Tindur nr. 4 - Hekla 8. september 2007

 Heklan sú heita
há og fögur
hænd´okkur að sér
svört og mögur
hörkuðum upp
með harla sögur
hvísland´ um allt
við þokulögur
     Bára

Samtals 24 toppfarar og leiðsögumennirnir Guðjón og Jón Gauti, gengu á Heklu laugardaginn 8. september í frábæru veðri sem kom öllum á óvart sem endranær. Spáin var mild en þungskýjuð svo ekki var von á skyggni þennan dag, en þjálfurum til mikillar ánægju urðu afföll engin utan ein vegna veikinda. Staðfesta hópsins er því til staðar sem nauðsynleg er í fjallamennsku, því árangurslítið er að láta stjórnast of mikið af úrtölum veðurafla á landi sem Íslandi. Hist var við N1 bensínstöðina í Ártúnsbrekkunni og raðað í bíla, en einhverjir voru seinir fyrir svo síðustu menn voru ekki lagðir af stað fyrr en um átta leytið.

Þennan morgun vöknuðum við með blámaglætur á morgunhiminhvolfinu sem lyftu voninni strax upp yfir regnskýin, en þegar ekið var í rigningardropum á Selfossi og svo inn í blautt, lágskýjað Suðurlandið, var ljóst að hvorki skyggni né úrkomuleysi var sjálfsagt þennan dag... en við gættum þess þó að vera þakklát fyrir hlýindin og lognið..

Lokað var á Vegamótum við Landsveg svo samið var við staðarhaldara á Leirubakka um nokkra kaffibolla og var gott að geta staldrað þar aðeins við í ýmsum nauðsynlegum erindagjörðum, þó nokkuð skyggði á þá heimsókn ótuktarlegar skammirnar sem leiðsögumenn fengu fyrir of fáa kaffidrykkjumenn í hópnum.

Ekið var svo úr blómlegu sunnlensku sveitunum inn á hrjóstrugar strendur hálendisins að Dómadalsleið, en svo sérkennilegt sem það var, þá blasti Hekla nánast samstundis við undir bláum himni eftir að ekið var inn hálendisafleggjarann. Eftir akstur í mjög lágskýjuðu þokubleytuveðri var því engu líkara en hún hefði opnað hliðin að heimreið sinni, merktri henni með skiltinu og byði okkur velkomin með opinn faðminn í sól og blíðu...

Leiðsögumenn okkar þennan dag tóku upp í bíl sinn þýskan útvarpsstarfsmann, Wolf? að nafni, sem var á göngu eftir veginum á leiðinni á Heklu og var afskaplega feginn eftir á, þegar hann gerði sér grein fyrir því að hans hefðu beðið nokkuð margir kílómetrar af göngu um rótarlendur Heklu, áður en áætluð uppganga hans hefði hafist.

Við fengum því óvæntan gest í gönguna sem er eitt af því sem er svo skemmtilegt við að ganga í óbyggðum, að rekast á og kynnast karakterum sem ferðast einir síns liðs og gefa manni nýja innsýn við stutt en oft innihaldsrík viðkynni.

Þetta var maður sem var með fyrirhafnarmikinn upptökubúnað meðferðis við gagnasöfnun fyrir útvarpsþætti sína um jökla og eldfjöll víðs vegar um heiminn og var Ísland eitt margra framandi áfangastaða hans. Hann var augljóslega öllu vanur og ýmsu kunnugur og hafði gert tilraun til þess að ganga upp deginum áður, en orðið frá að hverfa vegna veðurs.

Góða veðrið sem skyndilega blasti við okkur þennan dag eins og vin í eyðimörk rigningarinnar, vildi hann þakka þá lukkulegu tilviljun að við hefðum tekið hann upp í leiðangurinn og er svo sem aldrei að vita hvaða karmísku áhrif þarna voru á ferð, nema þjálfarar vilja meina að það hafi verið ásetningur hópsins sem hafi unnið sér inn þetta veður, eftir blautan veðurslaginn vikuna á undan og á veðurkortunum fyrir þessa helgi...

Lagt var af stað um kl. 10:30 og gengið um brakandi Heklugjóskuna með bráðnandi snjóskaflana þar undir sem mynduðu hólótt landslagið til að byrja með, en Jón Gauti útskýrði fyrir okkur að þarna nær snjórinn ekki mikið að bráðna undan heitri sólinni þar sem einangrun gjóskunnar væri mikil í þetta miklu magni, andstætt bráðnun við sólargeisla á stöku hraunsteina í snjónum.

Við skoðuðum einn lítinn svelg á leiðinni, en hann orsakast af leysingavatni sem rennur eftir jökli, leitar í sprungur eða holur í ísnum svo með tímanum myndast svelgur eins og þessi saklausi sem við gengum fram á. Þess ber að geta að listamaðurinn, Ólafur Elíasson er með sýningu í BNA þessa dagana á ljósmyndum af svelgum á Vatnajökli, sem hann tók við krefjandi aðstæður og mátti lesa um þetta í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu mánaðarmót.

Gengið var nokkuð greitt eftir lendum Heklu og liðaðist hópurinn talsvert í sundur því það eru orðin mörg hörkutólin í hópnum, en að sama skapi yngri meðlimir sem enn hafa ekki safnað eins mörgum kílómetrum í fæturna, þó ekki skorti viljann.

Hópurinn náðist þó saman á mynd við gamlan gígbarm fyrir miðju á norðuröxlinni og þarna mættum við erlendum ferðamönnum undir leiðsögn Íslendings sem kvörtuðu yfir kulda á toppnum... hvað meintu þeir..?... voru þeir ekki á Íslandi í fimmtán hundruð metra hæð snemma að hausti til? Vissu þeir ekki að það er kalt á toppnum?

Áður en gengið var yfir sérlega úfinn hraunhrygg, líklega afrakstur Heklugossins frá árinu 2000, sem gljáði svo að fannst manni enn vera hiti í grjóti, tókum við pásu til fataskipta þar sem þokan var orðin blaut og kuldinn meiri með léttri golunni sem fylgdi hæðinni.  Yfirferðin um hraunið var hægfara og liðaðist þokan um eftir þetta með sólargeislana gegnum sig og góðfúslegu leyfi öðru hvoru fyrir óspilltri sýn á toppinn eða niður með lendunum. Er hægt að biðja um ævintýralegri gestrisni bikasvarts eldfjalls með rauðu grjóti og hvítum snjó, en svo að grænar sunnanlendurnar og vötnin blá verða framandi í fjarlægðinni?

Ekki varð dulúðin minni þegar við gengum fram á snjóhelli þarna undir hrauninu sem flestir létu sig hafa að kíkja inn í, en ekki sást fyrir endann á honum þar sem botninn endaði í svelli neðanjarðar. Forvitnilegt hefði verið að renna sér niður um iðrum jarðar ef sneyddur væri maður eðlislægri lífhræðslunni sem stoppaði mann skynsamlega af... en að sögn Alexanders, sem kíkti lengra niður var þarna annar hellismuni, svo þarna var heill heimur út af fyrir sig undir sakleysislegri hraunbreiðunni. Þessir kimar Heklu stóðu okkur þó ekki til boða í heimsókninni að sinni og héldum við áfram.

Leiðir hópsins í heild skildu eftir þessa áningu og nú kom kafli þar sem menn gengu frekar þétt, orðnir ólmir í að komast á toppinn, svo Guðjón tók að sér þá sem minni inneign áttu í göngubauknum og má hann hafa þökk fyrir þá alúð sem akkúrat þarf þarna til að smala þeim síðustu alla leið. Það er umhugsunarvert hvort þeir síðustu upp afreki ekki í raun mest í svona leiðangri, þar sem þeir fara af stað með minna á tanknum en hinir og reykspólað er yfir þá alla leið... 

En þarna vorum við á síðasta hluta uppgöngunnar skyndilega komin skýjum ofar, sem fór eiginlega framhjá manni þar sem það hafði verið hálf heiðskírt alla leið. Flestir týndust fljótlega upp efstu bungurnar tvær og ljómuðu andlitin í hópnum þarna á toppnum ekki að ósekju því umhverfið var ólýsanlegt, þykk skýjabreiða yfir landinu svo eingöngu hæstu tindar jöklana fyrir sunnan sköguðu upp úr, Eyjafjallajökull, Tindfjöll, Mýrdalsjökull og Vatnajökull.

Til móts við hvíta jökultindana og skýjabreiðuna, var svart hraunið fyrir fótum og útsýnisgluggar niður á grænt undirlendi Heklu á sveimi í þokunni kringum fjallshlíðarnar sem við gripum með augum eða myndavélum og þrjóskaðist Sauðafellsvatn einna mest við að sýna sig, svolítið eins og auga jarðar alveg í stíl við hringlaga snjóskafla og ávalar fjallsbungur Heklunnar.

Tekin var fyrri hópmynd þar sem óvíst var með skyggni þegar síðustu menn myndu skila sér í hópinn, en þau sameinuðust okkur stuttu síðar þar sem við sátum norðan í hlíðinni að borða nestið og svei mér þá ef hitastigið var ekki nema um 5° - 6°C og allir komnir í lúffur og húfur. Hæðin á syðri toppnum mældist 1.505 m. og voru kenningar uppi um að sá nyrðri væri hærri, en sá mældist 1.501 m. hjá Grétari og eitthvað munaði þarna milli hans og Jóns Gauta. Nokkrir skelltu sér gegnum snjóhella sem voru milli toppana tveggja, en hvergi var hitasvæði að sjá sem að sögn Jóns Gauta merkjast eðlilega fremur í snjónum að vetrarlagi en þokukenndu og lygnu skyggni okkar.

Á nyrðri toppnum var gestabókin útkrotuð forsíðis og baksíðis af toppförum vegna blaðsíðuleysis og leiðsögumenn ákváðu að taka bókina meðferðis niður til endurnýjunar. Aftur var tekin mynd af hópnum þar sem allir voru samankomnir og var svo gengið fremur rösklega af stað, allir birgðir ánægjunni af því að hafa sigrað eldfjallið Heklu.

Veðrið lék áfram við okkur og var lítið staldrað við á niðurleiðinni, nema til að þétta aðeins eftir hraunhrygginn torfæra, skoða útsýnið ofan af fallegum hraunmuna og jú, skella sér gegnum einn snjóhelli svona til að kasta kveðju á jökulinn en ekki bara fjallið.

Síðasta umferðin sem við urðum var við þennan dag á Heklu voru fjórhólamenn í appelsínugulum stíl sem léku sér á neðri öxlinni norðan megin og virtust eiga jafn góðan dag og við. "Hringurinn" var tekinn í lokin á bílastæðinu fyrir tilstilli Jóns Gauta og allir fengu klapp á bakið með ásetningi um að sjást aftur með sömu leiðsögumönnum að mánuði liðnum á fimmta tindi á Botnssúlum.

 

Á bílastæðinu á heimleið var farið að blása og fljótlega rigndi á leið um Suðurlandið til borgarinnar. Í slagviðrinu sem skall á síðari hluta þessa laugardags perlaði rigningin á kristatæra minninguna um eitthvað svart, hvítt og rautt sem bar við bláan himinn...

Fjölbreyttari "svarthvíta upplifun" en göngu á Heklu er vart hægt að hugsa sér og gaf hún toppförum enn eina viðbótina í fjallasafnið... haf þökk fyrir, drottning eldfjalla á Íslandi...

...og allir þeir sem gengu þennan dag í 4:38 klst. samtals 12,2 km. upp 776 m á 1.503 m háan tind og nutu þess niður í tær!
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir