Æfingar alla þriðjudaga frá júlí út september 2011
í öfugri tímaröð:

Esjan - tímamæling 27. september
Stóra Reykjafell 20. september
Háuhnúkar, Sandfellsklofi og Hellutindar 13. september
Þórnýjartindur 6. september
Grindaskörð 30. ágúst
Brekkukambur 23. ágúst
Reykjavíkurmaraþon 20. ágúst
Litla Sanddfell og Geitafell 16. ágúst
Giljatunguhnúkur 9. ágúst
Blákollur og Sauðadalahnúkar 2. ágúst
Kerhólakambur með Sæmundi 26. júlí í sumarfríi þjálfara
Eilífsdalur, Hábunga, Þverfellshorn með Hjölla 19. júlí  í sumarfríi þjálfara
Keilir 12. júlí í umsjón hópsins í sumarfríi þjálfara
Syðsta súla 5. júlí.
 

Frábærir tímar á Esjunni

Fjörutíu og einn Toppfari mætti á Esjuna þriðjudaginn 27. september og tók hraða göngu upp að steini í ótrúlega góðu veðri miðað við fyrr um daginn, sól og þurru en þoku skreið í efstu hlíðumefst.

Tvö náðu undir 40 mínútur, þó nokkrir náðu undir 50 mínútur, flestir voru undir 60 mínútum
og nokkrir undir eða rétt yfir
70 mínútum.

Við hvetjum alla til að taka hraðaæfingu upp Esjuna reglulega til að taka púlsinn á eigin formi en þetta hafa margir hlauparar og fjallgöngumenn gert í gegnum árin. Þétt ganga upp að steini án þess að stoppa eða taka pásu heldur halda út lafmóður alla leið, vera léttklæddur, jafnvel ekki með bakpoka, í léttum skóm, vel nærður og búinn að drekka vel á undan... er ein besta leiðin til að koma sér í gott fjallgöngu/hlaupaform ;-)

Mættir voru:

Alma, Anton, Auður, Ágúst, Ágústa, (Bára), Einar Rafn, Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gunnhildur, Gylfi, Helgi, Herdís, Hildur R., Hólmfríður, Hrafnkell, Jóhannes, Jón Atli, Jóna, Karín, Leifur, Lilja Bj., Lilja Sesselja, Ósk, Óskar Wild, Rannveig, Roar, Sigga Rósa, Sigga Sig, Soffía Jóna, Súsanna, Svala, Torfi, Valdís, Wilhelm, Þóra, Þórdís Og Örn... og Eyþór og Jakob gestir.

Til hamingju með flotta frammistöðu !
 

 

Bardaginn við "Stóra Reyk"

Þrettán upprennandi fjallamenn og 29 reyndari mættu á æfingu þriðjudaginn 20. september og réðust til uppgöngu á jarðneska ofurhetju sem ber nafn sitt af heitum reyk og því að vera stór... fjallið sem rís við skíðaskálann í Hveradölum á vinstri hönd þegar ekið er upp á Hellisheiðina... og heitir Stóra Reykjafell...

Gengið var með síkjum fjallsins sem varðist áhlaupinu með brennandi heitum lækjum og gutlandi uppsprettum...
en þessir fjallgöngumenn létu ekkert stöðva sig... enda í góðu formi og góðum skóm...

...og vel klæddir til að verjast blautri rigningunni sem fjallið sendi niður á árásarliðið á uppleiðinni...

Uppi í brekkunum opnuðust óbyggðir Stóra Reykjafells... á fjallatindum þar sem allt verður mögulegt...
...þar sem alls kyns verur,
rjúpur og kannski refir eiga heima...

Yngsti fjallgöngumaður kvöldsins var sonur Jóns Atla... hann Jóhann Ási, fjögurra ára...

Hann barðist við erni á leiðinni og var vopnaður trjágrein sem brotnaði í tvennt en breyttist þá í tvö ósigrandi vopn sem dugði vel á ránfuglinn þegar hann ætlaði að taka fólkið sem gekk á fjallinu til að fara með það í arnarhreiðrið handa ungunum sínum til að borða...

Á efsta tindi... þar sem allt verður yfirstíganlegt...
hlóðu göngumenn batteríin fyrir frekari
átök við Stóra Reyk sem var vopnaður fleiri tindum til að sigra..
Bardaginn var hvergi búinn...

Hinum megin fjallsins lengra inni í óbyggðunum...
risu búðir
geimvera sem voru búnir að bora holur ofan í jörðina með járnhólkum ofan á
og smíða stálrör á milli borganna til að ferðast á milli án þess að sjást...

Næsti tindur var brattari og grýttari en þeir fyrstu...

...en enginn gaf eftir og brekkan var sigruð með samfelldri árás leiðangursins...

Sigurvegarar Stóra Reyks:

Gunnar 10 ára hennar Rannveigu og Jakobs 10 ára, Ásta Katrín 9 ára vinkona Jóhönnu Fríðu, Arna 9 ára, Hlín 11 ára og Sæmundur 11 ára - öll þrjú systkinabörn Sæmundar, Ragnar 12 ára hennar Bryndísar, Viktor Breki 7 ára? hennar Valdísar og Gauta, Kristján Jarl að verða 8 ára hennar Óskar og Erika Eir 8 ára þeirra Elsu Ingu og Antons Péturs.
Fyrir framan standandi eru yngstu göngumennirnir, Hilmir 6 ára sonur þjálfara og Jóhann Ási 4ra ára sonur Jóns Atla.
Elstu göngumennirnir sitjandi fremst eru Breki 13 ára sonur Áslaugar og Jón 13 ára sonur Björgvins.

Föruneyti fjallaliðsins:

Efri: Anton, Súsanna, Wilhelm, Heimir, Óskar, Breki, Áslaug, Jón Atli og Jóhann Ási, Hildur R., Bryndís og Ragnar, 'Osk og Kristján jarl, Anton Pétur og Ágúst R.
Neðri: Hermann og Herdís, Sigga Sig og Þula, Jóhanna Fríða og Ásta Katrín, Sæmundur og Arna, Örn og Hilmir, Hlín og Sæmundur, Brynja og Ágústa, Jakob, Rannveig og Gunnar, Día, Jón og Björgvin með Kát, Erika Eir og Elsa Inga, Guðmundur Jón og Katrín, Gauti og ?nafn á hundi, Alexander og Arna, Valdís og Viktor Breki.

Þar af voru Arna og Rannveig að koma í fyrstu göngu sína með hópnum og Gauti, Jakob og Hermann gestir.

Nú var bara taglið eftir af Stóra Reyk .. að komast niður á jörðina aftur ofan af skepnu jarðarinnar...
sem spjó þoku um allt fjallið til að villa mönnum sýn... og hækkaði í gufukötlum sínum allt um kring...

Farið var um grjótþröskulda og mosagildrur...

Gegnum hamraskrímsli og framhjá klettatröllum...

... og niður steinagil þar sem verjast þurfti grjóthnullungum
sem Stóri Reykur kastaði niður brekkuna á leiðangursmenn... en hittu engan...

Þá brá Stóri Reykur á það ráð að læsa um föruneytið rökkri...
en hraði göngumanna var svo mikill að allir náðu í bílana áður en myrkrið skall á...

Í valinn var fallinn Stóri Reykur, alls 3,1 km langur eftir 1:45 - 1:47 klukkustunda orrustu í 527 metra hæð með 358 metra áhlaupi alls miðað við 334 m forskot...

Hvað má læra af yngstu göngumönnum kvöldsins?

*Þau voru útsjónarsöm að velja sér góða leið bæði upp og niður
 
*tóku eftir öllu hinu smáa í umhverfinu á leiðinni
*létu eitt skref í einu nægja sína þjáningu
 *lifðu í augnablikinu
*sáu möguleika, tækifæri og ævintýri á hverju strjái
 *nutu þess að staldra við, skoða sig um og borða nesti...
*en líka að stökkva af stað og taka brekkurnar með áhlaupi...

Þau geta meira en við ætlum þeim...
Þau hafa innbyggða löngun og færni til þess að takast á við ókunnar slóðir...
Af þeim má margt læra...
 

 

Gullið kvöld
á Háuhnúkum, Sandfellsklofa og Hellutindum


Ein af síðustu augnabliksmyndum kvöldsins... þegar sólin settist og tunglið tók við...

Þriðjudaginn 13. september mættu 50 manns á æfingu
og gengu eftir nyrðra tagli
Sveifluhálss við Kleifarvatn, um Háuhnúka, Sandfellsklofa og Hellutinda...

... og fengu aðeins þéttari og meira krefjandi göngu út úr kvöldinu en þjálfarar lögðu upp með... þar sem skraufþurr jarðvegurinn og lausar móbergsskriðurnar héldu mönnum vel við efnið allan tímann...


Esjan, Móskarðahnúkar, Skálafell og  Botnssúlur, vinstra megin fjær, nær eru Helgafell í Hafnarfirði og Húsfell og hægra megin fjær eru Hengillinn og Vífilsfell með Þríhnúka líklegast að stingast upp úr þarna lengst til hægri.

Veðrið var eins gott og það getur verið... heiðskírt, logn og hlýtt.


Vatnshlíðarhorn vinstra megin, Kleifarvatn fyrir miðju og Sveifluháls hægra megin.

Gengið var austan megin frá Vatnsskarði upp á Háuhnúka þar sem malarnámið er nú óðum að fjarlægja fjallið...


Sandfellsklofi framundan nær og Hellutindar sem fyrstu alvöru tindar Sveifluhálss fjær framundan.
Kleifarvatn vinstra megin og Fíflavallafjall, Grænadyngja og Trölladyngja hægra megin en dyngjurnar tvær eru alltaf auðþekkjanlegar sem tvö samhliða fjöll þar sem annað er strítulaga og hitt kúlulaga.

... og áleiðis yfir vatnsskarð og á Sandfellsklofa og Hellutinda sem rísa í norðvesturhorni Kleifarvatns...


Akrafjall, Hafnarfjall, Esjan og nær hægra megin eru Háuhnúkar sem við vorum búin að ganga á.

Styrmir, Charlotta, Jón Tryggvi, Lilja Bjarnþórs, Björgvin, Örn, Jóhannes, Gylfi Þór, Lilja Sesselja, Rikki, Þórdís, Þóra, Sylvía, Helgi Rafn og Wilhelm.



Lilja Sesselja, Ásta Bjarney, Anton, Elsa Þóris., Soffía Jóna, Þórdís, Jóhanna Karlotta, Ásta Henriks, Helgi Rafn, Jón, Valgerður, ?, Sigga Rósa, Rikki, Soffía Jóna, Þóra, Kjartan, Hildur Ríkharðs., Gerður Jens., Gunnhildur og Svala.

Sigga Rósa, Jóna, Steinunn, Svala og Súsanna
með
Háuhnúka í baksýn og fjær eru Esjan og Skálafell vinstra megin og Þríhnúkar líklega þarna hægra megin...

Mættir voru:

Alexander, Anton, Ágúst Örn, Ágústa, Ásta Bjarney, Ásta Henriks., Bára, Björgvin, Charlotta, Elsa Inga, Gerður Björns., Gerður Jens., Guðmundur Jón, Guðrún Helga, Gunnhildur, Gylfi Þór, Helga Bj., Helgi Rafns., Herdís, Hermann, Hildur Ríkharðs., Hjölli, Jóhanna Fríða, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Tryggvi, Jón, Jóna, Katrín Kj., Kjartan, Llja Bj., Lilja Sesselja, María Elíasar., Rikki, Sigga Rósa, Sigga Sig., Soffía Jóna, Steinunn, Styrmir, Svala, Sylvía, Valgerður, Vallý, Wilhelm, Þóra R., Þórdís, Örn... og Dimma og Kátur og Kolur og Þula og...?.. en Þula var illa upplögð og tók Herdísi og Siggu Sig með sér fyrr til baka á göngunni...

Þar af voru Charlotta, Hildur R., og Wilhelm að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum
og féllu afskaplega vel inn í hópinn ;-)


Háuhnúkar, Helgafell í Hafnarfirði, Húsfell, og fjær eru Skálafell vinstra megin, Hengillinn, Vífilsfell, Þríhnúkar og Vatnshlíðarhorn hægra megin.

Eftir Sandfellsklofa var gengið að hluta í hjólförum motorkrossara... sem var náttúrulega ekkert náttúrulegt... en kærkomin hvíld frá lausagrjóti og skríðandi móbergsklöppum sem flæktust heilmikið fyrir fótum vorum þetta kvöld eftir þurrk sumarsins...


Fífavallafjall, Grænadyngja og Trölladyngja hægra megin í fjarska.

Leiðin um þessi lágu fell er ansi falleg og fjölbreytt
og skiljanlegra afhverju þau fá virðuleg nöfn eins og -hnúkar og -tindar...

Hlíðarnar í Sandfellsklofa á leiðinni að Hellutindum sem rísa í fjarska vinstra megin...

Sólsetrið friðsælt og tandurhreint...

...með göngumenn vinstra megin á mynd í rökkrinu og Grænudyngju, Trölladyngju og Keili nær sólinni...

Síðasta klöngrið upp á nyrsta Hellutindinn þar sem snúið var við til baka...

Gullin stund á Hellutindum...

...hápunkti kvöldsins þar sem snúið var við á sama augnabliki og sólin settist...

Súsanna, Sylvía, Jóhanna Fríða, Jóhannes, Svala, Kjartan, Katrín Kjartans og Guðmundur Jón.

Icing on the cake...

Á þessum kletti var enginn minni maður og klöngraðist upp og niður...
á fegursta augnabliki kvöldsins þegar sólin rétti tunglinu keflið...

Tunglið...

Besti vinur okkar á veturna... lýsir upp landslagið betur og mildilegar en nokkur höfuðljós og borgarljós... því það lýsir upp landslagið allt um kring í kolniðamyrkri án þess að ýkja myrkrið utan marks... eins og manngerðu borgarljósin og höfuðljósin gera... einfaldlega af því að það nær öllu svæðinu í stærðarinnar umfangi sínu utan úr geimi...

Þetta mátti nú ekki vera of auðveld æfing... ;-)


Snæfellsnes, Akrafjall, Hafnarfjall, Skarðsheiði og Esjan með höfuðborgin glitrandi fagra í ljósaskiptunum.

Í bakaleiðinni var farið um austari hrygginn á Sandfellsklofa um sömu lausu og skraufþurru móbergsskriðurnar sem héldu athyglinni alla leið í bílana... og olli því að þetta reyndist hin hollasta æfing og aðeins erfiðari en sagt hafði verið til um ;-)


Hérna sést í Lönguhlíð austan við Vatnshlíðarhorn... einu fjöllin sem enn eru óklifin í klúbbnum á þessu svæði...
... með tunglið hægra megin í horninu...

Gullin æfing sem leyndi á sér

... upp á 9 km á 2:52-2:56 klst. upp í 268 m - 277 m - 372 m hæð með 402 m hækkun alls.

Mikið gott... auðvitað... að fá svona góða æfingu úr svona fallegu kvöldi ;-)
 

 

Blankalogn á Þórnýjartindi

Til hamingju með afmælið elsku Ágústa ;-)

Ein af lengstu og lygnustu æfingunum í sögu klúbbsins var tekin þriðjudaginn 6. september þegar 33 manns gengu á Þórnýjartind um Eilífsdal í algeru logni og hlýju veðri... með sólina lágt á lofti og svo sólsetri og loks rökkri og myrkri með stjörnubirtu og höfuðljósum síðustu kílómetrana...

Gengið var um bæinn og dalinn Eilífsdal...

...og upp norðausturhorn Þórnýjartinds sem rís brattur yfir bæði Miðdal og Eilífsdal
og er ótrúlega drjúgur...

Jóhanna Fríða, Nonni, Dóra og Áslaug ásamt Díu og Drífu með Eyrarfjall í baksýn...

Einhvern tíma skulum við fara upp Eyrarfjallið Eilífsdalsmegin...

Lilja Sesselja og Ágúst R. með sumarhúsabyggðina í Eilífsdal í baksýn
og lengra skríður
Reynivallaháls fram með Meðalfellið bak við Nónbungu sem stendur undir húsunum
og nær upp að
Skálatindi sem var síðasti tindur dagsins þegar hópurinn gekk
hringinn um Eilífsdal í einu besta veðri í sögu tindferða þann 12. mars 2011...

Árshátíðin þann 1. október í umræðunni ásamt öðru og alls kyns hugmyndir á lofti...

Kvöldsólin tók allt að gylla þegar leið á uppgönguna og sólarlagið fangaði sýn í vestri...

Ingi, Heiðrún, Hjölli og Gerður með Nónbungu í baksýn.

Útsýnið ofan úr hlíðum og af tindi Þórnýjartinds er magnað niður í Eilífsdal og Miðdal og út að Laxárvogi og Hvalfirði...

Eyrarfjall og Miðdalur í fjarska...

Örninn fékk myndavélina á uppleið þar sem sjónarhornið er mun betra niður í mót en upp í mót...

Síðustu metrarnir upp eru stórskemmtilegir á góðu klöngri í mosaslegnu grjóti
 og hvergi tæpt um að fara nema að vetrarlagi sé farið... og þá varla þá eins og reyndin varð í mars á þessu ári...

Farið var upp að brúnunum í vestri með útsýni niður í Miðdal þar sem sólin settist fyrir framan okkur í matarpásunni...

Síðustu menn að týnast inn...
Nónbunga hægra megin, Meðalfell, Reynivallaháls og Múlafjall...

Það hefði verið hægt að klöngrast niður vesturhlíðina á Þórnýjartindi í þessum mosaslegnum grjótskriðum sem hér sjást á mynd... með síðustu sólargeislana í fanginu... sem hefði passað vel við birtuskammt dagsins... en við ætluðum inn með Eilífsdal og niður um gilið hans Hjölla þar sem hann hefur gert þennan dal ógleymanlegan í huga Toppfara með mögnuðum göngum um hann í júlí síðustu árin... þó það þýddi mjög langa göngu og myrkur í lokin... því veðrið var gott og tilvalið að nýta gott form og gott veður til þess arna... áður en veturinn tekur harkalega við... eins og kuldinn og vindurinn minntu á daginn eftir, miðvikudaginn 7. september þegar manni fannst hálf óraunverulegt að hafa verið skoppandi í brakandi sumarveðri kvöldið á undan...

Sólsetrið bókstaflega iðaði með gullinn hnöttinn inni á milli skýjanna...
...
Akrafjallið í baksýn í mynni Miðdals...

Einn mesti gleðigjafi Toppfara átti afmæli þennan dag..
Ágústan sjálf sem blómstraði sem aldrei fyrr enda borin á gullstól á hópmyndinni...
Takk elsku Ágústa fyrir ómetanlegt framlag til þessa klúbbs hvað gleði, jákvæðni, ósérhlífni, styrk, samstöðu og umhyggju varðar ;-)

Steini Pé., Elsa Þóris., Björgvin, Jón Atli, Hjölli, Heirún, Jón., Valgerður, Kjartan, Ingi,
Ágústa- og  María Elíasar kíkir undir ;-)
Jóhann Pétur, Nonni, Guðmundur Jón, Dóra, Gerður jens., Áslaug, Katrín Kj., Lilja Sesselja, Örn, Ósk, Irma, Auður, Jóhanna Fríða, Arnar, Guðrún Helga, Gylfi Þór, Steinunn og Hanna en Bára tók mynd og Día og Drífa stóðu í stórræðum...

Eftir nesti á tindinum tók við grútt ganga inn eftir fjallgarðinum í rökkri og þokuslæðingi... klöngri um stórgrýti niður Hjöllagil... þrekgöngu meðfram ánni og yfir hana... með hoppi og skoppi um mýrar, grjót og graslendi niður um Eilífsdal... í myrkri og stjörnuljósum.. en lygilegu logni, friðsæld og hita... alla leið í bílana þar til þessi þrekæfing loksins tók enda eftir alls 10,7 km á 4:41-5:04 klst. upp í 818 m hæð með 691 m hækkun miðað við 114 m upphafshæð.

Dúndurflott kvöldganga

...sem gerist ekki mikið lengri né erfiðari en þetta í þessum klúbbi ;-)

Þetta var síðasta galna ævintýri sumarsins á þriðjudagskveldi...
... nú taka styttri og léttari göngur við með vaxandi myrkri, kulda, hálku...
...en þeim mun þakklátari útiveru þar sem daglegt lífið færist meira inn í hús...
 

 

 

Í slagviðri um Grindaskörð
... á afmælisdegi Þóru...


Einstaklega fallegar slóðir síðsumars...

Þriðjudaginn 30. ágúst mættu 35 manns á ausandi blauta æfingu og ætluðu sér að ganga á Stóra Bolla og Miðbolla við Grindaskörð. Þar sem sterk sunnanátt var í fangið með beljandi rigningu frá fyrsta skrefi... já, miklu verra veður en var í bænum... var afráðið efst í Kerlingarskarði að láta þar við sitja og eiga við Bollana síðar.

Æfingin endaði í enn verri vindi í baki en var í fangið... við vorum fegin að hafa ekki farið lengra inn í veðrið þarna uppi... þar sem hver maður skilaði sér í bílana rennandi blautur ... en þó ekki kaldur þar sem sunnanáttin var hlý... eftir heldur stutta en hressa æfingu...


Ótrúleg mæting þrátt fyrir veðrið...

Það kvikna sérkennilega sterkar tilfinningar hjá klúbbmeðlimum sem gengu í gegnum síðast vetur þegar orðið "búnaðaræfing" er nefnt á nafn... en það verður að játast að þetta var ein slík... þó "aldrei aftur" - yfirlýsingar hafi verið látnar falla í hita augnabliksins... náttúrulegur þvottur á sál, líkama og búnaði í tæpa tvo tíma í góðra vina hópi... hreinasta þolraun á búnaði sem engu heldur í svona veðri... nema sjógallinn gamli góði sem sást skína í gulan þarna einhvers staðar fremst...


Gleðin bregst aldrei í þessum hópi...

Mættir voru:
Alexander, Anna Sigga, Anton, Arnar, Ágúst R., Ágústa, Ásta Bjarney, Ástríður, Bára, Bryndís, Dóra, Einar Sig., Elsa Inga, Elsa Þóris, Gerður Bj., Gerður J., Guðrún Helga, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Atli, Jón Júlíus, Kjartan, Lilja Bj., Lilja Sesselja, Ósk, Rikki, Sigga Rósa, Sjoi, Soffía Jóna, Súsanna, Svala, Sylvía, Valdís, Þóra R. og Örn.

Afmælisbarn dagsins í fanginu á göngumönnum... þarna í þokunni einhvers staðar á hópmyndinni...
Þóra fékk afmælissönginn og hamingjuóskir úr öllum áttum... 
...hvað er betra en margfalt blautt knús í hífandi roki og rigningu...?

Til hamingju með daginn elsku Þóra og takk fyrir alla þína jákvæðu og björtu nærveru öllum stundum á fjöllum ;-)


Myndavélin þoldi veðrið engan veginn... og var hætt að sjá fyrir móðu þegar strákarnir báru afmælisbarnið á höndum sér...

Stórþvottur af náttúrunnar hendi
...upp á
6,0 km á 1:35 klst. upp í 488 m hæð með 296 m hækkun miðað við 233 m upphafshæð.
(Ath. Stóri Boli er um 462 m hár og Miðbollar allt upp í 524 m - rangar tölur voru á æfinga-upplýsingunum!).

 

Í kyrrlátri kvöldsól
á Brekkukambi

Mögnuð kvöldganga var farin á æfingu þriðjudaginn 23. ágúst
þegar gengið var um
Brekkukamb í Hvalfirði í brakandi hita, logni og sólsetri...

Farið var upp frá gömlum bækistöðvum Hvals þar sem Stefán Alfreðs starfaði nokkur sumur á síðustu öld...
og sagði hann okkur frá staðarháttum og lífinu í bröggunum í þá tíð á sinn einstaka frásagnarmáta...

Gengið var meðfram gljúfri Miðsandsár í grónum hlíðum á fallegri og litríkri leið...

Gönguleiðir á Brekkukamb eru margar...
Nokkrir ásar liggja niður úr kambinum og hægt að fara austar nær Þyrli eða vestar nær Ferstiklu
og léttilega hægt að gera sér langa dagsgöngu eingöngu á þessu fjalli...

Þetta kvöld var farið upp um Eystra Kambshorn á þægilegri grasi gróinni leið en hækkunin var þétt alla leið...

Smám saman risu fjalladrottningar Hvalfjarðar úr spegilsléttum sænum fyrir neðan okkur... í landslagi mótað af ísaldarjöklunum sem fyrr á okkar slóðum... fjöll, dalir og firðir sorfnir með tímanum niður í blágrýtisstaflana...

Hluti af Brekkukambi næst á mynd, Þyrill, Múlafjall og Þrándarstaðafjall en tvö síðustu eru á verkefnalista... fjær rísa svo Búrfell í Þingvallasveit, Botnssúlur og Hvalfell... Háasúla lengst til vinstri, Norðursúla og Vestursúla brúnni og Syðsta Súla lengst til hægri... Miðsúla í hvarfi af Vestursúlu.

Nestispásan var að hætti hússins... í klettaborginni efst á kambinum með jökla, fjöll og firði í fanginu... Þórisjökull og Langjökull farnir að láta sjá sig sakleysislegir í síðsumarsbúningnum og ekki ónýtari fjöll en Hlöðufell, Skjaldbreið og Ok...

Vel nærð fyrir tindinn var lagt á heiðina...

...sem breiddi úr sér ótrúlega langt á þessu víðfeðma fjalli
sem sannarlega er heill heimur út af fyrir sig eins og mörg önnur...

Þarna tók kvöldsólarlagið að gylla allt sem varð á vegi hennar
og við dáleiddumst út á brúnirnar í vestri þar sem tindurinn lét loksins á sér kræla...

Hópmyndin fékk að vera með að sinni og lét bleika liðið nú að sér kveða sem aldrei fyrr:
(Æj, afhverju tók ég ekki mynd af bleika liðinu...  ;-) )

Efri: Jóhannes, Ágúst Zeppelin ;-), Helgi Rafn, Gurra, Urosh, María S., Ásta Bjarney, Áslaug, Jón Atli, Anna Sigga, Guðmundur Jón, Katrín Kj., Jóhann Pétur, Einar Rafn, Thomas, Sylvía, Gunnar, Ingi, Örn, Ástríður, Nonni, Alma M., Torfi, Guðjón Pétur, Hermann, Einar Sig., Svanur, Elsa Inga, Lilja Bj., Jóna og Ósk.
Neðri: Simmi, Irma, Þórdís, Bryndís, Helga Bj., Valdís, Brynja, Gerður J., Auður, Ágústa, Sigga Rósa, Jóhanna Fríða, Soffía Jóna, Gylfi Þór, Lilja Sesselja og Stefán A., en Bára tók mynd.

... og Día, Kátur, Kolur og Skuggi létu öllum illum látum í góða veðrinu ;-)

Bleiku drottningarnar í hópnum sömdu meira að segja við regnbogann þetta kvöld...

Útsýnið var gullið allan hringinn um Hvalfjörðinn og við stöldruðum heillengi við...
...göngurnar lengjast eftir því sem veðrið er betra...

Reynivallaháls hinum megin fjarðar og norðurdalir Esjunnar fjær...
þar sem
Þórnýjartindur í Eilífsdal rís tilbúinn í slaginn eftir tvær vikur á þriðjudagsgöngu...

Akrafjallið sker sig alltaf úr... eins og annað af Skaganum ;-)

Síðsumarskvöldin á Íslandi eru litfögrust...

Hvalfell hér gullið af sakleysi með Botnssúlurnar svaka svalar við hliðina...

Ef menn gáfu sér tíma til að líta við í bakaleiðinni.. þá blasti þetta við... og breyttist stöðugt...

Bleikur var litur kvöldsins... það sem fjallkonur Toppfara geta ekki afrekað...

Það bókstaflega stafaði sólargeislum af Skarðsheiðinni í vestri...

Við svona dýrð skyldi maður sitja og horfa þar til sjónarspilinu er lokið...
en við vildum vera komin niður ásinn áður en myrkrið skylli á og héldum því til baka...

Það var þegar tekið að rökkva með síðustu bleikrósar-roðaslegnu sólargeislunum...

Ásinn í suðvestri milli Ferstiklu og Hvalstöðvarinar er tilvalinn niðurgöngustaður
á ávölum bungum sem eru grasi grónar og sandi slegnar...

Síðasta sýnin til vesturs áður en haldið var niður á við...

Þúfufjall vestan við Brekkukamb...

Þær vissu alveg hvað þær voru að gera... í stíl við himinn og jörð... þetta eru afrekskonur...

Ha... fara ásinn niður?... nei, það er allt of auðvelt... allt lungamjúkt í grasbölum og sandi... niður um fallegu hörðu klettana og litríku lausu grjótbrekkurnar... miklu hollara fyrir líkama en ekki síður sálina sem aldrei kemst yfir þröskuldinn nema hún taki skrefið...

Gullnir 8,0 km á 3:52-3:55 klst. upp í 657 m með 655 m hækkun...

Þetta gerist ekki bleikara... litríkara... kyrrlátara.. fegurra... ;-)
 

 

Til hamingju
með Reykjavíkurmaraþon!


Ágúst kemur í mark í sínu fyrsta maraþoni eftir aðdáunarverða einbeitni og þrautsegju við undirbúning og æfingar á eigin vegum mánuðum saman.

Til hamingju allir Toppfarar sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni laugardaginn 20. ágúst 2011 !

Þrír fóru heilt maraþon, Ágúst, Rósa og Örn, fjögur fóru hálft maraþon; Bára, Gunnar, Halldóra Gyða og Hermann og allavega fimm fóru tíu kílómetra; Ásta Bjarney, Elsa Þóris., Hjölli, Ketill, Þórdís... en líklega fleiri...?

Endilega sendið mér póst þið sem tókuð þátt en eruð ekki nefnd hér !
 

 

Glatt á hjöllum Geitafells


Geitafell í baksýn  - tekin ofan af Litla Sandfelli

Þriðjudaginn 16. ágúst mættu 32 Toppfarar á æfingu um Litla Sandell og Geitafell í Þrengslunum.


Litli Meitill og Skálafell á Hellisheiði

Veðrið var fallegt en svalt... fyrstu haustvindarnir blésu þó allt væri enn í blóma sumarsins...

Allt geislaði af fegurð í kvöldsólinni... jörð og himinn og allt þar á milli...

Efri frá vinstri: Gylfi Þór, Anna Sigga, Leifur, Sylvía, Elsa Þóris., Örn, Helgi Rafn, Guðrún Helga, Björgvin, HGuðmundur Jón, Thomas, Jón Atli, Hjölli, Ástríður, Ásta Bjarney, Uros, Hanna og Óli.
Neðri: Helga E. með Hrímu, Auður, Þórdís, Jóhanna Fríða, Katrín Kj., Soffía Jóna, Jóhann, Halldóra Gyða, Lilja Sesselja, Hermann, Stefán A. og Sigga Sig með Þulu sína ;-)
Bára tók mynd.

Þar af var Ástríður að fara í sína fyrstu göngu með hópnum og nokkrir nýliðar mætir sem rúlluðu þessu upp eins og öðru hingað til og eiga greinilega erindi í hópinn... líka nokkrir sjaldséðir hrafnar sem mættu eftir langt hlé og voru teknir opnum örmum og máttu ekkert vera að því að velta vegalengdum eða tímalengdum fyrir sér fyrir fölskvalausri göngugleðinni;-)


Litli og Stóri Meitill, Hengillinn og Skálafell á Hellisheiði ofl.

Ofan af Geitafelli var farið um hlíðarnar í austnorðaustri þar sem sólin skein síðasta klukkutímann sinn á lofti í gylltu skyggni með jökla og eldfjöll og aðra fjallakunningja Toppfara nær og fjær allt um kring...

Geislandi glöð æfing með kærum vinum á fjöllum....

 ...upp á alls 10,7 km á 3:26-3:31 klst. upp í 525 m hæð með 566 m hækkun alls miðað við 210 m upphafshæð.

Reykjavíkurmaraþon framundan um helgina og þangað stefna margir Toppfarar... sjáumst sem flest í markinu að loknu hlaupi... við hornið á Iðnó... ;-)... njótum dagsins og þess að vera með óháð tíma og formi...
 

 

Gyllt kvöld á Giljatungu

Fimmtugur Örninn og fljótur,

fimur er hann og skjótur.

Skeiðar hratt

Skundar bratt

yfir skelfilegar gjótur
(Helga Björnsdóttir)


Blákollur í baksýn

Á fimmtugsafmælisdegi Arnarins þriðjudaginn 9. ágúst gengu 27 Toppfarar á Giljatunguhnúk í Hafnardal.


Hróarstindar í baksýn og Giljatunga vinstra megin með hnúkinns sjálfan lengst til vinstri.

Veðrið var með fegursta móti, heiðskírt, hlýtt og fallegt...
en kvöldgolan í Hafnarfjalli kom í veg fyrir að allir köstuðu af sér bolum og langbuxum...

Yfir Gildalsá var farið við endurminningar af því þegar Ásta Henriks féll í hana þegar við gengum á á Hróarstinda janúardag nokkurn árið 2010... en hún var með öll föt til skiptanna aldrei þessu vant... alveg eins og Katrín Kjartans þegar lækurinn skellti henni í einu hendingskasti í bakaleiðinni þetta kvöld og hún var líka aldrei þessu vant með föt til skiptanna í bakpokanum...

Giljatunguhnúkur er ekki árennilegur frekar en margir aðrir kleifir tindar þegar á reynir...

Gengið upp Giljatungu með Gildal hægra megin, Hafnardal að baki og  hluta af Blákoll vinstra megin og Hafnarfjallsöxl hægra megin en öxlin sú er óðum að komast á dagskránna árið 2012...

Hópurinn þéttur áður en klöngrið skyldi hafist upp hvilftina...

Jú, þetta var ekkert mál þegar á reyndi... gæta þurfti að grjóthruni
en gott grip var alla leiðina þó stundum gæfu sig ansi stórir steinar sem minntu menn á hve varlega þarf að fara...

Uppi beið glitrandi kvöldsólin á tindinum þar sem klöngrast þurfti áfram gegnum síðustu klettahöftin
í stórfenglegu
útsýni um syðri fjallasal Hafnarfjalls...

Stórbrotin leið sem fangaði mann svoleiðis að allar áætlanir um hópmynd steingleymdust...

Suðurhnúkur og Gildalshnúkur í Hafnarfjalli... var maður þarna uppi...?

Við litum til Skessuhorns og veifuðum Siggu Sig., sem þar braut ísinn eftir slysið á Skessuhorni þann 28. mars 2009
í dyggri fylgd Heimis, Hildar Vals., Inga og Heiðrúnar.

Skásta ígildi hópmyndar kvöldsins náðist í nestistímanum í hlíðum hnúksins með sólina og Snæfellsjökul í seiliingarfjarlægð...

Mættir voru:

Anna Sigga, Áslaug, Bára, Björgvin, Björn, Einar Sig., Elsa Inga, Gerður Jens., Guðmundur Jón, Gunnar, Gylfi Þór, Helga Bj., Hermann, Hjölli, Inga Lilja, Hanna, Jóhanna fríða, Jóhanna Karlotta, Jóhannes, Jón Atli, Katrín Kj., Lilja Sesselja, María E., Ósk, Stefán A., Sæmundur og Örn... ásamt Dimmu, Díu, Feyki, Kát og Kol.

Örn dreifði konfektmolum í tilefni dagsins...

... og Inga Lilja Perúfari fær sér hér mola en hún var að koma í sína fystu göngu eftir ferðina til Suður-Ameríku í mars á þessu ári... eftir 3ja mánaða þyrnirósarsvefn sem við félagar hennar á fjöllum erum lifandis glöð með að hún sé vöknuð af... ;-)

Niður af hnúknum var farið um vesturhlíðarnar, langdregnar grjótskriður sem voru mosaslegnar á stöku stað svona til að ganga ekki endanlega af þolinmæðinni... og þarna misstum við sólina niður í dalnum en fengum lognið í staðinn...

Gildalsá skoppaði með okkur síðasta kaflann út með dalnum...

... upp skriðurnar um Hafnardal og út með Ölveri þar sem tunglið skreið undan Akrafjalli... og minnti í fyrsta sinn í kvöldgöngu á þessu síðsumri á þá staðreynd að sólin er tekin að lækka aftur á lofti og rökkrið óðum að taka við með kvöldinu...

Sólarlagið glitrandi fagurt eins og oft síðsumars og lofaði góðu framundan með Snæfellsjökli félaga sínum... 

Glæsileg kvöldganga
sem endaði á alls
9,3 km á 4:20 - 4:28 klst. upp í 692 m hæð með 635 m hækkun
miðað við
63 m upphafshæð.

Hjartansþakkir...
 fyrir kveðjur, knús, kossa og gjafir á afmælidaginn elsku vinir ;-)

 

Smalamennskustemmning
á Blákolli og Sauðadalahnúkum

Þjálfarar sneru aftur til leiks eftir sumarhlé þriðjudaginn 2. ágúst og var einstaklega gott að hitta félagana aftur.


Hengillinn í baksýn.

Þar sem veðrið var gott og sterkur hópur mættur á þessa fyrirhuguðu "mjög léttu æfingu"... sem var hugsuð sem stuttur hittingur áður en haldið yrði vestur á firði í fimm daga ferð morguninn eftir - en var aflýst vegna ónógrar mætingar... stóðust þjálfarar ekki mátið að gera meira úr kvöldinu á þessum árstíma og bættu Blákolli við með tilheyrandi viðbót í vegalengd og tímalengd... og menn létu sig hafa það... eins og alltaf... þó þrír nýir félagar væru mættir sem lofað hafði verið léttri göngu til að byrja með...


Vífilsfell vinstra megin á mynd.

Þetta var náttúrulega enginn Blákollur í líkingu við Blákollinn hennar Hönnu frá því í vetur... en sumarlegur var hann þó næðingur væri uppi í 528 m hæð með góðu útsýni til fjalla alla leið frá Reykjavík upp á Hellisheiði...


Stefán Alfreðs., Lilja K., Rósa og Kjartan.
Hengillinn í baksýn með Vörðuskeggja svipmikinn vinsta megin.

Æfintýri og afrek sumarsins í algleymi...

Alls fóru tólf Toppfarar 24 tinda í Glerárdal þann 9. júlí við sérlega erfiðar aðstæður... - www.24x24.is. Fjórir þeirra voru mættir á æfingu kvöldsins og skal tekið ofan fyrir svona afreksfólki... sem lét hvorki slæma veðurspá til að byrja með, úrtölur annarra, afboðanir félaganna, efasemdir um eigin getu né snjóþungt færi aftra sér frá einbeittum ásetningi um að takast á við þessa áskorun þeirra norðanmanna...

Ofan af Blákolli var haldið til heiða að Sauðunum sjálfum... sem rísa í framhaldi af Ólafsskarðshnúkum sem rísa í framhaldi af Bláfjallahrygg sem við gengum forðum daga í desember 2009 í slæmu veðri...

Við vorum orðin vel heit eftir mosahraunsklöngrið um heiðina fyrir stuttar og þéttar göngur upp Sauðadalahnúkana sjálfa...

Blákollur í baksýn fjær vinstra megin og Lambafell með Lambafellshnúk hægra megin í baksýn
með upplýstan ónefndan koll fyrir miðri mynd.

Hærri Sauðadalahnúkur rís sunnar og er heldur klettóttari en sá nyrðri... húsræfillinn sem einu sinni var milli hnúkana er nú fokinn eins og fleiri mannvirki á þessu svæði... svona breytist umhverfið kringum fjöllin okkar með árunum þó stundum finnist manni ekkert breytast...

Mættir voru:

Efri frá vinstri: Uroš Matović, Ósk, Hanna, Rósa, Örn, Stefán A., Sylvía, Guðrún helga, Arnar, Jón Atli, Guðmundur Jón, Björgvin, Lilja Sesselja, Áslaug og Día.
Neðri frá vinstri: Þula, Sigga Sig., Heimir, Katrín Kj., Elsa Þ., Anna Sigga, Soffía Jóna, Lilja Kr., Auður, Kjartan, Einar Sig., Valdís, Helga Bj., og Jóhanna Fríða. Á mynd vantar Alexander sem fór styttra og Bára tók mynd..

Þar af voru Uroš, Soffía Jóna og Jóhanna Fríða að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum en Uroš er frá Belgrad í Serbíu og starfar sem sjálfboðaliði fyrir Rauða krossinn á Íslandi í eitt ár... hann ætlar að ganga á íslensk fjöll með Toppförum og fær vonandi besta veðrið sem um getur í sögunni framundan ;-)

fundum við betri leið niður... ekki með grjóthruni eins og óhugnanlega vildi til haustið 2009... heldur um góðar skriður niður í skarðið og gegnum Jósepsdal og Sauðadali aftur í bílana og máttum við vera ánægð með 6,7 km á 3:00 - 3:13 klst. upp í 586 m með 697 m hækkun alls með öllu milli tinda.

Vonandi ekki of mikið meira en upphaflega var ætlunin fyrir nokkurn viðstaddan... ekki heldur nýliðana þrjá sem mættu í sínu mesta sakleysi og lærðu fyrstu lexíuna í klúbbnum... að þó lagt sé upp með ákveðið verkefni þá getur það breyst með veðrum og vindum í þessum hópi þar sem honum er ekkert ó-við-komandi ;-)

 


Kerhólakambur með Sæmundi 26. júlí 2011
þriðjudaginn 26. júlí 2011
Voru óheppin með veður svo nokkrir mættu og fóru áleiðis upp en sneru við vegna veðurs.
 

 


Eilífsdalur Hábunga Þverfellshorn Esjunni með Hjölla
þriðjudaginn 19. júlí 2011

Heppnaðist sérlega vel í góðu veðri og hópi - sjá allt á www.hjolli.com undir Toppfarar.
 

 

Keilir að uppástungu þjálfarar
þriðjudaginn 12. júlí  2011


Þrjú mættu og tóku góða göngu en þetta telst þátttökumet hvað fæð varðar ;-)
 

 

Sólarsamba á Syðsta Súlu
Loksins fengum við eina fullkomna kvöldgöngu...
...þar sem sól skein í heiði... mý suðaði í logni... og hitinn fór yfir 20 stig...

Miðnæturganga Toppfara í ár skákaði öllum kvöldgöngum ársins til þessa þriðjudaginn 5. júlí...
í veðurblíðu, logni, hita, sólskini, skyggni, útsýni og síðast en ekki síst.. léttklæðnaði...

Við lögðum af stað í brakandi blíðu kl. 18:01 léttklæddari en nokkru sinni á árinu...

... með tæra sýn á verkefni kvöldsins... Syðstu Súlu... hæsta tindinn í Botnssúlum... í tæplega 1100 m hæð...

Þingvellir og nágrenni glitraði af sumargleði...

Með í för voru flottar fjallkonur Toppfara...
Gerður, Hugrún, Hildur Vals., Ósk, Harpa, Þórdís og Sigga Rósa... o.fl.

Leiðin upp að súlunum var aflíðandi um sumarlendurnar...
 en lúmsk hækkun upp í rúma
700 m hæð að eiginlegum brekkum súlnanna...

Þetta var fullkomið kvöld fjallgöngumannsins...

Allt í takt... bæði hópurinn og landslagið..

Það var gengið rösklega... á milli þess sem vel var staldrað við...

Notið... á milli þess sem það var þotið...

Það er fyrst og fremst óslökkvandi göngugleði Toppfara sem kemur þeim á
ótrúlegustu fjöll á saklausu þriðjudagskveldi...
Ágústa, Einar, Ósk og Leifur...

Fremstu menn... sem og öftustu náðust á mynd... ;-)

Þóra og Þórdís með jafn flottar fjalladrottningar í baksýn... Skjaldbreið og Skriðu...
ásamt Hlöðufelli ofl. að kíkja allt í kring...

Fyrr en varði vorum við komin að hlíðinni þar sem Miðsúla fer skyndilega að fanga mann tignarleg og tindótt...

Við ætluðum á þá syðstu sem rís hryggjótt eftir suðurhluta fjallasalarins.. .

Og lögðum í hann austan megin upp grýtta gilbrekkuna...

... sem var ekkert mál eftir botnlaust klettabrölt gegnum þriðjudagana síðustu ár...

Útsýnið mergjað í óskertu skyggni til allra átta...

Við gættum þess að gleyma okkur ekki í bröltinu, staldra við og líta til allra átta...

Skjaldbreiður, Hlöðufell, Skriða, Klukkutindar, Tindaskagi og Skefilsfjöll ásamt Ármannsfelli að hluta...

Elsa Þóris, Anna Sigga og Helga Björns... einar af allra sterkustu göngumönnum Toppfara að strákunum meðtöldum...

Himininn jafn fagur og fjöllin...

Það var ekki hægt að hugsa sér meiri fegurð á fjöllum en þetta kvöld...

Leiðin enn vörðuð minnisvörðum harðneskjulegs vetrarins... sem við erum enn að jafna okkur á...

Aldraðir snjóskaflar og hlýjir klettarimar voru því kærkomnar hindranir í sólarblíðunni
í stað rjúkandi vinda og úrkomu...

Við nutum hvers augnabliks og máttum varla vera að því að halda áfram...

Sjá göngumenn á hryggnum í fjarska og svo nær...

Kálfstindar og félagar í baksýn...

Takið eftir skugganum af Tröllkerlingu, Tröllabarni og Tröllkarli vinstra megin við Hrafnabjörgin...
Já, tindana sem við hengiflugumst upp á í lok maí...

Það eru forréttindi að upplifa sólina fram á miðnætti á fjöllum...

Brátt birtist botnlaust útsýnið til vesturs...

Fremstu menn komnir á tindinn... og farnir að planka... hvað er eiginlega í gangi með þetta plank...?

Syðsta súla var steinrunnin af forundran yfir þessari vitleysu... sem hún hefur ekki upplifað áður frá göngumönnum í Botnssúlum gegnum áratugina...

Syðsta Súla er einn skemmtilegast fjallshryggur sem um getur á suðvesturhorni landsins...

Við sigruðum hana fyrst í október 2007 að vetri til í magnaðri göngu...

Einarplanka og allt tekið upp á myndavél eða síma... fyrir fésbókina og rekkordið...
við erum
hópsál út í gegn á Íslandi og látum hafa okkur út í allt saman... saman...

Hvað ætli norskir vinir hennar Hörpu segi...?

Það var dýrmætt að fá hana með okkur í göngu alla leið frá Noregi...
Harpa sem mætti í nánast hverja einustu göngu ásamt
2009 haustgenginu þarna um árið...
þegar það var alltaf sól og logn í fjallgöngunum... 
Takk! Harpa fyrir að koma
með þetta veður í anda liðinna tíma...

Anton og Örn með Vestursúlu í öllum sínum langa fjallshrygg í baksýn...

Þar sem við stóðum í nóvember í fyrra... í einni af nokkrum brakandi blíðviðrisgöngum á Botnssúlur í sögu klúbbsins...

Vinkonurnar Sigga Sig og Hildur Vals með Búrfell á Þingvöllum í baksýn... og hluta af Leggjarbrjótsleiðinni...
sem nokkrir Toppfarar gengu með Fjallagörpum um daginn í blíðviðri miklu...

Skálafell ofan þeirra með Móskarðahnúka og Esjuna hægra megin og Þingvallavatn og Hengilinn vinstra megin.

Útsýnið til vesturs niður í Hvalfjörð þar sem Akrafjallið bar af...  ;-)

Þarna á tindinum stóð Björgvin Bj. þegar við gengum nokkur á Syðstu Súlu í ágúst 2008 á svipaðri kvöldgöngu...
en þá vorum við mun færri og skyggni ekki alveg eins bjart þó kvöldið væri fullkomið...

Það er ekki sjálfgefið að fá annað eins gullið skyggni og veður á Botnssúlum og þetta kvöld...

Ingi klifraði upp á Miðsúlu á meðan við fórum á þá syðstu...
... og við veifuðum aldrei þessu vant raunverulega á milli tinda...

Sæla fjallgöngumannsins felst nákvæmlega í þessu augnabliki uppskerunnar...
að vera í formi til að standa í yfir þúsund metra hæð á einum tignarlegasta fjallstindi suðvesturlands
á þriðjudagskvöldi...

Herdís, Ósk, Leifur, Hildur Vals., Sigga Sig., María E., Helga Bj., og Guðmundur Jón.

Þetta átti hver einasti maður sem mætti þetta kvöld skilið eftir einarða ástundun og botnlausa ástríðu fyrir fjallgöngum...
í hvaða veðri sem er... allan ársins hring... síðustu mánuði og ár...

Anton, Ágústa, Gunnar, Elsa Þóris., Einar Sig., Þórdís, Bryndís, Hanna, Örn, Sigga Rósa, Hugrún, Roar og Leifur.
Hildur Vals., Auður, Herdís, Dimma, Anna Sigga, Sigga Sig., Guðmundur Jón, Gerður Jens., Katrín, Ósk, María E., Harpa, Þóra, Helga Bj., og Heiðrún.

Á mynd vantar Jóhannes og Lilju B. sem lögðu af stað á undan... ... og við náðum aldrei.... góð!
Ingi er með á mynd en bara þarna hinum megin á Miðsúlu...
og Bára tók mynd...

Niður var farið með brúninni að skarðinu...

Vinkonurnar Anna Sigga og María Elíasar með leið kvöldsins í baksýn...

Háasúla lengst til vinstri, Ok, Kvígindisfell, Þórisjökull og Skjaldbreið með Miðsúlu nær...

Kvöldsólin bakaði okkur og vermdi svo stuttbuxur og bolur voru einu klæðin hjá sumum allt kvöldið...

Snjóskaflarnir harðir og klakakenndir á köflum enda hafa þeir þrjóskast fram að þessu ólíkt hinum sem hafa hopað...
Vel færir og ágætis mýkt í staðinn fyrir lausagrjótið ofan á móbergsklöppunum...

Við ætlum á Háusúlu í október í ár... Miðsúla er þá ein eftir að komast í safnið... og á dagskrá árið 2012...

Fínasta leið niður... en hægt er að fara líka um miðja brekkuna þegar snjóa leysir...

Herdís þeirra Siggu Sig og Heimis var að koma aftur í göngu eftir langt hlé en hún var með í för þegar hópurinn gerði atlögu að Háusúlu í janúar 2009 og þurfti frá að hverfa í mesta vindi sem um getur í sögu Toppfara... já, Háasúla á enn metið... við rifjuðum upp stundirnar við nákvæmlega þetta skarð sem verður okkur ógleymanlegt um ókomna tíð... þar lágum við allur hópurinn eins og hráviði undan vindinum og biðum mínútum saman eftir því að hann lægði í nokkrar sekúndur ... svo við gætum smokrað okkur yfir skarðið... og fokið niður skaflana hinum megin í smá skjól...

Við fylgdumst með Inga fikra sig eftir skaflinum hinum megin á Miðsúlu...
og manni stóð alls ekki á sama...

Hann lenti í klaka og lækkaði sig niður skaflinn áður en hann þveraði hann út eftir þar sem Gunnar kom á móti honum...

Frá skarðinu var farið um Súlnasalinn til austurs og kvöldsólin gyllti allt í kring...

Herdís og Sigga Sig með fjallasalinn sunnan Langjökuls í baksýn...

Töfrar þessa kvölds voru óendanlegir...

Ha... er Hekla að fara að gjósa á næstu 1-2 klukkustundum...?

Þetta barst með síma til hópsins... og okkur datt í hug að bruna austur í miðnætursólinni til að sjá gosið í beinni... en þetta reyndust bara vera jarðhræringar... reyndar meiri en í langan tíma... en ekki eins miklar og vanalega sem undanfari Heklugoss... en það er aldrei að vita... hún er búin að vera í gosstöðu í nokkur ár... og það eru rúm 11 ár frá síðasta gosi... í samhengi þess að hún hefur gosið á ca 10 ára fresti síðan 1970...

Búrfell á Þingvöllum í kvöldsólargyllingunni...
við dóluðum okkur til baka eins og á leiðinni upp...
tímdum ekki heim...
eins og svo oft áður á svona fallegu kvöldi...

Miðnæturgöngunni lauk á miðnætti...

...eftir 5:36 - 6:02 klst. alls 13,4 km upp í 1.107 m hæð með 1.136 m hækkun alls miðað við 174 m upphafshæð...

Þjálfarar fara nú í sumarfrí í þrjár vikur... framundan eru 24 tindar um Glerárdal og þrjár spennandi göngur á þriðjudegi í boði klúbbmeðlima... auk fjölda annarra ævintýra á hverju strái... bara ef maður reimar á sig skóna og leggur af stað út í óbyggðirnar...

Ísland er ómótstæðilegt á sumardegi sem þessum... slíkt lætur maður ekki framhjá sér fara...
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / 588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir