Tindferð 129
Sveinsgnípa og Sveinstindur í Öræfajökli Vatnajökuls
laugardaginn 7. maí 2016
 

Upp á þak landsins
um Sveinsgnípu og Sveinstind
í Öræfajökli
í mergjuðu veðri, útsýni, skyggni og félagsskap
og friðsælum fuglasöng í rúmlega tvö þúsund metra hárri blíðunni


Á uppleið með Veðurárdalsfjöllin öll, Þverártindsegg ogJjökulsárlón þarna niðri...

Jöklaferð ársins var krefjandi, löng og ströng...
upp á Sveinsgnípu og Sveinstind sem rísa á öskjubarmi Öræfajökuls...
þar sem gengið var nánast við sjávarmál frá Kvískerjum...
um leið sem kom okkur öllum verulega á óvart sakir hrikaleiks...
með fallandi skriðjöklana á beggja bóga og allt í kring...
glænýjum sjónarhornum á hæstu tinda landsins sem varða Hnúkinn sjálfan...
og dauðadjúpum sprungum sem alls staðar blöstu við nær og fjær...
og þrætt var framhjá... og yfir eins og aðstæður leyfðu...
bókstaflega með Suðurlandið allt þarna niðri og Jökulsárlónið að renna út í sjó...
og okkur þarna uppi í algeru logni og eiginlega stofuhita að manni fannst...
... meira að segja fuglasöng í allri þessari tvöþúsund metra hárri blíðunni...

Hnúkurinn sýndi okkur alveg nýja hlið á sér...
og Sveinsgnípa komst í uppáhaldið...
en Sveinstindur var í enn verra ásigkomulagi en fyrir tveimur árum...
og leyfði okkur bara rétt mæna á sinn hæsta tind 22 metrum neðan við hann eða svo
sakir klakabundinnar fjallseggjar sem var læst í klóm jökulsprungna öðru megin og hífandi hengiflugsins hinum megin...
en sigurinn var engu að síður sætur í 2.022 m hæð
þar sem Njóla, Sarah og Kolbrýn Ýr slógu hæðarmetið sitt...

Niðurleiðin var engu síðri um þennan tignlarlega fjallakrans Vatnajökuls sem varðar suðurlandið allt...
þar sem þrætt var niður undir Sveinsgnípu...
með hrikalegar jökulbrúnirnar gapandi við okkur á hægri hönd...
og fallandi skriðjökulinn á þeirri vinstri...
í hliðarhalla, bratta og mjög klakakenndu færi á köflum...
sem reif hressilega í þar sem risavaxnar sprungurnar biðu neðan við okkur...

Ótrúleg blíða í þessari ferð þrátt fyrir svalan vind á köflum í byrjun göngunnar
og tvístígandi skýin sem aldrei gátu ákveðið sig almennilega...
og kreistu út friðsæla snjódrífu í nokkrar mínútur þegar farið var úr línunum...
... og jú tóku af okkur hreint útsýnið ofan af Sveinstindi...
en það var eina alvöru "loftið" sem var í þeim
því þau enduðu á að leyfa sólarblíðunni og logninu að ráða að mestu...

Ævintýri líkast var þessi ferð eins og aðrar jöklaferðir... sem bókstaflega aldrei bregðast
og gefa okkur í hvert sinn einhverja alveg einstaka, kristaltæra upplifun...
... kannski af því... að ganga um hæstu tinda landsins... á stærsta jökli Evrópu...
 gefur manni snert af einhverjum óútskýranlegum náttúrukrafti sem hvergi fæst annars staðar á landinu...

Menn komu sér austur í öræfi á föstudeginum...
þjálfarar síðastir á staðinn vegna fótboltaleiks yngsta sonarins sem varð Reykjavíkurmeistari í kjölfarið...
leiðsögumenn mættir stuttu síðar til að fara yfir ferðina, afhenda jöklabúnað
og ákveða tímasetningu morgundagsins sem var kl. 5:00 frá fjallsrótum sem þýddi brottför kl. 4:30 frá Skaftafelli...

Allir gistu í svefnpokagistingunni í Svínafelli nema þjálfarar sem prófuðu nýja notaða tjaldvagninn sinn
og höfðinginn sjálfur sem vílaði ekki fyrir sér að vera í litlu göngutjaldi í vorhúminu...
Dásamlegt að sofa í þessu fallega veðri með jarmandi lömb og ilminn af vori í hverju andartaki...

Daginn eftir var heiðskírt og jökullinn logaði...
Dyrhamarinn þarna uppitrónandi á Hvannadalshrygg neðan við hnúkinn...
verkefni Toppfara í 10 ára afmælisjöklaferðinni 2017...

Keyrt var austur frá Skaftafelli að bænum Kvískerjum...
og það var mun kaldara þar en á tjaldstæðinu í Skaftafelli svo menn bættu á sig fötum eftir botnlausa jakvæðnina
við upprisuna... hlífðarbuxur utan um gammósíurnar frekar en göngubuxurnar...

Lagt var af stað nítján mínútum síðar en áætlun sagði en allar svona tafir safnast upp og skipta máli í lok dags...

Dásamlegt veður, bjart en svalur vindur...
Snörp hækkun í upphafi um lækjarsprænur, kjarr, hjalla og skriður...

... og svo mosann góða þar sem snjórinn lá ofar...

Haldið var þétt áfram og tekið hlé á klukkustundarfresti eða svo...

Við nutum lífsins... dásamlegt veður og bjart yfir öllu... þetta lofaði góðu...

Útsýnið til austurs að jökulsárlónu var magnað...

Við stefnum hins vegar á jökulinn og þurftum að finna bestu leiðina að honum...

Fjöllin í Kálfafellsdal... Þverártindsegg vinkaði... Veðurárdalsfjöll eru spennandi verkefni framtíðarinnar...
og svo eigum við alltaf eftir Birnudalstind... og vá, Snæfell sunnan Vatnajökuls... hann verðum við að ganga á einn daginn
þó það þýði eingöngu tveir á hvern leiðsögumann og dýra ferð...

Þrír leiðsögumenn með í þessari ferð... Jón Heiðar, Róbert og ... sem hefur aldrei gengið með okkur áður...

Hörkulið á ferð... Kári Rúnar, Örn, Sarah, Doddi, Ingi, Jóhann Ísfeld, Gunnar og Jón Heiðar...

Landslagið var stórskorið frá byrjun ferðarinnar og hér gengum við í hliðarhalla inn dalinn...

Stuðlabergið sláandi fallegt og ísinn lekandi út úr því...

Færið heldur þungt... og sporin fljótlega erfið í djúpum snjónum...

Það reyndi vel á undirbúning hvers og eins í þessari ferð því þetta var erfiður og langur dagur...

Nestispása og rötunarpása leiðsögumanna...

Þeir skoðuðu kortin og spáðu í hvort þeir ættu að fara upp hjallana framundan
eða sneiða framhjá þeim og fara vestar út frá hæðarlínum og öryggi hópsins í heild...

Völdu að fara hliðarhallann inn að vestan og sniðganga klettana ofar...

Færið mjög erfitt og það mæddi mikið á fremsta manni, honum xxx

... svo loksins leyfði hann okkur að skiptast á að troða...

... sem var eins gott...

... þetta var mjög erfitt fyrir fremstu menn og léttast fyrir okkur sem vorum aftast...

Menn prófuðu fleiri en eina leið...

... en á endanum var best að gera einn slóða og allir kæmu í hann...

Loksins komin upp og þar blasti við okkur glæsileg sjón...

Gilið sem við komum austan megin upp með...

... og framundan Hvapparnir báðir, Eystri og Vestari...

Og þá tvíefldust allir... þangað upp á öskjubrún ætluðum við og vorum hvergi bangin...

En gott að fá sér smá nesti fyrst...

... og völdum skjól neðar í brekkunni... gjólan var ísköld...

Svo var haldið áfram upp snjóbrekkurnar...

Færið heldur skárra ofar en brekkan löng og aflíðandi...

... og leyndi á sér...

Litið til baka.. ótrúlega fallegt...

Sólin leit við öðru hvoru og þá snarhitnaði strax...

Á þessum kafla hitnaði okkur í skjólinu sem af jöklinum stafaði... við vorum að komast að jöklalínu...

... og þá kom í ljós að Björn hafði gleymt göngubeltinu sínu í bílnum...
svo Jón Heiðar græjaði öryggisbelti með aukalínu sem hann var með... þeir voru við öllu búnir...

Allir í línu hér... þrjár línur og mikið gantast með nöfnin á þeim... þessi ferðasaga er skrifuð nokkrum mánuðum eftir þessar ferð því miður svo ritari man ekki lengur eftir nöfnunum nema þessari grænu sem var Framsóknarlínan :-)

Bjart og fallegt framundan og stemningin var löðrandi góð á þessum kafla...

Fíflast út í eitt og pólitíkin fékk engan grið...

Færið miklu betra enda svalara ofar og við stefndum á þessa hvítu þungu þarna...

Smátt og smátt kom jökullinn í ljós á hægri hönd að austan...
óhunganlega sprunginn og hrikalegur að sjá...

Hópurinn þéttur og veðrið lék við okkur...

Útsýnið batnaði með hverjum hæðarmetranum upp á við...

Við vorum himinlifandi með að vera nákvæmlega þarna á þessari stundu...

Jón Heiðar fór fremstur, svo xxx og loks Róbert...

Hvílíkt útsýni... við eigum eftir að bæta einhverjum af þessum tindum í safnið síðar...

Sveinsgnípa framundan saklaus að sjá úr fjarlægð...

Farið þétt upp hér og haldið vel áfram...

Sprunginn að sjá og sprungur um allt á beggja bóga... það var eins gott að vera í línum...

Hnapparnir minntu aftur á sig...

Suðurströnd landsins þarna niðri...

Sjá sprungurnar á leið að Hnöppunum...

Nestispása... knappar en dýrmætar...
reynt að fara eins vel með tímann og hægt var en erfitt í þetta stórum hópi...

Voru þetta Sveinsgnípa og Sveinstindur að stingast upp úr landslaginu?

Nei, báðir þessir fyrri voru Sveinsgnípuhryggurinn allur... þarna var Sveinstindur hægra megin...

Hrikalega flottur hérna megin og hengiflug niður hann að austan...

Sveinsgnípa vinstra megin virtist hærri en Sveinstindur hægra megin því hún var nær...

Brátt komu dauðadjúpar sprungur hennar í ljós...

... og brattar brúnirnar niður að skriðjöklinum neðan við okkur...

... þar sem sprungurnar öskruðu ógnvænlega...

Jón Heiðar valdi leið á milli hnúka Sveinsgnípu sem var alls ekki sjálfsagt að væri fær...
 en mun fljótlegri en að fara sunnan megin við báða hnúkana..

Sjá sprungurnar skerast niður með brekkunum vinstra megin...

Hrikalegt landslag í kringum okkur... það var gott að vera með vana fjallaleiðsögumenn í forsvari...

Komin á milli hnúkana í Sveinsgnípu...

Gott leiðarval... gengið þvert yfir sprungurnar...
 Heiðar vanur og þjálfaður í leiðarval gegnum sprungusvæði á jökli...

Eina af stærri sprungunum sem urðu á vegi okkar þessa leið... hér var að hoppa yfir... sjá hægra megin neðst á mynd...

Leiðin áfram líka sprungin og allir áttu að halda bilinu vel og halda vel áfram...

Kyngimagnað umhverfi sem engan veginn næst á mynd...

Hnapparnir þarna í fjarska... við ætlum að ganga á þann Vestari árið 2018 í svipaðir jöklaferð og þessari...
en þá er keyrt upp heiðina langleiðina sem styttir aðkomuna heilmikið...

Kolsprungin Sveinsgnípan...

Línurnar þrjár hlykkjuðust upp víðsjárverða leiðina...

... og reglulega var kallað "sprunga"... "fara varlega"...  "halda línunni"... "ekki stoppa"...

Litið til baka á síðustu línuna koma upp á milli hnúkanna...
töfrandi landslag sem hvergi fæst nema í þessum jöklaferðum...
Sprunga þarna hægra megin...

Fjöllin lengst þarna niðri og svo suðurströnd landsins... alveg magnað útsýni...

Sveinstindur þarna hægra megin...

Við gengum nú eftir hrygg Sveinsgnípunnar sjálfrar...

... tindurinn í augsýn og Sveinstindur í sigtinu hægra megin...

Tilfinningin sæt og allir glaðir...

Lítil pláss þarna uppi og vandræði að koma öllum fyrir...

Græna línan í miðjunni og nauðsynlegt að rugla ekki reipunum saman...

Fyrsta línan byrjuð að borða og sú síðasta enn á leiðinni á tindinn...

Sjá fjallsárlón þarna niðri vinstra megin... skriðjökullinn lekandi niður úr jöklinum og svo lónið í framhaldi...
það á víst að ferðamannagera þetta lón meira en nú er gert...
harla fáir fara þarna um eins og er en það fer stórum fjölgandi...

Tekin hringleiðarmyndir á tindinum... nú suðvestar...

... vestar...

hávestur...

...norðvestur að Hvannadalshnúk sem gaf okkur alveg nýja sýn á sig...

... og loks Sveinstindurinn sjálfur sem við stefndum líka á...
sem við gengum á fyrir tveimur árum síðan í þoku yfir stórhættulegar sprungur
þar sem Hjölli féll hálfur ofan í og olli erfiðri upplifun í þeirri línu...

... og komin hringinn.. snarbratt niður af nestisstaðnum...
við sáum einfaldlega á brúninni og brattinn þéttur niður hinum megin...

Eftir góða pásu var haldið niður af Sveinsgnípu áleiðis á Sveinstind með Hvannadalshnúk að fylgjast með handan öskjunnar...

Sprungur um allt og nauðsynlegt að fara í einni línu þarna niður...

Sjá sprungurnar og brattann...

Háskýjað þennan dag... efsti hluti hnúksins nánast sjónfær...

Þungt færi en öruggt... þetta hefði verið vandmeðfarnara í miklu harðfenni...

Sveinsgnípa... þarna uppi vorum við... þessi tindur komst í uppáhaldið eftir þessa ferð...
vanmetinn tindur og líklegast skemmtilegri en Sveinstindur þó smærri sé...

Já, djúp sporin á þessum kafla og meira en að segja það að vera fremstu menn...

Við börðumst áfram á orkunni sem gefst alltaf síðustu metrana upp...
... enda vel nærð og þá fer andinn alltaf á flug... takið einmitt eftir því í svona ferðum...
þegar menn verða óvenju þögulir... þá er það oft einhvers lags vanlíðan eins og örþreyta, ofþornun, sykurskortur, ofkæling...
ef menn spjalla og hlæja þá er orkubúskapur og næringarjafnvægi í lagi...

Gengum upp í þokuna á Sveinstindi...

Bratt en greiðfært... fyrstu menn ráða ráðum sínum...

Litið til baka... sjá síðustu línuna þarna í þokunni...

Kolsprunginn Sveinstindur... leiðsögumenn fóru könnunarleiðangur fyrst...

... og mátu aðstæður þeir Róbert og xxx...

Stórar sprungur langsum eftir gönguleiðinni... stórar og djúpar... á vinstri hönd vestan megin
 og algert hengiflug hundruðum metra niður hægra megin að austan...

Við hin hvíldum okkur í kæruleysi á meðan...

Þeir sneru við án þess að fara alla leið á tindinn...

Aðstæður ekki göngufærar að sinni var niðurstaða leiðsögumanna því miður...

... en hægt að fara nokkurn veginn alla leið...

... og við enduðum á að gera það öll...

... þó nokkrir hefðu sigrað þennan tind í 3ja tinda ferðinni miklu tveimur árum síðar...

Hópmynd á næstum því tindinum...

Hvílíkir snillingar þessir Toppfarar... þið eruð æði elskurnar ! :-)

Ingi, Njóla, Doddi, Ingi, Sarah, Kolbrún Ýr, Guðmundur Víðir, Kári Rúnar, Gunnar, Örn, Ósk Sig., Björn Matt., Ástríður og Bára.

... fagnað með ljósmyndum og ísöxum...

Njóla, Sarah og Kolbrýn Ýr að toppa hæðarmetrana í lífi sínu... synd að ná ekki alveg þessum tindi... en samt svo dýrmætt að finna hversu sjálfsagt þetta er ekki... lærdómurinn í svona ferðum kennir manni að vera þakklátur með jöklaferðir þar sem allt gengur eins og í sögu...

Brátt þynntist þokan...

... út í ekki neitt... og þá fékk þjálfari þá hugmynd að taka hópmynd á staðnum...

Doddi, Njóla, Ósk, Ástríður, Kári Rúnar, xxx, Gunnar Viðar, Bára, Ingi, Jóhann Ísfeld,
Jóna Heiðar, Örn, Sarah, Kolbrún Ýr, Guðmundur Víðir, Björn Matt en Róbert tók mynd...

... og bætti svo annarri við með hann á myndinni auðvitað ! :-)

Þá var að koma sér til baka...

... alla þessa leið sem var að baki... það var meira en að segja það...

Vá hvað þetta var fallegur tindur samt þessi Sveinn...

... og Sveinsgnípa maður... hún má alveg fá sama sess og Sveinstindur...
og ætti alls ekki að heita Sveins-eitthvað... það gerir lítið úr þessum tindi að gefa í skyn að hann sé einhver hali á Sveinstindi... :-)

Við gengum ekki eftir henni til baka heldur sniðgengum hana neðan frá...

... sem var ægifögur leið en ógnvekjandi...

Kolsprunginn tindurinn á hægri hönd... smá snjóhjalli fyrir okkur í 30 % halla eða svo...
og svo snarbratt á vinstri hönd niður á skriðjökulinn sem öskraði af sprungum...

... við máttum okkar ansi lítið í þessu stóra samhengi...
vorum eins og aðskotamaurar að þvælast þar sem þeir eiga ekki heima...

... og hefðum vel getað verið gleypt með húð og hári...

Til að byrja með var þetta fínasta leið í mjúkum, öruggum snjónum...

... en síðasta línan fór efri leiðina...

... og það var vel valið hjá Róberti...

... því við vorum fljótlega komin í vandræði í hliðarhallanum og hálkunni...

... svo tæpt á kafla að litlu mátti muna að við rynnum af stað...

Sést ágætlega hér en samt ekki brattinn því þarna erum við aftur komin á öruggt svæði...
þetta var það varasamt að engin mynd var tekin á þessum slæma kafla...

Úff, það var gott að komast úr brattanum og hálkunni...

...aftasti hópur kominn fremstur sem var vel þar sem þau höfðu rekið lestina alla uppgönguleiðina...

Allir himinlifandi með jökulævintýri ársins...

Njóla og Sarah með Hnappana á milli sín... verða þær með í ferðinni 2018 ?

Orkupása fyrir síðasta kaflann...

... sem átti eftir að reyna verulega á eftir átökin á leið upp...

Við vorum ennþá í kolsprungnu landslagi...

Sjá íshelluna stingast upp úr brúninni þarna fyrir vestan...

Áfram var skautað niður eftir...

... að brekkunni þar sem við fórum í línurnar...

... þokan slæddist hér inn á kafla og það dimmdi yfir...

Við fórum loksins úr línunum...

...og þá spruttu menn úr spori eins og kýrnar á vorin :-)

... og renndu sér niður heilu brekkurnar...

Vá hvað þetta var gaman !

Einhver heilun við að renna svona niður snjóbrekkur... eins og líkaminn orkuhlaði sig upp á nýtt...

Svo var það bara hliðarhallinn að snjóbungunum...

Þetta var snjóþunga brekkan sem var enn dýpri á leið niður...

Veðrið óskaplega fallegt...

... það var tekið að húma að...

Sólin farin að lækka sig og geislarnir undurfagrir...

Þung færið hjálpaði ekki til að drífa sig niður í grillið...

... sérstaklega ekki þegar þar varð svona þungt ! :-)

Dýrmætt spjall og samvera á stundum sem þessum...

... lognið, kyrrðin og hlýjan sem fylgdi láglendinu mætti okkur smátt og smátt...

... og við nutum þess að koma okkur úr snjóklóm jökulsins niður í mosann og grjótið...

... í kvöldsólinni sem sló töfrum sínum um allt...

Hér gaf seinni myndavél þjálfara sig... og því eru engar myndir til að síðasta kaflanum um grjótbrekkuna þar sem við komum almennt of snemma niður af... þar hefði þurft að halda betur utan um hópinn því menn voru að þvælast of snemma niður og lenda í hrakningum einhverjir en við síðustu menn enduðum á að finna slóðina frá því um morguninn með aukakrók til vesturs og skila okkur loksins niður til hinna en fyrst menn biðu í meira en hálftíma eftir

Alls 26,5 km (beint niður brúnirnar) til 27,7 km (niður slóðina) á 14:30 klst. fyrstu menn - 15:15 klst. þeir síðustu
upp í 1.928 m á Sveinsgnípu og 2.022 m hæð á Sveinstindi (er 2.044 m)
með alls hækkun upp á 2.296 m miðað við 27 m upphafshæð.

Bjórinn kaldur, kjötið heitt og stemningin dúndurgóð...

Skál fyrir magnaðri göngu enn og aftur... þessar jöklagöngur eru algert æði !

Hrikalega flottur hópur... pant fara með ykkur öllum aftur ár eftir ár elskurnar :-)

Sólin skein í heiði og vorið geislaði morguninn eftir...
það voru sáttir göngumenn sem skiluðu sér til borgarinnar eftir þessa helgi... vá hvað þetta var flott ferð !

Ein lengsta og erfiðasta gangan í sögunni... hvílíkt afrek... og það með höfðingja klúbbsins, hann Björn Matthíasson,
 enn og aftur með í för í dúndurformi... hvernig það er honum mögulegt er manni eiginlega óskiljanlegt !
Hjartansþakkir og knús elskurnar fyrir alveg hreint mergjaða ferð :-)

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir