Litli og Stóri Reyðarbarmur
Lyngdalsheiði
Þingvallafjöll nr. 5 og 6 á árinu
þriðjudagsæfing þann 10. mars 2020

Litli og Stóri Reyðarbarmur
á Lyngdalsheiði
Þingvallafjöll nr. 5 og 6 af 33 á árinu :-)

Fyrsta Þingvallafjallaáskorunarþriðjudagsæfingafjallgangan...
var þriðjudaginn 10. mars á Litla og Stóra Reyðarbam
sem rísa hér á vinstri hönd þegar keyrt er upp á Lyngdalsheiði frá Þingvöllum...

Sá Litli mun lægri en ekki síður formfagur en sá Stóri lengra vinstra megin...
ef ekki hreinlega fegurri þegar maður kynnist honum í návígi...

Hávaðarok... ekki aðlaðandi gönguveður...
við kyngdum tvisvar og lögðum af stað ákveðin í að ná góðri útiveru þrátt fyrir hvassviðrið...
og nutum þess í botn að slást við þessi veðuröfl þó veðurbarin værum við og úrvinda eftir á um kvöldið...

Á tagli Litla Reyðarbarms... var moldaður snjór ofan á hvítri fönninni...
og það var eins og við værum gangandi á mjólkurís... með karamellusósu... í boði náttúrunnar...

Mjög falleg leið... þessi Litli Reyðarbarmur er klárlega að komast aftur á dagskrá á þriðjudegi...
jú, og sá Stóri þá með úr því hann er þarna líka :-)

Við þræddum okkur eftir Litla Reyðarbarmi endilöngum...

Guðmundur Jón höfðingi vílar ekkert fyrir sér í fjallgöngunum
frekar en Katrín Kjartans sem var að hvíla verkjað hnéð eftir Rauðuhnúkana...
en þau hjónin hafa án efa farið í flestar göngur Toppfara af öllum klúbbmeðlimum frá upphafi fjallgönguklúbbsins...
þau hafa einmitt notið þess ekki síst að kljást við erfið veður og langar og erfiðar göngur... 
og eru hvergi hætt enda á leið til Perú með Ágústi og fleiri Toppförum...
þar sem ævintýrin bíða þeirra í röðum eins og hvergi annars staðar í heiminum...

Formfagurt... áferðarfallegt... litríkt...

Fremstu menn í banastuði og hörkuform á þeim sem voru mættir...
það var haldið vel áfram í þessu glaðhlakkalega roki... og því svarað með enn fleiri brosum, hlátri, gleði og þakklæti...
fyrir að vera nákvæmlega þarna... á þessum stað.. á þessari stundu...

Birtan svo falleg... enn einu sinni í vetur... sjá Þingvallavatnið
og fjallakransinn sem umkringir það og við erum byrjuð að saxa á á árinu...

Gylfi og Lilja Sesselja... eðal Toppfarar til margra ára...

Já... hann var fallegur þessi minni Reyðarbarmur....

Heilmiklar hækkanir upp og niður enda samansafnað 440 m hækkun í þessari göngu...

Stóri Reyðarbarmur rísandi þarna upp vinstra megin...
fjær eru Hrútafjöll sem áttu að vera janúar-tindferðin en náðust ekki sökum veðurs og ófærðar...
en bíða okkar þegar vorar... og hægra megin er Laugarvatnsfjall...

Biggi að fljúga móti vindinum niður þennan hnúk... njótandi alla leið...

Milli Barma...  Barmaskarð... þar sem gamli Lyngdalsheiðarvegurinn lá og við keyrðum um fyrstu ár Toppfara...
skrítið að upplifa allar þessar breytingar á vegum og mannvirkjum kringum fjöllin...

Vel gekk að fara þarna á milli enda snjór yfir hrauninu að mestu en eflaust lítið eitt ógreiðfærara að sumri...

Stóri Reyðarbarmur framundan...

Sólsetrið svo fallegt í þessu háskýjaða vindrokna veðri....

Fjórtán mættir... synd að við skyldum ekki vera fleiri úr því þetta var Þingvallafjall
og löngu skipulögð þriðjudagsæfing...

Lilja Sesselja, Valla, Þorleifur, Jón Steingríms., Biggi, Marsilía, Guðmundur Jón, Kolbeinn.
Ólafur Vignir, Bjarnþóra með vini sínum Batman , Gylfi, Stefán og Örn
en Bára tók mynd.

Hraunið... svo mosamjúkt að það var dásamlegt...

Nú var sannarlega kominn tími á keðjubrodda... sumir komnir á þá frá byrjun...
en það slapp vel þangað til við komum að Stóra Reyðarbarmi.. þá var þetta engin spurning...

Brekkurnar upp á Stóra Reyðarbarm eru brattar og nokkrar í röð...

Hörkufólk á ferð sem lætur sig hafa það með bros á vör ... alltaf... sama hvað...
hvílík orka að vera með svona fólki ! :-)
#Takkfyrirokkur

Sjá færið... og útsýnið... og hallann í brekkunum...

Þétt öðru hvoru en Örn var ekki alveg nógu ánægður með að menn færu svona mikið á undan
því þá er erfiðara að þétta hópinn og passa að aðrir fylgi ekki á eftir
og öftustu menn fá minni hvíld en þjálfari ætlar sér að hafa í göngunni...

Við biðjum því alla að virða leiðarval og gönguhraða fararstjóra...
við skiljum vel ef menn vilja æfa sig og fara á undan eða taka krókaleiðir...
endilega gera það til að njóta og æfa eins og þeim hentar
en pössum þá að aðrir komi ekki á eftir og virðum almennt val fararstjóra í göngunni eins og hægt er...

Þessar brekkur á Stóra Reyðarbarmi voru svolítið erfriðari en á Litla Reyðarbarmi
sem var
yndisganga kvöldsins á meðan sá Stóri var hörkuganga kvöldsins...

Langa brekka númer tvö... hér beið Valla og fékk sér smá nesti...
en fékk við það svo mikla orku að hún fór á eftir hópnum ein upp brekkuna
en sneri svo ofar við með Jóni þar sem hann flýtti sér til baka ofan af tindinum til að fara til hennar...

Þjálfarar voru uggandi yfir þessari snjóbrekku...
og ætluðu ekki með hópinn þarna upp á keðjubroddunum einum saman ef það væri harðfenni...

... svo reyndist ekki vera... það var mjúkt snjófæri og gott að spora upp brekkuna...

Hreinir bláir litir af öllum gerðum...

Litli Reyðarbarmur fyrir neðan... og lægri hluti Stóra Reyðarbarms að baki göngumönnum...
Þingvallavatn í fjarska hægra megin ásamt Henglinum og öllum hinum fjöllunum...
meðal annars Súlufelli og Miðfelli og Dagmálafelli sem eru að baki í janúar og febrúar
og svo fjöllin þrjú sunnan Þingvallavatns sem eru á dagskrá næstu helgi í blíðskaparveðri...

Frosinn mosinn á efsta hlutanum... tindurinn í augsýn efst vinstri megin...
og Hrútafjöll og Kálfstindar lengst til vinstri...

Þingvallavatn, Búrfellið og Botnssúlurnar...
nær eru Arnarfell sem er á dagskrá á þriðjudegi eftir tvær vikur
og næst eru Stóri og Litli Dímon... en síðstnefndu eru ekki á Þingvallafjallalistanum
og þurfa líklega að bætast á hann... er það ekki ?

Þarna var mjög hvasst.. síðustu mínúturnar... varla stætt frekar en uppi á tindinum...

Síðustu metrarnir upp á tindinn...

Komin í 517 m hæð og framundan voru Kálfstindarnir í allri sinni dýrð...
og svo Hrútafjöllin sem bíða ólm eftir því að kynnast Toppförum á árinu...

Við stöldruðum nánast ekkert uppi á tindinum... eftir að síðustu menn skiluðu sér upp...
erfitt að halda sér standandi og ekkert hægt að spjallla... og nánast ekki hægt að taka myndir...
allar myndir á tindinum úr fókus vegna vindhviðanna...

Farið að rökkva... og ráð að koma sér niður úr þessum vindi og þessu vetrarfæri í öruggara skjól...

Mjög fljót á leið niður og þarna vann snjórinn með okkur...
skíðað eða runnið eða skokkað niður í dásamlegri mjöllinni...

Sáum Jón og Völlu neðar aðeina á undan en þau voru það fljót í förum að við náðum þeim aldrei í bakaleiðinni...
röskir göngumenn með eindæmum bæði tvö...

Þegar niður var komið var tekið sléttlendið meðfram Litla Reyðarbarmi vestan megin
sem var á köflum harðir snjóskaflar eða mosaþembur með sköflum á milli... og allir fljótir í förum...

Myrkrið mætti á þessum síðasta kafla göngunnar og höfuðljósin komin á alla í lokin...

Ísinn með karamellusósunni...
aldrei verið í alveg svona fallegri blöndu af hreinum og skítugum snjó eins og þarna...
alltaf eitthvað nýtt í þessum fjallgöngum...

Mikill skafrenningur síðasta kaflann... og í myrkrinu var þetta mjög kuldlegt...
en ljósin frá bílnum þeirra Jóns og Völlu bjargaði miklu.... við gengum í áttina að bílljósunum
sem voru eins og bjargvættur í heimskautafílíngnum þarna... 

Ljósið í myrkrinu...

Stefán flýtti sér á undan hópnum til baka...
þar sem hann vissi að hann hafði keyrt bílnum sínum út í skafl og átti eftir að losa hann úr honum...
Báran leitaði hans dyrum og dyngjum á heiðinni við Litla Reyðarbarm
þar sem hún taldi bara ellefu manns í upphafi straujsins
en menn sögðust hafa séð hann fara á undan og Örn staðfesti það svo síðar...

Það var enda ráð að drífa sig í þennan mokstur...
Kolbeinn gekk líka í málið þegar honum bar að og Örn dró svo bílinn upp úr skaflinum eftir að lofti hafði verið hleypt úr dekkjum
og tók þetta nokkrar tilraunir... en það var sérstakt að upplifa þegar hinir bílarnir fóru af svæðinu hversu myrkt varð á svæðinu... þetta var allt saman viðráðanlegra þegar bílljósin lýsa allt upp.. en þegar myrkrið tekur yfir, dráttarbíllinn snýr í hina áttina til að geta dregið bílinn upp... vindurnn gnauðar og snjórinn lemur á allt... þá verður fljótt ansi hráslagalegt... 
það var því vel þegið þegar bíllinn varð laus úr skaflinu... bara stuð og vasklega gert hjá strákunum ! :-)

Og kominn tími til að draga bíla úr skafli...
ekkert gerst á þessum illviðrasama vetri svo þetta var bara gaman :-)

Alls 7,5 km á 2:27 klst. upp í 517 m hæð með 440 m hækkun úr 215 m upphafshæð.

Hörkuganga og yndisganga í senn.. það krefjandi að það er eðlilegt NB að vera þreyttur og veðurbarinn
eftir þessa krefjandi kvöldgöngu...
sem skilar sér sannarlega í erfiðar göngur sem framundan eru á Öræfajökli, Leggjabrjót, Botnssúlum, Laugavegi o.s.fvr...

Eftir rökræður innan hópsins var ákveðið að telja þessi fell dagsins sem tvö en ekki eitt...
þar sem það er nú vegur á milli þeirra og klárlega því ekki eitt fjall heldur tvö :-)

Ævintýrið í heild á Youtube:
https://www.youtube.com/watch?v=7CuM7x0yCc4&t=20s

Sjá slóðina á Wikiloc:
https://www.wikiloc.com/wikiloc/spatialArtifacts.do?event=setCurrentSpatialArtifact&id=47742244
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir