Tindferð 146
Hekla frá jeppaslóðinni á öxlinni
laugardaginn 16. september 2017
 

Hekla sigruð
í roki og rigningu og engu skyggni
á stysta tíma í sögunni... 3 klukkustundum...
en sætt var það engu að síður :-)


Guðmundur Jón, Njáll. Aðalheiður, Arna, Sigga Sig., Steinunn Sn., Helga gestur, Agnar, Gunnar Már, Birgir gestur,
Sigurður gestur, Herdís, Arngrímur, Örn og Jóhann Ísfeld og Moli, Bónó og Batman þarna með og Bára tók mynd

Þrettán Toppfarar og þrír gestir ætluðu í notalega Heklugöngu
laugardaginn 16. september... en lentu í mun verra veðri en spár sögðu til um
... grenjandi rigningu, roki og engu skyggni allan tímann...

Að ganga í slíku veðri var alls ekki ætlun þjálfara né þeirra sem mættu...
veðurspáin var tvísýn þessa helgi en það átti hvorki að vera úrkoma né vindur að ráði þennan dag á þessum slóðum...
Þjálfarar fóru austur í sveitina sína föstudagskvöldið fyrir og þá var mikil veðurblíða og Heklan blasti við og lofaði góðu...

Morguninn eftir var þetta fjallasýnin... nákvæmlega engin... rigningarsuddi og kuldalegt...
og þannig keyrðu menn frá Reykjavík um morguninn og yfir Hellisheiðina...

En þegar ekið var inn að Heklu tók veðrið að batna... sjá Búrfellið skýjað eingöngu niður hálfar hlíðar...
var hann ekki bara að lyfta sér og þetta yrði flottur dagur eins og við ætluðum ?
... skýjað en friðsælt og notalegt ?

Það leit allavega þannig út við afleggjarann að Dómadal þar sem menn mættu úr ýmsum áttum
út bústöðum eða borginni...

Dómadalurinn var flottur... alltaf ævintýri að keyra hann sama hversu oft maður fer hann...

Viðvörunarskilti um eldgosahættuna á Heklu er mjög gott og kom fyrir örfáum árum...

Við ætluðum að keyra eins langt upp eftir og vegurinn nær...
ekki leggja hér eins og áður og ganga inn eftir héðan en sú leið er mjög skemmtileg og þess virði að endurtaka hana reglulega...

Ofar var þokukennt... og erlendir ferðamenn á ferð...
höfðu gist þarna uppi um nóttina og voru ekki lögð af stað inn í daginn...

Það var fé á stjánum í 920 m hæð... smölun var í Jökulgilinu þessa helgi og svo eru eftirleitir...

Við keyrðum upp í 956 m hæð...
slóðinn náði aðeins lengra en þetta var gott bílastæði og við vorum komin dónalega nálægt tindinum
og kunnum ekki við annað en fara að leggja af stað gangandi úr þessu :-)

Slóði frá bílastæðinu og myljandi fín leið...

... en það var þoka... rigning... vindur... þetta var ekki það sem við ætluðum...
ekki það sem við keyrðum í tvo tíma fyrir...

En allir glaðir og ákveðnir í að sigra tindinn þrátt fyrir suddann... þrír gestir með í för og nokkrir nýliðar...
Birgir, Helga og Sigurður voru að mæta í fyrsta sinn með hópnum...

... og stór hluti af hópnum að ganga á Heklu í fyrsta sinn..

Æj, þau áttu ekki skilið að fá svona veður... eins og Hekla er mikið ævintýri í fallegu veðri...

Við gíginn þar sem snjórinn sést vel undir öllum vikrinum...

... var tilvalið að taka hópmynd...

Guðmundur Jón, Njáll. Aðalheiður, Arna, Sigga Sig., Steinunn Sn., Helga gestur, Agnar, Gunnar Már, Birgir gestur,
Sigurður gestur, Herdís, Arngrímur, Örn og Jóhann Ísfeld og Moli, Bónó og Batman þarna með
og Bára tók mynd

Dulúðin sem fylgir því að ganga á Heklu í þoku er töfrandi...

... og vikurinn... hraunið... þessi glænýju jarðefni sem komið hafa úr iðrum hennar...
hafa í sér eitthvurt seiðmagn sem maður skynjar hvergi annars staðar...

Kaflinn yfir nýja hraunið er einfaldlega engum líkur...

Mjög úfið hraun og illfært...

Auðvelt að misstíga sig, detta niður um gjótu... rífa gat á fötin...

Þessi kafli er einstakur bæði í sumarfæri og vetrarfæri...

Fyrir hundana er þetta martraðarkenndur kafli...

Þarna fyrir ofan hópinn heldur stígurinn áfram en var svo óljós að Örn tók hægri beygju
um stíg sem sameinast greinilega þessum frá annarri leið...

Þetta þýddi að við tókum smá krók niður og kringum nýja hraunið...

... yfir nokkra skafla...

Sjá snjóinn undir nýja hrauninu...
hann nær ekki að þiðna að ráði þar sem hraunið og vikurinn heldur honum köldum allt árið um kring...

Skaflarnir voru nokkuð harðir og á mörkunum að maður vildi hafa keðjubroddana með...

En þetta voru stuttir kaflar og hraunið var alltaf mögulegt ef manni leist ekki á hálkuna...

Ofan frá er þessi hraunkafli einstakur að sjá í landslagi Heklu...

Við verðum að koma hérna aftur í betra veðri sem fyrst !

Aðalheiði leið ekki vel þennan dag og ákváð á endanum að snúa við þegar við vorum hálfnuð upp eða svo...
og Arna og  Njáll ákváðu að fylgja henni niður... þetta var í raun tilgangslaust fyrir þá sem voru ekki að ganga á Heklu í fyrsta sinn
og höfðu enga sérstaka löngun til að ná tindinum að sinni...

Hinir 13 örkuðu áfram í versnandi vindi og rigningu sem varð svo slæmt að þjálfari kallaði á fund á miðri leið til að meta
ástand á mönnum og hvort menn væru blautir eða kaldir því það var ekki skynsamlegt að ganga ofar í þetta mikilli hæð
og þessu veðri ef einhver var tæpur... en allir voru eldhressir.. og uppskáru þennan tind hér...
þann hæsta á Heklu í 1.493 m... það var ansi sætt eftir barninginn :-)

Niðurleiðin var rösklega farin og aftari þjálfarinn leyfði engum að dragast aftur úr...
hér skyldi haldið hópinn alla leið og ekkert múður :-)

Þjálfari fann þetta hjarta handa Katrínu Kjartans sem situr heima með laskað hné eftir liðþófaaðgerð
í síðasta mánuði... ef vel er að gáð má sjá samúðarfullt andlit á hjartanu...

Hundarnir þoldu leiðina um nýjasta hraunið mjög illa og Bónó fór í fangið á eigendum sínum síðari hlutann niður...

Batman dróst aftur úr og hélt ekki í við hópinn á kafla... eitthvað sem við höfum aldrei séð áður... svo sáum við blæðinguna úr loppunum...
elsku skinnin... hundar þurfa bólstrun á þófana sína til að ganga á Heklu...

Eftir hraunið þustum við nánast niður stíginn að bílunum...
og vorum ótrúlega fljót niður...

Veðrið versnaði ef eitthvað var... og skyggni var ekkert....

Litirnir í hrauninu voru mjög fallegir... myndavélin nær ekki litadýrðinni á þessu grjóti...
en það er fallegt andlit á grjótinu... og fýlt andlit líka...

Komin niður eftir 8 km á 3 klukkustundum... stysta tindferðin í sögunni hvað tímalengd varðar... en þó ekki vegalengd...
allir rennanri blautir meira og minna... nestið snætt standandi við bílana... farið í þurr för og gantast yfir öllu saman...
ekki annað hægt í stöðunni... vonandi koma gestirnir sem mættu aftur... í skárra veðri ! :-)

Akstursleiðin ævintýri líkast niður af Heklu aftur...
sjá Skjólkvíahraunið frá 1947 hér vinstra megin...

Formfegurð... áferðir... litir... samsetning...
allir hönnuðir ættu að ganga á fjöll til að fá hugljómun við vinnuna sína...

Alls 8,0 km á 3:02 - 3:04 klst. upp í 1.493 m með alls hækkun upp á x m miðað við 956 m upphafshæð.

Gula slóðin gangan okkar og rauða hefðbundin ganga á Heklu frá Skjólkvíum...

Sjá nær krókinn sem við tókum um neðri slóðann sem sniðgengur nýja hraunið
þar sem við sáum ekki slóðann gegnum það efst...

Gangan okkar sú gula í samhengi við fyrri Heklugöngur
þar sem sú bláa er Næfurholtsgangan en í henni vorum við 16 km og 16 km niður eða 32 km alls !...
og sú rauð frá Skjólkvíum...

Sést vel hvílík afreksganga Næfurholtsgangan var og hversu stutt og tilvalin Heklugangan er
sem við fórum þennan dag fyrir alla... bara í aaaaaðeins betra veðri :-)

NB það voru teknir færri myndir í þessari tindferð en á þriðjudagsæfingu vikuna á undan um Laufskörð og Móskarðshnúka...
sem segir allt um veðrið á Heklu þennan dag...
...og fegurðina sem hægt er að upplifa á þriðjudagskveldi :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir