í gljúfrinu...

Einn af okkar uppáhaldsstöðum...

Mosinn... einstakur... við höldum með honum og viljum veg hans sem mestan...

Hér fengu margir mynd af sér með fossana í baksýn og við töfðumst lengi hér...

Enda ekki annað hægt en drekka í sig fegurðina... mynda hana og varðveita þar með...

Gullfallegt...

Bók og aðrir pappírar sem skildir voru eftir undir steini fyrir annan að sækja... ekkert nema erlendir ferðamenn á sömu leið og við...
nema í lok göngunnar að tvær íslenskar stelpur voru á sama róli og við þennan dag...
einu Íslendingarnir sem við hittum allan daginn...

Síðasti fossinn fyrir brúnna...

Hár og tignarlegur og greinilega skyldur Skógafossi...

Drynjandi fegurðin var áþreifanleg... það eru óteljandi fossar til um allt land...
margir vanmetnir, nafnlausir og lítið skoðaðir eða virtir viðlits... okkur væri stundum nær... að líta okkur nær og njóta þeirra...
í stað þess að eyða orkunni í að rífast um örfáa og sjá ekkert annað á meðan...

Veturinn enn með klærnar sínar að hluta í ánni hér... en sigurinn var augljós... sumarið er komið til að vera...

Eyjafjallajökull... þennan dag fóru 14 manns með Útivist yfir Eyjafjallajökul um skerjaleið og niður Seljavellina líklega...
þau fengu sömu brakandi blíðuna og við og voru ansi sólbrennd þegar þau áðu á Hvolsvelli um kvöldið á heimleið á sama tíma og við
og í sömu vímunni eftir stórkostlegan dag eins og við :-)

Brúin yfir Skógá... ekkert veðravíti á þessari stundu
en fljótt að verða kuldalegt um leið og hitastig lækkar og himininn verður brúnaþungur...

Síðasta tækifærið til að fylla á brúsana var hér við brúnna í um 700 m hæð...

Ekki auðgengin leið að ánni heldur þurfti að fara með bökkunum beggja vegna og næla sér í vatnssopa...
menn gerðu það hvoru megin...

Hér eru ákveðin kaflaskil á leiðinni... að baki er gróðursældin meðfram Skógá...
og framundan er grýtt heiðin að Baldvinsskála og svo Fimmvörðuhálsinn sjálfur milli jöklanna í snjósköflunum sínum langt fram eftir sumri
og svo gróðursæl Þórsmörkin hinum megin smám saman þegar komið er ofan af Heljarkambi...

Við áðum lengi hér meðan menn fylltu á brúsana og fengu sér smá orku...

En þarna var gjóla og við vildum heldur fá okkur almennilega að borða við Baldvinsskála...

Rúmir sex kílómetrar í skálann... ansi langt sálrænt séð því óþreyjan leitar á á þessum tímapunkti
en um leið er leiðin greið og hægt að fara hana rösklega svo við settum bara undir okkur höfuðið
og lögðum af stað inn í blíðuna sem var áfram framundan þó talsverð hækkun væri enn framundan...

Staldrað við á góðum útsýnisstað niður ánna og skaflarnir sífellt fleiri með aukinni hæð...

Bláa og græna gengið... Agnar og Biggi neðar... Róbert, Magga, Dóri og Lizy...

Dásemdarveður áfram og ekki annað hægt en vera þakklátur með þennan gullna dag...

Skiltin á leiðinni vel gerð og gott að lesa á þau...

Hér mátti sjá í skálann og hægt að taka beina stefnu á hann ef menn vilja
en leiðin er greiðust á jeppaslóðanum og við völdum hann...
og rifjuðum upp árið 2011 þegar við fórum í mun meiri snjó hér yfir
eins og árið 2010 í apríl...

Mikið spjallað og hlegið á þessum kafla... stundum er gott að taka gott strauj...
og þurfa ekkert að hugsa, bara strunsa...

Uppgerðan og glansandi fínan skálann vorum við sem ekki höfðum verið hér síðan árið 2011 að sjá í fyrsta sinn...
og leit hann vel út strax í fjarlægð í samanburði við Fúkka eins og sá gamli var kallaður...

Mikil gleði fylgdi gestum þessarar ferðar og það var virkilega gaman að kynnast þeim...

Magga, Sigrún Eðvalds og Lizy :-)

Mikið gott að vera komin á áningarstað til að hlaða batteríin almennilega...

Hér hvíldum við okkur vel... viðruðum tásurnar... borðuðum nesti... og spjölluðum...

Bongóblíða á pallinum og strax fullt þar uppi...

Þá var ekkert annað í boði en setjast á tröppurnar eða fyrir framan skálann í sólinni...

Saga skálans... gaman að lesa þetta...

Mjög skemmtileg lýsing frá Guðmundi frá Miðdal um ævintýralega páska á Fimmvörðuhálsi 1941...
bara magnað að lesa þetta:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=253913&lang=

Salernið í fínasta lagi... gott að geta nýtt það og þjálfarar hvöttu alla til að greiða aðstöðugjald
sem voru með reiðufé en mikið væri gott ef hægt væri að strauja kort á staðnum...
þá hefðu mun fleiri borgað... það er enginn orðið með klink í vasanum lengur...

Flestir fóru úr skónum og létu ferskt fjallaloftið leika um lúna fæturna...

Frábær aðstaða inni... reynir vel á það ef veðrið er ekki gott eins og oft reynist vera í þessari hæð...

En því var ekki til að skipta þennan dag... sólbaðsveður og dásemdin ein...

Agnar, Lára Bæhrens og Biggi... skemmtileg mynd frá Bjarnþóru :-)

Eingöngu erlendir ferðamenn á göngu eins og við...
engir Íslendingar ennþá og sum þeirra fóru í átt að Eyjafjallajökli þó leiðin yfir hálsinn væri mjög skýrt merkt...
við ákváðum að skipta okkur ekki af því þar sem þetta var það augljóst...
þau hlytu að vera viljandi að fara að jöklinum til að skoða hann ?

Þeir áðu við staðinn þar sem gamli skálinn var... ekkert eftir af honum nema grjótið í kring...

Eftir góða hvíld hér og næringu var mál að halda áfram göngunni...
rúmlega hálfnuð og veislan var rétt að byrja...

Leiðin yfir Fimmvörðuhálsinn sjálfan var virkilega falleg í brakandi blíðunni sem fylgdi okkur áfram...

Gleðin var alls ráðandi og hér glumdi í okkur um allt...

Svarti sandurinn einangrandi ísinn undir sér svo litlar eggjar myndast í sólinni...

Allir glaðir með að brekkurnar væru að baki að mestu... og ekkert nema lækkun framundan... eða þannig :-)

Birtan var einstök og nánast blindandi þarna í um eitt þúsund metra hæð...

Örn fremstur... Þorleifur... Dóri, Bjarnþóra, Heiða...

Bjarnþóra og Heiða... stöllurnar tvær frá Hellismannaleið í dúndurformi og í sama hraða göngugírnum og á fjallabakinu
rúmri viku áður þar sem við fórum 22 kílómetra á 5:45 klst. :-)

Guðný og Sigrún Eðvalds úr Veseni og Vergangi,
Magga sem er nýskráður Toppfari
og gamalreyndi Toppfarinn hann Bjarni...

Toppfararnir Kolbrún Ýr og Erna... stelpur... jú, þið eruð eins og systur, takk fyrir ! :-)

Lára Bæhrens og María Hlín sem hafa æft með Tindum hennar Vilborgu Örnu í vetur og luku því í maí
... Arnþór sonur Arneyjar og Gísla og Agnar Toppfari...

Jahá... svona lét aftari hlutinn...
enginn agi á gönguhraðanum og menn að tínast þetta niður eftir hver á sínum forsendum :-) :-) :-)

... ekkert að ganga í röð eins og fremri hluti hópsins... þetta er greinilega stjórnlaust lið þarna aftast :-)

Menn voru náttúrulega bara að njóta sko :-)

Sigga Sig. og Biggi Toppfarar og Lizy gestur úr Veseni og Vergangi...

Sigga Rósa Toppfari, Guðrún Jónína sem líka var í Tindum í vetur... og Róbert lengst til hægri úr V&V...

Dalía Júlía úr V&V? hægra megin...

Gylfi og Lilja Sesselja þrautreyndir Toppfarar...

Tomaz frá Slóveníu... María Bjarnadóttir og Daði vinahjón Arneyjar og Gísla...
en þau gengu Leggjabrjót áður en þau komu í þessa ferð til að tryggja að þau gætu þetta :-)

Gísli og Arney Toppfarar :-)

Mjölnis-vinirnir fjórir Ísak, Kristín Hulda, Lára Hallgríms og Björg Bjarnadóttir...

... og svo Leifur sem var gesturinn hans Davíðs Toppfara og var að fíla þetta í botn :-)

Magnaðir litir... form og áferð á þessum kafla...

Gullfallegur kafli á leiðinni og við vorum öll dolfallin...

Erfitt að velja úr myndunum og læt þær allar vera með á þessum tímapunkti...

 Nokkrar brekkur upp og niður einkenna Fimmvörðuhálsinn sjálfan... hann leynir alveg á sér :-)

Litið til baka... fjölskyldan Arney, Arnþór og Gísli...

Skemmtilegur kafli þó upp í mót væri...

Við bókstaflega horfðum á skaflana bráðna fyrir framan okkur í hitanum...

Þar sem ekki var snjóskafl var skraufþurr jarðvegurinn eftir rigningarlausan mánuð að mestu...

Litið til baka... ljómandi fallegt...

Sjá sandhaugana... öskuna... skaflana...

Brekkan góða eftir skálann...

Jebb... það var steikjandi hiti þarna uppi og vert að fækka fötum enn og aftur...

Skáli útivistar ofar á Fimmvörðuhálsinum... og Eyjafjallajökull geislandi fagur...

Hæsti punktur leiðarinnar... og það í brakandi blíðu...

För eftir skíðamenn hér niður...
sérkennilegur staður nema menn keyri upp í Baldvinsskála og fara á skíðin þaðan... þá tær snilld...

Litið til baka af efsta hluta Fimmvörðuhálss... rjómablíðan sést á myndinni...

Fremstu menn komnir í 1.070 m hæð...

Gamla skiltið hérna ennþá...

Við veltum því fyrir okkur hvort við hefðum haft svona gott útsýni og veður hér um árið 2008...
það má spyrja sig hvor dagurinn sé betri... líklega voru þeir svipaðir... sveipaðir sömu blíðunni frá upphafi til enda...

Þetta var bara einn af þessum dögum... og það reyndist nóg af þeim sumarið 2019 á suður- og vesturlandi...

Nú var stutt í nýju gígana... og hér rifjaðist upp hvernig það var að nálgast gosstöðvarnar á sínum tíma í apríl 2010
en þá var sérkennileg aska í loftinu... lykt... hljóð... og svarti liturinn barðist við hvíta um yfirráð...
askan umlukti allt að lokum á þessu svæði og alla leið niður á láglendi
þegar Eyjafjallajökull tók líka til við að gjósa á eftir Fimmvörðuhálsinum... ótrúlegt vor !

Gleðin var alls ráðandi og við gerðum okkur grein fyrir því að fegurri dag væri ekki mögulegt að upplifa á þessari gönguleið...

Meira að segja himininn var í spariskapi og skreytti sig fögrum skýjafjöðrum...

Mjög gott göngufæri og hvorki of hart né of mjúkt að ganga í sköflunum...

Magni kom skyndilega í ljós... og var friðsæll og hreinn að sjá miðað við árið 2011 og 2010...

Við leyfðum þessari stund að vera... og horfðum bara á nýja gíginn frá 2010...
en handan hans var Móði... mun minni og dekkri... enda gaus hann síðar en Magni...

Þeir sem gengu upp að gosstöðvunum árið 2010 rifjuðu upp einstakar minningar frá þeim tíma
en sumir keyrðu upp eftir.. eða keyrðu inn Fljótshlíðina og horfðu þaðan... eða ofan af Þórólfsfelli...
þetta voru sögulegir tímar...

Sumir voru enn á barnsaldri þegar gosið var og áttu ekki möguleika á að ganga upp eftir...
en það er ekki ólíklegt að allir eigi eftir að upplifa gos einhvers staðar á landinu þar sem hægt er að ganga að og skoða
eins og þetta vor 2010... af nægum virkum eldfjöllum er að taka á landinu :-)

Hópmynd hér með Magna í baksýn... þjálfari stakk upp á að klúbbmeðlimir vs gestirnir myndu standa eða krjúfa
og það endaði með því að Toppfarar stóðu og gestirnir krupu sem var alger tilviljun :-)
enda svissuðum við þessu svo í seinni hópmynd dagsins :-)

Efri: Tomaz (átti að krjúpa sem gestur en var ekki pláss!), Erna, Gísli, Arney, Biggir, Sigga Sig., Heiða, Lilja Sesselja, Gylfi, Örn, Magga, Kolbrún Ýr, Bjarnþóra, Sigga Rósa, Davíð, Agnar.
Neðri: Arnþór, Björg Bjarnadóttir, Daði Már Ingvarsson, María Bjarnadóttir, Kristín Hulda Gísladóttir, Ísak Valsson, Leifur Vilberg Orrason, Lára Hallgrímsdóttir, Guðný Sigurðardóttir, Guðrún Jónína Sveinsdóttir, Sigrún Eðvaldsdóttir, Þorleifur Jónsson, Halldór Óttarson, Lizy Sveinsdóttir, Lára Bæhrens Þórðardóttir, Róbert Örn Jónsson, María Hlín Eyjólfsdóttir.

Bára tók mynd og Batman var að kæla sig í snjónum :-)

Nokkrir gestanna áttu eftir að skrá sig í Toppfarar eftir þessa ferð
og fyrir ferðina á Lakagíga sem voru ráðgerðir 27. júlí sama sumar...

Við áttum stefnumót við Magna... og drifum okkur að þessum magnaða gíg...

Agnar, María Hlín, Lára Bæhrens, Róbert, Lizy og Davíð...

Ekki sýndist hann heitur... ekkert rauk upp úr honum... en litirnir voru enn til staðar...

Svona var hann gjósandi:
https://www.youtube.com/watch?v=_5J_xGKSxE8&list=PLyI-CMoTAd3hHwSId-QPcooWF_cnqgUsq&index=232

Við fylgdum stikunum og sáum að menn fóru svo upp slóða á sjálfan Magna...

Það var ekki hægt annað en elta þá slóð...

Litið til baka...

Skiltið við slóðann þar sem menn beygja út af stikaðri leið upp á sjálfan gíginn...
líklega hafa menn ekki viljað stika leið þar upp þar sem ekki er vitað hvort aftur fer að gjósa...

Mögnuð leiðin upp á Magna...

Rauði liturinn og sá blái... fyrir utan hvíta og svarta og gráa...

Sjá nýja hraunið sem lak úr honum og við gengum eftir jaðrinum á...
en þetta hraun lak alla leið niður í Hrunagilið og gaf einstöku fossana sem menn störðu á
og hlustuðu á eins og glerbrot að renna niður...

Guli liturinn sem var einkennandi árið eftir gos og við mynduðum í gríð og erg árið 2011 var horfinn
og eftir situr þessi rauði með appelsínugulum í bland...

Þetta var áhrifamikið... að vera loksins komin þarna aftur...

Móði hér svartur og hálfur fyrir neðan... og fjær Útigönguhöfði og svo Tindfjallajökull...

Við vorum ekki viss hvort við þyrftum að rekja okkur til baka sömu leið niður
eða hvort það væri slóði niður í endanum en auðvitað var slíkur slóði...
þaðan lá beinast við til að komast yfir á Bröttufannarfellið...

En þetta var fallegt myndefni...
og þjálfari greip ferðamenn sem komu upp á eftir okkur til að taka hópmynd ofan á Magna...

... og sá ekki eftir því... skemmtileg mynd af hópnum :-)

Fínasta niðurleið hér...

Mjög fallegur kafli og gaman að sjá þetta eftir þessi átta ár frá því síðast...

Einhverjir renndu sér niður hér enda með þoturnar með sér... og enduðu lengst niðri... bara gaman :-)

.. og algerlega þess virði þó menn rynnu út af leið :-)

Litið til baka upp Magna...

Komin yfir á Bröttufannarfellið þar sem góður slóði er alla leið niður á Heljarkamb...

Litið til baka með Magna og Móða í baksýn...

Mýrdalsjökull breiðir vel úr sér austan megin við gönguleiðina og er sláandi víðfeðmur þegar að er gáð...
langtum stærri en Eyjafjallajökull...

Litið til baka yfir Fimmvörðuhálsinn sjálfan þaðan sem við komum að Magna...

Skraufþurr slóðinn utan í Bröttufannarfelli...

Komin að vörðunni þar sem minnisvarðinn er....

Maður fékk kökk í hálsinn við að lesa um slysið árið 1970 en þjálfari nefndi þetta í rútunni á leið austur um morguninn og lofaði upplestri á leið heim... en slysið er henni minnisstætt þar sem í fyrstu göngunni yfir Fimmvörðuháls tæplega þrítug var með í för einn af björgunarmönnunum þennan dag sem gengu upp eftir og fluttu líkin niður í skála og hafði þessi lífsreynsla svo mikil áhrif á þá að sumir höfðu ekki farið í Þórsmörk né gengið Fimmvörðuhálsinn síðan þeir stóðu í þessum björgunarleiðangri árið 1970...

Agnar fann þessa frétt á mbl.is eftir gönguna og deildi á fasbókinni...

Sjá textann hér nær... vonandi í lagi að birta þetta svona svo allir geti lesið...

Framhald af greininni inni í blaðinu...

Neðri hluti greinarinnar... færa sig bara upp milli dálka til að lesa NB...
Sjá fannfergið í Strákagili... þ.e. gilið sem er á vinstri hönd þegar gengið er niður Kattarhryggina...

Kort af svæðinu og leið göngumanna og björgunarmanna þennan dag...

Maður viknaði við að lesa þetta og hugsaði til þeirra sem áttu um sárt að binda vegna þessa slyss
og eiga hugsanlega ennþá...

Hópmynd með útsýni niður á Morinsheiði og Fjallabak... nú með Toppfarana krjúpandi og gestina standandi :-)

Nú var fegursti hluti göngunnar framundan... og um leið sá mest krefjandi fyrir lofthrædda...
... sjálfur Heljarkambur, Morinsheiðin og svo Kattarhryggirnir niður í ilmandi Þórsmörkina...

Skiltin góðu... koma sér eflaust mjög vel þegar veður eru válynd takk :-)

Stórfenglegur kaflinn sem nú tók við... útsýnið eitt það áhrifamesta á landinu af saklausri gönguleið án efa...

Rjúpnafell... Fjallabak... Mýrdalsjökull...

Morinsheiðin útbreidd... sjá vangaveltur um nafngiftina en ekki er vitað hvaðan Morins - heitið kemur:
https://www.visindavefur.is/leit?q=Fimmv%C3%B6r%C3%B0uh%C3%A1ls

Hrunagil... þar sem við stóðum á brúnunum hægra megin
og horfðum á logandi hraunfossana falla niður í gilið frá Magna
en hraunsrennslið lokaði fyrir Fimmvörðuhálsleiðina meðan á gosinu stóð og breytti endanlega leiðinni lítillega...

https://www.youtube.com/watch?v=Bn9fGTsMVJo&list=PLyI-CMoTAd3hHwSId-QPcooWF_cnqgUsq&index=236&t=0s

Brattafönn með Útigönguhöfða, Tindfjöll og Tindfjallajökul í fjarska og Rjúpnafell hægra megin...

Leiðin niður hér meðfram Bröttufönn var lausgrýtt ofan á skraufþurri jörðinni og var nokkuð krefjandi...

Litið til baka...

Sumir gáfust upp á slóðanum og leituðu í fönnina...

Sumir renndu sér niður Bröttufönn... aðrir skíðuðu á skónum... eða sporuðu sig bara niður...

Þessi slóði var eini kaflinn sem var erfiður að fóta sig í alla leiðina...

Sjá þéttan snjóinn í Bröttufönn... þetta færi var eins og langt væri gengið á sumarið í raun...

Nokkrir tóku þjálfara á orðinu og mættu með þoturassa eða plastpoka til að renna niður Bröttufönn
enda er það mjög heilandi að láta sig renna í miðri fjallgöngu...
Sigga Rósa tók þetta með stæl og var með tilsniðinn Lindexpoka tilbúinn fyrir rennslið :-)

Komin niður og þá tók Heljarkambur við...

Hann tók ágætlega í fyrir þá sem eru lofthræddir en snjóskaflinn var sporaður út af skálavörðum fyrr í vikunni
hálfa leiðina en svo var snjólaust hinn hlutann...

Flestir völdu þessa leið frekar en hraungatið...

En við bentum mönnum á að skoða þá leið líka því hún hentar sumum betur
frekar en en að halda í keðju í tæpum hliðarhalla...

Ekkert mál í krafti hópsins með því að fara varlega og hjálpa hvert öðru...

Bjarni, Biggi og Davíð fóru hér um hraungatið niður...

Sjá hópinn leggja af stað smám saman...

Síðari hluti kaflans þar sem snjórinn var ekki á slóðinni... sjá keðjuna til stuðnings...
Arnþór að taka allt upp með GoPro :-)

Heljarkambur er mjög fallegur hluti af leiðinni og alltaf jafn tignarlegt að feta þessa slóð...

Strákagilið alla leið niður í Þórsmörk...

Hrunagil til norðurs...

Agnar gleymdi stöfunum sínum þar sem hann rauk til að aðstoða Heiðu sem bað hann um hjálparhönd um keðjuleiðina
og þurfti að snúa við og ákvað þá að fara um hraungatið niður... sem gekk vel...

Og erlendir ferðamenn fóru á eftir honum :-)

Hrunagilið... sjá hraunstraumana frá því 2010 úr Magna...

Sjá hraunstraumana betur hér... þarna uppi á sléttunni stóðum við og horfðum á þá...

Ógleymanlegt með öllu sú ferð... enda trónir hún efst á lista yfir allra bestu ferðina nokkurn tíma í sögu klúbbsins...

Við ákváðum að fara ekki slóðann niður Morinsheiðina að Heiðarhorns-niðurleiðinni að uppástungu Róberts
heldur rekja okkur eftir austurbrúnum hennar alveg út í enda og sjá útsýnið fram af brúnunum þar
og það var virkilega skemmtilegt...

Tafsamt reyndar og lengdi gönguna um 1-2 km en var þess virði...

Grýtt og hrjóstugt... en litríkt niður og um allt...

Við stöldruðum við á nokkrum stöðum og nutum útsýnisins til Mýrdalsjökuls...
verðum að ganga hér inn eftir einn daginn úr Þórsmörkinni...

Sjá niður í Hrunagilið...

Litið til baka...

Þetta er talsvert langt og alvöru útúrdúr...

Sjá betur hér niður...

Oddurinn á Morinsheiðinni... ekki allir fóru alveg út í odda heldur fann Örn góðan nestisstað
og þar settust flestir og hvíldust meðan hinir gengu alveg út í endann..

Sjá landslagið niður frá Morinsheiðinni til austurs...

Og til vesturs yfir allan afganginn af gönguleiðinni um Foldir, Kattarhryggi í Bása...
og hinum megin Langidalur og svo Húsadalur handan Valahnúks...

Rjúpnafell sem bíður enn eftir Toppförum...

Mýrdalsjökull... hér eru spennandi gönguleiðir framtíðarinnar...

Þetta var ekki slæmur staður til að taka myndir af sér með gönguleiðina í baksýn...
María Hlín og Lára Bæhrens Tindakonur :-)

Eftir góða nestispásu gáfu þjálfarar grænt ljós á að menn gætu farið á eigin vegum niður hver á sínum hraða
þar sem vel gekk að fara Heljarkambinn og óþarfi væri að halda hópinn um Kattarhryggina...
en að þessu sögðu ruku menn af stað og vildu flestir koma sér niður til að geta farið að grilla eftir langan dag...

Hér greiddist því mest úr hópnum eins og alltaf og menn nutu eins og þeim hentaði hverjum og einum...

Foldirnar eru fallegar og oft illa farnar eftir mikinn ágang en litu bara vel út þetta árið
enda búið að gera heilmikið fyrir slóðina á löngum köflum...

Ægifögur leið og handan við hvert horn beið manns dýrðarinnar landslag...

Sjá flotta kafla hér sem búið er að gera upp og styrkja fyrir miklum ágangi...

Kattarhryggirnir framundan...

Tindfjöllin hér handan við og svo Tindfjallajökull enn fjær...

Kattarhryggirnir reyndust saklausari en menn héldu og enginn lenti í vandræðum um þá...

Jarðvegurinn reyndar mjög þurr eins og alla leiðina...

... en allir öruggir og fótvissir...

Tvær íslenskar stúlkur náðu okkur á þessum kafla og voru á svipuðu róli og síðustu menn í okkar hópi...
þetta voru einu Íslendingarnir sem allavega kvenþjálfarinn varð var við alla leiðina... allt erlendir ferðamenn...
það á auðvitað að taka gjald fyrir þessa gönguleið eins og gert er víða erlendis...
maður myndi einfaldlega borga glaður og þakklátur...

Óskaplega falleg leið þessa síðustu kílómetra...

... og varla hægt að tala um tæpistigur í raun...

Versti kaflinn hér... en þetta var breiður og beinn slóði...

Jú, kannski er þetta versti kaflinn... bratt niður beggja vegna... en samt nóg pláss til að ganga og fóta sig...

Eef menn eru að ganga á fjöll á annað borð reglulega
þá er skrekkur fyrir svona leið löngu þjálfaður úr mönnum...

Litið til baka... gullfalleg leið sem er sérstaklega gaman að ganga...

Enn jókst fegurðin og hitinn...

Brakandi blíðan slík að svitinn rann stríðum straumum og maður nennti ekki að fækka fötum
eða hafði einfaldlega ekki léttari klæðnað til skiptanna...

Bara þessi kafli er kyngimagnaður...

... hvað þá allt hitt sem var að baki...

Yndislegt að koma niður í skóginn...

... heyra fuglasönginn...

... finna lyktina...

... taka útúrdúra að fallegum stöðum...

... njóta hitans sem stafaði af sólinni og logninu sem þarna var...

Hér tóku menn myndir af útsýninu og félögunum...

Erlendir ferðamenn sátu úti á nösinni og bara önduðu að sér fegurðinni í Strákagili...
niðri var gönguleið sem gaman væri að fara einhvern tíma... og ganga þá á Útigönguhöfða...
já, við verðum að fara að koma því í verk !

Litið til baka...

Síðasti kaflinn niður úr hryggjunum í Bása... sjá Krossá hægra megin... ekkert í henni að ráði...

Stórt bjarg búið að falla niður og merja stíginn að hluta...

Fyrsti wc-skálinn er villandi... hér er maður ekki alveg kominn í miðstöðina í Básum...
og alltaf gleymir maður því... en það var gott að komast á salernið og geta svo klárað síðasta kílómetrann...

Brúin var auðvitað eftir... og smá kafli gegnum tjaldstæðið og veginn að meginbyggingunni...

Fyrstu menn voru 9:40 klst. og síðustu 10:12 klst.
Kílómetranir mældust frá 25,5 upp í 28,5 km og við enduðum á að velja 26,6 km sem milliveg frá einu tækinu
en þjálfarar eru alltaf með fjögur gps-tæki meðferðis...

Hæsta hæð var 1.069,6 m og hækkunin var 1.376 m úr 29 m upphafshæð.

Sjá leiðina í heild...

Fyrri kaflinn frá Skógum...

Seinni kaflinn niður í Mörkina...

Við leigðum stóra átthyrnda húsið frá kl. 16:00 - 19:00... og þar inni voru erlendir ferðamenn byrjaðir að elda og hafa það notalegt... svo þjálfari bað þá vinsamlegast um að víkja þar sem skálinn væri leigður fyrir stóran hóp sem var að lenda eftir 27 km göngu á 10 klukkustundum... þeir gerðu það möglunarlaust að mestu... en mikið var þetta mikil synd...

... því það datt engum í hug að fara inn í hús í þessari einmuna blíðu sem þarna var þegar lent var í Þórsmörkinni
og ferðamennirnir hefðu bara getað notið þess að vera inni í húsinu... þjálfari fór og lét þau vita og Pólverjarnir ypptu sárir öxlum en Frakkarnir voru reiðir og vildu ekkert með okkur hafa... og reyndu að gera stærra mál úr þessu síðar um kvöldið en þjálfari sýndi þeim fram á að við hefðum greitt á þriðja tug þúsunda fyrir aðstöðuna í húsinu og því væri ekkert hægt að svekkja sig á þessu :-)

Hins vegar svekkti þjálfari sig á því að hafa vikið þeim úr húsi áður en hún vissi
og sá að okkar leiðangursmenn voru bara búnir að koma sér fyrir vítt og breitt á grasi og við borð kringum útigrillið
og voru bara að njóta þess að viðra sig og hvíla úti við en ekki inni...

 Það var sannarlega ekki veður til þess að vera inni...

Þetta var alger yndisstund... og menn grilluðu, viðruðu tásurnar, spjölluðu, skáluðu, borðuðu, fóru í sturtu sumir
og viðruðu daginn með félögum sínum...

Það var nóg að gera á grillinu í 37 manna hópi :-)

Þrír pokar af kolum var varla nóg og hefði þurft að dreifa tveimur á tvö grill í raun...
munum það næst !

En þetta slapp fyrir horn... nema grænmetið sem grillaðist aldrei nægilega vel fyrir Veganfólkið...

Sumir voru ekkert að flækja þetta og fengu sér bara afganginn af nestinu
og nenntu ekki að grilla...

Það var ekki galið að bara hvílast og njóta sólarinnar...

... og vera ekkert að stressa sig á þessu grilli :-)

Og auðvitað var skálað fyrir ævintýralegum degi sem hreinlega gat ekki verið flottari á nokkurn hátt !

Daði, Gísli, Arney, Arnþór og María Bjarnadóttir en fjær hægra megin er María Hlín.

En gott var það samt... og þjálfarar ákváðu að í næstu ferð...
 um Lakagíga skyldum við fara út að borða í boði náttúrunnar...
ekki grilla né koma við á veitingastað á leið í bæinn...
heldur hver og einn koma með sitt "kvöld-matar-í lok-göngu-nesti" og dekka upp úti í móa og það yrði keppnis...
verðlaun í boði fyrir flottasta matarboðið :-)

Við lögðum af stað keyrandi með rútunni til baka um 19:38 minnir ritara...
þ. e. ekki nema rúmlega hálftíma síðar en ráðgert var þrátt fyrir að vera tæpa 10 klukkutíma á göngu síðustu menn...
og virkilega notalegri stund í grasinu í Þórsmörk eftir göngu... það var aldeilist vel af sér vikið...

Vatnslítið var í ánum og aksturinn gekk vel sem og heimleiðin með lestri þjálfara á slysinu á Fimmvörðuhálsi
og ísstoppi á Hvolsvelli... og við vorum komin í bæinn um kl. 22:40 eða svo... tær snilld !

Takk elsku Toppfarar og frábæru gestir fyrir einfaldlega fullkominn dag á fjöllum...
svona dagur er ekki sjálfgefinn og gleymist aldrei :-)

Myndband af ferðinni í heild hér:
https://www.youtube.com/watch?v=B8oOMCZILRc

Mjög skemmtileg lýsing frá Guðmundi frá Miðdal um ævintýralega páska á Fimmvörðuhálsi 1941...
bara magnað að lesa þetta:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=253913&lang=4

Ýmis skemmtilegur fróðleikur um leiðina hér:
https://www.visindavefur.is/leit?q=Fimmv%C3%B6r%C3%B0uh%C3%A1ls

Ljóðræn lýsing á göngu um Fimmvörðuháls:
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/191025/

Vonandi verðum við svona heppin með veður á Lakagígum þann 27. júlí...
en þá eru 45 manns búnir að staðfesta sæti í rútu... það verður eitthvað ! :-)
Sjáumst þá... því nú fara þjálfarar í sumarfrí í mánuð og klúbbmeðlimir bjóða upp á spennandi þriðjudagsgöngur á meðan :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir