Ármannsfell
Þingvallafjall nr. 21 á árinu
... enn einu sinni í góðu veðri á þriðjudegi á þessu ári ...

Við erum nánast hálfnuð með Þingvallafjöllin sem nú teljast alls 44 talsins
ef marka má talningu ofan af fjöllunum sjálfum á Þingvöllum...

... en það tuttugasta og fyrsta var Ármannsfellið sem án efa telst með þeim þekktustu og svipmestu á svæðinu þó ólögulegt sé í raun...
en það skreytir norðurhluta Þingvalla með sínum kjarrmiklu móbergsklettóttu brekkum...

Ofan af því er mikið útsýni yfir alla Þingvelli og nágrenni... hér með Hrafnabjörg og félaga í skugga til austurs...

Þingvallavatn hér í suðri... og fjöllin öll ofan þess og meðfram því...
meðal annars Búrfell í Grímsnesi, Miðfell og Dagmálafell, Arnarfell, Ölfusvatnsfjöllin öll og Hengillinn...

Það var ekki annað hægt en taka hópmynd með þetta útsýni í baksýn...

Steinar Adolfs., Hafrún, Ágústa Þórðar., Inga Guðrún, Bjarnþóra, Brynhildur Thors., Vilhjálmur, Jóhanna Diðriks., Bjarni, Kolbeinn, Örn, Agnar, Helga Rún, Þorleifur, Gerður Jens., Anna Sigga, Þórkatla, Lilja Sesselja, Gylfi og Ágústa en Bára tók mynd og Batman var eini hundurinn.

Við fórum hefðbundna leið upp um suðurhlíðarnar en sú leið er ekki í okkar uppáhaldi... heldur norðaustan megin frá Sandkluftavatni sem er talsvert styttri en brattari og í raun léttari yfirferðar en þetta móberg með rúllandi lausagrjótinu ofan á og birkikjarrið neðst sem bara vex og hækkar með hverju árinu sem líður :-)

Landsigið ? í miðju fjallinu... dældin... dalurinn... gígurinn ? ...
.... formar sérkennilegt landslagið uppi á Ármannsfelli og er mjög villukennt í þoku eða lélegu skyggni
en skemmtilegt að skoða í góðu veðri eins og þennan dag...

Sumarið er tíminn...

... til að hlaða niður öllum fersku og þéttu litunum í íslenskri náttúru sem blómstrar þennan stutta en töfrandi flotta árstíma...

Skjaldbreiður átti að vera á dagskrá þetta kvöld... veðrið hentaði þvílíkt... en Vegagerðin sagði þvert nei þegar við hringdum til að spá í bílfærið... við hefðum hugsanlega þurft að lenda að upplýstari og skilningsríkari starfsmanni sem hefði getað  metið þetta málefnalega betur með okkur og verið búinn að hlera færið inn eftir... því líklega var ekkert að færinu kaflann að Skjaldbreið þó illfærara sé innar... en við vildum auðvitað hlýða reglunum og færðum því Skjaldbreið fram í ágúst sem er svo sem bara gaman, því þá upplifum við það snjólausara en ella...

Við þræddum okkur eftir "gígbarminum" til norðurs að tindinum sem skagar upp úr innarlega á fjallinu...

Fjölfarið með meiru og kominn vel troðinn slóði...

Fremstu menn komnir upp á tindinn...

Tignarlegur er hann í 786 m hæð en gps tækin mældu þetta heldur hátt að sinni...

Okkur var starsýnt á hæstu fjöllin á svæðinu... Botnssúlurnar sem risu í vestri... í skýjunum efst...
og rifjuðum upp mergjuðu gönguna á Miðsúlu og Syðstu súlu í maí í sól og blíðu...

http://www.fjallgongur.is/tindur198_midsula_sydstasula_230520.htm

Útsýnið af syðri tindi Ármannsfells til suðurs...

Hinn tindurinn á fjallinu sem við höfum kallað Grasdalahnúk er hér framundan af þeim hæsta ef hann er þá hærri en þessi þarna í fjarska...
en hann er nú samt merktur á öðrum stað í map-source, mun vestar...
svo það er spurning hvort þessi hafi eitthvað annað nafn eða sé nafnlaus...

Á þeim nyrðri settumst við niður og fengum okkur nesti... mun hlýlegri hér en á þeim syðri...

Ágústa bauð upp á þurrkað nautahakk sem smakkaðist sérstaklega vel...
mjög góður þurrmatur fyrir langar göngur með allt á bakinu....

Dásamlegt að njóta útsýnisins og horfa...

Hrafnabjörg hér og Kálfstindar og félagar...
og nær eru Ágústa Þórðar og Brynhildur og svo til vinstri Þórkatla og Ágústa Harðar
með Batman sem var ekki lengi að þefa uppi þurrkaða kjötið :-) 

Spáð í útsýnið og fjallasýnina sem var mergjuð...

Kvígindisfell þarna vinstra megin... fjær svo Þverfell við Reyðarvatn... og svo Okið og Fanntófellið og Þórisjökull og...

Botnssúlurnar að verða skýlausar...

Eftir góða pásu var haldið til baka sömu leið að syðri tindi en svo niður dalinn til baka en ekki með barminum...

Niður hér í dalinn...

Skemmtilegt að taka stöðuna á honum... engin bleyta eins og við héldum að yrði...

Harður og víkjandi var þessi snjóskafl... sumarið ræður öllu núna...

Dásemdarstund þetta kvöld... mikið spjallað og spáð í sumarið...

... og horft á fjöllin allan hringinn...

Komin aftur fram á brúnirnar í suðri með Þingvelli útbreidda í fanginu... magnað... sjá gjárnar í landinu...

Þessi niðurleið um móbergið tók á taugarnar... sumir rúlluðu öruggir og léttir niður og voru löngu komnir þegar við sem síðustu vorum hikuðum og fórum varlega hvert skref... en hér reynir á reynslu og yfirvegun... þolinmæði og æðruleysi... taka þetta skref fyrir skref... leita í gróðurinn, mosann og moldina frekar en í grjótið og hafa gaman af... við höfðum gott af þessu og þurfum að vera dugleg að fara í svona færi til að viðhalda öryggi og færni í móberginu...

Gerður Jens er sannarlega herforingi... og fór hér niður leikandi létt á fæti... vel gert...

Yndislegt að komast í birkið og geta stigið niður nokkur skref án þess að bíða eftir því að detta á afturendann...

Það dreifðist ansi mikið úr hópnum hér niður og menn völdu mismunandi leiðir
sem olli því að Ágústa Þórðar var skyndilega ein efst og föst á móbergsklöppum
en Agnar kom henni til aðstoðar og þau náðu svo okkur sem vorum hinum megin við þetta gil...
gott að eiga góða félaga að og gott að taka svona krefjandi brölti bara fagnandi...
lítið fútt og lítil þjálfun í fjallgöngufærni þegar gengið er á vel troðnum stígum í fótspor annarra...
miklu meira gefandi að fara ótroðnar slóðir og reyna sig við erfitt færi og erfiðar aðstæður...
en æji, þjálfari hefði nú viljað enda þessa dásemdargöngu á léttari yfirferð svona
úr því við þjálfarar vorum nú að kveðja hópinn í nokkrar vikur og að fara í sumarfrí :-)

Alls 7,8 km á 3:10 - 3:17 klst. upp í 786 m hæð með alls 573 m hækkun úr 179 m upphafshæð.

Þjálfarar fara nú í sumarfrí í fimm vikur... en eru reyndar með Laugavegsgönguna 27. júní
svo þeir sleppa ekki taki á hópnum fyrr en í lok mánaðarins...
en næstu fimm þriðjudaga bjóða klúbbmeðlimir upp á hverja flottu þriðjudagsæfinguna á fætur annarri...
sjá lokaðan hóp klúbbfélaga á fb... það verður gaman að fá fréttir af þeim ævintýrum :-)
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir