T I N D U R  N R .   2   -   M Ó S K A R Ð A H N Ú K A R  3 . J Ú L Í 2 0 0 7

Myndir frá Báru í tímaröð:

 

 

Vísan frá Karli Andersen:

Esjufjöllin austast varða
í aftansólu, ekki dimm.
Handan hárra Laufaskarða
Hnúkar Móskarðs eru fimm.

Tindur nr. 2; Móskarðahnúkar var genginn þriðjudaginn 3. júlí í glimrandi veðri, því besta til þessa og hefur það þó verið einstakt í sumar; heiðskírt, 18°C og logn.

Alls 36 manns lögðu af stað að meðtöldum þjálfurum og tíkunum Vísu og Ylfu, auk tveggja Íslenskra fjallaleiðsögumanna sem stýrðu göngunni, þeim Jóni Gauta og Viðari ásamt Huldu fylgdarkonu (39 manns) og voru þeir frábærir í alla staði; þjónuðu vel hagsmunum þeirra sem vildu fara fyrst og þeirra sem fóru rólegar og voru jafnvel að mæta í fyrsta skipti.

Ekið var eftir Þingvallavegi og beygt inn hjá Hrafnhólum, framhjá Seljabrekku og Skeggjastöðum og þegar innar dró var raðað þéttar í jeppa til að aka grófan slóða inn að Skarðsá við rætur Móskarðahnúka, en áin sú rennur um Svínaskarð og sameinast Þverá sem svo rennur í Leirvogsá.

Lagt var af stað um kl. 18:35 eftir stutta kynningu Jóns Gauta og var veðrið þarna eins og í sólarlöndum; það lygnt að hægt var að klæðast stuttbuxum og hlírabol, jafnvel þegar ofar dró. Gengið var upp skriður og móa og fljótlega gat á að líta ljósa líparíthnúka á hægri hönd snyrtilega afmarkaða veðri, tíma og vindum og var stuttlega áð þarna með glæsilegu útsýni til suðurs.

Gengið var svo með hlíð suðvestari hnúksins og birtist okkur útsýni norður yfir þegar komið var að skarðinu milli tveggja austustu hnúkanna. Stemmningin þarna var sérstök þar sem ofan okkar til vesturs og austurs stóðu hnúkarnir ljósir að lit og útsýni gaf til jökulhálendis norðursins og fjallaláglendis suðursins.

Borgin glitraði þarna hálf ómerkileg suðvestan megin í fjarska og minnti okkur á að ekki þarf að fara lengra en í Móskörðin til að komast að því að íslenskt landslag skákar allri steinsteypu og manngerðum tilburðum til yfirburða.

Gengið var rösklega upp hæsta hnúkinn í ljósri líparítbrekkunni úr hvössum steinvölum sem gaf ákveðna hlýja sólarstemmningu sem sjá má fyrir sér geisla frá sér til göngugarpa óháð sólargangi og skýjafari, enda lofa fjöll þessi sól og sumri í rigningu og sudda borgarinnar allt árið um kring.

Hópurinn borðaði nesti, skrifaði í gestabók og leyfði Jóni Gauta að taka hópmynd af sér þarna á toppnum sem engan veginn rúmaði þetta stóran hóp. en mikið óskaplega var þetta fallegur útsýnisstaður...

Af hæsta hnúknum sást til göngufólks fara niður næsta hnúk við hliðina vestan megin og þegar Jón Gauti var spurður hvort sú leið væri torsótt var svarið að við skyldum ganga hana nú og áfram á næstu hnúka vestur í átt að Esjunni... ekki málið, þetta eru hetjur allir þessir Toppfarar og sveik þessi ganga engan hvort sem menn áttu auðvelt eða erfitt með þessa leið þegar á reyndi... lofthræðsla hvað..?

Að loknum fjórum frekar en fimm hnúkum (?) settist hópurinn niður og naut kyrrðarstundar í þrjár mínútur að frumkvæði Jóns Gauta og líklegast varð kvöldgangan mögnuðust á þessu andartaki...

Fátt líkist því að sitja á fjallstoppi í kvöldsól og logni, sæll og glaður innra með sér sem ytra eftir frísklega göngu upp og niður fjallshnúkana, horfa á mýið leika sér við móa og steina hálendisins, finna goluna leika letilega við hárið og óska þess að þessi kyrrð líði ekki undir lok.

Þetta er andartak sem gefst þegar gengið er einsamall á fjöllum og smá innsýn fæst í það með kyrrðarstund sem þessari í stórum hópi og skal því eindregið mælt með því svo lengi sem öryggi er tryggt. Það var ekki fyrr en GSM-símar höfðu truflað þessa stund tvisvar að hópurinn gaf friðinn eftir og drattaðist á fætur til þess að koma sér niður, en spyrja má hvenær við hefðum staðið upp ef símarnir hefðu ekki rofið þögnina...

Á niðurleiðinni benti Jón Gauti á valmöguleikann um að ganga á þá hnúka sem eftir voru fram að Laufskörðum og fór rúmur helmingur hópsins þá viðbót sem reyndist stutt og vel þess virði. Tekin var mynd við Laufskörðin og skokkaði Jón svo létt niður fyrra skarðið að keðjunum til þess að sýna okkur leiðina yfir á Esjuna og auðvitað förum við þessa leið einn daginn... ekki spurning...


Mynd frá Gylfa Þór

Nokkuð dreifðist úr hópnum á niðurleiðinni eins og alltaf en þarna var orðið skýjað að hluta og létti það talsvert á göngumönnum eftir brakandi hitann á uppleiðinni. Klukkan var orðin 22:45 þegar komið var að bílunum eftir 4:10klst göngu að meðtöldum hléum, 8,3 - 8,8km að baki eftir því hvort menn fóru alla hnúkana eða ekki, hækkun upp á 556m og hæðin 807m...

       

Einhver sérstakur sælusvipur var á hópnum þegar komið var niður og ríkti einstakt andrúmsloft gleði og ánægju með hreint út sagt ógleymanlega göngu í glimrandi veðri með frábæra leiðsögumenn og heillandi landslag að baki...

Sælubrosið var ennþá á andliti manns daginn eftir og víman var lengi að renna af fram eftir vikunni svo ljóst má vera að við vorum snortin af Móskörðum þetta kvöld... slík áhrif af íslenskri náttúru eru ómetanleg og ekki metin til fjár... heldur gefa forsmekk af því sem hægt er að upplifa gefi maður sér tíma til þess að reima á sig skóna og leggja gangandi af stað... jafnvel einn á ferð...

Myndir frá Gylfa Þór:

Myndir frá Irisi Ósk:

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir