Tindferð 156
Þverfell Reyðarvatni
laugardaginn 12. maí 2018

Þverfell og Reyðarvatn
við Uxahryggi
í töfrum óbyggðanna
eins og þau gerast tærust

Eftir ævintýralegan jeppahasar að Tindaskaga án árangurs...
fórum við upp á gjöfult útsýnisfjall í jaðri hálendisins við Langjökul
þar sem hver fjallaperlan af annarri blasti glitrandi fögur við okkur...
og gengum svo meðfram Reyðarvatni til baka þar sem myljandi... íshrönglandi...
sinfónía í klökuðu vatninu töfraði okkur upp úr skónum
... en annað eins höfum við aldrei upplifað áður...

-------------------------

Vorið 2018 verður lengi í minnum haft því maímánuðinn það árið gafst aldrei veður til að ganga á Vatnajökul...
og rigningarmet var slegið í Reykjavík... og meðalhiti maímánaðar í Reykjavík var undir meðallagi alls landsins
sem aldrei gerist... svo það var ekkert annað í boði þetta vor og sumar en að nýta þá daga sem þó gáfust... og einn mjög sjaldgæfur slíkur var laugardaginn 12. maí... eftir að hafa aflýst árlegri jöklagöngu á Öræfajökli þar sem ætlunin var að ganga á Rótarfjallshnúk uppstigningardaginn 10. maí... en eftir mikla yfirlegu á veðurspám ákváðu þjálfarar að freista þess að ganga á Tindaskaga við Þingvallavatn...

Þetta var þó nokkurt langskot þar sem bílfæri var mögulega að hindra för... en við ákváðum að láta slag standa
og fórum 13 manns á fjórum jeppum...

Við reyndum fyrst að komast yfir ánna hefðbundna leið um slóðann að Tindaskaga norðan Sandkluftavatns
en þjálfarabíllinn festist í sandbleytu á bakkanum hinum megin... vantar mynd af því !
og því keyrðum við til baka og prófuðum að taka slóðann meðfram Sandkluftavatni...
þrír bílar því Georg og félagar höfðu óvart keyrt framhjá afleggjaranum
en þau náðu okkur svo við vatnið síðar...

Mjög fallegt veður þó svalt væri og Ármannsfellið sýndi okkur fegurri hliðar á sér en nokkru sinni...

Slóðinn að Sandkluftavatni fer yfir háan háls ofan Meyjarsætis og var hann alveg þurr og snjólaus svo þetta lofaði góðu...

Austan við Sandkluftavatn er merktur jeppaslóða en hann endar í grjóti á kafla meðfram vatninu
og við könnuðum aðstæður áður en lengra var haldið og ákváðum að keyra alveg í fjörunni...

... sem gekk mjög vel...

Þegar komið var fyrir vatnið stoppuðum við og ákváðum að bíða eftir Georg og félögum
en þá sökk Ólafur Vignir ofan í sandinn sem var eins og leðja...
og við þurftum að draga hann upp með kaðli...
ótrúlega mjúkt þarna undir og dúandi jarðvegurinn að koma undan klóm vetrarins...

Slóðinn norðan Sandfells var lengi vel mjög góður og þetta leit virkilega vel út...

En svo var þessi skafl við norðausturhornið á Sandfellinu...

Og við ákváðum að láta hér staðar numið og spá í varafjall...

Tókum ekki sjensinn á að festast og eyða deginum í slíkt vesen...

Skjaldbreiður þarna í fjarska...

Botnssúlur og Kvígindisfell í fjarska...

Fæturnir voru farnir að klæja verulega... við vildum ganga en ekki keyra og jeppavesenast...
það voru meiri líkur en minni á að innar væru fleiri skaflar sem okkur sýndust myndu tefja för...

Botnssúlurnar skínandi fagrar...

En vegurinn var í mjög góðu standi langan kafla og því ætlum við að ná þessu síðar í sumar...

Að keyra meðfram Sandkluftavatni var einstakt...

Friðurinn þarna... fegurðin... engu líkt...

Ármannsfellið var óskaplega fagurt á að líta frá þessu nýja sjónarhorni handan Sandkluftavatns...

Og hálsinn ofan við Meyjarsæti var mjög skemmtilegur yfirferðar...

Tindaskagi í fjarska... mjög spennandi fjallgarður að ganga á...
og mun fallegri síðsumars en á þessum árstíma ef maður vill losna við snjóinn
en um leið mjög skemmtileg varaleið í stað jöklaferðar þar sem landslagið er alpakennt...

Kvígindisfell á leiðinni norður...

Þverfellið... gleymdi að taka mynd af því í fjarska því miður... var hins vegar nánast snjólaust...

Kvígindisfellið í baksýn mun snjómeira enda aðeins hærra...
en við höfum gengið á það á þriðjudagskveldi...

Þverfellið var hins vegar ekki komið í safnið og því tilvalið
þar sem það er eiginlega of létt fyrir "tindferð á laugardegi"
og já, eiginlega of langt á þriðjudagskveldi þó Kvígindisfell hafi verið gengið á slíku kvöldi...

Sýnin á Botnssúlur var ægifögur þennan dag og breyttist stöðugt...

Við vorum hins vegar að ganga á alsaklaust og sumarlegt fjall sem glitraði af hlýjum litum í sólinni
sem var ansi kærkomið á þessu hráslagalegu vori...

Þverfellið er margbunga og marghnúka...
við ætluðum að ganga þvert eftir því öllu og snúa svo við meðfram vatninu ef það væri mögulegt...

Dásamlegur hópur á ferð og mjög gaman að ræða stórferðirnar framundan...
Kilimanjaro... Grunnbúðir Everest... og fleira...

Skjaldbreiður var eitt af mörgum fjöllum sem skinu skært þennan dag...

Búin með syðsta hnúkinn og á leið upp á þann hæsta í miðið...

Léttir snjóskaflar á leiðinni...

Síldarmannagötur í fjarska vinstra megin... Hvalfjörður og í miðið er Skorradalur...

Eiríksvatn hér og Lómatjörn í fjarska...

Blár himinn... og gul sól... var sjaldgæf sjón þessar vikurnar og við nutum þess að vera í þessu veðri þó það væri svalt...

Kvígindisfell, Botnssúlur og Hvalfell... já, Þverfell við Reyðarvatn er snilldarinnar útsýnisfjall...

Okið í fjarska... Fanntófell sem við hefðum viljað ganga á... en tókum ekki sjensinn á að væri ófært að...
og sáum ofan af Þverfelli að við hefðum aldrei getað keyrt inn eftir að...

Á tindinum í 663 m hæð var nesti í kulda og trekki en þó smá skjól bak við vörðuna...

Sumir að njóta þess að borða... aðrir farnir að ókyrrast og vilja halda áfram... :-)

Georg er í uppáhaldi hjá hundunum...

Með Skjaldbreið í bakgrunni og Reyðarvatnið sem var virkilega skemmtilegt að kynnast:

Halldóra Þ., Arngrímur, Bjarni, Ingi, Gunnar, Ólafur Vignir, Olgeir.
Georg, Örn, Gerður Jens., Birgir, Sigríður Lár.
Batman og Gutti þarna með og Bára tók mynd.

Ofan af tindinum héldum við áfram eftir fellinu til norðurs...

Síðasti hnúkur fjallsins þarna framundan...

Reyðarvatnið að koma í ljós... með ísinn enn marrandi ...

Lundareykjadalur hér í fjarska... Skarðsheiðin hvít vinstra megin...

Að renna sér niður snjóskafla í fjallgöngu er ótrúlega heilandi... einhver slökun og hvíld sem kemur...

... eflaust eitthvað í áttina að því að fjallaskíða til baka niður af fjalli...

Við ákváðum að fara að huga að niðurleið að vatninu...

... en héldum aðeins lengra áfram inn eftir...

Tindaskagi þarna í fjarska...

Dásamlega fersk birta var þennan dag...

Hlöðufellið orðið skýlaust nánast...

Stóra og Litla Björnsfell... við eigum þau enn eftir... eins og svo mörg fjöll á hálendinu við Langjökul þó mörg séu þegar í safninu...
ástæðan er aðgengi... það er ekki bílfært þarna inn eftir fyrr en síðsumars...

Hér áðum við og snerum niður að vatninu...

Birgir fann þennan götótta stein...

... sem Ingi var ekki lengi að bregða á leik með...

Gapastokkur og gat...

Já, skemmtilegur steinn...

Þeir voru fleiri svona götóttir... sjá örsmáa gatið sem er komið framan við skóinn...

... þetta hérna ...

Æj, já... það er svo gaman að fara út að leika með vinum sínum ...

Niðurleiðin að vatninu var tilraunakennd eins og svo oft áður... og langskemmtilegast auðvitað... slóðar... eltingaleikur við gps-leiðir... og endurtekning komast ekki í hálfkvisti við að fara leiðir sem við höfum ekki farið áður og vitum ekki hvort aðrir hafa farið og ekkert segir hvort hægt sé að fara... þjálfarar gætu ekki haldið þessum klúbbi úti ef þeir væru alltaf að feta í fótspor... annarra eða sinna eigin...

Þetta reyndist hin fallegasta leið...

... og við nutum þess að ganga á sjaldfarið fjall sem ekki þykir nægilega fínt almennt...
án þess að vita hvort við kæmumst niður á þessum stað...

Djúpir skaflarnir og heilmikil bleyta undir... vorið er að sigra...

Brekkan neðar var brött en fær...

... þökk sé þessum fagra snjóskafl sem lá niður eftir lausagrjótinu...

Fegursta mynd göngunnar... með vatnið og fjöllin í baksýn...

Svona grjótskriður eru sérlega erfiðar yfirferðar...

... og þá eru svona snjóskaflar það besta í heimi... einn af kostum vorsins... og sumarkulda hálendisins...

Við runnum hérna niður hvert á sínum hraða...

Skaflinn til baka... saklausari neðan frá en ofan frá...

Litir þessa dags voru einstaklega skærir og tærir... eins og oft á vorin...

Skjaldbreið... alltaf glæsileg að sjá... nú frá nýju sjónarhorni...

Við sáum glitta í kofa við vatnið að stefndum þangað...

Hér steikti sólin okkur og veðrið var óskaplega fallegt...

Veiðikofinn gamli við Reyðarvatn...

fallinn undan veðri og snjóþunga...

Það var eitthvað alveg einstakt við að koma að Reyðarvatni...
kyrrðin og fegurðin... tærleikurinn...
snart mann djúpt og veldur því að þetta vatn á sér sinn stað í hjarta manns eftir þessa ferð...

Ísinn að gefa eftir í hitanum frá maísólinni...

Hér áðum við lengi og spáðum í tilveruna...

Snæddum nesti og nutum þess að vera til...

Spjölluðum um heima og geima...

... bárum saman bækur og huguðum að því sem framundan er í sumar...

Það var varla að maður tímdi að halda áfram....

Háaloftið enn í lagi í kofanum en neðri hlutinn fallinn...

Sigíður Lárusdóttir bættist í hópinn um daginn og þetta var hennar fyrsta ferð með klúbbnum
en hún er atvinnukafari og kennir köfun og fer með fólk í köfunarferðir...

Hún sat við vatnið og talaði við það...

Þessi mynd ákvað að snúa sér... og fær að standa svona... fegurðin í einfaldleikanum er einstök...

Harðneskja hálendisins er töfrandi í kulda sínum...

Við drukkum í okkur fegurðina meðfram vatninu...

... og upplifðum strendur Reyðarvatns sem göldróttan stað til að vera á...

... fullur af ævintýrum ...

... átökum vetrar og sumars ...

Stundum lágu skaflarnir ennþá yfir fjörunni upp að fjallinu...

Hvergi upplifir maður liti sterkar en í óbyggðunum...

Batman og Gutti léku sér og höfðu mjög gaman af ísnum...

Jú... sumarið er komið...

Skyndilega blasti við bergmynd af Gutta... hundinum hans Georgs...

Já... þetta var Gutti !

Við vorum lengi að koma okkur meðfram vatninu... tókum endalaust myndir og störðum út á vatnið...

Væri gaman að hlaupa kringum það... og ganga á þriðjudagskveldi...

Skyndilega heyrðum við klingjandi klukknahljóm...

Hann kom frá íshrönglinu sem lamdist að grjótinu í fjörunni...

Myljandi tónlist náttúrunnar... ís-sinfónía... íshrönglið í Reyðarvatni að brotna á fjörunni...
mann setti alveg hljóðan... og við bara þögðum og hlustuðum alveg heilluð... ekkert okkar heyrt annað eins...
síminn náði þessu ekki nægilega... en þetta gleymist aldrei...
var eins og klingjandi klukknahljómur í sinni tærustu mynd...

https://www.youtube.com/watch?v=hm3qHNvbldo

Við bara stóðum og hlustuðum...

... og tókum myndir af ísnum...

... þetta var veisla ljósmyndaranna...

Skjaldbreið með vatn í forgrunni... það var aldeilis ný sýn á það fjall... mitt uppi á hálendinu...

Fanntófell... já, við þurfum að ganga á það einn daginn...

Áfram héldum við...

... þegar við loksins tímdum að fara frá þessum klukknahljóm...

Skaflinn að gefa sig undan sumrinu...

Þetta var skínandi góð sárabót fyrir Tindaskaga og Rótarfjallshnúk...

Við fengum nýja upplifun sem engu líkist...

Reyðarvatn verður aldrei samt í huga okkar eftir þessa upplifun...

Þetta var þriðja kyngimagnaða hljóð-upplifun þjálfara á fjöllum...

Sú fyrsta var þegar ísbreiðurnar brotnuðu undan okkur í könnunarleiðangri á Múla og Trönu í desember 2012
með hvílíkum hvellum að líkt og sprengingar væru...

... og þegar ísinn brotnaði í Kattartjörnum í könnunarleiðangri þar í maí 2009 eða svo
en óhugnaðurinn í þeim hljóðum nísti inn að beini...

Tvisvar sinnum lent í ógnvekjandi hljóðum sem vakti með okkur ótta...
en í þetta þriðja sinn að heyra ný og framandi hljóð í óbyggðunum þá var það nú fallegt og heillandi...
 og eitthvað sem maður fékk ekki nóg af...

Við freistuðumst til þess að ganga veginn til baka yfir hálsinn í bílana...

Litið til baka niður að vatninu...

... og hér skein sólin í heiði... þetta var yndislegt...

Alls 11,9 km á 4:18 klst. upp í 663 m hæð með alls hækkun upp á 590 m miðað við 326 m upphafshæð.

Gunnar Viðar bauð okkur í kaffi í bústaðinn sinn eftir göngu... og þrátt fyrir allan jeppahasarinn um morguninn...
fjallgönguna á Þverfellið... og allt dólið meðfram vatninu... höfðum við nægan tíma...
svo flest skelltum við okkur í bústaðakaffi við Þingvallavatn...

... og keyrðum til baka að Þingvöllum meðfram Kvígindisfelli og Ármannsfelli...

... og Sandfelli og Meyjarsæti með Hrafnabjörgin hér í fjarska...

Gunnar reyndist höfðingi heim að sækja...
en við byrjuðum á því að hrekja erlendan ferðamann af afleggjaranum að bústaðnum
en maðurinn sá var að mynda húsið og nágrenni...
dolfallinn yfir fegurð svæðisins...
já... ferðamenn þessi árin gefa sannarlega svip á lífið úti á landi...

Kaffi og konfekt... ekki slæmur endir á fallegum göngudegi...
og fróðleikur um svæðið við Þingvallavatnið með augum bústaðaeigenda svæðisins
var sérlega skemmtilegt...

Á heimleið skall á enn einn skúrinn... haglél og slydda... og allt varð hvítt...
já, hráslagalegt og vetrarlegt vorið og sumarbyrjunin árið 2018 mun gleymast seint...

Ansi sæt og nokkuð óvænt sárabót fyrir Rótarfjallshnúk sem ekki var fær tveimur dögum áður
og ykkur að segja... þá varð veðrið það sem eftir leið maímánaðar ekkert skárra en þetta...
því miður... fyrir alla á suðvesturhorni landsins... en á norðausturlandi var komið Spánarveður í lok maí með nokkra daga yfir 20 stiga hita... jáhérna... munurinn milli landshluta ! ... en þau á norðausturlandi eiga þetta alltaf skilið...
þau er almennt ekki í mildu og friðsælu loftslagi eins og við svo megi þau njóta meðan þetta varir :-)

Takk fyrir okkur... töfrar óbyggðanna í hnotskurn..
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir