Tindur 27 - Skjaldbreiður 12. september 2009

 

Skjaldbreiður...
þriðja drottningin

Alls gengu 26 Toppfarar á Skjaldbreið laugardaginn 12. september
og bættu þar með þriðju fjalladrottningunni í safn klúbbsins síðla sumars... eða er Skjaldbreiður karlkyns...?

Þetta var fallegur göngudagur með sól og hita til að byrja með eða léttskýjað, S3 og 11°C.... vorum við í alvörunni svona heppin með veður... heiðskírt framundan og magnað útsýni í vændum af gígbörmum Skjaldbreiðar?

Í stað þess að það kólnaði með hækkandi hæð þá hitnaði sífellt á uppgöngunni
og við snarfækkuðum fötum fyrstu hæðarhundruðina...

Sjá Fanntófell í baksýn með tindinn í skýjum.

En svo skreið þokan yfir okkur frá um 800 m hæð...

... með smávegis úða á tímabili...

...en sólargeislana skínandi gegnum þokuna svo sífellt virtist vonin um að það myndi hreinsa til á tindinum ætla að rætast...

En þegar gígbarminum var náð - sjá fremstu menn á mynd - var útsýnið lítið nema rétt ofan í gíginn og varla það...

Hann var "sköflóttur" ef svo má segja, ekkert vatn og skaflar ofan í honum að hluta innan um stórgrýtið.
Fallegur staður í góðu veðri...

Við ákváðum að taka góða nestispásu á meðan þokunni myndi létta... en allt kom fyrir ekki og við fengum bara rólyndismatarpásu í logni og ágætis hita miðað við að vera í 1.065 m hæð um miðjan september...

Bára fékk Björn til að lesa upp ljóðið Skjaldbreiður eftir Jónas Hallgrímsson
sem samið var þegar hann varð viðskila við hóp sinn á ferð á þessum slóðum á 19. öld....

Upplestur Björns með sína virðulegu, djúpu rödd og skýran framburð var andaktugur svo hópinn setti hljóðan enda áhrifamikið og innihaldsmikið ljóð um Skjaldbreið (NB í karlkyni !) og nágrannafjöll hennar, Þingvelli og logandi jarðhræringar íslenskrar foldar... hvílík snilld...:

Fanna skautar faldi háum
fjallið, allra hæða val,
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógnaskjöldur bungubreiður
ber með sóma réttnefnið.


Ríð ég háan Skjaldbreið skoða,

skín á tinda morgunsól,
glöðum fágar röðulroða
reiðarslóðir, dal og hól.
Beint er í norður fjallið fríða.
Fákur eykur hófaskell.
Sér á leiti Lambahlíða
og litlu sunnar Hlöðufell.


Vel á götu ber mig Baldur.

Breikkar stirnað eldasund.
Hvenær hefur heims um aldur
hraun það brunað fram um grund?
Engin þá um Ísafoldu
unað hafa lífi dýr.
Enginn leit þá maður moldu,
móðu steins er undir býr.


Titraði jökull, æstust eldar.
Öskraði djúpt í rótum lands,
eins og væru ofan felldar
allar stjörnur himnaranns,
eins og ryki mý eða mugga,
margur gneisti um loftið fló.
Dagur huldist dimmum skugga,
dunaði gjá og loga spjó.


Belja rauðar blossa móður,

blágrár reykur yfir sveif,
undir hverfur runni, rjóður,
reynistóð í hárri kleif.
Blómin ei þá blöskrun þoldu,
blikna hvert í sínum reit,
höfði drepa hrygg við moldu.
Himna drottinn einn það leit.


Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng.
Öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.


Kyrrt er hrauns á breiðum boga,

blundar land í þráðri ró.
Glaðir næturglampar loga,
geislum sá um hæð og mó.
Brestur þá og yzt með öllu
í undirhvelfing hraunið sökk.
Dunar langt um himinhöllu.
Hylur djúpið móða dökk.


Svo er treyst með ógn og afli
alþjóð minni helgað bjarg.
Breiður, þakinn bláum skafli,
bundinn treður foldarvarg.
Grasið þróast grænt í næði,
glóðir þar sem runnu fyrr.
Styður völlinn bjarta bæði
berg og djúp. Hann stendur kyrr.


Hver vann hér svo að með orku?

Aldrei neinn svo vígi hlóð.
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur.
Vittu, barn, sú hönd er sterk.
Gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.


Hamragirðing há við austur
Hrafna- rís úr breiðri -gjá.
Varnameiri veggur traustur
vestrið slítur bergi frá.
Glöggt ég skil, hví Geitskór vildi
geyma svo hið dýra þing.
Enn þá stendur góð í gildi
gjáin, kennd við almenning.


Heiðarbúar! glöðum gesti

greiðið för um eyðifjöll!
Einn ég treð með hundi og hesti
hraun - og týnd er lestin öll.
Mjög þarf nú að mörgu að hyggja,
mikið er um dýrðir hér!
Enda skal ég úti liggja,
engin vættur grandar mér.

Jónas Hallgrímsson 1807 - 1845
 

Sjá upptöku þjálfara á hluta upplestrarins á www.youtube.com/BaraKetils

Sjá vefinn um Jónas: http://www.jonashallgrimsson.is

Og sjá t. d. slóð á upplestur á 6. erindi ljóðsins af hendi Sigurðar G. Tómassonar á Jónasarstefnu á Þingvöllum 9. júní 2009 sem gefur ágætis innsýn í þá miklu túlkun sem ljóðið kallar á: http://salvor.blog.is/blog/salvor/video/1451/

Skjaldbreiðarfarar:

Efst frá vinstri: Jóhannes, Lilja Sesselja, Gylfi Þór, Halldór, Örn, Hjölli og Dimma, Óskar Bjarki, Halldóra Þ.
Miðja frá vinstri: Sigga Ingvars., Sigrún, Áslaug, Inga, Anna Elín, Rósa, Silla, Ingibjörg, Heiðrún, Skúli, Petrína, Hrund G. og Kristinn.
Neðst frá vinstri: Björn, Lilja K., Harpa og Helga Bj.
Bára tók mynd.

Þar af voru þrjú að koma í sína fyrstu göngu með hópnum, þau Hrund G., Jóhannes og Kristinn og tólf voru að fara sína fyrstu laugardagsgöngu með Toppförum... og hundarnir voru fimm... Dimma, Día, Dímon, Dofri og Rapp.

Eftir matinn var ákveðið að klöngrast hringinn kringum gíginn sem er um 300 m í þvermál og um 1,2 km í viðbótar-göngulengd þar sem nógur var tíminn, létt uppganga að baki og enn lifði vonin um að fá útsýni af tindinum...

En lánið lék ekki við okkur að sinni... og ekki hægt að biðja um meira eftir góða uppgöngu í logni og hita
og einstakar göngur síðustu vikurnar í hópnum...

Við héldum af stað niður í hlátrasköllum eftir að Örn og fremstu menn og eiginlega nánast allur hópurinn voru farin að ganga annan hring kringum gíginn... og voru stoppaðir af Sesselju -  Sillu sem sá að við vorum farin að endurtaka okkur... ha? erum við komin hringinn... já, einmitt hérna borðuðum við nestið...  svona er þokan villandi... :-)

Það var hægt að finna á vindinum að við vorum aftur komin í skjól fyrir sunnangolunni norðan megin (ágætis dæmi um hvað staðsetning og skjól breytist þegar maður gengur svona lítinn hring) án þess að maður væri samt nokkuð að kveikja á því að við værum komin hringinn og trackið á gps staðfesti þetta steinhissa mönnum... en menn gleymdu menn sér bara á spjalli í dúlúð þokunnar og sífellt nýrri sýn á hömrótta barma Skjaldbreiðar sem var vel í algleymi dagsins... :-)

Niðurleiðin var greið um klappir, grjót, möl, skærgrænan mosa Skjaldbreiðar og stöku jurtir alla leið að Hrauk - gígnum sem liggur sunnan við malarstæðið á uppgönguleið - hér á mynd framundan - en sumir aka bílum þarna upp eftir og enn lengra og geta þá stytt gönguna talsvert.

Áslaug, Inga og Ingibjörg í hundafansi...

Já, hundarnir voru fimm í þessari ferð... ?nafn, Día, ?nafn og Rapp sem hér sjást á mynd en Dimma (ekki á mynd) var ótvíræður foringi leiðangursins og hinir fóru aldrei fram úr henni, enda á hún sér lengstu söguna með hópnum og slíkt forskot ræður einfaldlega úrslitum í heimi hundanna.

Dagurinn gaf hópnum 9,9 km göngu á 3:47 - 3:49 klst. upp í 1.069 m hæð skv. gps (1.066 m) með 516 m hækkun miðað við 553 m upphafshæð... og vorum við búin að fara í sund í Mosó um kl. 16:00...

Þetta var því fremur stutt og létt en góð ganga á fallegt fjall í einstöku umhverfi sunnan Þóris- og Langjökuls sem við verðum bara að fá að njóta betur síðar enda er fjallasalurinn þarna árlega á dagskrá klúbbsins og flest fjöll á svæðinu á verkefnalista hópsins...

Jónsmessuganga að kveldi til á Skjaldbreið þar sem komið yrði í bæinn eftir miðnætti er t. d. góð hugmynd fyrir framtíðina...

Heiti potturinn í Mosó var síðasta dagsverk hópsins saman og þar var skeggrætt m. a. um Leggjabrjót og tekin ákvörðun um að fá rútu til að ferja göngumenn frá Botnsdal í Svartagil þar sem við hefjum þá gönguna og endum við bílana í Botni en slík rútuferð ætti ekki að kosta mikið ef hópurinn er ágætlega stór.

Þá var vetrarfjallamennskunámskeiðið rætt, helgarferðin í Húsafell í byrjun 2010, afmæli Inga 3. okt. og árshátíð Toppfara...
...sjá póstinn síðasta þriðjudag !

Frábær dagur með fullt af nýju fólki sem gefur góða viðkynningu og passar vel inn í hópinn.

Sjá myndir á myndasíðunni: www.picasaweb.com/Toppfarar.htm
 

 

  

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir