Tindur 38 - Hvannadalshnúkur uppstigningardaginn 13. maí 2010


Sætur sigur á hæsta tindi Íslands
...allt er þegar þrennt er...

Loksins komumst við á Hvannadalshnúk í mergjaðri ferð í logni og sól alla leið upp á tind
og snjókomu og vindi á köflum til baka með notalegum endi í blíðskaparveðri niðri í Skaftafelli.

Það þurfti greinilega sjálfan uppstigningardag til þess að ná alla leið í þriðju tilraun...

Gleðin var ólýsanleg á hverju andliti og við - eins og alltaf - hlógum okkur alla leið upp á tind
í skríkjandi gleði Toppfara sem njóta hvers augnabliks erfiðisins með "
glensi á köflum og brosi í grennd"...

Þetta var alvöru jöklaganga... sprungur sem aldrei áður og við nutum framúrskarandi leiðsagnar Jöklamanna
- www.glacierguides.is ...þeirra
Simba, Friðjóns og Simma eða "Mundi, Lundi og Skundi" sem uppnefnaglaðir Toppfarar voru ekki lengi að endurskíra þá með  (eigum við að ræða þessi nöfn eitthvað ;-) en þeir smellpössuðu við galsafenginn hópinn og höfðu um leið örugga stjórn á ærslabelgjunum sem höfðu uppi leyniáætlun um að skera á línurnar ef þeir segðu okkur að snúa við áður en tindurinn væri sigraður ;-)

-------------------------

Ferðasagan hefst...

Þetta var söguleg ferð frá upphafi til enda Reykjavíkur...
Eldgosið í Eyjafjallajökli í algleymi og sýnin frá Þorvaldseyri okkur öllu ógleymanleg sem þarna stöldruðum við á leiðinni austur...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/13/aajEI7Fa7S8 

Svört gjóskan og hrikaleikurinn ólýsanlegur í dökknuðu landslaginu undir svartleikanum...
Manni fannst maður vera vitni að einhverjum óhugnaði sem ekki var hægt að orða en vakti með manni leyndan ótta og berskjöldun.

Öskuskýin lágu yfir Mýrdalnum og það var ekki hægt að opna bílgluggann... þetta var raunveruleiki heimamanna svæðisins og manni fannst maður vera staddur í hrollvekju... grá skýin eins og óveðurskýstrókar endalöng eftir vindáttinni í austsuðausturátt... rykgrímurnar voru settar upp hjá þeim sem ekki vildu fá í lungun fyrir gönguna á þessum kafla og jörðin var grá af ösku...

Eftir því sem austar dró batnaði skyggnið og við tók bláfagur himininn úti um bílgluggann... með tærri fjallasýn Öræfajökuls og Skaftafellsfjalla... Hrútsfjallstindar vinstra megin og Hvannadalshnúkur með Dyrhamri hægra megin með Rótarfjallstind lengst til hægri.

Þumall og Miðfellstindur svo vinstra megin í norðri og Kristínartindar hægra megin...

Miðfellstindur verkefni okkar 2013 og Kristínartíndar gönguleið Halldóru Ásgeirs - Toppfara ársins 2008 - á meðan við hin fórum fyrri misheppnuðu tilraunina okkar á Hnúkinn árið 2008.

Hótel Skaftafell þriðja árið í röð... og þetta árið í tærri fjallasýn yfir Hrútsfjallstindum og Hvannadalshnúk út um svefnherbergisgluggann.

Þarna sváfum við í nokkra klukkutíma sem vorum heppin, eftir að hafa fengið smá fyrirlestur hjá Einari Ísfeld hjá Glacier Guides og hitt leiðsögumennina okkar og fengið úthlutað broddum, ísexi og beltum.

Morguninn eftir var lagt af stað kl. 5:00 frá hótelinu og við fengum flutning með Glacier Guides sem sóttu okkur á gulu skutlunni sinni.

Við þurftum hins vegar að fara aukarúnt að bækistöðvum Jöklamanna þar sem eitt belti vantaði og því vorum við orðin tæpum klukkutíma seinni af stað en ætlunin var við fjallsrætur, en það var einhver værukærð yfir okkur...
...dagurinn lofaði svo góðu að áhyggjur af veðri komust ekki einu sinni að...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/14/BtU-FwqR6yM

Það var logn í kortunum þennan dag og það rættist...
Funhiti fyrstu kílómetrana upp svo ullarfötin fuku ofan í pokann og útsýnið var tært og stillt.

Þessi hiti setti strik í reikninginn hjá sumum sem töfðust við fataskipti
og svitnuðu mikið með tilheyrandi vökvatapi á meðan þeir sem framar fóru geystust á undan upp Sandfellið.

Við höfðum flýtt göngunni um tvo daga yfir á uppstigningardag sem hafði alltaf verið til vara vegna vindaspár á svæðinu fyrir laugardaginn og var þessi ákvörðun umdeild og hentaði ekki öllum svo afföll urðu í ferðinni, en þegar öllum ferðum var aflýst á laugardeginum vegna vinda á jöklinum var ljóst að við tókum rétta ákvörðun og vorum
á réttum stað á réttum tíma

Fyrsta pásan var við Lækjarklett þar sem síðustu forvöð eru að ná sér í vatn fyrir hálendið...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/12/mAnSgOfMR5Q

Við höfðum aldrei verið þarna í svona góðu veðri... tæru og friðsælu logni með Skeiðarársand í fanginu, Svínafellsfjall hér á mynd (851 m)
og gönguleiðina um
Virkisjökul fyrir neðan það... leið okkar frá því í fyrra í ógleymanlegri ferð sem byrjaði með sama blíðviðrinu en endaði aldeilis á annan veg en þessi...

Við tók slóðinn upp á Sandfellsklett á góðum svitaspretti og menn voru orðnir ansi léttklæddir á þessum kafla í morgunkyrrðinni.

Pása nr. tvö á Sandfelli áður en heiðarnar tóku við.

Ingi kominn úr öllum nema buxunum og Bára náðist á mynd með kvikmyndatökuvélina í hendinni sem tók upp ferðina á köflum...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/11/gFdEajTY5PQ

Heiðin tók við með stöku snjósköflum sem smám saman límdust saman í snjólínu upp að jöklinum.

Simmi var þá þegar kominn með blæðandi hófsár eftir úlfana sem bitu hann í hælana með toppfarískum hætti
svo honum mátti vera ljóst í hverju þjálfarar Toppfara standa viku hverja þegar hafa skal hemil á viljugum hópnum "hinum fremri" ;-)

Inga Lija, Rósa, Helgi Máni og Ketill... fjögur af sterkustu göngumönnum Toppfara.


Ingi pípó og Heiðrún

Fjalla-Eyvindur og Halla...? eða var þetta Gunnar á Hlíðarenda með atgeirinn sinn alræmda og Hallgerður Langbrók...

Á íslensku hálendi er maður kominn á vald náttúrunnar og hefur á stundum lítið um það að segja
hvort maður kemst lífs eða liðinni heim aftur...

Í þessum óbyggðum finnst manni maður geta lent í hverju sem er og hitt á hvern sem er...

Jafnvel einn frægasta útilegumann Íslands, Fjalla-Eyvind og Höllu en Eyvindur er án efa einn merkasti fjallamaður Íslandssögunnar og var fróðastur manna um óbyggðirnar áður en yfir lauk hans ævi. Hann er sagður hafa verið gerður útlægur af yfirvöldum í 40 ár án teljandi sakargifta og launað illvildarmönnum sínum útlegðina með því að fella og leggja sér til munns eingöngu fé þeirra er gert höfðu á hlut hans.

Sjá mýmargt lesefni um Fjalla-Eyvind, m. a. hér á http://ferlir.is/?id=6021

Úlfar Toppfara

...að bíta í hælana á Simma, Leiðsögumanni... sjá má hvernig þeir umkringja hann með lúmskt bros úlfsins í sauðargæru á vör...
Hjölli, Óskar Bjarki, Guðjón Pétur, Anton, Örn og Kári Rúnar...

Hinir úlfarnir svo á hælunum á foryztusauðunum og gefa þeim ekkert eftir...

Í þessari ferð voru margir af sterkustu göngumönnum Toppfara frá upphafi...
...eins og Lilja Kristófers, Anna Elín, Inga Lilja, Áslaug, Petrína, Harpa og Rósa hér á mynd sem gefa karlpeningnum ekkert eftir...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/10/4TCmST8a3Pc

Hópurinn þéttur með Þumal, Miðfellstind, Kristínartinda og Hrútsfjallstinda o. m. fl.  í fjarska fannhvíta og hömrum girta...

Á Hrútsfjallstindum var Björgvin Jóns Toppfari gangandi sama dag og sendi sms þegar þetta litla gsm-samband sem þarna er á svæðinu náðist... Það er annars með ólíkindum lélegt gsm-samband í Skaftafelli og stórfurðulegt að hundruðir manna geti ekki verið í almennilegu símasambandi á þessu svæði og er ég ekki að tala um tindinn núna eða bílastæðið fyirr utan hótelið... þeir staðir eru jú í sambandi en ekki mikið meira en það og ekki innanhúss.

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/15/MP6SAx7vXxA

Við gengum framhjá öðrum gönguhópi sem var að setja menn í línur fyrir jökulgönguna
en við héldum áfram upp að
Línukletti og fengum okkur fyrsta nestið fyrir línulífið...

Nestispásan í sömu veðurblíðunni og um morguninn á meðan leiðsögumenn lögðu línurnar með framhald fararinnar...

Útsýnið stórkostlegt og vel hægt að mæla með því að fara þarna upp og snúa við vilji menn ekki fara á jökulinn sjálfan!

Hjölli, Áslaug, Anton, Örn, Óskar Bjarki, Karl Sigfús og Rósa en Karl Sigfús kom sem gestur frá Egilsstöðum
og er þar með annar frá þeim stað sem skellir sér með Toppförum í fjallgöngu hér syðra ;-) (munið eftir Skúla wildboys á Fimmvörðuhálsi).

Ingi sveiflaði atgeirnum að mönnum ef þeir voru ekki með bros á vör í þessari göngu sem var skyldubúnaður dagsins ;-)

Gula línan... yellow line... yellow submarine...

Þessi sem átti að vera aftast en tók út fyrir það svo endaði í líkamlegum meiðslum að taka svona stutt og hæg skref og má heyra hópsöng línunnar neðan við tindinn sem náðist á myndbandi - sjá ofar - "og við bíðum og bíðum og bíðum...".

Simmi jöklamaður, Helgi Máni, Rósa, Karl Sigfús, Hjölli, Anton, Guðjón Pétur og Óskar Bjarki.

Rósa var ein með strákunum og lét þau orð falla á einu augnabliki að hún væri í svo góðum málum að ef hún "félli ofan í sprungu þá myndu þeir bara halda áfram og draga hana upp í leiðinni" ;-) - sjá myndband af þessum orðum síðar í sögunni.

Pick-up-línan

...sem var stelpulína með einum karlmanni, Erni Toppfara.

Örn, Lilja K., Áslaug, Inga Lilja, Anna Elín og Simbi, Jöklamaður.

Örn varð fróður um margt í heimi kvenna eftir þessa reynslu
og komst m. a. að því að konur kippa sér ekki upp við að hafa fleiri en eina sprungu milli fótanna á sama tíma ;-)

Leynilínan

Ingi, Heiðrún, Halldór, Harpa, Kári Rúnar, Bára, Ketill og Friðjón, Jöklamaður.

Hún lét fátt uppi og hafði uppi áætlanir um heimsyfirráð á Hnúknum með því að vera fyrst á tindinn
og var atgeirinn leynivopnið sem notast var við ef aðrar línur gerðu tilraun til að fara framúr á síðustu metrunum...

Línulífið á jökli

...sérstök tegund af fjallalífi sem mörgum hugnast ekki mjög þar sem maður er þar með kominn í göngutakt heildarinnar og hefur lítið um það að segja hve stór skrefin eru, hve hröð, hvenær er stoppað eða lagt af stað :-) ... en maður nýtur öryggis félaganna og línanna sem tryggja að maður hverfir ekki niður í tómið ef snjóbrýrnar gefa sig yfir sprungunum svo þökk sé línum til að geta gengið á jökli.

Langa brekkan frá Línukletti upp á öskjubrúnina hefur fengið ýmis ljót nöfn sem ekki verða höfð hér eftir
en kallast því viðeigandi nafni hér
H-brekkan...

Harpa, Heiðrún og Ingi brosandi á öskjubrún Öræfajökuls með skýin niðri á láglendi og röð Toppfara á eftir þeim...

Nokkrar sprungur voru á leiðinni og gengur Lilja K. hér yfir eina á snjóbrú og er hún alveg í stíl við hvassa tindana í fjarska....

Sprungur á leiðinni... ekki dauðadjúpar að sjá en eflaust dýpri en ætla má af þessari mynd.

Leiðsögumenn sögðu okkur jökulinn meira sprunginn en vanalega á þessum árstíma eða um mánuði fyrr.

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/9/jGixuCQxrls

Smám saman kom Dyrhamarinn í ljós og svo Hnúkurinn sjálfur með fólk á tindinum
og var það notaleg sjón... við vorum á leiðinni þangað upp...

Tveir naglar í sögu Toppfara... Petrína og Dyrhamar...

Úlfarnir gerðu reglulega atlögu að fremstu mönnum og áttu til að hvæsa ófrýnilega ef línuröðin var nefnd á nafn...

Guðjón Pétur, Hjölli, Anton, Óskar Bjarki og Helgi Máni...

Elsti göngumaðurinn nýtti pásurnar vel til að hvílast eins og vanalega.

Sveinstindur í sólinni...

Verkefni okkar árið 2014 ef að líkum lætur...
Þá er gengið um
Hnappana upp sunnan megin, brattari en styttri leið...
Þá er ekki spurning að fara eitthvurt árið hringinn um öskjubarm Öræfajökuls og ganga á alla sjö tindana í einu...
Aldrei að vita hvað þjálfari tekur upp á í framtíðardagskránni...

Hvannadalshnúkur í allri sinni dýrð á öskjubarminum með öskjuna fulla af snjó.

Öræfajökull er eins og fram kemur í ferðasögu Snæfellsjökuls, eina af fjórum virkum eldkeilum Íslands ásamt Snæfellsjökli, Heklu og Eyjafjallajökli, fjöll sem öll eru í safni Toppfara og eru reglulega á dagskrá... væri spennandi að ganga á Eyjafjallajökul í apríl 2011...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/6/eGhmY5y2gxc

Sjá myndband af skíðamönnunum þremur sem fóru við Dyrhamarinn (líklega Jón Gauti og félagar): http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/5/nBCX4UonPwA

Við Hnúkinn sjálfan var farið í sólbað í hádegismatnum áður en síðustu metrarnir voru gengnir og verður minningin um þennan stað eins og að vera á frosinni sólarströnd í öllum fötunum... brakandi sælustaður í hátíðarstemmningu sem á sér engan líka...

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/17/TdDH0_ZwBpg

Hola í nokkrum höggum að hætti Simba... kærkomið framlag til kvennanna sem máttu vart mæla fyrir þakkæti ;-)

Það var svo gaman hjá ærslabelgjunum í þessum hópi að við máttum varla vera að því að ganga upp á Hnúkinn...

...enda vorum við næstsíðasti hópurinn þarna upp þennan dag... sjá síðasta hópinn aftar hér.

Loks lögðum við af stað; 45 mín ganga framundan upp á hæsta tind úr um 1.840 m hæð...
...þetta jafngildi Úlfarsfelli eða álíka felli í hækkun.

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/16/HsRoU5rHnFE

Landslagið fannhvítt, blankalogn og brakandi hiti á leiðinni í góðu göngufæri og göngumenn á leiðinni niður þar sem við mættum Lindu Leu og Sigfúsi Toppförum og fleira fólki, vinnufélögum, jafnvel afkomendum og ættmennum sem varð að faðma og kyssa í tindavímunni ;-)

Litið niður úr hlíðunum, sjá aftasta gönguhópinn neðar og bækistöðvarnar í "efstu búðum" þar sem við vorum í sólbaðinu
og göngumenn á leiðinni til baka fjærst á mynd efst.

Brattinn á mynd hér, þetta er þétt brekka og ekki þægileg uppgöngu í erfiðu veðri og hálku en hvorugt var verkefni dagsins að sinni.
Allir samt á broddum til öryggis og það var ágætis tilfinning þegar brattinn varð sem mestur.

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/4/4Sk4fWT1-9g

Sprunginn jökullinn niður að Virkisjökli og Falljökli neðar... ægifagurt landslag jökulsins öræfanna...

Tindurinn í augsýn og nóg af fólki þar uppi á þessum tímapunkti en flestir á leiðinni niður
vo við áttum eftir að fá að vera eina þarna uppi sem var kosturinn við að hafa verið svona lengi að koma sér upp !

Fyrstu skrefin á sjáflan tindinn tók elsti klúbbmeðlimur Toppfara, Ketill Arnar Hannesson, á 73ja aldursári...

Félagarnir að skila sér inn með tindabrosið á vörinni...

Myndband á þessum tímapunkti:

Fyrri tveir hópar koma upp: http://www.youtube.com/watch?v=j0YYvzOUEO8

Síðari hópur kemur upp: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/a/u/0/_640csmnukI

Útsýnið áhrifamikið til vesturs yfir Skaftafellsfjöllin og Hrútsfjallstinda, Miðfellstind og Þumal
en það var skýjaðra í norðri og austri.

Sjá ferðasögu Björgvins Jóns á Hrútsfjallstinda, en hann gekk á þá í sögulegri ferð með meiru sama dag og við vorum á Hnúknum
og var hann í bandi við þjálfara: http://www.fjallgongur.is/ferdasogur_felaganna.htm

Þeim tókst loksins að koma henni á tindinn í þriðju tilraun...
...Hjölli í 3ja sinn á Hnúknum og fimmtu ferð, Bára á Hnúknum í fjórðu tilraun
og
Ingi og Guðjón Pétur í fyrsta sinn á hnúknum í þriðju ferð...

Maður uppsker eins og maður sáir...

Við uppskárum loksins laun erfiðisins... laun tryggðarinnar og þrautsegjunnar... það var þess virði...

Síminn, myndavélin, nesti, hvíld, fögnuður og sæla...

Tindalíf með meiru

Toppfarar í skýjunum á hæsta tindi :

Efri: Halldór, Helgi Máni, Guðjón Pétur, Karl Sigfús (gestur frá Egilsstöðum), Hjölli, Ingi, Óskar Bjarki, Ketill og Kári Rúnar.
Neðri: Örn, Petrína, Rósa, Harpa, Lilja K., Anna Elín, Bára, Heiðrún, Inga Lilja , Áslaug og Anton.

Mörg hver með hvern einasta eða nánast hvern einasta tind í vetur í bakpokanum...


Anna Elín, Heiðrún, Ingi, Ketill, Áslaug og Inga Lilja... í tindavímunni sem ekkert toppar...

Fagnaður með upphafsmanninum að þessu öllu saman... sá sem kom Báru á fjallabragðið sem ennþá smitar út frá sér...

Smám saman áttum við tindinn einsömul og og andi hópsins ríkti um stund á toppnum áður en halda varð niður...

Það var farið að blása og snjóa þegar við lögðum af stað og mættum við þá síðasta gönguhópi dagsins á leiðinni upp, sem voru svo óheppin að fá ekkert skyggni þarna uppi en samt frábæran göngudag svo það var ekki hægt að kvarta :-)

Kári Rúnar steig ofan í eina sprunguna á leiðinni niður svona til að skoða aðstæður...

Sami brattinn og sama kátínan og á leiðinni upp... við máttum vart ganga fyrir gleði og fíflalátum...

Síðustu skrefin aftur niður af hnúknum sjálfum.

Smá pása eftir sigurinn og framundan var niðurleiðin sem oft getur verið erfiðasti kafli dagsins
og sá varasamasti þar sem kæruleysi, óþolinmæði og þreyta taka við af einbeitni og yfirvegaðri ákefð
og auka á slysahættu skv. tölfræði háfjallaferða almennt.

Blessaður vertu Hvannadalshnúkur

Við tók þétt og þolinmóð ganga gegnum létta snjókomu og svo blauta í mismiklu skyggni.

Engin vandamál og allir í góðu standi svo þetta sóttist mjög vel.

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/3/pv-iagTOThA

Línuklettur í snjókomu og engu skyggni en við hlóðum batteríin og losnuðum við línurnar
sem heftuðu menn og gerðu suma nánast vitlausa :-)

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/2/qJVHJ5QyJek

Anton, Bára, Áslaug, Simbi, Helgi Máni og Inga Lilja...

Hver þeirra ætli hafa verið manna LANGfegnastur að losna úr línunni...?... sá sem getur rétt svar er Toppfari með reynslu !

Þau sem völdu rétt og fóru í fyrsta sinn á tindinn í fyrstu tilraun:

Anton, Óskar Bjarki, Inga Lilja, Rósa, Harpa, Lilja K., Karl Sigfús, Áslaug, Ketill, Anna Elín, Halldór, Heiðrún og Helgi Máni.

Þau sem voru að sigra tindinn í fyrsta sinn:

Allt föruheytið nema þrjú svo til viðbótar efri mynd þá voru þetta
Örn, Bára, Ingi og Guðjón Pétur með SVONA MARGAR TILRAUNIR - sjá fingurnar !

Hvannadalshnúksfarar með fortíð:

Kári Rúnar í annað skipti á toppnum, Hjölli í annað sinn eða fimmtu göngu á hnúkinn og Petrína í annað sinn á tindinum.

Þær vildu allar fá mynd af sér með leiðsögumönnunum...

...en Lilja var sú eina sem hafði hugrekki til að spyrja ;-)

Föruneyti Hnúksins...

...fullkomin blanda fjallgöngumanna sem töldu 22 manns...

Niðurleiðin var svo með hefðbundnum hætti,
hver á sínum hraða á geislandi gleði og spjalli með
heiminn að fótum manns og hugann nokkrum himnum ofar...

Örninn fann þúfuna sína og gætti þess að menn færu ekki villu vegar niður af Sandfellinu.

Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/1/0C-wgLO5DXg

Síðasta sælan á göngu... Lækjarkletturinn í bongóblíðunni sem ríkti þennan dag þó veðrið væri orðið verra uppi.

Örn, Halldór, Karl Sigfús, Helgi Máni og Ketill.

Ingi og Bára geymdu ölið sitt í læknum og voru viss um að stríðnispúkarnir fremst væru búnir að taka setja grjót í pokana... en nei, þeir greinilega hraðspóluðu framhjá þessu gullna tækifæri til að svekkja félaga sína á endasprettinum ;-)

Til hamingju...

Bára hans Hjölla tók á móti mönnum en hún hafði gengið að Svartafossi í veðurblíðunni þennan dag.

Sjá kvikmyndatökumann skála við nærstadda í rútunni: http://www.youtube.com/user/BaraKetils#p/u/0/_CaNYxAqyBM

Um kvöldið voru hefðbundin hátíðarhöld með 3ja rétta máltíð á hótelinu, hlátrasköllum og fjallagleði...

Þjálfari hafði lagt upp með þrjár áskoranir þessa helgina:

"Ganga hærra, drekka meira og vaka lengur" og markmið nr. 1 var náð
...en við stóðum engan veginn við hinar áskoranirnar...

Ingi gerði tilraun til að fá mannskapinn til að taka þátt í Hálendisleikum í fimm íþróttagreinum... skaganesuð snilld... en helmingur hópsins sofnaði yfir matardiskinum og hinn helmingurinn læddist upp á herbergi þegar hinir sáu ekki til eða með ýmsum afsökunum, svo kvöldið endaði ellefuleytið... þetta var of stór dagur til að rýma annað fullkominn dag á fjöllum sem var að baki...

... en Hálendisleikarnir verða að sjálfsögðu haldnir austur í öræfum við rætur Snæfells í ágúst !

Á heimleiðinni var ekki skyggni upp að eldgosinu en við sáum sláandi afleiðingar gossins betur á láglendinu...

Aska um allt þó grasið væri greinlega að koma upp úr henni.

Á Hvolsvelli hafði orðið öskufall þennan föstudagsmorgun
og við ókum inn í öskuskýin sem lágu yfir suðurlandsundirlendinu og lentum á steingráum Hvolsvellinum...
...áður en við skiluðum okkur steingráum en alsælum til Reykjavíkur með sigurinn í sálinni ;-)

Hæsti tindur Íslands var loksins sigraður með  24,3 - 26 km göngu á 12:25 - 13:04 klst. upp í 1.224 m hæð (2.110) með 1.029 m hækkun.

Hver og ein ferða okkar á Hvannadalshnúk síðustu þrjú árin er annarra ólíkari.
Þessi án efa sú sætasta í kærasta félagsskap í heimi...
Klúbbmeðlimum sem hafa haldið út gullinn veturinn í sól og útsýni í öllum ferðum nema einni
sem var alveg í stíl við þennan dag og svo sannarlega í stíl við skínandi bjarta gleðina sem einkennir þennan hóp.

--------------------

Sjá allar ljósmyndir ferðarinnar hér http://picasaweb.google.com/Toppfarar/T38Hvannadalshnukur130510#
- m. a. myndir af gosinu í Eyjafjallajökli á leiðinni austur og öskufalli báðar leiðir.
...og tandurhreinni fjallasýn á tindana sem bíða okkar í árlegri ferð í Skaftafell:
Hrútsfjallstindar 2011, Þverártindsegg 2012, miðfellstindur 2013 og Sveinstindur 2014 með Jöklamönnum...
Hvað eigum við eiginlega svo að gera ;-)

Sjá síðar myndband sem unnið er úr allri ferðinn sem þjálfari tók reglulega alla leiðina...
Að hugsa sér að ganga á Hnúkinn með myndbandsupptökuvél í hægri hendi alla leið...
...slík var blíðan á uppgönguleiðinni...

Nú loksins skilur maður þá sem fara árlega á Hvannadalshnúk...
...mann langar strax aftur...

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir