Æfingar alla þriðjudaga (og þrjá laugardaga) frá september til desember 2007
birt í öfugri tímaröð:
Fyrsti veturinn upp á von og óvon um hvort göngur að vetri til í myrkri væru mögulegar með hóp af fólki við allar aðstæður...

Akrafjall 28. desember
Úlfarsfell 18. desember
Toppfarar á forsíðu Útiveru
Esjan 11. desember
Úlfarsfell 4. desember
Esjan 27. nóvember
Litli og Stóri Meitill 24. nóvember
Úlfarsfell 20. nóvember
Esjan 13. nóvember
Úlfarsfell 6. nóvember
Esjan 30. október
Úlfarsfell 23. október
Húsmúli Henglinum 20. október
Esjan 16. október
Úlfarsfell 9. október
Esjan 2. október
 

Síðasta æfing ársins 2007 og jafnframt sú tuttugastaogníunda var milli jóla og nýárs, föstudaginn 28. desember með dagsgöngu á Akrafjall og mættu átta manns: Hjörleifur, Helga Bj., Halldóra Á., Roar, Gunnar Þór, Akurnesingur Gylfi Þór, Örn og Bára.

Veðrið var hreint út sagt frábært eða heiðskírt og vindur, A7, talsvert frost eða -9,5°C skv. mæli Roars. Betra gat það ekki verið nema jú, frostið beit, en það var þess virði.

Ólýsanlegt útsýni í allar áttir, gott færi, engin hálka, laus snjór og smá harðfenni á sléttunum efst. Óskaplega falleg gönguleið eftir tindum Akrafjalls norðan og sunnan megin í gullinni vetrarsól og mjúkri fönn.

Hist var við N1 kl. 9:00 og ekið í samfloti sem leið lá að Akranesi en beygt út af afleggjaranum inn að Berjadal við fjallsmynni þar sem tveir biðu okkar. Lagt var af stað kl. 9:56 í morgunskímu svartasta skammdegisins eða 1:27 klst fyrir sólarupprás.

Með í för var heimamaðurinn Jón Gunnar, mágur Gylfa Þórs, íslensku- og landfræðingur, vel kunnugur svæðinu. Hann var mikill fengur fyrir hópinn, þar sem hann þekkti vel til gönguleiðarinnar, valdi skemmtilega útsýnisstaði eftir hryggjunum báðum megin fjallsins og fræddi okkur í leiðinni

Gengið var upp Selbrekkuna til austurs upp með norðanhryggnum og leiddi Gunnar Þór gönguna, en við vorum of forvitin til þess að sleppa Guðfinnuþúfu og stefndum ótrauð þangað, þó ekki hefði hann ætlað okkur þá leið.

Gunnar Þór hélt sínu striki neðar í hlíðunum og Örn fór talsvert á undan hópnum að þessum tignarlegu klettum, svo þegar við hin komum að fyrstu klettunum við Guðfinnuþúfu, tókum við okkur stutta matarpásu í skjólinu, með stórkostlegu útsýni norðvestur eftir til Snæfellsness og Vesturlands, Hafnarfjalls og nágrennis.

Eftir svolítið klöngur upp með klettunum þar fyrir ofan beindu Örn og Gylfi Þór okkur til baka áfram eftir hlíðunum, þar sem þeir sáu ekki fram á að komast auðveldlega um klettana efst og vorum við hálfpartinn fegin því... södd enn eftir Kerhólakamb og alveg til í klifurlausa göngu í þetta skiptið...

Vægur mótvindur var þennan kafla frá upphafi og aðeins skafrenningur á köflum.

Gengið var þétt upp eftir hryggnum og fór sólin smám saman að skína á þessari stundu, kom upp kl. 11:23 roðagullin og alltumlykjandi á göngumenn og fjall... ólýsanleg andartök...

Hópurinn hér þéttur saman í morgunroðanum svo allt virtist renna saman í rautt; við, snjórinn og grjótið...

Dagrenning beint í æð með öllum skilningarvitum líkamans. Hvað er flottara en það?

Útsýnið eftir því, blámi sjávar og snjóhvítra fjalla allan hringinn...

Stórkostlegar myndir teknar í þessari ferð frá upphafi til enda. 

 

Gengið með norðanhlíðinni í góðu færi og hæsti tindur Akrafjalls skammt undan.

Við vorum einhvern veginn afskaplega róleg og afslöppuð þennan dag, hugsuðum lítið um tímann eða vegalengd, bara gengum í þessu töfrum líkasta umhverfi.

Vissum kannski að heiðskíran gaf okkur nægt svigrúm til þess að ljúka göngunni þó löng væri og höfðum vit á að taka inn þessi andaktugu andartök en telja þau ekki með klukkustressi.

Komin á Geirmundartind í 643 m hæð eftir 1:59 klst göngu og 3,6 km. Hafnarfjall og nágrannafjöll í baksýn.

Tignarlegur hamraveggurinn niður með norðvesturhlíðum fyrir fótum okkar og Faxaflóinn blasandi við okkur með Snæfellsnesið, jökulinn og Ljósuföll baðandi í morgunsólinni... og svo öll fjöllin inn með Hvalfirði hvert öðru glæsilegra í vetrarbúningi... Meira að segja Baula sem bíður okkar í lok janúar skagaði þarna upp úr í tærum vetrarblámanum.

Þarna fauk vettlingurinn hans Hjörleifs fram af klettunum og út í buskann þegar hann tók mynd að beiðni þjálfaranna og var það mjög miður...

Helga og Hjörleifur spjalla hér á tindinum í góðu tómi...

Skammdegið verður varla meira en þennan dag, sjö dagar frá dimmasta degi ársins og varla að manni fyndist sólin komast upp fyrir sjóndeildarhring... en vá, hvílíkir geislar frá henni samt í þetta lágri hæð.

Hálendið gefur manni betra færi á þessum vetrargeislum en láglendið og borgarsamfélagið, þar sem ekki þverfótar fyrir manngerðum fyrirbærum er byrgja þessa sýn.

Kannski er fjallganga á svona degi eitt það dýrmætasta sem hægt er að öðlast í mesta skammdeginu... svona stund nærir og heilar án efa sál og líkama...

Gengið af tindinum til austurs.

Skarðsheiði í baksýn vinstra megin; tindar Skarðshyrnu og Heiðarhorns þarna í sjónmáli. Helfrosnu tindarnir sem við klifum í nóvember s. l. í frosti og snjóbyl, nú bara heiðskírir og lokkandi.

Gunnar Þór gekk með okkur eftir þessum hömrum til norðurs að góðum útsýnisstað yfir láglendið og fjallgarðinn frá Borgarnesi inn eftir Hvalfirði.

Umhverfið niður með Akrafjalli var áhugavert, t. d. jarðmassinn sem klofnað hafði og sigið frá hömrunum norðvestan með, en þar er víst fær uppgönguleið að sumri til sem væri forvitnilega að skoða síðar.

Við tók jöfn ganga til suðurs frá norðurhryggnum yfir á suðurhrygginn.

Esjan og Botnssúlur ásamt öðrum fjöllum eins og spilaborg hálendisins fyrir framan okkur.

Vindurinn orðinn hliðlægur, vinalegur skafrenningur þarna og aðeins harðfenni, en aldrei hálka né erfiðleikar við að fóta sig. Annað hvort gekk maður á hörðum snjóskafl eða tróðst eitthvað niður ef svo bar undir.

Óskaplega góður göngukafli á góðu spjalli eða í algleymi hugsana, einn með sjálfum sér, sólinni, snjónum og fjöllunum.

Loksins fundum við góðan nestisstað, orðin svöng og til í skjólsælan stað til að á. Staðurinn var suðaustan í fjallinu við svokallaðan Kúludal og voru hamrarnir engu síðri sunnan megin en norðan megin. Við vorum stödd á brún sem vísar inn á Hvalfjarðarmynni og inn á norðurdali Esjunnar.

Ekki slæmur staður til að vera á með sólina í andlitið og goluna í bakið. Það var næstum því veðurblíða til að fækka fötum eins og í pásum á skíðum... en bara næstum... Það var -9,5 frost sem leyfði okkur ekki að sitja lengi á þessum fallega stað.

Það kom í góðar þarfir að hafa heimamanninn með sem þekkti vel til og sýndi okkur stað eins og þennan sem auðvelt er að láta framhjá sér fara í fyrstu ferð á jafn víðfeðmt fjall og Akrafjall.

Hjörleifur tók með sér Moggann... en hann fór ekki að lesa hann... heldur notaði hann sem sessu í snjónum í pásunni... Létt og laggóð lausn.

Jón Gunnar sagði okkur nöfn ýmissa kennileita þarna og sögu tröllkonunnar Jóku sem Jókubunga heitir eftir... hvernig Akrafjall klofnaði í tvennt þegar sólargeislar dagrenningar náðu á hana á leið með fjallið fagra heim á Snæfellsnes.

Henni brá víst svo við sólarupprásina, þarna sem hún burðaðist með Akrafjallið allt of sein á leið heim, missti það svo það klofnaði í tvennt og heitir dældin sem þá myndaðist Berjadalur er liggur eftir engilöngu fjallinu og gefur því einstakan svip.

Landslag Akrafjalls er nefnilega stórmerkilegt. Klofið í tvennt nánast og mun meira giljað í klettum meðfram því öllu en ætla má úr fjarlægð... Óskaplega fagurt fjall sem kemur á óvart við nánari kynni.

Ef ég ætti heima á Akranesi, fengið ég aldrei nóg af því eins og raunin er sjálfsagt með heimamenn. Virkilega flott bæjarfjall.

Eftir góða matarpásu sem auðvitað var allt of stutt eins og vanalega í vetrarkuldanum, örkuðum við af stað vestur eftir norðurhryggnum, sunnan með Jókubungu og nutum þess að ganga eftir fjallsbrúninni margséðu sem snýr að Reykjavík.

Loksins vorum við hinum megin... fjallsins megin.

Þarna gengum við eftir fjallsbrúninni sem er fyrir augum okkar alla daga frá borginni og veldur að Akrafjall verður ekki samt í augum manns á eftir..

Hér með sér maður sig alltaf þarna þegar manni er litið til norðurs... Hér með veit maður hvernig sýnin er þaðan, hve fallegir hamrarnir eru niður eftir brúninni, hve hrikaleg gilin koma hvert á fætur öðru... Hvernig suðurbrúnin er ekki svona klippt og skorin eins og sýnist frá borginni.

 

.

Myndefni þessa dags var gjöfult og gullið, draumur ljósmyndarans sem passaði að myndavélin frysi ekki eins og vanalega... hélt henni innan klæða og vel inni í lófum við allar tökur.

Örn og Hjörleifur með sjálfum sér og vetrarsólinni.

.

Enn eitt gilið sem klofnaði inn með suðurbrúninni og hægt var að gægjast niður eftir.

Skafrenningur fram af klettunum og freistandi að fara út að brún...

.

Hér sést niður að þjóðveg og að Blikdal Esjunnar.

Kerhólakambur þar hæsti tindur, þar sem við gengum tæpum þremur vikum fyrr.

Líklegast tekið úr Krummagili.

Komin á syðri toppinn, Háahnúk í 555 m hæð eftir 4:38 klst og 11,9 km.

Næsthæsti tindur Akrafjalls er austast á því, þar sem við gengum fyrr frá norðurhryggnum og þá niður á við. Hann er 572 m og ekki nefndur að ég fæ séð.

Útsýnið til borgarinnar og út á haf ólýsanlegt.

Skrifuðum í gestabók og stöldruðum aðeins við.

 

Hjörleifur, Jón Gunnar, Roar, Halldóra Á., Örn, Helga Björns og Gylfi Þór...

...flottir toppfarar sem prísuðu sig sæla að hafa komið því við að reima á sig gönguskóna þennan dag.

Niðurleiðin var greið og enn jafn falleg og áður.

Akranesbær úti við nes, hafið um allt og brúnir Akrafjalls síbreytilegar eftir því sem neðar dró.

Fljótlega fundum við hitabreytinguna, hvernig smám saman hlýnaði og lygndi eins og vanalega á fjallgöngu.

Leiðin var greið niður og utan í hlíð suðurhryggjarins.

Margir fallegir viðkomustaðir, m. a. Staupasteinn (vantar nafn á steininn sem skagaði þarna út úr hlíðinni eins og manngerður).

Hægt er að velja um leið ofan eftir hryggnum og svo niður hlíðina vestan með eða ganga slóða sem liggur neðar með Berjadalsá. Sá stígur gæti þó verið heldur háll að vetri til eins og þjálfarar sannreyndu í könnunarleiðangri nokkru fyrir þessa göngu.

Við gengum fyrrnefnda leið sem var góð en þó aðeins brött við stað sem mig minnir að heiti Reynisbrík (ath. síðar).

Þar þarf aðeins að klöngrast, en var lítið mál fyrir viðstadda sem allir hafa gengið vel í vetur og eru komnir með góða innistæðu í reynslubankann.

Sérstakt var að hitta fyrir eldri heimamann á síðasta kaflanum sem heitir Þorbergur? og var í fylgd tíkur sinnar sem hélt fullkominni ró yfir ókunnugum hópnum sem skyndilega birtist ofan af hryggnum.

Á Akrafjall ganga þau hvern dag ef til gefst og hafa gert lengi að hans sögn. Akurnesingur inn að beini, yfirleitt með tvo hunda en nýverið þurft að lóga öðrum. Haldið sig við afkvæmin af eigin tík og sagði mér að hann hefði áður fyrr fengist við þjálfun björgunarhunda. Merkilegur og aðdáunarverður maður (og hundur) á ferð.

Í lok ferðar voru Toppfarar alsælir í sólsetrinu. 13,9 km að baki, upp 584 m á 643 m háan tind á 5:32 klst... Gullin og ógleymanleg ferð á fjall sem skartaði sínu fegursta á dimmasta tíma ársins.

 

Fjallagarparnir sem heimsóttu Úlfarsfell

Gunnar 8 ára

Karen 8 ára

Ívan 7 ára

Einar 7 ára

Alexander 7 ára

Hilmir tæplega 3ja ára

Vonandi koma þessir dugnaðarforkar með okkur einhvern tímann aftur...

28. æfing var þriðjudaginn 18. desember með göngu á Úlfarsfellið vestan megin um Skógrækt Mosfellinga.

Hún var með jólaívafi og sérstaklega tileinkuð litlu fylgdarfólki toppfara þar sem þetta var síðasta æfingin fyrir jól.

Mættir voru átta fullorðnir að þjálfurum meðtöldum og sex börn í góðu færi, logni og hálfskýjuðu veðri, SV3 og 3°C sem var með ólíkindum gott miðað við hráslagann þessa dagana allt um kring.

Krakkarnir nutu sín til hins ítrasta við að ganga í skóginum með ljós í myrkrinu og gengu allir upp á Hábungu þar sem við fengum okkur kakó eða öl og smákökur.

Örn gaf krökkunum smartís frá jólasveininum á Úlfarsfelli og svo þustu þau niður á undan okkur án þess að blikna í rökkrinu og reyndu að villast en tókst kannski ekki alveg þar sem skógurinn er ekki mjög stór...

Snillingar dagsins hér komin upp á Hábungu Úlfarsfells í 284 m hæð skv gps: Talið að ofan: Alexander, Einar, Gunnar, Ívan, Karen og Hilmir.

Gengið var gegnum skóginn og svo til suðurs um hlíðarnar út úr skóginum og upp á Hábungu í austur þar sem voru vörður og gullfallegt útsýni yfir borg og byggð nágrennisins sem skartaði ekki bara borgarljósum heldur jólaljósum.

Þorleifur kom aðeins of seint með þá félaga Einar og Alexander  en Bára fór til baka á móti þeim til að leiða þá gegnum skóginn að hópnum.

Strákarnir létu það ekki á sig fá að hafa misst af hópnum og örkuðu ákveðnir á eftir ljósunum sem sáust ofar í hlíðinni en Ívan lét sig ekki muna um að vera fyrstur alla leið upp.

Jólasveinarnir á Úlfarsfelli 18. desember 2007:

Frá vinstri: Gylfi Þór, Soffía Rósa, Þorleifur, Karen, Einar, Gunnar, Ívan, Alexander, Helga, Jón Tryggvi, Alexander, Örn, Hilmir (og Bára tók mynd).

 

 

Hér drukkum við kakó eða annað jólalegt og nörtuðum í smákökur og smartís sem Örn deildi út til barnanna frá jólasveininum á Úlfarsfelli.

Aldrei þessu vant var nánast alveg logn uppi á Hábungu og lygnasta veðrið á Úlfarsfelli í sögu fjallgönguklúbbsins, rétt eins og á síðustu Esjuæfingum þar sem steinninn hefur verið "notalegur staður til að vera á" en ekki kuldalegur í hávaðaroki eins og vanalega á sumrin.

Að vissu leyti mótsögn við þá staðreynd að það var hávetur og dimmasti dagur ársins í nánd, en var þarna var nánast sumarveður eins og oft vill verða í desember og janúar.

Útivera sem þessi er því óskaplega kærkomin þegar myrkur grúfir yfir öllu og menn fara lítið út fyrir hússins dyr.
Skammdegið missir því að vissu leyti marks með svona útivist.

Krakkarnir voru fullir orku eftir nestistímann og stungu okkur fullorðna fólkið af á fyrstu metrunum niður Úlfarsfellið...

...þau voru fljót að aðlagast aðstæðum og voru sko ekki smeyk, sum jafnvel ekki með ljósin lengur á sér, því það er ótrúlega bjart á fjöllunum í kringum borgina í myrkrinu og gaman að leika sér úti í rökkrinu.

Gengið var niður nánast beint í vestur gegnum skóginn svo niðurleiðin varð mun styttri en uppleiðin, en ágætis ævintýri að klöngrast um hlíðarnar með krakkana skoppandi allt um kring.

 

"Jólasveinar einn og átta,

ofan koma af fjöllunum"

 

Jólasveinar toppfara í skóginum á leiðinni heim...

Við stefnum að því að hafa þessa jólaæfingu árlega hér með, síðasta þriðjudag fyrir jól og hvetjum alla toppfara til að mæta með börnin sín eða annað smáfólk á æfingar þó það sé vetur...

Þau geta þetta allt saman og skemmta sér mjög vel með mömmu og/eða pabba (eða afa/ömmu eða...) eins og þau sem hafa mætt hingað til sýna glögglega fram á. Það eina sem þarf er hlýr klæðnaður og góðir skór, ljós og...  tími... fyrst og fremst tími...

Þessi síðasta æfing fyrir jól og sú næstsíðasta á árinu 2007 varð 1:26 klst löng á 2,7 km upp 284 m með hækkun upp á 221 m.

Takk fyrir góða samveru þetta kvöld...

... bæði þau fullorðnu sem komu því við að leyfa smáfólkinu að koma með

... en ekki síst krakkarnir sem eru öðrum börnum til fyrirmyndar og sýna fram á að það er hægt að vera fjallagarpur allan ársins hring sama hvað maður er gamall...

 

Forsíða og inni í blaði Útiveru í desember 2007:

Forsíða Útiveru haustið 2007 prýðir mynd af Dr. Gunna sem var tekin í ferðinni okkar á Syðstu Súlu 6. október 2007.

Fleiri myndir úr þeirri ferð prýða umfjöllun blaðsins varðandi Botnssúlu-svæðið sem útivistarsvæði enda gullfallegur og magnaður fjallasalur eins og þeir kynntust sem þar gengu þennan dag.

Þjálfarar fengu fyrir hjartað af stolti þegar þeir sáu fólkið sitt á miðri göngu á síðum blaðsins og læt ég hér fylgja með hægra megin toppmyndina þennan dag... ógleymanleg ferð eins og alltaf...

 

27. æfing var þriðjudaginn 11. desember með göngu upp að steini á Esjunni og mættu níu manns þetta kvöld:

Jón Tryggvi, hádegisskokkari og fjallamaður á sína fyrstu fjallgönguæfingu með hópnum, Halldóra Á., Roar, Örn, Gylfi Þór, Alexander, Grétar Jón, Bára og Soffía sem vantar á mynd en hún kom rétt á eftir.

Veðrið var frábært og sannkölluð stund milli stríða/ óveðra í þessari viku; logn og léttskýjað-stjörnubjart, S2 og 3°C. Snjór var niður í hlíðar en autt til að byrja með og ágætis færi, en svo talsverð hálka þegar ofar dró svo fara þurfti mjög varlega.

Okkur var ekki sama á kaflanum utan í hlíðinni að steini enda duttu menn nokkrum sinnum án þess þó að meiðast eða rúlla niður. Niðurleiðin varð því lengri í tíma en uppleiðin því grjót og möl var hált og svell á slóðanum undir snjónum... ekkert sérstaklega þægilegt á einstiginu utan í hlíðinni á lniðurleið..

Tveir 3ja manna hópar höfðu farið á undan okkur upp þetta kvöld, Hjörleifur, toppfari og vinnufélagar og svo þrír ÍR-skokkarar og var bara notalegt í skammdeginu að hitta þessa félaga fyrir og ágætis tilbreyting frá því að vera ein í heiminum á þessum vetraræfingum.

Gengið var rösklega upp að áfanga fjögur við vaðið og héldu sjö áfram upp að steini en ein hafði snúið við fyrr og ein sneri við þarna vegna tímaskorts.

Heldur var þetta nú orðið hált þegar ofar dró og í hlíðinni leist okkur ekki nógu vel á blikuna og þurftum að fara mjög varlega.

Gylfi var að hita upp gamla fjallaskíðaskó og Bára skellti snarlega á sig mannbroddum sem Örn hafði munað eftir að taka með en hún ekki, rétt eins og hinir í hópnum sem söknuðu nú sárlega mannbroddanna niðri í bílunum...

Þetta var því fyrsta æfingin þar sem færið reynir verulega á hópinn (fyrir utan tindferðirnar) svo lexía dagsins var MANNBRODDAR Á ALLAR VETRARÆFINGAR HÉR MEÐ.

Ekki er ólíklegt að á þetta reyni meira nú síðari part vetrar og því ráð að allir komi sér upp mannbroddum hér með.

Þeir hafa víst verið uppseldir víðast hvar í bænum skv. Alexander sem fór á nokkra staði áður en hann fékk þá í Byko. Þeir ættu annars að fást í útivistar- og íþróttaverslunum, en þjálfarar hafa verið að prófa gaddaða gúmmímannbrodda frá Intersport og gormaða gúmmímannbrodda frá Afreksvörum, Síðumúla.

Báðir hafa reynst vel, og greinir lítið á milli þar sem kostir og gallar vega til móts við hvað annað. Gormarnir virðast halda betur þar sem snertiflöturinn er tryggari, en þeir eiga til að renna á algeru svelli. Naglarnir eru fyrirferðarminni og renna ekkert á svelli en geta átt auða snertifleti á fjallgöngu svo hver og einn þarf að finna hvað hentar.

Á einstiginu í hlíðinni upp að steini mættum við tveimur ÍR-inganna sem voru í sömu vandræðum og við í hálkunni enda eingöngu annar þeirra á negldum skóm, hinn eingöngu á strigaskóm... og höfðu þeir fengið lánað varaljós hjá Hjörleifi þar sem þeir urðu batteríislausir.

Hjörleif og félaga hittum við svo við steininn og sáum svo á eftir þeim niður brattari leiðina... vorum næstum því farin á eftir þeim þá leiðina þar sem einstigið var ekki spennandi í hálu svelli undir snjónum og sleipu grjóti meðfram... en afréðum að taka þó þá leið þar sem bröttu, sléttu kaflarnir neðar á hinni leiðinni voru meira fráhrindandi að mati þjálfara...

Sem fyrr segir lentum við í því sama á einstiginu með hlíðinni eins og ÍR-ingarnir sem við mættum á uppleiðinni... fljúgandi hálku undir snjónum með sleipu grjóti í bland enda flugu menn þarna þrisvar á jörðina þarna með tilheyrandi óþægindum við að fóta sig þess á milli...

 

Eitthvað gengum við svo of langt til vinstri inn dalinn að vaðinu, vorum kannski bara svona fegin að ganga í snjósköflum með góðu gripi því þarna var færið orðið viðráðanlegt þó hálka væri á stöku stað í neðri hlíðum. Það sem eftir leið niðurferðar vorum við ekki frá því að hálla væri orðið en á uppleiðinni með vaxandi kuldanum er leið á kvöldið.

Á endanum gaf þessi ganga í snjó og hálku, myrkri og stjörnuljósum, friði og ró fjallanna 2:37 klst æfingu, 6,6 km upp 597m eða hækkun um 587m og við bættist lexía um að taka alltaf mannbroddana með... færið breytist sauðvitað þegar ofar dregur fjalla rétt eins og veðrið...

Hjörleifur lét okkur vita daginn eftir að þeir félagar voru mun skjótar niður en aðrir þetta kvöld og þurftu að bíða eftir skokkurunum til að fá ljósinu skilað. Vanur maður í þeirra hópi leiddi þá vestar inn á Langahrygg og þaðan niður að stígamótunum við brúna og sneiddu þeir þannig framhjá brattaskriðunum... greinilega viturleg leið sem vert er að prófa næst þegar einstigið er svona svellhált...

 

26. æfing var þriðjudaginn 4. desember og mættu átta manns í ágætis veðri þrátt fyrir veðurspá eða hálfskýjuðu og vindi, A5 og 4°C.

Þar sem veður og færð var ágætt var ákveðið að ganga á alla þrjá hnúkana og niður suðaustan megin, en þá leið höfum við ekki farið áður. 

Gengið var í ágætis skjóli eftir slóðanum í norður þar til við týndum honum í klaka og snjó og óðamála blaðri, en snerum þá upp hlíðina og gengum að vindbelgnum á vesturhnúknum í 290 m hæð (285m) þar sem var hávaðarok.

Fastur liður eins og venjulega þetta rok þarna, alveg eins og upp á Þverfellshorni, en útsýnið alltaf jafn fallegt yfir borg og byggð.

Færðin varð fljótlega lítið eitt hál á köflum og var jafnan betra að ganga í mosa eða möl upp og niður brekkurnar, þó mölin væri reyndar einnig sleip á stundum.

Áfram var farið upp á stóra hnúk í 304 m  hæð (295m) þar sem myndin var tekin og var rokið síst minna og snjórinn meiri en á vesturhnúknum.

Niður af  stóra hnúk fórum við í suðaustur að litla hnúk í 260 m hæð en þaðan voru brattir klettar til suðurs og því farið niður hlíðina austan megin. Nokkrir Kerhólakambsfarar voru ekki mjög áfjáðir í að klöngrast í klettum svona í myrkrinu, eftir klifrið síðasta laugardag...

Mönnum var tíðrætt um laugardagsgönguna á Kerhólakamb síðasta laugardag og var gott að sjá Roar á æfingunni. Hann sagðist ekki hafa meiðst að ráði, marblettir væru vandfundnir eftir fallið niður klakafossinn og var hinn hressasti.

Á spjallinu til baka að bílunum niður brekkurnar var rætt um komandi æfingatind milli jóla og nýars og eftir nokkrar hugmynfir var afráðið að ganga á Akrafjall, líklegast föstudaginn 28. des. en endanleg dagsetning verður borin undir hópinn.

Gangan endaði á rúmum 4,2 km á 1:16 klst upp hnúkana þrjá á Úlfarsfelli í frískandi vindi og aðeins sleipu færi.

 

Æfing 25 var þriðjudaginn 27. nóvember á Esjuna upp að steini og mættu sex manns í besta gönguveðrinu á vetraræfingu til þessa; logni, hálfskýjuðu, A2 og +0,5°C.

Snjór var yfir öllu alla leið niður í fjallsrætur og afskaplega friðsælt í rökkrinu.

Gengið var fremur þétt upp hlíðarnar og staldrað við öðru hvoru til að halda hópinn þar sem við vorum bara sex saman.

Mikið var spjallað um uppruna viðstaddra á Suðurlandi og komu ýmis tengsl í ljós, Ísland er lítill heimur...

Þegar komið var að áfanga fjögur eftir um 56 mín göngu var ekki spurning að ganga áfram upp að steini.

Hamraveggirnir ofan okkur með stjörnubjartan himinn að hluta í bakgrunni og bláleitt myrkrið í dúnmjúkum snjónum alltumlykjandi voru bara notalegir í þessu logni...

Eins og þeir geta nú verið drungalegir í myrkrinu í drynjandi roki...  eða kuldalegir á sumarkveldi í nöprum vindinum...

Engin voru sporin eftir aðra en okkur í snjónum þetta kvöld en þó sást til rjúpu og þessi slóð kom í ljós þegar gengið var þvert eftir hlíðinni upp að steini...

Var þetta rjúpa eða mús eða refur eða...?

Hver átti erindi þarna efst í hlíðunum annar en við í nýföllnum snjónum...?

 

Komið var upp að steini í 597 m hæð eftir um 587 m hækkun skv gps og tíminn 1:38 klst.

Áfram sama veðurblíðan þarna uppi í logninu... besta veðrið sem við höfum fengið við steininn í marga mánuði...

Ekkert rak því á eftir okkur niður og við stöldruðum aðeins við í rólegheitunum.

 

 

Fimm toppfarar og einn upplýstur steinn...Soffía, Halldóra, Roar, Örn, Grétar Jón og Bára bak við myndavélina.

Kannski þótti honum þetta kærkomin heimsókn svona að vetri til þegar fáir líta við...

Hálf-jólaleg stemmning og afskaplega notalegt í ósnertum snjónum sem þó sporaðist út af okkur og gaf slóða til að fylgja hugsunarlaust eftir í algleymi bakaleiðarinnar.

Svipast var um eftir tunglinu en líklegast var það ennþá í hvarfi af Esjunni og svo kannski skýjunum en okkur fannst við sjá bjarmann frá því upp með hömrunum þegar leið á.

Borgarljósin af höfuðborginni og nágrannabyggðum voru fallega gyllt í fjarlægðinni frá Esjuhlíðum og eins mátti sjá að kveikt hafði verið á ljósunum í Bláfjöllum... ætli við komumst á skíði fyrir áramót?

Svona stað og stund er ekki hægt að lýsa... verður að vera á staðnum og upplifa...

Við lukum æfingunni á 2:31 klst og tækin sýndu 6,7 til 6,9 km í heild með brölti aðeins út af leið, með hækkun upp á 587 m upp 597 m.

HOBO - hitamælir Roars sýndi +0,5°C við Esjurætur í upphafi göngu, -1,7°C uppi á steini og svo +0,4°C niðri eftir gönguna.

Vonandi fáum við aftur svona veður og færð á Esjunni í vetur því hvað er flottara er myrkur - logn - snjór yfir öllu - stjörnur á himni - og tunglið að rísa ?

 

Æfing 24 var laugardaginn 24. nóvember á Litla og Stóra Meitil í Þrengslunum.

Mættir voru þrettán manns ásamt hundinum Bellu í gullfallegu vetrarveðri, heiðskíru, N4 og -2°C.

Tunglið skartaði sínu fegursta yfir Bláfjöllunum í vestri í upphafi æfingar og vildi seint sleppa hendinni af nóttinni.

Sólarroðinn gyllti á móti austurhimininn og lofaði okkur sólarupprás sem varð stuttu eftir að gengið var af stað þennan morgunn.

Lagt var af stað kl. 10:20 og var gengið upp með suðurhlíð Litla Meitils í norður.

Hæðin var 214 m í upphafi og var gangan nánast stöðugt á fótinn upp á minni meitilinn svo öllum hitnaði strax í morgunkulinu.

Tveir gamlir félagar frá því í sumar og ein ný drógust þó fljótlega aftur úr enda hópurinn orðinn anzi röskur til gangs og fylgdi Örn þeim sem á eftir komu.

Fljótlega fór þó svo að einn sneri við og tvær héldu áfram langleiðina upp á Litla Meitil en létu þar við sitja og sneru til baka eftir góðan göngutúr.

Óskaplega var samt gaman að fá þau og vonandi láta þau ekki deigan síga heldur koma reglulega með okkur svo á endanum verður þetta áreynslulaust alla leið eins og hjá þeim sem mætt hafa vel í vetur... það er galdurinn!

Útsýnið var óborganlegt og gyllingin af morgunsólinni í austri gaf hálfpartinn sumarlegan blæ til móts við bleikan vetrarblámann af tunglinu og himninum yfir snævi þöktum fjöllum í vestri.

Svona dagar á veturna eru engu líkir og heiðskírir dagar yfir háveturinn hafa þann sjarma að gera manni fært að upplifa sólarupprásina með lítilli fyrirhöfn... bara vakna aðeins fyrr í myrkrinu en samt á guðlegum tíma og leggja af stað í ljósaskiptunum... getur ekki verið auðveldara...

Útsýnið til suðvesturs að Bláfjöllum var ekkert síðra og mátti sjá glitta í tunglið þarna við fjallsbrún og svo mótaði fyrir Þrengslavegi vinstra megin ofan við miðju á mynd.

Færið var gott;  lítil hálka, snjórinn brakandi blautur eins og molnandi kex og grjótið tindrandi frosið en þó ekki nægilega til að vera fljúgandi hált.

Mosinn hálffrosinn en gaf eftir svona rennblautur eftir síðustu rigningardaga.

Gengið upp á Litla Meitil með Sandfell (295 m) og Geitafell (509 m) í baksýn. Gönguleiðir sem komnar eru á fjallalistann 2008...

Bleiki litur vetrarins vék smám saman fyrir gulum lit sólarinnar. Jörðin auð á láglendinu en snævi þakin ofar.

Sólarupprás var kl. 10:38 þennan morgun og er það fyrirbæri per se magnað þegar dagur tekur við af nóttu og maður er úti í óbyggðum... og fær það beint í æð svo hjartað slær í takt við stærra samhengi en í mannabyggð.

Gengið var austan með á uppleiðinni með útsýni yfir suðurlandið og Hellisheiði og var fjallasýnin óskert til austurs.

Hekla, Tindfjallajökull og Eyjafjallajökull blöstu við í bakgrunni, Ingólfsfjall og jafnvel Þríhyrningur sást þarna nær og svo mátti sjá mannabyggðirnar á láglendinu, Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn og svo ósar Ölfusár alla leið til sjávar.

Þjálfari var eitthvað utan við sig í gönguvímunni og tók því miður nánast engar myndir af útsýninu...

Sérstök veröld þarna í Þrengslunum og nauðsynlegt að ganga upp á hvern hól á þessu svæði til að kortleggja það í eigin huga og safna verðmætum í minningabankann og reynslubankann.

Hjörleifur ræddi um Raufarhólshelli í nágrenninu og bar fram þá hugmynd að skoða hann þegar ekki viðraði vel til fjallgangna einhvern daginn og er hugmyndin strax komin í vinnslu... Um er að ræða um 7 km djúpan helli, talsvert víðan og klöngur við yfirferð en þó vel fær hópi sem þessum. Mjög spennandi verkefni...

Fyrri hnúkur á Litla Meitli leyndi á sér eins og flest fjöll gera því það er ekki nóg að horfa á þessi fyrirbæri frá láglendinu til þess að vita nákvæmlega hve mikið bíður manns þegar maður leggur af stað...

Maður verður víst að spora sig sjálfur eftir hverju fjalli til að vita hvernig það bragðast iljum og kálfum á göngu...

Jón Ingi, Þorbjörg og Halldóra Þórarins hér á efstu klettabrúnum.

Litli Meitill mældist 270 - 275 m hár en er sagður vera 265 m hár og vorum við komin á hann eftir 1,6 km göngu á 42 mínútum.

Gengið var svo niður Litla Meitil austan með þar sem minnsti brattinn er, en smá  klöngur er þarna niður og tók þá við mosabreiða langleiðina að Stóra Meitli.

Samkvæmt vönduðum hitamæli Roars var hitastigið -3,8 °C uppi á Litla Meitli.

Farið var niður í 322 m hæð milli meitlanna sem þýddi 205 m hækkun framundan upp á Stóra Meitil en 3,2 km voru á milli tinda Litla og Stóra Meitils.

Hjörleifur, Helga og Halldóra með stærri meitilinn í baksýn í ca 376 m hæð eftir göngu um mosabreiðuna.

Hópurinn dreifðist nokkuð á göngunni og var þéttur öðru hvoru, en með kaldann mótvindinn í fangið var freistandi að ganga á sínum hraða og stoppa sem minnst...

Hér hækkaði hitastigið niður aftur á láglendinu upp í -2,6° skv. mæli Roars og sólin fór einnig hækkandi á lofti.

Áning var hér við rætur Stóra Meitils og hópurinn þéttur en erfitt var að staldra lengi við þar sem kuldinn var fljótur að bíta í alla svitadropa og storkna larfa.

Þó var þessi staður hinn vænsti fyrir pásu sem þessa með nokkuð skjól í suðurhlíðinni undan norðarvindinum.

Sumir fengu því langan nestistíma en aðrir stuttan sem er eitt helzta eðlisbundna óréttlætið í fjallgöngum... þeir sem ganga rólegast fá styztu pásurnar... en það er alltaf erfitt að samræma þetta í stórum hópi.

Lagt af stað upp bratta Stóra Meitils og gengið svo aflíðandi upp á toppinn.

Útsýnið var töfrandi af toppnum en þjálfari gleymdi að taka myndir... óskiljanlegt!

Lambafall og Bláfjöllin til austurs, Hengilsvæðið til norðurs og fjallasýnin í fjarlægð þaðan, Esjan og nágrannafjöll, Þingvallafjöllin...

Óskaplega fallegur var gígur Stóra Meitils sem er á milli 500 - 1000 m á göngu svona á að giska og bíður það verkefni eftir okkur næsta sumar, þegar Stóri Meitill verður genginn einn og sér eitt þriðjudagskvöldið.

Á toppi Stóra Meitils eftir 4,8 km göngu á 1:54 klst í 520 - 527 m hæð (514 m).

Þeir sem luku göngunni þennan dag:

Örn, Hjörleifur, Íris Ósk, Þorbjörg, Helga, Jón Ingi, Halldóra Ásgeirs, Roar og Halldóra Þórarins auk Báru ljósmyndara.

Óskar, Sigrún og Magnea koma með okkur næst og taka þetta fjall með trompi eftir nokkrar æfingar...

 

Hitamælir Roars sýndi -6°C þarna uppi, vindurinn var napur og við stöldruðum stutt við.

Fjallasýnin kristaltær í vetrarveðrinu og synd hve ljósmyndarinn tók lítið af myndum...

 

 

.

.

Lagt af stað suður og niður með meðvindinn í bakið og ólíkt notalegri göngu en upp í mót með vindinn í fangið. 

Landslagið varð sífellt hlýlegra með lækkandi landi og hækkandi sól og brátt var engan snjó að sjá, bara sígrænan mosann sem svo sannarlega vermdi augu og land.

Svarta gengið sem féll vel inn í umhverfið að koma niður í gilið vestan megin á Litla Meitli í vetrarsólinni.

 

Hópurinn vestan með á Litla Meitli með Stóra Meitil í baksýn og bleikan skýhnoðrann svona til skrauts.

Gengið niður gullfallegt gil vestan megin Litla Meitils.

Örn, Hjörleifur, Íris Ósk, Halldóra Ásgeirs, Þorbjörg og Halldóra Þórarins. 

Gengið suður og niður með ofan í dalinn við svokallaðan Hrafnaklett.

Þarna milli klettaveggja er sérstakt svæði með sand í botninum og margir möguleikar til gamans á góðum sumardegi...

Fjölbreytt var landslagið á síðari hluta göngunnar í hlýjum sólargeislunum

Áfram var gengið rösklega niður grýttar hlíðarnar og hitnaði mönnum mikið í hækkandi sólinni og skjólinu af norðarvindinum.

Dásemdarganga þarna í lokin með svartan bergvegg á vinstri hönd, snarbrattan, himinháan og nánast spegilsléttan.

Nefnist hann Votaberg þar sem sífellt seitlar vatn úr honum og voru klákaflákar á honum á víð og dreif þennan morgun.

Mannskepnan er ósköp lítil í nálægð hans og hann nýtur sín ekki nægilega frá þjóðveginum svo flestir missa af honum...

Það þarf að nálgast hann á göngu til að uppgötva mikilfengleikann.

Göngunni lauk um kl. 13:30 og voru tæpir 10,5 km að baki á 3:10 klst upp 475 m og 520 m með hækkun upp á 261og 207 m eða samtals 468 m.

Frábær æfing í gullnu vetrarveðri og góðum félagsskap.

Hver ganga sýnir manni ný fjöll til að sigra og opnar þannig fyrir okkur fleiri möguleikum og víðari veröld.

Þrengslin skarta nokkrum áfangastöðum fyrir þennan hóp og svo er það Raufarhólshellir sem spennandi væri að skoða með bráðsniðugu höfuðljósunum okkar...

Vonandi fáum við fleiri svona sólríka laugardaga í vetur... þeir jafnast ekki á við nokkuð annað...

 

23. æfing var þriðjudaginn 20. nóvember á Úlfarsfellið í afskaplega góðu gönguveðri.

Hálfskýjað var þetta kvöld og smá vindur, V6 og 3°C. Tunglsjós og stjörnubjart að hluta og lygnt í austurhlíðinni.

Mættir voru 14 fullorðnir ásamt Einari, 7 ára fjallagarpi nr. 1 og hundinum Bellu sem á mætingametið af hundum toppfara.

Fjórir voru í síðara lagi á æfinguna en Örn beið eftir fegðunum og sameinaðist svo mægðum sem komu einnig aðeins of seint. Gengið var því í tveimur hópum þetta kvöld.

Menn voru ákveðnir í að ganga lengri leiðina þar sem veður var gott svo þegar komið var upp á vestari hnúkinn sem er í ca 285 m hæð  var gengið eftir einum slóðanum í austur, en erfitt var að sjá hvaða slóði leiddi niður hlíðarnar til austurs.

Fljótlega sáum við bílljós í hlíðinni og sat þar þá fastur þessi jeppi í forinni og bílstjórinn hinn rólegast að bíða eftir aðstoð.

Hraustir toppfarar höfðu ætlað sér að ýta bílnum úr ógöngunum, en það var strax ljóst þegar nær dró að við vorum ekki að fara að bjarga neinum bíl úr þessum polli...

Gengið var með krókóttum bílslóðanum niður austurhlíðarnar, en í góðu færi eins og var í gær er í raun ekkert því til fyrirstöðu að sniðganga slóðana og ganga um mosann svo við skulum prófa það næst þegar færi er gott.

Íris ósk og Hrönn hér fremstar að halda uppi góðum gönguhraða... það var kraftur í hópnum þetta kvöld og gengið mjög rösklega allan tímann.

Mættir voru auk þjálfara, Alexander, Guðbrandur, Halldóra Ásgeirs, Þorbjörg, Hrönn, Helga, Íris Ósk, Rannveig, Þorleifur, Magnea, Sigrún, Roar, og Soffía auk Einars, 7 ára.

Komið var niður á malarveginn, Hafravatnsmegin eftir um 4,3 km göngu og þá var eftir rúmir þrír kílómetrar af göngu á jafnsléttu eftir veginum.

Þarna örkuðum við á spjallinu með fallega úfinn himininn fyrir ofan okkur og tunglið og stjörnurnar að kíkja öðru hvoru á þessar ljósaverur þarna í myrkrinu.

Öðru hvoru fór bíll framhjá en við vorum ekki furðulegri en það að annar hópur með höfuðljós var á Úlfarfsfellinu þetta sama kvöld og eins var hjólreiðahópur með ljós á ferð eftir sama vegi.

Einar Þorleifsson, 7 ára mætti á sína þriðju vetrargöngu með hópnum og kallast fjallagarpur nr. 1 hér með. Hann tekur þessar myrkraæfingar án þess að blikna og gefur okkur hinum afskaplega mikið með því að koma með.

Hann er sannur brautryðjandi og verður vonandi til þess að fleiri krakkar komi með okkur því hann er búinn að sýna það og sanna að það er sko hægt að ganga á fjöll í myrkri að vetri til þegar maður er nýorðinn sjö ára!

Við lukum við 7,4 km á 1:33 - 1:38 klst. upp 188 m í 285 m hæð og voru menn ánægðir með kröftuga æfingu nú þegar myrkrið skellur sífellt fyrr á og það verður æ dýrmætara að koma sér út í ferska göngutúr reglulega...

Í byrjun æfingar tilkynntu þjálfarar að fjallgönguklúbburinn mun stjórna Esjuljósagöngu á Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar laugardaginn 9. febrúar 2008. Þeir toppfarar sem sjá sér fært að vera með í þessu verkefni mæta nú á vetraræfingarnar, læra á Esjuna utan að í myrkri og öllum veðrum til að geta aðstoðað samborgara sína eftir slóðum Esjunnar í febrúar. Þriðjudagsæfingarnar verða hér með alltaf til skiptis á Esju og Úlfarsfell og við aflýsum innanbæjaræfingum sem áttu að vera í des og jan svo við höfum fimm Esjuæfingar fram að þessari ljósagöngu Vetrarhátíðarinnar. Nánar síðar í pósti varðandi tilhögun og þátttöku hvers og eins í þessum viðburði, en við förum yfir tilhögun á komandi Esjuæfingum. Athugið vel að öllum er fjálst að taka þátt eður ei og eins hvort þeir verða til aðstoðar öðrum eða ekki þennan dag.

 


22. æfing var þriðjudaginn 13. nóvember og mættu 11 manns með þjálfurum í frábæru veðri, logni og léttskýjuðu eða NV2 og 4°C, rigningarúða aðeins fyrri partinn en svo stjörnubjörtu á niðurleið...
Allir mættir voru með höfuðljós og var einstaklega gaman að ganga í þessu milda veðri og góða færi. Talsvert ólíkt Esjuæfingunni fyrir tveimur vikum í slabbi og regnvotum vindi, þó það hafi nú verið gaman.

Í upphafi göngunnar var rætt um magnaðan fyrirlestur Leifs Arnar á Cho Oyu deginum áður og svo skoðuðum við tvær tegundir af mannbroddum og velt vöngum yfir notagildi þeirra. Við skulum prófa þá vel í vetur og sjá hvað dugar best við ólíkar aðstæður vetrarins og eins prófa jöklabrodda ef svo ber undir og menn búa yfir slíkum búnaði.

Gengið var fremur rösklega af stað og haldið þétt áfram svo komið var að áfanga fjögur í 399 m hæð eftir rúma 41 mínútu sem telst anzi greitt og greinilegt að hópurinn er að þjálfast vel.

Uppi voru vangaveltur um að fara alla leið að steini og bauð bæði veður og færð sannarlega upp á það, en það var sko annað á dagskrá þetta kvöld...

Það bar nefnilega með sér óvæntan glaðning þegar Soffía Rósa bað um orðið og lét mörg fögur orð falla í garð fjallgönguklúbbsins og dró svo fram lystiveigar í tilefni þess að hún átti afmæli þennan dag.

Þarna stóðum við himinlifandi og sæl með súkkulaðihjúpuð jarðarber og appelsínurjómasúkkulaði í boði Soffíu og sannkallað fjallakampavín á formi Magic og Powerade sem saddi vel allan hópinn. Sunginn var afmælissöngurinn og var þetta örugglega ein óvenjulegasta afmælisveisla sem sögur fara af...

Fleiri  viðstaddir tóku undir falleg orð Soffíu og kunnum við henni og öllum bestu þakkir fyrir og minnum á að þessi klúbbur varð til og samanstendur af fólkinu sem hefur mætt, sýnt dug og þor, elju og staðfestu, þakklæti og áræðni svo ekkert er okkur ofviða þessa dagana, hvorki veður vond né vindar stífir, ekki myrkur né vetur... svo hver veit hvar þetta endar hjá okkur...

Hversu margir hafa staðið í miðjum hlíðum Esjunnar í kolniðamyrkri um hávetur og gætt sér á súkkulaði og jarðarberjum???

...varla að tíma að fara niður í veðurblíðunni, með borgina í þokumóðugri fjarlægð og skyndilega stjörnubjartan himininn yfir sér í allri sinni dýrð?

Við skákum allt og alla þessa dagana en sjálf okkur kannski fyrst og fremst, sem er auðvitað mikilvægast því það er það sem gefur lífinu gildi.

Þetta kvöld gladdi Soffía okkur ósegjanlega og gerði þetta að einni sérstökustu æfingunni í sögu fjallgönguklúbbsins sem verður sko alltaf í minnum höfð.

Tónninn er hér með sleginn fyrir frekari óvæntar uppákomur og notalegar veitingar í boði hvers sem verða vill...

Á niðurleiðinni tókum við skyndilega eftir stjörnubjörtum himninum fyrir ofan okkur svo staldrað var við og slökkt á ljósunum til að njóta augnabliksins.

Þegar niður var komið voru 4,9 km að baki á 1:26 klst í heildina sem telst afar gott þar sem innifalið var stutt afmælisveisla í fjallshlíðum og óvænt stjörnuskoðun.

Okkur var áfram starsýnt upp í himininn og stjörnufróðu konurnar, þær Sigríður og Soffía sýndu okkur Karlsvagninn, Pólarstjörnuna og... hvað hét það nú aftur...?

Sérstök og falleg æfing í frábærum félagsskap... takk fyrir Soffía og allir!


Í vímunni eftir svona dásamlega útiveru var spjallað um komandi göngur og hugað að færinu upp Kerhólakamb eftir bitra reynslu hálkunnar af Skarðsheiðinni og eins eru nokkrir áhugasamir um göngu FÍ á Skjaldbreiður næsta laugardag en veðurspá er góð. Þá  lofa þjálfarar mjög skemmtilegri göngu þar næsta laugardag, 24. nóv. á Stóra- og Litla Meitil sem laugardagsæfingu nóvembermánaðar svo það eru skemmtilegir tímar framundan í skammdeginu...

 

21. æfing var þriðjudaginn 6. nóvember og mættu átta manns í notalega göngu á Úlfarsfellið. Mættir voru Alexander, Soffía, Örn, Kristín Gunda, Hrönn, Roar, Halldóra Ásgeirs og Bára.

Allir nema einn höfðu því verið á Skarðsheiðinni síðasta laugardag og varð mönnum tíðrætt um þá göngu, auk þess sem  Örn sýndi myndir af göngunni í fartölvunni fyrir æfinguna.

Veðrið var gott, þó nokkur vindur en hlýtt og engin úrkoma; V9 og 7°C. Ljósaskipti voru við upphaf æfingar, en fljótlega var kveikt á höfuðljósum. Gengið var upp á topp í góðu færi, hvorki snjór né hálka og var æfingin 1:02 klst löng á 4,5 km vegalengd.

Við veitum því athygli hve mikið skyggni var á fellinu í lok æfingar, friðarsúlan sást vel og borgarljósin nutu sín sem aldrei fyrr ofan af toppnum. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig jólaljósin koma út eftir mánuð frá þessu sjónarhorni, því það er ákveðinn sjarmi yfir því að vera þarna í myrkrinu með borgina og byggðirnar í kring fyrir fótum sér. Úlfarsfellið leynir á sér hvað útsýni varðar og gefur okkur góðan göngutúr á milli lengri og erfiðari ganga.

 

20. æfing var þriðjudaginn 31. október og mættu tíu manns að meðtöldum þjálfurum og auk þess hann Einar, 7 ára. Hann var að koma í annað skipti og gaf ekkert eftir, gekk með okkur alla leið eins og alvöru fjallamaður.

Veðurspá var ekki góð þetta kvöld en úr rættist og varð SA9 og 6°C. Ágætis veður var á bílastæðinu og logn fyrsta hluta uppleiðar, en svo fór að blása á okkur og rigna hluta af leiðinni svo við rennblotnuðum.

Fljótlega hægðist um, við fundum hvernig veðrið breyttist og það hlýnaði, enda var hitastig á miðnætti nokkrum gráðum hærra en kl. 18:00 og enn kaldara var fyrr um daginn í snjókomunni. Skjótt skiptast veður á Íslandi, það er alveg ljóst!

Flestir voru með höfuðljós eða vasaljós meðferðis og var full þörf á því þegar líða tók á uppgönguna.

Færðin var ágæt, blautt á stígum, talsvert autt en drullusnjóbleyta á stöku stað og snjóskaflar aðeins þegar ofar dró.

Hópurinn skemmti sér konunglega á göngunni við aðrar aðstæður en vanalega og var létt yfir æfingunni þó hún væri með framandi blæ.

Ljósaskipti voru við upphaf göngunnar en fljótlega dimmdi yfir, sérstaklega með aukinni úrkomu og þoku og var ævintýralegt að nota ljósin við þessar aðstæður, með rökkrið allt umlykjandi og landslagið ókunnugt á kunnugum slóðum.

 

Þegar komið var að áfanga fjögur á lengri leiðinni voru tæpir 2,5 km að baki og hæðin 394 m.

Ekki voru þetta bestu aðstæður fyrir myndatökur og engan veginn hægt að sjá aðstæður á myndum... hvernig umhverfið varð aldrei alveg myrkvað, ekki einu sinni á snúningsstað við Mógilsá og Rauðhól, því þar sást upp í hlíðarnar einni og hálfri klukkustund eftir sólsetur og skyggði þokan meira á en myrkrið.

Eins var með niðurleiðina að borgarljósin brutust gegnum þokuna þegar neðar dró og lýsa greinilega upp umhverfið þrátt fyrir fjarlægðina.

Hópurinn beið á snúningsstað eftir Erni sem tafðist niðri og kom á eftir hópnum og biðum við svo eftir Þorleifi og Einari, en að lokum var gengið aðeins á móti þeim feðgum þar sem þokan þéttist hratt og niðurgangan var eftir.

Mynd: Fjallagarpar í húð og hár...

... þau Helga, Halldóra, Soffía, Roar, Jón Ingi, Hrönn, Gylfi, Örn, Einar og Þorleifur... á góðri stund uppi í Esjuhlíðum í þoku og myrkri en engum vandræðum... það var bara myndavélin sem átti bágt!

Þetta kvöld gekk Einar með Þorleifi, pabba sínum um 4,7 km í heild upp 380 metra á 1 klst og 42 mínútum... komið myrkur, vindur og rigning og þétt þokan þegar ofar dró... geri aðrir betur þegar þeir eru sjö ára...

Nú hefur hann kynnst Esjunni við aðrar aðstæður en að sumri til í sól og blíðu eins og flestir...

Vonandi kemur þessi fjallastrákur aftur með okkur og þetta afrek hans verði til þess að fleiri hraustir krakkar komi með okkur út að ganga... það er svo gaman að vera saman...

Holdvot að innan sem utan, en vel heit og afskaplega sæl gengum við niður Esjuhlíðarnar og sáum ekki eftir neinu...

Þetta var svo gaman að manni er alveg sama þó það verði blindbylur og kolniðamyrkur næst... við erum komin á bragðið með fjallgöngur að vetri til...

Æfingin tók 1:41 klst og var gengið 4,92 km upp í 394 m hæð með hækkun frá 10 metrum við upphafsstað um 384 metra. Hressileg æfing það í vetrarveðri en með fangið fullt af reynslu og fleiri tugi kílómetra í fótunum eftir fyrri æfingar.

Útsýnið upp Esjuna þetta kvöld leit svona út um hálf sex leytið, enn skyggni alla leið. Sólsetur var kl. 17:18 en verður 16:36 eftir tvær  vikur. Líklega nær myndavélin ekki Þverfellshorni á mynd eftir tvær vikur... þá mæta allir sem geta með ljósabúnað, ekki bráðnauðsynlegt en mun þægilegra en að vera háður öðrum um lýsingu.

Kannski verður náttúruleg lýsing það kvöld en ef ekki er það allt í lagi, því með svona æfingum lærir maður að hafa vald á aðstæðum í ólíkum veðrum.

Þar með hefur maður öðlast frelsi til þess að stjórnast ekki af veðri nema þegar öryggi er ógnað, en slík færni gefur forskot sem skiptir sköpum við að njóta árstíðar eins og vetrarins beint í æð...

Skorað er á alla að prófa þessar myrkraæfingar í vetur... þær svíkja ekki!

 

19. æfing var þriðjudaginn 23. október og mættu níu manns, þar af ein ný, í létta æfingu á Úlfarsfellið í ljósaskiptunum með léttskýjað í upphafi æfingar og rigningu í lok hennar eða S10 og 6°C.

Veðrið var með skásta móti þessar vikur slagviðra og úrhellis því við upphaf æfingar var þurrt og létt yfir. Síðustu kvöldsólargeislarnir lýstu vel upp himininn og tunglið fór fljótlega að gægjast austan megin upp úr skýjabólstrunum en sólsetur var kl. 17:42 þetta kvöld.

Það var því gott gönguveður enda lagt af stað í meðvindi og gengið niður í mótvindi þegar skrokkurinn er orðinn heitur og tekur ekki eftir hlýjum blæstrinum.

 

Þrjú fóru hratt af stað og skokkuðu leiðina upp vestari hnúkinn og niður slóða norðurhlíðarinnar, en hinir sex gengu í rólegheitum upp á hærri hnúkinn og nutu kvöldgöngunnar.

Þjálfari tók tvo hringi og var til viðmiðunar fyrir aðra 12:25 mín og 12:55 upp að fánanum í hvort skipti (1,5 km leið - 198 m hækkun), en hin tvö tóku þetta á 14 mín og gáfu ekkert eftir alla leið niður aftur.

Þjálfari fór niður austasta slóðann en hin tvö tóku slóða sem var vestar enda erfitt að átta sig á þessu með svæðið allt út úr ekið um norðurhlíðina og þjálfara allt of langt á undan til að leiðbeina...

Mikið var spjallað á uppleiðinni hjá hinum sex og gengið á hæsta punkt í ágætis göngugír.

Útsýni var fallegt til nágrannabyggða sem kveiktu á borgarljósum sínum og gáfu annan blæ en vanalega á göngunum með hverfandi kvöldsólargeislana og rísandi tunglið milli skýjanna.

Á niðurleiðinni skall á með þessum rokna slagviðri og dimmdi vel yfir þann kaflann.

Menn rennblotnuðu og skildu ekkert í þessu eftir blíðuna á undan, enda stytti svo aftur upp eins og ekkert hefði í skorist þegar komið var í bílana!

Ekki náðum við á friðarsúluna þetta kvöldið því æfingin var rösk og stutt í takt við aðstæður veðurs og hitastigs.

Æfingin tók í heildina 57:22 klst hjá gönguhópnum og náði þjálfari í skottið á þeim á öðrum hring eftir slóðunum svo allt var þetta nú í réttum takti.

Hækkun var upp á 273 m og hæðin á hæsta punkti 295 m fyrir göngumenn en 287 m fyrir hlauparana. Kílómetrarnir voru rúmir 4,4 á göngunni en hinir fóru frá 3,5 - 7,3 km.

Fín æfing í ljósaskiptunum og ágætis viðrun í erfiðri viku veðurfarslega séð, en það kom á óvart hve borgarljósin lýstu svæðið vel upp. Það verður því forvitnilegt að sjá hve mikið reynir á ljósabúnað við útiveru þetta nálægt borginni í samanburði við Esjuna.

Næsta æfing á Úlfarsfellinu verður í nóvember á vetrarbúnaðaræfingu með ljósabúnaði því sólsetur verður þá um kl. 17:55... mætum með höfuðljós eða vasaljós þeir sem vilja, en ATH! ekki þurfa allir þess nauðsynlega ef við höldum hópinn.

 

18. æfing var laugardaginn 20. október en þá var ætlunin að ganga 14 km leið um Hengilinn að Vörðuskeggja.

Veðurspá var ekki spennandi og spáð kröftugu roki og rigningu. Sú spá rættist því þennan morgun var rigning og rok, 14 m/s en einstaklega hlýtt eða 8°C.

Mættir þennan dag voru eingöngu fimm manns að meðtöldum þjálfurum og voru þessir fáu viðstaddur ákveðnir í að láta veðrið ekki stoppa sig, mættir með bros á vör og sjálfsagann í lagi.

Lagt var af stað frá skíðaskála Vals í 322 m hæð og gengið í meðvindi upp með Sleggjubeinsdal milli Húsmúla og Skarðsmýrarfjalls Sleggjubeinsskarði.

Veður var fremur notalegt þarna í upphafi og dulúðugt að ganga í þokunni og rigningunni um fjölbreytt og litríkt landslag hitasvæðisins allt um kring.

Í Sleggjubeinsskarði var tæpur km að baki og 5,5 km að Vörðuskeggja skv skilti á mynd hér til hægri og var stefnt að vestari slóðanum norður eftir. Mynd ekki í fókus í rokinu í skarðinu...

Erfitt var að sjá til næstu stiku fyrir þoku og ekki vorum við með gps-slóða til að leiða okkur áfram, en full þörf var á því við þessar aðstæður, löng leið og lítið skyggni.

Lítið var því hægt að styðja sig við minnisgreypta leiðina í huga þjálfara, þar sem ekki minnti mikið í umhverfinu á þá leið, nema jörðin beint undir fótum sem allajafna er ekki vinsælasta sjónarhornið sé gengið í blíðskaparveðri.

Fljótlega fór enda svo að ekki sást til næstu stiku og við villtumst af leið. Vissum ekki hvort til vinstri eða hægri skyldi fara með klettabjörgin fyrir framan okkur og stakk Gylfi þá upp á leitarlínu þar sem við dreifðum úr okkur og svipuðumst um eftir næstu stiku/vörðu.

Það virkaði vel og gekk hann stuttu síðar fram á svarta stiku en þar sem við höfðum gengið í humátt eftir bláum stikum, var ljóst að við höfðum þverað Innsta Dal og vorum komin á austari slóðann hans.

Það breytti engu í raun en við gættum þess þar með að reyna alltaf að sjá næstu stiku sem fyrst frá þeirri fyrri og voru þær nokkuð sjáanlegar auk þess sem slóðinn var nokkuð greinanlegur.

Þokan þéttist þó stöðugt og auka fór í vindinn með tilheyrandi óstöðugleika á fótum eins og í Botnssúlum nema hér lamdi rigningin okkur að utan líka svo ef ekki hefði verið fyrir hlýindin þennan dag hefði þetta ekki verið mennskt útiveður. Allir viðstaddir voru hins vegar eindregið tilbúnir til þess að gefa ekki eftir svo við gengum svona áfram áleiðis.

Þegar varla var lengur stætt og vindhviðurnar hvesstu sig sífellt meira við okkur, var afráðið að lengra færum við ekki þann daginn. Gengnir voru 3,3 km og annað eins framundan að Vörðuskeggja. Kannski hefðum við komist alla leið, en það var einhvern veginn ekki spennandi að skríða upp Skeggja holdvotur og fokinn og sjá kannski ekkert nema næsta stein til að grípa um, svo við settum Skeggja á frest í bili.

Þessi mynd var tekin á þessum tímapunkti, nokkurn veginn í fókus þó þjálfari þyrfti að leggjast á hnén til að halda sér kyrrum.

Heimleiðin var notaleg en núna þó meira í mótvindi og var þetta nú frekar suðaustanátt en sunnanátt fannst manni með hliðarslættinum.

Þjálfari fór eftir gps-leiðinni til baka en svo gengum við meira til vesturs en tækið vildi meina og fórum þar eftir eigin tilfinningu og landslagi en ekki voru þó allir með sömu tilfinningu fyrir staðsetningu og áttum.

Tæknin hafði víst réttar fyrir sér því þar með gengum við með Sleggju á Húsmúla niður gullfallegt Mógilið í stað þess að fara Sleggjubeinsdalinn niður að skála.

Þessi útúrdúr var samt ágæt viðbót við hressandi göngutúrinn í óborganlegu veðri þar sem Mógilið var lygilega fallegt þarna í þokumóðunni og skjólgott með lækkandi hæð.

Við rætur Húsmúla í botni Mógils var svo ákveðið að ganga eftir gps-tækinu sem vildi nú meina að við værum farin að fjarlægjast ískyggilega skálann í metrum talið og reyndist það rétt útlistun því fljótlega kom skálinn í ljós undan þykkri, hvítri  þokunni sem nú var meira af manna völdum virkjunarinnar en af náttúrunnar hendi.

Sæl og glöð, blaut að innan sem utan... með 7,0 km að baki á 1:58 klst upp í 632 m hæð með hækkun upp á 310 m... fengum við okkur smá nesti þarna á bílastæðinu og vorum afskaplega ánægð með þessa byrjun á helginni í hryssingslegu, nei hressandi veðri... maður sér aldrei eftir svona þvotti í boði náttúrunnar!

Gönguleiðir á Hengilinn eru óskaplega fallegar og eru margar leiðir í boði, bæði langar og stuttar með ýmsa upphafs- og endastaði.

Hellisheiðarvirkjun er í miklum framkvæmdum á svæðinu og hefur það gjörbreyzt á örfáum mánuðum og tekur sífelldurm breytingum enn.

Virkjunarmenn hafa gefið út nýtt göngukort á slóðinni
http://www.or.is/media/files/kort_hengill.pdf).og og er gestamóttakan opin alla daga vikunnar, þar sem hægt er að fá afhent kort og leiðbeiningar um svæðið.

Hengillinn verður aftur á dagskrá næsta sumar eða vor þegar birtu gefur fram eftir kveldi og er nauðsynlegt að ganga um þetta svæði í góðu skyggni og njóta hvers augnabliks.

 

17. æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 16. október og mættu 12 manns, þar af einn nýr + tveir ungir piltar, þeir Andri 5 ára og Garðar 8 ára.

Heiðskírt var þetta kvöld en svalt og talsverður vindur eða N6 og 2°C.

Þegar ofar dró var komið undir frostmark og var frost fljótlega í jörðu og klakabönd á lækjarsprænum Mógilsárinnar.

Hópmynd var auðvitað tekin í upphafi æfingar meðan birtu naut en sú birta var greinilega mjög gyllt...

Á mynd vantar tvær sem komu aðeins síðar á æfinguna, en ein þeirra var nokkrum mínútum of sein og náði hópnum fljótlega.

Farið var bæði rösklega upp á tímamælingu og gengið rólega eftir lyst hvers og eins en allir fóru upp að steini nema feðgarnir.

Þeir Andri og Garðar gengu með pabba sínum upp eftir hlíðunum og voru komnir til baka um kl. 18:48 svo þeir voru á göngu í tæpan einn og hálfan tíma sem telst afrek í þessum kulda fyrir unga menn.

Farin var brattari og styttri leiðin upp og sú lengri niður en sú síðarnefnda er mun viðráðanlegri leið, jafnvel þó frost sé í jörðu eins og þetta kvöld, þar sem leðjan er út um allt á styttri slóðanum og votar mýrar úti í kanti.

Þjálfari, Helga og Grétar Jón komu fyrst upp og svo týndust menn smám saman að steini þar sem hírst var í kuldastrekki en góðu tómi við spjall - alltaf svolítið sérstök og notaleg stund við steininn svona áður en manni fer að kólna!

Tímar upp að steini voru frá 40 - 59 mínútur sem er frábært því þar með fóru sumir mun hraðar upp en síðast þrátt fyrir mikinn mótvind og kulda.

Munið að þessi tímamæling er eingöngu fyrir hvern og einn einstakling til þess að taka púlsinn á sjálfum sér. Maður notar töluna til þess að kanna stöðu á eigin formi, setja sér jafnvel markmið og bera saman milli tímabila.

Samanburður milli einstaklingar er aldrei sanngjarn né hlutlaus, þar sem margir þættir hafa áhrif á getu hvers og eins. Maður ber því tímann sinn fyrst og fremst saman við eigin tíma og notar þá sem aðhald og til hvatningar.

Þegar síðustu menn voru í sjónmáli neðan við steininn fór fyrri hópurinn niður, en hin komu svo stuttu á eftir.

Farið var að skyggja á niðurleið og orðið nánast alveg myrkur í lok göngunnar um  kl. 19:13.

Æfingin var því í heild 1:39 - 1:46 klst með hækkun upp á 547 m upp 597 m að steini eins og vanalega.

Menn voru því hæstánægðir með frammistöðuna þetta kvöld í kulda og strekki en frískandi og fallegu veðri.

Útsýnið ofan af steini svíkur ekki og var Esjan böðuð kvöldroðageislum en eins og sést á myndum var hvítt yfir í efri hlíðum og anzi vetrarlegt.

Á niðurleið prófaði Hjörleifur að kveikja á höfuðljósi og var tónninn þar með sleginn fyrir þann búnað á Esjuæfingunum enda orðið anzi skuggsýnt þarna í restina.

Ákveðinn ævintýraljómi færist yfir við þessar aðstæður og hópurinn þéttist einn meir en áður þegar tekist er á við framandi en spennandi hluti saman eins og að ganga í myrkri á fjöllum...

Svona leit leiðin út í upphafi æfingar rétt fyrir kl. 17:30 - heiðskírt og gullnir kvöldsólargeislar en sólsetur var kl. 18:06.

Næsta æfing á Esjuna eftir tvær vikur verður því í myrkri að hluta með sólsetur um kl. 17:15, svo fyrir þá æfingu verða allir að vera búnir höfuðljósi og/eða vasaljósi.

Nú fer að reyna á staðfestu með mætingu og sífellt erfiðara verður að koma sér af stað þegar veður verða meira ögrandi.

Þröskuldurinn heima er aldrei hærri en þegar hráslagalegt er í veðri, en takið því sem áskorun og munið að ekkert bítur á líkama sem er á hreyfingu í góðum fatnaði...

... og maður sér aldrei eftir því að koma sér út úr húsi... í því felst ákveðin orkuhleðsla sem ekki fæst með inniveru og er sérstaklega mikilvægt að komast í slíka hleðslu yfir vetrartímann þegar við erum lítið úti við almennt.

Missum ekki af Esjunni í ljósaskiptum, rökkri, myrkri... kynnumst henni í öllum búningum og lærum á ólíkar aðstæður í leiðinni... þessi hópur hefur sýnt það og sannað að hann gefur ekki eftir og mætir í öllum veðrum... höldum því áfram í vetur!

 

16. æfing fjallgönguklúbbsins var þriðjudaginn 9. október en þá var létt og stutt ganga á Úlfarsfellið. Mættir voru níu manns og hann Einar, 6 ára í skýjuðu og svölu veðri, vindi og roki efst eða A5 og 7°C. Gengið var sunnan megin upp með bílaslóðanum en þessi leið bíður okkar í vetur við allar aðstæður og því ágætt að rölta þetta rólega eins og við gerðum þetta kvöld.

Nokkrir mættir höfðu gengið á Syðstu-Súlu síðasta laugardag og var mönnum svo tíðrætt um þá göngu eða annað tengt henni að það gleymdist nánast að ganga, það var svo gaman að spjalla...

Einar sem bráðum verður sjö ára gekk manna fyrstur upp og fór létt með það, enda farið þarna áður með fjölskyldu sinni og mundi sko alveg eftir þeirri leið. Gengið var upp á Stórahnúk og útsýnið skoðað í rokinu á toppnum, en sumir tóku varla eftir þessu hversdagslega roki, orðnir sjóaðir og ósnertanlegir...

Niðurleiðin var greið eftir austari bílslóða og þaðan svo stuttlega um Úlfarsfellsveginn að malarstæðinu, en þetta gerði rúma 1:08 klukkustunda rólega en frískandi æfingu upp 273 m á 295 m háan tind á rúmri 4,4 km langri leið í notalegu tómi með góðu fólki. Þessa leið fannst okkur að yrði greiðfarin í myrkri og öllum veðrum því hún er auðgreinanleg og passlega stutt í skammdeginu.

Þetta var fæðingardagur Johns Lennons og var kveikt á friðarsúlunni í Viðey síðar um kvöldið, svo þar með verður hún okkur kennileiti á vetraræfingunum fram í desember og vísar okkur kannski veginn...

Einar fremstur á mynd en hann stefnir að því að koma á Esjuna líka og er hjartanlega velkominn aftur!

 

TOPPFARAR Í HAUSTLITUM

15. æfing var þriðjudaginn 2. okbóber og mættu 15 manns að meðtöldum þjálfurum til að fara Esjuna á göngu eða tímatöku.

Þetta var fyrsta vetraræfing fjallgönguklúbbsins sem nú starfar undir umsjón þjálfara og er ekki lengur á vegum World Class.

Þjálfarar voru því afskaplega ánægðir að sjá toppfarana sína mæta galvaska þrátt fyrir allt og það í rigningu en mildu veðri; V5 og 7°C.

Auðvitað gefa menn ekkert eftir heldur takast á við veturinn með bros á vör og skó á fæti. Hér með mæta þeir á æfingar sem bíta á jaxlinn og gefa ekki eftir..!

Vetraræfingar frá október og út mars verða hér með göngur á Esjuna og Úlfarsfell kl. 17:30, óháð veðri og birtuskilyrðum og er þetta til tilraunar í vetur. Þeir sem vilja geta svo mætt í hádegisskokkið mán-mið-fös kl 12:00 frá Laugardalnum.

Við munum einnig ganga tvo laugardaga í mánuði, annan á mánaðarlegan tind og hinn á gott æfingafjall að morgni, svo allir ættu að geta haldið sér í gönguformi og ekki er verra að kynnast vetraraðstæðum eftir dásamlegt sumar.

Ætlunin á þessari fyrstu Esjugöngu vetrarins var að taka tímann á uppleiðinni hjá þeim sem vildu ganga eins rösklega og formið leyfði, en slík mæling er ágæt í þeim tilgangi að meta líkamlegt form til frekari átaka eins og Hvannadalshnúk og eins til að bera saman ástand milli tímabila.

Margir utanvegahlauparar, fjallamenn og aðrir íþróttamenn hafa það fyrir venju að mæla tímann sinn á Esjunni til að taka púlsinn á eigin þoli.

Til eru hópar sem eru með vikulegar æfingar á Esjunni yfir sumartímann gagngert til þess að fara eins hratt upp og hægt er, jafnvel í fleiri en einni ferð, en þar æfa menn gjarnan fjallamaraþon eins og Laugavegshlaupið eða önnur utanvegahlaup.

Að sama skapi eru margir mótfallnir þessum asa og tímatöku og líta á fjallgöngur sem upplifun andartaks og umhverfis og er það svo sannarlega gild afstaða, núið er besti tíminn!...enda sýnist sitt hverjum í þessu sem öðru.

Þannig voru því eingöngu sumir toppfarar mættir þennan þriðjudag til þess að njóta þess að ganga Esjuna í októberhaustlitunum en öðrum lék forvitni á að vita hve hratt þeir kæmust upp að steini...

Örn þjálfari tók tímann hjá þeim sem hraðar fóru og Bára gekk með þeim sem nutu þess að flýta sér ekki.

Farið var nokkuð geyst af stað og greiddist fljótt vel úr hópnum.

Eitthvað brást Erni bogalistin í þokunni við að leiða hópinn og taka tímann á fólki þegar það skilaði sér upp að steini...

... því svo fór að hann þvældist óvart í þokunni upp eftir Mógilsánni að Kistufelli með ekkert skyggni upp eftir grjótbrekkunni og kom svo til baka að steini á 51 mínútu eftir 6 km túr... svolítið svekktur... en heilum 2,7 kílómetrum ríkari en hinir þetta kvöld og situr uppi með góða ástæðu handa strákunum til að stríða sér endalaust á næstu æfingum...

Lærdómur svona skondinna atvika er jafn að gæðum og kátínan yfir þessu; þegar kennileiti sem maður er vanur að vinna út frá sjást ekki fyrir þoku er maður fljótur að villast!

Fyrsti maður upp að steini lengri leiðina meðfram Mógilsá og upp grjótbrekkuna, var því Grétar Jón og svo Hannes og loks Gylfi Þór en fyrsta konan var Herdís Dröfn og svo vantar þjálfara nánari tölur sem verður aflað síðar.

Hópurinn var því frá um 40 til 63 mínútum upp og verður gaman að fylgjast með árangri þeirra sem áfram vilja leggja þennan mælikvarða á sig.

Hluti af hópnum fór styttri leiðina upp sem reyndist anzi drullug og minnti okkur á að fara lengri leiðina í blautu veðri sem þessu og líklegast almennt yfir vetrartímann í frosti og hálku.

Niðurleiðin var tekin jafn fjölbreytt og uppleiðin eða allt frá því að hlaupa hana á rúmri 21 mín og dóla sér í spjalli og upplifun ljósaskiptanna á 54 mín.

Samtals 6,6 km æfing endaði því í 1:26 - 2:08 klst upp 547 m í 597 m hæð.

Rigning var í upphafi æfingar, milt, lygnt og hlýtt. Þokan grúfði yfir Esjunni til að byrja með, en lyfti sér svo á niðurleið og var orðið ágætis skyggni þegar leið á.

Haustlitirnir nutu sín vel og gaman að sjá hve mikið fjallið breytir um lit, enda fjölskrúðugt lífríki og gróðurbelti. Esjan er alvöru fjall og verðugt viðfangsefni!

Hér með verður alltaf tekin mynd á þessum stað upp eftir Esjunni annan hvern þriðjudag rétt fyrir 17:30 og verður gaman að sjá þróunina, mismunandi veður, ástand gróðursins... þangað til myrkvar...

Sólsetur í Reykjavík var kl. 18:55 þriðjudaginn 2. október og sólarupprás 7:38.

Fylgjumst með sólargangi hér með í vetur til að auka meðvitund í stærra samhengi um þau öfl sem stjórna því hvernig maður getur stundað útiveru allan ársins hring...

...hvenær ætli við hættum að geta mætt á æfingar vegna myrkurs eða öllu heldur munum við þurfa að gefa það eftir að ganga alla þriðjudaga vegna myrkurs og veðurs?

Vonandi ekki...

Næsta sumar skulum við kanna fleiri leiðir á Esjuna og verða vel kunnug öðrum leiðum, því af nógu er að taka.

Þangað til hittumst við hér annan hvern þriðjudag og lærum leiðina blindandi enda stundum eingöngu með höfuðljós (Örn segist ætla að vera með þokuljós), tunglið eða stjörnurnar til að lýsa okkur leið...

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Gallerí Heilsa ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)galleriheilsa.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir - sími +354-867-4000 - netfang: bara(hjá)toppfarar.is