Tindur 24 - Kerling - sjö tinda ferð í Eyjafjörð


Sjö tinda sæla í Eyjafirði !

... í logni, sól og stórkostlegu útsýni um magnaða tinda Glerárdalshringsins...

Við vorum átján manns sem fórum norður á Akureyri að sigra sjö tinda í Eyjafirði
og á endanum fjórtán manns sem gengum alla tindana þennan dag.

Leiðsögn var í höndum Haraldar (Halla) og Bryndísar úr Glerárdalshringshópnum - www.24x24.is  og var mjög gaman að kynnast þeim og njóta þekkingar þeirra í þessum fjallasal Norðlendinga.

Menn tíndust inn í bæinn á föstudeginum og hittust kl. 20:00 á Greifanum þar sem við fengum okkur gott að borða fyrir langan dag í dúndrandi stemmningu...

Engin miskunn, vakna kl. 5:00... brottför kl. 6:00 frá gististað... leiðsögumenn vissu sínu viti... það yrði líklega gluggi yfir Kerlingu um kl. 10-11:00 um morguninn og vissara að leggja snemma í hann til að ná góðu skyggni...

Morguninn var mildur, lygn og hlýr... N4 og 10°C... veðurspáin hafði breyst mikið fram eftir vikunni en leit vel út fyrir laugardaginn og við höfðum hlakkað mikið til ferðarinnar...

Að ganga á há fjöll í öðrum landsfjórðungi var ærið tilhlökkunarefni...

Það var þokuloft yfir efri hlíðum Kerlingar eftir um 700 m hæð og við sáum ekkert hvað var þarna uppi á ókunnri slóð...

Gengum enda snemma inn í þokuna og Halldóra Ásgeirs sem ekkert gefur eftir sneri þarna við þar sem hún ætlaði að ganga á eigin vegum áleiðis upp og ekki var öruggt að fara lengra á ókunnum vegum í þessari þoku.

Eftir graslendi, mosa, möl og grjót tók grjótið við og svo Kerlingarklettarnir sveipaðir þoku...

Uppi á Kerlingarhaus eða jómfrúnni var þokusúld, skítakuldi og rigning sem breyttist í éljagang... við bættum á okkur klæðnaði og eftirsjáin af að hafa klætt sig í ullarnærjur breyttist í feginleik... þar til síðar um daginn að við tók uppgjöf undan brakandi hitanum svo maður varð að kasta af sér klæðum...

Gengið var í þokunni og brátt vorum við komin í snjó...

...nestispásan á snjólausum steinum innan um snjóskafla  minnti mann á nestispásuna á fyrsta degi Mt Blanc fjallahringsins þegar við gengum einmitt í þoku og sáum ekkert... en þar var samt enginn snjór þó við værum vel yfir 2.110 m...

Þegar gengið var inn eftir Lambárbotnsjökli fór skyndilega að létta til...

! Hey, sjáið þið gluggann þarna í skýjunum... þetta var eins og lygasaga... umhverfið opnaðist smám saman fyrir okkur í þokunni og við sáum dalinn sem við gengum eftir... framundan var brött brekka í snjó upp á tind Kerlingar...

Fremstu menn ólmuðust við að spora út slóðina þarna upp sem var auðveld fyrir þá sem á eftir komu en hörkupúl fyrir fyrstu menn. Örn tók svo við gamalkunnu hlutverki ruðningsmannsins og skóflaðist þarna upp á endanum alla leið...

Og skyndilega vorum við komin upp.. sólin að ryðjast framhjá skýjunum.. það varð sífellt skærara skyggnið  með hverju skrefinu... og tindurinn tók á móti okkur í glampandi blíðu og blankalogni þar sem skyggnið opnaðist smám saman með hverri mínútunni...

Vvá, hvað þetta var góð tímasetning og alveg eftir áætlun Halla, leiðsögumanns..

Komin á tindinn um kl. 10:30 rétt eða undir 4 klst. uppgöngutíma.

 

Nesti og myndatökur... hvíld og gott spjall...logn og sól...

Stuttu á eftir toppaði gönguhópur frá Seyðisfirði en honum var strítt af því að hafa notið slóðarinnar sem við ruddum... og þeir stríddu okkur á ljósmyndunum á bíl þjálfara... afhverju það væri ekki mynd af Öskjuhlíðinni á bílnum.. þetta væru ekki fjöll þarna fyrir sunnan... þjálfarar tóku nú bara undir það... dagsatt... Suðurlandið skartar ekki þessum hrikalegu fjallatindum eins og Vestfirðir, Norðurland og sérstaklega Austurland...

...enda eru Dyrfjöllin og Borgarfjörður Eystri á dagskrá árið 2011...

Kerlingarfarar...

Björn, Halli, leiðsögumaður, Heimir, Hjölli, Roar, Örn, Simmi og Guðjón Pétur.
Bryndís, leiðsögumaður, Sigga, Soffía Rósa, Ingi, Hrund, Helga Björns, Linda Lea og Bára.

Seyðfirðingurinn einn tók myndina fyrir okkur.

Frábærir félagar á fjöllum...

Og svo blasti tindaröðin við sem beið okkar síðar um daginn frá Hverfandi Súlum...

...og þá skelltu sér niður á hnén nokkrir félagar fyrir eina snögga mynd af fjalladýrðinni...

Heimir, Sigga, Roar, Örn, Ingi, Linda Lea og Björn...

... tilviljun ein að þau eru sjö...

Eftir tindagleði á Kerlingu bauð halli okkur upp á detour yfir á norðvesturbrúnir Kerlingar
þar sem skyggnið og veðrið var svona gott...

Þar beið okkar mergjað útsýnið yfir allan Glerárdalinn þar sem Hjölli og leiðsögumenn sýndi okkur Glerárdalshringinn góða...

Gjörsamlega magnaður staður í bongó bongó...

Og inn heiðina aftur að niðurgönguleiðinni um skálina...

Komin aftur að tindinum  og farið hér niður þar sem komið var upp þar sem farið er neðar um skarð milli Kerlingar og Hverfandi nema menn fari um "rjómatertuna" sem er snarbratt en gott í snjónum... Okkur skildist á Hjölla að Grétar Jón og Þorleifur hefðu farið þar niður á Hringnum í fyrra... jeminn, eini, snillingarnir...

Útsýnið, skýin, fjöllin, snjórinn, veðrið, félagarnir... gerist ekki flottara en þetta...

Sjá slóðina meðfram snjóbreiðunni við röðulinn og Seyðfirðingana að ganga þarna um...

...en þeir ruddu slóðina fyrir okkur þar með um tindana sex sem eftir voru þar sem þeir fóru ekki að
Glerárdals-útsýnisstaðnum.

Þessi niðurleið var mjög brött og bráðnaði skjótt í hitanum sem var feykilegur í skálinni... við runnum niður í snjófarginu... sem hafði bætt á sig 10 cm lagi þá um nóttina...

Og fórum um skarðið og eftir hlíð Kerlingar í átt að Hverfandi...

Æðisleg fjallasýn úr Glerárdalnum og inn í Eyjafjörð til austurs með tindaröðina okkar framundan...

Kerlingartindar gnæfandi yfir okkur - rjómatertan nánast beint fyrir ofan Björn - niðurleiðin þar í snjóskálinni...

Pása og fötum fækkað eftir brakandi hitann í skálinni

Haldið svo áfram yfir á Hverfandi... tind nr. 2...

Klettar hans fallegir og kölluðu á klöngur og príl upp í 1.330 m hæð (1.327 m skv gps þjálfara).

Hrikaleikur Þríklakka sem var tindur nr. 3 fangaði okkur næst...

... og lokkaði hópinn alla leið upp í 1.360 m hæð (mælt1.373 m).

Hjölli var svo sætur að taka myndavélina af kvenþjálfaranum... hann á til að gera þetta drengurinn...
Hrund, Bára, Guðjon Pétur, Roar, Helga Björns, Linda, Björn, Simmi, Ingi, Sigga og Örn.
Bryndís, Halli, Soffía Rósa og Heimir og Hjölli tók mynd.

Og niðurleiðin var jafn glæsileg og tindurinn séður neðan frá...
Halli, Bryndís, Soffía Rósa og Örn.

Slóðin í snjó alla leið en Halli benti á síðar að sumri til dregur úr snjómagninuog þá dýpkar þessi klettadalur.

Áfram var haldið að tind nr. 4... Bónda...

Glerárdalurinn vinstra megin á mynd og útmynni Eyjafjarðar í fjarska með Kaldbak einhvers staðar þarna...

Komin upp á Bónda með útsýni yfir á hinn Bóndann eða ráðsmanninn eins og líka vill kallast hinn tindurinn.
Bóndi var  hálf væskislegur miðað við fyrri tinda og ekkert í samanburði við Kerlingu sögðu strákarnir...
1.360 m hár og mældist 1.363 í gps þjálfara.

Björn sleppti ekki úr einum tindi enda á leiðinni á Kilimanjaro í byrjun júlí...

Skýin léku við fjallstindana og veðrið lék við okkur...

Það var langur vegur enn framundan og leiðsögumenn þurftu að reka talsvert á eftir okkur...

Fjallakæruleysið í hámarki og öllum sama þó þeir kæmu heim á miðnætti...

Ha?, niður kl. 18:00 til að komast í sund...? ...mér er alveg sama þó ég fari ekki í sund...

Salibunur í snjónum fengu sinn sess í ferðinni... vanir menn á ferð...

Útsýnið ólýsanlegt...

Þetta er frábær gönguleið...

Herðubreið og önnur fjöll í austri í fjarska...

Krummarnir sem tindur nr. 5 framundan...

Stuðlabergsveggur sem leyndi á sér og kallast Litli Krummi.

Hann víkur víst sæti sem eiginlegur tindur í Glerárdalshringnum fyrir Hverfandi...
Sanngjörn skipti miðað við stærð...

Helga Björns., Örn og Björn.

Stóri Krummi sem eiginglegur tindur nr. 5 næstur...

Klöngrast upp hann í 1.170 m hæð (1.184 m).

Og Ingi sem gekk alla leiðina með hendina í vasanum og svo í fatla þegar úlpan var alveg að steikja hann fær þessa tindamynd alveg fyrir sig... nokkrir príluðu þarna upp og létu smella af sér mynd sem þeir sjá ekki eftir...

Hver getur eiginlega farið upp á svona tind með hendina í fatla?

Berggangar að Súlum tóku við undan snjónum..

Það væri ansi gaman að ganga þessa leið síðla sumars til að sjá muninn...

Súlurnar eftir og þær voru ansi langdregnar þegar á reyndi...

Þau höfðu víst rétt fyrir sér leiðsögumennirnir... það var ráð að halda vel áfram...

Hér að komast á sjötta tindinn... Syðri Súlu...

Og litið til baka yfir farinn veg um tindana fimm sem voru að baki...

Syðri Súla í 1.210 m hæð (mældist 1.216 m).

Þarna tókum við hópmyndina sem prýðir innganginn á þesssari ferðasögu...

Alveg hreint æðislegt útsýni þarna ofan af...

Og síðasti tindurinn eftir... Ytri Súla...

Hér niður féll Björn við í hálkubletti í hliðarhalla og virtist fyrst sem hann hefði slasað sig alvarlega á hægri öxlinni... en svo var sem betur fer ekki...  hann var ansi brattur eftir á og kenndi sér jú meins um kvöldið og daginn eftir en var mættur í göngu vikuna á eftir og floginn til Afríku síðar í mánuðinum...

Þar fór betur en áhorfðist í fyrstu...

Sjöundi tindurinn...

Ytri Súla í 1.150 m hæð (1.153 m) með Akureyri í fjarska og Eyjafjörðinn svo smáan svona ofan frá...

Einstök tilfinning...

Snúið svo við í tindavímunni að snjóbrekkunni sem lækkaði okkur um 400 m á einni mínútu...

Lengstu snjóbrekku í sögu klúbbsins...

Hvílík salíbuna...

Við tóku lendurnar niður í Kristnes um grjót, möl, mosa, graslendi og skóg...

Nokkrir kílómetrar í vegalengd sem reyndu á í lokin þegar maður vil bara komast í pottinn og steikina...

Og þetta endaði í 11:43 - 12:48 klst. á 22,6 km leið upp í 1.554 m hæð með alls 2.100 m hækkun allt í allt
miðað við
265 m upphafshæð.

Fyrstu menn gengu hratt niður og sóttu bílana yfir að Finnastöðum á meðan hinir skiluðu sér smám saman niður í Kristnes. Síðustu menn á staðinn rúmum klukkutíma á eftir þeim fyrstu en litlu munaði með tímanum sem fór í að sækja bílana.

Í bústöðum Stórholts beið okkar Halldóra eðalhúsmóðir með heitar vöfflur sem hún steikti beint ofan í kófsveitta og ansi lúna göngumenn... sem rifu í sig nokkrur stykki á mann bljúgir af þakklæti...

Hvílík dásemd sem aldrei gleymist...

Og heiti potturinn tók alla þreytu...

Guðjón Pétur og Skagamenn grilluðu ofan í liðið hvílíka eðalmáltíð...

Og borðað var úti í sameiginlegri máltíð á langborði í glimrandi gleði...

Mýkandi meðöl eftir daginn fór vel í góða menn...

Og stuðboltarnir létu ekki sitt eftir liggja...

María og Gurra drógu félaga niður í bæ að dansa enda höfðu þær ekki fengið sína útrás eins og hinir
og kvöldið endaði í stanslausu stuði fram undir morgun...

Frábær ferð frá upphafi til enda - fyrst og fremst frábæru fólki að þakka...

Hjartans þakkir allir fyrir allt elskurnar...

Sjá myndir úr ferðinni á www.picasaweb.com/Toppfarar
og myndir frá Hrund á
http://www3.hi.is/~hrund/2009Glerardalur/album/
 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir