Tindur nr. 14 - Laugavegurinn helgina 8. - 10. ágúst 2008


Tindur 14 - Landmannalaugar - Þórsmörk

Sautján Toppfarar gengu 56,7 km á tveimur dögum án þess að blása almennilega úr nös
í góðu veðri stóran hluta af ferðinni og enduðu gönguna í sól og vellystingum í Þórsmörk.
Lengsta tindferðin til þessa í sögu klúbbsins og fallegasta landslagið...

Hálf- léttskýjað, hlýtt og logn fyrri daginn.
Súld og dropar seinni daginn, lygnt og hlýtt en svo létti smám saman til kringum Emstrur
og varð léttskýjað er Þórsmörkin nálgaðist þar sem sólin skein svo óskert í heiði
þar til við fórum heim í brakandi hita og sól á sunnudeginum...

Nautsterkir fjallgöngumenn í toppformi...

...Örn, Stefán Alfreðs, Alexander, Rannveig, Guðbrandur, Stefán Jóns., Ragna, Guðjón Pétur, Hjörleifur, Björgvin.
Guðmundur, Gylfi Þór, Jón Ingi, Íris Ósk, Halldóra Ásgeirs., Roar og Bára bak við myndavélina.
 

Mögnuð ganga um eina fallegustu gönguleið Íslands...
Á vegi okkar urðu ótal tegundir lita, bergtegunda, undirlags, vatnsfalla og landslags...
Ekkert jafnast á við Laugavegsgöngu í góðu veðri og góðu útsýni eins og þessa helgi.

Eftir akstur úr Reykjavík frá því kl. 7:05 um morguninn í blíðskaparveðri með stuttu morgunverðarstoppi í Hrauneyjum vorum við komin í Landmannalaugar um kl. 10:20 og tókum okkur hálftíma til að koma okkur af stað.

Fjölmennt var í Landmannalaugum, veðrið gott, lygnt, hlýtt og hálfskýjað.

Lagt var af stað gangandi kl. 10:48 og var gönguleiðin strax hreinir töfrar um Laugahraunið í átt til óbyggðanna...

Hér litið til baka til Landmannalauga af stígnum eftir fimm mínútna göngu.

Hrafntinnusvartklæddir Toppfarar að falla algjörlega í kram Laugahrauns...

Brennisteinsalda (855 m) greip anda okkar á lofti og útsýnið tók við þeim andardrætti...

Fjöldi manns á ferðinni um svæðið og skv. lista ferðafélagsins í skálanum voru 47 manns þegar lagðir af stað upp í Hrafntinnusker þennan dag í 1-2ja manna hópnum og einum 11 manna hópi auk annarra óskráðra.

Snjóskaflar innan um jarðhita í ljósbrúnum og bleikum fjöllum... vorum við stödd í teiknimynd eða á þessu undurfallega landi Íslandi...?

Fagrar fjallakonur umkringdar fögrum fjöllum...
Fimm konur lögðu í þennan leiðangur ásamt tólf karlmönnum en sautján vorum við á endanum
þó tuttugu hafi upphaflega ætlað með og aðrir fimm hætt við nokkuð áður.
Þessi sautján fengu ríkuleg laun staðfestunnar og erfiðisins...

Sólin gyllti allt upp með líparítinu þegar skýin viku fyrir henni og landslagið var undursamlegt.
Allst staðar rjúkandi hverir og brennisteinslykt, útsýnið óborganlegt og við þökkuðum okkar sæla fyrir að fá svona gott veður á þessu svæði.
Íris Ósk, Jón Ingi, Björgvin, Stefán Jóns, Guðbrandur, Rannveig, Guðjón Pétur og Ragna að hvílast með Landmannalaugar, Laugahraun, Brennisteinsöldu, Veiðivötn, Snjóöldu og fjöllin handan þess í baksýn.,

Stórihver rjúkandi hægra megin framundan og Söðull við Hrafntinnusker framundan.

Hlýir litir leiðarinnar í mótsögn við svartan sandinn, myljandi hraunið og kalda snjóskaflana.
Fórum fram úr einum stórum hópi þar sem með í för voru þrír unglingar, 14 - 15 ára sem gengu rösklega og voru ekki að fara leiðina í fyrsta skipti enda skein af þeim sælan með verkefni dagsins.

Við björtum fjöllum tók svartur sandur, grjót og hraun við Hrafntinnuskeri og glitraði hrafntinnan í fjarska eins og silfur eða gimsteinar.

Slóðinn eins og sjá má mjög þægilegur og erfitt að villast nema í mikilli þoku en við gengum fram á minnisvarðann um unga manninn, Ido Keinan, 25 ára, sem týndist á þessum slóðum fyrir fjórum árum síðan í lok júní.
Snjóskaflar voru nánast engir á leiðinni sem var harla ólíkt slóðinni í Laugavegshlaupinu þann 12. júlí s. l. og sýnir hve hratt landslagið breytist eftir árstíð og tíðarfari allt árið um kring.

Hvílíkt veðravíti þetta er í hörðu vetrarveðri... en það væri gaman að fara þarna um á snjósleða einhvern tíma í sólríku veðri með allt á kafi í snjó...

Komin að Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri eftir tæplega 3 klst. göngu  10,2 km upp 475 m úr 598 m hæð í 1.073 m.

Sólin skein og engin þoka svo staðurinn var bara hinn notalegasti.

Skerið sjálft er 1.128 m hátt

Nestistími þar sem menn borðuðu úti eða inni.

Mikil uppbygging á Laugavegsgöngusvæðinu hefur farið fram hjá Ferðafélaginu síðustu ár og mátti t. d. sjá þessa viðbyggingu við skálann í Hrafntinnuskeri sem örugglega breytir miklu fyrir staðinn.

Lagt af stað eftir góðan hádegismat í fallegu veðri niður í átt að Kaldaklofsfjöllum (1.259 m) og Jökultungum með Söðul (1.132 m) að baki í norðri og Reykjafjöllin (1.185 m)á vinstri hönd í austri en þau voru anzi freistandi uppgöngu svona nálægt og tilfefni til þess að gista í Hrafntinnuskeri einn daginn og ganga á nærliggjandi fjöll.
Landslag jökulgilja norðvestan Kaldaklofsfjalla.

Háskerðingur vinstra megin á mynd en ganga þarf um fellin norðvestan hans og yfir jökulinn til þess að komast upp á hann en það gerðu Halldóra Ásgeirs og Roar fyrr í sumar í fallegu veðri. Sagt er að tilfinningin uppi á Háskerðingi í góðu veðri sé eins og að standa á þaki heimsins... með fjöllin öll, óbyggðirnar og svo strendurnar lengst í burtu fyrir fótum sér...

Snjóskaflarnir óðum að hopa fyrir sumarhitanum.

Þegar sólin skein snarhitnaði í svörtum sandinum en annars var svalur vindur ofan af jöklinum.

 

Erfitt að velja hvaða myndir fái að vera stórar á vefnum (þær taka mun meira pláss) ... þær eru svo margar fallegar úr þessari ferð...

Lækjarsprænurnar sem við tipluðum yfir voru óteljandi á leiðinni, sandurinn mjúkur og landslagið og undirlagið svo fjölbreytt að auðveldara er að fara langar dagleiðir á þessu svæði en ella.
Ólýsanlegt landslag...
Pása í sólinni með heiminn í fangið...

Einn flottasti nestisstaður í sögu klúbbsins...

Háskerðingur og Toppfarar á góðum degi.
Kaldaklofsfjöll framundan en við beygjum framhjá þeim og til suðurs við fjallsræturnar og göngum þá niður Jökultungurnar.
Gullið landslag í hvítum snjó undir bláum himni.
Skyndilega fór að glitta í útsýnið til suðurs... jöklana og keilullaga fjöllinn við Álftavatn hvert öðru líkara.

Álftavatn með félögunum sínum fjöllunum... keilulaga í ýmsum útgáfum og ágætis verkefni að átta sig á meðan maður gekk.

Torfatindur (785 m) hægra megin við vatnið (vestan), Brattháls (751 m) vinstra megin, Stóra Grænafjall (881 m)sunnan við vatnið (við Torfatind) og fjær lægra fjall; Illasúla, lengra til austurs við Brattháls rís svo Stóra Súla tignarlega og enn lengra til suðurs frá Bratthálsi að Mýrdalsjökli rís Hattafellið líklegast.

Mýrdalsjökull - Eyjafjallajökull - Tindfjallajökull í skýjunum.

Guðbrandur, Rannveig, Alexander, Íris Ósk, Guðmundur Ólafur og Jón Ingi að á valdi útsýnisins takandi myndir af dýrðinni.
Áfram haldið um gulu gilin með Kalfaklofsfjöll framundan.

 

Sjá Toppfarana í hlíðinni ofarlega vinsta megin...

Leirinn þurr og góður en getur verið sleipur á þessum kafla í blautri tíð.

Skórnir voru vel leiraðir engu að síður eftir þennan dag þar sem farið var úr leir og niður gil yfir læki til skiptis.

Álftavatn, Jöklar, fjöll og Toppfarar að dáleiðast niður jökultungurar.

Brekkan langa niður að Álftavatni sem getur tekið í hné og læri en var tekin á hraðferð af þessum snarbrjáluðu Toppförum sem þarna voru á ferð...

Hvílíkt form eru þeir komnir í...

 

 

Álftavatn er 1,2 ferkílómetrar að stærð og dýpst 22 m (Íslandshandbókin).

Eftirfarar-þjálfara tókst að grípa í skottið á Hraðförunum með miklum köllum til að sameina hjörðina landslaginu í einni mynd þegar Jóni Inga varð það á orði að það væri nú ekki ónýtt að mynda hópinn í þessu úsýni, en bakgrunnurinn reyndist yfirlýstur þar sem við vorum komin of neðarlega, en engu að síður flott mynd af flottu fólki í flottu landslagi...

Björgvin, Gylfi Þór, Alexander, Rannveig, Örn, Guðmundur Ólafur, Guðjón Pétur, Jón Ingi, Ragna, Íris Ósk, Guðbrandur, Stefán Alferðs, Stefán Jóns., Hjörleifur, Roar, Halldóra Ásgeirs og Bára bak við myndavélina.

Síðasti hluti brekkunnar á sömu hraðferðinni...

 

Grashagakvísl í botninum sem gaf hópnum nýtt verkefni... að stikla fimlega yfir ef maður var langleggjaður eins og Örn og Guðjón Pétur eða bara vaða.

 

Þegar Örn var kominn yfir reyndi hann að hagræða grjóti fyrir hina til að stikla yfir en féll við og blotnaði án þess að vilja gera meira úr því.

 

Guðjóni Pétri kippti þeim yfir sem fóru með honum af miklum dug en flestir vöðuðu við mikla gleði og var afskaplega gott að viðra fæturna í svölu vatninu í sólinni eftir langa göngu.

Vaðmennirnir aðstoðuðu svo breska fjölskyldu sem tvísteig á árbakkanum með enga vaðskó og komst ekki yfir. Þau fengu lánaða vaðskóna okkar og voru afskaplega þakklát.

Slóðinn svo að Fjallabaksleið Syðri sem liggur m. a. að Keldum á Rangárvöllum um gullfallega aksstursleið þar sem ekið er með einu myndarlegasta fjalli að Fjallabaki, Laufafelli (1.164 m) (spennandi fjall framtíðar fyrir Toppfara...)  og farið yfir Markarfljót.

 

Hvað jafnast á við litadýrð íslenska mosann þegar líður á sumarið... barasta blóm hálendisins og urðarinnar á Íslandi!

Skálar Ferðafélags Íslands við Álftavatn sem reistir voru síðsumars 1979 en nú er þar í byggingu nýr og myndarlegur skáli sem sést á myndinni.

Tjaldstæði Álftavatns er óumdeilt eitt það fallegasta á hálendi Íslands.

 

 

 

Björgvin og Guðjón Pétur að skoða kortið "Þórsmörk - Landmannalaugar" sem gaf góða sýn á örnefni og staðhætti á leiðinni...
Góður nestistími var tekinn við Álftavatn þó ekki væri langt eftir í Hvanngil, blómlegt mannlíf var á svæðinu og veðrið gott.

Rannveig að plástra tær og hæla með aðstoð Alexanders en helmingur hópsins var kominn á plástra þessa helgina og fékk aldeilis góða æfingu í þeim málum við aðstæður þar sem vaða þurfti fjórar ár og ganga langar leiðir dag eftir dag.

Lagt af stað frá Álftavatni í kvöldsólinni með 3-5 km framundan að Hvanngili sem reyndust svo vera 4 km.

Ein af mörgum gullfallegum myndum þessarar leiðar.

Vað nr. tvö yfir Bratthálskvísl og nú náðist Guðbrandur á mynd að bera konuna sína á bakinu eins og herforingi en Rannveig var þarna farin að berjast við blöðrur sem ekki gátu blotnað með plástrunum.
Bratthálskvísl að baki, Jökultungur í baksýn og brekkan sem við gengum niður með útsýninu fyrr um daginn.

Ofar eru svo Kaldaklofsfjöll, Torfajökull og Háskerðingur þó ekki sjáist þau á mynd.

Mýrdalsjökull glitrandi framundan í kvöldsólinni og tindar fjallabaksleiðar syðri sem liggur norðan Mýrdalsjökuls og er mögnuð í góðu veðri.

Stóra Súla (918 m) til suðurs sem er ágætis kennileiti við Hvanngil en um leið voru fjöllin á svæðinu svo keimlík að maður ruglaðist nokkrum sinnum með stæl en festi bara landslagið betur í minni fyrir vikið.

Komin að Hvanngili um hálf átta leytið, styttum okkur aðeins leið framhjá veginum á eftir Jóni Inga og allir fegnir að geta loksins hvílt lúin bein eftir langan dag, 3,5 klst. rútuferð + 26,9 km göngu á 8:40 klst.

Veðrið var síst í Hvanngili þennan dag og áberandi kuldalegra en í Álftavatni en er fallegur staður í góðu veðri.

 

Kvöldið var notalegt í Hvanngili, góðar sturtur og mjög fín eldunaraðstaða, stemmningin góð og allir hressir... þrír erlendir ferðamenn en annars áttum við skálann fyrir okkur.

...best var samt súkkulaðakakan hennar Halldóru með jarðarberjum og gervirjóma sem smakkaðist dásamlega eftir dásamlegan dag, hvílík snilld við útilegu aðstæður.

Hjartans þakkir Halldóra !

Björgin og Hjörleifur komnir í rúmið en alltaf í stuði...
Vaknað fyrir kl. 8:00 og lagt í hann kl. 9:10 eftir tiltekt og allt saman.

Veðrið heldur hráslagalegt og lítið í stíl gærdagsins eða veðurspárinnar sem spáði enn meiri sól þennan dag, þungskýjað, gola og rigningarlegt.

Við skyldum bara ganga úr þessu og inn í sólina... sem  reyndist réttur ásetningur en heldur var hann lengur að rætast en leit út fyrir því alltaf var léttskýjaði himininn lengra í burtu þarna sem við áttum eftir að ganga sandana í súldinni.

GPS-strákarnir Hjörleifur og Roar en sá hópur fer ört stækkandi... annar hver maður í hópnum orðinn tæknivæddur svo við erum í góðum málum.
Hvanngil að baki og fjöllin í þokuslæðingi efst en lygnt og tiltölulega hlýtt og skyggni gott.

Dagurinn hópst á göngu yfir Hvanngilshraun sem talið er koma undan eldstöð í Mýrdalsjökli.

Hvanngilshnausar í suðaustri og lengra svo Bláfjöll og Smáfjallarani.

Kaldaklofskvísl fljótlega á vegi vor með göngubrú og víðsjárverðu vaði fyrir bíla en brúin var reist 1985. Bláfjallakvísl tók svo við eftir það en hún var köld og breið en vel fær.

Innri Emstruá varð svo fyrir okkur eftir um 4 km en rætt var m. a. um örnefni þessara beggja Emstruáa sem einnig hafa verið nefndar syðri og nyrðri / fremri og aftari / neðri og efri, sjálfsagt til að skerpa á staðsetningu en heimamenn halda sig við Ytri og Innri.

Gamli jökulhlaupfarvegurinn sem á vegi okkar varð er talinn vera eftir 2.500 ára gamal jökulhlaup úr Entujökli sem hafi hlaupið mili Stórkonufells og Smáfjalla, klofnað í tvennt og myndað Hattfellsgil og Fauskheiðargil og brotist fram í Markarfljótsgljúfur (Íslandshandbókin).

Sandurinn var genginn rösklega með Stórusúlu á hægri hönd og svo Súluhryggi yfir Hattafellshraun sunnan Innri Emstruár en það er talið hafa runnið undan Mýrdalsjöklil.

Áð var svo við Útigönguhöfða með Hattafell (924 m) í fangið en heldur fór þjálfari villur vegar þegar honum fannst þetta vera Stóra Grænafjall...

...Það var ekkert skrítið að maður las kortið vitlaust á þessum gönguhraða því Guð hjálpi manni ef maður stoppaði til að skoða kort... þá týndi maður hópnum...;)

Hópurinn komst að því að Örn átti afmæli þennan dag þó hafi það átt að vera leyndarmál og Guðbrandur og Rannveig áttu brúðkaupsafmæli.

Er hálendið ekki góður staður til að halda upp á svoleiðis?

Gengið um Tuddahraun sunnan Hattafells sem talið er elsta hraunið á svæðinu ug upprunnið úr gígröðinni ofan Botnum sem hylja skálann í Emstrum þar til komið er fram á skálann.

Sandarnir áfram að Emstrum með Hattafellið á hægri hönd og svo í bakið, Stórkonufell (950 m) á vinstri hönd fjær (ekki á mynd) og Tudda og Tvíböku nær (á mynd).

Það var að létta til og blámi himins að lýsa upp sandana með stöku sólargeislum

 

Komin í Botna að skála ferðafélagsins við Emstrur.

Eftir á að hyggja hefði verið gaman að fara að Markarfljótsgljúfri þar sem hópurinn hafði gengið það rösklega en það hafði aldrei hvarflað að þjálfurum að þessi dagur biði upp á nokkuð annað en hefðbundna leið og því var of seint að snúa þangað þegar flestir voru komnir í skálann töluvert neðar.

Roar bendir hér í áttina að þeirri leið sem þá hefði verið farin.

 

Góður nestistími við skálann í góðu veðri.

Blöðrurnar farnar að spilla svo fyrir að Rannveig ákvað að fá far með rútunni síðasta legginn enda gengið þetta áður.

Alexander fór sömu leið en hinir héldu áfram með nýja plástra á fótum og magann fullan af orku fyrir síðustu 13 km...

Gengið frá Emstrum um hálendisgil úr móbergi sundurskornið með vaxandi hvömmum sem smám saman skörtuðu meiri gróðri þar til birkiilmur Þórsmerkur tók við.
En fyrst skyldi fara yfir Ytri Emstruá sem brúuð er yfir hrikalegt gljúfrið.

Brúin var vígð 30. september 1978 og þann dag er fyrsta ferðin á Laugaveginum á vegum Ferðafélags Íslands skráð,en fyrsta Laugavegsgangan á vegum félagsins var svo farin 13. - 18. júlí 1979 (Laugavegurinn - FÍ 2008).

Keðjukaflinn var lítið mál fyrir hrausta menn og útsýnið magnað.

Við tóku Almenningar, afréttur Vestur-Eyfellinga með skriðjökul Mýrdalsjökuls næstan okkur er kallast Entujökull og gefur af sér Ytri Emstruá.

Einn af mörgum göngutúrum mögulegum á þessu svæði er að upptökum árinnar við jökulsporðinn þar sem allavega einn foss gefst á leiðinni eftir minni þjálfara.

Eftirfarar-þjálfarinn reyndi að halda hópnum saman svona til að njóta þess betur að ganga og kallaði á eftir liðinu þegar gengið var niður að ánni og sýndist sitt hverjum með þessa gjörð en þessir tilburðir entust stutt á orkumikinn hóp í toppformi...

 

...en þó tókst að kreista fram útúrdúr að Markarfljótsgljúfri þar sem Emstrúáin sameinast Markarfljóti og sveik útsýnið engan þó ekki jafnist þetta við svipmestu útsýnisstaðina um gljúfrið eins og steinsnar frá Emstrum.

Þar nær gljúfrið 160-180 m dýpt og er í sinni hrikalegustu mynd en um er að ræða um 1 km gönguleið frá Emstruskálanum og góð kvöld- eða morgunganga frá skálanum fyrir þá sem þar gista.

Talandi um Laugavegshlaupið og önnur hlaup á göngunni (Bára og Stefán Alfreðs) fór þá ekki tveir vaskir hlauparar fóru framhjá okkur á þessum kafla á flúgandi fart eins og við manninn mælt... furðuleg tilviljun.

Þar fóru Þorbergur og kári Steinn, eðalhlauparar sem sögðust stefna á 6 tíma niður í Þórsmörk og miðað við kraftinn og ástand þeirra var ekki hægt að efast um þessa áætlun.

Þá urðu einnig á vegi okkar önnur en nú íslensk fjögurra manna fjölskylda með grunnskólabörn og hvítan hund sem kom gangandi frá Emstrum og stefndi í Langadal.

Ekki voru þau að heyra ísbjarnarbrandarann í fyrsta skipti en við stóðumst ekki mátið... hundurinn líktist ísbirni í fyrstu úr fjarlægð... í alvöru...

Hvar er þetta Bjórgil... þetta er nú bara vatn... nú er það seinna?... jæja, drífum okkur... við höfum ekkert að drekka í Slyppugili...
Bjórgil sem bara bauð upp á afvötnun og sífellt gróðursælla umhverfi með hækkandi hitstigi og sterkari sól.
Mýrdalsjökull og svo út af mynd Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökull frá sjónarhorni Almenninga... svæðið sem við horfðum á fyrir tveimur mánuðum síðan ofan af Fimmvörðuhálsi og Morinsheiði í glampandi sól og góðu skyggni...
Hattafell langt að baki okkar nú, fjallið sem við borðuðum nesti við fyrr þennan dag... hvílíkt afrek að ganga langar dagleiðir tvo daga í röð á þessum blússandi hraða...
Síðasti nestistíminn sem ekki var tekinn mynd af vegna tímaleysis eins og fleira þennan dag, fór fram í birkiilmi og sólargeislum en svo var lagt í síðasta áfangann.. þessa Kápu sem var víst eitthvað smá fjall og svo Þröngá sem var víst mesta vatnsfallið á leiðinni...
Klettar og klappir Þórsmerkur.

Mýrdalsjökull að bjóða Toppfarar velkomna í birkigrónar fjallsrætur sínar.
Ljósá og Kápa framundan í blíðskaparveðri.

Hér var komin aðeins gola svo ekki fækkuðum við mikið fötum þó vel hefði það mátt... við vildum bara klára þetta og komast í pottinn og ískaldan öl...

Einhyrningur, Jón Ingi, Ragna, Gylfi Þór, Halldóra og Örn.
Sjá hópinn liðast upp að Kápu eftir Ljósá.
Brúin yfir Ljósá með Einhyrning í baksýn... eitt fjalla sem eru á dagskrá framtíðarinnar.
Brekkan í Kápu...lítið mál fyrir þá sem voru í gírnum og hafa gengið á fjöll mánuðum saman við allar aðstæður.

Hæðin mældist 351 m frá 255 m hæð við Ljósá eða 104 m hækkun þar.

Tindfjallajökull nánast snjólaus að austan í baksýn... líka á dagskrá vonandi á innan við ári...
Þarna bara urðum vi að taka mynd af þeim sem enn héldu hópinn með þjálfurum.

Rjúpnafell (824 m)m Mýrdalsjökull (1.493 m), Tindfjöll (557 m)... Hálldóra, Jón Ingi, Gylfi Þór, Guðjón Pétur og Bára en Örn tók mynd.

Þröngáin var straumþung, gruggug og virtist djúp svo menn fóru í tvennum yfir en gekk vel.

Náði vatnið upp á mið læri og var mikið ævintýri að fara þarna yfir, fín æfing í að vaða straumþunga á í grýttum jarðvegi þar sem mann sundlaði strax ef maður gleymdi að horfa á fastan punkt á árbakkanum hinum megin... og maður mátti ekki missa taktinn við félagann til þess að detta ekki...

...en þegar skvetturnar fóru upp í klof á háfættum þjálfurunum tóku einhverjir þá ákvörðun að fara á eftir Guðjóni Pétri sem finnur alltaf vað að eigin smekk og hefur mjög gott nef fyrir því.

Sjá má snúninginn hans hér frá vaðinu sem hinir höfðu valið áleiðis að grynnra vaði ofar í ánni... ekki lengi að þefa uppi betri stað... enda tilnefndi þjálfari hann "vaðmeistara hópsins" síðasta vetur...

Guðbrandur og Stefán Alfreðs. að leggja í hann með göngustafina á milli sín eins og Guðbrandur hafði góða reynslu af úr veiðiferðum...

Sjá glitta í Rögnu framar með ána upp á mið læri...

Guðmundur Ólafur og Gylfi Þór með sömu aðferð sem gafst vel en annars er venjan líka að krækja olnbogum saman og kljúfa strauminn með efsta manni og hafa þann neðri til stuðnings.

Séu menn fjórir skulu efstu menn vera sterkir og stöndugir enda skellur straumurinn á þeim en á móti kemur að þeir þurfa stuðninginn frá þeim sem neðar standa til að vera stöðugir og þannig halda menn góður róli yfir mjög djúp og breið vötn.

Um Hamraskóga í Þórsmörk en mörkin geymir um 170 tegundir háplantna auk fjölmargra mosategunda.

Rómuð er veðursæld Þórsmerkur og talið að jöklarnir þrír sem umkringja hana dragi í sig úrkomu þegar rakir vindar blása sunnar enda er nánast undantekningarlaust sól og blíða í Þórsmörk þegar þjálfarar eru þar...

Komin í Húsadal í sól og blíðu.

29,8 km að baki á 9:04 klst. með 364 m lækkun frá 571 m í Hvanngili upp í 600 m hæð og niður í 206 m hæð.

 

Í heild var því gangan frá Landmannalaugum í Húsadal í Þórsmörk á tveimur dögum 56,7 km á 17:44 klst. upp i 1.073 m hæð með hækkun upp á 475 m og lækkun upp á 392 m en þó í heildina mikið meira til samans hækkanir og lækkanir eða kringum 1.800 m (2.700 m?) hækkun og 2.100 m (3.093 m?) lækkun - hvað segja önnur gps?

Hitt gps þjálfara mældi þetta á 53,3 km, Roar mældi þetta á 54,4 LOG- 53,3 km vistuð leið...

Kletturinn Assa ? sem gnæfir yfir Húsadalssvæðið og heiti potturinn með útisturtunum í grasinu fyrir neðan.

Guðmundur Ólafur var kominn í pottinn þegar síðustu menn skiluðu sér í mörkina en tæpur hálftími skildi á milli fyrstu og síðustu manna þennan dag.

Eitt það fyrsta sem menn gerðu var að fara úr skónum... og svo að fá sér öl eða annan góðan drykk... og svo að fara í pottinn... svo klæðast þægilegum fötum... grilla... borða góða máltíð... og hlæja fram á nótt...
Potturinn var aðeins of volgur en óskaplega notaleg hvíld með ölinu og félögunum sem viðruðu dagana sem á undan voru gengnir enda máttu menn vera sáttir með frammistöðuna... hún var framúrskarandi.
Kvöldmatur með meiru í kvöldsólinni og notalegheitum, dúkum, sallati og servíettum...
Bitarnir á grillinu voru þykkir og góðir og sjaldan eins girnilegir eins og eftir erfið líkamleg átök í fleiri en einn dag á naumhyggjulegu nesti.
Skál fyrir 56,7 km...

Bílstjórinn Páll og sonur hans, Friðrik borðuðu með okkur og hláturinn glumdi um Húsadal ásamt ærslum hestamanna og annarra göngumanna í góða veðrinu þetta kvöld.

Heldur varð svalara með kvöldinu og það leit út fyrir heiðskírt veður daginn eftir með næturkulinu.

Halldóra með einstakri umhyggjusemi sinni breiddi.. hvað hét þetta nú aftur... eitthvurt sjal.. yfir Björgvin sem var orðið kalt og hann sleppti því ekki fyrr en svefnpokinn tók við...

Glaumurinn færðist smám saman inn í hús þegar rökkvaði og var góður fram yfir miðnætti þegar menn gáfu eftir og hentust í rúmið.

Engum hugnaðist að ganga á Valahnúk daginn eftir þó veðrið gæfi tilefni til þess með heiðskíru, logni og hita strax um átta leytið á sunnudagsmorgun, en í staðinn vildu menn fara snemma í bæinn enda búnir að vera frá fjölskyldu og börnum í tæpa þrjá daga og voru þjálfarar sammála þessu.

Við heimferðina varð þó óvænt en frábær viðbót er Stefán Alfreðs (24 tinda fari árið 2007) leiddi okkur um blautan slóða í Nauthúsagili að glæsilegum fossum þess en þarna var hann á kunnugum slóðum enda smalar hann fé um mörkina ár hvert með frændfólki sínu...

Brekkan með kaðlinum niður gilið sem helmingur hópsins fór um.
Komin niður í gilið sem var strax undurfallegt og togaði mann innar.
Lægri fossinn og sólargeislarnir sem stungust niður ofar.

Kaðall á slóðanum utan í veggnum hinum megin og við veltum því fyrir okkur hvort fara skyldi alla leið þegar Alexander tók af skarið og  skellti sér af stað og íris Ósk á eftir og svo hinir... auðvitað skoðum við þetta...

Við sáum ekki eftir því.. þetta var auðveldara en það sýndist og ekkert mál þó flestir væru á sandölum eða léttum skóm en ekki lúnum gönguskónum sem ekki voru girnilegir á þessum sunnudagsmorgni í hitanum.

Fossinn sem innar gafst umkringdur mosagrónum klettaveggjum á alla vegu...

Einstakur staður sem gerði mann hljóðan.

Að hugsa sér að hverja einustu sekúndu allt árið um kring rennur þarna vatn í fossandi þolinmæði og staðfestu... nema það fari í ís yfir veturinn... en... töfrandi staður.

Guðjón Pétur, Hjörleifur, Stefán Alfreðs., Alexander, Guðmundur ólafur, Stefán Jóns., Íris Ósk og svo Friðrik, 11 ára sem var frábær félagi okkar í ferðinni og verður vonandi fjallamaður í framtíðinni, Björgvin, Örn og Bára bak við myndavélina.

 

Hér fikrar Stefán Alfreðs  sig til baka eftir reipinu sem gerði okkur kleift að komast að fossunum...

Við vorum honum mjög þakklát fyrir þessa viðbót við ferðina og fengum að heyra fleiri sögur af spennandi stöðum á svæðinu, m. a. flaki breskrar herflugvélar á skriðjöklinum sem hann hefur heimsótt tvisvar en sá göngutúr tekur heilan dag með ísexi og brodda...

Reynirinn sem frægur er á þessum stað og liggur í rótum utan á berginu og yfir gilið en það þótti hreystimerki að geta farið yfir á Reyninum.

 

Hann er fulltrúi þess Reyni-hríslu-uppvaxtar sem kona okkur á heiðurinn af (vantar nafn) en uppruni Reynihrísla á Íslandi er allur frá henni kominn utan þær hríslur sem koma erlendis frá.

Slökun í grasinu við rútuna í bakaleiðinni þar til allir tíndust til baka úr gilinu en Stefán þurfti svo að skjótast eftir gleraugunum sem hann gleymdi inn frá og var bara notalegt að liggja þarna í hitanum.

Kominn í bæinn kl. 13:00 og sólin í algleymi í bænum líka og allir glaðir að vera komnir heim snemma og geta átt daginn með börnum, fjölskyldu eða bara sjálfum sér í hvíld og frágangi áður en vinnuvikan hæfist.

Þjálfarar óska Laugavegsförum til hamingju með frábæra frammistöðu..

Þetta var virkilega vel af sér vikið!
 

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir