Tindferð 83 - fyrri hluti
Þriðja ganga Toppfara á erlendum slóðum og fyrsta hæsta fjall Evrópulands til þessa
vikuna 2. - 9. september 2012

Fyrri hluti ferðarinnar hér fyrir neðan - síðari hluti er á sérsíðu hér !

2. sept: Reykjavík - Frankfurt - Ljubljana - Bled.
3. sept: Karavanke - fjallgarðurinn.
4. sept: Bogatine saddle.
5. sept: Seven Trivlav lakes valley.
(6. - 9. sept á sérsíðu hér (fjallið Triglav, Tosc cliffs, Brda, Bled og heimferð).

Stórfengleg Slóveníuferð !
Magnað landslag...krefjandi klöngur... sætur sigur... hjartfólgnir leiðsögumenn
 en fyrst og fremst mergjaður félagsskapur
...sem gaf ómetanlegar stundir í gullfallegu landi sem við geymum í hjartanu alla tíð...

Englarnir 21 með gönguleiðina að baki...
...og hæsta tind Slóveníu Triglav 2.864 m sem var sigraður deginum áður...
... og auðvitað með fimm stykki fimm-ára blöðrur í tilefni afmælisársins ;-)

Bára, Mica leiðsögumaður, Heimir, Sigga Sig., Ingi, Heiðrún, Örn, María S., Simmi, Gurra, Kjartan.
Halldóra þ., Alja leiðsögumaður, Hildur, Jóhanna Fríða, Guðjón, Jón, Valla, Steinunn og Gylfi.
Á mynd vantar Rósu sem skarst á handlegg deginum áður og var flutt til byggða en allt fór vel.

Í sex daga gengu nítján Toppfarar um Karavanke-fjöllin og Júlíönsku Alpana í litla landinu Slóveníu sem er fimm sinnum minna en Ísland (20 þúsund km2), geymir tvær milljónir íbúa, náði sjálfstæði fyrir eingöngu 21 ári (árið 1991), gekk í Evrópusambandið 1995 með tilheyrandi dýrtíð að sögn heimamanna... og er talið með vestrænustu löndum fyrrum Júgóslavíu... en land þetta heillaði okkur öll upp úr skónum hvað fegurð, fjallamenningu og heillandi viðmót heimamanna varðaði...

Gönguleiðir ferðarinnar voru hver annarri fegurri... og innihéldu mun meira klöngur en við megum venjast...

... það varasamasta upp á hæsta tind landsins... Þríhöfða eða Triglav í 3.864 m hæð... þar sem við þræddum okkur með karabínum í beltum um stálvíra sem lágu yfir þrönga hryggi og bratta hamra... ansi langa leið...

En klöngrið hætti aldrei... þar sem gönguleiðirnar hvern einasta dag lágu um fjallaskörð- og fjallshryggi
innan um eggjaða fjallstinda sem engar myndir ná að fanga...

Við vorum skýjum ofar og létum okkur hafa allt sem töfrandi skemmtilegir fjallaleiðsögumennirnir buðu okkur upp á...

... því þeir komust fljótt að því að þessi hópur kallar ekki allt ömmu sína... þó "grema" hafi verið orð ferðarinnar...
(búmm, búmm - let´s go!)

Við fögnuðum nýrri upplifun á fjöllum... hangandi utan í alls kyns hamraveggjum...

... sem gáfu lítið sem ekkert hald þegar verst lét...
...nema jú litlar klettasyllur og trausta járnvíra/járnstig/járnstangir til að halda sér í...

Og við gengum skjálfandi en heilluð sem einn maður heilu kílómetrana um þessar framandi tæpigötur...

... og róuðum okkur bara niður á milli mála með köldu slóvensku öli sem aldrei klikkaði í lok dags...
hvað þá á miðri göngu þar sem komið var við í alls kyns fjallaskálum sem höfðu hver sinn ólíka sjarma...

... en sá fábrotnasti geymir ljúfar minningar af afmælisveislu Hildar þar sem kvöldgleðin náði hámarki
og við fengum okkur slóvenska snafs-köku að snar-gölnum hætti klúbbsins ;-)

Gönguleiðin í baksýn

Við vorum borin á höndum tveggja dásamlegra leiðsögumanna sem urðu okkur ansi hjartfólgin áður en yfir lauk ferðinni... með glimrandi gleði sinni, sjarma, stríðni, hlátri og fagmennsku... hvílíkir englar... what a pair of angels...

Love you guys... forever... !

...S-LOVE-NIA...

Enda fundum við ótrúlegan hjartastein...  4ra metra háan... með æðum og öllu saman... inni í miðjum skóginum...  það var ekki annað hægt en verða hugfangin af slóvensku fjöllunum og fólki landsins... enda ætlum við aftur um leið og við getum... skoða Ljubljana, Porte Rosa, Adríahafið... hjóla hring kringum landið, skoða nágrannalöndin... fara jafnvel vetrarferð...

Þjálfarar hafa nú þegar sett árlegt maraþon/hálfmaraþon í Ljúbljana í lok október á listann hjá sér eftir 3 - 4 ár... og Alja og Mica ætla definately að heimsækja Ísland, jafnvel Grænland með okkur einn daginn... enda bíður listinn af spennandi ferðum fyrir þau með Toppförum þegar af því verður ;-)

Hjartansþakkir elsku Slóveníufarar allir sem einn...
Það féll ekki einn skuggi á þessa ferð frá upphafi til enda (fyrir utan óhappið hennar Rósu)...
... þökk sé ykkur, dásamlegu ferðafélögum sem gerðu þessa ferð að gullinni minningu...

Hvílíkt myndasafn...

-------------------------------------------------------

Ferðasagan í heild hér:

2. og 3. september 2012

Ferðin var keypt af bresku ferðaskrifstofunni Exodus (www.exodus.co.uk) sem var sú sama og fjallahringurinn kringum Mont Blanc var keypt af... en við stækkuðum ferðina í 20 manns og fengum Ultima Thule til að kaupa flugmiða fyrir okkur frá Íslandi frekar en að millilenda í London og gista þar eina nótt hvora leið. Á endanum urðum við svo 19 manns sem fórum... og lentum í nýrstárlegum ævintýrum sem bættu enn við reynsluflóruna á fjöllum... ;-)

Millilent var í Frankfurt á leiðinni til Ljubljana í Slóveníu og þar var farið beint í þýzka stemmningu með eine grosse bier...
sem reyndist þetta stór... og við fórum létt með það ;-)

Við skelltum okkur líka beint í pylsurnar...
eins gott að æfa sig fyrir það át því sagt var að Slóvenía væri svolítið í kjötsúpunum og pylsunum
eins og nágrannalöndin...

Eftir sérlega ljúfan dag í Frankfurt var flogið til Ljubljana um kvöldið og þar tóku slóvenskir bílstjórar við okkur og óku með okkur til Bled... ansi stutta leið að okkur fannst... enda er landið ekki stórt, 20þús ferkílómetrar og það tekur ekki nema tvo og hálfan tíma að aka landið á enda ;-)

Fínasta hótel sem við gistum á fyrstu og síðustu nótt ferðarinnar...

--------------------------------------

3. september 2012
Göngudagur 1 af 6

Eftir morgunmat var fundur með fararstjórunum sem fóru yfir göngurnar sem voru framundan, búnað og annað...

Fararstjórarnir voru tveir;
Mica og Alja. Mica stjórnaði enda margbúinn að fara þessar leiðir og þekkti hverja þúfu. Glaður, jákvæður. afslappaður
og vinsamlegur maður sem var fljótur að átta sig á hópnum og stilla sig út frá stemmningu hans.

Alja rak lestina í göngunum en hún býr í norðvesturhluta júlíönsku alpanna í um 1000 m hæð
og er mikið náttúrubarn, kraftmikil útivistarkona, glöð og alltaf hress og til í allt... og með sterkar lífsskoðanir... 

Við nutum leiðsagnar, félagsskapar og vináttu þeirra beggja alla ferðina til enda
þar sem væntumþykja er eina rétta orðið yfir þau tengsl sem urðu á milli okkar og þeirra ;-)

Fyrsti göngudagur af sex var upphitunardagur í Karavanke-fjallgarðinum...
áður en við tæki fimm daga ganga gegnum Júlíönsku alpana...

Skýjað til fjalla en ekki rigning og auðvitað blankalogn og hlýtt...

Hér voru menn annað hvort með allt sem þeir ætluðu að bera í Ölpunum sjálfum eða þeir voru með léttan bakpoka því daginn eftir tæki alvaran við með burði á öllum farangri í fimm daga (en þó ekki mat né svefnpoka eða slíkt).

Gengið var í skógi, hlíðum og klettum...

Skógarnir voru töfraveröld sem við þekkjum ekki til hér heima... lifandi vera með eigið vistkerfi enda eru skógar sjálfbærir með öllu og hvert ferli hefur sinn tilgang... fallnir trjábolir verða að næringu í jarðveginum fyrir rætur hinna og lægri tré komast að sólinni þegar þau stóru falla... og Alja fræddi mann um vistkerfið og sagði sögur af tilraunakenndum trjáplöntunum þar sem skógurinn hafnaði nýstárlegum trjám sem ekki féllu inn vistskerfiskramið á hverjum stað... minnti mann á gagnrýnina á skógræktinni t. d. kringum Jökulsárgljúfur og Heiðmörk á Íslandi...

Strax á fyrsta degi kynntumst við þeirri elju heimamanna að koma stígum fyrir utan í öll fjöll til að komast leiðar sinnar...

Nægt var myndefnið og við nutum þess að ganga í framandi landslagi...

Yfirleitt góðir stígar... breiðir og öruggir svona fyrsta daginn...

Gylfi hér að kíkja út um glugga á byrgi í klettinum frá stríðstímum og Heiðrún að taka mynd af honum...

Litið niður á gististaðinn sem beið okkar í enda þessa dags...

Jebb, alvöru stígar sem upphaflega voru lagðir að hluta til á stríðstímum...

Við fórum gegnum ein göng fyrsta daginn þar sem notast þurfti við höfuðljós...

... sem var ekki vandamál í hópnum nema ef vera skyldi að menn hefðu skilið þau eftir í hinni töskunni...
en fararstjórarnir voru með nokkur ljós til að lána...

Myrkt og ævintýralegt var það...

Vatn í botninum á göngunum...

... svo við þurftum að stikla á steinum...

Komin út hinum megin... þetta var ekki langt sem við gengum en skemmtilegt...

Skógurinn tók aftur við og sólin tók að skína...

Á fyrsta áningarstað var þessi traktor og sveitamennirnir voru ekki lengi að taka við sér...

Preval fjallaskálinn var í 1.311 m hæð og bauð upp á fyrsta fjallabjórinn í ferðinni...;-)

Við byrjuðum á þessum milda græna Lasko til að gæta hófs...

... og það þurfti ekki mikið til að fara í hæstu hæðir svona hátt uppi nú þegar í þessu fallega landi...

Eftir þennan kalda tóku heitar brekkurnar við... sem var ekki það allra besta eftir ölið... ;-)

Fjallamenning Slóvena er mikil og stígar, bekkir og stuðningskeðjur alls staðar...

Við gengum lengi vel í hliðarhalla utan í fjöllunum...

... þar sem farið var yfir læki og gil...

Járnpinnar til að stíga á voru utan í berginu ef grjótið var slétt... minnti mann á fjallahringinn kringum Mont Blanc...
og er greinilega einkennandi fyrir fjallamennskuna í evrópsku ölpunum...

Baðker sem safna vatni fyrir dýrin...

Hlíðar Begunjskcica fjallsins í Karavanke fjallgarinum voru ekkert slor...

Stígurinn stundum ansi mjór en aldrei tæpur að ráði... og skógurinn á fullu í endurvinnslunni...

Það hitnaði með meiru utan í hlíðunum með sólina síhækkandi á lofti að baka okkur...

Hádegismaturinn var snæddur í fjallaskálanum Roblekov dom í 1.635 m hæð...

Útsýnið að opnast til fjalla og niður á láglendið og veðrið var milt og gott...

Þarna fengum við fyrstu slóvensku pylsuna... Cabbage-soup... reyndist ansi góður hádegismatur eftir smakk...

... en sumir lögðu ekki í hann og völdu sér þekktari mat eins og spagettí...

Ingi sýndi listir sínar á hádegisborðinu meðan beðið var eftir matnum... hvernig á að ganga vel frá áldósum á fjöllum svp þær taki ekkert pláss, þegar bera þarf allt sitt hafurtask, meðal annars úrgang til baka úr óbyggðunum... ;-)

Tyrkneska kaffið þeirra Slóveníumanna féll víst ekkert sérlega vel í kramið hjá hópnum og fararstjórarnir voru steinhissa á því ;-)

Södd og sæl var haldið áfram á gleðinni einni saman...

Úps, já hópmynd... ekki spurning að eiga eina af öllum í Karavanke fjöllunum... við rétt náðum þessu á niðurleiðinni í sveitinni...

... og dáleiddumst því næst inn í skóg með alvöru stíl...

... og fegurð í hæsta gæðaflokki...

... áður en við lentum niðri í byggð aftur...

Tölfræðin 3/9: Alls 11,9 km á 6:45 klst. úr 698 m upp í 1.678 m hæð með alls 1.601 m hækkun.

... þar sem kynni okkar hófust við rauða slóvenska bjórinn Union...

Við áttum notalega stund í bænum eftir að hafa verslað okkur nals - "snacks" og annað smálegt... áttum víst að versla okkur þarna hádegismatinn fyrir morgundaginn en Mica gleymdi að nefna það við okkur... en það leystist með innliti í bakarí án nokkurrar streitu morguninn eftir... þessi hópur lét ekkert slá sig út af laginu sem var tær snilld... ;-)

Fyrsta nóttin í slóvenskum fjallaskála var við lúxusaðstæður í Costice Koren...

Fínustu rúm og kojur í öllum hornum...

... og heimilislegur matsalur þar sem slóvenska heilsufæðið var áfram við lýði...
grænmetissúpa hér í forrétt...

Sögusagnir um lítið grænmeti á slóvenskum matseðlum stóðst ekki, hver fékk sína skál fulla af grænmeti
en sögur af súpum og pylsum stóðust betur er á leið ferðina þó þetta kvöld væri það kjúklingarkjöt og franskar...

Morgunmaturinn var og jafn flottur... ilmandi ferskar brauðbollur og horn... og alvöru álegg...

-------------------------------

4. september
Göngudagur 2 af 6

Fyrstu sporin á göngudegi tvö voru gegnum fjallaþorp og skóga...

... í dásamlegu veðri þar sem hitinn var fljótlega kominn í tuttugu gráður...

Mica smakkaði harðfisk hjá Simma... og sagði sögur af baccaloanu sem hann smakkaði í Portugal
og Hildur fræddi okkur um verkun saltfiskjarins í Portúgal ...

Skógurinn var fullur af töfrum...

... og leið lá fljótlega upp á við áleiðis í fjöllin...

Alja var með mestu birgðirnar á bakinu í leiðangrinum... var að æfa sig... hafði ekki farið oft þessa leið... og minnti að hún hefði verið auðveldari... sagðist eftir á ekki hafa tekið allt þetta með sér ef hún hefði munað rétt... en kláraði sig vel alla leið þó hún drægist stundum aftur úr á verstu köflunum... algert hörkutól með hugafarið í lagi ;-)

Komin upp í skarð í hlíðunum þar sem við áðum stuttlega og gengum svo hljóðlega um lendurnar í von um að sjá litla brúna dýrið...

Og niður var farið aftur í annan dal í smá hressingu...

Þarna gafst útsýni til Triglav... hæsta fjalls landsins sem beið okkar tveimur dögum síðar...

Niðri í þessu litla dalverpi voru skálar þar snafs var í boði heimamanna...

Útsýnið niður skarðið sem við gengum svo um eftir pásuna...

Fábrotið var það en notalegt...

Timbur skógarins nýtt í allt... líka hlið, hurðir, stiga, setur, tröppur og...

Þarna smökkuðum við slóvenskan snafs í fyrsta sinn en snafsa-menningin er mikil í Slóveníu
og fararstjórar voru ekkert að hika við þetta með okkur ;-)

Fínasta salernisaðstaða...
Perúfarar uppteknir af fyrri reynslu af slíkri aðstöðu í öllum gæðaflokkum og því var svona lagað hrein snilld...

Mica sýndi okkur á korti alla fjallaskála svæðisins þar sem okkar skálar sáust meðal annars...

Þau áttu sína uppáhaldsskála og vildu greinilega hafa þá sem heimilislegasta og einfaldasta...
enda komumst við síðar að því að fjölmennustu og stærstu skálarnir voru ekki endilega þeir bestu....

Eftir snafs, snakk, spjall og fíflaskap var haldið áfram niður skarðið...

Ósköp vorum við smá í þessu landslagi...

Kyngimögnuð listaverk náttúrunnar á hverju strái...

Við þjálfuðumst í að koma okkur yfir fallna trjáboli sem lágu yfir göngustígnum ansi oft þessa slóvensku daga á göngu...

...en Alja sagði að áður fyrr máttu menn hirða fallin tré í skógum landsins, en svo hefði það verið bannað og svæðin friðlýst og því lægi þetta um allt óhirt þar sem skógarstarfsmenn væru ekki að standa sig í stykkinu... það kom oft fyrir að Mica sagði aðra sögu og kom með aðrar útskýringar á hlutunum enda kom í ljós að stjórnmálaskoðanir þeirra voru ólíkar og sýn þeirra á fortíð Slóveníu sem fyrrum Júgóslavíu undir stjórn Titos og núverandi nútímaland Evrópusambandsins var mjög ólík...

Þetta var magnaður skógur...

... sem geymdi gimstein sem aldrei gleymist okkur... hjartalagaðan stein með lungnaslagæð og kransæðar og allt saman...
Algerlega priceless upplifun að hitta á þennan stein!

... og maður áttaði sig á því að allar hrollvekjur sem gerast í skóglendi eru ekki ýkjum skreyttar... það eru virkilega til draugalegar rætur um allt og heilu trén sem taka á sig kynjamyndir skrímsla og óvætta...

Hópmynd við hjartasteininn í anda hjartalags Toppfara...

Þessi steinn hefði svo þurft að fá hana Ástu Henriks til að mynda sig...  hjartamyndir hennar eru hreinn fjársjóður...

Mitt í skóginum gengum við fram á fyrsta vatnið af sjö í "sjövatnadalnum" eða svarta vatnið, the black lake...

Friðsæll og fallegur nestisstaður við vatnið sem heitir Krnsko jezero á slóvensku...

Ofan við vatnið risu snarbrattar hliðar á beggja vegu...

Eftir matinn bauð Heimir okkur upp á jógateygjur sem var vel þegið;-)

Hópmynd við vatnið...

Steinunn, Sigga Sig., Heimir, María S., Guðjón, Halldóra Þ., Heiðrún og Ingi, Mica, Kjartan, Gylfi, Simmi, Gurra, Alja, Rósa, Örn, Valla og Jón, Jóhanna Fríða, Hildur Vals og Bára tók mynd.

Já, þetta voru brattir hamraveggir ofan við vatnið...

Leið okkar lá engu að síður upp þessa bröttu hamraveggi sem sáust á fyrri myndinni... ótrúlegt hvað þessari þjóð hefur tekist að búa til stíga um allt... okkur fannst við vera á heimavelli... á slóðum þjóðar sem lætur ekkert stöðva för heldur finnur alltaf leið um illkleifanleg fjöllin ;-)

Þar uppi komum við fram á snarbrattar brúnir...

...með mögnuðu útsýni niður á Bohinj vatni...

Með brúnunum héldum við áfram leiðinni inn í fjöllin...

... aftur gegnum skóglendi áður en haldið var aftur upp á við...

... og við tóku þéttir stígar upp á við í síðdegissólina...

... þar sem við vorum alltaf næstum því komin... ;-)

Mica hér að skella upp úr þar sem við héldum enn og aftur að við værum komin... en þessi kofi var bara framhjáleið...

Just a little bit more...

Wow... hvílíkur skáli... flottur staður og mergjaður útsýnisstaður...

Jón beið eftir Völlu sinni með þennan slóvenska... mýkjandi og slakandi eftir krefjandi dag... ;-)

Alja skilaði sér síðust inn af öllum... kófsveitt og þreytt eftir burðinn og vildi ekki láta taka mynd af sér þarna strax
en ég þóttist ekki skilja það... ;-)

Tölfræðin 4/9: Alls 14,4 km á 10:37 klst. úr 1.115 m upp í 1.707 m með alls hækkun upp á 1.050 m.

Skál fyrir flottum degi... þetta var dásamlegur staður til að slaka á eftir daginn...

Hiti og sviti... kaldur og svalur... hlátur og gleði...

Útsýni til fjallanna sem við ætluðum að ganga um næsta dag...

Flott gistiaðstaða og enn og aftur kom aðstaðan okkur á óvart... uppábúið og allt til alls... sturtan var ásetin og köld og við skiptumst á að skola af okkur rykið, við sem kusum að fara í sturtu yfirleitt... en kærkomin var hún...

Litið út um gluggann á herbergjaálmunni á efri hæðinni... þetta var útpældur fjallaskáli þar sem hugsað var fyrir öllu.
Aðföng fengin með kláf á bak við skálann og gönguskógeymsla á neðstu hæð til að halda lyktinni góðri... ;-)

Kvöldmaturinn snitzel og bakaðar kartöflur með grænmeti...
og ekki klikkuðu þeir á grænmetisskálinni á hvern mann... ;-)

Bakað epli í eftirrétt sem smakkaðist ansi vel...

Matsalurinn heimilislegur og notalegur...

Eftir matinn fór Mica yfir göngu morgundagsins... nú myndum við skilja gróðurlendið eftir og fara upp í grjótið... klöngrast upp brattar grjótbrekkur, niður skriður og enda í skála í klettaskarði...

Við vorum ekkert á því að fara að sofa eftir matinn um áttaleytið... komið myrkur og Kjartan bauð upp á skemmtiþraut úti á kráarpallinum þar sem menn áttu að hoppa yfir penna á gólfinu án þess að sleppa takinu á skónum sínum... nokkrir reyndu en engum tókst það fullkomlega... eða hvað?  Alger snilld ;-)

---------------------------------------------

5. september
Göngudagur 3 af 6

Dagrenningin þann 5. september á göngudegi þrjú var ólýsanleg...

Flottur morgunmatur með alls kyns smjöri, ostum, sultum, hunangi...

Kjartan, Sigga og Heimir - Guðjón, María S., Gurra og Simmi...

Útsýnið út um gluggann þar sem við borðuðum morgunmatinn...

Hildur átti afmæli þennan dag og þjálfari hélt smá tölu í tilefni dagsins um þessa dásamlegu konu sem allt getur með hógværðinni einni saman
og skorað var á alla að gleðja afmælisbarnið á einhvern hátt þennan dag...

Við byrjuðum á að ganga gegnum Narodni-garðinn sem á sér mikla sögu... meðal annars á stríðstímum þar sem hafist var handa árið 1915 við að reisa stærstu herstöðina sem byggð var í fjöllunum... alls 20 byggingar úr steini og timbri... þar á meðal spítali fyrir hina minna særðu... en nú er eingöngu hluti af þessum byggingum enn uppistandandi... á svæðinu var og kirkjugarður þar sem hermenn voru jarðaðir en síðar voru jarðneskar leifar þeirra fluttar undir minnismerki sem við ætluðum að skoða...

Það sem eftir var af byggingunum á svæðinu... þetta var hernaðarlega mikilvægur staður þar sem skörðin alls staðar í kring gáfu góða sýn niður á láglendið allt um kring...

Minnismerkið... steinhlaðinn pýramídi til minningar um hina föllnu...
...sagan á hverju strái og svo miklu lengri og þungbærari en nokkurn tíma okkar saga í fjöllunum á Íslandi...

Frá Narodni héldum við út úr dalnum...

Sigga bjó til blómakrans handa afmælisbarninu... ;-)

Útsýni til fjallanna sem biðu okkar... þarna upp vinstra megin áttum við eftir að fara um og ganga á hæsta tind
og ganga svo hinum megin um hlíðarnar til byggða...

Mica gaf Hildi súkkulaði... ;-)

Grjótið var þegar farið að láta meira til sín taka...

Skógurinn þynntist...

Við vorum á leið frá skálanum Dom na Komni
og stefndum á Koca (sem þýðir lítill fjallaskáli) pri (fyrir) Triglavskih (Þríhöfði, hæsta fjallið) Jezerih (sérnafn skálans)...

Hvíldarpása í dásamlegu veðri...

Alja gaf Hildi ávaxtadrykk ;-)

Jóhanna Fríða samdi ljóð um Hildi og las fyrir hana yfir hópinn:

Hildur þú ert hefðarkona
Hildur þú ert bara svona
Ósérhlífin, hógvær, indæl
heyrist aldrei vol né væl
gæska, eigðu góðan dag
gangi þér áfram allt í hag
afmælisdeginum eyðir þú
með okkur sem segjum I love you
Happy birthday to you!

Við vorum komin að vatni númer tvö og þrjú sem kallast tvíburavötnin eða Twin Lakes eða Dvojno jezero...

... þar sem fjallaskáli rís á milli vatnanna í dalnum...

Litið til baka af þyrlupallinum því aðföng eru flutt í skálann á þann mátann og með hestum...

Koca pri Triglavskih jezerih skálinn.

Jóhanna Fríða notaði slóvenskan náttúrutréstaf sem hún fann fyrsta daginn...

Veðrið var gott þegar við komum í skálann en það kólnaði fljótt þarna í hádeginu þegar sólin hvarf bak við skýin...

Mica tók við pöntunum um hádegismat... cabbage-soup með pylsunni var ansi vinsælt...

Afgreiðslan inni, ótrúlega flott aðstaða í öllum skálunum í þessari ferð og hreinn unaður að kynnast ólíkindum þeirra... eitthvað sem er ansi mikið til eftirbreytni á Íslandi... þar sem skálar eru í bílfæri og afsakanir um staðsetningu og erfiðleika við aðföng eiga hreinlega ekki við rök að styðjast í samanburði við slóvensku skálana sem ekki eru í bílfæri en bjóða engu að síður upp á heitan mat, drykki og alls kyns nasl...

Eldhúsið í skálanum... þarna hömuðust konurnar við að elda súpur, spagettí, pylsur og pasta...

Vetrarskálinn... algeng sjón við skálana var að sjá minni og harðgerðari skála sem kölluðust "winter room"
og eru til reiðu fyrir þá sem eru á ferðinni þarna á veturna en þá er ekki þjónusta eins og á sumrin...

Súpa og brauð með bjór, vatni eða pepsí... ótrúlega flott ;-)

Menn birgðu sig upp af vatni og leyfðu sér að skilja tómar flöskur eftir á hverjum stað í staðinn
en almenna reglan er sú að menn taka allt með sér til baka úr fjöllunum og skilja ekkert eftir sig...

Strákarnir fögnuðu afmælisbarninu á sinn máta ;-)
Guðjón, Simmi, Ingi, Kjartan, Gylfi og Jón.

Þarna kom skýringin á því að hægt var að kaupa sér bjór og aðra drykki í óbyggðunum...

Menn hugsa greinilega í lausnum í Slóveníu og flytja þetta með hestum, kláfum og þyrlum...

Eftir góðan hádegismat var haldið áfram inn í fjöllin...

... framhjá hinu tvíburavatninu...

... lygnu og friðsælu... litríku og fögru...

Litið til baka með skálann fyrir enda vatnsins...

Þarna tók grjótið endanlega við...

Steingervingar í berginu... ath!

Ljósi kalksteinninn var mildur og hlýr...

Líktist óhugnanlega oft kolsprungnum skriðjöklum sem skriðu fram í gróðurinn á láglendinu...

... sorfið af hopandi jökli í árdaga...

Sjá tígullaga steininn sem beið okkar efst á hæðinni þarna...

Fjórða vatnið á leiðinni... og það fegursta að mati þessa ritara...
Jezero v Ledvicah eða kidney lake sem er víst í laginu eins og nýra... í 1.813 m hæð...

Halldóra þórarins gaf Hildi nasl í lófann... það var sannarlega stjanað við hana þennan dag ;-)

Friðurinn á þessum stað gleymist aldrei...

Við áðum og fengum okkur nesti og snafs...

Hópmynd við þetta fallega vatn...

Gylfi, Mica, Heimir, Hildur, Örn, Guðjón, Simmi, Sigga Sig., Jón, Steinunn, Ingi, Halldóra, Heiðrún,
Kjartan, Valla, Gurra, María, Jóhanna, Rósa, Alja og Bára tók mynd...

Komin lengra upp með vatnið í baksýn...

Framundan voru tindar og skörð sem við áttum eftir að ganga um... Fjölllin Vrisaki og Kanjavec í 2.568 m hæð
en við gengum um skarðið sem hér sést á mynd hægra megin...

Litið til baka um leiðina sem við komum... slóvensk skólabörn á göngu með kennaranum sínum... fjallamennska Slóvena kom okkur vel fyrir sjónir í þessari ferð með skólabörnum og heilu fjölskyldunum þriggja kynslóða á göngu í fjöllunum ;-)

Við gengum hljóðlega til að ná sjónum á fleiri dýrum merkurinnar á þessu svæði...
Fjallahafurinn?? var í tilhugalífinu beint fyrir framan okkur...

Fimmta vatn gönguleiðarinnar var Græna vatnið... eða zeleno jezero...

Hér áðum við og Bára las upp samið ljóð til Hildar í tilefni dagsins:

Hógvær og hlý er Hildur
hátt upp´í fjöllunum á
Sem slóvenskur vindur mildur
hún strýkur manns hjarta smá.

Eftir Grænavatnspásuna var haldið upp þétta, grýtta stígana upp í skarðið.
Hér lagði Mica línurnar með að röskari göngumenn færu á sínum hraða og hinir hægari á sínum og við myndum sameinast ofar...

Nú gátu menn spítt í að lyst og var það vel... landslag og útsýni stórfenglegt og veðrið tvístígandi... ætlaði hann að fara að rigna svona innarlega og ofarlega í fjöllunum eða er ekki sólin bara að fylgja okkur áfram og sífellt að létta til?  Mica lagði upp með að við værum að ganga inn í rigningu og þrumuveður skv. veðurspánni en toppfaríska bjartsýnin fullyrti að það yrði dúndurgott veður þennan dag... og það stóðst þar til á síðustu metrunum...

Hinn skálinn sem hægt er að gista í ef menn ætla á Trigval... Zasavska Koca na Prehodavchi... hér gistu Englendingarnir sem voru samstíga okkur í fjöllunum á meðan við fórum í skarðið og stefndum á skálann Koca na Dolcu...

Prehodavci skálinn í nærmynd.

Algengar leiðarmerkingar... rauði liturinn allsráðandi og leiðirnar gjarnan merktar með lituðum punktum í berginu...

Útsýnið sífellt að verða mikilfenglegra með hækkandi hæð...

Komin í 1.194 m hæð... nokkrir í hópnum að slá sína hæstu hæð yfir Hvannadalshnúk... það er alltaf söguleg stund...

Snafsaáning og svona ;-)

Serbarnir sem áttu eftir að ganga á Þríhöfða eða Triglav á sama tíma og við...
maðurinn síreykjandi með heimahannaðan göngustaf og röndótta en hörkugóða göngukonan sem var ansi skrautlega klædd ;-)

Frábær stemmning og við vorum í banastuði...

Bergið alveg að taka yfir og brátt var nánast engin flóra eftir á jörðinni...

Hamrar Zelnarica yfirgnæfafndi... þessir sömu og slúttu yfir nýrnavatnið fyrr um daginn...

Þarna sást yfir til Ítalíu ef vel var að gáð...

Stórggrýtt var það... fremstu menn fengu notið sín þennan kafla á sínum hraða...

Litið til baka úr skarðinu niður sjö vatna dalinn sem við gengum um áður en við byrjuðum klöngrið...

Nú hófst það sem leiðsögumenn kölluðu "moon-walk"... tunglganga um framandi grýtt landslag nánast ekki af þessum heimi
og verður manni ógleymanlegt fyrir lífstíð...

Skiltið hallandi eftir veðurham... hér týnast menn og deyja í slæmum veðrum... flauta er þarna uppi sem fer af stað í vindi svo menn geti náð áttum og fundið leiðina niður hvoru megin til byggða...

Þríhöfðarnir voru á fleiri stöðum en hæstu tindum...

Heimir var líka með sinn náttúrustaf í Slóveníu eins og Jóhanna Fríða ;-)

Þetta var heilmikið klöngur upp og niður óljósan stíg framhjá gjótum og giljum, uppþornuðum pollum og hömrum...

Mica varaði sérstaklega við gjótunum sem geta víst verið ansi djúpar á þessum slóðum... einhverja hundruð metra... enda gengum við síðar framhjá dýpstu gjótu heims sem fundist hefur... hvað var hún aftur löng?

Kalksteinahvítt allt saman og enginn mosi...

Sums staðar þurfti að halda sér í og Mica tók stafina hjá öllum svo menn hefðu báðar hendur.

Sjá rauðu/hvítu leiðar-punktana...

Fínasta upphitun fyrir það sem var framundan... sem var miklu meira klöngur en við áttum von á í þessari ferð ;-)

Þegar ský dró fyrir sólu höfðum við hana Siggu okkar til að lífga upp á tilveruna á tunglinu... ;-)

Litið til baka yfir þessa grýttu eyðimörk sem við höfum aldrei kynnst viðlíka áður...

Komin yfir skarðið með útsýni niður skriðuna sem við ætluðum að ganga niður um og svo í hliðarhalla við þennan klett hérna vinstra megin
og í skarðið þar fram á brúnirnar þar sem skálinn beið okkar fyrir nóttina á brúninni hinum megin ;-)

Við vildum ólm taka mynd af þeim sem voru að sigra hæðina yfir Hvannadalshnúk
 en það voru þau Kjartan, Valla, Jón og Hildur og svo Steinunn, Jóhanna og Rósa...
Hinir í leiðangri Slóveníu höfðu öll verið í Perú og gengið upp í allt að 5.822 m hæð
svo þetta er fljótt að verða afstætt eftir því sem menn eru "lengra gengnir" ;-)

Á þessum tímapunkti hafði Mica loks rétt fyrir sér... rigningin var að koma... þrumuveður fylgdi stuttu síðar... en það varð aldrei neitt úr úrkomunni og menn voru fljótir að fara aftur úr jakkanum sem þó kom sér að góðum notum síðasta spöl leiðarinnar...

Niður úr skarðinu var farið um kletta og grjót á stíg sem var brattur með lausagrjóti svo fara þurfti varlega...

Röndótta, serbneska konan var á undan okkur og skokkaði þetta létt og alls endis fótviss...

Stígurinn skánaði neðar og við vorum fljótlega komin niður í miðja hlíð þar sem menn gátu valið hvaða leið þeir kláruðu niður brekkuna...

Annars vegar að taka skriðuna hér niður á hröðum, öruggum skrefum... eða halda sig á stígnum alla leið...

Flestir fóru skriðuna... enda ekkert miðað við það sem Ísland býður okkur upp á stundum...

... og menn skemmtu sér konunglega á hlátrasköllum alla leið...

Við tók stígur utan í fjallinu niður í skarð og inn eftir fjallinu í annað skarð...

Hér byrjuðu þrumurnar og eldingarnar og gleðisvipur kom á okkur Íslendingana sem ekki höfum oft upplifað þrumuveður en þessi gleði var í hróplegu ósamræmi við áhyggjusvipinn sem kom á leiðsögumennin enda er þrumuveður í þessum fjöllum hættulegt og margir dáið í slíku veðri sökum eldinga sem leitar í það sem upp úr stingst í umhverfinu... göngumenn þá ef þeir eru staddir á hryggjum... en við vorum utan í hlíðum og því áttu tindarnir að taka allar eldingar... en Mica vildi engu að síður koma okkur sem fyrst úr veðrinu og inn í skála...

Smá leifar af snjósköflum voru á víð og dreif...

Litið til baka um skarðið og hlíðina sem hafði beðið okkar hinum megin...

Komin í síðasta skarðið og skáli kvöldsins framundan...

Geggjaður útsýnisstaður þó ekki bæri hann það með sér þetta síðdegi...
við áttum eftir að upplifa dýrðina í morgunsárið daginn eftir...

Sjá göngumenn skila sér inn með stígnum séð frá skálanum...

Tölfræðin 5/9: Alls 16,8 km á 9:36 klst. úr 1.520 m upp í 2.354 m með alls hækkun upp á 1.368 m.

Salernin voru úti á þessum stað... það gat verið flókið í myrkrinu um kvöldið og morguninn ;-)

...en þetta var ennþá lúxus í samanburði við Perú svo meirihluti hópsins hvekktist ekkert við þetta... postúlín er príma ;-)

Matsalurinn inni... sveittur og heitur... svalur og glaður... í einum köldum eftir daginn...

Bestu stundirnar eftir göngudaginn náðust ávalt á þessum stundum... svalandi gleðinni eftir stórkostlegan göngudag...

Hildi afmælisbarni var boðið upp á bjór... og svo upp á annan... það var brjálað stuð í hópnum þetta kvöld... ;-)

Svefnálman var uppi í risinu... notalegt var það og ennþá fengum við uppábúið... heimilislegra gat þetta ekki verið...

Við sömdum við starfsmennina um að græja stafinn H fyrir Hildi og allan hópinn...
Úr því það var ekki hægt að bjóða henni upp á köku þá var það snafsakaka ;)

Skál fyrir Hildi, dásamlegri manneskju sem glæðir líf Toppfara fágætri alúð og vináttu gegnum öll þessi ár á fjöllum...
ljúfari manneskju er ekki hægt að óska sér í klúbbnum... ;-)

Jebb, það var brjálað stuð...

Kjartan og Alja tóku extra-snafsana sem voru afgangs... ;-)

Sigga færði Hildi rauðvínsglas að ósk aðdáanda á Íslandi sem varð hugsað til Hildar þennan dag ;-)

Kvöldmaturinn... kartöflumús og gúllas... smakkaðist ótrúlega vel og var fínasta orka milli göngudaga...

Það endaði ekki svo að Hildur fengi ekki köku... Alja fór inn í eldhúsið og græjaði pönnuköku-súkkulaði-köku handa henni í eftirrétt úr eigin nestiskassa að hluta... Tær snilld hjá hugmyndaríkri og alúðlegri Alju ;-)

Leiðsögumenn slógu ró á hópinn þegar leikar stóðu sem hæst... það var jú erfiðasta ganga ferðarinnar framundan á morgun... og gleðin rann aðeins af okkur fyrir kaldan raunveruleikann... farið var yfir göngu morgundagsins sem var löng og ströng... eins gott að fara í rúmið og hvílast fyrir átökin... við vorum öll komin í koju um tíuleytið eftir einstakan dag á fjöllum og skemmtilegasta kvöld ferðarinnar ;-)

Framhald  - síðari hluti ferðasögunnar á sérsíðu hér:
http://www.fjallgongur.is/tindur83_slovenia_seinni_hluti_0609_090912.htm
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir