Tindferð 38 - Kálfstindar 1. maí 2010 - kröfuganga nr. 2.
Gengið var á Stóra Reyðarbarm (527 m) frá Barmaskarði og yfir á móbergsfjallgarð Kálfstinda þar sem sá syðsti var genginn en við leyfum okkur að kalla þennan hluta "Suðra" þar til skráð nafn finnst á hann og mældist 595-600 m á okkar gps. Hann hefur sömu hrikalegu ásýndina og nyrðri tindarnir vestan megin frá þó hann sé lægstur en er mun sakleysislegri austan megin séð og telst til Kálfstinda skv. korti Landmælinga enda klárlega lægð milli hans og Stóra Reyðarbarms og önnur jarðvegssamsetning þar sem móbergshjallarnir eru einkennandi eins og á hinum tveimur næst honum. Sjá á myndinni hópinn ganga á Suðra með Stórhöfða fjær þar sem hengiflugið tók við, en tindurinn sá er ókleifur í suðri, vestri og norðri en við sáum tvær hugsanlegar uppgönguleiðir í austri í bakaleiðinni á hann ásamt "Illkleif" (okkar nafngift) sem rís norðan við hann og er álíka óklífandi ásýndum. Það virðist vera gengt á þá hvor frá öðrum en það er eitt að sjá leiðir neðan frá en vera á staðnum uppi í fjalli og hér er því komið fínasta verkefni fyrir þá sem vilja kanna ókunnar slóðir og fyrir Toppfarar einn góðan göngudag í framtíðinni ;-) Okkar reynsla er sú að ókleif leið að sjá er oft kleif þegar nær er komið og kleif leið í fjarska reynist oft ókleif þegar nær er komið, svo það er ekkert öruggt í þessu fyrr en farið er á staðinn.
Við fengum okkur "morgunkaffi" á Suðra í dásamlegu logni og útsýni og kæruleysið var allsráðandi. Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/BaraKetils#p/u/4/AFxWeqsHbaE
Hópurinn hér að gera sig kláran fyrir frekari göngu
Við þurftum að snúa til baka niður til að komast niður vesturhlíðarnar og blasti suðurlandið við okkur með Þingvallavatni og Hengilssvæðinu í fjarska. Sjá Vörðuskeggja og félaga hvíta hinum megin vatnsins og Stóra Reyðarbarm - þaðan sem við komum - fyrir framan okkur í suðri.
Niður í
Hrútadali
var farið um þornaðarn lækjarfarveg sem var skínandi
góð leið og alveg í stíl við annað klöngur
dagsins...
Við létum okkur ekki nægja að fara um slétturnar við Hrútadali þar sem stór björg gefa landslaginu gulan lit og gott skjól fyrir nestispásu, heldur vildu þjálfarar klöngrast inn í magnað gljúfrið við Hrútafjöll sem virðist nafnlaust og við köllum Hrútagil þar til annað finnst ! Grýtt var það en skrælþurrt og í stíl við furðulega marga vatnsfarvegi á þessu svæði án nokkurs vatnsdropa... hvaðan kemur allt þetta vatn sem þarna hefur náð að móta landslagið allverulega og hversu "gamlir" eru þessir farvegir því þeir voru gróðurlausir og því "ferskir"? ... í vorleysingum fortíðarinnar sem engar voru þarna í byrjun maí...?
Inni í botni gljúfursins tók við einstakur klettasalur og steinbrýr sem Anton, óhræddasti Toppfarinn, var ekki lengi að príla upp um og Örn á eftir en þessi leið var engan veginn fær fyrir hópinn í heild svo Örninn sneri til baka á meðan Anton lét ekkert stoppa sig og fór alla leið upp úr gljúfrinu þessa leiðina. Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/BaraKetils#p/u/3/FoloIFa_0Nk
Menn voru varla búnir að koma sér fyrir og byrjaðir að snæða hádegisverðinn sem "beðið hafði verið eftir" þegar við þurftum að færa okkur utar í gljúfrið þar sem grjótið kom í hrönnum ofan af gönguslóð Antons og endaði máltíðin á þessum stað hér þar sem heilu eldhúsbekkirnir úr grjóti biðu tilbúnir eftir okkur ;-)
Eftir
hádegismatinn hélt ævintýrið áfram inn Hrútadali að
Flosaskarði
um já... enn einn þornaða árfarveginn...
Í vesturskarðinu (Hrútaskarð?) klöngruðumst við með Flosatind á hægri hönd og Hrútafjöll á þá vinstri og Illkeif í baksýn við Flosaskarð.
Þegar komið var norður fyrir hækkuðum við okkur smám saman og brattinn fór snemma að segja til sín... hálka, skriður og lausagrjót en færið með besta móti þar sem jarðvegur var að mestu frosinn og stærri steinar gáfu því traust grip og skaflarnir um leið nægilega blautir til að gefa djúp spor. Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/BaraKetils#p/u/2/64l6wLxlCD4
Líklegast er norðurhlíðin greiðfærust en óþolinmæðin afvegaleiðir menn almennt fyrr upp úr vesturskarði eins og hún gerði við þjálfara þegar þeir fóru könnunarleiðangur upp vestan megin, þar sem þeir þurftu að snúa við í miklum bratta efst tæpum tveimur vikur áður, þegar það var orðið þeim nokkuð ljóst var að hópurinn myndi ekki fara þar um með þægilegu móti...
Hópurinn fór þetta yfirvegað og rólega á milli þess sem áhrifamikið útsýnið opnaðist okkur eftir því sem ofar dró.
Björn hér á síðustu metrunum með Þingvallavatn í baksýn...
Hann
mætti í gönguna eftir að hafa lent á
Keflavíkurflugvelli kl. rúmlega 11 kvöldinu áður og
svefn frá kl. 03:00...
Uppi tók sannkölluð tindavíma við enda ekki oft sem maður stendur á hæsta tindi og getur litið niður á láglendið frá öllum hlíðum. Útsýnið stórkostlegt á óteljandi fjölda fjalla, allavega fimm jökla, nokkurra vatna, til sjávar í suðri og fleiri en eins eldfjalls þar sem eitt þeirra var gjósandi í tonnatali... http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/05/01/vatnid_kemur_i_gusum_nidur_gilid_i_gigjokli/ Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/BaraKetils#p/u/1/DE1RFnxwzoo
Bros á hverju andliti og gantast sem aldrei fyrr... þetta var dásamleg stund og staður...
Kröfuhafar dagsins voru alls 24 og fóru fyrir skilanefnd á tindi Flosa í 838 m (824 m) hæð þar sem gaf á að líta óteljandi fjöll fyrir nestispásur framtíðarinnar...: Efri: Örn, Ásta H., Steinunn, Eiríkur, Kári Rúnar, Ágústa, Hermann, Snædís, Anton, Rósa, Sigga Sig., Björgvin, Stefán A., Ingi. Neðri: Gerður, Björn, Helga Bj., Svala, Lilja K., Hildur V., Heiðrún. Dimma, Áslaug, Día og Vallý. Þula stóð vörð og Bára tók safnaði sönnunargögnum.
Niðurleiðin var enn meira krefjandi en uppgangan í lausamöl og hálku þar sem Flosa hafði greinilega tekist að frysta jarðeignir sínar undir yfirborðinu... Sjá myndband af þessum tímapunkti: http://www.youtube.com/BaraKetils#p/u
Lítið var fast í hendi á köflum nema óhaldbærar smámyntir sem tæpast gátu haldið kröfuhöfum uppistandandi...
... en menn létu ekki slá sig út af laginu og héldu
ótrauðir
niður á láglendið með
bros
á nánast hverju
andliti...
...í einskærri
göngugleði
og
hlátrasköllum
þar sem tilkynnt var í
toppfarísku glensi
um bæði grjót og konur rúllandi niður ;-) ...
Og göngugleðin var slík að þó við sem síðust vorum reyndum að stöðva fremstu menn af í mesta grjóthruninu til að þétta hópinn vildu þau hvergi staldra við og voru fyrr en varði komin í skjól út á klettanösina þarna til að bíða eftir síðasta ruðningsmönnum ;-). Grjóthrun er engu að síður varasamt í þetta miklum bratta þar sem ekki svo stóri hnullungar geta orðið stórhættulegir ef þeir komast á góða ferð og flug og eftir á að hyggja er skynsamlegra að vera þétt saman í einni röð á svona slóðum þar sem öftustu menn geta þá ekki sent hnullunga af stað niður á þá sem neðar eru.
Klettabeltið sem þvera varð til að komast niður fyrir það sunnar, við klettanösina... Þetta var krefjandi niðurleið sem tók í en var ævintýraleg fyrir vikið og góð í reynslubankann...
Áfram var haldið niður frá nösinni og á köflum var erfiðast að vera síðust í röðinni þar sem slóðin varð sleipari með hverju skrefinu en menn stóðu þétt saman og réttu fram kærkomnar hjálparhendur þegar á þurfti að halda.
Komin neðar hér og sjá má leiðina upp eftir... ágætis leið en seinfarin...
Undirlagið
batnaði með hverjum metranum neðar Leiðin minnti okkur á Baulu og Herðubreið þó varla kæmist hún samt í hálfkvisti við þær drottningar...
Eftir þessa sannkölluðu afreksgöngu niður tóku hænur og kríur á móti okkur í dúnmjúkum mosa vorsins... Engin þeirra náðist á mynd en sumir bókstaflega sofnuðu í þessari korterspásu í sólinni og hitanum með sælubros á vör...
Við tók
síðasti
hluti göngunnar austan megin með
hina hrikalegu kálfstinda á hægri hönd...
Áður en við tókum svo síðasta sprettinn að bílunum í drjúgum lokakaflanum upp veginn í talsverðri hækkun með bílana brunandi framhjá okkur kíktum við í Laugarvatnshelli sem á sér merkilega sögu skv. skiltum á svæðinu: Þar kom m. a. fram að elstu frásagnir af Laugarvatnshellum er í Ferðabók Eggerts og Bjarna frá miðri 18. öld en þeir hafa verið notaðir sem sæluhús, fjárhús, greiðasala og mannabústaðir. Flatarmálið er um 70 - 80 m og voru hellarnir í alfaraleið milli Suður- og Vesturlands og því ákjósanlegur áningarstaður þar sem ekki skorti skjól, vatn né góðan haga.
Árið 1910 hófu ungu hjónin Indriði Guðmundsson og Guðrún Kolbeinsdóttir (17 ára) búskap í Laugarvatnshelli og voru þar í 11 mánuði en hellarnir þóttu ekki verri húsakostur en hvað annað á þeim tíma. Sjá má m. a. leifar af kartöflugarði þeirra norðaustan megin við hellinn en þau gerðu hellinn íbúðarhæfan af mikilli kostgæfni og notuðu þann minni fyrir gripahús. Þau reistu tjald á balanum fyrir framan hellana þar sem þau seldu gestum og gangandi kaffi, kökur og brauð sem Guðrún bakaði í hellinum. Um haustið og framan af vetri veiddi Indriði m. a. rjúpur og flutt þær á sleða til Reykjavíkur þar sem hann seldi þær fyrir nauðsynjum.
Árið 1918 hófu önnur hjón búskap í hellinum, Jón Þorvarðsson og Vigdís Helgadóttir, sem innréttuðu hellinn enn betur og reistu m. a. fjárhús norðan hans þar sem enn sjást grjóthleðslurnar. Þau bjuggu þarna í fjögur ár og eignuðust þrjú börn á þeim tíma; Ragnheiði og Hrafnhildi Ástu sem fæddust í hellinum og Magnús sem fæddist á Laugardalshólum. Sagan segir að Jón hafi tekið á móti Ragnheiði og skilið á milli áður en hann fór að sækja ljósmóður á Laugarvatn sem tók 8 klst. í stórhríð og heilsaðist þeim mæðgum vel þegar þau skiluðu sér til baka. Eftir að þau hjónin fluttu burt í Flóann með börnin sín þrjú eignuðust þau önnur fjögur börn svo eflaust eru afkomendur þessara hjóna meðal vor í dag og einstakur arfur þeim að hafa slíkan helli og stálmenni í forfeðratali... Það er ekki lengra síðan tímarnir voru aðrir en okkar og allt krepputal okkar verður lítilmótlegt í samanburði við lífskjör sem að ofan greinir. Okkur kom saman um það þegar við skoðuðum okkur um þarna, að það væri umhugsunarvert hvorir tímarnir væru ákjósanlegri... öll firringin og hraðinn í dag eða einfaldleiki og nægjusemi fortíðarinnar... Myndir og upplýsingar fengnar á skiltinu við hellinn.
Kröfugöngu dagsins lauk eftir 8:13 klst. með 15,3 km að baki upp í 527 - 595 - og 838 m hæð með 583 m hækkun miðað við 255 m upphafsstað eða alls um 1.500 m hækkun milli tinda. Sjá prófílinn hér þar sem Stóri Reyðarbarmur er fyrsta hækkunin, syðsti hluti Kálfstinda sú næsta, svo tekur við lækkunin um lækjarfarveginn niður í Hrútadali og gljúfurgangan, Flosaskarð hækkandi og loks fjallgangan sjálf upp á Flosatind sem rís hæstur 838 m skv. þessu gps og svo láglendisgangan að bílunum síðasti hlutinn með "smá" brekku upp í í bílana aftur ;-)
Þessi
gönguleið var á köflum með þeim meira krefjandi sem við höfum
farið í enda tímalengdin heilmikil í hlutfalli við
vegalengd Svona er sumarið... þá er hægt að gera meira en bara setja á sig skíðagleraugun og arka af stað...
...Afreksganga
í sumargleði á ævintýralegum slóðum... sem var svo miklu meira
Sjá allar myndir úr göngunni á: http://picasaweb.google.com/Toppfarar/T37Kalfstindar010510# Sjá fimm myndbönd úr þessari ferð á Youtube: http://www.youtube.com/BaraKetils#p/a/u/0/BUXpVLvuYdc Til samanburðar skal vísað í veraldarvefinn á ferðasögur annarra á þessum slóðum þar sem grjóhrun og bratti einkenna frásagnirnar. Sjá hér í gamni eina slóð af myndbandi eins gönguhóps niður suðurhlíðina að Flosaskarði sem við fórum ekki um, en skv. vefnum hafa allar hlíðar Flosatinds verið gengnar þó suður- (liggur beinast við) og norðvesturhlíðarnar (mælt með af Ara Trausta og Pétri Þorleifs) virðast algengastar: http://picasaweb.google.com/nautholar/Kalfstindar_2009#5420038838882384018
Um
leið og vorið og sumarið taka við þá hverfa menn um
fjöll og firndindi með tilheyrandi afrekum:
Og
Roar
Toppfari myndaði Eyjafjallajökul í áhrifamikilli
nálægð og birtust myndir hans í fjölmiðlum: Endilega senda mér myndir og fréttir af svona afrekum því klúbbmeðlimir geta lært heilmikið hvert af annarra ævintýrum !!
|
Við erum á toppnum...
hvar ert þú?
|