Tindur 39 - Þríhyrningur laugardaginn 29. maí 2010
 


"Þeir undan Þríhyrningi..."
Af göngumönnum um sögusvið Njálu

Bráðin eða bogaskyttan
Reiði mín reiðist
hatur mitt hatar
sorg mín syrgir
sút mín sýtir

Reiði mín leitar
að bráð
hatur mitt leitar
að bráð
sorg mín leitar
að bráð
sút mín leitar að bráð

Hvort er ég heldur
bráð eða bogaskytta?
(Stefán Snævarr - úr Njála lifandi komin eftir Jóhannes Eiríksson - Salka 2006 - bls. 123).


Reykspólað af stað í öskufalli Eyjafjallajökuls...

Nefndur er til sögunnar flokkur manna er Toppfarr heitir.

Herjuðu þeir vikulega á fjölll landsins og eirðu hvergi svo sviðin var jörðin og slóðin víða.

Söfnuðu þeir liði undan ásókn erlendis frá evrópskra sjónvarpsstöðva og flúðu til fjalla undan freistingum innanlands frá Reykjavíkurborgarkosninga ok þótti aðför þeirra að sögusviði Brennu-Njáls sögu rösklega gjört á fjallinu Þríhyrningi sem var með fjöllum fegurstum og reyndist 8,7 km á 4:05 - 4:14 klst. með atgeirinn í efsta tind við 693 m með 553 m áhlaupi...

Koma þeir allir við sögu síðan...

--------------------------------------------------------------------------------------

Njála fæst í ýmsum brotum, bókum, eintökum... m. a. á ýmsum tungumálum á www.njala.is.
Hér er lesendum þessarar síðu leyft að njóta fegurðarinnar með aðstoð þessarar vefsíðu og
bókarinnar
"Njála - lifandi komin" eftir Jóhannes Eiríksson sem Salka gaf út árið 2006
en þar fer frábær bók með fjölda ægifagurra mynda af söguslóðum og skemmtilegum og fróðlegum athugasemdum höfundar.


Aska yfir öllu frá Eyjafjallajökulsgosinu svo menn urðu gráir upp á læri og skórnir steingráir eins og steinarnir og moldin dökkgrá.

1. kafli
Hallgerður Langbrók...

Mörður hét maður er kallaður var gígja. Hann var sonur Sighvats hins rauða. Hann bjó á Velli á Rangárvöllum. Hann var ríkur höfðingi og málafylgjumaður mikill og svo mikill lögmaður að engir þóttu löglegir dómar dæmdir nema hann væri við. Hann átti dóttur eina er Unnur hét. Hún var væn kona og kurteis og vel að sér og þótti sá bestur kostur á Rangárvöllum.

Nú víkur sögunni vestur til Breiðafjarðardala. Maður er nefndur Höskuldur. Hann var Dala-Kollsson. Móðir hans hét Þorgerður og var dóttir Þorsteins hins rauða, Ólafssonar hins hvíta, Ingjaldssonar, Helgasonar. Móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar. Unnur hin djúpúðga var móðir Þorsteins rauðs, dóttir Ketils flatnefs, Bjarnarsonar bunu. Höskuldur bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal.

Hrútur hét bróðir hans. Hann bjó á Hrútsstöðum. Hann var sammæður við Höskuld. Faðir hans var Herjólfur. Hrútur var vænn maður, mikill og sterkur, vígur vel og hógvær í skapi, manna vitrastur, hagráður við vini sína en tillagagóður hinna stærri mála.

Það var einu hverju sinni að Höskuldur hafði vinaboð og þar var Hrútur bróðir hans og sat hið næsta honum. Höskuldur átti sér dóttur er Hallgerður hét. Hún lék sér á gólfi við aðrar meyjar. Hún var fríð sýnum og mikil vexti og hárið svo fagurt sem silki og svo mikið að það tók ofan á belti.

Höskuldur kallar á hana: “Far þú hingað til mín,” sagði hann.

Hún gekk þegar til hans. Hann tók undir hökuna og kyssti hana. Síðan gekk hún í braut.

Þá ræddi Höskuldur til Hrúts: “Hversu líst þér á mey þessa, þykir þér eigi fögur vera?”

Hrútur þagði við. Höskuldur talaði til annað sinn.

Hrútur svaraði þá. “Ærið fögur er mær sjá og munu margir þess gjalda. En hitt veit eg eigi hvaðan þjófsaugu eru komin í ættir vorar.”

Þá reiddist Höskuldur og var fátt um með þeim bræðrum nokkura hríð.


Vatnsdalur til suðurs

9. Kafli
Bónorðsför...

Nú er þar til máls að taka að Hallgerður vex upp, dóttir Höskulds, og er kvenna fríðust sýnum og mikil vexti og því var hún langbrók kölluð. Hún var fagurhár og svo mikið hárið að hún mátti hylja sig með. Hún var örlynd og skaphörð.

Þjóstólfur hét fóstri hennar. Hann var suðureyskur að ætt. Hann var styrkur maður og vígur vel og hafði margan mann drepið og bætti engan mann fé. Það var mælt að hann væri engi skapbætir Hallgerði.

Maður er nefndur Þorvaldur. Hann var Ósvífursson. Hann bjó út á Meðalfellsströnd undir Felli. Hann var vel auðigur að fé. Hann átti eyjar þær er heita Bjarneyjar. Þær liggja út á Breiðafirði. Þaðan hafði hann skreið og mjöl. Þorvaldur var vel styrkur maður og kurteis, nokkuð bráður í skaplyndi.

Það var einu hverju sinni að þeir feðgar ræddu með sér hvar Þorvaldur mundi á leita um kvonfang. En það fannst á að honum þótti sér óvíða fullkosta.

Þá mælti Ósvífur: “Vilt þú biðja Hallgerðar langbrókar, dóttur Höskulds?”

“Hennar vil eg biðja,” segir hann.

“Það mun ykkur eigi mjög hent,” sagði Ósvífur, “hún er kona skapstór en þú ert harðlyndur og óvæginn.”

“Þar vil eg þó á leita,” segir hann, “og mun mig eigi tjóa að letja.”

“Þú átt og mest í hættu,” segir Ósvífur.

Síðan fóru þeir bónorðsför og komu á Höskuldsstaði og höfðu þar góðar viðtökur. Þeir ræddu þegar erindi sín fyrir Höskuldi og vöktu bónorðið.

Höskuldur svaraði: “Kunnigt er mér um hag ykkarn en eg vil enga vél að ykkur draga að dóttir mín er hörð í skapi. En um yfirlit hennar og kurteisi megið þið sjálfir sjá.”

Þorvaldur svaraði: “Ger þú kostinn því að eg mun skaplyndi hennar eigi láta fyrir kaupi standa.”

Síðan tala þeir um kaupið og spurði Höskuldur dóttur sína eigi eftir því að honum var hugur á að gifta hana og urðu þeir á sáttir á allan kaupmála. Síðan rétti Höskuldur fram höndina en Þorvaldur tók í og fastnaði sér Hallgerði og reið heim við svo búið.


Harpa. Leifur Sigrún, Anton, Helga Bj., Jórunn, gestur, Hermann, Ásta H., Örn og Halldóra Þ.

19. kafli
Gunnar frá Hlíðarenda...

Gunnar hét maður. Hann var frændi Unnar. Rannveig hét móður hans og var Sigfúsdóttir Sighvatssonar hins rauða. Hann var veginn við Sandhólaferju. Faðir Gunnars hét Hámundur og var sonur Gunnars Baugssonar. Við þann er kennt Gunnarsholt. Móðir Hámundar hét Hrafnhildur. Hún var Stórólfsdóttir Hængssonar. Stórólfur var bróðir Hrafns lögsögumanns. Sonur Stórólfs var Ormur hinn sterki.

Gunnar Hámundarson bjó að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann var mikill maður vexti og sterkur og allra manna best vígur. Hann hjó báðum höndum og skaut ef hann vildi og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá. Hann skaut manna best af boga og hæfði allt það er hann skaut til. Hann hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig. Hann var syndur sem selur. Og eigi var sá leikur að nokkur þyrfti við hann að keppa og hefir svo verið sagt að engi væri hans jafningi. Hann var vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fór vel. Manna var hann kurteisastur, harðger í öllu, ráðhollur og góðgjarn, mildur og stilltur vel, vinfastur og vinavandur. Hann var vel auðigur að fé.

Bróðir hans hét Kolskeggur. Hann var mikill maður og sterkur, drengur góður og öruggur í öllu. Annar bróðir hans hét Hjörtur. Hann var þá í barnæsku. Ormur skógarnef var bróðir Gunnars laungetinn og er hann ekki við þessa sögu. Arngunnur hét systir Gunnars. Hana átti Hróar Tungugoði sonur Una hins óborna Garðarssonar. Sá fann Ísland. Sonur Arngunnar var Hámundur halti er bjó á Hámundarstöðum.


Anton er fyrrverandi bóndi á suðurlandi og gat nefnt alla bæina sem sáust úr fjallshlíðum

20. kafli
Njáll frá Bergþórshvoli...

Njáll hét maður. Hann var sonur Þorgeirs gollnis Þórólfssonar. Móðir Njáls hét Ásgerður. Hún var dóttir Áskels hersis hins ómálga. Hún hafði komið út hingað til Íslands og numið land fyrir austan Markarfljót milli Öldusteins og Seljalandsmúla. Sonur hennar var Holta-Þórir faðir þeirra Þorleifs kráks, er Skógverjar eru frá komnir, og Þorgríms hins mikla og Þorgeirs skorargeirs.

Njáll bjó að Bergþórshvoli í Landeyjum. Annað bú átti hann í Þórólfsfelli. Njáll var vel auðigur að fé og vænn maður yfirlits en sá hlutur var á ráði hans að honum óx eigi skegg. Hann var lögmaður svo mikill að engi var hans jafningi, vitur og forspár, heilráður og góðgjarn og varð allt að ráði það er hann réð mönnum, hógvær og drenglyndur, langsýnn og langminnigur. Hann leysti hvers manns vandræði er á hans fund kom.

Bergþóra hét kona hans. Hún var Skarphéðinsdóttir, kvenskörungur mikill og drengur góður og nokkuð skaphörð. Þau Njáll áttu sex börn, þrjá sonu og þrjár dætur og koma þeir allir við þessa sögu.


Fyrsti og vestasti tindur Þríhyrnings - sá sem rís lengst til hægri þegar horft er á fjallið frá suðurlandsundirlendi.

33. kafli
Gunnar og Hallgerður...

Gunnar reið og þeir allir til þings. En er þeir komu á þing þá voru þeir svo vel búnir að engir voru þeir þar að jafnvel væru búnir og fóru menn út úr hverri búð að undrast þá. Gunnar reið til búða Rangæinga og var þar með frændum sínum. Margur maður fór að finna Gunnar og spyrja hann tíðinda. Hann var við alla menn léttur og kátur og sagði öllum slíkt er vildu.

Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sá hann konur ganga í móti sér og voru vel búnar. Sú var í ferðarbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kvenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskikkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt. Gunnar var í tignarklæðum þeim er Haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin.

Hún sagði að svo væri “og er það ekki margra að hætta á það,” segir hún.

“Þykir þér hvergi fullkosta?” segir hann.

“Eigi er það,” segir hún, “en mannvönd mun eg vera.”

“Hversu munt þú svara ef eg bið þín?” segir Gunnar.

“Það mun þér ekki í hug,” segir hún.

“Eigi er það,” segir hann.

“Ef þér er nokkur hugur á,” segir hún, “þá finn þú föður minn.”

Síðan skildu þau talið.

Gunnar gekk þegar til búðar Dalamanna og fann menn úti fyrir búðinni og spyr hvort Höskuldur væri í búð en þeir sögðu að hann var víst þar. Gekk þá Gunnar inn. Höskuldur og Hrútur tóku vel við Gunnari. Hann settist niður í meðal þeirra og fannst það ekki í tali þeirra að þar hefði nokkur misþykkja í meðal verið.

Þar kom niður ræða Gunnars að hann spurði hversu þeir bræður mundu því svara ef hann bæði Hallgerðar.

“Vel,” segir Höskuldur, “ef þér er það alhugað.”

Gunnar segir sér það alvöru “en svo skildum vér næstum að mörgum mundi það þykja líklegt að hér mundi ekki samband verða.”

“Hversu líst þér Hrútur frændi?” segir Höskuldur.

Hrútur svaraði: “Ekki þykir mér þetta jafnræði.”

“Hvað finnur þú til þess?” segir Gunnar.

Hrútur mælti: “Því mun eg svara þér um þetta er satt er. Þú ert maður vaskur og vel að þér en hún er blandin mjög og vil eg þig í engu svíkja.”

“Vel mun þér fara,” segir Gunnar, “en þó mun eg það fyrir satt hafa að þér virðið í fornan fjandskap ef þér viljið eigi gera mér kostinn.”

“Eigi er það,” segir Hrútur, “meir er hitt að eg sé að þú mátt nú ekki við gera. En þó að vér keyptum eigi þá vildum vér þó vera vinir þínir.”

Gunnar mælti: “Eg hefi talað við hana og er þetta ekki fjarri hennar skapi.”

Hrútur mælti: “Veit eg að svo mun vera að ykkur er báðum girndarráð. Hættið þið og mestu til hversu fer.”

Hrútur sagði Gunnari ófregið allt um skapferði Hallgerðar og þótti Gunnari það fyrst ærið margt er áfátt var. En þar kom um síðir að saman féll kaupmáli þeirra. Var þá sent eftir Hallgerði og var þá um talað svo að hún var við. Létu þeir nú enn sem fyrr að hún festi sig sjálf. Skyldi þetta boð vera að Hlíðarenda og skyldi fara fyrst leynilega en þó kom þar er allir vissu.

Gunnar reið heim af þingi og reið þegar að finna Njál og sagði honum kaupin. Hann tók þungt á kaupum hans. Gunnar spurði hvað hann fyndi til að honum þótti slíkt svo óráðlegt.

Njáll svaraði: “Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur hingað.”

“Aldrei skal hún spilla okkru vinfengi,” segir Gunnar.

“Það mun þó svo nær leggja,” segir Njáll, “en þó munt þú jafnan bæta fyrir henni.”

Gunnar bauð Njáli til boðs og öllu því þaðan sem hann vildi að færi. Njáll hét að fara. Síðan reið Gunnar heim og reið um héraðið að bjóða mönnum.


Fyrsta og eina nestispásan... þetta var styttri gangan en sumar kvöldgöngurnarnar að sumri til
Hér valt upp úr Auði orðrétt tilvitnun úr Njálu af matarboði Bergþóru þar sem Hallgerður sagðist engin hornkerling vera... báðar í raun sekar um þau illindi sem þar með hófust milli þeirra og urðu margra manna bani áður en yfir lauk. Snædís þekkti einnig söguna vel og Hjölli var með Sámartilvitnunina á hreinu, þegar ýlfrið í hundi Gunnars á Hlíðarenda vakti hann feigboði fyrir víg hans.

35. kafli
Örlagaríkt heimboð...

Það var siðvenja þeirra Gunnars og Njáls að sinn vetur þá hvor þeirra heimboð að öðrum og veturgrið fyrir vináttu sakir. Nú átti Gunnar að þiggja veturgrið að Njáli og fóru þau Hallgerður til Bergþórshvols. Þá voru þau Helgi eigi heima. Njáll tók vel við þeim Gunnari. Og þá er þau höfðu þar verið nokkura hríð kom Helgi heim og Þórhalla kona hans.

Þá gekk Bergþóra að pallinum og Þórhalla með henni og mælti Bergþóra til Hallgerðar: “Þú skalt þoka fyrir konu þessi.”

Hún svarar: “Hvergi mun eg þoka því að engi hornkerling vil eg vera.”

“Eg skal hér ráða,” sagði Bergþóra.

Síðan settist Þórhalla niður.

Bergþóra gekk að borðinu með handlaugar.

Hallgerður tók höndina Begþóru og mælti: “Ekki er þó kosta munur með ykkur Njáli. Þú hefir kartnagl á hverjum fingri en hann er skegglaus.”

“Satt er það,” sagði Bergþóra, “en hvortgi okkart gefur það öðru að sök. En eigi var skegglaus Þorvaldur bóndi þinn og réðst þú þó honum bana.”

“Fyrir lítið kemur mér,” segir Hallgerður, “að eiga þann mann er vaskastur er á Íslandi ef þú hefnir eigi þessa Gunnar.”

Hann spratt upp og steig fram yfir borðið og mælti: “Heim mun eg fara og er það maklegast að þú sennir við heimamenn þína en eigi í annarra manna híbýlum enda á eg Njáli marga sæmd að launa og mun eg ekki vera eggjanarfífl þitt.”

Síðan fóru þau heim.

“Mun þú það Bergþóra,” sagði Hallgerður, “að við skulum eigi skildar.”

Bergþóra sagði að ekki skyldi hennar hlutur batna við það. Gunnar lagði ekki til og fór heim til Hlíðarenda og var heima allan þann vetur í gegnum. Líður nú á sumarið og allt til þings framan.


Tindaröðin sem var framundan að þeim fyrsta loknum.

36. kafli
Kaldar eru kvennahefndir...

Gunnar ríður til þings. En áður en hann reið heiman mælti hann til Hallgerðar: “Ver þú dæl meðan eg er heiman og sýn af þér enga fárskapi þar sem við vini mína er um að eiga.”

“Tröll hafi þína vini,” segir hún.

Gunnar ríður til þings og sá að eigi var gott orðum við hana að koma. Njáll reið til þings og synir hans allir.

Nú er frá því að segja hvað heima er tíðinda. Þeir áttu skóg saman, Njáll og Gunnar, í Rauðaskriðum. Þeir höfðu eigi skipt skóginum en hvor var vanur að höggva sem þurfti og taldi hvorgi á annan um það.

Kolur hét verkstjóri Hallgerðar. Hann hafði verið með henni lengi og var hið mesta illmenni.

Svartur hét maður. Hann var húskarl Njáls og Bergþóru og líkaði þeim við hann vel. Bergþóra mælti við hann að hann skyldi fara í Rauðaskriður og höggva skóg “en eg mun fá til menn að draga heim viðinn.”

Hann kveðst vinna mundu það er hún legði fyrir hann. Hann fór upp í Rauðaskriður. Tekur hann þar og höggur skóg og skyldi þar að vera viku.

Snauðir menn komu til Hlíðarenda austan frá Markarfljóti og sögðu að Svartur hafði verið í Rauðaskriðum og höggvið skóg og gert mikið að.

“Svo mun Bergþóra til ætla,” segir Hallgerður, “að ræna mig mörgu en því skal eg ráða að hann höggvi eigi oftar.”

Rannveig heyrði, móðir Gunnars, og mælti: “Þó hafa húsfreyjur þótt góðar austur hér að ekki hafi staðið í mannráðum.”

Nú leið af nóttin og um morguninn kom Hallgerður að máli við Kol og mælti: “Verk hefi eg þér hugað” og fékk honum öxi. “Far þú í Rauðaskriður. Þar munt þú finna Svart.”

“Hvað skal eg honum?” segir hann.

“Spyr þú að því,” segir hún, “þar sem þú ert hið mesta illmenni? Drepa skalt þú hann,” segir hún.

“Gert mun eg það geta,” segir hann, “en það er þó líkast að eg gefi mig við.”

“Vex þér hvetvetna í augu,” segir hún, “og fer þér illa þar sem eg hefi mælt eftir þér hvern hlut. Mun eg fá til annan mann að gera þetta ef þú þorir eigi.”

Hann tók öxina og var reiður mjög og tekur hest er Gunnar átti og ríður þar til er hann kemur austur að Markarfljóti. Hann steig þar af baki og beið í skóginum þar til er þeir höfðu borið ofan viðinn og Svartur var einn eftir.

Hleypur Kolur þá að honum og mælti: “Fleiri munu kunna að höggva stórt en þú einn” og setti öxina í höfuð honum og hjó hann banahögg og ríður heim síðan og segir Hallgerði vígið.

“Njót heill handa,” segir hún, “og skal eg þig svo varðveita að þig skal ekki saka.”

“Vera má það,” segir hann, “en hinn veg dreymdi mig þó áður en eg vó vígið.”

Nú koma þeir upp í skóginn og finna Svart veginn og flytja hann heim.

Hallgerður sendi mann til þings að segja Gunnari vígið. Gunnar hallmælti Hallgerði ekki um fyrir sendimanninum og vissu menn eigi hvort honum þótti vel eða illa. Litlu síðar stóð hann upp og bað menn sína ganga með sér. Þeir gerðu svo og fóru til búðar Njáls. Gunnar sendi mann eftir Njáli og bað hann út koma. Njáll gekk út þegar og gengu þeir Gunnar á tal.

Gunnar mælti: “Víg hefi eg að segja þér og hefir valdið Hallgerður kona mín en vegið hefur Kolur verkstjóri minn en fyrir hefir orðið Svartur húskarl þinn.”

Njáll þagði meðan Gunnar sagði söguna.

Þá mælti Njáll: “Þurfa munt þú að láta hana eigi öllu fram koma.”

Gunnar mælti: “Sjálfur skalt þú dæma.”

Njáll mælti: “Erfitt mun þér verða að bæta öll slys Hallgerðar og mun annars staðar meira slóða draga en hér er við eigum hlut að og mun hér þó mikið á vanta að vel sé og munum við þess þurfa að muna það er við höfum lengi vel við mælst. Og væntir mig að þér fari vel en þó munt þú verða mjög að þreyttur.”

Njáll tók sjálfdæmi af Gunnari og mælti: “Ekki mun eg halda máli þessu til kapps. Þú skalt gjalda tólf aura silfurs. En það vil eg til skilja þó að nokkuð komi það úr vorum garði er þér eigið um að gera að þér stillið eigi verr gerðinni.”

Gunnar sagði það maklegt vera. Gunnar greiddi af hendi féið vel og reið heim síðan.

Njáll kom heim af þingi og synir hans.

Bergþóra sá féið og mælti: “Vel er þessu í hóf stillt en jafnmikið fé skal koma fyrir Kol er stundir líða.”

Gunnar kom heim af þingi og taldi á Hallgerði. Hún kallaði betri menn óbætta liggja margstaðar. Gunnar kvað hana ráða mundu tiltekjum sínum “en eg skal ráða hversu málin lúkast.”

Hallgerður hældist jafnan um víg Svarts en Bergþóru líkaði það illa.

Njáll fór upp í Þórólfsfell og synir hans að skipa þar til bús. En þann sama dag varð sá atburður er Bergþóra var úti að hún sér mann ríða að garði svörtum hesti. Hún nam staðar og gekk eigi inn. Hún kenndi eigi manninn. Sjá maður hafði spjót í hendi og gyrður saxi. Hún spurði þenna mann að nafni.

“Atli heiti eg,” sagði hann.

Hún spurði hvaðan hann væri.

“Eg er austfirskur maður,” segir hann.

“Hvert skalt þú fara?” segir hún.

“Eg er maður vistlaus,” segir hann, “og ætlaði eg að finna Njál og Skarphéðinn og vita ef þeir vildu taka við mér.”

“Hvað er þér hentast að vinna?” segir hún.

“Eg er akurgerðarmaður og margt er mér vel hent að gera,” segir hann, “en eigi vil eg því leyna að eg er maður skapharður og hefir jafnan hlotið um sárt að binda fyrir mér.”

“Ekki gef eg þér það að sök,” segir hún, “þótt þú sért engi bleyðimaður.”

Atli mælti: “Ert þú nokkurs ráðandi hér?”

“Eg er kona Njáls,” segir hún, “og ræð eg ekki síður hjón en hann.”

“Vilt þú taka við mér?” segir hann.

“Gera mun eg kost á því,” segir hún, “ef þú vilt vinna allt það er eg legg fyrir þig og svo þó að eg vilji senda þig til mannráða.”

“Átt þú svo til varið um menn,” segir hann, “að þú munt ekki mín þurfa að því að kosta.”

“Það skil eg er eg vil,” segir hún.

“Kaupa munum við að þessu,” sagði hann.

Þá tók hún við honum.

Njáll kom heim og synir hans. Njáll spurði Bergþóru hvað manna sjá væri.

“Hann er húskarl þinn,” segir hún, “og tók eg við honum því að hann lést vera óhandlatur.”

“Ærið mun hann stórvirkur,” segir Njáll, “en eigi veit eg hvort hann er svo góðvirkur.”

Skarphéðinn var vel til Atla.

Njáll ríður til þings um sumarið og synir hans. Gunnar var á þingi. Njáll tók upp fésjóð er hann hafði heiman.

Skarphéðinn spyr: “Hvað fé er það faðir?”

“Hér er fé það,” segir Njáll, “er Gunnar greiddi mér fyrir heimamann vorn fyrra sumar.”

“Koma mun það til nokkurs,” sagði Skarphéðinn og glotti við.


Vatnið á Vatnsdalsfjalli

43. kafli
Karlmennirnir ná sættum...

En er sendimaður kom til þings að segja Gunnari vígið þá mælti Gunnar: “Þetta er illa orðið og eigi kæmu þau tíðindi til eyrna mér að mér þættu verri. En þó skulum vér nú fara þegar að finna Njál og væntir mig að honum fari enn vel þó að hann sé mjög að þreyttur.”

Gengu þeir þá á fund Njáls og kölluðu hann til máls við sig. Hann gekk þegar til fundar við Gunnar. Þeir töluðu og var ekki manna við fyrst nema Kolskeggur.

“Hörð tíðindi hefi eg að segja þér,” segir Gunnar, “víg Þórðar leysingjasonar. Vil eg bjóða þér sjálfdæmi fyrir vígið.”

Njáll þagði nokkurt skeið og mælti síðan: “Vel er slíkt boðið,” segir hann, “og mun eg það taka. En þó er eigi örvænt að eg hafi ámæli af konu minni eða sonum mínum fyrir þetta því að þeim mun mjög mislíka. En þó mun eg á það hætta því að eg veit að eg á við dreng um. Vil eg og eigi að af mér standi afbrigð okkarrar vináttu.”

“Vilt þú nokkuð sonu þína við láta vera?” segir Gunnar.

“Ekki,” segir Njáll, “því að eigi munu þeir rjúfa þá sátt er eg geri. En ef þeir eru við staddir þá munu þeir ekki saman draga.”

“Svo mun vera,” segir Gunnar. “Sjá þú einn fyrir.”

Þeir tókust þá í hendur og sættust vel og skjótt.

Þá mælti Njáll: “Tvö hundruð silfurs geri eg og mun þér mikið þykja.”

“Eigi þykir mér þetta of mikið,” segir Gunnar og gekk heim til búðar sinnar.

Synir Njáls komu heim til búðar og spurði Skarphéðinn hvaðan fé það hið mikla og hið góða kæmi er faðir hans hélt á.

Njáll mælti: “Eg segi yður víg Þórðar fóstra yðvars og höfum við Gunnar nú sæst á málið og hefir hann tvennum manngjöldum bætt hann.”

“Hverjir hafa vegið hann?” segir Skarphéðinn.

“Sigmundur og Skjöldur en Þráinn var þó nær staddur,” segir Njáll.

“Mikils þótti þeim við þurfa,” segir Skarphéðinn, “en hvar skal þá komið er vér skulum handa hefja?”

“Skammt mun til þess,” segir Njáll, “og munt þú þá eigi þess lattur en þó þykir mér mikið undir að þér rjúfið eigi þessa sætt.”

“Svo munum vér þá gera,” segir Skarphéðinn, “en ef til verður nokkuð með oss þá munum vér minnast á hinn forna fjandskap.”

“Engis mun eg þá um beiða,” segir Njáll.


Tindur nr. tvö

44. kafli
Rægisfullar ræsknistungur... flökkukvenna...

Nú ríða menn heim af þingi. Og er Gunnar kom heim mælti hann til Sigmundar: “Meiri ert þú ógiftumaður en eg ætlaði og hefir þú til ills þína mennt. En þó hefi eg nú gervan þig sáttan við Njál og sonu hans og skyldir þú nú eigi annarri flugu láta koma í munn þér. Ert þú mér ekki skaplíkur. Þú ferð með spott og háð en það er ekki mitt skap. Kemur þú þér því vel við Hallgerði að þið eigið meir skap saman.”

Gunnar taldi á hann langa hríð en Sigmundur svaraði honum vel og kvaðst meir hans ráðum skyldu fram fara þaðan af en þar til hafði verið. Gunnar sagði honum þá hlýða mundu. Hélst með því nokkura hríð.

Jafnan mæltust þeir vel við, Gunnar og Njáll og synir hans, þó að fátt væri meðal annars liðsins.

Sá atburður varð að farandi konur komu til Hlíðarenda frá Bergþórshvoli. Þær voru málgar og heldur illorðar. Hallgerður sat í dyngju því að hún var því vön. Þar var Þorgerður dóttir hennar og Þráinn. Þar var og Sigmundur og fjöldi kvenna. Gunnar var eigi þar né Kolskeggur. Farandkonur þessar gengu inn í dyngjuna. Hallgerður heilsaði þeim og lét gefa þeim rúm. Hún spurði að tíðindum en þær kváðust engi segja. Hallgerður spurði hvar þær hefðu verið um nóttina. Þær sögðust verið hafa að Bergþórshvoli.

“Hvað hafðist Njáll að?” segir Hallgerður.

“Stritaðist hann við að sitja,” sögðu þær.

“Hvað gerðu synir Njáls?” sagði Hallgerður, “þeir þykjast helst menn.”

“Miklir eru þeir að vallarsýn en óreyndir eru þeir mjög,” sögðu þær. “Skarphéðinn hvatti öxi, Grímur skefti spjót, Helgi hnauð hjalt á sverð, Höskuldur treysti mundriða í skildi.”

“Til stórræða nokkurra munu þeir ætla,” segir Hallgerður.

“Eigi vitum við það,” segja þær.

“Hvað gerðu húskarlar Njáls?” segir Hallgerður.

Þær svöruðu: “Eigi vissum við hvað sumir gerðu en einn ók skarni á hóla.”

“Hví mundi það sæta?” segir Hallgerður.

Þær svöruðu: “Það sagði hann að þar yrði taða betri en annars staðar.”

“Misvitur er Njáll,” segir Hallgerður, “þar er hann kann til hversvetna ráð.”

“Hvar er í því?” sögðu þær.

“Það mun eg til finna er satt er,” segir Hallgerður, “er hann lét eigi aka í skegg sér að hann væri sem aðrir karlmenn og köllum hann nú karl hinn skegglausa en sonu hans taðskegglinga og kveð þú um nokkuð Sigmundur og lát oss njóta þess er þú ert skáld.”

Hann kveðst þess vera albúinn og kvað þegar vísur þrjár eða fjórar og voru allar illar.

“Gersemi ert þú,” sagði Hallgerður, “hversu þú ert mér eftirlátur.”

Gunnar kom að í þessu. Hann hafði staðið fyrir framan dyngjuna og heyrt á öll orðtækin. Þeim brá mjög við er þau sáu hann inn ganga. Þá þögnuðu allir en áður hafði þar verið háreysti mikið og hlátur.

Gunnar var reiður mjög og mælti til Sigmundar: “Heimskur maður ert þú og óráðhollur. Þú hrópar sonu Njáls og sjálfan hann er þó er mest vert en slíkt sem þú hefir áður af gert við þá og mun þetta vera þinn bani. En ef nokkur maður hermir þessi orð þá skal sá í brautu verða og hafa þó reiði mína.”

En svo var þeim öllum ótti mikill að honum að engi þorði þessi orð að herma. Síðan gekk hann í braut.

Farandkonurnar töluðu um með sér að þær mundu taka laun af Bergþóru ef þær segðu henni þetta, fóru síðan ofan þangað og sögðu Bergþóru á laun ófregið.

Bergþóra mælti er menn sátu undir borðum: “Gjafar eru yður gefnar feðgum og verðið þér litlir drengir af ef þér launið engu.”

“Hversu eru gjafar þær?” segir Skarphéðinn.

“Þér synir mínir eigið allir eina gjöf saman. Þér eruð kallaðir taðskegglingar en bóndi minn karl hinn skegglausi.”

“Ekki höfum vér kvenna skap,” segir Skarphéðinn, “að vér reiðumst við öllu.”

“Reiddist Gunnar þó fyrir yðra hönd,” segir hún, “og þykir hann skapgóður. Og ef þér rekið eigi þessa réttar þá munuð þér engrar skammar reka.”

“Gaman þykir kerlingunni að, móður vorri, að erta oss,” segir Skarphéðinn og glotti við en þó spratt honum sveiti í enni og komu rauðir flekkar í kinnur honum en því var ekki vant.

Grímur var hljóður og beit á vörinni. Helga brá ekki við. Höskuldur gekk fram með Bergþóru. Hún kom innar í annað sinn og geisaði mjög.

Njáll mælti: “Kemst þó að seint fari húsfreyja. Og fer svo um mörg mál þó að menn hafi skapraun af að jafnan orkar tvímælis þó að hefnt sé.”

En um kveldið er Njáll var kominn í rekkju heyrði hann að öx kom við þilið og söng í hátt en lokrekkja var önnur og héngu þar á skildir og sér hann að þeir eru í brautu.

Hann mælti: “Hverjir hafa tekið ofan skjöldu vora?”

“Synir þínir gengu út með,” segir Bergþóra.

Njáll kippti skóm á fætur sér og gekk út og öðrum megin hússins og sér að þeir stefna upp á hvolinn.

Hann mælti: “Hvert skal fara Skarphéðinn?”

“Leita sauða þinna,” segir hann.

Njáll mælti: “Ekki munduð þér þá vera vopnaðir ef þér ætluðuð það og mun annað vera erindið.”

“Laxa skulum vér veiða faðir ef vér rötum eigi sauðina,” segir Skarphéðinn.

“Vel væri þá ef svo væri að þá veiði bæri eigi undan,” segir Njáll.

Þeir fóru leið sína en Njáll gekk inn til hvílu sinnar.

Hann mælti til Bergþóru: “Úti voru synir þínir með vopnum allir og munt þú nú hafa eggjað þá til nokkurs.”

“Allvel skal eg þakka þeim ef þeir segja mér heim víg Sigmundar,” segir Bergþóra.


Fínasta gönguleið í öskugráu berginu með hengilflugið á vinstri hönd

45. kafli
"Illa gefast ill ráð"...

Nú er að segja frá Njálssonum að þeir fóru upp til Fljótshlíðar og voru um nóttina við hlíðina og fóru nær Hlíðarenda er morgna tók. Þenna morgun hinn sama stóðu þeir upp snemma, Sigmundur og Skjöldur, og ætluðu til stóðhrossa. Þeir höfðu beisl með sér og tóku hross í túni og riðu í braut. Þeir leita stóðhestsins um hlíðina og fundu hann meðal lækja tveggja og leiddu hrossin ofan að götum mjög. Skarphéðinn sá Sigmund því að hann var í litklæðum.

Skarphéðinn mælti: “Sjáið þér rauðálfinn sveinar?”

Þeir litu til og kváðust sjá hann.

Þá mælti Skarphéðinn: “Þú skalt gera að ekki Höskuldur því að þú munt oft sendur einn saman óvarlega. En eg ætla mér Sigmund. Þykir mér það karlmannlegt. En þið Grímur og Helgi skuluð vega að Skildi.”

Höskuldur settist niður en þeir gengu þar til er þeir komu að þeim.

Skarphéðinn mælti til Sigmundar: “Tak vopn þín og ver þig. Er það nú meiri nauðsyn en kveða flím um oss bræður.”

Sigmundur tók vopn sín en Skarphéðinn beið meðan. Skjöldur sneri í mót þeim Grími og Helga og börðust þeir í ákafa. Sigmundur hafði hjálm á höfði sér og skjöld á hlið og gyrður sverði og hafði spjót í hendi, snýr nú í mót Skarphéðni og leggur þegar spjótinu til hans og kemur í skjöldinn. Skarphéðinn laust í sundur spjótskaftið og færir upp öxina í annað sinn og höggur til Sigmundar og kom í skjöldinn og klauf ofan öðrum megin mundriða. Sigmundur brá sverðinu hinni hægri hendi og höggur til Skarphéðins og kom í skjöldinn og festi sverðið í skildinum. Skarphéðinn snaraði svo fast skjöldinn að Sigmundur lét laust sverðið. Skarphéðinn hjó þá enn til Sigmundar með öxinni Rimmugýgi. Sigmundur var í pansara. Öxin kom á öxlina og klauf ofan herðarblaðið. Hann hnykkir að sér öxinni og féll Sigmundur á kné bæði og spratt upp þegar.

“Laust þú mér nú,” segir Skarphéðinn, “en þó skalt þú í móðurætt falla áður við skiljum.”

“Það er illa þá,” segir Sigmundur.

Skarphéðinn laust á hjálminn Sigmundar og hjó hann síðan banahögg. Grímur hjó á fótinn Skildi og tók af í ristarliðnum en Helgi lagði sverði í gegnum hann og hafði hann þá bana.

Skarphéðinn sá smalamann Hallgerðar. Þá hafði hann höggvið höfuð af Sigmundi. Hann seldi smalamanni í hendur höfuðið og bað hann færa Hallgerði og kvað hana kenna mundu hvort það höfuð hefði kveðið níð um þá.

Smalamaður kastaði niður þegar höfðinu er þeir skildu því að hann þorði eigi meðan þeir voru við. Þeir bræður fóru nú þar til er þeir fundu menn niðri við Markarfljót og sögðu þeim tíðindin. Lýsti Skarphéðinn vígi Sigmundar á hendur sér en þeir Grímur og Helgi vígi Skjaldar sér á hendur. Fóru þeir þá heim og sögðu Njáli tíðindin.

Njáll mælti: “Njótið heilir handa. Hér skulu eigi sjálfdæmi fyrir koma að svo búnu.”

Nú er þar til máls að taka er smalamaður kemur heim til Hlíðarenda. Hann segir Hallgerði tíðindin.

“Fékk Skarphéðinn mér í hendur höfuð Sigmundar og bað mig færa þér en eg þorði eigi að gera það,” segir hann, “því að eg vissi eigi hversu þér mundi það líka.”

“Það var illa er þú gerðir það eigi,” segir hún. “Eg skyldi færa Gunnari höfuðið og mundi hann þá hefna frænda síns eða sitja fyrir hvers manns ámæli.”

Síðan gekk hún til Gunnars og mælti: “Eg segi þér víg Sigmundar frænda þíns. Hefir Skarphéðinn vegið hann og vildi láta færa mér höfuðið.”

“Slíks var Sigmundi von,” segir Gunnar, “því að illa gefast ill ráð. En jafnan gerir hvort ykkart Skarphéðins grálega til annars.”

Gekk þá Gunnar í braut. Hann lét ekki búa til vígsmálið og engan hlut að hafa. Hallgerður minnti oft á og sagði Sigmund vera óbættan. Gunnar gaf ekki gaum að því.

Nú liðu þrjú þing þau er menn ætluðu að hann mundi sækja málið. Þá kom eitt vandamál að hendi Gunnari það er hann vissi eigi hversu upp skyldi taka. Reið hann þá til fundar við Njál. Hann fagnar vel Gunnari.

Gunnar mælti til Njáls: “Heilræði er eg kominn að sækja að þér um eitt vandamál.”

“Maklegur ert þú þeirra,” segir Njáll og réð honum ráðin.

Gunnar stóð þá upp og þakkaði honum.

Njáll mælti þá og tók til Gunnars: “Helsti lengi hefir Sigmundur frændi þinn óbættur verið.”

“Fyrir löngu var hann bættur,” segir Gunnar, “en þó vil eg eigi drepa hendi við sóma mínum.”

Gunnar hafði aldrei illa mælt til Njálssona. Njáll vildi ekki annað en Gunnar gerði um málið. Hann gerði tvö hundruð silfurs en lét Skjöld vera ógildan. Þeir greiddu þegar allt féið. Gunnar sagði sætt þeirra upp á Þingskálaþingi þá er þar var mest fjölmenni og tjáði hversu þeim hafði vel farið feðgum og sagði um orð þau hin illu er Sigmundi dró til höfuðsbana og skyldi engi þau herma síðan en vera ógildur hver sem hermdi. Þeir mæltu það báðir, Gunnar og Njáll, að engir hlutir skyldu þeir til verða að eigi semdu þeir sjálfir. Efndist það og vel síðan og voru þeir jafnan vinir.


Tindurinn í 693 m hæð.

46. kafli
Gizur og Geir og Mörður koma til sögu..

Gissur hvíti hét maður. Hann var Teitsson Ketilbjarnarsonar hins gamla frá Mosfelli. Móðir Gissurar hét Ólöf. Hún var dóttir Böðvars hersis Víkinga-Kárasonar. Ísleifur byskup var sonur Gissurar. Móðir Teits hét Helga og var dóttir Þórðar Skeggja Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Gissur hvíti bjó að Mosfelli og var höfðingi mikill.

Sá maður er nefndur til sögunnar er Geir hét. Hann var kallaður Geir goði. Móðir hans hét Þorkatla og var dóttir Ketilbjarnar hins gamla frá Mosfelli. Geir bjó í Hlíð í Byskupstungu. Þeir Geir og Gissur fylgdust að hverju máli.

Í þenna tíma bjó Mörður Valgarðsson að Hofi á Rangárvöllum. Hann var slægur og illgjarn. Þá var Valgarður utan, faðir hans, en móðir hans önduð. Hann öfundaði mjög Gunnar frá Hlíðarenda. Hann var vel auðigur að fé og heldur óvinsæll.


Droplaug, Hildur V., Anna Elín, Sigrún, Árni, Leifur og Hermann.

54. kafli
Atgeirinn...

Nú er þar til máls að taka að Gunnar var úti að Hlíðarenda og sér smalamann sinn hleypa að garði. Smalamaðurinn reið heim í túnið.

Gunnar mælti: “Hví ríður þú svo hart?”

“Eg vildi vera þér trúlyndur,” segir hann. “Eg sá menn ríða ofan með Markarfljóti átta saman og voru fjórir í litklæðum.”

Gunnar mælti: “Þar mun vera Otkell.”

“Vildi eg því segja þér,” segir smalamaðurinn, “að eg hefi oft heyrt mörg skapraunarorð þeirra. Sagði svo Skammkell austur í Dal að þú hefðir grátið þá er þeir riðu á þig ofan. Þykja mér ill vera orðtök vondra manna.”

“Ekki skulum við vera orðsjúkir,” segir Gunnar, “en það eitt skalt þú vinna héðan í frá er þú vilt.”

“Skal eg nokkuð segja Kolskeggi bróður þínum?” segir smalamaðurinn.

“Far þú og sof,” segir Gunnar. “Eg mun segja Kolskeggi slíkt er mér líkar.”

Sveinninn lagðist niður og sofnaði þegar.

Gunnar tók smalahestinn og lagði á söðul sinn. Hann tók skjöld sinn og gyrti sig sverðinu Ölvisnaut, setur hjálm á höfuð sér, tekur atgeirinn og söng í honum hátt og heyrði Rannveig móðir hans.

Hún gekk fram og mælti: “Reiðulegur ert þú nú son minn og ekki sá eg þig slíkan fyrr.”

Gunnar gengur út og stingur niður atgeirinum og verpur sér í söðulinn og ríður braut. Rannveig gekk til stofu. Þar var háreysti mikið.

“Hátt kveðið þér,” segir hún, “en þó lét hærra atgeirinn er Gunnar gekk út.”

Kolskeggur heyrði og mælti: “Það mun eigi engra tíðinda vita.”

“Það er vel,” segir Hallgerður, “nú munu þeir reyna hvort hann gengur grátandi undan þeim.”

Kolskeggur tekur vopn sín og leitar sér að hesti og ríður eftir slíkt er hann mátti.

Gunnar ríður um Akratungu þvera og svo til Geilastofna og þaðan til Rangár og ofan til vaðs hjá Hofi. Konur voru þar á stöðli. Gunnar hljóp af hesti sínum og batt. Þá riðu hinir að. Móhellur voru í götunum við vaðið.

Gunnar mælti til þeirra: “Nú er að verja sig. Er hér nú atgeirinn. Munuð þér nú og reyna hvort eg græt nokkuð fyrir yður.”

Þeir hljópu þá allir af baki og sóttu að Gunnari. Hallbjörn var fremstur.

“Sæk þú eigi að,” segir Gunnar. “Þér vildi eg síst illt gera en eg mun þó engum hlífa ef eg á hendur mínar að verja.”

“Það mun ekki gera,” segir Hallbjörn. Þú munt þó drepa vilja bróður minn og er það skömm ef eg sit hjá” og lagði til Gunnars tveim höndum miklu spjóti.

Gunnar skaut fyrir skildinum en Hallbjörn lagði í gegn um skjöldinn. Gunnar skaut svo fast niður skildinum að hann stóð fastur í jörðunni en tók til sverðsins svo skjótt að eigi mátti auga á festa og hjó með sverðinu og kom á höndina Hallbirni fyrir ofan úlflið svo að af tók.

Skammkell hljóp á bak Gunnari og höggur til hans með mikilli öxi. Gunnar snerist skjótt að honum og lýstur við atgeirinum og kom undir kverk öxinni og hraut hún úr hendi honum út á Rangá. Gunnar leggur í annað sinn atgeirinum og í gegnum Skammkel og vegur hann upp og kastar honum í leirgötuna að höfðinu. Auðólfur austmaður þreif upp spjót og skaut að Gunnari. Gunnar tók á lofti spjótið og skaut aftur þegar og fló í gegnum skjöldinn og austmanninn og niður í völlinn. Otkell höggur með sverði til Gunnars og stefnir á fótinn fyrir neðan kné. Gunnar hljóp í loft upp og missir Otkell hans. Gunnar leggur atgeirinum til hans og í gegnum hann. Þá kemur Kolskeggur að og hleypur þegar að Hallkatli og höggur hann banahögg með saxinu. Þar vega þeir þá átta.

Kona hljóp heim, er sá, og sagði Merði og bað hann skilja þá.

“Þeir einir munu vera,” segir hann, “að eg hirði aldrei þó að drepist.”

“Eigi munt þú það vilja mæla,” segir hún, “þar mun vera Gunnar frændi þinn og Otkell vinur þinn.”

“Klifar þú nokkuð jafnan mannfýla þín,” segir hann og lá hann inni meðan þeir börðust.

Gunnar reið heim og Kolskeggur eftir verk þessi og ríða þeir hart upp eftir eyrunum og stökk Gunnar af baki og kom standandi niður.

Kolskeggur mælti: “Hart ríður þú nú frændi.”

Gunnar mælti: “Það lagði Skammkell mér til orðs er eg mælti svo: “Þér ríðið á mig ofan.”"

“Hefnt hefir þú nú þess,” segir Kolskeggur.

“Hvað eg veit,” segir Gunnar, “hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn.”


Landslagið handan tinds nr. tvö við skarðið.

55. kafli
Gunnar leitar ráða hjá Njáli sem fyrr...

Nú spyrjast tíðindin og mæltu það margir að eigi þætti þetta fyrr fram koma en líklegt var. Gunnar reið til Bergþórshvols og sagði Njáli verk þessi.

Njáll mælti: “Mikið hefir þú að gert og hefir þú verið mjög að þreyttur.”

“Hversu mun nú ganga síðan?” segir Gunnar.

“Vilt þú að eg segi þér það,” segir Njáll, “er eigi er fram komið? Þú munt ríða til þings og munt þú njóta við ráða minna og fá af þessu máli hina mestu sæmd. Mun þetta upphaf vígaferla þinna.”

“Ráð þú mér heilræði nokkur,” segir Gunnar.

“Eg skal það gera,” segir Njáll. “Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.”

Gunnar mælti: “Öðrum ætlaði eg að það skyldi hættara en mér.”

“Svo mun vera,” segir Njáll, “en þó skalt þú svo um þitt mál hugsa ef þetta ber saman að þá munt þú skammt eiga ólifað en ella munt verða gamall maður.”

Gunnar mælti: “Veist þú hvað þér mun verða að bana?”

“Veit eg,” segir Njáll.

“Hvað?” segir Gunnar.

“Það sem allir munu síst ætla,” segir Njáll.

Síðan reið Gunnar heim.

Maður var sendur Gissuri hvíta og Geiri goða því að þeir áttu eftir Otkel að mæla. Fundust þeir þá að og töluðu hversu með skyldi fara. Kom það ásamt með þeim að sótt mundi mál til laga. Var þá að leitað hver við mundi vilja taka en engi var til þess búinn.

“Svo líst mér,” segir Gissur, “að nú muni tveir kostir. Að annar hvor okkar sæki málið og munum við þá verða að hluta með okkur eða ella mun vera maðurinn ógildur. Munum við og svo mega til ætla að þungt mun að hræra málið. Er Gunnar frændmargur og vinsæll. En sá okkar er eigi hlýtur skal til ríða og ekki úr ganga fyrr en til enda kemur málið.”

Síðan hlutuðu þeir og hlaut Geir goði að fara með sökina.

Litlu síðar riðu þeir vestan yfir ár og komu þar sem fundurinn hafði verið við Rangá og grófu upp líkamina og nefndu votta að benjum. Síðan lýstu þeir og kvöddu níu búa um málið. Þeim var sagt að Gunnar var heima við þrjá tigu manna. Spurði þá Geir goði hvort Gissur vildi að ríða við hundrað manna.

“Eigi vil eg það,” segir hann, “þó að mikill sé liðsmunur.”

Riðu þeir þá aftur heim. Málatilbúnaður spurðist um öll héruð og var sú orðræða á að róstumikið mundi verða þingið.


Báðir tindarnir sem að baki eru.

58. kafli
Konan sem elskaði Gunnar... Hildigunnur...

Egill hét maður. Hann var Kolsson Óttarssonar ballar er land nam meðal Stotalækjar og Reyðarvatns. Bróðir Egils var Önundur í Tröllaskógi, faðir Halla hins sterka er var að vígi Holta-Þóris með sonum Ketils hins sléttmála. Egill bjó í Sandgili. Synir hans voru þeir Kolur og Óttar og Haukur. Móðir þeirra var Steinvör systir Starkaðar undir Þríhyrningi. Synir Egils voru miklir menn og kappsamir og hinir mestu ójafnaðarmenn. Þeir voru að einu máli og synir Starkaðar. Systir þeirra var Guðrún náttsól. Hún var kvenna fríðust og kurteisust.

Egill hafði tekið við Austmönnum tveimur. Hét annar Þórir en annar Þorgrímur. Þeir voru frumferlar út hingað, vinsælir og auðgir. Þeir voru vígir vel og fræknir um allt.

Starkaður átti hest góðan, rauðan að lit, og þótti þeim svo sem engi hestur mundi hafa við þeim í vígi.

Einu hverju sinni var það að þeir bræður úr Sandgili voru undir Þríhyrningi. Þeir höfðu viðurmæli mikið um alla bændur í Fljótshlíð og þar kom að þeir töluðu hvort nokkur mundi vilja etja hestum við þá. En þeir menn voru að mæltu það til sóma þeim og eftirlætis að bæði mundu vera að engi mundi þora við að etja enda mundi engi eiga þvílíkan hest.

Þá svaraði Hildigunnur: “Veit eg þann mann er þora mun að etja við yður.”

“Nefn þú þann,” segja þeir.

Hún svarar: “Gunnar að Hlíðarenda á hest brúnan og mun hann þora að etja við yður og við alla aðra.”

“Svo þykir yður konum,” segja þeir, “sem engi muni vera hans maki. En þó að auvirðilega hafi farið fyrir honum Geir goði eða Gissur hvíti þá er eigi ráðið að oss fari svo.”

“Yður mun first um fara,” segir hún og varð þeim af hin mesta deila.

Starkaður mælti: “Á Gunnar vildi eg að þér leituðuð síst manna því að erfitt mun yður verða að ganga í móti giftu hans.”

“Leyfa munt þú oss að vér bjóðum honum hestaat?” segja þeir.

“Leyfa,” segir hann, “ef þér prettið hann í öngu.”

Þeir kváðust svo gera mundu.

Riðu þeir nú til Hlíðarenda. Gunnar var heima og gekk út. Kolskeggur og Hjörtur gengu út með honum og fögnuðu þeim vel og spurðu hvert þeir ætluðu að fara.

“Eigi lengra,” segja þeir. “Oss er sagt að þú eigir hest góðan og viljum vér bjóða þér hestaat.”

“Litlar sögur mega ganga frá hesti mínum,” segir Gunnar, “hann er ungur og óreyndur að öllu.”

“Kost munt þú láta að etja,” segja þeir, “og gat þess til Hildigunnur að þú mundir góður af hestinum.”

“Hví töluðuð þér um það?” segir Gunnar.

“Þeir menn voru,” segja þeir, “er það mæltu að þú mundir eigi þora að etja við vorn hest.”

“Þora mun eg að etja,” segir Gunnar, “en grálega þykir mér þetta mælt.”

“Skulum vér til þess ætla,” segja þeir, “að þú munir etja?”

“Þá mun yður þykja för yður best,” segir Gunnar, “ef þér ráðið þessu. En þó vil eg þess biðja yður að vér etjum svo hestunum að vér gerum öðrum gaman en oss engi vandræði og þér gerið mér enga skömm. En ef þér gerið til mín sem til annarra þá er eigi ráðið nema eg sveigi þann að yður að yður mun hart þykja undir að búa. Mun eg þar eftir gera sem þér gerið fyrir.”

Ríða þeir nú heim. Starkaður spurði hversu þeim hefði farist. Þeir sögðu að Gunnar gerði góða ferð þeirra.

“Hann hét að etja hesti sínum og kváðum vér á nær það hestavíg skyldi vera. Fannst það á í öllu að honum þótti sig skorta við oss og baðst hann undan vandræðum.”

“Það mun oft á finnast,” segir Hildigunnur, “að Gunnar er seinþreyttur til vandræða en harðdrægur ef hann má eigi undan komast.”

Gunnar reið að finna Njál og sagði honum hestaatið og hversu orð fóru með þeim “eða hversu ætlar þú að fari hestaatið?”

“Þú munt hafa meira hlut,” sagði Njáll, “en þó mun hér margs manns bani af hljótast.”

“Mun nokkuð hér af hljótast minn bani?” segir Gunnar.

“Ekki mun það af þessu hljótast,” segir Njáll, “en þó munu þeir muna fornan fjandskap, og nýjan munu þeir að þér færa og munt þú ekki annað mega en hrökkva við.”

Gunnar reið þá heim.


Anton, Hermann og Hjölli... fremstu menn sem fengu loksins myndir teknar af sér.

61. kafli
"Þessa hönd skal þér sýna Gunnar dauðan í kvöld"...

Þeir ríða þrír saman, Gunnar og bræður hans. Gunnar hafði atgeirinn og sverðið Ölvisnaut en Kolskeggur hafði saxið. Hjörtur hafði og alvæpni. Riðu þeir nú í Tungu. Ásgrímur tók vel við þeim og voru þeir þar nokkura hríð. Þá lýstu þeir yfir því að þeir ætluðu þá heim að fara. Ásgrímur gaf þeim góðar gjafar og bauð að ríða með þeim austur. Gunnar kvað engis mundu við þurfa og fór hann eigi.

Sigurður svínhöfði hét maður. Hann kom undir Þríhyrning. Hann bjó við Þjórsá. Hann hafði heitið að halda njósn um ferðir Gunnars. Hann sagði þeim nú til ferða hans og kvað ekki mundu verða vænna en svo “er hann er við hinn þriðja mann.”

“Hversu marga munum vér menn þurfa,” segir Starkaður, “í fyrirsát?”

“Rýrt mun verða fyrir honum smámennið,” segir Sigurður, “og eigi er ráð að hafa færri en þrjá tigu manna.”

“Hvar skulum vér fyrir sitja?” segir Starkaður.

“Við Knafahóla,” segir Sigurður, “þar sér eigi fyrr en að er komið.”

“Far þú í Sandgil,” segir Starkaður, “og seg Agli að þeir búist þaðan fimmtán en vér munum koma héðan aðrir fimmtán til Knafahóla.”

Þorgeir mælti til Hildigunnar: “Þessi hönd skal þér sýna Gunnar dauðan í kveld.”

“En eg get,” segir hún, “að þú berir lágt höfuðið af ykkrum fundi.”

Þeir fara fjórir feðgar undan Þríhyrningi og ellefu menn aðrir. Fóru þeir til Knafahóla og biðu þar.

Sigurður svínhöfði kom í Sandgil og mælti: “Eg er sendur hingað af Starkaði og sonum hans að segja þér Egill að þér feðgar farið til Knafahóla að sitja fyrir Gunnari.”

“Hversu margir skyldum vér fara?” segir Egill.

“Fimmtán með mér,” segir Sigurður.

Kolur mælti: “Nú ætla eg mér í dag að reyna við Kolskegg.”

“Mjög þykir mér þú ætla þér,” segir Sigurður.

Egill bað Austmenn sína fara.

Þeir kváðust engar sakar eiga við Gunnar “enda þarf hér mikils við,” segir Þórir, “er fjöldi manns skal fara að þremur mönnum.”

Gekk þá Egill í braut og var reiður.

Húsfreyja mælti þá til Austmannsins: “Illa hefir Guðrún dóttir mín brotið odd af oflæti sínu og legið hjá þér er þú skalt eigi þora að fylgja mági þínum og munt þú vera ragur maður,” segir hún.

“Fara mun eg,” segir hann, “með bónda þínum og mun hvorgi okkar aftur koma.”

Síðan gekk hann til Þorgríms félaga síns og mælti: “Tak þú við kistulyklum mínum því að eg mun þeim eigi lúka oftar. Bið eg að þú eignist slíkt af fé okkru sem þú vilt en far utan og ætla ekki til hefnda eftir mig. En ef þú ferð eigi utan þá verður það þinn bani.”

Austmaðurinn tekur vopn sín og ræðst í flokk með þeim.


Hér þurfti að fara varlega um klettahrygginn með þverhnípið niður vinstra megin.

62. kafli
Draumar Gunnars...

Nú er þar til máls að taka að Gunnar ríður austur yfir Þjórsá. En er hann kom skammt frá ánni syfjaði hann mjög og bað hann þá æja þar. Þeir gerðu svo. Hann sofnaði fast og lét illa í svefni.

Kolskeggur mælti: “Dreymir Gunnar nú.”

Hjörtur mælti: “Vekja vildi eg hann.”

“Eigi skal það,” segir Kolskeggur, “og skal hann njóta draums síns.”

Gunnar lá mjög langa hríð. Hann varp af sér skildinum er hann vaknaði og var honum orðið heitt mjög.

Kolskeggur mælti: “Hvað hefir þig dreymt frændi?”

“Það hefir mig dreymt,” segir Gunnar, “að eg mundi eigi riðið hafa úr Tungu svo fámennur ef mig hefði þá þetta dreymt.”

“Seg þú okkur draum þinn,” segir Kolskeggur.

“Það dreymdi mig,” segir Gunnar, “að eg þóttist ríða fram hjá Knafahólum. Þar þóttist eg sjá varga mjög marga og sóttu þeir allir að mér en eg sneri undan fram að Rangá. Þá þótti mér þeir sækja að öllum megin en eg varðist. Eg skaut alla þá er fremstir voru þar til er þeir gengu svo að mér að eg mátti eigi boganum við koma. Tók eg þá sverðið og vó eg með annarri hendi en lagði með atgeirinum annarri hendi. Hlífði eg mér þá ekki og þóttist eg þá eigi vita hvað mér hlífði. Drap eg þá marga vargana og þú með mér Kolskeggur en Hjört þótti mér þeir hafa undir og slíta á honum brjóstið og hafði einn hjartað í munni sér. En eg þóttist verða svo reiður að eg hjó varginn í sundur fyrir aftan bóguna og eftir það þóttu mér stökkva vargarnir. Nú er það ráð mitt Hjörtur frændi að þú ríðir vestur aftur í Tungu.

“Eigi vil eg það,” segir Hjörtur. “Þótt eg viti vísan bana minn þá vil eg þér fylgja.”

Síðan riðu þeir og komu austur hjá Knafahólum.

Þá mælti Kolskeggur: “Sérðu frændi mörg spjót koma upp hjá hólunum og menn með vopnum?”

“Ekki kemur mér það að óvörum,” segir Gunnar, “að draumur minn sannist.”

“Hvað skal nú til ráðs taka?” segir Kolskeggur. “Eg get að þú viljir eigi renna undan þeim.”

“Ekki skulu þeir að því eiga að spotta,” segir Gunnar, “en ríða munum vér fram að Rangá í nesið. Þar er vígi nokkuð.”

Ríða þeir nú fram í nesið og bjuggust þar við.

Kolur mælti er þeir riðu hjá fram: “Hvort skal nú renna Gunnar?”

Kolskeggur mælti: “Seg þú svo fremi frá því er sjá dagur er allur.”


Ekki þægilegasta leiðin en skemmtileg ef menn fóru varlega.

63. kafli
"Þeir undan Þríhyrningi eiga á brattann að sækja"...

Nú eggjar Starkaður sína menn. Snúa þeir þá fram í nesið að þeim. Sigurður svínhöfði fór fyrstur og hafði törguskjöld einbyrðan en sviðu í annarri hendi. Gunnar sér hann og skýtur til hans af boganum. Hann brá upp við skildinum er hann sá örina hátt fljúga og kom örin í gegnum skjöldinn og í augað svo að út kom í hnakkann og varð það víg fyrst. Annarri ör skaut Gunnar að Úlfhéðni ráðamanni Starkaðar og kom sú á hann miðjan og féll hann fyrir fætur bónda einum en bóndinn féll um hann þveran. Kolskeggur kastar til steini og kom í höfuð bóndanum og varð það hans bani.

Þá mælti Starkaður: “Ekki mun oss þetta duga að hann komi boganum við og göngum að fram vel og snarplega.”

Síðan eggjaði hver annan. Gunnar varði sig með boganum meðan hann mátti. Síðan kastaði hann niður boganum. Tók hann þá atgeirinn og sverðið og vegur með báðum höndum. Er bardaginn þá hinn harðasti. Gunnar vegur þá drjúgan menn og svo Kolskeggur.

Þá mælti Þorgeir Starkaðarsonur: “Eg hét að færa Hildigunni höfuð þitt Gunnar.”

“Ekki mun henni það þykja neinu varða hvort þú efnir það eða eigi,” segir Gunnar, “en þó munt þú nær ganga hljóta ef þú skalt það meðal handa hafa.”

Þorgeir mælti þá við bræður sína: “Hlaupum vér að honum fram allir senn. Hann hefir engan skjöld og munum vér hafa ráð hans í hendi.”

Þeir hljópu fram Börkur og Þorkell og urðu skjótari en Þorgeir. Börkur höggur til Gunnars. Gunnar laust við atgeirinum svo hart að sverðið hraut úr hendi Berki. Sér hann þá til annarrar handar Þorkel standa í höggfæri við sig. Gunnar stóð nokkuð höllum fæti. Hann sveiflaði þá til sverðinu og kom á hálsinn Þorkatli og fauk af höfuðið.

Kolur mælti Egilsson: “Látið mig fram að Kolskeggi. Eg hefi það jafnan mælt að við mundum mjög jafnfærir til vígs.”

“Slíkt megum við nú reyna,” segir Kolskeggur.

Kolur leggur til hans spjóti. Kolskeggur vó þá mann og átti sem mest að vinna og kom hann eigi fyrir sig skildinum og kom lagið í lærið utanfótar og gekk í gegnum.

Kolskeggur brást við fast og óð að honum og hjó með saxinu á lærið og undan fótinn og mælti: “Hvort nam eg þig eða eigi?”

“Þess galt eg nú,” segir Kolur, “er eg var berskjaldaður” og stóð nokkura stund á hinn fótinn og leit á stúfinn.

Kolskeggur mælti: “Eigi þarft þú að líta á, jafnt er sem þér sýnist, af er fóturinn.”

Kolur féll þá dauður niður. En er þetta sér Egill faðir hans hleypur hann að Gunnari og höggur til hans. Gunnar leggur í móti atgeirinum og kom á Egil miðjan. Gunnar vegur hann upp á atgeirinum og kastar honum út á Rangá.

Þá mælti Starkaður: “Alls vesall ert þú Þórir austmaður er þú situr hjá en nú er veginn Egill húsbóndi þinn og mágur.”

Þá spratt upp Austmaðurinn og var reiður mjög. Hjörtur hafði orðið tveggja manna bani. Austmaðurinn hleypur að honum og höggur framan á brjóstið og þar á hol. Hjörtur féll þá þegar dauður niður. Gunnar sér þetta og varpar sér skjótt til höggs við Austmanninn og sníður hann í sundur í miðju. Litlu síðar skýtur Gunnar til Barkar atgeirinum og kom á hann miðjan og í gegnum hann og niður í völlinn. Þá höggur Kolskeggur höfuð af Hauki Egilssyni en Gunnar höggur hönd af Óttari í olbogabót.

Þá mælti Starkaður: “Flýjum nú, ekki er við menn um að eiga.”

Gunnar mælti: “Það mun ykkur feðgum þykja illt til frásagnar ef ekki skal mega sjá á ykkur að þið hafið í bardaga verið.”

Síðan hljóp Gunnar að þeim feðgum og veitti þeim áverka. Eftir það skildu þeir og höfðu þeir Gunnar marga þá særða er undan héldu.

Á fundinum létust fjórtán menn en Hjörtur hinn fimmtándi. Gunnar reiddi Hjört heim á skildi sínum og var hann þar heygður. Margir menn hörmuðu hann því að hann var vinsæll.

Starkaður kom og heim og græddi Hildigunnur sár þeirra Þorgeirs og mælti: “Yður væri mikið gefanda til að þér hefðuð ekki illt átt við Gunnar.”

“Svo væri það,” segir Starkaður.


Komið niður hinum megin hryggjarins.

69. kafli
Aðför í aðsigi undir Þríhyrningi...

Þá er þeir húskarlar og Kolskeggur höfðu verið þrjár nætur í Eyjum þá hefir Þorgeir Starkaðarson njósn af þessu og gerir orð nafna sínum að hann skyldi koma til móts við hann á Þríhyrningshálsa. Síðan bjóst Þorgeir undan Þríhyrningi við hinn tólfta mann. Hann ríður upp á hálsinn og bíður þar nafna síns. Gunnar er nú einn heima á bænum. Ríða þeir nafnar í skóga nokkura. Þar kom að þeim svefnhöfgi og máttu þeir ekki annað en sofa. Festu þeir skjöldu sína í limar en bundu hesta sína og settu hjá sér vopnin.

Njáll var þessa nótt í Þórólfsfelli og mátti ekki sofa og gekk ýmist út eða inn. Þórhildur spurði Njál hví hann mætti ekki sofa.

“Margt ber nú fyrir augu mér,” sagði hann. “Eg sé margar fylgjur grimmlegar óvina Gunnars og er nokkuð undarlega. Þær láta ólmlega og fara þó ráðlauslega.”

Litlu síðar reið maður að dyrum og steig af baki og gekk inn og var þar sauðamaður þeirra Þórhildar.

Hún mælti: “Hvort fannst þú sauðina?”

“Fann eg það er meira mundi varða,” segir hann.

“Hvað var það?” segir Njáll.

“Eg fann fjóra og tuttugu menn,” segir hann, “í skóginum uppi. Þeir höfðu bundið hesta sína en sváfu sjálfir. Þeir höfðu fest skjöldu sína í limar.”

En svo hafði hann gjörla að hugað að hann sagði frá allra þeirra vopnabúnaði og klæðum.

Njáll vissi þá gjörla hver hvergi hafði verið og mælti til hans: “Gott hjóna ert þú, ef slík væru mörg, og skalt þú jafnan þessa njóta en þó vil eg nú senda þig.”

Hann játti að fara.

“Þú skalt fara,” segir Njáll, “til Hlíðarenda og segja Gunnari að hann fari til Grjótár og sendi þaðan eftir mönnum en eg mun fara til móts við þá er í skóginum eru og fæla þá í braut. Hefir þetta af því vel í móti borist að þeir munu engis afla í þessi en láta mikið.”

Sauðamaður fór og sagði Gunnari sem gerst frá öllu. Reið þá Gunnar til Grjótár og stefndi að sér mönnum.

Nú er að segja frá Njáli að hann ríður til fundar við þá nafna.

“Óvarlega liggið þér,” segir hann, “eða til hvers skal för sjá ger hafa verið? Og er Gunnar engi klekktunarmaður. En ef satt skal um tala þá eru þetta hin mestu fjörráð. Skuluð þér það og vita að Gunnar er í liðsafnaði og mun hann hér brátt koma og drepa yður nema þér ríðið undan og heim.”

Þeir brugðust við skjótt og varð þeim mjög um felmt og tóku vopn sín og stigu á hesta sína og hleyptu heim undir Þríhyrning.

Njáll fór til móts við Gunnar og bað hann ekki eyða fjölmenni “en eg mun fara í meðal og leita um sættir. Munu þeir nú vera hóflega hræddir. En fyrir þessi fjörráð skal eigi koma minna, er við alla þá er um að eiga, en eigi skal meira koma fyrir víg annars hvors þeirra nafna þó að það kunni við að bera. Skal eg varðveita þetta fé og svo fyrir sjá að þá sé þér innan handar er þú þarft til að taka.”


Úti um allt og uppi um allt... ekta Toppfarar...

71. kafli
Mörður leggur á ráðagjörð Gunnari til meins...

Litlu síðar finnast þeir nafnar og Mörður. Verða þeir eigi á sáttir. Þóttust þeir láta fé mikið fyrir Merði en hafa ekki í móti og báðu hann setja aðra ráðagerð þá er Gunnari væri til meins.

Mörður kvað svo vera skyldu “er það nú ráð mitt að Þorgeir Otkelsson fífli Ormhildi frændkonu Gunnars en Gunnar mun af því láta vaxa óþokka við þig. Skal eg þá ljósta upp þeim kvitt að Gunnar muni eigi hafa svo búið við þig. Skuluð þið þá nokkuru síðar hafa aðför við Gunnar en þó skuluð þið Gunnar eigi heim sækja því að það má sér engi ætla meðan hundurinn lifir.”

Sömdu þeir nú þessa ráðagerð með sér að sjá skyldi fram koma.

Nú líður sumarið. Þorgeir venur komur sínar til Ormhildar. Gunnari þótti það illa og gerðist óþokki mikill með þeim. Fór svo fram um veturinn. Nú kemur sumar og verða þá enn oftlega fundir þeirra á laun.

Þeir finnast jafnan Þorgeir undan Þríhyrningi og Mörður og ráða aðför við Gunnar þá er hann riði ofan í Eyjar að sjá verk húskarla sinna.

Eitt sinn varð Mörður var við er Gunnar reið ofan í Eyjar og sendi mann undir Þríhyrning að segja Þorgeiri að þá mundi vænast til að leita að fara að Gunnari. Þeir brugðu við skjótt og fara ofan þaðan við hinn tólfta mann. En er þeir komu í Kirkjubæ þá voru þar fyrir aðrir tólf. Þeir ræða um hvar þeir skulu sitja fyrir Gunnari og kom það ásamt að þeir skyldu fara ofan til Rangár og sitja þar fyrir honum.

En er Gunnar reið neðan úr Eyjum reið Kolskeggur með honum. Gunnar hafði boga sinn og örvar og atgeirinn. Kolskeggur hafði saxið og alvæpni.


Litið til baka á þá sem enn voru að koma sér yfir hrygginn.

72. kafli
Benreg fyrir blóðugum bardaga...

Sá atburður varð er þeir Gunnar riðu neðan að Rangá að blóð féll á atgeirinn. Kolskeggur spurði hví það mundi sæta.

Gunnar svaraði ef slíkir atburðir yrðu að það væri kallað í öðrum löndum benrögn “og sagði svo Ölvir bóndi í Hísing að það væri jafnan fyrir stórfundum.”

Síðan riðu þeir til þess er þeir sáu mennina við ána, sjá að þeir sitja en hafa bundið hestana.

Gunnar mælti: “Fyrirsát er nú.”

“Lengi hafa þeir ótrúlegir verið,” segir Kolskeggur, “eða hvað skal nú til ráða taka?”

“Hleypa skulum við upp hjá þeim,” segir Gunnar, “til vaðsins og búast þar við.”

Hinir sjá það og snúa þegar að þeim. Gunnar bendir upp bogann og tekur örvarnar og steypir niður fyrir sig og skýtur þegar er þeir komu í skotfæri. Særði Gunnar við það mjög marga menn en drap suma.

Þá mælti Þorgeir Otkelsson: “Þetta dugir oss ekki, göngum að sem harðast.”

Þeir gerðu svo. Fyrstur gekk Önundur hinn fagri, frændi Þorgeirs. Gunnar skaut atgeirinum til hans og kom á skjöldinn og klofnaði hann í tvo hluti en atgeirinn hljóp í gegnum Önund. Ögmundur flóki hljóp að baki Gunnari. Kolskeggur sá það og hjó undan Ögmundi báða fætur og hratt honum út á Rangá og drukknaði hann þegar. Gerðist nú bardagi mikill og harður og hjó Gunnar annarri hendi en lagði annarri. Kolskeggur vó og drjúgan menn en særði marga.

Þorgeir Starkaðarson mælti til nafna síns: “Alllítt sér það á að þú eigir föður þíns að hefna á Gunnari.”

Þorgeir Otkelsson svarar: “Víst er eigi vel fram gengið en þó hefir þú eigi gengið mér í spor enda skal eg eigi þola þín frýjuorð,” hleypur að Gunnari af mikilli reiði og lagði spjóti í gegnum skjöldinn og svo í gegnum hönd Gunnari. Gunnar snaraði svo hart skjöldinn að spjótið brotnaði í falnum. Gunnar sér annan mann kominn í höggfæri við sig og höggur þann banahöggi. Eftir það þrífur hann atgeirinn tveim höndum. Þá var Þorgeir Otkelsson kominn nær honum með brugðnu sverði og reiddi hart. Gunnar snýst að honum skjótt af mikilli reiði og rekur í gegnum hann atgeirinn og bregður honum á loft og keyrir hann út á Rangá. Og rekur hann ofan á vaðið og festi þar á steini einum og heitir þar síðan Þorgeirsvað.

Þorgeir Starkaðarson mælti: “Flýjum vér nú, ekki mun oss sigurs verða auðið að svo búnu.”

Snéru þeir þá allir í frá.

“Sækjum við nú eftir þeim,” segir Kolskeggur, “og tak þú bogann og örvarnar og munt þú komast í skotfæri við Þorgeir Starkaðarson.”

Gunnar svaraði: “Eyðast munu fésjóðarnir um það er þessir eru bættir er hér liggja nú dauðir.”

“Ekki mun þér féfátt verða,” sagði Kolskeggur, “en Þorgeir mun eigi fyrr af láta en hann ræður þér bana.”

“Standa munu nokkurir hans makar á götu minni áður en eg hræðist þá,” segir Gunnar.

Síðan ríða þeir heim og segja tíðindin. Hallgerður fagnaði þessum tíðindum og lofaði mjög verkið.

Rannveig mælti: “Vera má að gott sé verkið en verra verður mér við en eg ætli að gott muni af leiða.”


Eini tindurinn sem ekki var klifinn... þarna var leið upp... en við slepptum henni samt og ypptum bara öxlum með augum á næsta tindi.

75. kafli
"Fögur er hlíðin"...

Þráinn Sigfússon sagði það konu sinni að hann ætlaði að fara utan það sumar. Hún kvað það vel vera. Tók hann sér þá fari með Högna hinum hvíta. Gunnar tók sér fari með Arnfinni hinum víkverska og Kolskeggur bróðir hans.

Þeir Grímur og Helgi Njálssynir báðu föður sinn að hann leyfði þeim að fara utan.

Njáll mælti: “Erfið mun ykkur verða utanferð sjá svo að tvísýnt mun ykkur verða þykja hvort þið haldið lífinu en þó munuð þið fá sæmd í sumu og mannvirðing en eigi örvænt að af leiði vandræði er þið komið út.”

Þeir báðu jafnan að fara og það varð að hann bað þá fara ef þeir vildu. Réðu þeir sér þá far með Bárði svarta og Ólafi syni Ketils úr Eldu. Og er nú mikil umræða á að mjög leysist á braut hinir betri menn úr sveitinni.

Þeir voru þá frumvaxta synir Gunnars, Högni og Grani. Þeir voru menn óskaplíkir. Hafði Grani mikið af skaplyndi móður sinnar en Högni var vel að sér.

Gunnar lætur flytja vöru þeirra bræðra til skips. Og þá er öll föng Gunnars voru til skips komin og skip var mjög búið þá ríður Gunnar til Bergþórshvols og á aðra bæi að finna menn og þakkaði liðveislu öllum þeim er honum höfðu lið veitt.

Annan dag eftir býr hann snemmendis ferð sína til skips og sagði þá öllu liði að hann mundi ríða í braut alfari og þótti mönnum það mikið en væntu þó tilkomu hans síðar. Gunnar hverfur til allra heimamanna sinna er hann var búinn og gengu menn út með honum allir. Hann stingur niður atgeirinum og stiklar í söðulinn og ríða þeir Kolskeggur í braut. Þeir ríða fram að Markarfljóti. Þá drap hestur Gunnars fæti og stökk hann af baki.

Honum varð litið upp til hlíðarinnar og bæjarins að Hlíðarenda. Þá mælti hann: “Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.”

“Ger þú eigi þann óvinafagnað,” segir Kolskeggur, “að þú rjúfir sætt þína því að þér mundi engi maður það ætla. Og munt þú það ætla mega að svo mun allt fara sem Njáll hefir sagt.”

“Hvergi mun eg fara,” segir Gunnar, “og svo vildi eg að þú gerðir.”

“Eigi skal það,” segir Kolskeggur, “hvorki skal eg á þessu níðast og á engu öðru því er mér er til trúað og mun sjá einn hlutur svo vera að skilja mun með okkur en seg það móður minni og frændum mínum að eg ætla ekki að sjá Ísland því að eg mun spyrja þig látinn frændi og heldur mig þá ekki til útferðar.”

Skilur þá með þeim. Ríður Gunnar heim til Hlíðarenda en Kolskeggur ríður til skips og fer utan.

Hallgerður var fegin Gunnari er hann kom heim en móðir hans lagði fátt til. Gunnar situr nú heima þetta haust og veturinn og hafði ekki margt manna um sig. Líður nú vetur úr garði.

Ólafur pái sendi Gunnari mann og bað hann fara vestur þangað og Hallgerði en fá bú í hendur móður sinni og Högna syni sínum. Gunnari þótti það fýsilegt fyrst og játaði því en þá er að kom þá vildi hann eigi.

En á þingi um sumarið lýsa þeir Gissur sekt Gunnars að Lögbergi. En áður þinglausnir voru stefndi Gissur öllum óvinum Gunnars í Almannagjá: Starkaði undan Þríhyrningi og Þorgeiri syni hans, Merði og Valgarði hinum grá, Geir goða og Hjalta Skeggjasyni, Þorbrandi og Ásbrandi Þorleikssonum, Eilífi og Önundi syni hans, Önundi úr Tröllaskógi, Þorgrími austmanni úr Sandgili.

Gissur mælti: “Eg vil bjóða yður að vér förum að Gunnari í sumar og drepum hann.”

Hjalti mælti: “Því hét eg Gunnari hér á þingi þá er hann gerði mest fyrir mín orð að eg skyldi aldrei vera í aðförum við hann og skal svo vera.”

Síðan gekk Hjalti í braut en þeir réðu aðför við Gunnar er eftir voru og höfðu handtak að og lögðu við sekt ef nokkur gengi úr. Mörður skyldi halda njósnum til nær best gæfi færi á Gunnari og voru þeir fjórir tigir manna í þessu sambandi. Þótti þeim sér nú lítið mundu fyrir verða að veiða Gunnar er í brautu var Kolskeggur og Þráinn og margir aðrir vinir Gunnars. Riðu menn heim af þingi.

Njáll fór að finna Gunnar og sagði honum sekt hans og ráðna aðför við hann.

“Vel þykir mér þér fara,” sagði Gunnar, “er þú gerir mig varan við.”

“Nú vil eg,” segir Njáll, “að Skarphéðinn fari til þín og Höskuldur sonur minn og munu þeir leggja sitt líf við þitt líf.”

“Eigi vil eg það,” segir Gunnar, “að synir þínir séu drepnir fyrir mínar sakar og átt þú annað að mér.”

“Fyrir ekki mun það koma,” sagði Njáll. “Þangað mun snúið vandræðum þá er þú ert látinn sem synir mínir eru.”

“Eigi er það ólíklegt,” segir Gunnar, “en eigi vildi eg að það hlytist af mér til. En þess vil eg biðja þig og yður feðga að þér sjáið á með Högna syni mínum. En eg tala þar ekki til er Grani er því að hann gerir margt ekki að mínu skapi.”

Njáll hét því og reið heim.

Það er sagt að Gunnar reið til allra mannfunda og lögþinga og þorðu aldrei óvinir hans á hann að ráða. Fór svo fram nokkura hríð að hann fór sem ósekur maður.

76. kafli
Sámur veginn...

Um haustið sendi Mörður Valgarðsson orð að Gunnar mundi vera einn heima en lið allt mundi vera niðri í Eyjum að lúka heyverkum. Riðu þeir Gissur hvíti og Geir goði austur yfir ár þegar þeir spurðu það og austur yfir sanda til Hofs. Þá sendu þeir orð Starkaði undir Þríhyrningi. Og fundust þeir þar allir er að Gunnari skyldu fara og réðu hversu þeir skyldu með fara.

Mörður sagði að þeir mundu eigi koma á óvart Gunnari nema þeir tækju bónda af næsta bæ er Þorkell hét og létu hann fara nauðgan með sér að taka hundinn Sám og færi hann einn heim á bæinn.

Fóru þeir síðan austur til Hlíðarenda en sendu menn að fara eftir Þorkatli. Þeir tóku hann höndum og gerðu honum tvo kosti, að þeir mundu drepa hann ella skyldi hann taka hundinn en hann kjöri heldur að leysa líf sitt og fór með þeim. Traðir voru fyrir ofan garðinn að Hlíðarenda og námu þeir þar staðar með flokkinn. Þorkell bóndi gekk heim á bæinn og lá rakkinn á húsum uppi og teygir hann rakkann á braut í geilarnar með sér. Í því sér hundurinn að þar eru menn fyrir og hleypur á hann Þorkel upp og grípur nárann og rífur þar á hol. Önundur úr Tröllaskógi hjó með öxi í höfuð hundinum svo að allt kom í heilann. Hundurinn kvað við hátt svo að það þótti þeim með ódæmum miklum vera og féll hann dauður niður.


Stórbrotið landslag Þríhyrnings í smáatriðum.

77. kafli
Banavíg Gunnar...

Gunnar vaknaði í skálanum og mælti: “Sárt ert þú leikinn Sámur fóstri og búið svo sé til ætlað að skammt skuli okkar í meðal.”

Skáli Gunnars var ger af viði einum og súðþaktur utan og gluggar hjá brúnásunum og snúin þar fyrir speld. Gunnar svaf í lofti einu í skálanum og Hallgerður og móðir hans.

En er þeir komu að bænum vissu þeir eigi hvort Gunnar mundi heima vera. Gissur mælti að nokkur skyldi fara heim á húsin og vita hvað af kannaði en þeir settust niður á völlinn meðan. Þorgrímur austmaður gekk upp á skálann. Gunnar sér að rauðan kyrtil ber við glugginum og leggur út með atgeirinum á hann miðjan. Þorgrími skruppu fæturnir og varð laus skjöldurinn og hrataði hann ofan af þekjunni. Gengur hann síðan að þeim Gissuri þar er þeir sátu á vellinum.

Gissur leit við honum og mælti: “Hvort er Gunnar heima?”

“Vitið þér það en hitt vissi eg að atgeir hans var heima.” segir Austmaðurinn.

Féll hann þá niður dauður. Þeir sóttu þá heim að húsunum. Gunnar skaut út örum að þeim og varðist vel og gátu þeir ekki að gert. Þá hljópu sumir á húsin upp og ætluðu þaðan að að sækja. Gunnar kom þangað að þeim örunum og gátu þeir ekki að gert og fór svo fram um hríð. Þeir tóku hvíld og sóttu að í annað sinn. Gunnar skaut enn út örunum og gátu þeir enn ekki að gert og hrukku frá í annað sinn.

Þá mælti Gissur hvíti: “Sækjum að betur, ekki verður af oss.”

Gerðu þeir þá hríð hina þriðju og voru við lengi. Eftir það hrukku þeir frá.

Gunnar mælti: “Ör liggur þar úti á þekjunni og er sú af þeirra örum og skal eg þeirri skjóta til þeirra. Og er þeim það skömm ef þeir fá geig af vopnum sínum.”

Móðir hans mælti: “Ger þú eigi það son minn að þú vekir þá er þeir hafa áður frá horfið.”

Gunnar þreif örina og skaut til þeirra og kom á Eilíf Önundarson og fékk hann af sár mikið. Hann hafði staðið einn saman og vissu þeir eigi að hann var særður.

“Hönd kom þar út,” segir Gissur, “og var á gullhringur og tók ör er lá á þekjunni og mundi eigi út leitað viðfanga ef gnógt væri inni og skulum vér nú sækja að.”

Mörður mælti: “Brennum vér hann inni.”

“Það skal verða aldrei,” segir Gissur, “þó að eg viti að líf mitt liggi við. Er þér sjálfrátt að leggja til ráð þau er dugi svo slægur maður sem þú ert kallaður.”

Strengir lágu á vellinum og voru hafðir til að festa með hús jafnan.

Mörður mælti: “Tökum vér strengina og berum um ásendana en festum aðra endana um steina og snúum í vindása og vindum af ræfrið af skálanum.”

Þeir tóku strengina og veittu þessa umbúð alla og fann Gunnar eigi fyrr en þeir höfðu undið allt þakið af skálanum. Gunnar skýtur þá af boganum svo að þeir komast aldrei að honum. Þá mælti Mörður í annað sinn að þeir mundu brenna Gunnar inni.

Gissur svarar: “Eigi veit eg hví þú vilt það mæla er engi vill annarra og skal það aldrei verða.”

Í þessu bili hleypur upp á þekjuna Þorbrandur Þorleiksson og höggur í sundur bogastrenginn Gunnars. Gunnar þrífur atgeirinn báðum höndum og snýst að honum skjótt og rekur í gegnum hann atgeirinn og kastar honum dauðum á völlinn. Þá hljóp upp Ásbrandur bróðir hans. Gunnar leggur til hans atgeirinum og kom hann skildi fyrir sig. Atgeirinn renndi í gegn um skjöldinn og svo meðal handleggjanna. Snaraði Gunnar þá svo fast atgeirinn að skjöldurinn klofnaði en brotnuðu báðir handleggirnir og féll hann út af vegginum. Áður hafði Gunnar særða átta menn en vegið þá tvo. Þá fékk Gunnar sár tvö og sögðu það allir menn að hann brygði sér hvorki við sár né við bana.

Hann mælti til Hallgerðar: “Fá mér leppa tvo úr hári þínu og snúið þið móðir mín saman til bogastrengs mér.”

“Liggur þér nokkuð við?” segir hún.

“Líf mitt liggur við,” segir hann, “því að þeir munu mig aldrei fá sóttan meðan eg kem boganum við.”

“Þá skal eg nú,” segir hún, “muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.”

“Hefir hver til síns ágætis nokkuð,” segir Gunnar, “og skal þig þessa eigi lengi biðja.”

Rannveig mælti: “Illa fer þér og mun þín skömm lengi uppi.”

Gunnar varði sig vel og fræknlega og særir nú aðra átta menn svo stórum sárum að mörgum lá við bana. Gunnar ver sig þar til er hann féll af mæði. Þeir særðu hann þá mörgum stórum sárum en þó komst hann úr höndum þeim og varði sig þá enn lengi en þó kom þar að þeir drápu hann.

Um vörn hans orti Þorkell Elfaraskáld í vísu þessi:

Spurðum vér hve varðist
vígmóðr kjalar slóða
glaðstýrandi geiri,
Gunnar, fyrir Kjöl sunnan.
Sóknrýrir vann sára
sextán viðar mána
hríðar herðimeiða
hauðrmens en tvo dauða.

Gissur mælti: “Mikinn öldung höfum vér nú að velli lagt og hefir oss erfitt veitt og mun hans vörn uppi meðan landið er byggt.”

Síðan gekk hann til fundar við Rannveigu og mælti: “Vilt þú veita mönnum vorum tveimur jörð er dauðir eru og séu hér heygðir?”

“Að heldur tveimur,” segir hún, “að eg mundi veita yður öllum.”

“Vorkunn er þér til þess er þú mælir,” segir hann, “því að þú hefir mikils misst” og kvað á að þar skyldi engu ræna og engu spilla. Fóru á braut síðan.

Þá mælti Þorgeir Starkaðarson: “Eigi megum vér vera heima í búum vorum fyrir Sigfússonum nema þú Gissur hvíti eða Geir goði sért suður hér nokkura hríð.”

“Þetta mun svo vera,” segir Gissur og hlutuðu þeir og hlaut Geir eftir að vera.

Síðan fór hann í Odda og settist þar. Hann átti sér son er Hróaldur hét. Hann var laungetinn og hét Bjartey móðir hans og var systir Þorvalds hins veila er veginn var við Hestlæk í Grímsnesi. Hann hrósaði því að hann hefði veitt Gunnari banasár. Hróaldur var í Odda með föður sínum. Þorgeir Starkaðarson hrósaði öðru sári að hann hefði Gunnari veitt. Gissur sat heima að Mosfelli.

Víg Gunnars spurðist og mæltist illa fyrir um allar sveitir og var hann mörgum mönnum mjög harmdauði.


Gengið meðfram næstsíðasta tindinum yfir á þann hæsta.
Tindfjallajökull á hægri hönd en því miður í skýjunum.

78. og 79. kafli
Haugur Gunnars...

Njáll kunni illa láti Gunnars og svo Sigfússynir. Þeir spurðu hvort Njáli þætti nokkuð eiga að lýsa vígsök Gunnars og búa mál til. Hann kvað það ekki mega er maður var sekur orðinn og kvað heldur mundu verða að veita þeim í því vegskarð að vega nokkura í hefnd eftir hann.

Þeir urpu haug eftir Gunnar og létu hann sitja upp í hauginum. Rannveig vildi eigi að atgeirinn færi í hauginn og kvað þann einn skyldu á honum taka er hefna vildi Gunnars. Tók því engi á atgeirinum. Hún var svo hörð við Hallgerði að henni hélt við að hún mundi drepa hana og kvað hana valdið hafa vígi sonar síns. Stökk þá Hallgerður til Grjótár og Grani sonur hennar. Var þá gert féskipti með þeim. Skyldi Högni taka land að Hlíðarenda og bú á en Grani skyldi hafa leigulönd.

Sá atburður varð að Hlíðarenda að smalamaður og griðkona ráku fé hjá haugi Gunnars. Þeim þótti Gunnar vera kátur og kveða í hauginum. Fóru þau heim og sögðu Rannveigu móður Gunnars atburðinn en hún bað þau fara til Bergþórshvols og segja Njáli. Þau gerðu svo en hann lét segja sér þrem sinnum. Eftir það talaði hann lengi hljótt við Skarphéðinn.

Síðan tók Skarphéðinn öxi sína og fer með þeim til Hlíðarenda. Þau Högni og Rannveig tóku við honum allvel og urðu honum fegin mjög. Rannveig bað að hann væri þar lengi. Hann hét því. Þeir Högni gengu út og inn jafnan. Högni var maður vasklegur og vel að sér ger og tortryggur og þorðu þau fyrir því eigi að segja honum fyrirburðinn.

Þeir Skarphéðinn og Högni voru úti eitt kveld og voru fyrir sunnan haug Gunnars. Tunglskin var bjart en stundum dró fyrir. Þeim sýndist haugurinn opinn og hafði Gunnar snúist í hauginum og sá í móti tunglinu. Þeir þóttust sjá fjögur ljós í hauginum brenna og bar hvergi skugga á. Þeir sáu að Gunnar var kátlegur og með gleðibragði miklu. Hann kvað vísu og svo hátt að þó mátti heyra gjörla þó það þeir væru firr:

Mælti döggla deilir,
dáðum rakkr, sá er háði
bjartr með bestu hjarta
benrögn, faðir Högna:
Heldr kvaðst hjálmi faldinn
hjörþilju sjá vilja
vættidraugr en vægja,
val-Freyju stafr, deyja -
og val-Freyju stafr deyja.

Síðan laukst aftur haugurinn.

“Mundir þú trúa,” segir Skarphéðinn, “ef aðrir segðu þér?”

“Trúa mundi eg,” segir Högni, “ef Njáll segði því að það er sagt að hann ljúgi aldrei.”

“Mikið er um fyrirburði slíka,” segir Skarphéðinn, “er hann sjálfur vitraði okkur að hann vildi heldur deyja en vægja fyrir óvinum sínum og kenndi okkur þau ráð.”

“Engu mun eg til leiðar koma,” segir Högni, “nema þú viljir mér að veita.”

“Nú skal eg það muna,” segir Skarphéðinn, “hversu Gunnari fór eftir víg Sigmundar frænda yðvars. Skal eg nú veita þér slíkt er eg má. Hét faðir minn því Gunnari þar er þú ættir hlut að eða móðir hans.”

Gengu þeir síðan heim til Hlíðarenda.


Hæsti tindurinn með Önnu Elínu íforgrunni.

79. kafli
Hefnd Skarphéðins...

Skarphéðinn mælti: “Nú skulum við fara þegar í nótt því að ef þeir spyrja að eg er hér þá munu þeir vera varari um sig.”

“Þínum ráðum vil eg fram fara,” segir Högni.

Eftir það tóku þeir vopn sín þá er allir menn voru í rekkjum. Högni tekur ofan atgeirinn og söng í honum hátt.

Rannveig spratt upp af æði mikilli og mælti: “Hver tekur atgeirinn þar er eg bannaði öllum með að fara?”

“Eg ætla,” segir Högni, “að færa föður mínum og hafi hann til Valhallar og beri þar fram á vopnaþingi.”

“Fyrri munt þú nú bera hann,” segir hún, “og hefna föður þíns því að atgeirinn segir manns bana, eins eða fleiri.”

Síðan gekk Högni út og sagði Skarphéðni orðræðu þeirra ömmu hans.

Síðan fara þeir til Odda. Hrafnar tveir flugu með þeim alla leið. Þeir komu um nóttina í Odda. Þeir ráku fénað heim á húsin. Þá hljóp út Hróaldur og Tjörvi og ráku féið upp í geilarnar og höfðu með sér vopn sín.

Skarphéðinn spratt upp og mælti: “Eigi þarft þú að hyggja að, jafnt er sem þér sýnist, menn eru hér.”

Síðan höggur Skarphéðinn Tjörva banahögg. Hróaldur hafði spjót í hendi. Högni hleypur að honum. Hróaldur leggur til Högna. Högni hjó í sundur spjótskaftið með atgeirinum en rekur atgeirinn í gegnum hann. Síðan gengu þeir frá þeim dauðum og snúa þaðan upp undir Þríhyrning. Skarphéðinn hleypur á hús upp og reytir gras og ætluðu þeir er inni voru að fénaður væri. Tóku þeir feðgar, Starkaður og Þorgeir, vopn sín og klæði og fóru út og hljópu upp um garðinn. En er Starkaður sér Skarphéðinn hræðist hann og vildi aftur snúa. Skarphéðinn höggur hann við garðinum. Þá kemur Högni í mót Þorgeiri og vegur hann með atgeirinum.

Þaðan fara þeir til Hofs og var Mörður á velli úti og bað sér griða og bauð alsætti.

Skarphéðinn sagði Merði víg þeirra fjögurra. “Og slíka för,” segir Skarphéðinn, “skalt þú fara eða selja Högna sjálfdæmi ef hann vill taka.”

Högni kvaðst hitt hafa ætlað að sættast ekki við föðurbana sína en þó tók hann sjálfdæmi um síðir.


Evróvisjónsöngur á tindinum!
 Sigrún, Harpa, Ásta H., Gerður og Helga Björns... létu sko ekki framhjá sér fara tækifæri til að dansa á toppnum!
http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/57/m0n_LwB2nWg
og
http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/56/Ni_20K1v7_M

89. kafli
Kári Sólmundarson og Njálssynir vingast...

Nú er þar til máls að taka er Hákon jarl missti Þráins. Hann mælti þá við Svein son sinn: “Tökum langskip fjögur og förum að Njálssonum og drepum þá því að þeir munu vitað hafa með Þráni.”

“Það er eigi gott ráð,” segir Sveinn, “að snúa sökum á óvalda menn en láta þann undan setja er sökina ber á baki.”

“Eg skal þessu ráða,” segir jarl.

Halda þeir nú eftir Njálssonum og leita þeirra og finna þá undir eyjunni.

Grímur sá fyrst skip jarlsins og mælti til Helga: “Herskip fara hér og kenni eg að hér fer jarl og mun hann oss engan frið bjóða.”

“Það er mælt,” segir Helgi, “að hver sé vaskur er sig ver við hvern sem hann á um. Skulum vér og verja oss.”

Allir báðu hann fyrir sjá. Tóku þeir þá vopn sín.

Jarl kemur nú að og kallaði á þá og bað þá upp gefast. Helgi svarar að þeir mundu verjast meðan þeir mættu. Jarl bauð öllum grið, þeim er eigi vildu verja hann, en svo var Helgi vinsæll að allir vildu heldur deyja með honum. Jarl sækir nú að og hans menn en hinir verjast vel og voru þeir Njálssynir þar jafnan sem mest var raunin. Jarl bauð þeim oft griðin. Þeir svöruðu jafnan hinu sama og kváðust aldrei upp skyldu gefast. Þá sótti að þeim fast Áslákur úr Langeyju, lendur maður jarls, og komst upp á skipið þremur sinnum.

Þá mælti Grímur: “Þú sækir fast að og væri vel að þú hefðir erindi.”

Grímur þreif þá upp spjót og skaut undir kverk Ásláki og hafði hann þegar bana. Litlu síðar vó Helgi Egil merkismann jarls. Þá sótti að Sveinn Hákonarson og lét bera að þeim skjöldu og urðu þeir þá handteknir báðir Njálssynir.

Jarl vildi þegar láta drepa þá en Sveinn kvað það eigi skyldu og sagði að væri nótt.

Þá mælti jarl: “Drepið þá á morgun en bindið þá rammlega í nótt.”

“Svo mun vera verða,” segir Sveinn, “en eigi hefi eg vaskari menn fyrir fundið en þessa og er það hinn mesti mannskaði að taka þá af lífi.”

Jarl mælti: “Þeir hafa drepið tvo hina vöskustu vora menn og skulum vér þeirra svo hefna að þessa skal drepa.”

“Menn voru þeir að vaskari,” segir Sveinn, “en þó mun þetta gera verða sem þú vilt.”

Voru þeir þá bundnir og fjötraðir.

Eftir það sofnaði jarl og hans menn. En er þeir voru sofnaðir mælti Grímur til Helga: “Braut vildi eg komast ef eg mætti.”

“Leitum í nokkurra bragða þá,” segir Helgi.

Grímur segir að þar nær honum liggur öx og horfir upp eggin. Grímur skreið þangað til og fær skorið af sér bogastrenginn við öxinni en þó fékk hann sár mikil í höndunum. Þá leysti hann Helga. Eftir það skreiddust þeir fyrir borð og komust á land svo að þeir jarl urðu ekki varir við. Þeir brutu af sér fjötrana og gengu annan veg á eyna. Tók þá að morgna. Þeir fundu þar skip og kenndu að þar var kominn Kári Sölmundarson. Fóru þeir þegar á fund hans og sögðu honum hrakning sína og sýndu honum sár sín og kváðu þá mundi jarl í svefni.

Kári mælti: “Illa verður slíkt er þeir skulu taka hrakningar fyrir vonda menn er saklausir eru eða hvað er nú gert næst skapi ykkru?”

“Fara að jarli,” sögðu þeir, “og drepa hann.”

“Ekki mun oss þess auðið verða.” segir Kári, “en ekki skortir ykkur áhuga. En þó skulum vér vita hvort hann er þar nú.”

Síðan fóru þeir þangað og var þá jarl í brautu.

Þá fór Kári inn til Hlaða á fund jarls og færði honum skatta sína.

Jarl mælti: “Hefir þú tekið Njálssonu til þín?”

“Svo er víst,” segir Kári.

“Vilt þú selja mér þá?” segir jarl.

“Það vil eg eigi,” sagði Kári.

“Vilt þú sverja þess að þú vildir eigi að mér fara eftir?” segir jarl.

Þá mælti Eiríkur jarlsson: “Ekki er slíks að leita. Hefir Kári jafnan verið vinur vor. Og skyldi eigi svo farið hafa ef eg hefði við verið. Njálssynir skyldu öllu hafa haldið heilu en hinir skyldu hafa haft refsing er til höfðu gert. Þætti mér nú sannlegra að gefa Njálssonum sæmilegar gjafar fyrir hrakningar þær er þeir hafa haft og sárafar.”

Jarl mælti: “Svo mundi vera víst en eigi veit eg hvort þeir munu taka vilja sættir.”

Þá mælti jarl við Kára að hann skyldi leita um sættir við þá Njálssonu. Síðan ræddi Kári við Helga hvort hann vildi taka sæmdir af jarli.

Helgi svaraði: “Taka vil eg af syni hans, Eiríki, en eg vil ekki eiga um við jarl.”

Þá segir Kári Eiríki svör þeirra bræðra.

“Svo skal þá vera,” segir Eiríkur, “að þeir skulu af mér taka sæmdina ef þeim þykir það betra og segið þeim það að eg býð þeim til mín og skal faðir minn ekki mein gera þeim.”

Þetta þágu þeir og fóru til Eiríks og voru með honum þar til er Kári var búinn vestur að sigla. Þá gerði Eiríkur Kára veislu og gaf honum góðar gjafar og svo Njálssonum.

Síðan fóru þeir Kári vestur um haf á fund Sigurðar jarls og tók hann við þeim allvel og voru með jarli um veturinn.

En um vorið bað Kári Njálssonu að þeir færu í hernað með honum en Grímur kveðst það mundu gera ef hann vildi þá fara með þeim til Íslands. Kári hét því. Fóru þeir þá með honum í hernað. Þeir herjuðu suður um Öngulseyjar og allar Suðureyjar. Þá héldu þeir til Saltíris og gengu þar upp og börðust við landsmenn og fengu þar fé mikið og fóru til skipa. Þaðan fóru þeir suður til Bretlands og herjuðu þar. Þá héldu þeir til Manar. Þar mættu þeir Guðröði konungi úr Mön og börðust þeir við hann og höfðu sigur og drápu Dungal son konungs. Þar tóku þeir fé mikið. Þaðan héldu þeir norður til Kolu og fundu þar Gilla jarl og tók hann við þeim vel og dvöldust þeir með honum nokkura hríð. Jarl fór með þeim til Orkneyja á fund Sigurðar jarls. En um vorið gifti Sigurður jarl Gilla jarli Nereiði systur sína. Fór hann þá í Suðureyjar.


Droplaug, Snædís, Hermann, Jórunn, Árni, Hildur V., Hjölli, Sigrún, Örn, Ásta H., Leifur.
Helga Bj., Anna Alín, Gerður, harpa, Auður, Halldóra Þ., og Bára tók mynd.
Glensið er alldrei langt undan...

91. kafli
Njálssynir...

Hrappur átti bú á Hrappstöðum en þó var hann jafnan að Grjótá og þótti hann þar öllu spilla. Þráinn var vel til hans.

Einu hverju sinni var það þá er Ketill úr Mörk var að Bergþórshvoli, þá sögðu Njálssynir frá hrakningum sínum og kváðust mikið eiga að heimta að Þráni nær sem þeir töluðu til. Njáll sagði að það væri best að Ketill talaði til við Þráin bróður sinn.

Hann hét því. Gáfu þeir Katli tómstund til að tala við Þráin.

Litlu síðar innti Ketill til við Þráin. Njálssynir fréttu Ketil en hann kveðst fátt mundu frá herma orðum þeirra “en það fannst á að Þráni þótti eg mikils virða mágsemd við yður.”

Síðan hættu þeir talinu og þóttust þeir sjá að erfiðlega horfði og spurðu föður sinn ráðs hversu með skyldi fara, kváðust eigi una að svo búið stæði.

Njáll svaraði: “Eigi er slíkt svo óvant. Það mun þykja um sakleysi ef þeir eru drepnir og er það mitt ráð að skjóta að sem flestum um að tala við þá, að sem flestum verði heyrinkunnigt ef þeir svara illa og skal Kári um tala því að hann er skapdeildarmaður. Mun þá vaxa óþokki með yður því að þeir munu hlaða illyrðum saman er menn eiga hlut að. Þeir eru menn heimskir. Það kann og vera að mælt sé að synir mínir séu seinir til aðgerða og skuluð þér það þola um stundarsakir því að allt orkar tvímælis þá er gert er. En svo fremi skuluð þér orði á koma er þér ætlið nokkuð að að gera ef yðvar er illa leitað. En ef þér hefðuð við mig um ráðið í fyrstu þá mundi aldrei orði á hafa verið komið og mundi yður þá engi svívirðing að verða. En nú hafið þér af hina mestu raun og mun það þó svo aukanda fara um yðra svívirðing að þér munuð ekki fá að gert fyrr en þér leggið vandræði á yður og vegið með vopnum og er því langa nót til að draga.”

Eftir það hættu þeir talinu og varð hér margs manna umræða á.

Einu hverju sinni var það að þeir bræður töluðu til að Kári mundi fara til Grjótár. Kári kveðst önnur ferð þykja betri en þó læst hann fara mundu við það er þetta voru ráð Njáls. Síðan fer Kári til fundar við Þráin. Tala þeir þá um málið og þykir þeim eigi einn veg báðum. Kári kemur heim og spyrja Njálssynir hversu orð fóru með þeim Þráni.

Kári kvaðst ekki herma mundu orð þeirra “því að mér er von að mælt sé slíkt svo að þér heyrið.”

Þráinn hafði sextán karla víga á bæ sínum og riðu átta með honum hvert er hann fór. Þráinn var skrautmenni mikið. Hann reið jafnan í blárri kápu og hafði gylltan hjálm og spjót í hendi jarlsnaut og fagran skjöld og gyrður sverði. Með honum var jafnan í för Gunnar Lambason og Lambi Sigurðarson og Grani son Gunnars frá Hlíðarenda. Víga-Hrappur gekk honum þó næst jafnan. Loðinn hét og heimamaður hans. Hann var og í ferðum með Þráni. Tjörvi hét bróðir Loðins er enn var í ferðum með Þráni. Þeir lögðu verst til þeirra Njálssona Víga-Hrappur og Grani Gunnarsson og ollu því mest er þeim var engi sæmd ger eða boðin.

Synir Njáls ræddu nú um við Kára að hann mundi fara með þeim til Grjótár. Og það gerði hann og kvað það vel að þeir heyrðu svör Þráins. Bjuggust þeir þá fjórir Njálssynir og Kári hinn fimmti. Þeir fara til Grjótár. Þar var anddyri breitt og máttu margir menn standa jafnfram.

Kona ein var úti og sá ferð þeirra og segir Þráni. Hann bað menn ganga í anddyrið og taka vopn sín. Þeir gerðu svo. Stóð Þráinn í miðjum dyrum en þeir stóðu til sinnar handar hvor Víga-Hrappur og Grani Gunnarsson, þar næst Gunnar Lambason, þá Loðinn og Tjörvi, þá Lambi Sigurðarson, þá hver að hendi því að karlar voru allir heima.

Þeir Skarphéðinn ganga að neðan og gekk hann fyrstur, þá Kári, þá Höskuldur, þá Grímur, þá Helgi. En er þeir koma að dyrunum féllust þeim allar kveðjur er fyrir voru.

Þá mælti Skarphéðinn: “Allir séum vér velkomnir.”

Hallgerður stóð í anddyrinu og hafði talað hljótt við Hrapp. Hún mælti: “Það mun engi mæla sá er fyrir er að þér séuð velkomnir.”

Skarphéðinn mælti: “Ekki munu mega orð þín því að þú ert annaðhvort hornkerling eða púta.”

“Goldin skulu þér þessi orð áður þú ferð heim,” segir Hallgerður.

Helgi mælti: “Þig er eg kominn að finna Þráinn ef þú vilt gera mér sæmd nokkura fyrir hrakningar þær er eg hlaut í Noregi fyrir þínar sakir.”

Þráinn mælti: “Aldrei vissi eg að þið bræður munduð gera drengskap ykkarn til fjár eða hversu lengi skal fjárbón sjá yfir standa?”

“Það munu margir mæla,” segir Helgi, “að þú ættir að bjóða sæmdina þar sem líf þitt lá við.”

Þá mælti Hrappur: “Þar gerði nú gæfumuninn er sá hlaut skellinn er skyldi og dró yður undir hrakningina en oss undan.”

“Lítil var það gæfa,” segir Helgi “að bregða trúnaði sínum við jarl en taka þig við.”

“Þykist þú eigi að mér eiga bótina?” segir Hrappur. “Eg mun bæta þér því sem mér þykir maklegt.”

“Þau ein skipti munum við við eigast,” segir Helgi, “að þér mun ekki betur gegna.”

Skarphéðinn mælti: “Skiptið ekki orðum við Hrapp en gjaldið honum rauðan belg fyrir grán.”

Hrappur mælti: “Þegi þú Skarphéðinn, ekki skal eg spara að bera mína öxi að höfði þér.”

“Reynt mun slíkt verða,” segir Skarphéðinn, “hver grjóti hleður að höfði öðrum.”

“Farið heim taðskegglingar,” segir Hallgerður, “og munum vér yður svo jafnan kalla héðan í frá en föður yðvarn karl hinn skegglausa.”

Þeir fóru eigi fyrr heim en allir urðu sekir þessa orða, þeir er fyrir voru, nema Þráinn. Hann þekti menn af orðum þessum.

Þeir fóru í braut Njálssynir og fóru þar til er þeir komu heim. Þeir sögðu föður sínum.

“Nefnduð þér nokkura votta að orðunum?” segir Njáll.

“Enga,” sagði Skarphéðinn, “vér ætlum ekki að sækja þetta nema á vopnaþingi.”

“Það mun engi nú ætla,” segir Bergþóra, “að þér þorið handa að hefja.”

“Haf þú lítinn við húsfreyja,” segir Kári, “að eggja sonu þína því að þeir munu þó ærið framgjarnir.”

Eftir það tala þeir lengi hljótt allir feðgar og Kári.


Ofan af hæsta tindi var snúið við með tindaröðina í fjarska að baki.

93. kafli
Sættir Ketils...

Ketill í Mörk átti Þorgerði dóttur Njáls sem fyrr var sagt en var bróðir Þráins og þóttist hann við vant um kominn. Hann reið til Njáls og spurði hvort hann vildi nokkuð bæta víg Þráins.

Njáll svaraði: “Bæta vil eg svo að vel sé. Og vil eg að þú leitir þess við bræður þína þá er bauga eiga að taka að þeir taki sættum.”

Ketill kvaðst það vildu gera gjarna. Var það þá ráð þeirra að Ketill skyldi fara og finna þá alla er gjöld áttu að taka og koma á griðum. Síðan reið Ketill heim.

Ketill fer nú að finna bræður sína og stefndi þeim öllum saman til Hlíðarenda. Tekur hann þar umræðu við þá og var Högni með honum í allri umræðu og kom svo að menn voru til gerðar teknir og lagður til fundur og voru ger manngjöld fyrir víg Þráins og tóku þeir allir við bótum sem lög stóðu til. Síðan var mælt fyrir tryggðum og búið um sem trúlegast. Greiddi Njáll fé allt af hendi vel og skörulega. Var þá kyrrt um stund.

Einu hverju sinni reið Njáll upp í Mörk og töluðu þeir Ketill dag allan. Reið Njáll heim um kveldið og vissi engi maður hvað í ráðagerð hafði verið.

Litlu síðar fór Ketill til Grjótár. Hann mælti til Þorgerðar: “Lengi hefi eg mikið unnt Þráni bróður mínum. Mun eg enn það sýna því að eg vil bjóða til fósturs Höskuldi syni Þráins.”

“Gera skal þér kost á þessu,” segir hún. “Þú skalt veita þessum sveini allt það er þú mátt þá er hann er roskinn og hefna hans ef hann er með vopnum veginn og leggja fé til kvonarmundar honum og skalt þú þetta allt sverja.”

Hann játtaði þessu öllu. Fer Höskuldur nú heim með Katli og er með honum nokkura hríð.


Komið við á syðri hryggnum í bakaleiðinni með öðruvísi útsýni en af norðurbrúnum.

94. kafli
Njáll býður Höskuldi fóstur...

Einu hverju sinni ríður Njáll upp í Mörk og var tekið við honum vel og var hann þar um nóttina. Um kveldið gekk sveinninn að honum og kallaði Njáll á hann. Gekk hann þegar til hans. Njáll hafði fingurgull á hendi og sýndi sveininum. Sveinninn tók við gullinu og hugði að og dró á fingur sér.

Njáll mælti: “Vilt þú þiggja gullið að gjöf?”

“Þiggja vil eg víst,” segir sveinninn.

“Veist þú,” segir Njáll, “hvað föður þínum varð að bana?”

Sveinninn svarar: “Veit eg að Skarphéðinn vó hann og þurfum við ekki á það að minnast er sæst hefir á verið og fullar bætur hafa fyrir komið.”

“Betur er svarað,” segir Njáll, “en eg spurði og munt þú verða góður maður.”

“Góðar þykja mér spásögur þínar,” segir Höskuldur, “því að eg veit að þú ert forspár og ólyginn.”

Njáll mælti: “Nú vil eg bjóða þér fóstur ef þú vilt þiggja.”

Höskuldur kvaðst þiggja vilja bæði þann góða og annan þann sem hann gerði honum. Urðu þær málalyktir að Höskuldur fór heim með Njáli til fósturs. Hann lét sveininum ekki í mein og unni mikið. Synir Njáls leiddu hann eftir sér og gerðu honum allt til sóma.

Nú líður þar til er Höskuldur er frumvaxti. Hann var bæði mikill og sterkur, manna fríðastur sýnum og hærður vel, manna best vígur, blíður í máli, örlátur, stilltur vel, orðgóður til allra manna og vinsæll. Njálssonu og Höskuld skildu hvorki á orð né verk.


Vestmannaeyjar jafn tignarlegar og Snædís, Droplaug og Hildur Vals.

95. kafli
Maður er nefndur Flosi...
(Flosatindur í höfuð hans á Kálfstindum úr Njálssögu - flóttinn undan Kára síðar í sögunni).

Maður er nefndur Flosi. Hann var sonur Þórðar Freysgoða, Össurarsonar, Ásbjarnarsonar, Heyjangurs-Bjarnarsonar, Helgasonar, Bjarnarsonar bunu. Móðir Flosa var Ingunn dóttir Þóris af Espihóli, Hámundarsonar heljarskinns, Hjörssonar, Hálfssonar konungs er réð fyrir Hálfsrekkum, Hjörleifssonar hins kvensama. Móðir Þóris var Ingunn dóttir Helga hins magra er nam Eyjafjörð. Flosi átti Steinvöru dóttur Halls af Síðu. Hún var laungetin og hét Salvör móðir hennar, dóttir Herjólfs hins hvíta.

Flosi bjó að Svínafelli og var höfðingi mikill. Hann var mikill vexti og styrkur, manna kappsamastur.

Bróðir hans hét Starkaður. Hann var eigi sammæðra við Flosa. Móðir Starkaðar var Þraslaug dóttir Þorsteins tittlings Geirleifssonar en móðir Þraslaugar var Unnur dóttir Eyvindar karfa landnámamanns og systir Móðólfs hins spaka. Bræður Flosa voru þeir Þorgeir og Steinn, Kolbeinn og Egill.

Hildigunnur hét dóttir Starkaðar bróður Flosa. Hún var skörungur mikill og kvenna fríðust sýnum. Hún var svo hög að fár konur voru jafn hagar. Hún var allra kvenna grimmust og skaphörðust en drengur góður þar sem vel skyldi vera.


Suðurhnúkur með hálendið í baksýn skyjum hulið að mestu, því miður.

96. kafli
Hallur hét maður er kallaður var Síðu-Hallur...

Hallur hét maður er kallaður var Síðu-Hallur. Hann var Þorsteinsson Böðvarssonar. Móðir Halls hét Þórdís og var Össurardóttir, Hróðlaugssonar, Rögnvaldssonar jarls af Mæri, Eysteinssonar glumru. Hallur átti Jóreiði Þiðrandadóttur hins spaka, Ketilssonar þryms, Þórissonar þiðranda úr Veradal. Bróðir Jóreiðar var Ketill þrymur í Njarðvík og Þorvaldur faðir Helga Droplaugarsonar. Hallkatla var systir Jóreiðar, móðir Þorkels Geitissonar og þeirra Þiðranda. Þorsteinn hét bróðir Halls og var kallaður breiðmagi. Son hans var Kolur er Kári vegur í Bretlandi. Synir Halls af Síðu voru þeir Þorsteinn og Egill, Þorvarður og Ljótur og Þiðrandi sá er drápu dísir.

Þórir hét maður og var kallaður Holta-Þórir. Hans synir voru þeir Þorgeir skorargeir og Þorleifur krákur og Þorgrímur hinn mikli.


Niður suðurhrygginn að Katrínargili.

97.kafli
Höskuldur hvítanessgoði og Hildugunnur...

Nú er þar til máls að taka að Njáll talaði við Höskuld fóstra sinn: “Ráðs vildi eg þér leita fóstri og kvonfangs.”

Höskuldi kveðst það vel að skapi og bað hann fyrir sjá “eða hvar vilt þú helst á leita?”

Njáll svarar: “Kona heitir Hildigunnur og er Starkaðardóttir Þórðarsonar Freysgoða. Þann veit eg kost bestan.”

Höskuldur mælti: “Sjá þú einn fyrir fóstri minn. Það skal mitt ráð sem þú vilt vera láta.”

“Hér munum við á leita,” segir Njáll.

Litlu síðar kvaddi Njáll menn til ferðar með sér. Fóru þeir Sigfússynir og synir Njáls allir og Kári Sölmundarson. Þeir ríða austur til Svínafells. Fá þeir þar góðar viðtökur.

Um daginn eftir ganga þeir Njáll of Flosi á tal.

Þar koma niður ræður Njáls að hann segir svo: “Það er erindi mitt hingað að vér förum bónorðsför og mælum til mægða við þig Flosi en til eiginorðs við Hildigunni bróðurdóttur þína.”

“Fyrir hvers hönd?” segir Flosi.

“Fyrir hönd Höskulds Þráinssonar fóstra míns,” segir Njáll.

“Vel er slíkt stofnað,” segir Flosi, “en þó hafið þér mikið í hættu hvorir við aðra eða hvað segir þú frá Höskuldi?”

“Gott má eg frá honum segja,” segir Njáll, “og skal eg svo fé til leggja að yður þyki sæmilega ef þér viljið þetta mál að álitum gera.”

“Kalla munum vér á hana,” segir Flosi, “og vita hversu henni lítist maðurinn.”

Var þá sent eftir henni og kom hún þangað.

Flosi segir henni bónorðið.

Hún kvaðst vera kona skapstór “og veit eg eigi hversu mér er hent við það er þar eru svo menn fyrir en það þó eigi síður að sjá maður hefir ekki mannaforráð. Og hefir þú það mælt að þú mundir eigi gifta mig goðorðslausum manni.”

“Það er ærið eitt til,” segir Flosi, “ef þú vilt eigi giftast Höskuldi að þá mun eg engan kost á gera.”

“Það mæli eg eigi,” segir hún, “að eg vilji eigi giftast Höskuldi ef þeir fá honum mannaforráð. En ellegar mun eg engan kost á gera.”

Njáll mælti: “Þá vil eg bíða láta mín um þetta mál þrjá vetur.”

Flosi svaraði að svo skyldi vera.

“Þann hlut vildi eg til skilja,” segir Hildigunnur, “ef þessi ráð tækjust að við værum austur hér.”

Njáll kvaðst það vilja skilja undir Höskuld en Höskuldur kvaðst mörgum vel trúa en engum betur en fóstra sínum.

Nú ríða þeir austan.

Njáll leitaði Höskuldi um mannaforráð og vildi engi selja sitt goðorð.

Líður nú sumarið til Alþingis. Þetta sumar voru þingdeildir miklar. Gerði þá margur sem vant var að fara til fundar við Njál en hann lagði það til mála manna sem ekki þótti líklegt að eyddust sóknir og varð af því þræta mikil er málin máttu eigi lúkast og riðu menn heim af þingi ósáttir.

Líður nú þar til er kemur annað þing. Njáll reið til þings. Og er fyrst kyrrt þingið allt þar til er Njáll talar að mönnum væri mál að lýsa sökum sínum.

Margir mæltu að til lítils þætti það koma er engi kæmi sínu máli fram þó að til alþingis væri stefnt “og viljum vér heldur,” segja þeir, “heimta vort mál með oddi og eggju.”

“Svo má eigi vera,” segir Njáll, “og hlýðir það hvergi að hafa eigi lög í landi. En þó hafið þér mikið til yðvars máls um það og kemur það til vor er lögin kunnum og þeim skulum stýra. Þykir mér það ráð að vér köllumst saman allir höfðingjar og tölum um.”

Þeir gengu þá til lögréttu.

Njáll mælti: “Þig kveð eg að þessu Skafti Þóroddsson og aðra höfðingja að mér þykir sem málum vorum sé komið í ónýtt efni ef vér skulum sækja mál í fjórðungsdómum og verði svo vafið að eigi megi lúkast né fram ganga. Þykir mér það ráðlegast að vér ættum hinn fimmta dóm og sæktum þar þau mál er eigi mega lúkast í fjórðungsdómi.”

“Hversu skalt þú,” sagði Skafti, “nefna fimmtardóminn, er fyrir forn goðorð er nefndur fjóðungsdómur, þrennar tylftir úr fjórðungi hverjum?”

“Sjá mun eg ráð til þess,” segir Njáll, “að taka upp ný goðorð, þeir er best eru til fallnir úr fjórðungi hverjum, og segist þeir í þing með þeim er það vilja.”

“Þennan kost viljum vér,” segir Skafti, “eða hversu vandar sóknir skulu hér vera?”

“Þau mál skulu hér í koma,” segir Njáll, “um alla þingsafglöpun ef menn bera ljúgvitni eða ljúgkviðu. Hér skulu og í koma vefangsmál öll þau er menn vefengja í fjórðungsdómi og skal þeim stefna til fimmtardóms. Svo og ef menn bjóða fé eða taka fé til liðs sér og innihafnir þræla eða skuldarmanna. Í þessum dómi skulu vera allir hinir styrkjustu eiðar og fylgja tveir menn hverjum eiði er það skulu leggja undir þegnskap sinn er hinir sverja. Svo skal og ef annar fer með rétt mál en annar með rangt, þá skal eftir þeim dæma er rétt fara að sókn. Hér skal og sækja hvert mál sem í fjóðungsdómi utan það er nefndar eru fernar tylftir í fimmtardóm, þá skal sækjandi nefna sex menn úr dómi en verjandi aðra sex. En ef hann vill eigi úr nefna þá skal sækjandi nefna þá úr sem hina sem verjandi átti. En ef sækjandi nefnir eigi úr þá er ónýtt málið því að þrennar tylftir skulu um dæma. Vér skulum og hafa þá lögréttuskipun að þeir er sitja á miðjum pöllum skulu réttir að ráða fyrir lofum og lögum og skal þá velja til þess er vitrastir eru og best að sér. Þar skal og vera fimmtardómur. En ef þeir verða eigi á sáttir er í lögréttu sitja hvað þeir vilja lofa eða í lög leiða, þá skulu þeir ryðja lögréttu til og skal ráða afl með þeim. En ef sá er nokkur fyrir utan lögréttu að eigi nái inn að ganga eða þykist borinn vera máli þá skal hann verja lýriti svo að heyri í lögréttu og hefir hann þá ónýtt fyrir þeim öll lof þeirra og allt það er þeir mæltu til lögskila og varði lýriti.”

Eftir það leiddi Skafti Þóroddsson í lög fimmtardóm og allt þetta er nú var talið. Eftir það gengu menn til Lögbergs. Tóku menn þá upp ný goðorð. Í Norðlendingafjórðungi voru þessi ný goðorð: Melmannagoðorð í Miðfirði og Laufæsingagoðorð í Eyjafirði.

Þá kvaddi Njáll sér hljóðs og mælti: “Það er mörgum mönnum kunnigt hversu farið hefir með oss sonum mínum og Grjótármönnum að þeir drápu Þráin Sigfússon en var sæst á málið og eg tók við Höskuldi syni Þráins. Hefi eg nú ráðið honum kvonfang ef hann fær goðorð nokkuð en engi vill selja sitt goðorð. Vil eg nú biðja yður að þér leyfið að eg taki upp nýtt goðorð á Hvítanesi til handa Höskuldi.”

Hann fékk það lof af öllum. Tekur Njáll nú upp goðorðið til handa Höskuldi og var hann síðan kallaður Höskuldur Hvítanesgoði.

Eftir þetta ríða menn heim af þingi.

Njáll dvaldist skamma stund heima áður hann reið austur til Svínafells og synir hans og Höskuldur og vekur bónorðið við Flosa en hann kveðst efna mundu öll mál við þá. Var þá Hildigunnur föstnuð Höskuldi og kveðið á brúðlaupsstefnu og lýkur svo með þeim. Ríða þeir þá heim.

En í annað sinn riðu þeir til brúðlaups. Leysti Flosi út allt fé Hildigunnar eftir boðið og greiddi vel af hendi. Fóru þau til Bergþórshvols og voru þar þau misseri og fór allt vel með þeim Hildigunni og Bergþóru. Um vorið eftir keypti Njáll land í Ossabæ og fær það Höskuldi og fer hann þangað byggðum sínum. Njáll réð honum hjón öll. Og svo var dátt með þeim öllum saman að engum þótti ráð ráðið nema þeir réðu allir um. Bjó Höskuldur í Ossabæ lengi svo að hvorir studdu annarra sæmd og voru synir Njáls í ferðum með Höskuldi. Svo var ákaft um vináttu þeirra að hvorir buðu öðrum heim hvert haust og gáfu stórgjafar. Fer svo lengi fram.


Það var reykspólað niður að hætti fremstu manna.

98. kafli
Höskuldur Njálsson veginn...

Maður hét Lýtingur. Hann bjó á Sámsstöðum. Hann átti þá konu er Steinvör hét. Hún var Sigfúsdóttir, systir Þráins. Lýtingur var mikill maður vexti og styrkur og auðigur að fé, illur viðureignar.

Það var einu hverju sinni að Lýtingur hafði boð inni á Sámsstöðum. Hann hafði þangað boðið Höskuldi Hvítanesgoða og Sigfússonum. Þeir komu þar allir. Þar var og Grani Gunnarsson og Gunnar Lambason og Lambi Sigurðarson.

Höskuldur Njálsson átti bú í Holti og móðir hans og reið hann jafnan til bús síns frá Bergþórshvoli og lá leið hans um garð á Sámsstöðum. Höskuldur átti son er Ámundi hét. Hann hafði blindur verið borinn. Hann var þó mikill vexti og öflugur.

Lýtingur átti bræður tvo. Hét annar Hallsteinn en annar Hallgrímur. Þeir voru hinir mestu óeirðarmenn og voru þeir jafnan með Lýtingi bróður sínum því að aðrir menn komu ekki skapi við þá.

Lýtingur var úti löngum um daginn en stundum gekk hann inn. Hann gekk til sætis síns. Þá kom kona inn er úti hafði verið.

Hún mælti: “Of fjarri voruð þér úti að sjá er oflátinn reið um garð.”

“Hver ofláti var sá,” segir Lýtingur, “er þú segir frá?”

“Höskuldur Njálsson reið hér um garð,” segir hún.

Lýtingur mælti: “Oft ríður hann hér um garð og er mér eigi skapraunarlaust og býðst eg til þess Höskuldur mágur að fara með þér ef þú vilt hefna föður þíns og drepa Höskuld Njálsson.”

“Það vil eg eigi,” segir Höskuldur, “og launa eg þá verr en vera skyldi Njáli fóstra mínum og þrífst þú aldrei fyrir heimboð” og spratt upp undan borðinu og lét taka hesta sína og reið heim.

Lýtingur mælti þá til Grana Gunnarssonar: “Þú varst hjá er Þráinn var veginn og mun þér það minnisamt og svo þú Gunnar Lambason og þú Lambi Sigurðarson. Vil eg nú að vér ráðum að Höskuldi Njálssyni og drepum hann í kveld er hann ríður heim.”

“Nei,” segir Grani, “ekki mun eg fara að Njálssonum og rjúfa sætt þá er góðir menn gerðu.”

Slíkum orðum mælti hver þeirra og svo Sigfússynir og tóku það ráð allir að ríða í braut.

Þá mælti Lýtingur er þeir voru í brautu: “Það vita allir menn að eg hefi við engum bótum tekið eftir Þráin mág minn. Skal eg og aldrei una því að engi komi mannhefnd eftir hann.”

Síðan kvaddi hann til ferðar með sér bræður sína tvo og húskarla þrjá. Þeir fóru á leið fyrir Höskuld og sátu fyrir honum norður frá garði í gróf nokkurri og biðu þar til þess er var miður aftan. Þá reið Höskuldur að þeim. Þeir spretta þá upp allir með vopnum og sækja að honum. Höskuldur varðist svo vel að þeir fá lengi eigi sóttan hann. En þar kom um síðir að hann særði Lýting á hendi en drap heimamenn hans tvo og féll síðan. Þeir særðu Höskuld sextán sárum en eigi hjuggu þeir höfuð af honum. Þeir fóru í skógana fyrir austan Rangá og fálu sig þar.

Þetta kveld hið sama hafði smalamaður Hróðnýjar fundið Höskuld dauðan og fór heim og sagði Hróðnýju víg sonar síns.

Hún mælti: “Ekki mun hann dauður vera eða var af höfuðið?”

“Eigi var það,” segir hann.

“Vita mun eg ef eg sé,” segir hún, “og tak þú hest minn og akfæri.”

Hann gerði svo og bjó um með öllu og síðan fóru þau þangað sem Höskuldur lá.

Hún leit á sárin og mælti: “Svo er sem mig varði að hann mundi ekki dauður með öllu og mun Njáll græða stærri sár.”

Síðan tóku þau og lögðu hann í vagarnar og óku til Bergþórshvols og báru þar inn í sauðahús og láta hann sitja upp við vegginn. Síðan gengu þau heim bæði og drápu á dyr og gekk húskarl einn til dyra. Hún snarar þegar inn hjá honum og fer þar til er hún kemur að hvílu Njáls. Hún spurði hvort Njáll vekti. Hann kveðst sofið hafa þar til “en nú er eg vaknaður. Eða hví ert þú hér komin svo snemma?”

Hróðný mælti: “Statt þú upp úr binginum frá elju minni og gakk út með mér og svo hún og synir þínir.”

Þau stóðu upp og gengu út.

Skarphéðinn mælti: “Tökum vér vopn vor og höfum með oss.”

Njáll lagði ekki til þess og hljópu þeir inn og gengu út vopnaðir. Fer Hróðný fyrir til þess er þau koma að sauðahúsinu.

Hún gengur inn og bað þau ganga eftir.

Hún vatt upp skriðljósi og mælti: “Hér er nú, Njáll, Höskuldur son þinn og hefir fengið á sér sár mörg og mun hann nú þurfa lækningar.”

Njáll mælti: “Dauðamörk sé eg á honum en engi lífsmörk eða hví hefir þú eigi veitt honum nábjargir er opnar eru nasarnar?”

“Það ætlaði eg Skarphéðni,” segir hún.

Skarphéðinn gekk að og veitti honum nábjargir.

Skarphéðinn mælti þá við föður sinn: “Hver segir þú að hann hafi vegið?”

Njáll svarar: “Lýtingur af Sámsstöðum mun hafa vegið hann og bræður hans.”

Hróðný mælti: “Þér fel eg á hendi Skarphéðinn að hefna bróður þíns og vænti eg að þér muni vel fara þó að hann sé eigi skilgetinn og þú munir mest eftir ganga.”

Bergþóra mælti: “Undarlega er yður farið er þér vegið víg þau er yður rekur lítið til en meltið slíkt og sjóðið fyrir yður svo að ekki verður af og mun hér koma skjótt Höskuldur Hvítanesgoði og biðja yður sætta og munuð þér veita honum það og er nú til að ráða ef þér viljið.”

Skarphéðinn mælti: “Eggjar móðir vor oss nú lögeggjan.”

Síðan hljópu þeir út allir. Hróðný gekk með Njáli og var þar um nóttina.


Katrínargil í öllu sínu veldi en steingrá á litinn eins og allt umhverfið - verður gaman að vera saman síðar litina í umvhverfinu þegar askan er horfin.

99. kafli
Njáll og Höskuldur ná sáttum...

Nú er að segja frá þeim Skarphéðni að þeir stefna upp til Rangár.

Skarphéðinn mælti: “Stöndum vér nú og hlýðum til.”

Þeir gerðu svo.

Síðan mælti hann: “Förum vér nú hljótt því að eg heyri mannamál upp með ánni. Eða hvort viljið þið heldur eiga við Lýting einn eða við bræður hans báða?”

Þeir kváðust heldur vilja eiga við Lýting einn.

“Í honum er þó veiðurin meiri,” segir Skarphéðinn, “og þykir mér illa ef undan ber en eg treysti mér best um að eigi dragi undan.”

“Til skulum við svo stefna,” segir Helgi, “ef við komumst í færi að eigi reki undan.”

Síðan gengu þeir þangað sem Skarphéðinn hafði heyrt mannamálið og sjá hvar þeir Lýtingur eru við læk einn. Skarphéðinn hleypur þegar yfir lækinn og í melbakkann öðrum megin. Þar stóð Hallgrímur á uppi og þeir bræður. Skarphéðinn höggur á lærið Hallgrími svo að þegar tók undan fótinn en þrífur Hallkel annarri hendi. Lýtingur lagði til Skarphéðins. Helgi kom þá að og brá við skildinum og kom þar í lagið. Lýtingur tók upp stein og laust Skarphéðin og varð Hallkell laus. Hallkell hleypur þá upp á melbakkann og kemst eigi á upp annan veg en hann skýtur niður knjánum. Skarphéðinn slæmir til hans öxinni Rimmugýgi og höggur í sundur í honum hrygginn. Lýtingur snýr nú undan en þeir Grímur og Helgi eftir og kemur sínu sári á hann hvor þeirra. Lýtingur kemst út á ána undan þeim og svo til hrossa og hleypir til þess er hann kemur í Ossabæ. Höskuldur var heima. Lýtingur finnur hann þegar og segir honum verkin.

“Slíks var þér von,” segir Höskuldur, “þú fórst rasandi mjög. Mun hér sannast það sem mælt er að skamma stund verður hönd höggi fegin. Þykir mér sem þér þyki nú ísjávert hvort þú munt fá haldið þig fyrir Njálssonum.”

“Svo er víst,” segir Lýtingur, “að eg komst nauðulega undan en þó vildi eg nú að þú kæmir mér í sætt við Njál og sonu hans og mætti eg halda búi mínu.”

“Svo skal vera,” segir Höskuldur.

Síðan lét Höskuldur söðla hest sinn og reið til Bergþórshvols við hinn sétta mann. Þá voru synir Njáls heima komnir og höfðu lagst til svefns. Höskuldur fór þegar að finna Njál og gengu þeir á tal.

Höskuldur mælti til Njáls: “Hingað er eg kominn að biðja fyrir Lýtingi mági mínum. Hefir hann stórt af gert við yður, rofið sætt og drepið son þinn.”

Njáll mælti: “Lýtingur mun þykjast mikið afhroð goldið hafa í láti bræðra sinna. En ef eg geri nokkurn kost á þá mun eg þín láta að njóta og mun eg þó það skilja fyrir sættina að bræður Lýtings skulu óhelgir fallið hafa. Lýtingur skal og ekki hafa fyrir sár sín en bæta Höskuld fullum bótum.”

“Það vil eg,” segir Höskuldur, “að þú einn dæmir.”

Njáll svarar: “Það mun eg nú gera sem þú vilt.”

“Vilt þú nokkuð,” segir Höskuldur, “að synir þínir séu við?”

Njáll svarar: “Ekki mun þá nær sættinni en áður en halda munu þeir þá sætt er eg geri.”

Þá mælti Höskuldur: “Lúkum við þá málinu og sel þú Lýtingi grið fyrir sonu þína.”

“Svo skal vera,” segir Njáll.

“Það vil eg,” segir Njáll, “að Lýtingur gjaldi tvö hundruð silfurs fyrir víg Höskulds en búi á Sámsstöðum og þykir mér þó ráðlegra að hann selji land sitt og ráðist í braut. En eigi fyrir því, ekki mun eg rjúfa tryggðir á honum né synir mínir. En þó þykir mér vera mega að nokkur rísi sá upp í sveit að honum sé viðsjávert. En ef svo þykir sem eg geri hann héraðssekan þá leyfi eg að hann sé hér í sveit en hann ábyrgist mestu til.”

Síðan fór Höskuldur heim.

Þeir vöknuðu Njálssynir og spurðu föður sinn hvað komið hefði en hann sagði þeim að Höskuldur var þar, fóstri hans.

“Hann mundi biðja fyrir Lýtingi,” segir Skarphéðinn.

“Svo var,” segir Njáll.

“Það var illa,” segir Grímur.

“Ekki mundi Höskuldur hafa skotið skildi fyrir hann,” segir Njáll, “ef þú hefðir drepið hann þá er þér var ætlað.”

“Teljum vér ekki á föður vorn,” segir Skarphéðinn.

Nú er að segja frá því að sætt þessi helst með þeim síðan.


Bleika gengið vinstra megin... bakraddirnar í Evróvisjón á æfingu ;-)

106. kafli
Ámundi blindi fær sjónina...

Sá atburður varð þrem vetrum síðar á Þingskálaþingi að Ámundi hinn blindi var þar, son Höskulds Njálssonar. Hann lét leiða sig búða í meðal. Hann kom í búð þá er Lýtingur var inni af Sámsstöðum. Hann lætur leiða sig inn í búðina og þar fyrir sem Lýtingur sat.

Hann mælti: “Er hér Lýtingur af Sámsstöðum?”

“Já,” segir Lýtingur, “eða hvað vilt þú mér?”

“Eg vil vita,” segir Ámundi, “hverju þú vilt bæta mér föður minn. Eg er laungetinn og hefi eg við engum bótum tekið.”

“Bætt hefi eg föður þinn fullum bótum,” segir Lýtingur, “og tók við föðurfaðir þinn og föðurbræður en bræður mínir voru ógildir. Og varð bæði að eg hafði illa til gert enda kom eg allhart niður.”

“Ekki spyr eg að því,” segir Ámundi, “að þú hefir bætt þeim. Veit eg að þér eruð sáttir. Og spyr eg að því hverju þú vilt mér bæta.”

“Alls engu,” segir Lýtingur.

“Eigi skil eg,” segir Ámundi, “að það muni rétt fyrir guði svo nær hjarta sem þú hefir mér höggvið. Enda kann eg að segja þér ef eg væri heileygur báðum augum að hafa skyldi eg annaðhvort fyrir föður minn fébætur eða mannhefndir enda skipti guð með okkur.”

Eftir það gekk hann út. En er hann kom í búðardyrnar snýst hann innar eftir búðinni. Þá lukust upp augu hans.

Þá mælti hann: “Lofaður sért þú guð, drottinn minn. Sé eg nú hvað þú vilt.”

Eftir það hleypur hann innar eftir búðinni þar til er hann kemur fyrir Lýting og höggur með öxi í höfuð honum svo að hún stóð á hamri og kippir að sér öxinni. Lýtingur fellur áfram og var þegar dauður. Ámundi gengur út í búðardyrnar. Og er hann kom í þau hin sömu spor sem augu hans höfðu upp lokist þá lukust nú aftur og var hann alla ævi blindur síðan.

Eftir það lætur hann fylgja sér til Njáls og sona hans. Hann segir þeim víg Lýtings.

“Ekki má saka þig um þetta,” segir Njáll, “því að slíkt er mjög ákveðið en viðvörunarvert ef slíkir atburðir verða að stinga eigi af stokki við þá er svo nær standa.”

Síðan bauð Njáll sætt frændum Lýtings. Höskuldur Hvítanesgoði átti hlut að við frændur Lýtings að þeir tækju sættum og var þá lagið mál í gerð og féllu hálfar bætur niður fyrir sakastaði þá er Ámundi þótti á eiga. Eftir það gengu menn til tryggða og veittu frændur Lýtings Ámunda tryggðir.

Menn riðu heim af þingi og er nú kyrrt lengi.


Hjölli, Jórunn, Anton, leifur, Hermann, Snædís, Droplaug, Hildur Vals., Harpa og Gerður.

111. kafli
Víg Höskuldar

Í þenna tíma vaknaði Höskuldur Hvítanesgoði. Hann fór í klæði sín og tók yfir sig skikkjuna Flosanaut. Hann tók kornkippu og sverð í aðra hönd og fer til gerðisins og sáir niður korninu.

Þeir Skarphéðinn höfðu það mælt með sér að þeir skyldu allir á honum vinna. Skarphéðinn spratt upp undan garðinum. En er Höskuldur sá hann vildi hann undan snúa.

Þá hljóp Skarphéðinn að honum og mælti: “Hirð eigi þú að hopa á hæl, Hvítanesgoðinn” og höggur til hans og kom í höfuðið og féll Höskuldur á knéin.

Hann mælti þetta við er hann féll: “Guð hjálpi mér en fyrirgefi yður.”

Hljópu þeir þá að honum allir og unnu á honum.

Eftir það mælti Mörður: “Ráð kemur mér í hug.”

“Hvert er það?” segir Skarphéðinn.

“Það er eg mun fara heim fyrst en síðan mun eg fara upp til Grjótár og segja þeim tíðindin og láta illa yfir verkinu. En eg veit víst að Þorgerður mun biðja mig að eg lýsi víginu og mun eg það gera því að þeim mega það mest málaspell verða. Eg mun og senda mann í Ossabæ og vita hversu skjótt þau taki til ráða og mun sá spyrja þar tíðindin og mun eg láta sem eg taki af þeim.”

“Far þú svo með víst,” segir Skarphéðinn.

Þeir bræður fóru heim og Kári. Og er þeir komu heim sögðu þeir Njáli tíðindin.

“Hörmuleg tíðindi eru þetta,” segir Njáll, “og er slíkt illt að vita því að það er satt að segja að svo fellur mér þetta nær um trega að mér þætti betra að hafa látið tvo sonu mína og lifði Höskuldur.”

“Það er nokkur vorkunn,” segir Skarphéðinn. “Þú ert maður gamall og er von að þér falli nær.”

“Eigi er það síður en elli,” segir Njáll, “að eg veit gerr en þér hvað eftir mun koma.”

“Hvað mun eftir koma?” segir Skarphéðinn.

“Dauði minn,” segir Njáll, “og konu minnar og allra sona minna.”

“Hvað spáir þú fyrir mér?” segir Kári.

“Erfitt mun þeim veita að ganga í mót giftu þinni,” segir Njáll, “því að þú munt þeim öllum drjúgari verða.”

Sjá einn hlutur var svo að Njáli féll svo nær að hann mátti aldrei óklökkvandi um tala.


Vatnsdalur og Fiskaá í dalsbortni með Vatnsdalsfjall fjærst... sjáið reykspólið niður...

117. kafli
Mörður endurheimtir fyrri völd og áhrif...

Sigfússynir spurðu að Flosi var við Holtsvað og riðu þangað til móts við hann og var þar Ketill úr Mörk og Lambi bróðir hans, Þorkell og Mörður og Sigmundur Sigfússynir. Þar var og Lambi Sigurðarson og Gunnar Lambason og Grani Gunnarsson, Vébrandur Hámundarson. Flosi stóð uppi í móti og fagnaði þeim öllum blíðlega.

Þeir gengu fram að ánni. Flosi hafði af þeim sannar sögur og skilur þá hvergi á og Runólf í Dal.

Flosi mælti til Ketils úr Mörk: “Þig kveð eg að þessu. Hversu harðsnúinn ert þú á þetta mál eða aðrir Sigfússynir?”

Ketill mælti: “Það vildi eg að sættir yrðu með oss. En þó hefi eg svarið eiða að skiljast eigi við þessi mál fyrr en yfir lýkur með nokkuru móti og leggja líf á.”

Flosi mælti: “Drengur ert þú mikill og er slíkum mönnum allvel farið.”

Þeir tóku báðir senn til orða Grani Gunnarsson og Gunnar Lambason: “Sektir viljum vér að fram komi og mannráð.”

Flosi mælti: “Eigi er ráðið að bæði sé að vér kjósum og deilum.”

Grani mælti: “Það var mér þá í hug er þeir drápu Þráinn á Markarfljóti en síðan Höskuld son hans að eg mundi aldrei sættast við þá heilum sáttum því að eg vildi vera þar gjarna er þeir væru allir drepnir.”

Flosi mælti: “Setið hefir þú svo nær að þú mættir hafa hefnt þessa ef þú hefðir haft til þrek og karlmennsku. Þykir mér sem þess biðjir þú nú og margur annarra er mundir mikið fé til gefa er stundir líða að þú hefðir eigi orðið við staddur. Sé eg það gjörla þó að oss veitti það að vilja að vér dræpum Njál eða sonu hans, þá eru þeir svo mikils háttar menn og stórættaðir að þar mun svo mikið eftirmál verða að vér munum fyrir margs manns kné ganga verða og biðja oss liðs áður vér komum oss í sætt og úr þessum vanda. Megið þér og svo til ætla að þeir munu margir snauðir er áður eiga stórfé en sumir munu láta bæði féið og lífið.”

Mörður Valgarðsson reið til fundar við Flosa og kvaðst ríða vilja til þings með honum með öllu liði sínu. Flosi tók því vel og hóf bónorð við hann að hann skyldi gifta Rannveigu dóttur sína Starkaði er bjó að Stafafelli, bróðursyni Flosa. Gekk Flosa það til að hann þóttist svo ráða undir sig trúnað hans og fjölmenni. Mörður tók vænlega á og veik undir Gissur hinn hvíta og bað tala um á þingi. Mörður átti Þorkötlu dóttur Gissurar hvíta. Þeir Mörður og Flosi riðu báðir saman til þings og töluðu alla daga.


Ekið að Keldum yfir Fiskaá... Anna Elín í hörkutól og átti í engum vandræðum með að elda jeppana ;-)

127.
Síðasta kvöldmáltíðin...

Nú er þar til máls að taka að Bergþórshvoli að þeir Grímur og Helgi fóru til Hóla, þar voru þeim fóstruð börn, og sögðu það föður sínum að þeir mundu ekki heim um kveldið.

Þeir voru í Hólum allan daginn. Þar komu konum fátækar og kváðust komnar að langt. Þeir bræður spurðu þær tíðinda. Þær kváðust engi kunna tíðindi að segja “en segja kunnum vér nýlundu nokkura.”

Þeir spurðu hverja nýlundu þær segðu og báðu þær eigi leyna. Þær sögðu svo vera skyldu.

“Vér komum að ofan úr Fljótshlíð og sáum vér Sigfússonu alla ríða með alvæpni og stefnu þeir upp á Þríhyrningshálsa og voru fimmtán í flokki. Vér sáum og Grana Gunnarsson og Gunnar Lambason og voru þeir fimm saman. Þeir stefndu hina sömu leið. Og kalla má að nú sé allt á för og á flaug um héraðið.”

Helgi Njálsson mælti: “Þá mun Flosi kominn austan og munu þeir allir komnir til móts við hann og skulum við Grímur vera þar sem Skarphéðinn er.”

Grímur kvað svo vera skyldu og fóru þeir heim.

Þenna aftan hinn sama mælti Bergþóra til hjóna sinna: “Nú skuluð þér kjósa yður mat í kveld að hver hafi það er mest fýsir til því að þenna aftan mun eg bera síðast mat fyrir hjón mín.”

“Það skyldi eigi vera,” sögðu þeir er hjá voru.

“Það mun þó vera,” segir hún, “og má eg miklu fleira af segja ef eg vil og mun það til merkja að þeir Grímur og Helgi munu heim koma í kveld áður menn eru mettir. Og ef þetta gengur eftir þá mun svo fara fleira sem eg segi.”

Síðan bar hún mat á borð.

Njáll mælti: “Undarlega sýnist mér nú. Ég þykist sjá um alla stofuna og þykir mér sem undan séu gaflveggirnir báðir en blóð eitt allt borðið og maturinn.”

Öllum fannst þá mikið um öðrum en Skarphéðni. Hann bað menn ekki syrgja né láta öðrum herfilegum látum svo að menn mættu orð á því gera “mun oss vandara gert en öðrum að vér berum oss vel og er það jafnt að vonum.”

Þeir Grímur og Helgi komu heim áður borð voru ofan tekin og brá mönnum mjög við það. Njáll spurði hví þeir færu svo hverft en þeir sögðu slíkt sem þeir höfðu frétt. Njáll bað engan mann til svefns fara og vera vara um sig.


Komum við á Gunnarssteini í bakaleiðinni

128. kafli
Aðförin að Bergþórshvoli...

Nú er þar til að taka er Flosi er.

Hann mælti: “Nú munum vér ríða til Bergþórshvols og koma þar fyrir náttmál.”

Þeir gera nú svo. Dalur var í hvolinum og riðu þeir þangað og bundu þar hesta sína og dvöldust þar til þess er mjög leið á kveldið.

Flosi mælti: “Nú skulum vér ganga heim að bænum og ganga þröngt og fara seint og sjá hvað þeir taki til ráðs.”

Njáll stóð úti og synir hans og Kári og allir heimamenn og skipuðust fyrir á hlaðinu og var það nær þrír tigir manna.

Flosi nam staðar og mælti: “Nú skulum vér að hyggja hvað þeir taka til ráðs því að mér líst svo ef þeir standa úti fyrir sem vér munum þá aldrei sótta geta.”

“Þá er vor för ill,” segir Grani Gunnarsson, “ef vér skulum eigi þora að að sækja.”

“Það skal og eigi vera,” segir Flosi, “og skulum vér að ganga þó að þeir standi úti. En það afhroð munum vér gjalda að margur mun eigi kunna frá að segja hvorir sigrast.”

Njáll mælti til sinna manna: “Hvað sjáið þér til hversu mikið lið þeir hafa?”

“Þeir hafa bæði mikið lið og harðsnúið,” segir Skarphéðinn, “en því nema þeir þó nú stað að þeir ætla að þeim muni illa sækjast að vinna oss.”

“Það mun ekki vera,” segir Njáll, “og vil eg að menn gangi inn því að illa sóttist þeim Gunnar að Hlíðarenda og var hann einn fyrir. Eru hér hús rammleg sem þar voru og munu þeir eigi sótt geta.”

“Þetta er ekki þann veg að skilja,” segir Skarphéðinn. “Gunnar sóttu heim þeir höfðingjar er svo voru vel að sér að heldur vildu frá hverfa en brenna hann inni. En þessir munu þegar sækja oss með eldi er þeir mega eigi annan veg því að þeir munu allt til vinna að yfir taki við oss. Munu þeir það ætla sem eigi er ólíklegt að það sé þeirra bani ef oss dregur undan. Eg er og þess ófús að láta svæla mig inni sem melrakka í greni.”

Njáll mælti: “Nú mun sem oftar að þér munuð bera mig ráðum, synir mínir, og virða mig engis. En þá er þér voruð yngri gerðuð þér það eigi og fór yðvart ráð þá betur fram.”

Helgi mælti: “Gerum vér sem faðir vor vill. Það mun oss best gegna.”

“Eigi veit eg það víst,” segir Skarphéðinn, “því að hann er nú feigur. En vel má eg gera það til skaps föður míns að brenna inni með honum því að eg hræðist ekki dauða minn.”

Hann mælti þá við Kára: “Fylgjumst vér vel mágur svo að engi vor skilji við annan.”

“Það hefi eg ætlað,” segir Kári, “en ef annars verður auðið þá mun það verða fram að koma og mun ekki mega við því gera.”

“Hefn þú vor,” segir Skarphéðinn, “en vér skulum þín ef vér lifum eftir.”

Kári kvað svo vera skyldu. Gengu þeir þá inn allir og skipuðust í dyrnar.

Flosi mælti: “Nú eru þeir feigir er þeir hafa inn gengið. Skulum vér nú heim ganga sem skjótast og skipast sem þykkvast fyrir dyrin og geyma þess að engi komist í braut hvorki Kári né Njálssynir því að það er vor bani.”

Þeir Flosi komu nú heim og skipuðust umhverfis húsin ef nokkurar væru laundyr á. Flosi gekk framan að húsunum og hans menn. Hróaldur Össurarson hljóp að þar sem Skarphéðinn var fyrir og lagði til hans. Skarphéðinn hjó spjótið af skafti fyrir honum og hljóp að honum og hjó til hans og kom öxin ofan í skjöldinn og bar að Hróaldi þegar allan skjöldinn en hyrnan sú hin fremri tók andlitið og féll hann á bak aftur og þegar dauður.

Kári mælti: “Lítt dró enn undan við þig Skarphéðinn og ert þú vor fræknastur.”

“Eigi veit eg það víst,” segir Skarphéðinn og brá við grönum og glotti að.

Þeir Kári og Grímur og Helgi lögðu út mörgum spjótum og særðu marga menn en þeir Flosi gátu ekki að gert.

Flosi mælti: “Vér höfum fengið mikinn skaða á mönnum vorum. Eru margir sárir en sá veginn er vér mundum síst til kjósa. Nú er það séð að vér fáum þá aldrei með vopnum sótta. Er sá nú margur er eigi gengur jafnskörulega að sem létu en þó eggjuðu mest. Mæli eg þetta mest til Grana Gunnarssonar og Gunnars Lambasonar er sér létu verst eira. En þó munum vér nú verða að gera annað ráð fyrir oss. Eru nú tveir kostir til og er hvorgi góður. Sá annar að hverfa frá og er það vor bani, hinn annar að bera að eld og brenna þá inni og er það stór ábyrgðarhlutur fyrir guði er vér erum menn kristnir sjálfir. En þó munum vér það bragðs taka.”


Tindaröðin sést vel á þessum gps-prófíl.
Hæð tindana var
679 m (fyrsti) - 680 m (annar) - 659 m (tæpihryggurinn), 693 m (hæsti) og 666 m sá síðasti og syðsti í bakaleiðinni.

129. kafli
Njálsbrenna...

Þeir tóku nú eld og gerðu bál mikið fyrir dyrunum.

Þá mælti Skarphéðinn: “Eld kveikið þér nú sveinar eða hvort skal nú búa til seyðis?”

Grani Gunnarsson svaraði: “Svo skal það vera og skalt þú eigi þurfa heitara að baka.”

Skarphéðinn mælti: “Því launar þú mér sem þú ert maður til er eg hefndi föður þíns og virðir það meira er þér er óskyldara.”

Þá báru konur sýru í eldinn og slökktu niður fyrir þeim. Sumar báru vatn eða hland.

Kolur Þorsteinsson mælti til Flosa: “Ráð kemur mér í hug. Eg hefi séð loft í skálanum á þvertrjám og skulum vér þar inn bera eldinn og kveikja við arfasátu þá er hér stendur fyrir ofan húsin.”

Síðan tóku þeir arfasátuna og báru þar inn eldinn. Fundu þeir eigi fyrr, er inni voru, en logaði ofan allur skálinn. Gerðu þeir Flosi þá stór bál fyrir öllum dyrum. Tók þá kvennaliðið illa að þola það er inni var.

Njáll mælti til þeirra: “Verðið vel við og mælið eigi æðru því að él eitt mun vera og skyldi langt til annars slíks. Trúið þér og því að guð er miskunnsamur og mun hann oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars.”

Slíkar fortölur hafði hann fyrir þeim og aðrar hraustlegri.

Nú taka öll húsin að loga. Þá gekk Njáll til dyra og mælti: “Hvort er Flosi svo nær að hann megi heyra mál mitt?”

Flosi kvaðst heyra mega.

Njáll mælti: “Vilt þú nokkuð taka sættum við sonu mína eða leyfa nokkurum mönnum útgöngu?”

Flosi svarar: “Eigi vil eg taka sættum við sonu þína og skal nú yfir lúka með oss og eigi frá ganga fyrr en þeir eru allir dauðir. En lofa vil eg útgöngu konum og börnum og húskörlum.”

Njáll gekk þá inn og mælti við fólkið: “Út skulu þeir nú allir ganga er leyft er. Og gakk þú út Þórhalla Ásgrímsdóttir og allur lýður með þér sá er lofað er.”

Þórhalla mælti: “Annar verður nú skilnaður okkar Helga en eg ætlaði um hríð en þó skal eg eggja föður minn og bræður að þeir hefni þessa mannskaða er hér er ger.”

Njáll mælti: “Vel mun þér fara því að þú ert góð kona.”

Síðan gekk hún út og margt lið með henni.

Ástríður af Djúpárbakka mælti við Helga Njálsson: “Gakk þú út með mér og mun eg kasta yfir þig kvenskikkju og falda þig með höfuðdúki.”

Hann taldist undan fyrst en þó gerði hann þetta fyrir bæn þeirra. Ástríður vafði höfuðdúki að höfði Helga en Þórhildur kona Skarphéðins lagði yfir hann skikkjuna og gekk hann út á meðal þeirra. Og þá gekk út Þorgerður Njálsdóttir og Helga systir hennar og margt annað fólk.

En er Helgi kom út þá mælti Flosi: “Sú er há kona og mikil um herðar er þar fer. Takið og haldið henni.”

En er Helgi heyrði þetta kastaði hann skikkjunni. Hann hafði haft sverð brugðið undir hendi sér og hjó til manns og kom í skjöldinn og af sporðinn og fótinn af manninum. Þá kom Flosi að og hjó á hálsinn Helga svo að þegar tók af höfuðið.

Flosi gekk þá að dyrum og mælti að Njáll skyldi ganga til máls við hann og svo Bergþóra. Þau gerðu svo.

Flosi mælti: “Útgöngu vil eg bjóða þér Njáll bóndi því að þú brennur ómaklegur inni.”

Njáll mælti: “Eigi vil eg út ganga því eg er maður gamall og er eg lítt til búinn að hefna sona minna en eg vil eigi lifa við skömm.”

Flosi mælti þá til Bergþóru: “Gakk þú út húsfreyja því að eg vil þig fyrir engan mun inni brenna.”

Bergþóra mælti: “Eg var ung gefin Njáli og hefi eg því heitið honum að eitt skyldi ganga yfir okkur bæði.”

Síðan gengu þau inn bæði.

Bergþóra mælti: “Hvað skulum við nú til ráða taka?”

“Ganga munum við til hvílu okkarrar,” segir Njáll, “og leggjast niður, hefi eg lengi værugjarn verið.”

Hún mælti þá við sveininn Þórð Kárason: “Þig skal bera út og skalt þú eigi inni brenna.”

“Hinu hefir þú mér heitið amma,” segir sveinninn, “að við skyldum aldrei skilja meðan eg vildi hjá þér vera. En mér þykir miklu betra að deyja með ykkur Njáli en lifa eftir.”

Hún bar þá sveininn til hvílunnar.

Njáll mælti við bryta sinn: “Nú skalt þú sjá hvar við leggjumst niður og hversu eg bý um okkur því að eg ætla héðan hvergi að hrærast hvort sem mér angrar reykur eða bruni. Mátt þú nú nær geta hvar beina okkarra er að leita.”

Hann sagði að svo skyldi vera. Þar hafði slátrað verið uxa einum og lá þar húðin. Njáll mælti við brytann að hann skyldi breiða yfir þau húðina og hann hét því. Þau leggjast nú niður bæði í rúmið og leggja sveininn í millum sín. Þá signdu þau sig og sveininn og fálu önd sína guði á hendi og mæltu það síðast svo að menn heyrðu. Þá tók brytinn húðina og breiddi yfir þau og gekk út síðan. Ketill úr Mörk tók í mót honum og kippti honum út. Hann spurði vandlega að Njáli mági sínum en brytinn sagði allt hið sanna.

Ketill mælti: “Mikill harmur er að oss kveðinn er vér skulum svo mikla ógæfu saman eiga.”

Skarphéðinn hafði séð er faðir hans hafði niður lagst og hversu hann hafði um sig búið.

Hann mælti þá: “Snemma fer faðir vor í rekkju og er það sem von er. Hann er maður gamall.”

Þá tóku þeir Skarphéðinn og Kári og Grímur brandana jafnskjótt sem ofan duttu og skutu út á þá og gekk því um hríð. Þá skutu þeir spjótum inn að þeim en þeir tóku öll á lofti og sendu út aftur.

Flosi bað þá hætta að skjóta “því að oss munu öll vopnaskipti þungt ganga við þá. Megið þér nú vel bíða þess er eldurinn vinnur þá.”

Þeir gera nú svo. Þá féllu ofan stórviðirnir úr ræfrinu.

Skarphéðinn mælti þá: “Nú mun faðir minn dauður vera og hefir hvorki heyrt til hans styn né hósta.”

Þeir gengu þá í skálaendann. Þar var fallið ofan þvertréið og var brunnið mjög í miðju.

Kári mælti til Skarphéðins: “Hlaup þú hér út og mun eg beina að mér þér en eg mun hlaupa þegar eftir og munum við þá báðir í braut komast ef við breytum svo því að hingað leggur allan reykinn.”

Skarphéðinn mælti: “Þú skalt hlaupa fyrri en eg mun þegar á hæla þér.”

“Ekki er það ráð,” segir Kári, “því að eg má vel komast annars staðar út þó að hér gangi eigi.”

“Eigi vil eg það,” segir Skarphéðinn, “hlaup þú út fyrri en eg mun þegar eftir.”

Kári mælti: “Það er hverjum manni boðið að leita sér lífs meðan kostur er og skal eg og svo gera. En þó mun nú sá skilnaður með okkur verða að við munum aldrei sjást síðan því að ef eg hleyp út úr eldinum þá mun eg eigi hafa skap til að hlaupa inn aftur í eldinn til þín og mun þá sína leið fara hvor okkar.”

“Það hlægir mig,” segir Skarphéðinn, “ef þú kemst í braut mágur að þú munt hefna vor.”

Þá tók Kári einn setstokk logandi í hönd sér og hleypur út eftir þvertrénu. Slöngvir hann þá stokkinum út af þekjunni og féll hann ofan að þeim er úti voru fyrir. Þeir hljópu þá undan. Þá loguðu klæðin öll á Kára og svo hárið. Hann steypir sér þá út af þekjunni og stiklar svo með reykinum.

Þá mælti einn maður er þar var næstur: “Hvort hljóp þar maður út af þekjunni?”

“Fjarri fór það,” sagði annar, “og kastaði Skarphéðinn þar eldistokki að oss.”

Síðan grunuðu þeir það ekki.

Kári hljóp til þess er hann kom að læk einum og kastaði sér í ofan og slökkti á sér eldinn. Þaðan hljóp hann með reykinum í gróf nokkura og hvíldi sig og er það síðan kölluð Káragróf.

Alls var rekjanleg slóð Toppfara þennan dag
8,7 km á 4:05 - 4:14 klst. upp í 693 m hæð með 553 m hækkun.
 

130. kafli
Kári sleppur...

Nú er að segja frá Skarphéðni að hann hleypur út á þvertréið þegar eftir Kára. En er hann kom þar er mest var brunnið þvertréið þá brast niður undir honum. Skarphéðinn kom fótum undir sig og réð þegar til í annað sinn og rennur upp vegginn. Þá reið að honum brúnásinn og hrataði hann inn aftur.

Skarphéðinn mælti þá: “Séð er nú hversu vera vill.”

Gekk hann þá fram með hliðvegginum.

Gunnar Lambason hljóp upp á vegginn og sér Skarphéðinn. Hann mælti svo: “Hvort grætur þú nú Skarphéðinn?”

“Eigi er það,” segir Skarphéðinn, “en hitt er satt að súrnar í augunum. En hvort er sem mér sýnist, hlærð þú?”

“Svo er víst,” segir Gunnar, “og hefi eg aldrei fyrr hlegið síðan þú vóst Þráin á Markarfljóti.”

Skarphéðinn mælti: “Þá er þér hér nú minjagripurinn.”

Tók hann þá jaxl úr pússi sínum er hann hafði höggvið úr Þráni og kastaði til Gunnars og kom í augað svo að þegar lá úti á kinninni. Féll Gunnar þá ofan af þekjunni.

Skarphéðinn gekk þá til Gríms bróður síns. Héldust þeir þá í hendur og tróðu eldinn. En er þeir komu í miðjan skálann þá féll Grímur dauður niður. Skarphéðinn gekk þá til enda hússins. Þá varð brestur mikill. Reið þá ofan öll þekjan. Varð Skarphéðinn þá þar í millum og gaflhlaðsins. Mátti hann þaðan hvergi hrærast.

Þeir Flosi voru við eldana þar til er morgnað var mjög. Þá kom þar maður einn ríðandi að þeim.

Flosi spurði þann að nafni en hann nefndist Geirmundur og kveðst vera frændi Sigfússona “þér hafið mikið stórvirki unnið,” segir hann.

Flosi svarar: “Bæði munu menn þetta kalla stórvirki og illvirki. En þó má nú ekki að hafa.”

“Hversu margt hefir hér fyrirmanna látist?” segir Geirmundur.

Flosi svarar: “Hér hefir látist Njáll og Bergþóra og synir þeirra allir, Þórður Kárason og Kári Sölmundarson, Þórður leysingi. En þá vitum vér ógjörla um fleiri menn þá er oss eru ókunnari.”

Geirmundur mælti: “Dauðan segir þú þann nú er vér höfum hjalað við í morgun.”

“Hver er sá?” segir Flosi.

“Kára Sölmundarson fundum við Bárður búi minn,” segir Geirmundur, “og fékk Bárður honum hest sinn og var brunnið af honum hárið og svo klæðin.”

“Hafði hann nokkuð vopna?” segir Flosi.

“Hafði hann sverðið Fjörsváfni,” segir Geirmundur, “og var blánaður annar eggteinninn og sögðum við Bárður að dignað mundi hafa en hann svaraði því að hann skyldi herða í blóði Sigfússona eða annarra brennumanna.”

Flosi mælti: “Hvað sagði hann til Skarphéðins?”

Geirmundur svarar: “Á lífi sagði hann þá Grím báða þá er þeir skildu en þó kvað hann þá nú mundu dauða.”

Flosi mælti: “Sagt hefir þú oss þá sögu er oss mun eigi setugrið bjóða því að sá maður hefir nú á braut komist er næst gengur Gunnari að Hlíðarenda um alla hluti. Skuluð þér það nú og hugsa Sigfússynir og aðrir vorir menn að svo mikið eftirmál mun hér verða um brennu þessa að margan mun það gera höfuðlausan en sumir munu ganga frá öllu fénu. Grunar mig nú það að engi yðvar Sigfússona þori að sitja í búi sínu og er það rétt að vonum. Vil eg nú bjóða yður öllum austur til mín og láta eitt ganga yfir oss alla.”

Þeir þökkuðu honum boð sitt og kváðust það þiggja mundu.

Þá kvað Móðólfur Ketilsson vísu:

Stafr lifir einn, þar er inni
unnfúrs viðir brunnu,
synir ollu því snjallir
Sigfúss, Níals húsa.
Nú er, Gollnis sonr, goldinn,
gekk eldr of sjöt rekka,
ljós brann hyr í húsum,
Höskulds bani hins röskva.

“Öðru nokkuru munum vér hælast mega,” segir Flosi, “en því er Njáll hefir inni brunnið því að það er engi frami.”

Flosi gekk þá upp á gaflhlaðið og Glúmur Hildisson og nokkurir menn aðrir.

Þá mælti Glúmur: “Hvort mun Skarphéðinn nú dauður?”

En aðrir sögðu hann fyrir löngu dauðan mundu vera.

Þar gaus upp stundum eldurinn en stundum slokknaði niður. Þeir heyrðu þá niðri í eldinum fyrir sér að kveðin var vísa:

Mundit mellu kindar
miðjungs brúar Iðja
Gunnr um geira sennu
galdrs bráregni halda,
er hræstykkins hlakka
hraustr síns vinir mínu
tryggvi eg óð og eggjar
undgengin spjör dundu.

Grani Gunnarsson mælti: “Hvort mun Skarphéðinn hafa kveðið vísu þessa lífs eða dauður?”

“Engum getum mun eg um það leiða,” segir Flosi.

“Leita viljum vér,” segir Grani, “Skarphéðins eða annarra manna þeirra sem hér hafa inni brunnið.”

“Eigi skal það,” segir Flosi, “og eru slíkt heimskir menn sem þú ert þar sem menn munu safna liði um allt héraðið. Mun sá allur einn er nú á dvalar og hinn er þá mun verða svo hræddur að eigi mun vita hvert hlaupa skal og er það mitt ráð að vér ríðum allir í braut sem skjótast.”

Flosi gekk þá skyndilega til hesta sinna og allir hans menn.

Flosi mælti til Geirmundar: “Hvort mun Ingjaldur heim að Keldum?”

Geirmundur kveðst ætla að hann mundi heima vera.

“Þar er sá maður,” segir Flosi, “er rofið hefir eiða við oss og allan trúnað.”

Flosi mælti þá til Sigfússona: “Hvern kost viljið þér nú gera Ingjaldi? Hvort viljið þér gefa honum upp eða skulum vér nú fara að honum og drepa hann?”

Þeir svöruðu allir að þeir vildu nú fara að honum og drepa hann.

Þá hljóp Flosi á hest sinn og allir þeir og riðu í braut. Flosi reið fyrir og stefndi upp til Rangár og upp með ánni. Þá sá hann mann ríða ofan öðrum megin árinnar. Hann kenndi að þar var Ingjaldur frá Keldum. Flosi kallar á hann. Ingjaldur nam þá staðar og sneri við fram að ánni.

Flosi mælti til hans: “Þú hefir rofið eiða við oss og hefir þú fyrirgert fé og fjörvi. Eru hér nú Sigfússynir og vilja gjarna drepa þig. En mér þykir þú við vant um kominn og mun eg gefa þér líf ef þú vilt selja mér sjálfdæmi.”

Ingjaldur svarar: “Fyrr skal eg nú ríða til móts við Kára en selja þér sjálfdæmi. En eg vil því svara Sigfússonum að eg skal eigi hræddari við þá en þeir eru við mig.”

“Bíð þú þá,” segir Flosi, “ef þú ert eigi ragur því að eg skal senda þér sending.”

“Bíða skal eg víst,” segir Ingjaldur.

Þorsteinn Kolbeinsson bróðurson Flosa reið fram hjá honum og hafði spjót í hendi. Hann var röskvastur maður með Flosa einhver og mest verður. Flosi þreif af honum spjótið og skaut til Ingjalds og kom á hina vinstri hliðina og í gegnum skjöldinn fyrir neðan mundriðann og klofnaði hann allur í sundur. En spjótið hljóp í fótinn fyrir ofan knéskelina og svo í söðulfjölina og nam þar staðar.

Flosi mælti þá til Ingjalds: “Hvort kom á þig?”

“Á mig kom víst,” segir Ingjaldur, “og kalla eg þetta skeinu en ekki sár.”

Ingjaldur kippti þá spjótinu úr sárinu og mælti til Flosa: “Bíð þú nú ef þú ert eigi blauður.”

Hann skaut þá spjótinu aftur yfir ána. Flosi sér að spjótið stefnir á hann miðjan. Hopar hann þá hestinum undan en spjótið fló fyrir framan brjóst Flosa og missti hans. Spjótið kom á Þorstein miðjan og féll hann þegar dauður af hestinum. Ingjaldur hleypir nú í skóginn og náðu þeir honum ekki.

Flosi mælti þá til sinna manna: “Nú höfum vér fengið mikinn mannskaða. Megum vér nú og vita er þetta hefir að borist hvert heillaleysi vér höfum. Er það nú mitt ráð að vér ríðum á Þríhyrningshálsa. Megum vér þaðan sjá mannareiðir um allt héraðið því að þeir munu nú hafa sem mestan liðssafnað og munu þeir ætla að vér höfum riðið austur til Fljótshlíðar af Þríhyrningshálsum. Og munu þeir þá ætla að vér ríðum austur á fjall og svo austur til héraða. Mun þangað eftir ríða eftir mestur hluti liðsins en sumir munu ríða hið fremra austur til Seljalandsmúla og mun þeim þó þykja þangað vor minni von. En eg mun nú gera ráð fyrir oss og er það mitt ráð að vér ríðum upp í fjallið Þríhyrning og bíðum þar til þess er þrjár sólir eru af himni.”

Þeir gera nú svo að þeir ríða upp í fjallið og í dal einn er síðan er kallaður Flosadalur. Sjá þeir nú þaðan allra manna ferðir um héraðið.

Hér lýkur tilvitnunum í Brennu-Njálssögu... í dalnum á fjallinu sem við gengum um þennan laugardag í maí 2010... spennusagan Njála er hvergi búin fyrr en við sögulok í 154. kafla en skal þess getið að Flosi og Kári sættust og urðu vinir til æviloka.

Sjá ýmsar bækur um Njálu en hér var sem fyrr segir stuðst við tvennt:

1. Vefinn www.njala.is sem er mjög vel unninn vefur.
2. Bókina "
Njála - lifandi komin" eftir Jóhannes Eiríksson - Salka 2006
sem er frábær bók með fjölda ægifagurra mynda af söguslóðum og skemmtilegum og fróðlegum athugasemdum höfundar.
 


 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir