Tindferð 80 - Rauðfeldsgjá - Botnsfjall - Stapafell Snæfellsnesi
laugardaginn 11. ágúst 2012


Úti að leika í Rauðfeldsgjá
um
Botnsfjall og yfir á Stapafell

Laugardaginn 11. ágúst viðraði með eindæmum illa fyrir fjallgöngur á suðvesturhlutalandsins... og tindferðin á Hlöðufell féll niður vegna þess... en tólf Toppfarar héldu sínu striki og fóru út að leika... alla leið út á yzta hluta Snæfellsness... þar sem rigningin lét ekki sjá sig nema í nokkrum dropum...

...og skríðandi þokan skreytti för á hreinum spunaslóðum um Rauðfeldsgjá, upp á Botnsfjall ofan gjárinnar og alla leið yfir á Stapafell sem er útvörður Snæfellsjökuls í suðvestri og klúbbmeðlimir hafa mænt löngunaraugum á í ferðum sínum á jökulinn gegnum árin.. og kom verulega á óvart sökum hrikaleik og ægifegurðar í hverju skrefi... þar sem farið var um kletta og björg sem ekki virtust af þessum heimi...

Ætlunin var að fara léttan og löðurmannlegan göngutúr um lág fjöll og saklaus... en leiðangurinn endaði í krefjandi brölti um illfæra gjá, brattar, botnlausar skriður og loks kyngimagnaða kletta sem slógu um sig með dulúðugri þokunni til að villa um fyrir föruneytinu sem hvergi gaf eftir fyrr en í fulla snarbratta hnefana rétt um 40 m neðan við efsta tind á göldróttu Stapafellinu...

Við byrjuðum á Rauðfeldsgjá... en hefðum átt að enda á henni... mikið vatn í öllum lækjum og ám eftir úrhelli dagana á undan... við tókum sérstaklega eftir þessu þegar við ókum út Snæfellsnesið og sáum fossa sem ekki hafa verið áður og aðra hvítfyssandi sem hafa ekki verið svona vatnsmiklir  áður... þ.e.a.s. ef það var þá skyggni upp í fjöll og brekkur því það var rigning og þoka í Reykjavík og nánast alla leiðina út á Snæfellsnestánna sjálfa... stytti ekki upp fyrr en stuttu áður en komið var að göngusvæði dagsins... veðurspáin rættist hvað þetta varðar... þetta var eini þurri staðurinn til að vera á...

Stapafellið vinkaði okkur á leið að gjánni... þarna upp ætluðum við í lok dags... þarna var enn skyggni á fjallinu öllu... hvílíkur fjallshryggur... hann leyndi sannarlega á sér hvað dulúð og hrikaleik varðaði...

Munninn á gjánni lofaði góðu...

Inni var dimmt og drungalegt...

... og við lögðum ótrauð inn í gjánna sem liggur tugi metra djúp inn með fyssandi flúðum sem fljótlega stöðvuðu för...

 


Rauðfeldar Þorkelssonar er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss en Bárður var föðurbróðir hans.  Eitt sinn, þegar Rauðfeldur og bróðir hans, Sölvi voru að leik með Helgu dóttur Bárðar, ýtti Rauðfeldur henni á ísjaka frá landi og hún barst til Grænlands.  Bárður varð óður af reiði, því hann taldi dóttur sína af.  Hann tók bræðurna undir hendur sér og fleygði Rauðfeldi í gjána, sem var nefnd eftir honum, og Sölva varpaði hann fyrir sjávarhamra austan Arnarstapa (Sölvahamar).

... í klöngri og vatnsflaumi sem okkur leist ekki á að slást við þar sem ganga dagsins var framundan með þoku or súld allt í kring og ekki fýsilegt að vera blautur frá upphafi á öllum vígstöðvum...

...svo við snerum við ansi svekkt og hálf hikandi eftir að Gylfi, Ingi og Örn mæltu ekki með frekar klöngri... ekki vön að snúa við fyrr en í fulla hnefana...

... en létum gleðina ekki á sjá og héldum út í dagsbirtuna aftur og biðum spennt eftir spuna dagsins...

...upp grjótskriðurnar sem renna sitt hvoru megin við gjánna... varðaðar klettum ofar...

... þetta voru alvöru skriður í hliðarhalla alla leið...

...og mun lengri en halda má úr fjarlægð þar sem við héldum vel áfram en virtumst harla komast upp á brúnirnar...

... agalega gott að komast aftur í gírinn og fá hitann og svitann almennilega í gang... ;-)

Ferðamennirnir fyrir neðan sem skoðuðu gjánna eins og við hristu bara hausinn yfir þessum skrítna hóp að þvælast þarna upp...

Uppi breyttist veðrið úr ljúfu og þurru logni í rigningarúða með þoku sem var ofar í fjöllunum og við fórum í regnjakkann... en ekkert varð samt úr rigningunni og við vorum komin úr aftur síðar...

Efst var smá klöngur upp kórónuna á Botnsfjalli...

... loksins eitthvað fútt í þessu... ;-)

Ætlunin var að rekja sig eftir brúnunum og ekkert endilega fara á efsta tind á Botnsfjalli sem er víðfeðmt og þjálfurum fannst heldur óspennandi tilhugsun í þoku og rigningu... því kortin sýndu tindinn lengst inni á heiðinni... en uppi var ágætis veður, ekki mikil þoka og þessi líka fallegi tindur þarna í seiliingarfjarlægð... ekki líkt okkur að fara framhjá tindinum eins og Katrín benti á... auðvitað fórum við upp á hann ;-)

... flottur gígur þar sem hraunið hefur runnið úr sunnan megin og litadýrðin fangaði okkur...

Lítið stoppað á tindinum sem var hæsti staður dagsins í 573 m heldur haldið rösklega niður að brúnum Botnsfjalls aftur
í þokunni sem læddist um mosaslegna kletta og möl...

Útsýnið niður Rauðfeldsgjánna kom og fór í þokuslæðingnum... 

... hrikalegt og göldrótt...

Stapafellið var næst á dagskrá... og við stefndum þangað eftir brúnunum með útsýni niður á strönd Breiðuvíkur...

Krökkt af berjum og Guðmundur sló öll með í berjatínslu á fullri fart ;-)

Stapafellið í allri sinni þoku-dýrð...

Berjamó á miðri niðurleið þar sem sumir runnu og duttu í mölinni en aðrir tóku bara lyngið niður... ;-)

Yfir hraunið var farið frá Botnsfjalli yfir á Stapafell...

Gullfalleg leið sem enn og aftur minnti mann á hve dásamlegt það er að ganga um jafnsléttu
en ekki bara upp og niður fjallsbrekkur...

Árnar mórauðar af hressilegum rigningar-leysingum frekar en jökulvatni?

Yfir þjóðveginn var arkað... veginn sem var ekinn grimmt af hverjum ferðamanninum á fætur öðrum á bílaleigubílunum yfir Jökulhálsinn... og við fundum til með þeim að sjá ekki jökulinn sem þarna gnæfir yfir allt... flottasta skraut sem gefst af náttúrunnar hendi... og við fengum heldur ekki notið frekar en þeir...

Fylgdumst meira að segja með einni fjölskyldunni ganga upp að klettunum og niður aftur meðan við borðuðum...

Leiðangursmenn voru tólf... Ísleifur, Sylvía, Ingi, Ásta H., Gylfi, Guðmundur, Heiðrún, Katrín, Örn, Ástríður og Ósk
en Bára tók mynd.... það eru forréttindi að fá að fara á fjöll með englum....

Eftir nesti og ákvörðun Heiðrúnar um að skella sér auðvitað með okkur þarna upp en ekki snúa við að bílnum á þessum tímapunkti
eins og hún ætlaði sér þegar liðið hafði á gönguna... var lagt af stað inn í töfrakletta Stapafells...

Þétt hækkun upp og við drógumst inn í þokuna...

... sem læstist um klettana sem ekki virtust af þessum heimi...

...kynjamyndir sem heilluðu okkur alveg úr skónum...

... og ekki voru plönturnar síðri sjarmur í þessu hallagrýti... ótrúleg seigla í íslenskum hálendisplöntum... steinbrjótur enda nafnið...

Skyldi vera göngufært framhjá þessum klettum... jú, fín leið þarna beint í gegn...

Þetta var spuni af hæsta gæðaflokki þar sem allt gekk vel um síbreytilega leið þar sem við tókum andann á lofti í hverju skrefi...

Eftir fyrsta klettahaftið tók hryggurinn við mosagróinn og greiðfær... magnað útsýni þarna niður beggja vegna en því miður fengum við bara þokuna í þetta sinn...

Aftur varð brattinn mikill og við klöngruðumst í hliðarhalla...

Undirlendi var gott, traustur mosinn og jarðvegurinn blautur, þéttur leir...

Á köflum þurfti að koma sér upp grjótrennur og klettarima...

... sem féll misvel í kramið hjá leiðangursmönnum enda þoka og lítið hægt að sjá hvað var neðan við okkur eða ofar...

... og við enduðum loks á hryggnum rétt fyrir neðan tindinn (er ekki hér á mynd heldur lengra inn eftir)... eftir að Örn og Ingi höfðu farið könnunarleiðangur ofar þar sem Örn lét loks segjast neðan við tindinn sjálfan... ekki fært fyrir alla í hópnum að sinni og við ákváðum að láta þetta nægja... í 488 m hæð og 300 m fjarlægð frá tindinum sjálfum... enda flestir búnir að láta vel á sig reyna í spunandi klöngrinu...

Flottur hópur sem hafði vit á að njóta hverrar mínútu við að kanna ókunnar slóðir í þoku og litlu skyggni...

Aftur niður gegnum þessar skemmtileguslóðir sem við þræddum okkur um á uppleið...  gekk betur en við áttum von á og við vorum ekki lengi að ná Ísleifi sem beðið hafði við þennan kafla...

Á stundum opnaðist útsýnið niður og við sáum út Snæfellsnesið niður á strönd að Lónsbjörgum... hvílíkt fegurð... landslagið var ekki af þessum heimi... hraunslegið kynjamynstur sem silfurgráar árnar þræddu... gegnum fallegasta græna mosa sem hægt er að hugsa sér...

Hliðarhallinn til baka í þokunni...

Skyndilega létti þokunni og skyggni opnaðist betur upp hrygginn þar sem við vorum fyrir stuttu...

Æj, afhverju sátum við ekki þarna lengur... þá hefðum við séð útsýnið og landlagið allt úr hásæti fjallsins...

Ægifagurt landslag Stapafells kom betur í ljós og við margsögðum að hingað yrðum við að koma aftur... í góðu skyggni og njóta jökulsins ofan okkar... eflaust með fjallsgöngum fegurstu hvað varðar sviðmikið landslag fjalls og útsýnis á sama tíma...

Ólýsanleg fegurð... hvert andartak breyttist í skríðandi þokunni og fegurðin var áþreifanleg...

Hryggurinn niður að neðsta klettabeltinu...

Stemmningin var þétt og notaleg... tólf manns á fjöllum er samsetning sem getur ekki brugðist...

Ísland er landið... óþrjótandi fegurð sem kemur manni alltaf jafn mikið á óvart sama hvað maður gengur mikið um hana...

Ekkert skrítið að sagan á Snæfellsnesi er svona hrikaleg... alveg í stíl við landslagið...

Bárðarsaga Snæfellsás er eitt af skrautmununum: http://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%A1r%C3%B0ur_Sn%C3%A6fells%C3%A1s

... en saga Axlarbjörns er öllu hrikalegri... sjá Vísindaveg Háskóla Íslands:
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=1987

Og góðar upplýsingar hér á vef Nordic Adventure Travel sem heldur úti frábærum upplýsingavef um alla mögulega staði/hluti á Íslandi:
http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_oxl_axlar_bjorn.htm :

Móðir hans drakk mannablóð
Undir lok 16. aldar var tekinn af lífi vegna glæpa sinna Björn Pétursson sem bjó á bænum Öxl á Snæfellsnesi eða Axlar-Björn eins og hann er betur þekktur. Björn var líflátinn fyrir fjölmörg morð sem hann framdi á nokkurra ára tímabili og er hann eini þekkti raðmorðingi Íslandssögunnar. Svavar Hávarðsson leit til baka og rifjaði upp sögu þessa djöfuls í mannsmynd sem lifað hefur með þjóðinni í rúm 400 ár.

Líf Björns var bundið ákvæðum frá upphafi. Hann var yngstur þriggja systkina og þegar Sigríður móðir hans bar hann undir belti þjáðist hún af óslökkvandi þorsta í mannablóð. Hún duldi þessa löngun sína lengi en gat svo ekki orða bundist og sagði hún því Pétri manni sínum hvers kyns var. Hjónaband þeirra var gott og lét Pétur flest eftir konu sinni. Það var einnig svo í þessu tilfelli og dró hann sér blóð úr fæti og gaf konu sinni. Drakk hún blóð bónda og minnkaði þá þorsti hennar nokkuð. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir hvað fylgdi á eftir blóðdrykkju Sigríðar. „Þegar þessari ílöngun var stillt barst konu þessari í drauma ýmis óhæfa sem ekki er á orði hafandi og gat hún þess við vinnukonu sína að hún væri hrædd um að barn það sem hún gengi með mundi verða frábrugðið í ýmsu öðrum mönnum og gott ef það yrði ekki einhver óskapaskepna.“ Ekkert bar þó á því í fyrstu að Björn væri nokkuð öðruvísi en önnur börn í sveitinni. Fyrstu árin dafnaði hann vel og þótti efnispiltur.

Morðingi í mótun.
Faðir Björns hafði verið vinnumaður hjá Ormi Þorleifssyni ríka á Knerri og var þeim vel til vina. Þessi tengsl urðu til þess að Ormur tók Björn í fóstur Þegar hann var á fimmta ári. Hart var í ári og ætlaði Ormur upphaflega að taka Magnús bróður Björns til að létta undir með fjölskyldunni en móðir þeirra bað Orm um að taka Björn vegna þess hversu óstýrlátur hann þótti. Björn fékk gott atlæti hjá Ormi ríka og tók fljótum þroska. Sagt er frá því að Björn vingaðist fljótlega við Guðmund son Orms sem og fjósamann á líkum aldri en bera tók á skapgerðarbrestum og sem unglingur þótti hann dulur og harðlyndur í skapi. Einhverju sinni stalst Björn til að leggjast til svefns á messutíma á móti vilja og vitund fóstra síns. Dreymdi hann þá að til hans kæmi ókunnugur maður og hélt hann á diski með niðurskornu kjöti sem hann bauð Birni. Björn þáði kjötbitana og þótti hver öðrum meira lostæti. Við nítjánda bita velgdi honum við og hætti við svo búið. Draummaður sagði nú Birni að daginn eftir skuli hann fara upp á fjallið Axlarhyrnu þar sem hann muni finna hlut sem hann skuli eiga og nota vel. Sagði hann jafnframt að það sem biði hans þar fylgdi sú náttúra að hann yrði nafnkunnur maður. Af þessum vonda draumi vaknaði Björn fullur lífsgleði og fýsti mjög að leita þess sem honum var vísað til.

Axlar-Björn
Á Axlarhyrnu fann Björn öxina sem hann síðar nýtti til að murka lífið úr fórnarlömbum sínum. Þar sem hann var aðeins unglingur gat hann ekki staðist þá freistingu að stæra sig af fundinum. Finnur hann sjómenn nýkomna að landi og reiðir öxina á loft og spyr þá með kuldahlátri „hver af ykkur vill nú eiga náttstað undir þessari?“ Einn skipsverja, gamall maður, sagði þá við félaga sína án þess að virða Björn viðlits að taka öxina af piltinum því þetta væri óhappaverkfæri. Þeim varð þó ekkert úr því verki enda hvarf Björn heim að Knerri. Skömmu síðar hvarf fjósamaðurinn á Knerri, vinur Björns, og fannst ekki þá né síðar þó að Björn hafi síðar viðurkennt að hafa drepið hann og dysjað í flórnum á Knerri.

Nokkrum árum seinna dó Ormur og Guðmundur sonur hans bjó eftir hann á Knerri. Guðmundur varð enn ríkari og valdameiri en Ormur hafði nokkru sinni verið og byggði Birni fósturbróður sínum Axlarland. Þar bjó hann síðan með Steinunni eiginkonu sinni. Bærinn var í alfaraleið og bæjarstæðið fallegt mót suðri. En Björn naut þess ekki því svo þunglega hvíldi á honum morðlostinn og illskan að hann sá ekki sólina í heiðskíru veðri. „Nú eru sólarlitlir dagar, bræður,“ er haft eftir honum þegar hann á páskadag gaf sig á tal við hóp manna sem stóðu úti og nutu veðursins.

Hvað Björn myrti marga árin sem hann bjó með konu sinni á Öxl er nokkuð á reiki. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að hann hafi viðurkennt átján morð fyrir Jóni lögmanni á Arnarstapa stuttu eftir að hann var handtekinn en aðrar heimildir segja morðin hafa verið færri. Aðrar heimildir gefa það í skyn að þau hafi verið mun fleiri.

Rennur blóð
Í Setbergsannál segir að upp hafi komist um morðverk Björns árið 1596 en lengi hafi verið vitað að ekki var allt með felldu á Öxl. Enginn gerði nokkuð í málinu vegna þess að Björn var undir verndarvæng fósturbróður síns Guðmundar á Knerri og því gat hann ótrauður drepið menn, konur og börn löngu eftir að grunur féll á hann. Til hans kom fátæk kona ásamt þremur börnum sínum og bað um húsaskjól. Þegar þau voru búin að koma sér fyrir lokkaði Björn til sín hvert barnið af öðru og drap. Konan náði að fela sig og gat sagt frá því sem gerðist. Í framhaldi af þessu voðaverki var Björn handtekinn og færður til saka. Björn viðurkenndi samkvæmt þessari heimild níu morð og að hann hefði grafið líkin í heygarði og fjósi. Þá staðreynd að mun fleiri bein fundust í Axlarlandi útskýrði hann með því að hann hefði fundið fjölmörg lík sem hann nennti ekki að segja frá eða færa til kirkju og því grafið þau sjálfur. Björn fullyrti að kona hans hefði aðstoðað hann við morðin með því að bregða um fórnarlömbin snæri eða rotað þau með sleggju. Stundum hefði hún líka notað það úrræði að kyrkja þau með hálsklútnum sínum.

Við þessa frásögn bæta aðrir miðaldaannálar. Því er oft haldið fram að um ránsmorð hafi verið að ræða og líkunum hafi Björn sökkt í Íglutjörn sem er rétt hjá bænum. Annálum ber ekki saman hvernig Björn náðist að lokum. Grunsamlega góð hestaeign hans og klæðnaður er ein ástæðan sem gefin er. Aðrar skýringar annálanna eru sögur af fólki sem slapp frá Birni eins og sú sem Setbergsannáll segir frá. Í Sjávarborgarannál 1389-1729 segir af systkinum sem gistu á Öxl. Björn drap stúlkuna en piltinum tókst að fela sig í ræsi á meðan Björn leitaði hans í morðæði sínu. Hann komst svo undan og sagði til morðingja systur sinnar. Í þjóðsögum segir svo frá þessu atviki að gömul kona hafi setið í baðstofunni og svæfði barn. Hún reyndi að vara þau systkini við yfirvofandi hættu með því að raula fyrir munni sér gamla vísu.
 
Gisti enginn hjá Gunnbirni
sem klæðin hefur góð.
Ekur hann þeim í Ígultjörn.
Rennur blóð
eftir slóð
og dilla ég þér jóð.


Til dauða dæmdur
Björn og Steinunn voru dæmd til dauða á Laugabrekkuþingi árið 1596. Lífláti Steinunnar var frestað vegna þess að hún var vanfær. Síðar var hún hýdd fyrir glæpi sína en eignaðist áður soninn Svein kallaður skotti. Hann erfði frá föður sínum illskuna og var dæmdur fyrir fjölda glæpa og hengdur í Rauðuskörðum 1648.

Dauði Axlar-Björns á Laugabrekkuþingi var í samræmi við hvernig hann lifði. Fyrst voru útlimir hans molaðir með trésleggju og tók það langan tíma. Þegar það var afstaðið var Björn hálshögginn og þar á eftir brytjaður niður og einstakir hlutar úr líkama hans festir upp á stengur, þar á meðal höfuðið. Áður en það var gert voru þó kynfærin skorin af líkinu og þeim hent í kjöltu Steinunnar konu hans sem horfði á aftöku bónda síns.

Axlar-Bjarnarætt
Eins og fyrr sagði var Sveinn sonur Bjarnar hengdur fyrir glæpi sína. Sonur Sveins, Gísli hrókur kallaður, fékk sömu örlög. En blundar morðæði Björns í öllum afkomendum hans? Samkvæmt talningu úr gagnagrunni Íslendingabókar eru kunnir afkomendur hans um það bil 20.000 núlifandi Íslendingar. Þeir sem vilja komast að því hvort blóð Björns rennur þeim í æðum geta farið inn á Íslendingabók og skráð „Björn Pétursson“ í reitinn fyrir nafn efst á skjánum og „um 1545“ í reitinn fyrir fæðingardag. Hvort lengra er haldið verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.

... með góðfúslegu leyfi frá http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_oxl_axlar_bjorn.htm

 ... og margir fleiri staðir á veraldarvefnum
http://is.wikipedia.org/wiki/Axlar-Bj%C3%B6rn
http://www.snerpa.is/net/thjod/axlarbj.htm
..þar sem lesa má um hrikalega sögu Björns...
...en við rifjum hana betur upp þegar við göngum á Axlarhyrnu sem rís ofan bæjarins Öxl sem Björn er kenndur við
...

Útsýnið frá Stapafellsbrúnum yfir hraunið frá jöklinum niður að strönd við Breiðuvík og Arnarstapa... með neðstu fjallsskriður Botnsfjalls á vinstri hönd og afleggjarann að Rauðfeldsgjá þarna í fjarska...

Í þokunni leynist Axlarhyrna sem við ætluðum líka á af því þetta virtist ekki svo langur göngutúr á planinu... en við geymdum hana þar sem tíminn var orðinn sex þegar komið var í bílana og mál að linni...

Síðasta klöngrið eftir um klettahjallann neðst...

Þess virði að fara þarna upp með fjölskylduna og ævintýragjörn börn sem myndu finna tröll og gersemar á hverju strái...

Galdraheimurinn...

Ásta og fleiri fengu mynd af sér við þessi tröll... - sjá útsýnið niður að suðurströnd Snæfellsjökuls...

Alvöru útsýni og bratti hér... hvað hefðum við þá upplifað ofar ef þokan hefði ekki verið...?

Ingi er einn af ólofthræddustu meðlimum Toppfara og gaf okkur flottustu mynd dagsins...

Vel gekk að þræða niður gegnum lausagrjót og skriður...

... enn og aftur tímdum við varla að kveðja...

... kletta sem eru ekki samir við þessi kynni...

... og niður var svo straujað alla leið að bílunum um gamla veginn þar sem Ingi og Heiðrún fengu far með ferðamönnum sem voru að koma niður af Jökulhálsinum þar sem þau ætluðu í bíó um kvöldið og tíminn var orðinn naumur... þau þegar búin að fresta bíóinu til tíu frá átta...

Skemmtilegur lokakafli á fjölbreyttum degi þar sem milt og hlýtt veður gældi við okkur... nánast alveg laus við rigninguna sem buldi á borg og bý á Snæfellsnesi nema rétt þarna við oddann á nesinu og tók við bílunum stuttu eftir að við keyrðum af stað heim... endurnærð eftir dásamlega endurfundi við besta fólk í heimi ;-)

Þversnið af göngunni - Botnsfjall hæst og Stapafellið hægra megin.


Beina línan yfir á Botnsfjall er vegna batterí-leysis sem ekki uppgötvaðist strax.

Alls 12,8 km á 7:42 klst. upp í 573 m hæð á Botnsfjalli og 488 m hæð á Stapafelli með alls hækkun upp á um 1.200 m miðað við 83 m upphafshæð.

Ekta íslensk útivera í sinni tærustu mynd þar sem fjölbreytni og dulúð var allsráðandi og glitrandi perlur leyndust á hverju strái sem toga mann aftur í aðra ferð þegar betra skyggni gefst á jökulinn sem án efa gæðir göngu á Stapafell einstökum töfrum ;-)

Allar myndir þjálfara úr ferðinni hér: https://picasaweb.google.com/Toppfarar/T81RauFeldsgjaBotnsfjallOgStapafell110812
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir