Tindferð 191
sjö tinda ganga um Þrengslin
22. febrúar 2020

Meitluð sjö tinda ganga
í Þrengslunum
Litli meitill Stóri meitill Gráuhnúkar Lakahnúkar
Stóra sandfell Nyrðri eldborg Syðri eldborg

Ferðasagan hér:

Þetta var fyrsta langa, röska gangan á árinu af fimm sem þjálfarar bættu við dagskránna þar sem Laugavegurinn á einum degi er framundan í júní og nauðsynlegt að þeir sem ætla hann fari langa vegalengd á röskari yfirferð en í hefðbundnum tindferðum og var hugsunin sú að þeir sem ætluðu ekki endilega Laugaveginn en vildu njóta þess að fara röskar yfir en vanalega og einnig þeir sem vildu markvisst bæta fjallgönguþolið sitt gætu nýtt þessar ferðir sérstaklega.

Lagt var af stað kl. 8:41 sem var dásamlegt... ekki langur akstur úr bænum og komin dagsbirta frá fyrsta skrefi...

Við byrjuðum á Litla meitli en á hann er kominn vel greinanlegur stígur sem var lítill sem enginn þegar við gengum fyrst hér um árið 2007...
... sjá ferðasöguna af þeirri göngu sem sýnir vel hvernig við erum að uppgötva töfrana við vetrargöngurnar...

Æfing 24 var laugardaginn 24. nóvember á Litla og Stóra Meitil í Þrengslunum.

Mættir voru þrettán manns ásamt hundinum Bellu í gullfallegu vetrarveðri, heiðskíru, N4 og -2°C.

Tunglið skartaði sínu fegursta yfir Bláfjöllunum í vestri í upphafi æfingar og vildi seint sleppa hendinni af nóttinni.

Sólarroðinn gyllti á móti austurhimininn og lofaði okkur sólarupprás sem varð stuttu eftir að gengið var af stað þennan morgunn.

Lagt var af stað kl. 10:20 og var gengið upp með suðurhlíð Litla Meitils í norður.

Hæðin var 214 m í upphafi og var gangan nánast stöðugt á fótinn upp á minni meitilinn svo öllum hitnaði strax í morgunkulinu.

Tveir gamlir félagar frá því í sumar og ein ný drógust þó fljótlega aftur úr enda hópurinn orðinn anzi röskur til gangs og fylgdi Örn þeim sem á eftir komu.

Fljótlega fór þó svo að einn sneri við og tvær héldu áfram langleiðina upp á Litla Meitil en létu þar við sitja og sneru til baka eftir góðan göngutúr.

Óskaplega var samt gaman að fá þau og vonandi láta þau ekki deigan síga heldur koma reglulega með okkur svo á endanum verður þetta áreynslulaust alla leið eins og hjá þeim sem mætt hafa vel í vetur... það er galdurinn!

Útsýnið var óborganlegt og gyllingin af morgunsólinni í austri gaf hálfpartinn sumarlegan blæ til móts við bleikan vetrarblámann af tunglinu og himninum yfir snævi þöktum fjöllum í vestri.

Svona dagar á veturna eru engu líkir og heiðskírir dagar yfir háveturinn hafa þann sjarma að gera manni fært að upplifa sólarupprásina með lítilli fyrirhöfn... bara vakna aðeins fyrr í myrkrinu en samt á guðlegum tíma og leggja af stað í ljósaskiptunum... getur ekki verið auðveldara...

Útsýnið til suðvesturs að Bláfjöllum var ekkert síðra og mátti sjá glitta í tunglið þarna við fjallsbrún og svo mótaði fyrir Þrengslavegi vinstra megin ofan við miðju á mynd.

Færið var gott;  lítil hálka, snjórinn brakandi blautur eins og molnandi kex og grjótið tindrandi frosið en þó ekki nægilega til að vera fljúgandi hált.

Mosinn hálffrosinn en gaf eftir svona rennblautur eftir síðustu rigningardaga.

Gengið upp á Litla Meitil með Sandfell (295 m) og Geitafell (509 m) í baksýn. Gönguleiðir sem komnar eru á fjallalistann 2008...

Bleiki litur vetrarins vék smám saman fyrir gulum lit sólarinnar. Jörðin auð á láglendinu en snævi þakin ofar.

Sólarupprás var kl. 10:38 þennan morgun og er það fyrirbæri per se magnað þegar dagur tekur við af nóttu og maður er úti í óbyggðum... og fær það beint í æð svo hjartað slær í takt við stærra samhengi en í mannabyggð.

Gengið var austan með á uppleiðinni með útsýni yfir suðurlandið og Hellisheiði og var fjallasýnin óskert til austurs.

Hekla, Tindfjallajökull og Eyjafjallajökull blöstu við í bakgrunni, Ingólfsfjall og jafnvel Þríhyrningur sást þarna nær og svo mátti sjá mannabyggðirnar á láglendinu, Selfoss, Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn og svo ósar Ölfusár alla leið til sjávar.

Þjálfari var eitthvað utan við sig í gönguvímunni og tók því miður nánast engar myndir af útsýninu...

Sérstök veröld þarna í Þrengslunum og nauðsynlegt að ganga upp á hvern hól á þessu svæði til að kortleggja það í eigin huga og safna verðmætum í minningabankann og reynslubankann.

Hjörleifur ræddi um Raufarhólshelli í nágrenninu og bar fram þá hugmynd að skoða hann þegar ekki viðraði vel til fjallgangna einhvern daginn og er hugmyndin strax komin í vinnslu... Um er að ræða um 7 km djúpan helli, talsvert víðan og klöngur við yfirferð en þó vel fær hópi sem þessum. Mjög spennandi verkefni...

Fyrri hnúkur á Litla Meitli leyndi á sér eins og flest fjöll gera því það er ekki nóg að horfa á þessi fyrirbæri frá láglendinu til þess að vita nákvæmlega hve mikið bíður manns þegar maður leggur af stað...

Maður verður víst að spora sig sjálfur eftir hverju fjalli til að vita hvernig það bragðast iljum og kálfum á göngu...

Jón Ingi, Þorbjörg og Halldóra Þórarins hér á efstu klettabrúnum.

Litli Meitill mældist 270 - 275 m hár en er sagður vera 265 m hár og vorum við komin á hann eftir 1,6 km göngu á 42 mínútum.

Gengið var svo niður Litla Meitil austan með þar sem minnsti brattinn er, en smá  klöngur er þarna niður og tók þá við mosabreiða langleiðina að Stóra Meitli.

Samkvæmt vönduðum hitamæli Roars var hitastigið -3,8 °C uppi á Litla Meitli.

Farið var niður í 322 m hæð milli meitlanna sem þýddi 205 m hækkun framundan upp á Stóra Meitil en 3,2 km voru á milli tinda Litla og Stóra Meitils.

Hjörleifur, Helga og Halldóra með stærri meitilinn í baksýn í ca 376 m hæð eftir göngu um mosabreiðuna.

Hópurinn dreifðist nokkuð á göngunni og var þéttur öðru hvoru, en með kaldann mótvindinn í fangið var freistandi að ganga á sínum hraða og stoppa sem minnst...

Hér hækkaði hitastigið niður aftur á láglendinu upp í -2,6° skv. mæli Roars og sólin fór einnig hækkandi á lofti.

Áning var hér við rætur Stóra Meitils og hópurinn þéttur en erfitt var að staldra lengi við þar sem kuldinn var fljótur að bíta í alla svitadropa og storkna larfa.

Þó var þessi staður hinn vænsti fyrir pásu sem þessa með nokkuð skjól í suðurhlíðinni undan norðarvindinum.

Sumir fengu því langan nestistíma en aðrir stuttan sem er eitt helzta eðlisbundna óréttlætið í fjallgöngum... þeir sem ganga rólegast fá styztu pásurnar... en það er alltaf erfitt að samræma þetta í stórum hópi.

Lagt af stað upp bratta Stóra Meitils og gengið svo aflíðandi upp á toppinn.

Útsýnið var töfrandi af toppnum en þjálfari gleymdi að taka myndir... óskiljanlegt!

Lambafall og Bláfjöllin til austurs, Hengilsvæðið til norðurs og fjallasýnin í fjarlægð þaðan, Esjan og nágrannafjöll, Þingvallafjöllin...

Óskaplega fallegur var gígur Stóra Meitils sem er á milli 500 - 1000 m á göngu svona á að giska og bíður það verkefni eftir okkur næsta sumar, þegar Stóri Meitill verður genginn einn og sér eitt þriðjudagskvöldið.

Á toppi Stóra Meitils eftir 4,8 km göngu á 1:54 klst í 520 - 527 m hæð (514 m).

Þeir sem luku göngunni þennan dag:

Örn, Hjörleifur, Íris Ósk, Þorbjörg, Helga, Jón Ingi, Halldóra Ásgeirs, Roar og Halldóra Þórarins auk Báru ljósmyndara.

 

Óskar, Sigrún og Magnea koma með okkur næst og taka þetta fjall með trompi eftir nokkrar æfingar...

 

 

 

Hitamælir Roars sýndi -6°C þarna uppi, vindurinn var napur og við stöldruðum stutt við.

Fjallasýnin kristaltær í vetrarveðrinu og synd hve ljósmyndarinn tók lítið af myndum...

 

 

 

 

.

.

Lagt af stað suður og niður með meðvindinn í bakið og ólíkt notalegri göngu en upp í mót með vindinn í fangið. 

 

Landslagið varð sífellt hlýlegra með lækkandi landi og hækkandi sól og brátt var engan snjó að sjá, bara sígrænan mosann sem svo sannarlega vermdi augu og land.

Svarta gengið sem féll vel inn í umhverfið að koma niður í gilið vestan megin á Litla Meitli í vetrarsólinni.

 

Hópurinn vestan með á Litla Meitli með Stóra Meitil í baksýn og bleikan skýhnoðrann svona til skrauts.

Gengið niður gullfallegt gil vestan megin Litla Meitils.

Örn, Hjörleifur, Íris Ósk, Halldóra Ásgeirs, Þorbjörg og Halldóra Þórarins. 

Gengið suður og niður með ofan í dalinn við svokallaðan Hrafnaklett.

Þarna milli klettaveggja er sérstakt svæði með sand í botninum og margir möguleikar til gamans á góðum sumardegi...

Fjölbreytt var landslagið á síðari hluta göngunnar í hlýjum sólargeislunum

Áfram var gengið rösklega niður grýttar hlíðarnar og hitnaði mönnum mikið í hækkandi sólinni og skjólinu af norðarvindinum.

Dásemdarganga þarna í lokin með svartan bergvegg á vinstri hönd, snarbrattan, himinháan og nánast spegilsléttan.

Nefnist hann Votaberg þar sem sífellt seitlar vatn úr honum og voru klákaflákar á honum á víð og dreif þennan morgun.

Mannskepnan er ósköp lítil í nálægð hans og hann nýtur sín ekki nægilega frá þjóðveginum svo flestir missa af honum...

Það þarf að nálgast hann á göngu til að uppgötva mikilfengleikann.

Göngunni lauk um kl. 13:30 og voru tæpir 10,5 km að baki á 3:10 klst upp 475 m og 520 m með hækkun upp á 261og 207 m eða samtals 468 m.

Frábær æfing í gullnu vetrarveðri og góðum félagsskap.

Hver ganga sýnir manni ný fjöll til að sigra og opnar þannig fyrir okkur fleiri möguleikum og víðari veröld.

Þrengslin skarta nokkrum áfangastöðum fyrir þennan hóp og svo er það Raufarhólshellir sem spennandi væri að skoða með bráðsniðugu höfuðljósunum okkar...

Vonandi fáum við fleiri svona sólríka laugardaga í vetur... þeir jafnast ekki á við nokkuð annað...

En aftur að árinu 2020...

Skottið á Litla Meitli hér að baki...
Litla sandfellið og svo Geitahlíð í fjarska en á þau höfum við gengið nokkrum sinnum á þriðjudegi...

Dagrenning í suðaustri... himininn bleikur... sólin að koma upp... magnað að upplifa þetta...

Tindurinn á Litla meitli... fallegt fjall og alltaf gaman að ganga á hann...

Færið frosið og það besta sem hægt var að biðja um... mjúkur jarðvegur eða jafnvel blautur í leysingum eða á kafi í mjúkum snjó...
hefði verið allt annað mál á þessum degi...

Við þrjóskuðumst við að fara í keðjubroddana þar sem færið var það grýtt
enda ekki þörf á því strax þó einn skafl væri hér upp...

Bláfjöllin svo falleg í fjarska í vestri...

Keðjubroddrnir hans Þorleifs... í felulitunum... eflaust fyrir veiðimennina... kosta aðeins meira... en langtum fallegri en skærrauðu... nema þegar maður týnir þeim... þeir skoppa af skónum eins og Bjarni lenti í síðar í göngunni... þá er erfiðara að finna þá... en hans voru svartir...

Himininn var mjög fallegur þennan dag og hreint listaverk allan daginn...

Niður af Litla meitli var stefnt á Stóra meitil hér framundan...
svæðið á milli kallas "Milli meitla" sem er í raun smart nafn og heilmikið landflæmi...

Gönguland dagsins... austurhlíðar Stóra meitils, hluti af Gráuhnúkum, Lakahnúkarnir allir,
Stóra sandfell og svo Eldborgirnar tvær... engir stígar á leiðinni nema á Litla meitli
og svo um Eldborgirnar en það kom verulega á óvart hversu greinanlegur stígurinn var þar... líklega eftir motorkrossara ?
... ekki göngumenn nema þá erlenda ferðamenn ?...

Þjálfarar höfðu áhyggjur af tveimur brekkum á þessari leið...
önnur var niður af Litla meitli sem hefur valdið okkur vandræðum áður í hörðu snjófæri... hér er hún...
hún var aldeilis saklaus í mosanum... hini va rofan af Stóra meitli en sú var líka í stakasta lagi þó mun stærri væri en þessi...

Milli meitla... fallegt og mikil heilun á þessum kafla...

Syðri eldborg hér og svo Stóra sandfell fjær marghnúkótt og móbergsklettað í tætlur...
verðum að fara á þessar Eldborgir, þetta Sandfell og þessa Lakahnúka á þriðjudegi árið 2021...
frábært að fá nýjar leiðir á þriðjudagskvöldum !

Jú... stundum var snjórinn mjúkur... en ekki langa kafla...
og því drógu þeir ekki svo mikið úr orku göngumanna dagsins...

Orkuhleðsla... við vorum að njóta allan tímann...

Tæplega einn og hálfum kílómetri er á milli meitlana sem var gott... við vildum ná 20 km göngu þennan dag...
 en náðum því ekki...

Frosið færið hér... sumir komnir á keðjubroddana... það var ráð að fara í þá fljótlega...

Stóri meitill er léttur uppgöngu og við nutum sólarinnar sem reis á himni og bakaði hlíðarnar á þessum kafla...

Himininn... svo fallegur...

Komin upp á Stóra meitil... brúnirnar á gígnum sem er ofan á honum að koma í ljós...

Tindurinn á Stóra meitli... svo fallegir litirnir... hvílík veisla...

... og útsýnið... skyggnið... fjallasýnin...

Hæsti tindur dagsins... mældis 523 m hár...

Jebb... keðjubroddafæri...
allir í brodda hér með niður gígbarminn á Stóra meitli og svo niður af honum í harðfenni...

Þrengslin hér... og Lambafell í Þrengslum hinum megin þjóðvegarins...
hæsti tindur Vífilsfells lengra efst vinstra megin... Esjan lengst í fjarska hægra megin...

Stóra Reykjafell svo fallega skálarlaga í snjónum þarna fjær og svo Hengillinn á bak við það...
Steinar Ríkharðs gekk á hann með vinnufélögum sínum þennan sama dag...

Nesti hér... í sól og skjóli... yndislegt... fyrsti af þremur nestistímum ferðarinnar...

Haldið áfram eftir gígbarminum upp úr útrásarskarðinu hér...

Smá brölt en greið leið allan tímann þennan dag...

Sólin komin hærra á loft en lék sama sjónarspilið út daginn...

Mikið spjallað og mjög gefandi samræður í þessari göngu...

Skálafell á Hellisheiði hér hæst efst á mynd...
nær eru Lakahnúkarnir allir vinstra megin og Stóra sandfell hægra megin...

Stóra sandfell hér og hópurinn að fara niður grýtið ofan af Stóra meitli...

Sérstaklega fallegur dalurinn hér milli Gráuhnúka, Lakahnúka, Stóra meitils og Stóra sandfells...

Gráuhnúkar framundan... spáðu mikið í hversu marga við skyldum ganga á...

Með rétt má ætla að þetta hafi allt verið Lakahnúkar miðað við merkingar á gps-korti map source þar sem Lakahnúkar virðast vera allir þessir hnúkar austarlega... og svo eingöngu þessir vestustu séu Gráuhnúkar... við höfum gengið á þessa hnúka gegnum árin sem Gráuhnúka þar sem kort eru misvísandi með þetta og kallað þá vestari Gráuhnúka og austari Gráuhnúka...

Sjá Landmælingar hér:

Þegar við gengum á Stakahnúk og Stóra meitil á þriðjudegi fannst okkur ekki passa að eingöngu hrúgan þarna vestan megin væru Gráuhnúkar heldur og þessir austar sem við höfum hingað til gengið á á þriðjudögum... Lakahnúkar eru svo fjær austan megin... e

Við gengum á þrjá Gráuhnúka ef þeir fá að heita það þessir þrír hér...

Formfagrir með meiru og óskaplega fallegir á litinn að sumri til...

Fyrsti hér...

Blámi himinsins þennan dag... svo djúpur...

Kominn upp á hæsta Gráahnúkinn í 397 m hæð og útsýnið ótrúlega flott...

Hinir tveir Gráuhnúkarnir hægra megin og svo fjær Lakahnúkarnir.. og Stóra sandfell...
og fjærst Skálafell á Hellisheiði...

Við straujuðum niður á hina tvo...

Litið til baka... nyrðri Gráuhnúkarnir sem við gengum ekki á...
en eru farnir á þriðjudögum á æfingum og kominn tími á að fara aftur...

Fínasta leið hér niður á keðjubroddunum í grjóti og mjúkum snjó ofan á frosinni jörðinni...

Allir mættir í góðu gönguformi og héldu vel áfram...

Komin á milli öxlina á fyrsta Gráahnúknum...

Litli meitill í fjarska lengst... Syðri eldborg lítill hóll þar við hliðina á og austurhlíðar Stóra meitils hægra megin...

Hinir tveir Gráuhnúkarnir... Gunnar dreif sig þarna upp...
ekki mætt lengi í göngu og vildi taka púlsinn á forminu hratt upp...

Biggi fór á eftir honum...

Við hin skiluðum okkur svo í rólegheitunum... margir í hópnum hefðu getað farið mun hraðar yfir en við fórum
en þetta var fínn hraði... 2,8 km/klst með þremur matarpásum og mörgum útsýnisstoppum...
í samanburði eru hefðbundnar Toppfaratindferðir 1,9 - 2,1 km/klst... svo við vorum að fara mun rösklegra en vanalega...

Þorleifur er einn af nýliðunum frá árinu 2019... sem mætir alltaf með bros á vor og glettni á vörum...
fengur í slíkri jákvæðni og gleði öllum stundum..

Síðasti Gráihnúkurinn... við náðum náttúrulega allavega tíu tindum þennan dag með þessu brölti sko !

Niður síðasta Gráahnúkinn og framundan voru Lakahnúkar sem þjálfarar voru ekki vissir hverja mætti kalla slíku nafni...
þeir dreifðu sér um allt þarna og lágu langleitir frá norðri til suðurs...

Við ákváðum að fara á þá alla þarna lengst í austri til að vera viss...
og helst ná hæsta punkti til að hafa þetta löglegt...

Vorum mun fljótar að þessu en við áttum von á...
fyrsti hér...

Þarna risu nokkrir hnúkar í hnapp... þetta voru án efa Lakahnúkar...
sem liggja svo eins og ásar til suðurs þar sem við gengum á þá en við áttum eftir að fara upp á hæsta punkt þarna hægra megin...
verðum svo að skoða þessa hnúka betur á þriðjudegi...

Harðfenni hér og broddarnir að svínvirka...

... hægt að renna sér líka og það var geggjað gaman !

Ásarnir á Lakahnúkum voru fjórir... upp og niður... þessi er númer tvö...

Á milli þeirra blöstu hvítir hnúkar við undir bláum himninum...

Gott brölt sem safnaði upp umtalsverðri hækkun dagsins þó lágir væru tindarnir þennan dag...

Ás númer þrjú...

Flottur skaflinn á honum á uppleið...

Litið til baka... frábært færi þennan dag... skipti öllu máli við svona langa yfirferð...

Litli og Stóri meitill í fjarska... myndavélin aðeins skökk...

Lakahnúkarnir í hnapp hér í fjarska í norðri...

Mergjaðar myndir teknar hér...

Fjórði Lakahnúkurinn...

Ekki alveg eins flott renna í snjónum eins og á þeim þriðja...

... en sama fegurðin í fannhvítum snjónum og heiðbláum himninum...

Svo fallegur himininn... hvílík heilun... orka... gefandi útivera...

Tókum engar myndir á útleið á hæsta tindinn á Lakahnúkum
en nenntum sem betur fer að þvælast upp á hann í norðri og mældist hann 403 m hár...
og þar borðuðum við nesti og horfðum á Skálafell á Hellisheiði í notalegheitunum...
hér að snúa til baka ofan af honum í átt að Stóra sandfelli...

Hér var snjórinn svo fallega vindsorfinn...

... listaverk náttúrunnar.... veðuraflanna...

Þessir nýliðar... ef nýliða skyldi kalla... búin að mæta í hverja dagsgönguna á fætur annarri...
bara snillingar og eðalfólk eins og hinir englarnir í klúbbnum...

Fjórði tindur dagsins... Stóra sandfell framundan...

Haldið vel áfram en samt alltaf að stoppa og þétta og njóta...

Gott að fara svona upp og niður stöðugt allan daginn...
þjálfaði mjög vel líkamann fyrir þessa sömu hreyfingu á Laugaveginum upp og niður nánast heilan sólarhring...

Litið til baka... sjá sporin okkar frá Lakahnúkum og yfir...

Það eru forréttindi að eiga þessa fjallgöngufélaga að sem hér ganga... dásamlegt að spjalla og spá í hlutina saman...
mikið þykir manni vænt um þetta fólk... segir ritarinn væmni sem skrifa þetta :-)

Móbergsklappirnar á Stóra sandfelli kalla svo sannarlega á frekari skoðun á þriðjudagsæfing árið 2021...

Töfrar himinsins og vetrarsólarinnar...

Hæsti tindur Stóra sandfells... enn ein fagurmótaða bungan þennan dag...

Gunnar með brosið sitt fallega... alltaf glaður, alltaf með gefandi samræður og skemmtilegar pælingar...
með Skálafell á Hellisheiði í fjarska en Ferðafélag Íslands gekk á það þennan fallega dag...

Leiðangursmenn dagsins voru fjórtán:

Hafrún, Ágústa, Biggi, Sigrún Eðvalds., Vilhálmur, Starri, Örn.
Steinar Adols., Þorleifur, NN-gestur, Gunnar, Bjarni, Kolbeinn
og Batman með Bjarna og Bára tók mynd.

Í 440 m hæð... þriðja hæsta tindi dagsins...

Nú voru bara tvær léttar eldborgir eftir og heimreiðin á fartinni...

Sjá fjölskrúðugt landslagið á Stóra sandfelli... mjög fagurt fjall sem leynir á sér þar til nær er komið...

Nokkrar bungur á því efst...

Sjá hér Lakahnúkana alla útbreidda... við gengum á bungurnar nær okkur á myndinni... allar fjórar...
fjær eru þetta meira stakir hnúkar sem við skoðum á næsta ári... fjærst er Stóra Reykjafell og Hengillinn
og Hellisheiðin með öllum sínum tindum að Nesjavöllum

Hér upptötvar Bjarni að hann er búinn að týna öðrum keðjubroddunum sínum...
og við Gunnar snúum við með honum alla leið upp á tindinn aftur og leituðum um allt...
þeir voru með svörtu gúmmíi og féllu greinilega það mikið við landslagið að við fundum þá ekki... mikil synd..

Vorum ekki lengi að hlaupa niður að hópnum aftur...

Nyrðri eldborg hér framundan þessi litli gígur þarna...

Já... vá... það var ekkert smá gaman að renna sér hér niður...

Fjalllgöngumannasnjóbrekkurennuför með meiru... einhver sérstök heilun verður við að renna sér svona niður brekkur á göngu...
þeir sem prófa vita hvað verið er að tala um... stundum er eins og maður hlaði sig orku á nýjan leik í erfiðri göngu
bara við það að renna niður eina brekku...
óskiljanlegt og við erum enn að reyna að skilja afhverju það gerist...

Mikil snjóhengja hér í gilinu...

Gaddfreðin svo Gunnar átti ekki sjens í að brjóta hana...
gott dæmi um hversu hættulegt það er að fara fram af háum fjallsbrúnum þar sem eru snjóhengjur...
meter frá brún og maður getur samt stigið í gegn og fallið fram af með snjónum...

Jæja... næst síðasti tindur dagsins... Nyrðri eldborg... mjög lítil en mikið ævintýri þegar að var komið...

Þessir mosavöxnu hraungígar... magnaðir...

Kaffi Þorleifur... í skjóli og sól...

Þetta var notalegt ! :-)

Létt upgönguleið og við vonuðum að broddarnir væru ekki að særa mosann...

Smá kaffi hér en gjólan var meiri hér og ekki eins notalegt... í 320 m hæð á sjötta tindi dagsins...

Gott að hvíla sig... hlaða sig orku og vökva... þetta var langur dagur... margir kílómetrar... og umtalsverð hækkun...

Við vorum búin að taka eftir því að mosinn var stundum hálf volgur og ekki frosinn eins og jarðvegurinn var almennt á leiðinni...
hér var sama ástand í gangi... hitinn frá jörðinni bræddi snjóinn neðan frá... þetta var því ekki sólin sem bræddi hann heldur hiti frá jörðinni... merkilegt... það getur jú alveg eins gosið hér eins og við Þorbjörg á Reykjanesi... 

Sjá betur hér... en svona var þetta á hluta af Nyrðri eldborginni...

Við ákváðum að fara niður í gíginn og borða þar smá nesti...

Svellað færi niður...

Best að renna sér bara niður !

Sjá hér fleiri svona hitagöt í snjónum...

Eftir þriðju nestispásu dagsins var haldið áfram yfir á Syðri eldborg...

Litið til baka...

Nú var gengið á áttina að sólinni...

Veðrið orðið brakandi gott og dásamlegt að vera til...

Starri skráði sig í klúbbinn fyrir þessa ferð og er einn af mörgum nýliðum sem komið hafa inn og passa strax við hópinn,
í góðu formi og smitaður fjallaástríðunni sem togar okkur öll stöðugt á nýjar slóðir...

Syðri eldborg... mun stærri en sú Nyrðri en þarna voru nokkur för utan í henni og verksummerki um mannaferðir um allt...
voru þetta göngumenn eða hjólamenn...

Fórum upp slóðann sem markar stór spor í gíginn...

Lungamjúkur og formfagur...

Litið til baka niður...

Komin upp á gígbarminn og farið eftir honum upp á hæsta tind... Stóra sandfell hér í baksýn hægra megin...

Mjög fallegur gígur og minnir óneitanlega á Nyrðri og Syðri eldborg í hinum megin í Þrengslunum, í Lambafellshrauni....
sömu nöfn... svipuð staðsetning... merkilegt... við vorum að bæta þessum tindum í safnið
og það var sérlega gaman að gera það...

Mjög falleg sýn hér á fyrsta tind dagsins... Litla meitil... og sjöunda og síðasta tind dagsins... Syðri eldborg...

Komin á efsta tind hennar í 333 m hæð...

Töfrar... fjallorka... vetrarbirta...

Það var ekki annað hægt en taka eina riddarahópmynd... riddarapeysurnar eru um allt nú orðið...

Bára, Kolbeinn, Ágústa, Bjarni og Örn :-)

... og hinar lopaleysur dagsins með... svo fallegt...

Biggi, NN-gestur, Hafrún, Gunnar.
Bára, Kolbeinn, Ágústa, Bjarni, Örn.

Nú voru ekki fleiri tindar framundan og þjálfarar lögðu upp með að allir færu síðasta kaflann á sínum forsendum...
hratt alla leið í bílana eða bara í rólegheitunum á spjallinu....

Kaflinn var milli hrauns og hlíða... austan við Litla meitil...

Falleg leið sem við ætlum að ganga á á þriðjudagskveldi á næsta ári
þegar við bætum eldborgunum tveimur við þriðjudagsæfingasafnið...

... eflaust mjög falleg leið að sumri til...

Komin í bílana og varla komið kaffi... klukkan um hálf fjögur og bara hálftíma akstur í bæinn...
þetta var dásamlegt !

Stóra gps-tækið sagði 17,34 km en reyndar var vitleysa í punktunum og hæðartölur kolrangar þar...

Gps-úrið sagði 18,7 km á 6:49 síðustu menn... en fyrstu menn voru 6:42 klst...

Alls 18,5 km á 6:42 - 6:49 klst. upp í 464 m á Litla meitli, 523 á Stóra meitli, 397 á Gráuhnúkum, 403 m á Lakahnúkum,
440 m á Stóra sandfelli, 320 m á Nyrðri eldborg og 333 m á Syðri eldborg... með alls 1.120 m hækkun miðað við 206 m upphafshæð.

Við gáfum okkur góðan tíma til að spjalla og viðra daginn og spá í næstu göngur...
komin heim um 16:15... frábær dagur og ekkert sem skyggði á nema að ná ekki 20 km göngu...
en þetta var fínasta byrjun á nokkrum, löngum röskum göngum á árinu...
allir í góðum málum og vonandi mæta fleiri í næstu ferð...
þetta geta allir sem eru í ágætis gönguformi og vilja reyna svolítið meira á sig en í hefðbundnum tindferðum
en nýliðar og gestir stóðu sig með prýði og rúlluðu þessu upp enda hæstánægð með daginn :-)

Sjá myndband um gönguna hér:
https://www.youtube.com/watch?v=uyqtiSmj-do&t=643s

Gps- slóðin á wikiloc:
https://www.wikiloc.com/mountaineering-trails/sjo-tindar-i-threngslum-
meitlar-hnukar-fell-og-eldborgir-220220-47196496


 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir