Tindferð 137
Kleifarvatn hringinn í kring
laugardaginn 21. janúar 2017
 

Kringum kleifarvatn
í roki allan tímann og rigningu mestan partinn
með hryggð í hjarta, augun opin
og hugann hjá leitarfólki sem vinnur við erfiðar aðstæður þessa helgina

Sjö Toppfarar gengu hringinn í kringum Kleifarvatn...
laugardaginn 21. janúar í grenjandi rigningu meira og minna og hávaðaroki...
en hlýju veðri... ef þrjár gráður teljast slíkt... og sumarfæri...
þar sem farið var með ströndum, stöpum, hlíðum og klettum vatnsins allan hringinn...

Veðurspáin var ekki góð og lagaðist ekki fram að ferð um morguninn...

... rok og rigning meira og minna allan daginn...

... en þó þurrara frá hádeginu... sem átti ekki eftir að rætast...

Þetta leit illa út þegar ekið var frá Ásvallauginni í Hafnarfirði kl. níu um morguninn...
óvenjulegur brottfarartími... förum nánast alltaf kl. átta... eða sjö ef langur akstur eða mjög löng ganga
og einstaka sinnum sex ef akstur er upp á hálendið í dagsgöngunum...

En veðrið var sæmilegt við bílana þegar lagt var af stað kl. 9:27...
þá talsverður vindur en úrkomulaust, fremur hlýtt miðað við janúar
og farið að birta af degi svo fimm af sjö slepptu höfuðljósunum...

Gengið var með strandlengjunni og sneitt meira að segja meðfram Lambhaga sem átti að vera einn af þremur til sex höfðum/stöpum sem ætlunin var að ná að ganga á þessa leið... en þarna var sleginn tónninn... við vorum fljót að komast á þá skoðun að sniðganga allar brekkur og höfða eins og hægt var og halda okkur á ein einfaldri leið og hægt var í þessu slagviðri...

Hörku öldugangur norðan megin í sunnanáttinni... einhverjir sérstakir töfrar einkenna Kleifarvatn...
einhver sjálfstæður kraftur og dulúð...

Þetta lofaði góðu til að byrja með...
og þó það kæmu skúrir þá vöruðu þeir stutt til að byrja með og við vorum himinlifandi að hafa ekki gefið eftir og drifið okkur út...

Talsvert mikið vatn í vatninu... og því náðum við ekki að sneiða með höfðunum að austan...

... heldur þurftum að klífa upp brekkurnar ofan við vatnið og einfalda leiðina fram eftir annesjum...

Það var svo sem ágætt...
að ná einhverri hækkun og smá brölti því láglendisganga er ansi einhæf
og ekki góð fyrir líkamann lílómetrunum saman eins og við höfum oft fundið á eigin skinni...

Sjá hvernig vatnið nær vel upp að hlíðunum svo ekki var möguleiki að ganga fjörurnar austan megin nema að hluta...

Sumarfæri... mjúkt og drullugt... og skaflarnir mjúkir en þetta var sá eini þennan dag...

Við fengum ágætis skjól að hluta austan megin en uppi kom rokið
og því héldum við niður þegar við sáum fyrir endann á fjöruleysinu...

... en það var greinilega hægt að flækja fyrir sér smá lækkun niður að vatninu aftur...
með þvælingi niður grýtta, hálf frosna brekkuna með blautu drulluna ofan á svo við urðum ansi skítug sum
sem þurftum að styðja okkur með höndunum og duttum á afturendann...

Snjóföl á köflum og enn einu sinni greinilegt hvernig veturinn er harðari á austurströnd Kleifarvatns en vesturströnd...

Litið til baka... þetta sóttist ótrúlega vel enda eingöngu sjö manns á ferð og veðrið bauð ekki upp á myndatökur eða dól...

Fullt af fallegum sjónarhornum engu að síður...
en það var flókið að taka myndir í þessum sudda og því voru eingöngu rúmar 70 myndir úr ferðinni...

Sjá hraunbreiðuna sem eitt sinn rann út í vatnið...

Gott að komast aftur niður úr rokinu... við vorum orðin svöng og áðum í hrauninu þarna í smá skjóli fyrir hraundranga...
tók enga mynd í kuldanum... þetta var hráslagi eins og hann er verstur í nestistíma og sumir settust ekki einu sinni niður í bleytunni...

Okkur kólnaði fljótt í nestistimanum og það var gott að strauja aftur af stað...
ágætis kafla á veginum sem liggur bak við Geithöfða með styttingum ef hentaði...

Við suðurendann tókum við aðalhópmynd dagsins með vatnið í baksýn... búin með leiðina austan megin... vinstra megin... og framundan að fara vesturströndina en hún var léttari enda akstursleiðin þeim megin og möguleiki að láta ná í okkur ef við værum orðin of blaut eða hrakin...

Örn, Kolbrún Ýr, Erna, Guðmundur Jón, Svavar, Sarah og Bára tók mynd og Batman passaði okkur.

Þarna vorum við hálfnuð og þjálfari tók myndband:
 

Niður gengum við á veginum að sumarhúsabyggðinni í suðausturhorninu...

... slaufuðum framhjá veginum til að stytta niður lungamjúkan mosann...

... og svo eftir veginum þar með og allt til enda þennan dag...

Þyrlan leitaði um allt vatnið á þessum kafla og við vorum hrygg...
lögreglan keyrði veginn og við sáum björgunarsveitarfólk leita í hrauninu öllu að Hafnarfirði þegar við keyrðum heim í lok dags...

Við mændum í allar áttir og reyndum að sjá einhver verksummerki um grunsamlegar mannaferðir síðustu viku...

Sveifluhálsinn eins og í apríl... það voru lítil merki um veturinn þennan dag nema stuttur dagsbirtutími
en það munar ótrúlega um lok janúar og byrjun janúar hvað það varðar...

Rétt áður en við skiluðum okkur í bílana blasti þetta við á veginum... líklega æfingaleið hafnfirskra hjólamanna?
Ekki er þetta Bláalónsþrautin því hún fer um Vigdísarvallaveg...

Veðrið versnaði síðasta kaflann og þá lamdi rigningin og rokið á okkur svo það rann af manni bleytan...
við hefðum ekki viljað eiga þá eftir að ganga marga kílómetra... flestir orðnir blautir á fótum en efri hlutinn slapp nokkuð vel...

Þetta var alvöru búnaðarprófun þar sem lexíurnar voru meðal annars þær að tvöfalt sett af ullarvettllingum er nauðsynlegt í svona veðri... og belgvettlingar/hlífðarvettlingar utan um.... góð hlífðarföt... legghlífar ofan á skónum og undir buxunum, ull innst sem yzt að ofan og neðan og ullar-göngusokkar... maður er fljótur að vera kaldur og hrakinn um leið og maður blotnar inn að beini...

Sarah í heimaprjónaðri peysu sem hún var nýbúin að klára
og þurr undir jakkanum sem er líklegast einn sá vatnsheldasti í klúbbnum - vantar nafnið á honum !

Hundblautur... já, það sást vel hvernig það er þennan dag...
atman augljóslega búinn að fá nóg og langaði bara heim...

Blaut inn að beini og hrakin en alsæl lukum við þessari hörkuhringleið upp á 16,5 km á 4:37 - 4:44 klst. upp í 262 m hæð hæst í Vatnshlíðarbrekkunum austan megin með alls hækkun upp á 353 m miðað við 144 m upphafshæð.

Farið var eins mikið og hægt var meðfram ströndum vatnsins en sækja þurfti upp í brekkurnar austan megin
þar sem vatnið náði upp í klettana og vegna veðurs gengum við veginn til baka vestan megin
í stað þess að fara ströndina og upp og niður höfðana eins og var ætlunin.

Vel af sér vikið og frábær útivera þrátt fyrir sorgina í hjartanu
og erfitt veðrið sem við gátum ekki vorkennt okkur með í samanburði við leitarmenn
sem nú leita við nákvæmlega þessar aðstæður um helgina
á stóru svæðium í 2 klst aksturs-radíus frá Hafnarfirði.
Guð veri með fjölskyldu Birnu og leitarfólki.

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir