T I N D U R   N R .   1   -   V Í F I L S F E L L  1 4 .   J Ú N Í   2 0 0 7

Hér kemur vísa frá Karli og skora ég á "vísa" Toppfara að senda mér línur af Vífilsfelli:

Toppfaranna fyrsta tind
traustur er sá siður.
Á Vífilsfelli fengum mynd
og fórum aftur niður
                      Karl Andersen

Fyrsti tindurinn af tólf var genginn fimmtudaginn 14. júní á Vífilsfellið og var tónninn þar með sleginn fyrir komandi mánuði. Samtals 36 Toppfarar og tveir hundar voru þarna á ferð með íslenska fjallaleiðsögumanninum honum Sigþóri sem bauð okkur upp á framandi en frábæra leið. Veðrið var síbreytilegt en mjög gott eins og alltaf; skýjað í byrjun... rigning ofarlega... þoka á toppnum... og svo sólskin á leiðinni niður... sem sé hressandi og frábært gönguveður í S3 og 9°C.

Þar sem annar fjallaleiðsögumaður leiddi hópinn en upphaflega var ráðgert, varð önnur leið fyrir valinu en lýst hafði verið fyrir hópnum, sem olli svolitlum ruglingi þarna um sexleytið, en þegar hópurinn ók í bílalest út frá Bláfjallaafleggjaranum og inn um hraunið að rótum Vífilfells þar sem það blasti þarna við okkur hálf hrikalegt og ógreiðfært... varð ljóst að það var þess virði að hafa komið sér af stað og þetta yrði spennandi því enginn hafði farið þessa leið áður...

Gengið var vestan megin við fellið yfir möl og dúnmjúkar mosabungurnar um 1,5km áður en komið var að eiginlegri hækkun í stórgrýttum hlíðunum og var þarna smá pása áður en lagt var á brattann. Farið var inn með fremur bröttum skriðum og upp með gilinu og reyndi þarna á færni til þess að fóta sig í óstöðugum og lausum jarðvegi.

Hópurinn var það stór að vel greiddist úr honum, en Sigþór leiddi hópinn, Bára rak lestina og Örn flakkaði á milli. Eftir hressilega uppgöngu um skriðurnar og gilið var áð stuttlega áður en gengið var norður eftir hryggnum í átt að toppnum. Móbergsklappir tóku við í landslaginu og skópu kynjamyndir á víð og dreif svo  gangan þarna um var ævintýraleg og framandi og var þessi leið lengri en ætla mátti úr fjarlægð í upphafi.

Aðeins glytti í gjöfult útsýnið þarna uppi sem gaf fyrirheit um hve víðsýnt þarna er í góðu skyggni, en lítið fengum við þó að njóta þess þar sem þoka og rigningardropar fóru að gera vart við sig og menn bættu á sig klæðnaði þarna í úðanum.
 

Klifra þurfti í klettunum efst til þess að komast á toppinn og vorum við nú komin á hefðbundna uppgönguleið á Vífilfellið, svo menn fóru að kannast við sig sem höfðu farið áður. Vel gekk að klifra síðasta kaflann og var hægt að fara vinstra megin við klifurvegginn þar sem kaðall var til stuðnings. Allt gekk eins og í sögu þó eitthvað hafi farið um menn svona á stöku augnablikum sem er fullkomlega eðlilegt þar sem ókunnar aðstæður eru alltaf krefjandi þó þær séu auðveldar eftir á að fenginni reynslu.

Það var tiltölulega "kalt á toppnum" eins og orðatiltækið segir og þokusúld í stíl við klettamyndirnar, en hópurinn þjappaði sér þó vel saman og tekin var söguleg hópmynd af Toppförum á fyrsta tindinum. Flestir mættir voru að fara á Vífilfellið í fyrsta skipti og svei mér þá ef ekki réttu allir upp hönd þegar spurt var "hverjir ætla á alla tindana tólf"?... svo það eru spennandi tímar framundan...

Sigþór, fjallaleiðsögumaður, fræddi hópinn stuttlega um móbergsfjöll og jarðfræðilegan bakgrunn þeirra á Íslandi sem var fróðlegt og var fljótlega lagt af stað eftir það, þar sem fyrstu menn voru orðnir kaldir en þeir síðustu á toppinn þó varla búnir að borða... Stuttu eftir að hópurinn var lagður af stað niður rifnaði þokuslæðan svona dæmigert frá toppnum og blár himininn og kvöldsólin blöstu við á köflum eftir það.

Niðurleið gekk vel og var farið sömu leið til baka, þó einhverjir hefðu ætlað að taka hefðbundna leið niður, þar sem þeir voru tímabundnir sökum vinnu. Mikið var spjallað og reynslusögum deilt milli manna og látið sig dreyma um miðnæturvarðeld þarna í klettaverpinu þar sem lognið var...

Fyrstu menn niður voru 3:05klst í heild á göngunni og þeir síðustu 3:20klst og lágu 8,4km að baki, 655m hár toppur og hækkun upp á 305m. Einstaklega vel heppnuð ferð þar sem skjótt skipaðist veður í lofti, undirlag var fjölbreytt og krefjandi og töluvert reyndi á færni í að klífa kletta, fóta sig og halda jafnvægi... enn ein viðbótin í reynslubankann og gott innlegg til komandi fjallasigra á næstu vikum og mánuðum...

Auðvitað verðum við að fara aftur upp Vífilfellið og þá kannski hefðbundnu leiðina til samanburðar og í góðu skyggni til að kynnast útsýninu... og kannski einhvern tímann til að steikja pylsur yfir eldi innan um galdrað móbergið...

En gott er að gera sér grein fyrir því að það felast ómetanleg verðmæti í því að hafa upplifað kvöldstund eins og þessa og geta hér með horft á Vífilfellið þegar ekið er Suðurlandsveginn og rifjað upp með sjálfum sér og öðrum að þarna var maður eitt júní-kvöldið árið 2007... og fór meira að segja leiðina þarna vestur með gilinu, en ekki hina sem allir fara...

Þjálfari óskar þeim Toppförum sem tóku fyrsta tindinn með stæl til hamingju og skorar á alla að láta sig ekki vanta á næstu tinda... þetta er engu líkt og varla hægt að verja kveldi eða laugardegi betur en á göngu í fögru og fjölbreyttu landslagi Íslands og endurnærandi og ófyrirséðri veðráttu þess...

Munið, hvort sem það er sumar, vetur, vor eða haust... þetta er alltaf jafn skemmtilegt, hver árstíð hefur sinn sjarma og með því að fara út fyrir borgina og upp á fjöll allt árið um kring fáum við það beint í æð hver er munurinn á sumri og vetri... vori og hausti...

 

 

 

 

 

 

 

 

Útsýnið ofan af Vífilfelli í þokunni...

 

 

 

 

 

 

 

Og upp eftir því (vinstra megin) í kvöldsólinni í lokin...

Gerist þetta nokkuð mikið flottara..?

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir