Tindferð 101
Þrettán tinda ganga um Sveifluháls syðri laugardaginn 11. janúar 2014
 


Sólrisuganga á Sveifluhálsi syðri
um ótal tinda þar sem þrettán kröfðust nafngiftar
*Ketilstindur *Bleiktindur *Kleifartindur *Arnartindur *Seltúnstindur *Hattur *Hetta *Krýsuvíkurtindur *Rauðhólstindur *Bleikingstindur *Drumbur * Sveifluhálstagl syðra
og *Krýsuvíkurmælifell

...í töfrandi fegurð, logni, sól og félagsskap í hæsta gæðaflokki...

Nýársganga ársins 2014 var um syðri og sjaldfarnari hluta Sveifluhálss þar sem gengið var eftir tindaröðinni allri til suðurs í ferskum, nýföllnum snjó, logni og lágri vetrarsól sem reis og hneig í fangi okkar við sjávarröndina í suðri og lýsti okkur leið um frosin vötn og rjúkandi jarðhita... í stöðugum hækkunum og lækkunum...sem gáfu okkur hörkufjallgönguþjálfun fyrir spennandi verkefni ársins og skilaði okkur ansi lúnum við suðurstrandaveg í mánalýstum ljósaskiptunum eftir 14,2 km á 8:11 klst...

Lagt var af stað kl. 8:50 eftir dynjandi snjókomu á akstursleiðinni í myrkrinu... snjókomu sem skyndilega hætti jafnhratt og hún byrjaði... rétt áður en komið var að bílastæðinu og var í algerri mótsögn við stjörnum prýddan himininn sem tók á móti okkur þarna í myrkrinu við suðvesturenda Kleifarvatns undir Miðdegishnúk á Sveifluhálsinum miðjum...

En það var ekki alveg myrkur.... í austri barst óskaplega falleg og kærkomin skíma af morgni...
þar sem sólin var greinilega farin að skína fram á veg sinn þó enn væru 2 klukkustundir og tíu mínútur í sólarupprás...

Miklu meiri birta þarna í óbyggðunum en í borginni þar sem engin borgarljós menguðu hina náttúrulegu birtu
(og stytta almennt dagsbirtuna enn meira fyrir okkur borgarbörnunum)...

... og því slökktum við á höfuðljósunum í fyrstu brekkunni og gengum í náttúrulegri birtunni
sem af snjónum, stjörnum og morgunskímunni skafaði...

Útsýnið og skyggnið magnað í ljósaskiptunum og fyrsti tindurinn, Ketilstindur var í höfn í 322 m hæð...

Feginleikurinn með algert lognið og heiðskíran himininn var yfirþyrmandi á köflum....

... því landslagið var kyngimagnað...

... og átti ekki annað skilið er sjást af okkur gestum Sveifluhálssins sem fótuðu sig eftir hryggnum eins og færi gafst...

... með myndavélarnar á lofti í allar áttir...

... hvílíkur staður til að vera á í morgunskímunni í þessu mesta skammdegi ársins...

Þessi ómótstæðilega fegurð í vetrargöngunum sem veldur að menn halda mest upp á þennan árstíma á fjöllum
 fór ekki á milli mála þennan dag...

Fyrsta hópmyndin var tekin á öðrum tindi dagsins, Bleiktindi í 339 m hæð með þann þriðja í baksýn...
í vímunni yfir þessari töfrandi birtu sem augun námu vel af sinni stöku snilld...
en myndavélin átti erfitt með að festa á filmu...

Hún náði þessu svona ef flassið var notað...

... en augun sáu þetta allt miklu betur og þessir fyrstu tveir klukkutímar voru baðaðir
magnaðri morgunbirtunni þó engar myndir geti sýnt það...

Örn fararstjóri skellti sér upp á tind númer þrjú sem var ansi tignarlegur en heldur óárennilegur...
 til að kanna göngufærið þar upp meðan við dóluðum okkur á hrygg Bleiktinds...
og komst að því að hann var vel fær fyrir hópinn...
Við nefndum hann  Kleifartind í stíl við Kleifarvatnið sjálft... og mældist hann 349 m hár...

Þaðan tók hann þessa mynd niður á göngumennina að týnast niður af Bleiktindi...

...með fyrsta hluta Sveifluhálshryggjarins sem nú var að baki...

Það birti til með hverju skrefinu...

... og við vorum ekki lengi að koma okkur líka þarna upp...

... í besta færi sem hugsast gat...

... nýföllnum ferskum snjónum sem kyngt hafði niður kvöldinu áður
alveg eins og í síðustu ferð okkar á Sveifluhálsinn þann 3. febrúar 2013...

Smám saman opnaðist veisluborð dagsins fyrir okkur...

... og við prísuðum okkur sæl fyrir að hafa drifið okkur á fætur þennan myrka vetrarmorgun til að upplifa annað eins...

Endalaust klöngur upp og niður...

Enginn tindur eins...

... og ævintýralegar leiðir milli tindanna...

Án efa vanmetin og allt of sjaldfarin gönguleið...

... sem er vel fær að bæði sumri til sem vetri...

...öllum þeim sem hafa gaman af því að láta næsta skref koma sér á óvart...

Næsti tindur var ókleifur að mati Arnarins sem sagði klappirnar of hálar og brattar...
enda heitir hann líklegast Arnarnípa skv. kortum...

... svo við fengum okkur bara morgunmatinn þarna í snjóskaflinum...

Día var drottning dagsins og kunni vel með það hlutverk að fara...

Morgunmatur um kl. 10:37...

... sólin ekki enn komin upp en orðið vel bjart...

... og við ræddum alls kyns tegundir af ævintýrum...
.eðal annars Grunnbúðir Everest sem bíða Nepalfara eftir nákvæmlega níu mánuði...
Brottför þann 11. október 2014 og við hefðum auðvitað átt að taka mynd af leiðangursmönnum þennan dag
og eins "Jakobínunum" en gerum það bara næst :-)

Gleði og skemmtisögur með kaffinu...

... og svo var haldið áfram endurnærð eftir matinn og stefnt á næsta tind fyrirð sólarupprás...

Fyrri Sveifluhálsfarar rifjuðu upp fyrri ferðina á sömu slóðum þar sem veðrið tók fljótlega að versna er leið á morguninn á meðan veðrið þennan janúardag 2014 hélst hins vegar dásamlega gott allan daginn (fyrir utan snjómugguna sem gekk yfir á korteri á Krýsuvíkurmælifelli í lok dags)...

Snjófærið gat ekki verið betra... lítið um svona þunga skafla...

...og hálkan svo saklaus að keðjurnar tóku það litla sem var án nokkurrar áreynslu...

Litið til baka á Arnarnípu sem við töldum að hlyti að vera þessi... ókleifur efst en líklegast vel færi hálfa leið upp hér sunnan megin... hefðum kannski átt að skella okkur þarna upp en þetta var langur dagur og ráð að halda sig greiðfæra tinda til að nýta tímann vel...

Hér fór sólin að lofa góðu...

... tók skyndilega að skína á skýjahnoðrana sem voru á himni...

... senda geisla á hæstu tinda í nágrenninu...

... með alltumlykjandi birtunni sinni...

... og lita allan heiminn smám saman bleikan...

Tíminn er eins og vatnið.
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund míns sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

Steinn Steinarr, Tíminn og vatnið, gefið út hjá Helgafelli árið 1948, endurútgefið 1998.
Fyrsta erindi ljóðsins sem mun fylgja okkur í tindferðunum út árið.

Við héldum okkar striki á næsta tind til að ná sólinni á lofti...

Sjá skýjahnoðrana í norðri sem voru orðnir bleikir...

Það var alveg sama hvert maður leit...

... alls staðar tók maður andann á lofti af töfrunum sem fylgja sólarupprásinni...

Þessi er ansi Þríhnúkalegur séður úr norðri en við skírðum hann Arnartind ef gps-tíminn passar við útreikninga ritara...
í takt við Arnarnípuna sem var að baki og við toppuðum ekki...

Geitahlíð á Reykjanesi í fjarska að fela sólina...
um 360 m há og þvílíkt á leiðinni inn í fjallasafnið okkar þegar þjálfari finnur lausan tíma :-)

Dýrðin af sólinni tók smám saman við...

... jú, ansi Þríhnúkalegur þessi Arnartindur sem við stóðum uppi á um ellefuleytið þegar sólin kom upp...

... en hún var enn ókomin bak við skýin sem virtust taka á sig fjallstindamynd og máta tindaröðina af Sveifluhálsi
beint fyrir framan okkur ef vel var að gáð... eða er sjálflægnin bara svona mikil ? :-)

Upp hlíðarnar í síðasta sólarleysi morgunsins...

Í fjarska mátti sjá bleika tinda í norðri...

Óskaplega fallegt á jörðu sem himni...

Roðasleginn himininn á tindinum...

... og myndatökumenn leiðangurisins gleymdu sér endanlega...

Sjá yfir vestari Sveifluhálsinn þar sem lægri hryggur liggur langsum honum og er nafnlaus að mestu
og er kominn á mjög svo spennandi blað í framtíðargöngum Toppfara...

Skyndilega varð allt bleikt hjá okkur líka...

... sólin var komin upp...

... og við nutum hennar eins og faraóar...

... enda varð "stopptíminn" ("stopping time" á gps)  í þessari ferð lengri en göngutíminn ("moving time")...

Allt gylltist..

... og varð hlýtt og fallegt...

Hryggurinn sem var að baki...

Það var eins gott að taka myndir á þessum augnablikum...

... meðan sólargeislanna naut...

Framundan var tindur númer fimm þennan dag... Seltúnstindur að Hverfjalli...

... og að baki voru nokkrir tindar sem ekki fengu allir nafni... verðum að fara þarna í sérstaka ferð til að skrásetja tindana skipulega hvað varðar hæð og lögun og helst klöngrast upp á þá alla til að átta sig á hvaða tindur er hvað...

Þarna náðu litir og birta dagsins hámarki...

... og við nutum dýrðarinnar í dásamlegum notalegheitum þar sem það var bókstaflega ekki hægt að flýta sér eða hafa áhyggjur af tímanum þó við hefðum í raun ekki langan tíma...

Dýrin var mögnuð... þessi síðari tindur af tveimur á þessum kafla fékk nafið Seltúnstindur í samræmi við örnefnin austan megin...
og mældist 338 m hár en þann fyrri nefndum við ekki frekar en nokkra aðra á leiðinni..

Efri: Áslaug, Gylfi, Sigga Sig., Doddi, Guðmundur, Njáll, Arna, Guðný Ester, Lilja H., Örn, Ingi, Björn Matt., Guðrún Helga og Arnar.
Neðri: Sigga Rósa, Jóhanna Fríða, Súsanna, Soffía Rósa, Heiðrún, Katrín Kj., Gerður Jens., Svala, Lilja Sesselja, Aðalheiður E. og Örn A. en Bára tók mynd og Día skreytir myndina fremst :-)

Þar af var Guðný Ester að fara í sína fyrstu tindferð og Njáll að mæta í sína fyrstu göngu með hópnum
sem er ansi vel af sér vikið í jafn krefjandi brölt upp og niður :-)

Nú vorum við komin á hverasvæðið við Hverfjall...

Nyrsti hverinn á þessu svæði og falinn öllum nema þeim sem ganga upp á hrygginn...

Litið til baka eftir hryggnum með hverinn austan megin ...

Geislar sólarinnar léku aðalhlutverkið þennan kafla...

Við vorum komin að Hverfjalli þar sem annar hver liggur falinn á milli fjallstinda...

Sólin komin lengra upp á himininn og við gáfum okkur enn og aftur góðan tíma til að njóta...

Útsýnið mikilfenglegt yfir Krýsuvíkursvæðið allt...

Hvað heita þessi fjöll?

Lengst í fjarska vinstra megin er Bæjarfell sem rís vestan megin móti Arnarfelli (sem er út af mynd hér)... en nær vinstra megin kölluðum við tindinn Hatt... en gæti vel verið Hverfjall... nema það megi vera nafnið á stapanum hægra megin sem við nefndum ekki í þessari ferðasögu en eftir á að hyggja mætti hafa nafn... kannski er Hattur tindurinn á Hverfjalli?... eða stóðum við kannski bara á Hverfjalli þegar þessi mynd var tekin?

Sjá nú vel Krýsuvík, Grænavatn, suðurströnd landsins og Arnarfell og Bæjarfell í fjarska og svo Hatt hægra megin nær...

Hverfjall þá vinstra megin hér ef menn fallast á það og svo Hetta með klettabeltið efst hægra megin við miðju?

Hér fórum við niður harða snjóbrekku sem hefði verið ansi hál ef ekki hefði snjóað á föstudagskvöldinu fyrir gönguna...

...en eins og til að undirbúa komu okkar hafði snjórinn fínpússað allt til svo við fengum fínasta færi þarna niður...

... og enduðum í mýkri snjó neðar...

Þrautreyndar fjallakonur... Lilja Sesselja og Jóhanna Fríða...

Hverfjall og svo Hetta?

Hattur?

Nú gengum við upp á Hatt sem við slepptum í síðustu ferð þar sem veðrið var farið að versna þá
og létum þá Hettu nægja áður en við snerum við...

Hattur og Hetta eru á dagskrá á þriðjudagskveldi í sumar... strax farin að hlakka til að sjá þetta í sumarbúningnum :-)

Magnaðir litir dagsins...

Vel fært upp þennan tind...

Litið til baka á Seltúnstindana tvo er svo má segja... við nefndum bara seinni þeirra með nafni...

Þar leynist annar heitur hver vestan megin... sjá dökka blettinn vinstra megin utan í fjallinu...
Vegna hans og hins hversins sem er sá nyrsti á svæðinu mætti rökstyðja það að tindurinn sem við köllum Seltúnstind sé Hverfjallið og þá sé þessi Hattur þessi formfagri sem líka skartar heitum hverum... vonandi finnum við einhvern fróðan um þetta svæði einn daginn til að hjálpa okkur með þetta...

Hér stöldruðum við líka enn einu sinni við...
en Örninn...fararstjórinn var ótrúlega þolinmóður þennan dag og lét okkur alveg í friði við að njóta alla leið...

Sveifluhálsinn er sannarlega magnaður fjallshryggur til að rekja sig eftir kílómetrunum saman...

Það voru ekkert nema englar á ferð þennan dag...

Fín leið niður af Hatti niður í enn meira hverasvæði...
sjá stíga og brýr sem búið er að græja á þessu svæði og ferðamenn koma gjarnan og skoða...
Förum kannski bara upp þar í sumar :-)

Stærsti hverinn sem skoðuðum þennan dag... falinn bak við þrjár fjallshlíðar...

Töfrandi fagurt umhverfi...

... og fagurkerar hópsins stóðust ekki mátið að skoða jarðhitasvæðið í smáatriðum...

Rjúkandi hiti og löðrandi leðja...

Það var spjallað út í hið óendanlega alla þessa ferð...
enda var lognið eins og að vera inni í stofu þó það væri jú, einhver sunnangola á köflum...

Strákarnir fundu góða leið neðan við hverinn til að komast að Hettu eða Hverfjalli...

Sérstakir litir og andstæður í landslaginu þarna...

Ingi beið eftir öllum og rétti fram hjálparhönd... hvílíkir öðlingar sem eru í þessum klúbbi...

Frost og funi Íslands er magnað fyrirbæri...

Snjór og heitur leir að berjast um yfirráð...

Grænu útfellingarnar komnar í lið með brúna leirnum...

... og þar sem gufustrókarnir ruku upp úr jörðinni átti snjórinn ekki sjens...

Við urðum að halda áfram þó þessi staður eins og svo margir aðrir á leiðinni hefðu getað haldið okkur hugföngnum miklu lengur...

Hiti og kuldi á sama andartaki... Ísland er best í heimi :-)

Lögð af stað upp brekkur Hverfjalls...

Geitahlíð í fjarska... Grænavatn... Arnarfell... Krýsuvík...

Sólstafir yfir sjónum... sem náðu næstum að lýsa upp Arnarfellið ef þeir hefðu lent "aðeins" norðar...

Þetta var þungt færi í leirnum...

... og nýju skórnir hennar Siggu Sig létu á sjá...
en við vorum ansi lengi að hrista drulluna alveg af og sumt fór alla leið í bæinn...

Komin upp á Hverfjallið?.. og Hetta framundan...

Hetta er merkt litlu sunnar á gps-kortinu eins og gjarnan með þessi örnefni...
en eftir miklar vangaveltur telur ritari að þessi stapi hljóti að vera Hetta... f
leiri en einn tindur á honum en frístandandi stapi í landslaginu...

Litið til baka frá austurhlíðum Hettu...

Sólin skein inn dalinn milli fjalla...

... og lýsti vel upp ferskan snjóinn...

Skuggarnir óskaplega smart á þessum árstíma...

Á leið upp Hettu með Geitahlíðina í baksýn...

Margtindótt er Hettan en við þvældumst á hæsta tind til norðurs þó útúrdúr væri...

Hettan öll ofan frá með krónuna sína í suðri framundan...

Hettan öll vestan megin og svo syðsti hlutinn af Sveifluhálsinum til enda í fjarska
og svo Krýsuvíkurmælifellið hægra megin stakt upp úr landslaginu...

Nú var kominn tími á hádegismat og við ákváðum að finna stað þar sem sunnangolan kæmi hvergi við sögu...

Brakandi ferskur snjór dagins var endurnærandi fyrir sálina...

Við gengum inn í sólina...

... sjá sporin hennar Díu í vinstra horninu... grjótið... perlaðan snjóinn og sólargeislana allt um kring...

Klettarnir svellaðir á köflum þar sem snjórinn hafði ekki náð að mýkja klakann...

Enn einu sinni bætum við einum af þessum fullkomnu dögum á fjöllum í safnið...
og alltaf er maður jafn hugfanginn...

Litið til baka niður af Hettu...

Hérna borðuðum við nesti - sjá hópinn smáan neðst í skarðinu...

Hver á sínum steini og sólin yljaði allt...

Fleiri tindar framundan en sífellt lægri og viðráðanlegri...

Litið til baka... Hetta var hæsti tindur dagsins... 386 m hár...

Nú tóku skýjaslæður að þvælast fyrir lágri sólinni sem var synd þar sem hún var lág á lofti...

....og hefði alveg mátt njóta sín allar þessar örfáu klukkustundir sem hún var á lofti...

Krýsuvíkurtindur var næsti tindur á eftir Hettu og mældist 341 m hár...

Keilir var alltaf að kíkja á okkur þennan dag... og virtist alltaf vera sólarmegin í lífinu :-)

Tunglið var skyndilega komið á loft í norðaustri...

... og virtist reyna að ná augnsambandi við sólina sem barðist óðum við skýjaslæðuna í suðri...

En við kvörtuðum ekki og nutum þess að ganga á þessari töfrandi birtu
en ekki köldu myrkrinu sem ríkt hefur á öllum þriðjudagsæfingum síðan í nóvember...

Smáatriðin jafn falleg og stóra samhengi landslagsins...

Mikið var eitthvað gott að ganga nánast til sjávar...
hvílík forréttindi að hafa fjöll þó lág séu svona nánast í sjávarmálinu...
ekki sjálfgefið í hinu stóra samhengi heimsins...

Síðustu tindar dagsins framundan...

Á þessum kafla tókum við þá ákvörðun að nýta bílinn hans Gylfa til að ferja bílstsjóra og sleppa bakaleiðinni til að geta klárað frekar alla leið á Drumb og Krýsuvíkurmælifell sem við hefðum annars þurft að sleppa til að ná að strauja á skikkanlegum tíma til baka um dalinn í bílana...

Litir og landslag dagsins voru listaverk í hæsta gæðaflokki...

Stórfengleikur náttúrunnar var svo miklu stærri en við mennirnir...
sem sjást hér klöngrast svo smáir í berginu hægra megin...

Drumbur kom næstur í ljós... fallegur tindur þó ekki sé hann hár...ellefti tindur dagsins þótt ótrúlegt sé og engin leið að halda því fram að við höfum verið of "tindaglöð" í talningunni... þetta er einfaldlega svona margtindótt leið ef menn á annað borð hafa áhuga á og þörf að aðgreina þetta eitthvað til að gera sig skiljanlegan þegar gengið er nokkrum sinnum um sama svæði :-)

Og krýsuvíkurmælifellið var þarna lengra hægra megin... með syðsta hlutann af Sveifluhálsinum...
Sveiflusuðurtaglið sem við enduðum á að vilja nefna til aðgreiningar :-)
og allt í lagi að gera stólpagrín að en þörfin er þarna engu að síður :-)

Við vorum hæstánægð að ná þessum tveimur (þremur!) tindum í annarri ferð okkar um Sveifluhálsinn syðri...

En lexía dagsins fyrir þjálfarar var meðal annars sú að þó við hefðum straujað greitt til baka ofan af þessum fjöllum hefði dagurinn orðið ansi langur og í rökkri í restina þar sem gönguleiðin um Sveifluháls er mjög seinfarin... sérstaklega í stórum hópi (26 manns) og góðu veðri og færi þar sem hver tindur þarf að fá sinn tíma til að njóta... og tekur meiri orku af mönnum en ætla má miðað við lága hæð... það var einfaldlega óraunhæft í þessu veðri, skyggni, hópi og gönguleið að ná allt að 20 km göngu svo vel væri nema vera þá komin í bæinn um níuleytið... sem er svo sem jú eitthvað sem við höfum oft gert... en það hefði verið ansi strembið...

Ofan af Drumbi... í 260 m hæð... var aðeins farið að skyggja og Krýsuvíkurmælifellið svolítið langt í burtu þar sem menn voru almennt orðnir svolítið lúnir þó hífaðir væru og dauðfegnir með að komast í bílana eftir þennan síðasta :-)

Gangan var farin að taka í eftir endalaust brölt upp og niður og nánast ekkert á jafnsléttu....

Margfalt erfiðara að klöngrast svona stanslaust í stað þess að fara bara beina leið upp og niður hátt fjall... en  þeim mun dýrmætara upp á gæði þjálfunar fyrir komandi verkefni ársins eins og nokkurra tinda göngu um Öræfajökul... Fimmvörðuháls og Laugaveginn öfugan um fjallabak í júlí....  Jakobsstíginn sem Sigga Rósa, Arna og Lilja Hannesar eru að fara í maí... og Grunnbúðir Everest sem 24 Nepalfarar eru að takast á við í október... og eflaust margt fleira sem þjálfarar eiga eftir að frétta allt um hjá klúbbfélögum :-)

Að Krýsuvíkurmælifelli þurfti að fara yfir syðsta taglið á Sveifluhálsinum
sem okkur fannst eftir á að yrði að fá sérnafn til að aðgreina síðari tíma göngur þarna um á þriðjudegi...
... og kölluðum það Sveifluhálstagl hið syðra...

Yfir sjónum þyngdi skyndilega yfir...

... og við horfðum á snjómugguleiðingar (eins og skúraleiðingar) ganga yfir ströndina...

Litið til baka til fjalla þar sem heiðskíran réð öllu...

Síðasta fjall dagsins framundan...

Nei, þessi snjómugga er ekki að fara að koma til okkar... þetta er bara við ströndina...

Allir glaðir og kátir með þá ákvörðun að enda gönguna hér frekar en að eiga eftir að ganga allt til baka þó sú leið sé mögnuð...

...en við förum hana bara síðar og þjálfari er þegar búinn að prjóna mergjaða tindferð kringum það svæði... :-)

Smá klöngur og snjóbrekkuferð hér niður...

Á leið að Mælifellinu dimmdi skyndilega yfir okkur eins og dregið væri fyrir leiksvið...

... og snjóéljamugga læddist yfir létt og fallega...

Friðsælt var það og notalegt...  og minnti okkur á hvílíka heppni sem við höfðum notið þennan dag...

Leiðin greið upp á Mælifellið...

... og þegar þangað var komið var muggan farin og skyggnið aftur tekið við...
þetta voru greinilega bara smá leiðingar :-)

Krýsuvíkurmælifellið mældist 220 m hátt...

Ingi ofurmenni lék listir sínar á tindinum en við eigum nokkrar magnaðar myndir af honum á hinum og þessum tindinum...
t.d.  með hendina í fatla og alls konar :-)

Niður var vel fært hinum megin...

... síðasta brekka dagsins af líklega rúmlega tuttugu eða nær þrjátíu... !!!

Jebb... þessi fjöll eru komin á framtíðarlistann okkar...

Yndislegt að eiga bara eftir að strauja í bílana...

Keðjurnar... sem við skulum svo kalla í stað hálkubrodda hér með að uppástungu Inga til að allir skilji hvað verið er að tala um... komu sér vel þennan dag og áttu nákvæmlega við í þessu færi... hefðum aldrei nennt að ganga í jöklabroddum alla þessa klöngurleið (vera að fara í og úr) og broddalaus hefði verið tafsamara að fara og meiri hætta á óhöppum...

Síðasti kaflinn niður á gamla veginn þar sem bíllinn hans Gylfa beið... en hann hafði skilið hann þar eftir til að geta stytt gönguna vegna leikhúss um kvöldið... en á endanum nutum við öll góðs af því... og enn betur þar sem hann er með aukasætum :-)

... svo sjö bílstjórar komust í bílinn til að ná í hina bílana við Kleifarvatn...

... meðan við hin gengum veginn rúma 2 - 3+ km á stuttum tíma
enda var ansi greiðfært að fara um á jafnsléttu eftir allt þetta klöngur....

... og það var vel þegið að fá bílana á móti okkur nokkrum mínútum síðar
þar sem sumir höfðu náð að ganga rúma 2 kílómetra en þeir sem lengst gengu fóru rúma 3 kílómetra?

Alls 14,2 km göngu (12,5 - 15,2 km eftir því hversu langt menn gengu að bílunum) á alls +/- 8:11 klst.
upp í 386 m hæð hæst með alls 1.056 m hækkun og 1.138 m lækkun (enduðum lægra en við byrjuðum)
miðað við 149 m upphafshæð og 105 m endahæð.

Þessir tindar voru skráðir í ferðinni en þeir voru nokkrir sem ekki fengu skráningu:
Krefst endurskoðunar og hugsanlegra breytinga eftir á - endilega sendið okkur línu ef betur má fara !

1. Ketilstindur 322 m.
2. Bleiktindur 339 m.
3. Kleifartiindur 349 m.
4. Arnartindur 333 m.
5. Seltúnstindur 338 m.
6. Hattur 322 m.
Hverfjall?
7. Hetta 386 m.
8. Krýsuvíkurtindur 341 m
9. Rauðhólstindur 362 m.
10. Bleikingstindur 282 m.
11. Drumbur 260 m.
12. Sveiflusuðurtagl 200 m.
13. Krýsuvíkurmælifell 220 m.

Eflaust mjög umdeilanlegt hvað telst tindur og hvað ekki á þessari leið en þjálfarar merktu punkta á öllum tindum sem þóttu eiga nafn skilið til aðgreiningar á landslagi og gönguleið og enduðu á þrettán punktum... þar af voru eingöngu fjórir með nafn fyrir á kortum eða þau Hattur (sem hluti af eða tindur á Hverfjalli?), Hetta (sem efasemdir voru um hvar væri í raun), Drumbur og Krýsuvíkurmælifell (skýrt hvar þau voru)... hin nöfnin voru samin af þjálfurum út frá öðrum örnefnum á svæðinu og mega alveg vera einhver önnur... (leiðangursmenn komu með hugmyndir sem ekki var hægt að muna hvar voru) en af fenginni reynslu væri best að ráðfæra sig við "bóndann" á svæðinu með örnefnin sem oft hafa verið okkur ómetanlegir viskubrunnar, en slíkur fyrirfinnst því miður ekki á þessu svæði að því er við best vitum... endilega sendið okkur línu ef einhver veit betur um staðsetningu Hatts og Hettu og önnur nöfn á tindum syðri hluta Sveifluhálss :-)

Smá hópmynd á síðasta tindinum í stíl við fyrsta tindinn í upphafi dags í rökkrinu...

Njáll, Þórarinn, Sigga Sig., Katrín Kj., Örn, Ingi, Arna, Gerður J., Guðný, Gylfi, Áslaug, Guðrún Helga, Svala,Guðmundur, Björn, Soffía Rósa, Sigga Rósa, Arnar, Lilja H., Heiðrún, Aðalheiður, Örn A., Jóhanna Fríða og Súsanna með Díu, en Lilja Sesselja var einhvers staðar að taka myndir og Bára tók mynd.

Hjartansþakkir elsku félagar fyrir algerlega fullkominn dag á fjöllum
þar sem veður, færi, skyggni, landslag og göngufélagar
hefðu ekki á nokkurn hátt getað verið betri :-)

Allar myndir þjálfara hér: https://plus.google.com/photos/104852899400896203617/albums/5968352718413272337?banner=pwa
...og ævintýralegar ljósmyndir leiðangursmanna á fésbók...
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir