Tindferð 106 - níu tinda hringleið kringum Kleifarvatn
laugardaginn 29. mars 2014
 

Níu tindar kringum Kleifarvatn
um fjöll og hlíðar, stapa og höfða, strendur og fjörur
með vor í lofti og köflótta sólarglætu

Laugardaginn 29. mars var blásið til aukatindferðar af því veðurspáin var sólrík, mild og heit...
og 14 Toppfarar skelltu sér öfuga hringleið kringum Kleifarvatn...
í rigningu og vindi til að byrja með en þurrara, lygnara, heitara og sólríkara veðri eftir því sem leið á daginn...
Klöngrast var upp á hvert einasta fjall, fell, hlíð, höfða, stapa og tanga sem gafst kringum vatnið...
og strendur þess og fjörur raktar þess á milli...
í hatrammri baráttu vors og vetrar...  með alls kyns nýjum ævintýrum í bland við gamalkunnug...
þar sem stundum var straujað geyst... eða fimlega klöngrast...

Lagt var af stað klukkan 8:38 við norðurenda Kleifarvatns...
og stefnt að fyrsta "tindi" dagsins sem allir voru lág fell, stapar eða höfðar sem varða vatnið allan hringinn...
Lambhaga svokallaðan en á hann höfðum við einu sinni gengið á sólgleraugnaæfingu á þriðjudagskveldi í febrúar...

Veðrið rysjótt... vindur, kalt og eilítil úrkoma fyrri hluta dagsins
en sólin skein skærar eftir því sem leið á og það varð þurrara...

Sveifluhálsinn nánast snjólaus og alltaf jafn fagur svona tindóttur og klettóttur...

Allir í stuði þrátt fyrir vindinn og kuldann og úrkomuna... mergjað að ná aukagöngu svona með smá vor í lofti :-)

Grýttar skriður einkenndu landslagið austan megin vatnsins... sjá Innri stapa fjær á mynd við vatnið...

Lamdhagi gaf ágætis uppgöngu þó lágur væri...

... og mældist 197 m hár...

Ofan af honum var haldið áfram meðfram vatninu að Vatnshlíðinni sjálfri...

... mun snjóþyngra austan megin vatnsins en vestan...

Við gengum hliðlægt við Vatnshlíðina áður en við fórum upp...
Sjá Lambhaga í baksýn og Lambhagatjörn hægra megin en hún er aðskilin frá Kleifarvatni og oft alveg þurr á sumrin.

Mosinn tók við á Vatnshlíðinni og það skein í bláan himinn... skyldi dagurinn enda sólríkur?

Þetta lofaði allavega mjög góðu og við horfðum á Sveifluhálsinn sólríkan og fagran...

Mikið var þetta gott... vor í lofti svo sannarlega þrátt fyrir kuldann...

Vatnshlíðin mældist 400 m slétt þar sem við fórum hæst en niður hana komum við einhvern tíma í myrkri á þriðjudagsgöngu eftir að hafa farið upp Vatnshlíðarhornið að sunnan í snjóskafli og fallegu sólsetri...

Einu sinni gengum við allan Sveifluhálsinn norðan megin til suðurs og kringum vatnið austan megin 4. desember 2010
og birtan var ógleymanlega þegar komið var hérna til baka í bílana...

En það var enn vetur núna í lok mars og við tókum snjóskaflana á leið upp Vatnshlíðina...

Bónó geltir á Örninn og á mikið vantalað við hann elsku karlinn...
er mun lengur að aðlagast hópnum en Moli enda týndist hann í lok þriðjudagsgöngu fyrr í vetur...?

Nú sést betur hvernig Lambhagatjörnin kemur sunnan við vatnið...

Útsýnið varð magnað eftir því sem ofar dró...

Uppi gengum við að vörðunni sem mældist 400 m...
Dimma passaði hópinn sinn og naut sín eins og alltaf...

Bláminn í vatninu kom með hækkandi sól um morguninn...
sjá Syðri stapa vinstra megin og Innri stapa hægra  megin...
síðustu tveir tindar dagsins af níu sem við gengum upp á þennan dag...

Smá móða að trufla myndavélina enda rakt og svalt... framundan voru Kleifarhöfði og Geithöfði... og við létum okkur ekki muna um að fara á Gullbringu sem er ofan vinstra megin og Kálfdalahlíðar fjær líka uppi í landi... fjórir af níu tindum dagsins... stapinn við vatnið hægra megin við miðja mynd, lágur og fellur að landslaginu var svo enn einn, sá sjöundi á eftir þessum...

Litið til baka upp Vatnshlíðina...

Kleifarhöfði er nafngift þjálfara... nafnlaus tindur við vatnið sem má alveg hafa einhvers lags sérkenni til að skilgreina betur gönguleiðina.

Hér sneri Lilja Sesselja því miður við þar sem dóttir hennar hringdi og þurfti hjálp...
hún var fljót til baka eftir ströndum vatnsins og við fengu fréttir af henni síðar um daginn...

Við hin héldum klöngrinu áfram um fellin á austurströndinni...

... og færðum okkur upp á skaftið innar á Gullbringu og Kálfdalahlíðar...

Leit létt og stutt út í fjarska... en leyndi á sér eins og svo oft áður...

Gullbringa mældist 322 m há...

Grýti og sandur ofar... jú, við tökum þessar Kálfadalahlíðar með... þær eru svo  nálægt... :-)

Geitafell fjærst stóri stapinn þarna... við eigum hann alltaf eftir !

Niður og upp sandinn á hlíðunum... Gullbringa í baksýn...

Dimma smitar okkur endalaust af fjallagleðinni...
hún er hluti af hópnum frá fyrsta ári og er dugleg að aga hina hundana til sem una sér vel undir hennar stjórn...

Niður af Kálfadalahlíðum skautuðum við að Geithöfða...

Kálfadalahlíðar mældust 320 m háar...

Já, miklu lægri... við erum enga stund... :-)

Slóðirnar kringum kleifarvatn eru sveipaðar einhverjum göldróttum ljóma á alls kyns máta...

Snjórinn mjúkur að mestu og ekkert mál...

Nesti með útsýni yfir vatnið... þungskýjaðra og sólin víðs fjarri um stund... klaki á vatninu sem var frosið að mestu...

Leiðin að baki hér... Lambhagi þarna í sólinni vinstra megin og Vatnshlíðin snjóug ofar...

Geithöfði mældist 221 m hár...

Sumarlegt var niður af Geithöfða um grýtt móbergið niður á sandinn...

Við vorum komin að suðausturhorni vatnsins... og framundan mjög skemmtilegur kafli við ströndina...

Klakinn ofan á og undir sandinum...

Stundum þurfti aðeins að krækjka fyrir bergið á vaðinu...

... bara gaman...

Það er eitthvað við það að ganga svona meðfram strönd...

Skemmtilegt brölt um móbergið sem sverfist óðum með gjálfri vatnsins
en yfirborð þess hefur sveiflast heilmikið síðustu ár vegna jarðhræringa og var með lægsta móti þegar við gengum í desember 2010...

Sjá vatnssorfna stapana...

Þarna beið tindur sjö af níu þennan dag...
nafnlaus en við kölluðum hann Lambatanga til mótvægis við Lambahlíð og Lambafellin sem eru enn sunnar við vatnið...

Mosavaxinn og sérlega fagur...

Sandurinn mjúkur og sífellt að breytast með ölduhæð og breytilegu yfirborði vatnsins...

Litið upp eftir...

Jarðhiti...

Landslagið meðfram Kleifarvatni minnir stundum á tunglgöngu og er síbreytilegt og eins og heilt ferðalag...
það er vel þess virði að fara þennan hring reglulega til að hlaða sig fjölbreyttri náttúruorku...

Já, tindar dagsins voru ekki rismiklir sumir en þeim mun fegurri...

Þarna höfum við áður tekið hópmynd í þriðjudagsgöngu... Lambatangi mældist 184 m hár...

Við vorum komin í suðurendann... hálfnuð og leiðin var lengri og strembnari en við áttum von á sem var frábært... bara gróði :-)
Sjá Syðri stapa vinstra megin...

Skemmtilegt klöngrið svo eftir Lambatanganum niður af honum sunnan megin :-)

Lambatangi mældist 184 m hár...

... en gaf samt fínasta útsýni yfir bústaðabyggðina við suðurenda vatnsins...

... og ósana sem liggja sunnan megin og eru ófærir gangand vegna aurbleytu...

Við gengum því eftir honum niður á veginn...

... og gengum hann þar sem það er eina leiðin vilji maður fara yfir á þurru að suðvesturenda Kleifarvatns...

Sjá veginn hér... skemmtileg hlaupaleið sem gaman verður að prófa einhvern tíma...

Mjúkt og vorlegt að sumarbústöðunum sem gefa þessu svæði notalegt yfirbragð...

Drjúgt en gott í mýktinni...

Litið til baka á Lambatanga... jú, hann má alveg teljast með hinum fellum og stöpum dagsins :-)

Litið til baka...

Leiðin sem var að baki...

... og leiðin framundan meðfram vesturströndinni að bílunum við norðurendann...

Sérlega notalregt andrúmsloft var þennan dag enda var hjartað á réttum stað utan í Bleikhól :-)

Alveg magnað fyrirbæri !

Sveifluhálsinn yfirgnæfandi og tignarleiki hans greinilegur þegar nær var komið...

 

Hér fór sólin að skína...

... það varð vorlegra og við áðum í nestistíma tvö þennan dag...

Mikið var þetta gott... gleðin var við völd og gefandi spjallið aldrei langt undan...

Sendnar strendurnar vestan megin eru töfrar út af fyrir sig og alls endis ólíkar austurströndinni...

Vatnið óðum að hrista af sér veturinn...

... og klakinn að gefa eftir í hækkandi hitastigi marsmánaðar...

Þetta var barátta vors og vetrar...

Það var stutt í að vatnið myndi alveg þiðna...

Mikið var gott að ganga svona í sandinum...

Dimma skoppaði glöð og kát og passaði hópinn sinn...
Bónó og Moli nutu sín líka og þola greinilega langar göngur eins og ekkert sé :-)

Við prófuðum að ganga aðeins á klakanum...

... en það var ekki óhætt...

Við tóku stapar vesturstrandarinnar með alls kyns klöngri...

...stórgrýti og fjörugrýti...

... þar sem við þreifuðum okkur með leiðina og vissum ekkert hvað beið handan við næsta tanga...

Stundum tæpt að ná að komast handan við hornið...

... og þá klöngruðumst við bara upp á stapana...

... einhverja leið sem við fundum :-)

Ótrúlega gaman...

Alls kyns krókar og kimar...

Vá, hvað þetta var gaman !

Endalausar myndatökur...

Syðri stapi mældist 185 m hár...

... og gaf enn aðra sýnina á vatnið... Sjá Lambahlíðarnar við suðurendann og Syðri Sveifluhálsinn hægra megin...

Ef við héldum að klöngrið væri búið...

... þá var það mikill misskilningur...

Þetta var einangraður ævintýraheimur sem fáir hafa farið um...

... og einstakt að þvælast þarna um og vita ekkert hvað beið okkar lengra...

Jú, kæmumst við ekki hér handan við?

Best að gá einfaldlega !

Sjá víkjandi klakann á vatninu...

Stórgrýtið beið okkar hinum megin...

Kæmumst við áfram eða þyrftum við að snúa við ?

Magnað að sjá klakann stranda á grjótinu og vatnið vinna smám saman á honum...

Það var einhver stífla þarna... fremstu menn greinilega í vandræðum með að halda áfram...

... svo við öftustu fundum þá bara aðra leið...

... sem var ekki síður skemmtileg...

Stundum var heldur tæpt að skoppa milli steina í fjörunni eins og Örninn og ferfætlingarnir gerðu...

... og þá skreyttum við hin leiðina með klöngri upp bergið og þreifuðum okkur um björgin niður hinum megin...


...þar sem hver karlkynshjálparhöndin var uppi á fætur annarri ef á þurfti að halda...

Þarna skemmtum við okkur ógurlega með hlátrasköllum og fíflagangi sem eingöngu fæst í svona göngum...

Já, ekkert mál þegar maður stendur niðri og horfir upp...
en aðeins flóknara þegar maður stendur sjálfur og á eftir að koma sér niður á fast :-)

Jú, það var vor í lofti svo sannarlega...

Við héldum áfram eftir ströndinni að næstu hindrun...

Þessum leist ekkert á hópinn og fannst við hávær og kærulaus :-)

Það var ráðlegast að fara upp hér og ekki fært handan við hornið...

Jú, við fundum leið um móbergið og sandinn...

Litið til baka þar sem við komum eftir ströndinni og stöpunum...

Framdundarn var síðasti tindur dagsins af níu... Innri stapi...

Þetta var létt sem var framundan...

Við nutum þess að vera til og finna að við höfðum náð nokkuð krefjandi dagsgöngu þrátt fyrir láglendið...

... klöngruðumst svolítið í viðbót...

... og tókum smá strandgöngu í sandinum...

Snjórinn undir sandinum og bráðnar því síður...

Dásamlegt að ganga svona í sandi...

Litið til baka... þetta er ótrúlega töfrandi svæði sem leynir á sér...

Sandurinn aðeins harðari nær vatninu...

Það var komið sumar á Innri stapa...

... mosi og lyng... jú, sumar... Kleifarhöfði og Geithöfði þarna hinum megin...

Innri stapi mældist 185 m hár...

Sjá Helgafell í Hafnarfirði skaga þarna upp í fjarska... og enn fjær var

Innri stapa kölluðum við Stefánshöfða...

Svo Stefán trónaði efstur :-)

Þarna var bílaumferðin komin ansi nálægt... var einhver sóttur? ...
ritari man það ekki þar sem þessi ferðasaga er skrifuð þremur árum síðar að mestu !

Síðasti spölurinn að bílunum framundan...

Sólin komin en tekið að halla og landslagið yndislegt í síðdegissólinni...

Síðustu kílómetrarnir voru gengnir í blankalogni, hita og sól eftir rigningu, vind og svala fyrstu kílómetrana
og við skiluðum okkur lúin en ánægð með dagsverkið í bílana upp úr fjögur...

Það var ansi sætt að ná þessari hringleið kringum vatnið á vatnaþemaárinu mikla...
Búin með nokkur af litlu vötnunum kringum Reykjavík og klárum hin í vetur...
Hvalvatn komið og Meðalfellsvatnið bráðlega í apríl... og fleiri vötn í sigtinu...
...eigum við ekki bara að hjóla kringum Þingvallavatn?

Smá skáknördaskapur í klúbbnum... já, gott að rækta ólík áhugamál :-)

... eftir alls 18,7 km (18,3 - 19,4) göngu á 7:42 klst. upp í 400 m hæð hæst á Vatnshlíð með alls hækkun upp á 1.060 m (1.1150 m og 1.189 m) miðað við 147 m upphafshæð... sem þýddi að okkur tókst að kreista hörkugöngu út úr deginum sem gaf frábæra æfingu fyrir Öræfajökul, Laugaveginn og Nepal enda voru allir sem mættu í góðu formi og enginn að flýta sér svo við stóðumst ekki mátið að prjóna við upphaflega gönguáætlun sem var 14-15 km á 5-6 klst...

Sjá hvernig teygðist á leiðinni upp Vatnshlíðina, yfir á Kálfadalahlíðar sem voru ekki á planinu og svo um vatnasvæðið suðvestan megin með tilheyrandi tafsömu klöngri reglulega alla leiðina sem braut gönguna vel upp, svo aldrei var lognmolla á þessum tæpu 20 kílómetrum... ekki hægt annað en mæla með göngu kringum vatnið og þá hægt að sniðganga fjöllin austan megin og taka ströndina alla og sleppa einnig versta klöngrinu vestan megin sem við tókum viljandi til að njóta klifursins...


Örn, Guðmundur Jón, Hjölli, Arnar, Anton, Jóhann Ísfeld, Steinunn, Stefán, Soffía Rósa, Katrí Kj., Sigga Sig., Ásta Guðrún og Bára tók mynd en þau Dimma, Bónó og Moó tóku og þátt í fjörinu... en á mynd vantar Lilju Sesselju sem þurfti að rjúka til veikrar dóttur sinnar stuttu eftir að gangan hófst...

Takk fyrir notalegan félagsskap, fallegan dag, krefjandi göngu og flottan áfanga...
ansi sætt að ná þessari mjög svo fjölbreyttu hringleið um Kleifarvatn á vatnaárinu mikla
með viðkomu á ólíkum útsýnisstöðum allan hringinn :-)

Bjarnarhafnarfjall svo næstu helgi í byrjun apríl ef veður leyfir... og stutt í páskana þar sem ætlunin er að ganga á Heklu... en eigum eftir að taka afstöðu til aðvarana um yfirvofandi eldgos sem reyndar er búið að vara við árum saman... þar sem fundin verður þá varagönguleið ef svo ber undir... vorið er klárlega komið og ekki spurning að njóta þess í botn og láta engin hret koma sér úr jafnvægi því þau koma alltaf inni á milli :-)
 

 
 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir