Þó Ljósufjalla líparít
lýsi á sumardegi,
vafin þoku vot og hvít
varð á okkar vegi.
Sú fregn barst héðan fyrr um tíð
af ferðalokum þeim,
í náttmyrkri og norðanhríð
þeir náðu aldrei heim.
Karl
Andersen
Tindur
nr. 3 Ljósufjöll var genginn laugardaginn 11.
ágúst og mættu 16 manns að meðtöldum þjálfurum og
til viðbótar hann Guðjón, fjallaleiðsögumaður. Ferðin
gekk mjög vel enda veður með besta móti, sólskin, logn
og hlýtt, N8 og 14° - 18°C. Þoka var til fjalla sem
skyggði á útsýni þegar ofar dró og þá kom einnig gola
sem gaf okkur meðvind á niðurleið eftir brakandi hita á
uppleið. Hópurinn var sterkur þennan dag, tveir gestir
komu með í ferðina og var stemmningin góð. Hist var á
bílastæðinu við World Class í Spöng, Grafarvogi kl.
07:00 og raðað í bíla eftir stutta
viðkynningu
Guðjóns, fjallaleiðsögumanns.
Ekið
var úr svölu, lágskýjuðu þokulofti höfuðborgarinnar, en
fljótlega komið í sólríkara og hlýrra veður á
Vesturlandi, eiginlega þegar við ókum upp úr
Hvalfjarðargöngunum. Með viðkomu í Borgarnesi á tíma sem
fáir voru á ferli, var ennþá fremur svalt enda sólin í
óða önn að rísa. Ekið var inn á Snæfellsnesið sem
skartaði sínu fegursta í sólinni og eftir um 2ja tíma
akstur var komið að bænum Minni-Borg þar sem fengið var
leyfi bóndans til þess að skilja bílana eftir. Lagt var
af stað kl. 9:20 og gengið á grasigrónum kindargötum og
svo upp með Kleifá að Hamarsfossi. Framhjá Valafossi var
gengið austan við Urðarfell, upp Sandskarð og Sandfell
enda varð undirlag fljótlega
grófari
möl og mosi. Áð var nokkrum sinnum á leiðinni með
gullfallegu útsýni til sjávar um Snæfellsnesið, en
Ljósufjöllin voru sveipuð dulúðugri þokunni sem virtist
leika sér með göngumenn. Þjálfari var sannfærð um að
þokan myndi lyftast af fjöllunum eftir því sem ofar
drægi leiðangrinum, enda læddist hún um og lagðist,
léttist og þéttist, en það var sama hve sterkt vongóðu
hugaraflinu var beitt, á endanum gekk hópurinn inn í
þokuna sem umlukti okkur það sem eftir leið efri hluta
ferðarinnar um tinda Ljósufjalla.
Gengið
var í tiltölulega þéttri þokunni (skyggni ca 50m) um
grófa möl og svart hraun og fljótlega komu snjóskaflar í
ljós og brattinn jókst. Við eina áninguna þar sem þétta
þurfti hópinn birtist vestasti tindur Ljósufjalla okkur,
Snasi (995m) og nokkur skutust þar upp, enda lofaði
síbreytilegt þokuloftið okkur útsýni þá og þegar. Á
miðri leiðinni upp opnaðist skyndilega skýjahulan frá
miðtindi sem reis tignarlegur og fagur yfir okkur til
austurs svo fékk á suma göngumenn, enda varla hægt að
upplifa magnaðri sýn eftir þvælinginn í þokunni.
Miðtindur birtist okkur þó eingöngu í nokkrar sekúndur
en þær voru nógu margar til þess að minningabankinn gat
vistað myndina með áhrifunum undir flokknum "ógleymanleg
augnablik" og gert
þessa
göngu þess virði að hafa lagt í hana. Hér varð á vegi
upplifun sem margir fjallamenn sannreyna þegar gengið er
í þoku eða skýjum ofar og útsýnið birtist skyndilega með
margföldunaráhrifum við opinberun sjóndeildarhringsins
sem þar til á því augnabliki er hulið sjónum. Uppi á
Snasa opnaðist skýjahulan einnig skyndilega til suður
svo nokkrir náðu að smella af myndum niður að Faxaflóa
en því miður lokaðist jafnharðan fyrir aftur og lítið
var meira að sjá þarna í tindunum.
Gengið
var svo um Koll (1001m) og áleiðis á Miðtind upp bratta
hraunskriðu sem var laus í sér og reyndi talsvert á svo
greiddist enn frekar úr hópnum og ein ákvað að sitja af
sér Miðtindinn sjálfan og bíða hópsins fram að
niðurleið. Sú ákvörðun skrifast líklegast einnig á
hópinn sem læra þarf af þessari reynslu hve mikilvægt
það er að gæta þess að enginn dragist óþarflega mikið
aftur úr og fái það ranglega á tilfinninguna að hann sé
að tefja fyrir hinum.
Teknir
voru GPS-punktar hjá henni og haldið áfram þennan stutta
spöl sem eftir var uns komið var að mörkum
svarthraunsins og líparítsins þaðan sem Miðtindur reis
(1063m). Klöngrast var upp þennan hæsta tind Ljósufjalla
í lausu og rauðu hraunmolunum svo gæta þurfti þess að
hrauna ekki yfir ferðafélagana. Fjórir undarfarar komust
fyrst upp, þau Halldór, Alda, Þorleifur og Grétar Jón og
var varla svo að 17 manns kæmust fyrir á toppnum enda
flókið mál að mynda heildina með góðu móti í jafn lausu
hrauninu og var. Gárungar ferðarinnar voru komnir
langleiðina með að sannfæra sjálfa sig og aðra um að við
værum komin í allavega 2.500m hæð og var sú kátína
ágætis sálarnæring eftir áreynsluna upp á topp, en
annars sátum við þarna ágætis stund og nærðumst vel
eftir hálft dagsverkið. Þar sem skyggni bauð ekki upp á
nokkra umhverfisáttun né útsýni til Faxaflóa eða yfir
Breiðafjörð var
nokkuð
ljóst að Ljósufjöllin yrðu klifin aftur enda
Botna-Skyrtunna (988m), Bleikur (1050m) og Gráni (1001m)
ósigraðir í þetta skiptið (spurning hvort rétt sé að við
fórum á Snasa eða eingöngu Koll, sjá síðar). Það hefði
óneitanlega verið magnaðri tilfinning að sitja þarna
þétt öll á miðtindi með snarbrattann fyrir aftan og
framan langar leiðir niður ef útsýni hefði gefist svo
jafnvel hefði farið svo um mann í hæðinni að maður hefði
þurft öruggt tak en þetta þarf að sannreyna síðar...
Niðurleið var svo sömu leið um hrygg Miðtinds og niður í
átt að Kolli til ferðafélagans sem beðið hafði eftir
okkur og setið af sér tindinn. Gengið var svo vestar
niður á láglendið um Giljatungur og Fosshlíð vestan
megin Sandfells og Urðarfells, en þarna urðu nokkrir
viðskila við hópinn í stuttan
tíma
þar sem þau höfðu tafist m. a. við plástrun á hælsæri.
Örn kom þó fljótlega auga á týndu sauðina sem voru hálf
svekktir yfir að hafa ekki fengið að finna hópinn í
friði enda Grétar Jón að prófa nýjar GPS-græjur. Eftir
síðustu pásuna í grasinu þar sem afskaplega gott hefði
verið að sofna aðeins eftir langan dag var haldið áfram
það sem eftir leið ferðar og fljótlega komið í land
Minni-Borgar og gengið síðasta spölinn um torfæruveg að
bænum. Gangan var 8:23klst með öllu, 19,9km að baki,
hækkun upp á 990m og 1063m hár tindur eða hreint út sagt
frábær dagur í glimrandi veðri sem þó gaf ekki skyggni
uppi á hálendinu en útsýni af háum tindum sem þessum er
ekki sjálfgefið og eykur því verðmæti þeirra augnablika
þegar slíkt fæst. |