Vasaloppet 2019
sunnudaginn 2. mars
Bára Agnes Ketilsdóttir

Að taka þátt í elstu... fjölmennustu...
og frægustu gönguskíðakeppni heims...

og lenda á rauða kaðlinum
... þegar 28 km voru eftir af 90 ...

Þetta er persónuleg reynslusaga mín af þátttöku í minni fyrstu gönguskíðakeppni
þar sem ég, Írunn systir mín og dóttir hennar Tinna Líf, réðumst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur
heldur skelltum okkur í Vasaloppet 90 km þann 3. mars 2019...

Það ár var veður sérlega óhagstætt, vestanátt og snjókoma allan tímann beint í andlitið
færið með erfiðasta móti í snjósósu að manni fannst og því engin brautin til að renna á
og var þetta ár það versta í sögu Vasaloppet í 28 ár af 95 ára sögu þess.

Fara þurfti alla leið til ársins 1991 til að finna viðlíka aðstæður
en það var engu að síður ekki eina ástæðan fyrir því að ég lenti á rauða kaðlinum
og fékk ekki að klára þessa 28 km sem ég átti eftir frá Oxberg... heldur svo margt annað...
en það kom mér mjög á óvart hversu sumir hlutir voru öðruvísi og betri en maður átti von á og öfugt...

Í undirbúningi fyrir þessa keppni saknaði ég sárlega betri upplýsinga um þetta hlaup... eða göngu...
afsakið en Svíarnir kalla þetta hlaup og mér er mjög tamt að tala um maraþonhlaup
svo orðið Vasahlaup mun yfirleitt slysast í umræðunni frekar en Vasaganga
enda skrítið að Íslendingar hafi kosið að velja það orð í raun en auðvitað er orðinu Skíðaganga og gönguskíði um að kenna :-)

En... ég hefði sum sé viljað lesa reynslusögur og fræðast um góð ráð frá þeim sem hafa farið í Vasagönguna...
en slíku var ekki fyrir að skipta merkilegt nokk og ólíkt bæði hlaupaheiminum og fjallgönguheiminum
þar sem menn deila reynslusögum hægri vinstri frá því ég fór inn í þá heima tvo...

En, það var ein mikilvæg undantekning á þessu...
nefnilega frábær reynslusaga Halldóru Gyðu Matthíardóttur Proppé
sem gaf okkur einmit mjög mikið í öllum undirbúningi:
 https://halldora.is/keppnissaga-vasaloppet-2016/

En við hefðum viljað lesa um svo miklu meira í hennar sögu eða annarra varðandi alls kyns útfærsluatriði
þar sem við vorum byrjendur í keppni á gönguskíðum...
og því ákvað ég fljótlega í undirbúningsferlinu að ég myndi deila reynslu minni á sem nákvæmasta hátt
fyrir aðra sem takast á við þessa áskorun í fyrsta sinn í lífi sínu...
Hún er nefnilega vel viðráðanleg öllum sem á annað borð stunda gönguskíði,
hafa andlegt og líkamlegt úthald til að halda áfram klukkustundum saman
og hafa gaman af því að takast á við nýtt verkefni sem líkist engu öðru sem þeir hafa upplifað...
þó ég segi sjálf frá... verandi dæmd úr leik eftir 62 kílómetra :-)

Þetta er því miður frekar löng reynslusaga...
en bara æfingatímabilið sjálft var mjög skrautlegt á þessari sérstöku för okkar til Svíþjóðar
og sprenghlægileg á köflum að mínu mati
þar sem ég lenti í alls kyns háska í myrkri, villu vegar, orkuleysi o.s.frv...
og þess vegna ekki síður fannst mér nauðsynlegt að skrifa þessa sögu frá upphafi æfingatímabilsins
því hún lýsir vel hversu mikið happdrætti það er að æfa gönguskíði af einhverju viti hér á suðvesturhorni landsins
og vonlaust í raun að ná einhverri ástundun svo vel megi vera...
ólíkt hlaupunum þar sem alltaf er hægt að fara inn á bretti ef illa viðrar úti við allt árið um kring...
og skokka hvar sem maður er staddur í heiminum...
það er engan veginn möguleiki gönguskíðamannsins...

 


Tinna Líf Gunnarsdóttir f.1987 , Írunn Ketilsdóttir f.1969, Bára Agnes ketilsdóttir f.1968.

Forsagan

Það var Írunn systir mín Ketilsdóttir...
með svarta beltið í taikwondo, fyrrum landsliðsþjálfari í þeirri íþrótt... wow-cycloton-þátttakandi o.m.fl... 
sem kom upphaflega með þessa hugmynd...
að taka þátt í fjölmennustu og elstu gönguskíðakeppni í heimi... Vasaloppet... 90 km frá Salen til Mora í Svíþjóð...
í fótspor Karls Gustavs Ericssonar sem flúði Danakonung og endaði sem fyrsti konungur Svíþjóðar...

Dóttir Írunnar, Tinna Líf Gunnarsdóttir hafði þá búið í Tromsö í Norður-Noregi í nokkur ár,
bæ þar sem raunverulega er ekkert vor og mjög stutt haust... langur vetur og heitt en mjög stutt sumar...
snjórinn nær vel fram í maí og mætir aftur í september eða október...
Þar býr Tinna Líf með norskum eiginmanni sínum og dótturinni Emmu Sóleyju 2013
en hún gönguskíðar í skólann sinn á hverjum degi...
háskólannn í Tromsö þar sem hún var að ljúka námi í geimvísindum þennan vetur sem við fórum í Vasaloppet...
en lokaverkefnið hennar var þátttaka í smíði eldflaugar í samvinnu við NASA
og hún komst í fréttirnar stuttu áður en við fórum til Svíþjóðar...
jebb... systurdóttir mín er alvöru rocket scientist... og fróð í geimvísindum...
en um leið einfaldlega hógværasta manneskja sem ég þekki...
https://www.mbl.is/frettir/taekni/2019/01/17/komst_i_eldflaugaverkefni_med_nasa/

 

Fyrir mig sem hlaupara til margra ára, þjálfara Toppfara síðustu tólf ár gangandi á fjöll x1 í viku
hjólandi í vinnuna 9 km hvora leið úr Grafarvogi niður á Snorrabraut og til baka s.l. sjö ár x4 sinnum í viku...
lítið sem ekkert gönguskíðandi...
eigandi gönguskíði frá því árið 2016 einfaldlega af því þá ætluðum við að fara í Landvættina en hættum við sökum annríkis...

... að þá var þetta ansi brött ákvörðun... og ekki annað hægt en kalla það hroka, óskammfeilni... eða álíka :-)
dæmigerður Íslendingur sem sem æfir Cross fit og skráir sig í maraþon án þess að hafa tekið þátt í 10 km eða hálfmaraþoni...
maður þekkti alveg þessa týpu... og skyndilega var maður sjálfur einn af þeim...

Enda skammaðist maður sín innst inni...
og sagði engum frá lengi vel... og reyndi að snúa út úr eða muldra í barminn
ef maður var að fá ráð og vildi ekki viðurkenna að það væri fyrir hvorki meira né minna en Vasaloppet...
við sögðum eins fáum frá þessu jafnvel þegar að þessu var komið...
vitandi að þetta væri í raun óviðeigandi af jafn reynslulítilli manneskju eins og mér
og kannski líka vitandi að hugsanlega tækist þetta einfaldlega ekki og þá væri betra að fáir vissu af þeim ósigri...

En... ég segi aldrei nei þegar einhver kemur með svona geggjaða hugmynd og spyr hvort ég vilji vera með...
og hugsaði í bríeríi þarna í febrúar 2018... afhverju ætti maður ekki að geta skíðað 90 km
úr því maður var búinn að hlaupa sex sinnum 42 km maraþon og þrisvar 55 km Laugaveginn ?

 

Skráningin í Vasaloppet er á sunnudegi í miðjum marsmánuði ár hvert... hefst klukkan 9:00 á vef þeirra
og tekur yfirleitt innan við hálftíma þar sem aðsóknin er svo mikil...

Við sátum því við tölvuna sunnudaginn 18. mars... og skráðum okkur inn...
þar með var ekki aftur snúið...  ég þoli ekki að hætta við... og geri það helst ekki...
en hef svikið þá reglu nokkrum sinnum hin efri ár... og íhugaði það oft mjög alvarlega að hætta við...

Hafði meðal annars góða ástæðu þegar ég þurfti að fara í stóra æðahnútaaðgerð um miðjan desember...
sem ógnaði reyndar mun meira Kanarímaraþoninu í janúar en Vasaloppet...
en ég tímdi einhvern veginn ekki að láta það stoppa mig og ákvað í samráði við skurðlækninn
að ganga úr frá því frá byrjun að ég væri að fara í hvorutveggja ef ekkert kæmi upp á.

Aðgerðin sú var engu að síður áhrifameiri en ég átti von á...
eftirköstin heilmikil og ég var lengi að ná mér í fætinum og enn er hann ekki góður
skert skynjun að stórum hluta og miklir þrymlar í fætinum upp á læri...
en mér fannst þetta aldrei há mér í nokkurri hreyfingu og því hafði þetta engin áhrif á hvorki maraþonið né skíðagönguna
svo ég get ekki kennt aðgerðinni né fætinum um frammistöðuna...

Ekki heldur þoli sem var mjög gott þennan vetur né lungunum í mér
en þau höfðu fengið einhvers konar undarlega falleinkunn hjá heimilislækninum haustið 2018
þar sem sneiðmynd af þeim sýndi lungnaþembu án þekktrar ástæðu og skemmdir sem jöfnuðust á við reykingamann til tíu ára
en ég hef aldrei reykt... svokölluð spirometria hjá lungnalækni sýndi það sama svo bæði ég og læknirinn göptum...
samkvæmt prófinu sem var endurtekið af því niðurstöðurnar þóttu ótrúlegar miðað við þá hreyfingu sem ég var að stunda
þá raðaðist ég um miðja kúrfu sjúklingamegin... sem sé ekki efst á kúrfuna með meðalmanningum... og ekki um miðja kúrfuna íþróttamannamegin... þar sem ég átti í raun að vera... nei, sjúklingamegin var ég eftir þessi tvö öndunarpróf...

Þessar niðurstöður voru mér mikið áfall til að byrja með
og ég hélt fyrst að þar með væri ég hvorki að hlaupa maraþon né fara í Vasahlaupið
en ákvað að þetta gæti ekki verið rétt, ég væri í hörkuformi, allt í minni hreyfingu studdi það...
nema reyndar vaxandi þreyta og hægari yfirferð... en það var bara æfingaleysi um að kenna, ekki lungnaþembu...
í alvöru... og svo var ég að jafna mig eftir smá hálsbólgu þegar þetta öndunarpróf var gert...
þetta hlaut að vera hálsbólgunni um að kenna hvað varðaði öndunarprófið...
og lungnalæknirinn sagði svo að lungnaþemban sem sást á sneiðmyndinni
kæmi stundum hjá hávöxnu grönnu fólki með aldrinum og væru í raun ekki skemmdir heldur breytingar á vefnum...
ég ákvað því að þetta væri vitleysa, það væri ekkert að lungunum mínum og það studdi allt að slíkt væri raunin...

Og með þá hugsun fór ég í bæði Kanarímaraþonið og Vasagönguna...
til að afsanna þessar rannsóknarniðurstöður...
ég væri sko í hörkuformi og með heilbrigð, vel starfandi lungu
og frammistaðan í báðum sýndi það...
ég náði markmiði mínu í maraþoninu betur en ég þorði að vona miðað við undirbúning
og var hvergi tilbúin til að hætta í Vasagöngunni þó þetta rauða band hefði mætt á staðinn..

 

Æfing 1 af 15
Bláfjöll á braut við bestu aðstæður í bongóblíðu
besta æfingin af öllum fram að Vasaloppet...
eins gott að ég vissi það ekki þá !
föstudaginn 6. apríl 2018

Í bullandi efasemdum um hvort ég gæti þetta yfirleitt...
með ríkjandi skömmustukennd yfir hrokanum sem í raun einkenndi þessa ákvörðun...
að fara strax í bröttustu brekku gönguskíðamannsins... án þess varla að geta staðið í nokkurri brekku á gönguskíðum...
í stað þess að keppa mig í form eins og maður ráðleggur alltaf öllum sem vilja hlaupa maraþon...
þá lá efinn eins og mara yfir mér frá því sunnudaginn 18. mars 2018...
og því greip ég tækifærið og skellti mér á gönguskíði föstudagseftirmiðdaginn 6. apríl þegar vel viðraði
og ég sá á Ullarsíðunni að færið væri gott og brautir í lagi...
þó ég vissi að það gerði lítið fyrir mig ellefu mánuðum síðar...
nema jú heilmikið fyrir sálartertrið og sjálfstraustið...

 

Þetta var eina æfingin sem ég tók á gönguskíðum allt árið 2018...

Fór 24,1 km á 2:45 klst. á hraðanum 8,7 km á klst sem mér fannst ansi hægt...
og ég man að ég umreiknaði þetta í 90 km og komst að því að það þýddi  rúmar 10 klst...
og mér fannst þetta hægt miðað við hlaupin þar sem ég er um 11 km á klst. á afslöppuðu skokki....
og fljót að fara í 13 km ef ég vil fara hraðar...
en þessi hraði átti eftir að vera einn sá mesti hraði sem ég náði á gönguskíðum fram að Vasaloppet...
ef ég bara hefði vitað það þarna... þá hefði ég einbeitt mér eitthvað að hraðaæfingum...

Brautin, aðstæður, veður - allt var eins og best verður á kosið þennan apríldag 2018
og ég sá að það var langt í að ég næði viðlíka hraða og í hlaupunum...
Þarna læddist að mér sú hugsun að þó skíðin virtust léttari íþrótt en hlaupin...
þá var ég enginn gönguskíðamaður í samanburði við hlaupin...
vantaði alla reynslu og tækni í raun... skíðaði bara eitthvað...
hafði, jú farið á námskeið hjá Ulli tveimur árum áður... en það var bara stutt kynningar-kvöldnámskeið...

Jú, og ég nýtti svigskíðareynslu æskunnar en við systkinin vorum svo heppin að alast upp á svigskíðum
og vorum vön að vera í öllum veðrum og alls kyns færð í Bláfjöllum og Skálafelli...
Sterkust er minningin af því að sitja í móðukenndum skálanum í Bláfjöllum drekkandi heitt kakóið og kaldar samlokur og ískaldar kleinur...
með alla kappklædda í kuldanum (skálinn var ekki upphitaður !)...
en þakkláta að fá gott að borða mitt á milli nokkurra klukkustunda skíðaiðkunar
 þar sem maður varð bara að bjarga sér... skíða til að halda á sér hita...
pabbi var ekkert að fylgja manni og passa mann... hann var bara að skíða á sínum forsendum...
maður varð bara að bjarga sér á eigin vegum og vera að fram að lokun sama hvað til að nýta daginn sem best
og þannig lærði maður ansi margt...
og er sífellt að gera sér betur grein fyrir því hversu mikið í raun...

Við skíðuðum oft fram í lokun... oft í slæmum veðrum eins og ég man það...
fengum far með troðaranum með því að halda í kaðal
af því það var ófært að fara á bílunum sem voru dregnir niður eftir...
sátum föst í lyftunum efst í skafrenningin, kulda og engu skyggni...
oft var ég að skíða í hliðarhalla í harðfenni og miklum kulda og vissi ekkert hvar nákvæmlega ég var...
ég held að þröskuldarnir hafi verið aðrir þá en nú...
lúxusinn sem síðar kom er í engu samræmi við þær minningar sem ég á af hráleikanum og harðneskjunni á skíðum hér áður fyrr...
en nóg um það... þetta kenndi manni mikið og stundum koma fram minningar um þessa tíma þegar maður gengur í illviðrum á fjöllum...
þá rifjar sálin upp slíkar stundir og sækir í hörðu skelina sem þá myndaðist
og kann að halda manni áfram í skafrenningi, kulda og engu skyggni klukkustundum saman...
alla leið til byggða... eða niður á láglendið...
 þar sem reynslan er fyrir löngu búin að kenna manni að veðrið er langtum betra en upp í fjöllunum...

 

Gönguskíðaþjálfunin mín var því mjög lítil þegar við skráðum okkur í mars 2018... sjá hér árin 2016 til 2019...
120 km árið 2016, þá að myndast við að æfa fyrir Landvættina áður en við hættum við...
eingöngu 8,5 km árið 2017... og bara þessi eina æfing 6. apríl 2018 24,1 km
og loks árið 2019 þar sem allt gerðist...

 

Andlegur undirbúningur:

Vefsíða Vasaloppet er ekki góð satt best að segja...
allt of djúpt á alvöru upplýsingum þar... þeir halda úti alls kyns viðburðum allt árið og Vasaloppet sjálft
 og undirbúningur og umstangið í kringum það kafnar einhvern veginn
og það er ósköp lítið um haldbærar upplýsingar... sérstaklega fyrir byrjendur og þá sem ekki hafa farið áður...
hvað þá fyrir þá sem aldrei hafa keppt áður á gönguskíðum...

Ég saknaði þess að hafa ekki fleiri myndir og nákvæmari lýsingar á öllu saman...
tölfræðisíðu... með öllum Vasahlaupunum... þar sem sæist hversu margir hafa mætt...
klárað, á hvaða tímum að meðaltali... hversu margir lenda í rauða kaðlinum og þá á hvaða stað flestir sem dæmi...
þessi tölfræði hefði hjálpað mann mikið... einnig hvernig veðrið hefur verið öll þessi ár, færið...
algengustu vandamálin hjá þátttakendum meðan á hlaupi stendur...
hver eru helstu mistökin, hvað þarf sérstaklega að varast og gæta sín á, passa að hafa, hversu mikið skal æfa...
ekkert af þessu er á síðunni þeirra... það er eins og allir eigi að vita þetta... og vera reynslumiklir...
já, jú... það var nú kannski bara málið :-)

Ég bjó samt ansi vel af því að vera vön að taka þátt í fjölmennum maraþonum og hálfmaraþonum erlendis
þar sem allt tilstand í kringum skráningu, að sækja gögnin, mæta í start og sækja dótið sitt í endamarki var mér tamt
og fín innsýn í að allir þessir hlutir taka mið af þúsundum þátttakenda og því er ekkert af þessu einfalt í sniðum...
Írunn var einnig með þessa reynslu og því vissum við að allt þetta tilstand er flókið og yfirgripsmikið
og best að fylgja straumnum og lesa sér vel til...
... og við vissum líka af fenginni reynslu að hvíld, næring og líkamlegur undirbúningur skiptir máli fram að ráslínu...

 

Þegar vetraði árið 2018 fór maður að liggja yfir myndböndum af Vasaloppet á Youtube...
heilu laugardagskvöldin fóru í að horfa á youtube...
og Örn, maðurinn minn sem ætlaði upphafilega að koma með okkur
og er mjög sterkur hlaupari til margra ára og reynslumikill keppandi í frjálsum íþróttum fram á fullorðinsár... 
en ólst ekki upp á skíðum og hefur dröslast með mér á svigskíði nokkrum sinnum til Akureyrar, Siglufjarðar og í Bláfjöll...
hætti snarlega við þegar við horfðum á brekkumyndbandið fræga frá Risberg... þar sem allir detta hver um annan...

Skelfingarmyndband fyrir þá sem ekki þekkja mikið til og þetta myndband átti eftir að valda mér kvíða alveg fram að hlaupinu...
ég var logandi hrædd við hana... og lá oft andvaka að kveldi við að hugsa allar mögulegar lausnir
til að komast hjá því að detta eða vera rúllað yfir af öðrum sem dyttu á eftir mér...
en svo hvarf þessi brekka í allar hinar óteljandi brekkurnar sem eru á þessari leið þegar á hólminn var komið...
ef ég hefði vitað það þá að þessi brekka væri bara eina af óteljandi eins... þá hefði ég aldrei farið...
ég vissi sem betur fer ekki að hún var ein af svo mörgum að ég var löngu hætt að telja meðan ég skíðaði,
reynandi að muna leiðina til að geta lýst henni...  því miður fyrir þá sem þetta lesa og eru smeykir við þessa brekku...

En... eitt get ég sagt til huggunar...
eitt af mörgu sem kom á óvart við að taka þátt í þessum 62 km af 90...
eftir á að hyggja og í raun sífellt meira eftir því sem leið á þessa 90 km í hlaupinu
að þá endaði ég á að finnast brekkurnar það besta við leiðina... í minningunni þykir mér vænst um brekkurnar niður...
þetta kom mér einna mest á óvart... en það var einmitt þá sem maður gat látið sig gossa... renna hratt...
ekki vera að hamast við að skíða... eða brölta í plóg upp brekkurnar og fara hægt áfram...

Og ég man að eftir því sem leið á brekkurnar á kaflanum frá Evertsberg að Oxberg
þá fann ég hvernig svigskíðareynslan í æsku kom sér vel..
ég var farin að láta mig gossa niður eins hratt og ég gat...
alveg eins og í æsku þegar maður reyndi að renna alveg niður að lyftu eða alveg niður að bíl
án þess að þurfa að erfiða við að skíða áfram... 

En nú er ég að fara fram úr mér... nánar síðar um leiðina í hlaupinu sjálfu...

 

Sjá fréttina hér: http://www.visir.is/g/2019190109317

Veturinn 2018-2019 byrjaði mildilega og ansi hlýr og snjólaus fram að áramótum...
og við urðum örvæntingarfullar þegar leið að jólum og allt jólafríið fór í skíðaleysi með öllu...
þá átti nú aldeilis að skíða... um áramótin líka... nota allt jólafríið til að æfa...
og varaplan var að fara út á land, vestur eða norður þar sem snjórinn væri til að geta skíðað þar...
en þar var heldur ekki skíðafæri... alls staðar voru gegndarlaus hlýindi og snjóleysi...
þetta var náttúrulega eitt stórt samsæri...
og sko ekki eina samsærið sem að okkur steðjaði...
því þegar veðurspáin fyrir 3. mars fór að birtast tíu dögum áður og snjókoma var eingöngu þann dag af tíu dögum...
þá vissum við að það átti ekki að gera okkur þetta auðvelt... þetta var alvöru áskorun...
við yrðum ekki "
eitt af þessu óþolandi fólki sem fer óvant upp á Hvannadalshnúk í fyrstu tilraun í bongóblíðu
og hefur ekki hugmynd um hversu oft menn þurfa stundum að fara og snúa við vegna veðurs... áður en þeir ná þessum fj... tindi
"
eins og sumir fjallgöngumenn tala... ég þar á meðal eftir að hafa náð Hnúknum í fjórðu tilraun :-) :-) :-)

Það var ekki hægt að taka þessu mótlæti með snjóleysið og veðrið á annan hátt en þann að í okkur skyldi lækka rostann...
við vorum auðvitað allt of brattar að ákveða svona lagað og við skyldum ekki komast auðveldlega upp með það...
með vaxandi auðmýkt skildi maður þetta... en hélt samt áfram eins og maður var vanur að gera í öllu...


og vonaði það besta...

Æfing 2 af 15
Snjóleysi og rispuð skíði
á Bláfjallaafleggjara og Hellisheiði:
sunnudaginn 13. janúar 2019

Örvæntingin var því ansi mikil þegar ekkert snjóaði í byrjun janúar
og komið var fram að miðjum mánuði þegar eitthvað hvítnaði að ráði...
þá var framundan var sólrík og björt helgi...
en ekki nægur snjór til að skíða og engar jákvæðar fréttir að hafa frá Bláfjöllum né Ulli...
ég trúði þessu varla og ákvað að fara sjálf og finna leiðir til að gönguskíða...
eftir að hafa spurst fyrir um að fasbókinni þar sem Árni Tryggvason stakk upp á "milli hrauns og hlíða"
og Óskar Jakobsson samsinnti vali á Hellisheiðinni...

 

Byrjaði á að keyra upp í Bláfjöll og sjá að þar var ekkert nema grjót...
snúa við og prófa smá skafinn snjó sem safnast hafði utan við stóru beygjuna á Bláfjallaafleggjaranum...
en gefast strax upp þar því snjórinn var alls ekki nægur... sem sé 250 metrar af fyrstu gönguskíðun ársins :-)

 

Keyrandi þá beint þaðan upp á Hellisheiði og leitaði þar að afleggjara til suðurs...

 

Fann einn og keyrði út á hann og fannst ég sjá nægilega þykkan snjó meðfram gömlum malarvegi...
skíðaði hann hálfan kílómetra aðra leið en margrispaði skíðin mín svo glumdi í þegar ég skíðaði...

 

... og sneri því snarlega við súr og svekkt... þetta var vonlaust...

Og upplifði þá sérkennilegu reynslu að erlendir ferðamenn höfðu elt bílinn minn út af þjóðvegi 1 á Hellisheiðinni
og tóku myndir af mér í gríð og erg þar sem ég rispaði skíðin mín þarna í fullkomnu erindisleysi...
og ég sá sjálfan mig ósjálfrátt reyna að taka mig vel út... en ekki takast það því skíðin runnu ekki á þessu grjóti :-)
jebb... þetta var sprenghlægilegt æfingatímabil :-)

 

Æfing 3 af 15
Bláfjöll upp á heiði og á braut
villtist nánast í myrkri með ekkert höfuðljós og símalaus:
miðvikudaginn 16. janúar 2019

Það snjóaði hins vegar í vikunni eftir þessa helgi og varð skaplegra í fjöllunum
svo ég skellti mér eftir vinnu upp í Bláfjöll í nokkuð kuldalegu veðri
miðvikudaginn 16. janúar... var mætt þar upp úr fimm í dagsbirtu en ekki sála á svæðinu nema ég...
furðulegt hugsaði ég... loksins þegar það kemur snjór... þá er enginn hérna... en að átti eftir að breytast...

Ég lagði af stað hefðbundna leið hjá skála Ullar og sá fljótlega för eftir annan skíðamann og elti þau...
ekki mikill snjór og heilmikil grjót og börð upp úr snjónum en þó nægilegar snjórennur til að ná að skíða
og ég sá að slóðin náði upp úr dalnum og áfram upp á heiðina og það leist mér vel á því
ég var ekki sérlega spennt fyrir 1, 3 og 5 km brautunum í Bláfjöllum sem var það eina sem ég var áður búin að skíða
að ráði síðustu ár og hafði einmitt aldrei fundið leiðina upp á Heiðina Háu þrátt fyrir nokkrar tilraunir árin á undan
og skýring virtist alltaf sú að ekki hefði verið lögð braut eða jú hún væri þarna en enginn vissi hvar átti að fara á hana...

Ég greip því þetta tækifæri fegins hendi og naut þess að fara nýjar slóðir
en það tók fljótlega að skyggja og ég áttaði mig strax á því að ég hafði ekki hugsað þetta til enda og verið með höfuðljós...
það var nýtt fyrir mér að þurfa ljós á gönguskíðum, hingað til bara verið í dagsbirtu eða á Ullarsvæðinu sem er upplýst...
það var tunglbjart og snjór yfir öllu svo ég ákvað að það myndi nægja mér sem birtugjafa lengstum
og ef ég væri fljót þá myndi þetta sleppa fyrir myrkur...
þaulvön að ganga á fjöll með höfuðljós síðustu tólf árin og einnig vön að nýta sem mest náttúrulegu birtuna
ef hún gefst af snjó og himni en þetta var engu að síður vítavert kæruleysi...

Fljótlega sá ég að þetta var óraunsætt af mér og íhugaði að snúa fljótlega við...
ég hefði þá alltaf ljósið af símanum til að lýsa mér ef ég sæi ekkert...
og gæti þá alltaf hringt í Örn ef ég rataði ekki til baka og beðið hann að lóðsa mig inn með korti í gegnum símann...

Ég ákvað að taka mynd af rökkrinu þarna upp frá ein í heiminum og fannst þetta mögnuð upplifun að vera þarna alein...
en greip í tóman vasann... og hugurinn fór á fullt... ég hafði lagt símann frá mér í bílstjórasætið þegar ég fór í aukabolinn við bílinn...
og greinilega ekki stungið honum svo aftur í vasann...

Þarna krossbrá mér og hjartað fór á fullt... ég var hvorki með höfuðljós, né síma né hundinn með mér...
alein uppi á heiði á gönguskíðum á slóða sem varla var greinanlegur og fennti í á köflum í skafrenningnum...
skyndilega var allur sjarmur farinn af þessu og ég var skelfilega ein þarna og umkomulaus og fór að skjálfa af ótta... gat ekki annað...
ég hafði þverbrotið allar útivistarreglur og var ekki með lágmarksöryggisbúnað...
sneri við í hasti og rýndi í sporin eftir sjálfa mig til baka,
en nú var erfiðara að sjá þau þar sem þau voru niður í mót og myrkrið jókst með hverri sekúndunni...

Ég reyndi að nýta mér kennileitin í nágrenninu og það voru bestu rötunartækin þessa stundina
en þegar neðar var komið fannst mér skrítið að beygja svona mikið til hægri þegar slóðin virtist sýna það.
Ég efaðist um þessa beygju en ákvað að láta mig hafa það og reyndi eins og ég gat að rifja upp uppgönguleiðina
og fannst þetta geta passað en samt sagði mér eitthvað að þetta væri ótímabær beygja
og vitandi að röng beygja er fljót að verða afdrifarík þá leið mér verulega illa og var bókstaflega skjálfandi á beinunum af ótta og óvissu...

Skyndilega varð bröltið í hliðarhallanum kunnuglegt og ég kannaðist við brekkurnar
og þá fór mér að líða betur... en svo sá ég stórar langar brekkur framundan á hægri hönd sem ég kannaðist ekkert við...
og allt í einu fóru ljósgeislar að lýsa tilviljanakennt um þessar brekkur í fjarska...
voru þetta leitarmenn að leita að mér ? hvernig vissu þeir að ég var hérna upp frá ?
voru þetta starfsmenn Bláfjallasvæðisins sem sáu að það fór bara ein kona á gönguskíði þarna upp frá seinnipartinn og nú var komið myrkur og ekki mjög gott veður og þeir höfðu áhyggjur af mér og voru að skima um eftir mér... sniðugt hjá þeim að lýsa upp í brekkuna því þannig gat ég séð að ég var á réttri leið... svona hugsanir þutu um huga mér og ég var ólýsanlega fegin að sjá þessi ljós...

Ég renndi mér niður í þennan dal sem mér fannst vera ofan við gönguskíðasvæðið sjálft...  og þá heyrði ég mannamál...
og sá fleiri ljós... og allt í einu var ég lent að brautinni á Ullarsvæðinu þar sem fólk skíðaði á fullu 1 km hringinn í myrkrinu og flestir með höfuðljós... nú, ég skil... þetta voru bara gönguskíðamenn að skíða með ljós sem lýstu tilviljanakennt upp í brekkurnar fyrir ofan... ekki starfsmenn Bláfjallasvæðisins að leita að mér... það sem maður getur verið sjálflægur, jeminn :-)...

Ég var enn með hjartað að hamast á fullu... guðslifandi fegin að sjá allt þetta fólk... sem hafði greinilega mætt á eftir mér... auðvitað...
vildu nýta snjóinn sem var kominn og færið... ég var komin á fremsta hlunn með að faðma næsta mann að mér og segja þeim hversu hætt ég var komin í myrkrinu alein uppi á heiði með hvorki ljós né síma og engan hund til að gefa mér styrk bara fimm mínútum áður...
en í stað þess renndi ég mér bara inn á brautina og varð hluti af þessu fólki... fólki sem tók ekkert eftir því að ég kom úr annarri átt...
og náði mér smám saman niður í hræðslunni og skjálftanum...

Ef þau bara hefðu vitað hversu hrædd ég var stuttu áður...
þetta var eins og að ganga úr martröð inn í öruggan heim þar sem öll þessi mannahljóð og afslappaða umhverfi var svo kærkomið...
ég geymi þessu aldrei og get ennþá heyrt vinalegan kliðinn í fólkinu sem fór brautina þetta kvöld í fullkomnu áhyggjuleysi...

Ef ég bara hefði vitað að þetta var ein af nokkrum eldraunum sem biðu mín á æfingatímabilinu fyrir Vasaloppet...

 

Sjá hér leiðina upp á heiðina að hluta og svo litla hringinn við Ull efst á gps-slóðinni þar sem ég fór nokkra hringi.

 

Æfing 4 af 15
Bláfjöll á eigin braut
í snjókomu, kulda og skafrenningi
fimmtudaginn 17. janúar 2019

Daginn eftir hrakningarnar á heiðinni ein í myrkrinu fór ég með hundinn með mér á aftur upp í Bláfjöll
og ætlaði að nýta brautina frá því deginum áður til að skíða í friði og ró...
eða skíða upp á heiðina og leyfa þá hundinum að koma með
þar sem hann var vanur að skokka um þetta svæði við Kerlingarhnúk
á fjallgönguæfingum og hlyti að mega það án þess að ég vissi nokkuð um það... 

 

Veðrið var hins vegar ekki gott þegar komið var upp eftir...
og gamlar minningar um að keyra í blíðskaparveðri upp í Bláfjöll og enda þar í kuldatrekki helltust yfir mig...
já... ég átti að vita þetta... eins og fjallgöngurnar voru líka fyrir löngu búnar að kenna manni...
ekkert að marka veðurleysið í borginni þar sem alltaf er gott veður allt árið um kring...

Í annað sinn var ég þarna upp frá ein á ferð... og lagði við hliðina á bíl starfsmanna á svæðinu
þar sem færið var mjög þungt upp eftir og ég elti förin þeirra til að festa ekki bílinn á óruddu bílastæðinu...
og svo var það ákveðin öryggistilfinning að þau sæu að ég væri þarna ef ske kynni...
brennd af upplifun gærkveldsins að verða svona umkomulaus í myrkrinu...

 

Ég endaði á að búa til 1 km braut á Ullarsvæðinu með því að fara eins innarlega og ég gat til suðurs
og snúa við og fara smá krók að austurdalnum og til baka...

Það fennti í sporin um leið og ég var í vandræðum með að sjá sporin eftir sjálfa mig á ekki stærri hring en þetta
en nýtti mér kennileitin af staurunum og brekkunum í kring... annars rann allt út í eitt... og skyggni var skelfilegt...
ein af mörgum stundum síðustu ár þar sem ég finn að ég er að eldast og sé ekki eins vel og áður
og er sífellt farin að reiða mig meira á ágiskanir um hvað er framundan en raunverulega hvað ég sé...

 

Batman elti mig fyrstu hringina en sá fljótt að ég fór alltaf sömu leið þannig að hann hélt yfirsýn með því að dóla sér nær miðju hringsins
og taka stöðuna á mér öðru hvoru... en hann koma alltaf þegar ég kallaði og lét sig hafa þetta volk allan tímann...
tryggari félaga fær maður ekki á fjöllum... ég vonaði að það væri í lagi að hann væri þarna...
ekki sála á svæðinu allan tímann nema ég og starfsmennirnir...
sem voru í óða önn að undirbúa fyrstu opnu Bláfjalla nokkrum dögum síðar...

 

Mér leið vel á riffluðu Atomic-skíðunum mínum og í skónum mínum og með stafi...
allt keypt í Íslensku Ölpunum árið 2016 og lítið notað...
en hef þetta hér til minningar en Írunn velti búnaðinum meira fyrir sér en ég sem hefði bara farið á þessu í Vasaloppet
en þökk sé henni þá endaði hún á að kaupa handa mér Madshus skinnskíði í Noregi (kostuðu 80 þús á tilboði)
meðan ég var úti á Kanarí um mánaðarmótin og það kallaði svo á aðra skó þar sem þessir pössuðu ekki á nýju bindingarnar
 (kostuðu 20 þús í Íslensku Ölpunum) ... en stafirnir voru fínir og léttir :-)

 

Þennan dag fór ég 10,2 km á tveimur klukkustundum á eigin braut í skafrenningi...
mjög hægt eða 5,1 km á klukkustund... þetta var hraði sem þýddi 17 klukkustundir eða svo í Vasahlaupinu...
og ég reyndi að kenna veðrinu um og færinu...
jú, það var auðvitað aðalorsökin... en gat ég að skíðað mikið hraðar ?
... ég var allavega ekki að fara í Vasaloppet á þessum hraða ...

 

Æfing 6 af 15
Túnið í Rimahverfi
á eigin braut í smá brekku og nokkrum hólum
sunnudaginn 20. janúar 2019

Þessa helgi í janúar hélt áfram að snjóa
og því fékk ég tækifæri til að gera það sama og ég hafði gert fyrir tveimur árum...

 

... að skíða frá húsinu mínu í yndislega Rimahverfinu mínu
og búa til eigin gönguskíðabraut um 400 m langa við stórt tún hjá Rimaskóla...

 

Algert yndi að gera þetta og forréttindi að fá að upplifa en þarna voru aðstæður heldur ekki með besta móti
og bröltið átti eftir að gefa mér fínustu æfingu fyrin það sem koma skyldi í Vasahlaupinu...
nefnilega að skíða nánast alfarið í engum slóða eða í sporin á næsta manni með snjóinn kyngjandi niður á hverri sekúndu...

 

Ég var ekki mikið hraðari þarna en fyrr þennan vetur... og jú, auðvitað ekki góðar aðstæður...
léleg eigin braut þar sem krakkarnir í hverfinu sem átti leið um gengu meira að segja í sporin mín eins og ekkert væri sjálfsagðara
dauðfegin að þurfa ekki að finna sjálf út slóð rétt á meðan ég skíðaði hinum megin á hringnum :-)

 

Útúrdúr til Kanaríeyja í maraþon:

 Um miðjan janúar var ég orðin ansi stressuð að komast á skíði þar sem framundan var 12 daga ferð til Kanaríeyja
með eiginmanni og yngsta syninum (hann reyndar hætti svo við vegna körfuboltamóta)...
þar ætluðum við reyndar að taka þátt í fyrsta maraþoninu okkar eftir 5,5 ára hlé á maraþonhaupum...
ætluðum bara að fara rólega... þar sem við æfðum ekki almennilega fyrir það eins og áður
en engu að síður vissi ég að þessi þjálfun og þátttaka í 42 km keppnishlaupi myndi hjálpa mér í Vasahlaupinu
upp á þol og að halda út þanin og móð í marga klukkutíma...
en allt annað á Kanarí var ekki að hjálpa mér... ströndin og hitinn... skíðaleysið sjálft...

Ég fór maraþonið á 3:49:17 og var það samkvæmt áætlun um að fara undir fjóra tíma
en þetta var langt frá öllum mínum fyrri maraþontímum...
en það var vitað þar sem ég var nánast hætt að stunda hlaup síðustu ár... í mesta lagi tvisvar í viku...
hjólandi og á fjöllum frekar en að hlaupa...

6:43:08 Laugavegurinn 2001 - 8,19 km/klst - 7,2 mín/km.
3:30:30 í London 2002 =
12,03 km/klst - 4:59 mín/km.
3:29:58 í haustmaraþoninu Rvík 2002 =
12,06 km/klst - 4:59 mín/km.
3:27:31 Í Búdapest 2003 =
12,2 km/klst - 4:55 mín/km.
6:51:48 Laugavegurinn 2008 =
8,01 km/klst - 7,29 mín/km.
6:04:41 Laugavegurinn 2009 =
9,05 km/klst - 6,49 mín/km.
3:19:15 í París 2012 =
12.71 km/klst - 4:43 mín/km.
3:21:41  í Berlín 2013 =
12,55 km/klst - 4:47 mín/km.

http://fri.is/afrekaskra/keppendur/kep31326.htm


http://www.mosfellsbaer.is/forsida/frettir/frett/2019/01/21/Gonguskidabraut-a-Tungubakkavelli/

Enda var ég svo óheppin að þegar kuldakastið reið yfir landið og snjór féll um allt svo gönguskíðabrautir lágu í öllum hverfum, alla leið á Lyngdalsheiðina á Þingvöllum sem var með ólíkindum... það var meira að segja braut í Grafarvoginum mínum... á Korpuvellinum... þá sat ég á sundlaugarbakka á Kanarí og missti af öllu saman... hékk bara á "Umræðuhópnum um skíðagöngur" á fasbókinn og fékk dýrmæt ráð þar frá góðu fólki sem ég þekkti ekki neitt en var svo góðviljað að svara fyrirspurnum systur minnar um muninn á skinnskíðum og brautarskíðum sem dæmi...
og fleiri umræður spunnust af þessum spurningum okkar sem við bjuggum að fyrir Vasa...

 

Æfing 7 af 15
Skálafell frá veginum á heiðinni
misheppnuð tilraun í þýftu harðfenni og sneri við
miðvikudaginn 6. febrúar 2019

Þegar ég kom heim frá Kanarí þann 5. febrúar... var kuldatímabilinu nákvæmlega lokið upp á dag nánast...
þriðjudaginn 5. febrúar var kominn mikill vindur og hlýjindi, aðvaranir um lítið ferðaveður og vegum var lokað...
dæmigert hugsaði fórnarlambið ég... missti af þessu dýrðarinnar kulda-snjó-gönguskíðabrautir-um-allt-tímabili...
og var súr... en hélt samt enn í vonina... það var jú mánuður í Vasahlaupið...

Þegar kom því ágætis veður daginn eftir heimkomuna frá Kanarí og það var ennþá smá snjór í fjöllunum
þá skellti ég mér upp í Skálafell og vonaði að það væri nægur snjór þar til að geta skíðað þó ekki væri nema smá...
í bullandi samviskubiti með æfingaleysið síðustu tvær vikurnar...

En þetta reyndist vonlaust... ekkert hægt að skíða og bara holur og hólar og autt á milli
svo ég sneri fljótlega við og keyrði í bæinn og ákvað að taka æfingu við húsið í Rimahverfinu mínu til að ná einhverri hreyfingu...

En þess skal getið að þegar ég keyrði frá Skálafelli...
gegnum nokkra skafla svo ég var næstum búin að festa bílinn þarna alein upp frá og smeyk við færið...
þá var fólksbíll búinn að leka aðeins út af veginum í mjúkan skafl niður frá og ungt fólk komið út...
ég stoppaði og þau þurftu þá að láta draga bílinn upp á veg aftur en mér leist ekki á fólkið og ég treysti mér ekki til þess ein
og sagði þeim að hringja í Vöku eða skyldmenni sem gætu komið með kaðal...

 

Æfing 8 af 15
Túnið í Rimahverfi
á eigin braut í erfiðum snjó
miðvikudaginn 6. febrúar 2019

Eftir þessa misheppnuðu tilraun kom ég heim um hálf sjö og fór út í tæpan klukkutíma...
gat alveg verið þakklát að ná því samt... ekki sjálfgefið...
en færið var skelfing og þetta var lélegt spor frá sjálfri mér sem ég reyndi að ná einhverju formi á...
þarna var komið rökkur og ég hlustaði á fréttirnar í símanum og steingleymdi að taka mynd...

 

Æfing 9 af 15
Bláfjöll á góðri braut
á ísköldum vindi og myrkri með Írunni
í fyrsta sinn á nýju skíðunum... en skórnir pössuðu ekki...
fimmtudaginn 7. febrúar 2019

Fimmtudagurinn 7. febrúar var sólríkur og fallegur dagur
og ég sendi sms á Írunni um hvort við ættum að skella okkur í Heiðmörkina að prófa nýju skíðin.
Lendingin var að fara frekar í Bláfjöll þar sem ég ætlaði að prófa nýju skíðin
og við treystum ekki Heiðmörkinni til að vera nægilega hrein af grjóti og öðru sem gæti rispað þau.
Vorum samt hvorugar búnar að fara þar um áður og vissum ekki hvernig leiðin var...
...  og veit að við hefðum valið Heiðmörkina ef við hefðum vitað hvurs lags dýrðarinnar æfingasvæði það var...

Tók því miður enga mynd þetta kvöld... skil það ekki samt...
en auðvitað lenti maður í vandræðum eins og á öllum æfingum fram að Vasa nánast :-)
... hvernig sem ég reyndin þá gat ég ekki fest skórinn á skíðin... þeir áttu að passa skv. búðarmanninum...

Við vorum svo heppnar að það var opið í Ullarhúsinu og þar voru miklir öðlingar sem við gátum spurt hvað væri málið...
héldum að ég væri ekki að fara rétt í bindingarnar eða eitthvað væri vanstillt
þeir skoðuðu græjurnar og skildu ekkert í þessu fyrst..
en svo kom í ljós a 3ja ára gömluskórnir mínir keyptir 2016 fyrir riffluð skíði
voru orðnir of gamaldags fyrir nýrri gerðina af bindingum á skinnskíði...

Ullarmenn buðust til að lána mér skó án endurgjalds og fóru með okkur í Ullarhúsið þar sem leigan er
en ég tók ekki annað í mál en að fá að borga fyrir leiguna og gerði það með glöðu geði
því þetta var ekki sjálfgefið að geta reddað sér sisvona... ef við hefðum farið í Heiðmörkina,
hefði ég þurft að snúa heim og sækja gömlu skíðin sem ekki hefði verið tími tilað gera
og því vorum við ljónheppnar að lenda á þessum mönnum og fá slíka þjónustu :-)

Nýju skíðin og lánsskórnir voru skínandi fín, ég fann í raun ekki mikinn mun,
fannst það fyrst en svo gat ég ekki sagt það í raun...
hafði líkað mjög vel við riffluðu skíðin mín en fann að þessi virtust sleipari...

Þetta kvöld var mjög kaldur vindur sem beit í gegnum allt...
og ég datt illa í brekkunni í beygjunni... það var sérlega vont þegar manni var svona kalt
ný lífsreynsla sem Írunn var búin að lýsa fyrir mér frá Noregsæfingaferðinni hennar til Tinnu Lífar í janúar
þar sem var mjög kalt einn daginn og brekkurnar mun brattari en hér á Íslandi og við fall beit harkalega í á eftir...

Við fórum heim eftir +/- 7 km æfingu ískaldar en alsælar með æfingu dagsins
Írunn var mun fljótari en ég á skíðunum og ég gerði mér þarna grein fyrir því að tæknilega séð var ég ekki góð á gönguskíðum
 í samanburði við hana og hraðinn myndi há mér í Vasaloppet... ég sætti mig þarna strax við þá staðreynd að ég yrði alltaf 11-12 klukkutíma í mark og mitt mikilvægasta markmið væri ekki að ná góðum marktíma heldur bara að komast alla þessa 90 kílómetra... og öll mín hugsun snerist í kringum þetta... að endast... ekki að ná þessu á góðum hraða...

 

Æfing 10 af 15
Heiðmörkin á hluta af brautarhringnum
í fínu veðri og færi en ljóslaus í rökkri í lokin
mánudaginn 11. febrúar 2019

Enn var maður ekki búinn að prófa Heiðmerkurhringinn og hafði ekki hugmynd um hversu frábær sá hringur er
þegar ég dreif mig upp í Heiðmörk mánudaginn 11. febrúar eftir óveðurshelgi
en tók hundinn með mér og ætlaði því ekki að fara þennan hring heldur skoða leiðina að honum
og fara lengra upp eftir og skíða bara eigin braut og leyfa hundinum að leika sér á meðan...

... örlög þeirra sem eiga hund...
að vilja ekkert fara útiverulega séð nema geta tekið hundinn með og leyft honum að njóta líka...
því annars er maður að svíkja og skilja út undan besta útivistar-vininn sinn...

Ég keyrði lengst upp eftir og skimaði alls staðar eftir góðu berstæði eins og túninu við Rimaskóla
og sá fyrir mér að ég myndi búa til góðan hring og fara hann tíu sinnum eða svo...
en slíkt svæði kom ekki í ljós fyrr en mjög ofarlega í Heiðmörkinni... þá komin ansi nálægt Hafnarfirðinum
og lagði ég bílnum á góðum stað og lagði af stað...

Ég kom hins vegar fljótlega á gönguskíðabraut sem kom mér mjög á óvart...
var brautin virkilega svona langt upp eftir á heiðinni ?
var samt ekki viss um hvort þetta væri þessi dæmigerða Heiðmerkurbraut og ákvað að prófa hana
þar sem ekki var sála á ferðinni þarna...
ákvað þegar brautin reyndist svona glimrandi góð og létt yfirferðar að ég skyldi fara 5 km út eftir og svo 5 km til baka...

Hundurinn fylgdi mér og við vorum ein í heiminum þar til við komum að brattri brekku...
sem ég komst síðar að, að var dauðabrekkan svokallaða...
þar sneri ég við enda gat ég ekki hugsað mér að fara niður svona bratta brekku
en þarna var ég ekki búin með nema um 3 km minnir mig og þá ákvað ég að fara bara fram og til baka...

Í bakaleiðinni var ég í raun að fara á móti umferð þar sem flestir fara rangsælir Heiðmerkurhringinn
og þarna fór ég að mæta fólki en þó ekki fyrr en ég var komin framhjá mínum bíl og áfram í hina áttina...
hundurinn gelti því miður á fólkið og ég ákvað að þetta gengi ekki en svo kom enginn annar og því freistaðist ég til að halda áfram...
enda ætti líklega hundurinn rétt á að vera þarna alveg eins og við...
sá ekki hundabönnunarskilti en var samt óviss með stöðuna á þessu...

Mætti fljótlega tveimur hlaupururm sem ég þekkti og spurði þau hvort þetta væri hinn eiginlegi Heiðmerkurhringur, jú, þetta var hann
og hann var víst 8 km langur... ég hélt því áfram þar til ég kom að annarri brekku niður...
sneri þar við því mér leist ekki á hana en þetta var brekkan við eitt af bílastæðunum
þar sem maður plógar sig alltaf upp á veginn og þverar hann til að halda áfram...

Ég var búin með um 6 km þegar ég var komin aftur að bílnum og ákvað því að fara aftur styttri hring
til að ná aðeins meiri vegalengd en þarna dimmdi fljótt og ég var hætt að sjá vel hvar ég var stödd
og í annað sinn var ég ekki með höfuðljós... og varð því smá smeyk með að rata til baka
en passaði mig að halda mig alveg á brautinni og var áður búin að leggja vel á minnið beygjuna að bílnum
þar sem þangað var talsverður spotti frá brautinni sjálfri... varð samt smeyk og húðskammaði mig aftur fyrir ljósleysið...
en lærði samt ekki nægilega mikið á þessu...
því ég átti eftir að gera þessi sömu mistök tvisvar áður en undirbúningstímabilinu lauk... ótrúlegt alveg...

Náði 9,4 km æfingu og hefði lengt upp í 10 km ef ég hefði séð eitthvað á úrið...
en það fylgir því að eldast... að sjá ekki.... ekki einu sinni á hlaupaúrið nema í fullkominni dagsbirtu...
og því hafði ég ekki hugmynd um hversu langt ég var búin að skíða þegar ég fór í bílinn í rökkrinu og keyrði heim...
langa leið í gegnum Heiðmörkina ein og enginn annar á svæðinu svona seint á ferli...

 

Æfing 11 af 15
Fjallasel í Landsveit
á eigin braut í sveitinni við bústaðinn okkar
föstudaginn 15. febrúar

Sumt var ekki með manni í undirbúningi fyrir Vasahlaupið árið 2019... reyndar margt ef maður vill leika fórnarlambið...
en eitt af því sem var með manni var helgin 16. - 18. febrúar...
en þá höfðum við ákveðið að fara langa helgi upp í bústað þar sem Örn ætlaði að vinna í bókhaldi bænda á svæðinu
og ég ætlaði helst að ná tveimur gönguskíðaæfingum á föstudegi og laugardegi... 
og gera svo margt annað sem maður elskar í sveitinni og var uppsafnað í þessari paradís á jörð...

Við fórum upp eftir á fimmtudagskvöld fyrir tvær nætur þar sem yngsti sonurinn þurfti að vera í bænum á laugardagskvöld og sunnudag til að mæta í fermingarmessu og því var helgin tekin löng og í tveimur hlutum...

Föstudagurinn rann upp fagur og sólríkur... og algerlega lygn...
snjór yfir öllur og þetta leit vel út... við vorum hins vegar upp frá í fyrsta sinn síðan í byrjun nóvember
svo það var margt annað sem við vildum gera... eins og að baka bananabrauð og hjónabandssælu
með syninum og því fór morguninn og hádegið í það...

... og ég fór ekki út að skíða fyrr en upp úr klukkan tvö...
hélt þá að ég hefði nægan tíma og var búin að ímynda mér að fara helst 20 km...
eða lengra ef mér hugnaðist það...

Þarna var ég ennþá á gömlu riffluðu skíðunum mínum...
og átti eftir að taka allar æfingarnar mínar á þeim nema rétt til að prófa skóna í Bláfjöllum 1 km og eina stutta myrkuræfingu í Noregi
af hreinum trassaskap við að kaupa ekki nýja skó...

Smá hik á mér reyndar líka þar sem ég var búin að eyða svo miklum peningum í þetta Vasahlaup
og var ennþá þarna að íhuga að hætta við... og fannst því ekki forsvaranlegt að eyða peningum í skó sem ég myndi svo ekki nota fyrr en síðar... ég hefði samt betur keypt þessa skó... því þessir gömlu áttu eftir að skaða á mér hælana þessa helgi svo mjög lengi var að gróa...
og ógnaði nánast þátttökumöguleikum mínum í sjálfu Vasahlaupinu...

Ég var ekki fyrr lögð af stað en ég ákvað að fara lengra en 20 km... því það var dýrðarinnar upplifun að skíða í sveitinni sinni... hvílík forréttindi að vera þarna með fjallasýn og hesta... fannhvíta jörð og friðinn einn í heiminum með hundinum sínum...

Ég reyndi að búa til eins langan hring og ég gæti og endaði á 4 km hringum
sem ég náði að búa til meðfram girðingunum og meginveginum inni á landinu að Fjallaselinu okkar...
en misreiknaði mig reyndar þar sem ég gleymdi að draga frá kaflanum frá bústaðnum mínum
og hélt fyrst að hann væri 5 km sem hentaði vel og var mjög ánægð þar til ég sá vitleysuna í hring tvö...

Veðrið var algerlega fullkomið... logn, sól og gott skyggni... engin leið að lýsa fegurðinni þarna og friðnum...

Færið og leiðin var ágæt að mestu...
ég gat nýtt skaflana sem höfðu skafist meðfram veginum og svo meðfram girðingunni
og svo þurfti ég að fara yfir langa þýfða kafla sem tafði en var samt ágætlega krefjandi
og á leiðinni voru tveir góðir hólar sem æfðu vel plóg upp og smá jafnvægi við að renna niður brekku niður í mót...

Hestarnir hinum megin við girðinguna lifðu sig inn í gönguskíðamenninguna og heilsuðu forvitnir upp á okkur
en hundurinn hélt þeim á mottunni samt og þóttist verja mig gegn þessari hlaupandi villihjörð
sem naut þess bara að finna að fleiri en þeir voru að njóta útiverunnar...

Batman var himinlifandi með þessa útiveru en átti eftir að gefast upp á mér þegar klukkutímarnir tóku að tikka inn
og frostþokan læsti sig í allt... en það gerðist ótrúlega fljótt...

Ég ákvað að taka þetta á sálfræðinni og fara hringinn fram og til baka...
blekkja mig þannig til að finnast ég bara þurfa að fara fjóra hringi til að ná 40 km með því að fara fram og til baka...
en svo reyndist hringurinn vera 4 km en ekki 5 km og því urðu hringirnir fleiri...

Sólin lækkaði lygilega hratt á himni... og ég sá þegar rökkrið skreið inn að ég var ekki að ná 40 km fyrir myrkur því miður...
þrátt fyrir fullkomnar aðstæður, veður og líðan...

Örn hafði áhyggjur af mér... ég hafði lagt af stað ákvæmlega kl. 14:18... og var enn að klukkan sex... og hvergi hætt...
hann kom því keyrandi frá bústaðnum með vatnsflösku handa mér og tók myndir í leiðinni...

Frostþokan læddist inn ísköld og hrímandi og andrúmsloftið var mjög sérstakt á svæðinu...

Mér leið hins vegar vel og vildi ekki hætta...
var forvitin að sjá hvort ég gæti farið 40 km og hvernig mér liði við það...

Varð samt að játa mig sigraða þegar myrkrið skall á og ákvað að ná allavega 30 km...
gleymdi svo tvisvar að kveikja á úrinu aftur eftir að hafa stoppað til að fá mér vatn
og missti líklega 2 km úr mælingum en vildi ekki reikna það með þar sem ég hafði þörf fyrir að sjá 30 km á úrinu
og hafa tölfræðina þannig skjalfesta...

Ég hélt því áfram eftir að það var komið myrkur
og lenti í því þegar komið var að kvöldmatarleyti að bílar annarra bústaðaeigenda fóru að keyra inn á svæðið
og var með þá við hliðina á mér í myrkrinu nokkrum sinnum...
veifandi ættingjum mínum sem deila þarna ættarjörð sem okkur þykir öllum óskaplega vænt um...
mjög sérstakt... og glæný upplifun af þessum sveitavegi sem maður er búinn að keyra frá því maður var barn...

Sætur sigur... lengsta vegalengdin til þessa... 30 km á 4:27 klst. á hraðanum 6,75 km á klst.
var stirð af kulda... þreytu og orkuleysi... leið samt ágætlega... og var himinlifandi um kvöldið...

Lagði af stað kl. 14:18 frá bústaðnum... og kom í hús kl. 19:25...
vá, hvað ég hefði þurft að leggja fyrr af stað...

Á æfingatímabilinu árið 2019 hefði ég þurft að flétta upp æfingunni í apríl 2018 þar sem ég fór 24 km á 2:45 klst...
því það hefði hjálpað mér til að finnast ég ekki eins léleg hvað tímann varðar
því þar fór ég mun hraðar enda aðstæður allt aðrar en þarna í sveitinni...

 

Æfing 12 af 15
Fjallasel í Landsveit
á eigin braut í ísköldum vindi og skafrenningi
laugardaginn 16. febrúar 2019

Daginn eftir þessa 30 km æfingu var allt annað veður á ferðinni...
nú lék ískaldur vindur um Landsveitina og skafrenningur var búinn að fjarlægja nánast alveg brautina mína
frá því kvöldinu áður... ég var ekki einu sinni með föt til að æfa í í svona miklum vindi og kulda...
og tíndi því til alls kyns vinnuföt úr bústaðnum til að halda á mér hita...
og fékk lánaða ullarlambhúshettuna hans Arnar... hlífðarvettlingana hans... og primaloft-úlpuna...

Brautin sem ég naut svo mikið að fara nokkra hringi um deginum áur var horfin að mestu í vindinum...
og snjómagnið var minna... að hluta til skafið burt í grimmum vindinum....

... og veðrið var mun kuldalegri en deginum áður...
en samt fallegt og alger forréttindi að fá að upplifa þetta...
ein með hestunum og hundinum...

Svona leit brautin út frá bústaðnum og í átt að hringnum mínum góða...
förin eru vinstra megin.. yfir þúfur og gras... en samt í lagi...
en snjórinn búinn að feykjast burt í vindinum frá því í gær...

Sjá brautina meðfram veginum frá vestri til austurs... sem hluti af hringnum...

Stundum var búið að fenna vel yfir og ég þurfti að búa til nýja braut á hverjum hring að hluta...

Tímaþröng, veður og þreyta ollu því að ég fór ekki nema 10 km þennan laugardag...
hefði verið svo flott að ná lengri vegalengd... einmitt með þreytu gærdagsins í mér...
til þess að æfa það að skíða 90 km í einni beit í mars...

En... ég var hikandi allan morguninn...
reynandi að njóta þess að vera í sveitinni og gera eitthvað annað en að æfa gönguskíði...
þar til ég dreif mig út... og sá þá strax eftir því að hafa ekki farið fyrr út til að ná lengri vegalengd...
og ákvað því í staðinn að fara langa æfingu á sunnudeginum í bænum...

 

Æfing 13 af 15
Heiðmörk 8 km hringurinn fimm sinnum
á mjög góðri braut og frábæru veðri
en myrkri í lokin með ekkert ljós...
sunnudaginn 17. febrúar 2019

Þriðji dagur helgarinnar... sem endaði á að vera ofurhelgin mikla... og hefði verið sniðugra að skipuleggja betur en ég gerði
endaði á að gefa mér 40 km æfingu þar sem nú var ég loksins komin á braut sem var frábær
og gaf mér mikið hvað varðar æfingu í brekkum og að skipta um spor...

Írunn hafði farið 40 km deginum áður og var 4,5 klst. að því...
það var nóg til að gefa mér innblástur og ákveða að gera það saman... ná þannig rúmlega 80 km helgi á þremur dögum...
andlega var það mjög gott sem undirbúningur fyrir 90 km...
og ég minntist Hugrúnar Hannesdóttur frænku minnar
sem tók einmitt 90 km þrjá eða fjóra daga í röð yfir áramótin 2011 - 2012 þegar við fórum
langa skíðahelgi norður á Akureyri og hún var þá að æfa fyrir Vasaloppet og við að leika okkur á sviskíðum...
ég man hversu ánægð hún var að ná þessari vegalengd á þremur dögum eða hvað það nú var...
en við Írunn höfðum oft rætt um að ná slíkri helgi
en vorum einhvern veginn í raun hættar að spá í það í öllu þessu snjóleysi þennan veturinn...

Sjá viðtal við Hugrúnu í janúar 2012 þar sem hún tekur einmitt fram að það sé ekki sjálfgefið að klára gönguna vegna tímamarka
en árið 2012 voru aðstæður reyndar með besta móti og áttu ekki eftir að koma aftur allt þar til við fórum árið 2019 skv. lýsurum í beinni útsendingu frá Vasaloppet þar sem lýsarar spáðu lokatíma fremstu manna um 4,5 klst. til samanburðar við sigurtímann 3:38:41 hjá Jörgen Brink en sá tími er ennþá besti tíminn í sögu Vasaloppet:  
https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2012/01/26/ekki_sjalfgefid_ad_klara_gonguna/

Fann ekki bílastæðið...

En... aftur að Heiðmörkinni... ég byrjaði auðvitað á því að finna ekki bílastæðið til að leggja bílnum...
í stað þess að beygja til vinstri inn veg 408 að bílastæðunum sem fara ekki framhjá manni líklega
keyrði ég áfram af því ég er vanari þeirri leið í fjallgöngunum...
og á þeirri leið skimaði ég grimmt eftir líklegu gönguskíðafólksbílastæði... fann fleiri en eitt og stoppaði
en sá engan á skíðum, bara á göngu... og það var ótrúlega mikið af fólki um allt í Heiðmörk, kom mér mjög á óvart þó veðrið væri svona fallegt... það var jú miður vetur og snjór um allt... en svo fann ég stórt bílastæði og fullt af bílum og ég sá gönguskíðaför og lagði því bílnum og lagði af stað eftir þessum förum... en þau urðu fljótt mjög erfið og það var mikið af fótsporum ofan í þeim og þegar skógurinn þéttist og endaði í miklum beygjum og brekkum þá runnu á mig tvær grímur og ég trúði því ekki að þetta væri hinn eiginlegi Heiðmerkurhringur.

Hringdi í Írunni og spurði hana hvernig aðstæður væru, hún staðfesti að þetta gæti ekki verið hringurinn,
það ættu að vera vel mótuð spor, tvöföld og þetta færi ekki á milli mála...
ég sneri við en á þeim tíma höfðu fleiri lagt bílunum sínum og elt mig á skíðunum sínum svo ég var ekki sú eina í heiminum sem ekki rataði...
ég sagði þessu fólki að þetta væri líklega ekki gönguskíðaleiðin þó það væru för eftir aðra
og sagðist ætla að leita betur. Ein hjónin ákváðu greinilega að elta mig og keyrðu á eftir mér upp eftir heiðinni. Ég ákvað að leita ekki frekar að þessu bílastæði heldur fara bara á sama stað og síðast eða svipaðan og reyna að finna staðinn þar sem ég mundi að brautin fór yfir veginn.

Fljótlega varð vegurinn erfiðari og minna um bílför og þar sem ég var á jeppa var þetta ekkert mál fyrir mig
en bíllinn sem elti mig sneri við þar sem þau gátu ekki keyrt á þetta snjómiklum vegi.
Mér fannst ég keyra ótrúlega lengi, lengur en síðast og var farin að halda að ég væri komin til Hafnarfjarðar
og að Búrfellsgjá þegar ég allt í einu kom að bílastæðinu sem ég hafði í huga...
veit núna að þetta er við Þjóðhátíðarlund líklegast...
þarna lagði ég bílnum og sá brautina og var svo fegin að geta loksins lagt af stað...
þarna var klukkan orðin 2:13 eða svipað og tíminn í Fjallaseli á föstudeginum
en þá hafði ég lent í myrkri síðustu kílómetrana á 30 km leið...
svo ég var enn og aftur búin að kalla yfir mig kapphlaup við dagsbirtuna...

Það var mjög gaman að kynnast þessum hring í Heiðmörk og ég mun aldrei gleyma þessari æfingu...
sálrænt var þetta í raun heppilegt því bíllinn var í raun í hinum enda hringsins
og þegar ég kom að bílastæðinu þar sem flestir leggja
þá var ég búin að skíða rétt rúma 3 km minnir mig og ákvað að nýta mér það sálrænt
með því að setja það sem markið en ekki bílinn minn, þó ég ætti í raun eftir 5 km til að komast í minn bíl.

Annar kostur við að vera með bílinn þarna var að ég hafði samastað á miðja vegu á hringnum...
gat fengið aðstoð á miðri leið við bílastæðið þar sem allir voru ef eitthvað yrði að
og svo minn bíl hinum megin...

Þriðji kosturinn var sá að ég lagði bílnum þannig að ég gat skíðað að bílnum, opnað hann og drukkið vatn sem ég var með í bílnum...
en það hefði ég ekki getað svo glatt í öllu því bílakraðaki sem var við aðalbílastæðið í Heiðmörkinni,
bílum lagt lengst eftir veginum beggja vegna í báðar áttir...

Ég tók þessa fimm hringi á sálfræðinni... hugsaði að fyrsti væri bara til að kynnast leiðinni...
annar hringurinn til að átta mig betur á honum... miðhringurinn yrði líklega erfiðastur... jafn mikið eftir og búið...
næstsíðasti hringurinn yrði að hluta til góð tilfinning því þá ætti ég bara eftir að fara einu sinni í viðbót...
og sá síðasti einn hreinn fögnuður með að vera einfaldlega að skíða heim...

Og þetta var einmitt svona... miðhringurinn var erfiðastur...
og síðasti hringurinn var reyndar mun erfiðari en ég átti von á... og hinir reyndar líka öðruvísi en ég átti von á...

Brekkurnar í Heiðmörk...

Fyrsta hringinn í Heiðmörk fékk ég svolítið sjokk og íhugaði alvarlega að fara ekki fleiri...
af þeirri einföldu ástæðu að brekkurnar voru mér óhugnanlega brattar og margar...
í þröngum beygjum með trén beggja vegna og svell á einum staðnum
og því lítið mál að slasa sig á trjánum ef maður færi út af...
mér fannst þetta hrikalega erfiður hringur til að byrja með... en svo kyngdi ég bara og hugsaði, að ef ég gæti ekki þessar brekkur, þá ætti ég ekkert erindi í Vasahlaupið... og það var sem betur fer rétt hugsað því brekkurnar eru margar í Vasa, allir fara hratt og það þarf að vera manni mjög tamt að fara þær við allar aðstæður án þess að hika mikið...
þó reyndar það væru margir hikandi í Vasaloppet og sumir gengu niður brekkur sem ég fór skíðandi...
en það kom mér mjög á óvart.

Fyrsta hringinn fór ég því gangandi hægt niður á hlið allar brekkur... og þær eru margar...
verst var dauðabrekkan... en líka þessar fljótlega eftir bílastæðið í þröngum stíg innan trjánna...

Ég ákvað að reyna eins og ég gæti að fóta mig í þessum brekkum rennandi á skíðunum en ekki bara labbandi
og ákvað því að fara alltaf skíðandi neðri hlutann... það væri bannað að ganga niður þær alla leið...
þetta gerði ég líka í dauðabrekkunni frá upphafi og var í lokin á fimmta hring farin að byrja að skíða aðeins ofar en á fyrsta hring...
og farin að skíða sumar af þessum brekkum frá upphafi í stað þess að ganga þær... nema þær allra verstu...

Þessar endurtekningar á þessum hring í Heiðmörk gáfu mér bestu æfinguna nokkurn tíma fyrir Vasahlaupið...
ef ég hefði ekki tekið þessa æfingu... og ekki farið logandi hrædd og skjálfandi á beinunum en samt skíðandi síðan niður allar þessar brekkur nema dauðabrekkuna sem ég gekk öll skiptin niður alla vega hálfa leið... þá hefði ég aldrei getað staðið í öllum brekkunum í Vasa... aldrei !

Því er það ein mikilvægasta lexían að mínu mati eftir þetta Vasahlaup...
að maður þarf að æfa brekkur niður í mót... og það er mjög fljótt að koma með endurtekningum.

Ólíkindi hringjanna fimm...

Fyrsti hringurinn var skemmtilegastur því þá var sólin á lofti og fullt af fólki...
alls kyns fólki að njóta... sem fór hægt... var með börnin sín með sér... sum bara nokkurra ára gömul...
yndislegt í sólinni og allt lék í lyndi... og ég fór fram úr einhverjum...

Á hring tvö var strax orðið þyngra yfir himninum og sólin farin að lækka sig og talsvert minna af fólki á leiðinni
á þriðja
hringnum voru bara eftir fannst mér þeir sem voru að æfa skipulega, almenningurinn var farinn...
og þeir sem ég sá fóru dauðabrekkuna án þess að hika... líka stálpaðir krakkar sem voru með vönu fólki þarna á ferð...
ég var fullaðdáunar...

Á næst síðasta hringnum var sólin farin að setjast og orðið mjög tómlegt og fáir á ferli...
þá varð mjög áþreifanlegt hvernig færið varð betra með lækkandi hitastigi og skyndilega var ég farin að ýta mér langar leiðir
í stað þess að erfiða við að skíða...
þetta var algerlega ný upplifun og ég hvíldist mikið á þessum næstsíðasta hring með þessu...
í minningunni var sá hringur meira og minna notalegar ýtingar og hvíld...
en hann var líka sá hringur sem læddi rökkrinu inn og skildi mig eftir eina á svæðinu fyrir síðasta hringinn...

Annað mjög minnisstætt á næst síðasta hringnum var að fram úr mér tók heldri maður á skinnskíðum
og ég fipaðist svona illilega þegar hann fer framhjá
að ég dett á jafnsléttu og var heillengi að koma mér á fætur, af því þarna ef ég búin með um 30 km og orðin þreytt...
hann ákvað að bíða eftir mér ofar og athuga hvort það væri í lagi með mig
þó ég hefði kallað á eftir honum að þetta væri ekki honum að kenna og bara klaufaskapur í mér...

Við spjölluðum svolítið saman og ég sagði honum að ég væri að fara fimm hringi til að undirbúa mig fyrir Vasagönguna
en ég væri ekki vanur skíðamaður... hann var mjög vanur, mun eldri en ég, á skinnskíðum og fannst færið algert æði...
rann enda hratt fram úr mér og var miklu hraðskreiðari en ég... hann sagðist yfirleitt vera um 45 mín með hringinn...
og skildi ekkert í mér að geta farið svona marga hringi... hann hefði aldrei farið nema tvo hringi í mesta lagi...
ég sagðist vera 1:03 til 1:06 klst. með minn hring... og þar með var hann farinn...

Þarna sannfærðist ég um að ég yrði að fá mér nýja skó og fara á nýju skíðunum þó ég væri mjög ánægð með riffluðu skíðin mín...
þau hlytu að vera síðri en skinnskíðin úr því allir segðu það... úr því þessi "gamli maður" hreinlega flaug framhjá mér á skinnskíðunum sínum og var 15 - 20 mín fljótar en ég með þennan 8 km hring...
 enda átti ég eftir að heyra rifflaða hljóðið hjá fólki sem ég fór fram úr í Vasa á mínum skinnum...
þetta var pottþétt rifflaða hljóðið... sem hélt aftur af skíðunum og lét þau renna minna... eða það hélt ég allavega...

Síðasti hringurinn var svo engum öðrum líkur...
en þá mætti myrkrið... og ég var ein í heiminum með tunglinu...

Myrkrið... enn einu sinni ekki með höfuðljós..

Og þar með hófst fimmti og síðasti hringurinn sem var erfiðari en ég átti von á sökum myrkursins sem lagðist yfir allt
og ég enn og aftur ljóslaus með öllu... tunglið aftur besti vinur minn... og snjórinn dýrmætur birtugjafi...
en alls staðar þar sem trén voru þétt í kring sem er líklega alveg hálfa leiðina... þá var myrkrið allsráðandi og tunglið gat ekki lýst mér leið
ég sá ekki vel hvorki brautina né hallann... þarna datt ég því illilega í svelluðu brekkubeygjunni stuttu eftir bílastæðið og marðist illa á vinstri hliðinni og var nokkra daga að jafna mig... fann sárt til í fætinum viku síðar á 20 km hlaupaæfingu og skildi ekkert í því þar til ég mundi eftir fallinu á gönguskíðunum viku áður... hlaupandi NB þessa æfingu í utanvegaskónum 20 km á gangstétt í borginni þar sem götuskórnir mínir voru of þröngir fyrir blöðruna sem var mjög aum og enn gróandi þrátt fyrir þykkan hælsærisplásturinn... ekkert af þessu átti að vera auðvelt greinilega...

En aftur að síðasta hringnum í Heiðmörk...
það var skelfilega einmanalegt að liggja þarna... því ég hafði farið í gegnum bílastæðið í fimmta og síðasta sinn stuttu áður og þá voru bókstaflega allir farnir, ekki einn bíll eftir... og ég var því óskaplega ein í heiminum þarna og vissi að enginn gæti hjálpað mér... ég var lengi að koma mér á fætur... en varð... og hélt áfram í óttakasti yfir þessu myrkri... en óttinn var léttblandaður smá ánægju með sjálfa mig yfir að vera að klára þessa 40 km og það við erfiðar aðstæður enn einu sinni á þessu mjög svo sérstaka æfingatímabili...

Ég var farin að sjá svo illa síðustu kílómetrana að ég fann að ég var að fara þá eftir minni...
ég hreinlega mundi nokkurn veginn nákvæmlega hvernig brekkurarnar lágu og beygjurnar sveigðu
og gat farið þetta með ágiskunum út frá kennileitum í landslaginu í bland um hvað væri þarna framundan...

Stundum fór ég upp úr sporunum af því skugginn sem féll á plataði augun og brautin virtist vera snjósafnið á milli sporanna
og þetta ruglaði mig margoft þar til ég lærði að hætta að spá í sporin og láta bara skíðin ráða ferðinni og vera ekki að reyna að giska hvort skíðin væru að fara í sporin eður ei... þetta var yfirþyrmandi upplifun... ein í myrkrinu... innan um óhugnanlega dimman skóginn á köflum...
en það var sláandi munur á skógarköflunum og sléttunum af því þá gat tunglið lýst mér leið nokkurn veginn...

Það sérstaka við þessa afdrifaríku fylgt með tunglinu var meðal annars að sjá hversu afgerandi miklir skuggar komu af tunglsljósinu
það hafði ég ekki tekið eftir í fjallgöngunum þar sem við erum vön að ganga í myrkri með höfuðljós á fjöllum
en skökkvum stundum á þeim til að njóta myrkrursins og birtunnar af snjónum og tunglsljósinu...
það var með ólíkindum hversu mikla birtu stafaði í raun af tunglinu... og hversu afgerandi skuggarnir voru þegar tungsljósið féll á eitthvað...
ef það hefði verið skýjað... þá hefði ég verið í mjög slæmum málum þarna ein upp frá...

En efri hluti hringsins er léttari og þegar ég var komin úr brekkukaflanum norðan megin og fór slétturnar
með smá skógarköflum þá náði ég að skynja fegurðina og töfrana í þessu öllu saman
mitt í óttanum... en hann var samt ekki alveg eins mikill og á heiðinni í Bláfjöllum þarna í janúar
því þá var ég ekki með símann... ég vissi að ég gæti alltaf hringt í Örn þarna í Heiðmörkinni... og var stundum á leiðinni að gera það...
en ég var bara svo mikið að flýta mér... að klára þessa 40 km svo ég gæti farið heim...

Ámælisverð mistök...

Enn aðra játningu þarf ég að gera í þessari frásögn þó ég þori varla að segja frá því
þar sem ég tel mig vera vana útivistarmanneskju og íþróttakonu sem veit hver er lágmarksöryggisbúnaður
og á að vita hvernig maður býr sig að lágmarki áður en haldið er út í óbyggðirnar
og farið í langa krefjandi æfingu sama hvaða íþrótt á í hlut....

Ég var ekki með snifsi að borða á þessari 40 km... 5,5 klst. æfingu... ein í myrkrinu... lengst uppi í Heiðmörk...

Jú, ég var með símann... en ekki með neina orku með mér... ekki eitt gel... eitt súkkulaði... ekkert...
skil það ekki... er orðin svo vön að taka 20 km hlaupaæfingar án þess að fá mér nokkuð
að maður er nánast hættur að taka með sér orku... drekkur bara vatn á leiðinni þar sem það er í boði...
úr lækjum og jafnvel pollum þess vegna ef ekkert annað er í boði...

Ég var jú með 2 flöskur af vatni í bílnum...
sem ég tók minnug þess hversu þyrst ég var þegar ég fór 30 km uppi í sveitinni tveimur dögum áður...
en þarna tefldi ég í tvísýnu og hefði getað lent í vandræðum.... t. d. þegar ég datt á svellinu, við áverka á fastandi maga fellur stundum blóðþrýstingurinn og ef blóðsykurinn er lágur í ofanálag, þá hefði ég getað lent í vanlíðan þarna ein í myrkrinu
og ekki sjáanleg frá veginum eða nokkurn hlut...

Mjög ámælisvert og ég á mér engar málsbætur... mun hins vegar aldrei gera þessi mistök aftur...
höfuðljós, sími, vatn og orka verður skyldubúnaður minn á gönguskíðum hér með...
sama hvar og hvenær sólarhringsins ég legg af stað...

En hrakningarnar voru ekki búnar... og héldu áfram á akstursleiðinni...

Ég var ólýsanlega fegin að komast í bílinn og ég var orðin svo skelkuð og þvæld eitthvað
að ég tók ekki einu sinni mynd né myndband en dauðsé eftir því...
hefði verið gaman að fá upprifjun á því hvernig þetta var þarna í restina í myrkrinu ein í Heiðmörk...

En mín beið að koma mér heim... ein... ekki með hundinn sem yfirleitt er með mér í útivistinni... ég saknaði hans mikið...
og nú þurfti ég að keyra til baka um efri Heiðmerkurveginn til baka... í snjóþyngslum... og mikilli hálku... myrkri... færið var þannig og myrkið einhvern veginn alltumlykjandi að mér fannst þetta skyndilega erfitt... og þegar ég rann til og sneri bílnum hálfan hring á veginum og hefði vel getað keyrt út af þá varð ég verulega skelkuð og keyrði mjög hægt það sem eftir var... hringdi í Örn til að fá styrk... en varð að hætta að tala við hann til að geta einbeitt mér alveg að akstrinum...

Heim kom ég klukkan 20:30... eftir að hafa lagt af stað um eittleytið að heiman úr Grafarvogi...

Hvílíkur dagur... enn annar hrakningardagurinn á gönguskíðum til undirbúnings fyrir Vasahlaupið...

Írunn hringdi í mig þegar ég var komin langleiðina heim...
ætlaði að fá fréttir um hvort ég hefði ekki örugglega fundið bílastæðið frá því ég hringdi í hana þarna eftir hádegið...
og þegar ég sagði henni að ég væri á leiðinni heim tók hún andköf... 
búin að vera á skíðum frá því ég talaði við hana... ótrúlegt...

Ég var heilum klukkutíma lengur en hún að fara þessa sömu vegalengd 40 km á sömu braut við sömu aðstæður...
hún mun vanari svigskíðamaður en ég og ekkert smeyk við þessar brekkur...
reyndi að fara dauðabrekkuna eins hratt og hún gat á meðan ég gekk niður hana hálfa... snillingur þessi ofurkona...
en við vorum sammála því að þetta hefði verið vítavert af mér... að vera ekki með nokkra orku meðferðis...
og vera ekki með höfuðljós úr því ég var svona lengi að þessu... 

Alls 40 km á 5:26 klst. eða 7,4 km á klst.... jú, allt í lagi hraði kannski þegar tillit var tekið til allrar göngunnar niður brekkurnar... ég vissi eftir þessa æfingu að ég gæti þetta... gæti farið 90 km... því þó ég væri þreytt... þá leið mér samt vel síðasta hringinn líkamlega... ég hafði ekki einu sinni fundið fyrir orkuleysi... ólíkt hlaupunum þá kemur líkamleg þjáning þegar maður fer yfir 20 km hlaup... gönguskíðin virðast fara mun betur með mann... mýkri íþrótt og mildari... ég var ekki einu sinni jafn slæm í handleggjunum og ég var fyrstu skiptin á skíðunum... ég hefði vel getað tekið lengri æfingu en 40 km... og þetta var því mergjuð tilfinning... enn einu sinni var það myrkrið sem tók af mér að geta tekið lengri æfingu...

En ég var þreytt... og þegar ég hjólaði í vinnuna daginn eftir, mánudeginum...
þá fann ég í fyrsta sinn til þreytu á hjólinu og orkuleysi... aldrei upplifað það áður... aldrei t. d. eftir erfiðar fjallgönguhelgar...
en ég var tæmd eftir þessa helgi þannig að í fyrsta sinn í sögu minni hjólaði ég hægt og þreytt í vinnuna... og er samt vanalega ekki að hjóla hratt hvort eð er... en þarna var orku-þröskuldur sem ég hafði aldrei fungið fyrir áður á hjólinu á leið í vinnuna...

Annað sem sat eftir þessa 80 km helgi voru slæmar blöðrur á báðum hælum...

Myndirnar sýna slæmskuna ekki nægilega vel en þetta olli mér miklu hugarangri...
ég hafði ekki fengið blöðrur á fæturna í mörg ár... löngu hætt að fá þær á hlaupunum og í fjallgöngunum...
en sá að þetta yrði lengi að gróa og þyrfti að fá algeran frið... ég gat ekki hlaupið né gengið á fjöll næstu daga...
og sem betur fer raðaðist vinnan og veðrið þannig að það reyndi í raun lítið á þetta...
þessi helgi sem var að baki var fullkomin æfingahelgi veðurfarslega séð og ég hafði nýtt hana vel...
 ég gat ekki einu sinni verið í teva-skónum í vinnunni... varð að breyta þeim í sandala með engum hæl... þetta var það slæmt...
og nú bættist þetta vandamál við martraðarpakkann um brekkurnar... 
ég að bögglast við að plástra mig sveitt og móð í snjónum á miðri leið í Vasa
vegna blaðra sem ýfðust upp í miðri keppni var nýr kafli mættur í martraðarkenndan kvíðann fyrir Vasa... 

Þarna var komin önnur ástæða til að kaupa nýja skó...
ég keypti nr. 42 en átti fyrir 41,3 og var í tvöföldum sokkum í nýju eins og í gömlu
en efinn nagaði mig... og bættist við brekku - blöðru - áhyggjurnar... hvað ef skórnir meiða mig frá byrjun ?
hvað ef ég verð að hætta í miðri keppni af því skórnir eru ómögulegir ?

Því eins og það væri ekki nóg... brátt bættust áhyggjur af veðri á keppnisdaginn við bunkann...
spáð snjókomu einmitt þennan sunnudag3. mars... og engan annan dag vikunnar á undan eða eftir... þetta var með ólíkindum...
og erfitt að sjá þetta ekki sem eitt stórt samsæri... en svona er þetta oft í fjallgöngunum... mikið í húfi en veðrið eyðileggur allt...
og ekkert í stöðunni annað en gera það besta úr því sem er...

Þessi spá átti meira að segja eftir að versna með meiri vind og meiri snjókomu en fyrst var spáð...

Í bullandi vonbrigðum með veðurspána kíkti ég á beina útsendingar Vasahlaupsins... www.vasaloppet.tv vikuna fyrir...
þar sem fylgjast mátti með allri dagskrá Vasaloppet Winter Week... en þeir eru með alls kyns keppnir vikuna fyrir Vasahlaupið sjálft...
meðal annars "Opin spor" eða Öppet spor... þar sem menn geta bara skráð sig og mætt með stuttum fyrirvara
og tekið hálfa vegalengd 45 km
eða alla 90 km eftir því hvorn daginn þeir velja...

Þarna var bongóblíða og mjög gaman að sjá...
maður mændi á búnaðinn og fötin hjá þátttakendum til að reyna að reikna út hvaða búnað maður ætti sjálfur að vera með...
ef maður hefði nú haft vit á því að keppa svolítið á gönguskíðum áður en maður fór í Vasaloppet...
þá hefði maður vitað það betur :-)

 

Æfing 14 af 15
Bláfjöll í ómögulegu færi
en varð að prófa nýju skóna til að sjá að allt virkaði
miðvikudaginn 27. febrúar.

Það viðraði engan veginn fyrir æfingar í viku 8 og blöðrurnar fengu því algeran frið til að gróa...
 og vika 9 var lítið skárri en það var vikan áður en Vasa var og við ætluðum að fljúga út á föstudeginum...

Til að fá frið í sálinni skellti ég mér upp Bláfjöll miðvikudaginn 27. febrúar bara til að setja á mig skóna og skíðin
og sjá hvort allt virkaði og hvort viðvörunarbjöllur myndu nokkuð hringja strax við að skíða í skónum...
það gerðist ekki, þetta var dásamleg tilfinning...
ekki farið á skíðin síðan í örlagaríku 40 km æfingunni 10 dögum áður í Heiðmörk...
mig langaði óskaplega til að skíða meira...

... en það var ekki sjens... allt niðurrignt... með smágrýti yfir öllum snjónum og tjarnir um allt Ullar-svæðið...
svo miklum að hundurinn Batman villtist á milli þeirra og gelti á mig til að fá hjálp við að komast aftur úr tjarnarfeninu...
það hefur hann bara einu sinni gert þegar hann lenti í sjálfheldu úti í miðri á þar sem hann fór á snjósköflum
og fann ekki leiðina til baka og ég varð því að lóðsa hann út úr þessum tjörnum...

Þetta endaði því á 1 km... átti svo sem aldrei að verða nokkur æfing
því færið var hættulegt... pollar í dalnum... ég fór því í hliðarhalla upp í brekkurnar...
en þar rúllaði grjót um allt og gat rispað skíðin þannig að ég sneri við og fór í bílinn...
sátt við að 1 km rúll á nýju skónum og nýju skíðunum yrði að duga til að ég gæti með öryggi farið í 90 km skíðagöngu
án þess að vera búin að reyna meira á þennan búnað... þarna braut ég meginreglu útivistarinnar...
að fara ekki í nýjum búnaði í langa göngu eða hlaup...
heldur eingöngu í því sem maður er búinn að æfa vel í og þrautreyna...
en ég vissi að þetta voru betri skíði og betri skór... fann það...
en langaði samt óskaplega mikið að taka gömlu skóna og riffluðu skíðin með mér...
en féll frá því þegar ég pakkaði niður fyrir ferðina...

Já... braut þarna enn eina meginreglu útivistarfólks eins og svo margar aðrar á þessu tímabili...
ótrúlegt alveg og ég er gapandi yfir sjálfri mér að skrifa þetta...

Þar með lauk formlegu æfingatímabili mínu fyrir Vasahlaupið...
og við sendum hvor annarri pepp-póst öðru hvoru eins og þennan frá mér úr kvikmynd dagana fyrir Vasa...

Að baki voru 15 æfingar, þar af þrjár tilraunir sem urðu að engu, Bláfjallavegur, Hellisheiði og svo tjarnirnar í Bláfjöllum...
æfingar þar sem allt hafði gengið á afturfótunum nema í þeirri allra fyrstu... og hún var í apríl 2018... eða 11 mánuðum fyrir Vasa...
en það voru samt góðar æfingar þarna inni á milli... þessar löngu... 30 km á eigin braut í sveitinni...
það gaf mér alltaf eitthvað að skíða í 4,5 klukkustundir þó vegalengdin væri ekki mikil...
40 km Heiðmerkuræfingin var lykilæfingin eftir á að hyggja...
þar æfði ég brekkurnar vel og styrkist ótrúlega í þeim á einni æfingu... þó sú æfing ætti sínar gloríur í endann...

 

Sjá æfingarnar allar frá upphafi ákvörðunar
um að fara í Vasaloppet í mars 2018:

Sleppi Vasahlaupinu sjálfu í samtalstölu og meðaltali - hraðasta æfingin var sú fyrsta í apríl 2018...
ég náði aldrei að fara viðlíka æfingu og þá við góðar aðstæður á formaðri braut í góðu veðri...
sem er ótrúlegt !

Lengsta æfingin í Heiðmörk upp á 40 km var lítið eitt hraðari en sjálft Vasaloppet
þrátt fyrir að ég renndi niður allar brekkurnar þar, stoppaði reyndar stundum ofan við þær og mat aðstæður
en datt aldrei... ég stoppaði hins vegar marg sinnis í Vasahlaupinu til að taka myndir,
fá mér að borða og fara á wc sem tók 15 mínútur í Evertsberg...
en það átti einmitt eftir að verða örlagaríkara en ég gerði mér grein fyrir þá...

Sláandi tölfræði engu að síður... að sjá ekki meiri hraða á æfingum almennt og í Vasahlaupinu sjálfu
því þar fannst mér ég halda vel áfram... ég hefði átt að skoða meira hraðann... gerði það ekki...
fannst þetta fyrst og fremst snúast í kringum að komast... ekki að fara nægilega hratt...
það var einhvern veginn ný hugsun hjá mér... sem hraður hlaupari þá hefur það ekki verið vandamál...
en erfitt að skilgreina þetta og sjá hlutlaust...
ég allavega koma sjálfri mér á óvart og skil mig í raun ekki ennþá þegar ég skrifa þetta...
get ekki annað en skilgreint þetta sem ákveðinn hroka...
ég hélt greinilega að hraði yrði ekki mitt vandamál... og beinti allri athyglinni í að endast út 90 km...
það voru mistök sem tóku af mér síðustu 28 kílómetrana... og 90 km endamark... sem var ansi sárt...

Hér má sjá dreifinguna frá janúar til byrjunar mars... náði ágætis æfingum áður en ég fer til Kanarí í 12 daga
og tek svo flotta viku undir miðjan febrúar... og svo er það Vasahlaupið með smá kvöldæfingu í Noregi á undan...

 

Hversu sambærileg eru hlaup á við gönguskíði hvað álag varðar?

Ég velti því mikið fyrir mér hvort við allar þrjár gætum yfirleitt farið 90 km...
þó við ættum að baki hlaupakeppnir og hjólakeppnir sem segðu heilmikið um að við hefðum líkamlegt og andlegt úthald
til þess að taka þátt í krefjandi keppni þar sem löng vegalengd væri áskorunin.
Ég glöggvaði mikið veraldarvefinn með spurningum um hver samsvörunin væri á t. d. 10 km keppnishlaupi og 10 km gönguskíðum
og fékk lítið sem ekkert af alvöru svörum.

Í bullandi efasemdum um að ég gæti þetta yfirleitt setti ég fyrirspurn á Umræðuhóp um skíðagöngur á Íslandi þess efnis og bað þá gönguskíðamenn sem einnig væru hlauparar að svara þeirri spurningu hvort álagið væri svipað í hlaupi og á gönguskíðum. Kannski var ég að stilla upp einhverri spurning sem væri pólitískt eldfim milli hlaupara og gönguskíðamanna, enda voru þeir hlauparar sem ég þekkti ekki að svara þessu í raun mikið og vildu greinilega ekki segja að hlaupin væru erfiðari sem kom mér svolítið á óvart af því ég hafði vonast til að fá slík svör til að friða sálina og stöðugar efasemdirnar um að ég gæti farið svona langa vegalengd í íþrótt sem ég væri ekki mjög vön í...

Svörin sem komu voru misjöf en almennt vildu menn meina að gönguskíðin væru léttari en hlaupin og færðu margir góð rök fyrir því.

Sjá hér:

Mín niðurstaða eftir þessar æfingar fram að Vasagöngunni og svo þátttökunni í þessum 62 km af 90 km er sú að þó ég hafi verið mun hægari í Vasaloppet en nokkurn tíma á hlaupum þá eru gönguskíðin léttari hvað varðar þreytuna eftir á, þau fara betur með mann og þreytan er mun minni eftir langar vegalengdir, en NB þetta er kannski ómarktæk niðurstaða einmitt af því ég fór svo hægt á gönguskíðunum miðað við Kanarímaraþonið. Að mínu mati var þreytan eftir 40 km gönguskíðaæfngu líklega svipuð og eftir 20 km æfingahlaup. Maður keppir ekki svo glatt ítrekað í hlaupum á nokkrum vikum en getur líklega gert það á gönguskíðum - en NB fyrir þá sem fara á miklum hraða þá gæti þetta verið öðruvísi og þreytan meiri, sérstaklega af því þú reynir meira á allan líkamann á gönguskíðum frekar en á hlaupum eins og menn færa góð rök fyrir hér fyrir ofan, svo það er ekkert einfalt í þessu... og kannski eru þetta nokkuð sambærilegar íþróttir hvað álag varðar á hvern kílómetra ?

En... líklega ná norðanmenn þessu ansi vel eins og Gunnlaugur Jónasson bendir á...
að stuðullinn sé 10 / 15 / 20 = hlaup / skíði / hjól
 ég hugsa að þeir séu með þetta nokkurn veginn rétt :-)

Ég allavega fór út með einbeitninga alla á það að geta farið 90 km á gönguskíðum...
ekki að ná þessum 90 km á ákveðnum hraða... það voru reginmistök...

Síðasta innlit í veðurspánna áður en við fórum út... áfram snjókoma eingöngu á sunnudeginum...

 

... þetta var með ólíkindum...

 

Ferðalagið út föstudaginn 1. mars:

Við flugum með Icelandair til Osló föstudaginn 1. mars og áttum aftur flug heim þriðjudaginn 5. mars...
þar sem Tinna Líf lenti hálftíma á eftir okkur komandi frá Tromsö hentaði Oslóflugvöllur mjög vel
og við vorum ekki einu gönguskíðamennirnir því á flugvellinum mátti víða sjá skíðatöskur að koma alls staðar frá...
stemningin var hafin og fiðringurinn var áþreifanlegur...

 

Við veltum mikið vöngum yfir farangri og búnaði...
en Hugrún Hannesdóttir var svo almennileg að sýna okkur útbúnaðarlistann sinn fyrir Vasaloppet 2012
og það var mjög gott að hafa hann til viðmiðunar en mikið væri það smart af Ulli eða álíka samtökum gönguskíðamanna
að hafa einhvers lags lista yfir búnað og góð ráð fyrir þá sem fara í stórar gönguskíðakeppnir eins og Vasa...
eins og eru til í fjallgöngu- og hlaupaheiminum...
þar eru alls staðar ráð og listar yfir allt... búnað, æfingar, hraðaviðmiðanir o.s.frv.
það var einhvern veginn enga slíka smiðju að leita í í gönguskíðaheiminum fannst manni...

Við Örn erum ekkert græjufólk... þó við séum að hlaupa, ganga á fjöll, hjóla og ég að skíða...
við nýtum því öll fötin okkar í kross í þetta allt og höfum nákvæmlega enga þörf á að eiga sérstök hjólaföt eða álíka
enda er ég ennþá á leiðinni í hjólabúð eftir sjö ár á hjólinu daglega í vinnuna...

Við fáum nákvæmlega ekkert út úr því að fara og kaupa okkur merkjavöru í útivistarbúnaði
og höfum margsinnis alltaf beiðnir um að vera styrktaraðilar fyrir ákveðin merki í útivistarbransanum...
viljum alls ekki binda okkur við eitt merki þar sem þá getum við ekki sífellt verið að prófa önnur...
því miður... þetta merkjasnobb og græjublæti vantar alveg í okkur... (nema kannski hlaupaskór hjá Erni ! :-) 
við viljum bara það sem virkar þegar á reynir... sama hvað það heitir eða kostar...

Okkur þykir gaman að því að prófa allt og höfum oft komist að því að ódýr fatnaður getur virkar betur en dýr...
belgvettlingar úr Rúmfaralagernum... Gritex gönguskór úr Hagkaupum... hlífðargleraugu úr Dynjandi...
það er t. d. merkilegt hvernig útivinnufatnaður getur verið betri en útivistarfatnaður...
Merkjavara segir ekkert... raunveruleg reynsla á búnaði þegar virkilega reynir á segir allt...
og þar gilda engar reglur með hvað er best...

Svo fyrir Vasaloppet þá notaði ég því hlaupa-, hjóla- og fjallgöngufatnaðinn minn sem er allt það sama nánast...
átti ekkert sérstakt fyrir gönguskíði og er í raun ekki búin að sjá að þess þurfi í raun
en ætla ekki að fullyrða nokkuð um það að óreyndu samt...

Ég pakkaði niður fyrir öll veður...
og var með 3ja laga jakkann minn og útivistarbuxurnar ef veðrið yrði slæmt...
þunna og þykka boli, ullar og dry-fit af því spáin var snjókoma og smá vindur...

Ég endaði á að vera í hlaupajakkanum en ekki 3ja laga fjallgöngujakkanum...
og hann dugði vel þrátt fyrir snjókomu og vind allan tímann...
keyptur í Sports Direct og minn uppáhalds af því það er vasi fyrir símann á brjóstkassanum
og samt vasar beggja vegna niðri... ég kaupi mér ekki lengur jakka nema þessi vasi sé á brjóstinu....

Og ég endaði á að vera í laufléttum þunnum dry-fit bil innst, þunnum ullarbol utan um og léttum hlaupabol þar yfir - þrjú lög...
og það var mjög fínt... sleppti sem sé þykka ullarbolnum enda er ég að kafna um leið og það er of heitt í honum...

Var svo með síðar ullarnærbuxur og þunnar og þykkar hlaupabuxur meðferðis og 2ja laga hlífðarbuxurnar úr fjallgöngunum...
Endaði á að vera í
léttum, síðum ullarnærbuxunum og þykku hlaupabuxunum yfir
og það var fullkominn búnaður þrátt fyrir vind og snjókomu allan tímann...

Ég var í gömlum, þvældum topp en væri til í að prófa ullartopp fyrir næstu ferð...
en þessi toppur var fínn, fann ekki fyrir honum,
en ég smyr mig alltaf alla með vaselíni af reynslu af maraþonunum þar sem allt nuddast og gefur sár ef maður passar sig ekki,
 en þar reyndar svitnar maður mikið og verður allur saltur...
það var allavega ekki vandamálið í Vasaloppet 2019, en gæti vel orðið það í góðu veðri en þó veit ég ekki...
hafði aldrei áður farið í svona þolraun að vetri til....
alltaf bara að sumri í góðu veðri, líka öll Laugavegshlaupin þrjú...

Ég var í þunnum og þykkum göngusokkum... eins og ég er alltaf í fjallgöngunum... og það var mjög gott...
líklega gætu hraðir gönguskíðamenn viljað vera í þéttari sokkum og fastari í skónum samt...
ég á eftir að sjá hvort þetta sé eitthvað til að endurskoða...

Ég endaði á að vera með einfalt buff og svo létta ullarhúfu ofan á það á höfðinu
en húfan sú er sérstök Toppfarahúfa sem ég prjónaði úr ullarblöndu og hún hefur reynst mjög vel í allri bleytu
alls staðar þar sem flís-buffin gefa eftir og verða þung og leiðinleg...
þá virkar húfan best, hrindir frá sér allri bleytu og einangrar vel...
og hún dugði vel í þessari snjókomu en í góðu veðri getur hún samt verið kæfandi
svo ég færi ekki með hana nema í úrkomu...

Ég var með þunna lambhúshettu meðferðis út en sleppti henni á endanum...
en hún gæti vel verið góð í mjög köldu veðri,
sérstaklega ef það er vindur og það er hægt að nota hana sem buff með því að hafa hana tvöfalda ofan á höfðinu...
en ullin er alltaf kæfandi ef það verður heitt svo þetta er alltaf varasöm ákvörðun...

Í hálsinn var ég með langt buff með flís í endann... er alltaf með þetta á hlaupum og í fjallgöngunum
og það dugði fínt, setti samt ekki oft buff fyrir andlitið því þó það væri snjókoma og vindur í fangið allan tímann
þá var ekki mjög kalt, og það bjargaði þessum degi hugsa ég því í miklum kulda hefði þetta orðið ennþá skrautlegra...

Ég er alltaf með ullar-fingravettlinga í fjallgöngunum og á hlaupunum nema á sumrin
og ég gat ekki sleppt takinu á þessum vettlingum þó ég tæki vissan sjens á því
þar sem þetta var gönguskíði í 12 klukkkustundir með stafi í hendinni allan tímann að nuddast.

Ókosturinn við ullarfingravettlingarna eru að þeir eru ekki vindheldir og þess vegna var ég með í mittistöskunni belgvettlingana gulrauðu en þegar þeir koma yfir ullarvettlingana þá er maður algerlega skotheldur í öllum veðrum... ég notaði hins vegar bara ullarvettlingana eins og ég hafði verið með þá í 30 km og 40 km æfingunum og þeir dugðu mjög vel... en NB þeir söfnuðu á sig miklu hrími og heilu kögglunum af snjó í Vasahlaupinu sem ég var svo að hrista af þeim og losa þegar ég stoppaði...
það var ókostur og
því ætla ég að prófa gönguskíðahanska áður en ég fer næst og meta hvort er betra.

Kosturinn við ullarfingravettlingana er líka sá að þeir eru óskaplega hlýir frá byrjun og meðan beðið er...
og þeir taka endalaust við því sem lekur úr nefinu... eru mjúkir og notalegir...
svo það er erfitt að sleppa þeim þegar maður er búinn að kynnast þeim...

Ég tók 6 gel með mér... eitt á hverri stöð nema fyrstu... en eftir á að hyggja myndi ég taka fleiri...
ég fann gríðarleg áhrif af gelinu sem orkugjafa... hef reyndar alltaf fundið það í maraþonum...
og lærði af Mörthu Ernst að taka eitt á 5 km fresti sem þýðir 8 gel í heilu maraþoni
sem maður límir með frönskum rennilás inn á strenginn á hlaupabuxunum...
tær snilld en hundleiðinlegt að hafa þetta liggjandi þarna niður í nærbuxurnar...
en eina leiðin því ég hleyp aldrei með tösku í maraþonum...

Ég mæli því með að vera með fleiri gel í Vasahlaupinu...
orkan af drykkjunum og súpunum og þessari hvítu, fábrotnu brauðbollu
á drykkjarstöðvunum er ekki nóg fannst mér... gelið var að gefa einhverja orku betur en hitt...

Ég setti gelin í vasana á jakkanum og fann ekki fyrir þeim, alger snilld að geta skíðað með vasana fulla...
en maður er aldrei í jakka í maraþonum almennt, er mun léttklæddari,
en það er helst á Laugaveginum sem maður er með vasa...

Ég sleppti skíðagleraugunum... og sá eftir því... en ég myndi vera með glært gler...
ef það er veður eins og árið 2019...
Ég var því með ódýr sólgleraugu með mér á höfðinu...
tímdi ekki góðu gleraugunum mínum því ég var búin að sjá mig svo oft fyrir mér detta eða vera skíðaða niður liggjandi eftir fall
og sólgleraugun fjúkandi út í buskann... svo að ég tók ekki sjensinn...
og ég prófaði að nota gleraugun stundum þegar snjókoman var sem verst í augun...
en þá sá maður enn óskýrar brautina fyrir framan sig í snjókomunni og því gafst ég alltaf upp á þeim...

Myndi æfa vel notkun sólglaraugna á undan Vasahlaupinu, vera alveg viss hvað hentar...
og vera með glært gler ef það er ekki sólskin allan tímann...
Og NB við sáum nokkra með nokkurs konar skyggni framan á sér og einhverja útfærslu á sólgleraugum og skyggni saman
sem gæti verið sniðugt í svona veðri... það var alveg áskorun fyrir augun að hafa snjókomuna og vindinn  í andlitinu allan tímann...
ég hugsaði oft til Írunnar og Tinnu sem báðar nota gleraugu og voru með linsur en skyggni hefði vel getað verið sniðugt.

Ég plástraði hæla og kúluna við stóru tá fyrir hlaupið... tók Parasetamól og Íbufen fyrir keppnina
og var með
íþróttaplástur í mittistöskunni og svo hælsærisplástur og fyrrnefnd verkjalyf í litlum poka aftan á hlaupabuxunum...
en
notaði ekkert af þessu... og er ekki vön að nota verkjalyf í hlaupum
en fannst þetta svo skelfilega langt að ég þorði ekki öðru en taka þetta og hafa með þar sem mjaðmirnar hafa kvartað í meira en tíu ár...

Garminhlaupaúrið var fullhlaðið og kannski hefði ég átt að stilla það inn á ákveðinn hraða
til að segja mér að ég var orðin of sein... kann það samt ekki...

Bar svo vaselín á allan líkamann frá toppi til táar... mikilvægt að bera á alls staðar þar sem húð mætir húð
inn í öll skúmaskot líkamans... og milli allra táa o. s. frv... þá er maður einfaldlega skotheldur gegn nuddsárum
og NB vaselínið einangrar mann aðeins frá kuldanum sem oft kemur sér vel, sérstaklega í fjallahlaupunum.

 

Við reyndum að rýna í allar upplýsingar sem til okkur voru sendar fyrir Vasahlaupið
en það var meðal annars þetta... ég lærði strax utan að nöfnin á drykkjarstöðvunum
og vegalengdirnar á hverjum legg...

11 - 13 - 11 - 13 - 14 - 9 - 10 - 9
kílómetrar...

Brekka í byrjun þar sem allir troðast og margir brjóta stafinn sinn...
brekkur svo upp og niður að Evertsberg en þaðan var mikið niður í mót að Oxberg og svo var það létt og stutt þaðan...
ég var sko alveg búin að úthugsa þetta... yrði bara að endast í Evertsberg... og þá væri þetta komið...
 og skaut mig þarna í fótinn því í Evertsberg stoppaði ég svo lengi að þegar ég kom í Oxberg þá fékk ég ekki að halda áfram...
var átta mínútum of sein... öll áhersla mín á að endast þetta 90 km var ekki rétt nálgun á Vasagönguna...

Ef ég bara hefði hugsað þetta aðeins öðruvísi og meira taktískt...

 

Áfram var spáin slæm...
það var með ólíkindum hvað hún hélst stöðug og gaf sig ekkert...
eina sem breyttist var að snjókoman hélt áfram inn í mánudag og þriðjudag...

 

Stanslaus snjókoma allan sunnudaginn... vindur upp í 4 m/sek en þó hiti rétt undir frostmarki...
 

Við sáum að það voru eingöngu 16% þátttakenda í Vasaloppet konur...
84 % eru karlmenn og þetta fannst manni pínu sjokkerandi...
þetta var eitt af mörgu sem öskraði á mann að vera ekki að færast svona mikið í fang...
hvað héldum við eiginlega að við værum ?

 

Alls voru 111 Íslendingar skráðir í Vasaloppet... eingöngu 64 mættu... og 44 luku keppni...
sem sé ég og Tinna Líf vorum tvær af 20 Íslendingum sem lentu á rauða kaðlinum ?
en allt lentu um 2.200 manns á rauða kaðlinum sem var met í sögu Vasahlaupsins...
aldrei fleiri verið dæmdir úr leik í þessi 95 ára sögu göngunnar...

 

Ég tók þessa mynd á símann minn af vefsíðu hlaupsins... tímar rauða kaðalsins í Vasaloppet...
en mundi þá ekki nema 2,5 klst í Smagan,  7 klst. Evertsberg og 11 klst. í Eldris...

 

Og á flugvellinum og næstu tvo daga spáðum við í alla þessa hluti...
það er t. d. ekki boðið alltaf upp á allar veitingar á öllum drykkjarstöðvunum...
ekkert kaffi fyrr en í þriðju eða fjórðu stöð...

 

Hægt var að sjá nákvæma innihaldslýsingu á því sem var í boði á stöðvunum...
mér fannst þetta allt gott í hlaupinu sjálfu...
missti reyndar af grænmetissúpunni en Tinna Líf sagði hana bara vera venjulega bollasúpu...
Ég borða allt og nenni engum djúpum matarræðis-pælingum almennt...
reyni bara að borða hollt og því voru þessar veitingar ekkert að þvælast fyrir mér....

Írunn sem lauk við 90 km var hins vegar komin með ógeð á þessum veitingum...
og fannst skrítið að ekki væri boðið upp á eitthvað annað þegar líður á hlaupið
t. d. vöfflur eða álíka eins og í 200 km hjólakeppninni sem hún fór í í fyrrasumar...

Já, það væri sniðugt að hafa eitthvað meira í boði og láta það breytast þegar líður á hlaupið...

 

Endamarkið... talsverðar vegalengdir á milli staða og allir fluttir stanslaust með rútum á milli...

 

Í Noregi var blíðskaparveður þegar við lentum föstudaginn 1. mars...

 

Snjór yfir öllu... og tré meira og minna um allt...

 


Tók ekki strax skjáskot í Osló en þar byrjuðum við aksturinn.

Við keyrðum frá Osló til Östberg sem er stuttu frá Trysil skíðasvæðinu í Noregi...
stutt frá landamærunum að Salen í Svíðþjóð...
rúmlega 2ja klst. akstur... og þar beið okkar glæsilegt sumarhús á AirBnB markaðnum...

 

Noregur er magnað land...
þar er sérstök vefsíða sem sýnir nákvæmlega
 
hvenær er búið að gera spor eftir klukkutímum... um allt landið takk fyrir !

www.skisporet.no

 

Þannig gátum við séð hvort og hvar var búið að gera spor þangað sem við vorum að fara til að gista
en ætlunin var að taka stutta kvöldæfingu fyrir matinn þennan fyrsta dag marsmánaðar...
og svo aðra góða æfingu daginn eftir... en það fór aðeins öðruvísi en áætlað var...

En spáum í snilldinni... menningunni... eitthvað annað en meldingar allra á fb
hvort einhver viti hvernig ástandið sé í Heiðmörkinni á hverjum degi... 
en reyndar var skógræktin dugleg að melda inn að búið væri að gera spor á sinni síðu hér
og svo eru Ullarmenn dugleg að melda inn Heiðmörkina þegar þar er sporað sýndist mér:

https://heidmork.is/buid-ad-troda-gonguskidabrautir-i-heidmork-2/

 

Á leiðinni versluðum við í matinn... og vissum að byggðin er dreifð í Noregi og ekki verslanir á hverju strái
þar sem við vorum að fara að gista...

 

Gps lóðsaði okkur á réttan stað...
en í þessari AirBnB - gistingu var ekki gefin upp nákvæm staðsetning fyrr en í beinu símtali við eigandann...
eingöngu gefinn upp gps-punktur í nágrenninu... en hann var samt talsvert frá þeim stað sem bústaðurinn var...
kannski viljandi gert til að fá ekki óæskilega aðila á svæðið...
og hugsanlega blekkja mann aðeins og lexían af þessu sú að staðsetning gistingar á korti á AirBnB er ekki að marka ákvæmlega...

 

En þetta olli því að með misvísandi gps leiðbeiningum og símaleiðbeiningum frá eiganda
villtumst við og fórum inn rangan afleggjara að sumarhúsum þar sem lítið var mokað...

 

... og festum bílinn... mitt á gönguskíðabraut sem þveraði veginn...

 

Við grínuðumst með þetta...hvort þetta væri fyrirboði... og þurftum að ýta bílnum til baka...
... og rétt komumst úr þessum ógöngum á eigin vegum...
mitt á milli þess sem við dáðumst að þessari gönguskíðabraut sem var si svona þarna
mitt í dreifðu sumarhúsahverfi...

 

Við nutum góðs af því að Tinna Líf býr í Noregi og gat talað við eiganda sumarhússins á norsku
og fengið nákvæmari lýsingar á hvaða leið við áttum að keyra...

 

Þetta var okkar svæði sum sé...
eftir að hafa keyrt í líklega um 10 mínútur frá staðnum þar sem við festum okkur...

 

Minnti á Grímsnesið á Íslandi...
skipulögð sumarhúsabyggð með alls kyns þjónustu og jákvæðum samlegðaráhrifum fyrir aðilana á svæðinu...

 

Þetta var virkilega flottur bústaður...

 

... og umhverfið allt mjög fallegt...

 

Við þorðum ekki að leggja bílnum niðri við bústaðinn strax...
vorum brennd eftir að hafa fest okkur fyrr um daginn og séð á hvers lags lélegum dekkjum bíllinn var...
alls engin vetrardekk eins og bílaleigan hafði fullyrt að við fengjum...
þetta voru nánast spegilslétt sumardekk...

 

Glæsilegur var hann að innan bústaðurinn...
og þarna áttum við virkilega góðar stundir við undirbúning og því miður stress...
sem tók eiginlega alla ánægjuna af því að vera á svona fallegum stað...
eftir á að hyggja er betra að gista á sama staðnum allan tímann kringum Vasaloppet
svo ekki þurfi að pakka niður sama dag og farið er í hlaupið...
og fljúga heim daginn eftir og hvílast frekar þar í eigin rúmi að mínu mati...

 

Æfing 16 af 16
Á norskri braut í sumarhúsabyggð
í myrkri en fallegu veðri og lélegri lýsingu
föstudaginn 1. mars 2019

Jú... við ætluðum á æfingu... þó það væri að koma myrkur... gáfum það sko ekki eftir...
þar sem við sáum brautir um allt svæðið og vissum að þær væru þarna nálægt...

 

En... það var komið rökkur... og fljótlega myrkur... og því sáum við ekki vel...

 

Tommi hafði hvatt Írunni til að taka höfuðljós með í ferðatöskuna á síðustu stundu...
ég hafði hins vegar sleppt höfuðljósunum og grenjaði yfir því eftir á...
eigandi öll þessi höfuðljós heima og verandi ekki með eitt þeirra þarna... nú reyndi á það...
en Tinna var með sérstök gönguskíðaljós um mittið eins og sannur Norðmaður
og það dugði að hluta til... en höfuðljósið skipti sköpum...
og því keypti ég mér snarlega eitt daginn eftir og sá ekki eftir því...

Enn ein lexían í þessari ferð... taka með höfuðljós... því það nýttist líka um nóttina fyrir gönguna
þegar við vorum að stússast í myrkrinu í bílnum...
og það átti eftir að nýtast Írunni síðustu 20 kílómetrana þegar komið var myrkur um sexleytið
og Tommi skutlaði því til hennar eftir Högberg...

 

Þetta var skemmtilegt þó mjög stutt væri... við tókum nokkrar brekkukeyrslur upp og niður í myrkrinu
en þorðum svo ekki að gera meira í myrkrinu...

 

... og snerum til baka en ákváðum að fara ekki brautina heldur yfir snjóinn að bústaðnum
til að sleppa því að ganga veginn að brautinni... en þarna var harðfenni og hólar
og Írunn datt þegar hún fór yfir ruðninginn við einn bústaðinn... en slapp sem betur fer ómeidd...

 

Þetta endaði á að vera 1,3 km... bara smá búnaðarprófun í raun...
ein af fjórum æfingum af þessum 16 sem ekki er hægt að telja sem æfingu
en lýsir vel hversu flóknara það er að ná almennilegum æfingum og þjálfun á gönguskíðum
til samanburðar við hlaupin þar sem alltaf er hægt að fara alls staðar út að skokka nánast...
sama hvar og hvenær...
enda á maður margar magnaðar minningar af skokki í alls kyns stórborgum
og alls kyns sérkennilegum stöðum um allan heim og um allt land...

 

Þegar inn var komið byrjuðum við strax að spá í búnaðinn og hlaupið sem var framundan...

 

Tommi fylgdist með fréttum og sagði okkur ef eitthvað var markvert að gerast...
Söngvakeppnin var í algleymingi þetta kvöld... og ég... söngvakeppnis-nördinn mikli...
 syrgði það mikið að vera ekki að horfa á Hatara keppa um að komast áfram...

 

Við elduðum hakk og spagettí fyrra kvöldið úti í Noregi fyrir keppnina... með góðu salati og smá bjór...
var það ekki bara kolvetnahleðsla ? ... sögðum við og ypptum öxlum :-)

 

Svo héldu pælingar áfram með veðurspá... búnað... drykkjarstöðvarnar... gögnin... farangur í og eftir hlaupið...

 

Við reyndum að fá sem mestar upplýsingar um Vasaloppet á síðunni þeirra
en sem fyrr segir þá er hún ekki sú besta í heimi...
en tölfræðin sem við fundum hér var sérlega áhugaverð um söguna frá upphafi...

 

Laugardagurinn 2. mars
Gögnin sótt í Salen:

Egg og beikon í morgunmat... það hlaut að vera góð orkuhleðsla...
Tommi á ketófæði og það hentaði honum því líka vel...

 

Sólríkt og ægifagurt veður úti...
við syrgðum það óskaplega að þetta veður skyldi ekki vera einum degi síðar...
hvílík endemis óheppni þetta var með veðrið...

 

Við tókum því rólega... vöknuðum bara þegar við vildum... og vorum ekkert að flýta okkur...
en reynslan er búin að kenna manni að dagurinn sem maður sækir gögnin er fljótur að líða
og allt sem við ætluðum að gera þennan dag náðist ekki
en það skipti í raun engu... mikilvægast var að ná í gögnin og hvílast...

 

Við reyndum að hafa þetta eins norskt og við gátum í ferðinni og drukkum í okkur allt sem Tinna sagði okkur um Norðmenn og Norðurlandaþjóðirnar almennt og því var til dæmis makríll og síld á brauðinu...
og margt annað sem Tinna Líf kynnti fyrir okkur í þessari ferð sem var mjög gaman að upplifa...

 

Það voru rúmir 60 km í Salen frá sumarhúsinu okkar...

 

... og við drifum okkur loksins af stað í blíðunni...

 

Í Östberg... smá húsaþyrpingu á svæðinu var hótel sem við spáðum í að gista í...
og er ekki slæmur kostur ef menn eru að fara í Vasaloppet
en þar var svo uppselt strax í mars 2019 fyrir árið 2020...

 

Verslunin Coop var þar á móti og við fengum okkur drykki og annað fyrir næsta sólarhringinn...

 

Í Noregi er sérstakur standur þegar maður kemur inn í sumar búðirnar...
með alls kyns áburði og vaxi fyrir gönguskíði... að hugsa sér gönguskíðamenningunni í þessu landi...

 

Við keyrðum í um klukkustund að Salen og sáum ekkert sem virtist vera Vasaloppet eða álíka
og urðum smá hvumsa og reyndum að spá í hvar þetta gæti nú verið...
keyrðum aðeins lengra... sáum skilti sem vísuðu leiðina í Vasaloppet... það er víst í hverfinu Berge
og skyndilega fór þetta ekki á milli mála... brautirnar... langar... ótalmargar... fánarnir... skiltin... salernin....
allt í endalausum röðum... ógnarstærðin á þessu öllu saman var yfirþyrmandi...

 

Bílastæðið og húsin þar sem gögnin eru sótt... allt augljóst þegar að var komið og mjög stórt í sniðum...

 

Bílastæðið var eitt drullusvað eftir sólskinið síðustu daga... en nú var farið að þykkna upp...
himininn byrjaður að hlaða sig fyrir snjókomuna handa morgundeginum...

Smá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=2bJn1CI8r-I&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=2

 

Svæðið átti eftir að vera gjörbreytt morguninn eftir... tólf klukkustundum síðar... allt í snjó og hvítt yfir öllu...
þessi drulla var ekki vandamál á keppnisdaginn...

 

Svona leit ráslínan út... við vorum í ráshóp 10... byrjendur og nýliðar sem eiga enga fyrri tíma...
bestu menn fremst og mönnum svo raðað í ráshópa eftir marktímum í viðurkenndum gönguskíðakeppnum sem gefa stig...

Samkvæmt lýsurum í beinni útsendingu frá hlaupinu þá er almennt um helmingur þátttakenda að koma í fyrsta sinn
og mjög margir Norðmenn og Svíar fara bara einu sinni í þetta hlaup til að haka við það og búið...

 

Hlið inn á brautina merkt hverjum ráshóp frá 1 upp í 10
og þar voru svo verðir á keppnisdeginum sem pössuðu að menn færu í réttan hóp...

 

Það var ekki mikið að gera þegar við komum að sækja gögnin...

Alltaf mjög gaman að fara og sækja keppnisgögnin þegar maður tekur þátt í hlaupi erlendis
en reynslan er búin að kenna manni að það er sniðugra að fara deginum þar á undan að sækja þau
og eyða þessum síðasta degi meira í hvíld og pælingar með búnað og undirbúning...

 

... því þegar að þessu kemur þá eru biðraðir... mikið að gera... og heilmikið áreiti...
og stórskemmtilegt að skoða í sölubásana sem eru gjarnan á svona stöðum þar sem gögnin eru sótt
og maður endar á að vera heillengi að dóla sér og skoða og máta og kaupa...

Áður en maður veit af er tíminn floginn...

 

Röðin gekk samt mjög fljótt fyrir sig... maður sýndi skráninguna... nóg að hafa strikamerkið í símanum úr tölvupóstinum...
þurfti ekki að vera með útprentað NB fyrir þá sem vilja spara umhverfið eins og hægt er...
það var svolítið sérstakt að vera nánast eina konan í biðröðinni...
og innan um aðeins öðruvísi fólk en maraþonhlaupara...

 

Stelpurnar byrjuðu á að skoða sölubásana... ég varð að byrja á að sækja gögnin...
er svo vön því í hlaupunum... verð ekki róleg fyrr en þau eru komin í poka á bakið...

 

Við fengum gul vesti en ekki hvít... og spáðum mikið í hvort það væru byrjenda-vesti... eða fyrir þá sem eru í ráshóp 10
eða eingöngu fyrir konur... en okkur fannst við hafa séð konur í öðrum lit en gulum og vorum því ekki viss...
og hlógum mikið að styrktaraðilanum sem skreytti vesti Írunnar og Tinnu Lífar... preem...
og vorum hálf móðgaðar... algerlega auglýstar sem byrjendur í þessu gula vesti með barnalega auglýsingu á keppnisnúmerinu...
en komumst svo að því að konur eru alltaf gulmerktar og hættum allri minnimáttarkennd...
það mátti alveg var stoltur af því að tilheyra 16 % kyninu í þessari keppni :-)

 

Fengum eina mynd af okkur hér með gögnin...

 

Þetta var ótrúlega gaman... Írunn keypti sér nýja stafi...
með mjög sniðugri festingu þar sem hægt er að smella ólinni utan um hendina af stafnum með einni bendingu og athafna sig,
frekar en að þurfa alltaf að fara úr ólinni... alger snilld og á eflaust eftir að verða vinsælt með tímanum ef þetta er vel heppnað...

Ég keypti mér poka utan um skíðin, skíðin mín fengu far með Írunnar skíðum út,
en ég fann að þetta yrði ekki síðasta ferðalagið með skíðin og vert að eiga eigin poka utan um þau...
og svo voru auðvitað keyptir bolir með Vasaloppet merkinu...
 og húfa og allt saman eins og sannir ferðamenn :-)

 

Næst var að láta smyrja skíðin... þegar við komum um kaffileytið þar inn þá var okkur sagt að þeir væru hættir að taka inn þá sem væru óbókaðir.. en á vefsíðu þeirra stóð að þeir sem væru með skinnskíði þyrftu ekki að bóka tíma fyrirfram... við vorum í öngum okkar, en þau ráðlögðu okkur að bóka bara tíma í símanum og þannig væri hægt að fara framhjá reglunum... við böggluðumst við það en lentum í vandræðum með greiðslu og þau ákváðu svo að opna aftur á "drop-ins" svo við gátum fengið smurningu á skíðin...

En það var einn galli... þau yrðu ekki afhent fyrr en morguninn eftir... á sunnudeginum... sama dag og keppnin var...
þar með jókst enn á flækjustigið þennan morgun fyrir ræsingu...við þurftum sem sé að fara og sækja skíðin... taka frá pláss...
finna bílastæði nálægt... komast á wc... þennan sunnudagsmorgun áður en kallið kæmi kl. 8:00 um að hlaupið væri hafið...

 

Baksviðs voru margir menn í óða önn að smyrja... það var brjálað að gera...
og maður gat pantað alls kyns smurningsþjónustu... og hún var ekki ódýr... en engin spurning fannst okkur...

 

Þessi stúlka var sérlega almennileg og vildi allt fyrir okkur gera...

 

Ég dreif í að merkja skíðin áður en þau færu í þessa smurningu eftir að hafa spurt hana hvort þetta væri rétti staðurinn
en það var víst ekki ráðlagt og annar starfsmaður hrópaði upp yfir sig þegar hann sá þetta...
það átti einmitt ekki að merkja skíðin áður en þau færu í smurningu
þar sem merkingin getur afmáðst við smurninguna...

Þetta olli mér enn einu hugarangrinu fyrir keppnina og ég var með alls kyns pælingar um hvernig ég gæti þekkt skíðin mín aftur
ef merkingin væri farin en þetta átti eftir að vera ekkert vandamál þegar Írunn sótti skíðin morguninn eftir...

Ég gerði nefnilega ekki annað en haka við hvert áhyggjuefnið á fætur öðru við ráslínuna daginn eftir
sem ekkert þurfti að hafa áhyggjur lengur af... þetta var eitt þeirra...

 

Á veggnum í smurningshúsinu var myndin af markinu í Vasaloppet...
við Örn höfðum einu sinni horft á alla Vasagönguna í beinni útsendingu á Eurosport...
árið 2012 þegar frænkur mínar, Hugrún Hannesdóttir og systir hennar, Steinunn Hannesdóttir tóku þátt
ásamt nágrönnum okkar í sveitinni, þeim Írisi Marels og Árna... og fleiri Íslendingum en þeir voru víst 35 þetta ár 2012
og þá skemmtum við okkur konunglega við að fylgjast með þeim á kortinu og svo koma í mark... magnað alveg...
en þau voru á frábærum tímum eða rúmum 9 og svo rúmum 10 klukkustundum...
enda aðstæður með besta móti það ár...

En tilfinningar mínar gagnvart þessu marki voru orðnar blendnar á þessu augnabliki árið 2019...
ég horfði á það og fékk velgju og spennu í senn... allar þessar skelfilegu æfingar þar sem allt gekk á afturfótunum...
allar þessar fórnir... allur þessi kostnaður við búnaðarkaup og ferðalagið... fyrir það eitt að komast í gegnum þetta mark...
í íþrótt sem heillaði mig ótrúlega mikið en átti hingað til mjög stutta sögu í mínu lífshlaupi
og var sannarlega ekki efst á lista yfir þær íþróttir sem ég stundaði fyrst og fremst...
og það myndi ekki breytast mikið í raun sama hvernig allt færi á sunnudeginum...

Þetta var því mjög sérstök tilfinning sem ég gleymi aldrei þegar ég stóð þarna að láta skíðin mín í smurningu...
þetta mark... ég hálf hataði það á sama tíma og ég var spennt að komast undir það daginn eftir...
... ef mér þá að tækist að klára alla þessa ógnarmörgu 90 kílómetra...

 

Með gögnin á bakinu og spenninginn í hámarki í sálinni drifum við okkur niður að brautinni sjálfri
og að hliði 10 þar sem við yrðum daginn eftir á ráslínunni...

 

Það var frábært að geta virkilega séð þetta allt svona vel deginum áður...
við urðum rólegri því þarna gátum við ákveðið hvar við yrðum og hvernig við myndum reyna að leggja bílnum...

 

Bílastæðin voru mörg en við vissum að þau myndu fyllast fljótt í fyrramálið...
... löngu... löngu fyrir klukkan átta...

 

Dásamlegar brautir... í sólinni... við ákváðum að vera vinstra megin við grindurnar þarna uppi á myndinni vinstra megin...
og reyna að vera eins framarlega og hægt er... og ná að vera á brautinni... aftar var ekki einu sinni braut...
í okkur var fyrst og fremst tilhlökkun og ekki kvíði... og ég skildi það ekki...
kannski var ég farin að eldast og hætt að kvíða svona mikið fyrir keppni...
eitthvað sagði mér að þetta yrði stórkostleg lífsreynsla... sama hvað...

Hérna var fólk að fara að leggja í hann þetta laugardagskvöld... í Nattvasen...
sem er sama vegalengd en að nóttu til... vá... við vorum ekki alveg komnar þangað...
að fara þetta í myrkri með höfuðljós... alla 90 kílómetrana...
okkur fannst dagsverkið nánast óyfirstíganleg tilhugsun í bili og gátum ekki skilið hvernig menn fara þetta í myrkri að nóttu til...

Sjá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=KVcV8n84NmA&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=3

 

Loksins snerum við heim á leið um hálf fjögurleytið...

 

...og sáum að fullt af fólki var að speyta sig á brautinni...
 hugsanlega að máta sig við leiðina fyrir morgundaginn...

 

Þarna var umferðin orðin meiri en fyrr um daginn þegar við komum...

 

... og allt í einu sáum við langa biðröð í húsið þar sem gögnin voru sótt...

 

Úff... við sluppum við þetta... en kannski var þetta bara heil rúta að lenda með þennan hóp... það voru rútur um allt..
og sumar virtust vera með svefnplássum... þátttakendur sváfu líklega sumir í þeim fyrir hlaupið...
og það var heilt bílastæði fyrir húsbíla þar sem þátttakendur voru greinilega mættir þennan sólarhring...

 

Svo kom beygja á brautina... og hún náði yfir veginn... og við spáðum í því hvort það væru undirgöng...
en mundum ekki eftir slíku í lýsingum á leiðinni.... hvernig færi þessi braut yfir veginn eiginlega ?

 

Skyndilega sáum við frægu brekkuna... og hrópuðum upp eftir okkur... þarna var hún... brekkan þar sem allt er stopp í einni þvögu
og maður var búinn að vorkenna þátttakendum fyrir að þurfa að standa í og lóðsa sig upp og reyna að vernda stafina sína...
þessi fræga brekka... táknmynd Vasahlaupsins í raun...

Við ákváðum að keyra aftur og ég tók myndband í fyrra skiptið og ofangreindar ljósmyndir í seinna skiptið
en í myndbandinu heyrist hvernig við uppgötvum hvernig brautin liggur yfir veginn...

https://www.youtube.com/watch?v=bJ99kAQK0oY&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=20

 

Við drifum okkur heim... að elda mat... ekki tími til að fara á æfingu... enda engin skíði til þess...
þau lágu nú í smurningu í húsinu í Salen... eins gott að ekkert ruglaðist og við fengjum þau í fyrramálið...
enn einu áhyggjuefninu var nú bætt á sístækkandi listann yfir vandamál sem við kölluðum sum yfir okkur...

 

Kvöldið fyrir Vasaloppet sjálft er Nattvasan sem fyrr segir...  parakeppni á sömu braut og sömu vegalengd
en tveir og tveir vinna saman og mega t. d. binda sig saman á brautinni og þannig draga hvort annað
en þau verða að halda hópinn... eru með höfuðljós...
mega ekki skiljast að og verða alltaf að fara saman frá hverri drykkjarstöð...
og verða að koma í mark á innan við 20 sek millibili til að þátttakan gildi...

Nokkur snilldarráð var á Youtube fyrir Nattvasan...
ég hefði viljað hafa eins fyrir Vasaloppet... en það var ekkert slíkt að finna á veraldarvefnum því miður...
https://www.youtube.com/watch?v=O8gXfFG73Q4

 

Mögnuð keppni sem við fylgdumst með í símunum okkar eftir misheppnaðar tilraunir til að tengja sjónvarpið við símann...

 

Íslendingar hafa tekið þátt í þessari keppni
og það er ekki annað hægt en bugta sig og beygja fyrir þeim sem þetta gera...

 

Þeir settu á vefsíðuna nákvæmt veðurkort yfir alla leiðina þessa nótt...
það yrði ekkert svo kalt... frost... lítill vindur og léttskýjað... fullkomnar aðstæður...

Svona flott veðurspákort kom ekki fyrir Vasaloppet...
Nattvasen var í raun betur kynnt og betur upplýst á vefsíðunni þeirra en Vasaloppet fannst manni...
hugsanlega af því Nattvasan er nýtt en Vasahlaupið búið að vera svo oft að mönnum finnst allt svo sjálfgefið þar...

 

Allt annað veður beið okkar morguninn eftir Nattvasen....
af tvennu var samt sanngjarnar að dagsbirtufólkið fengi þessa snjókomu en þeir sem fóru um nóttina...
líklega ef Nattvasan ekki framkvæmanlegt í mikilli snjókomu með höfuðljósin lýsandi á snjókornin
og erfitt að sjá brautina nægilega til að skíða ?
Væri gaman að vita...

 

Sjá úrkomuna... og hitatölurnar...

 

Við spáðum aðeins í sögu kvenna í Vasaloppet... og aðra stórmerkilega tölfræði...

 

Nú tók alvaran við... laugardagskvöldið 2. mars 2019...
Tommi sá um að elda matinn... og við byrjuðum að pakka, merkja, plástra, skipuleggja hvert smáatriði...

 

Merkingarnar voru sérkapítuli fyrir sig... og við skildum t. d. ekki þetta með bakpokann í bílana um morguninn fyrir dótið þegar komið er í mark og svo plastpokann með öðru útivistardóti frá startinu sem mátti setja í grindur í startinu... fyrr en Hugrún útskýrði þetta fyrir okkur á messenger þegar ég sendi henni fyrirspurn nokkrum dögum fyrir keppnina... ég var ekki að skilja hvernig við áttum að henda af okkur öllum hlífðarfötunum sem voru til að halda manni heitum fram að rástíma en um leið að vera tímanlega í að koma frá sér öllum fötum í rúturnar... en þetta var virkilega vel útfært og gerir manni kleift að vera vel klæddur alveg fram að rástíma og ekki að krókna úr kulda allan tímann til klukkan átta...

 

Öryggismerking ef eitthvað kemur fyrir mann... aftan á keppnisnúmerinu...
og flagan sem er fest utan um ökklann með frönskum rennilás...
alger snilld...

 

Taskan tilbúin fyrir sturtuna í Mora... smá dót til að hafa í bílnum meðan við biðum við ráslínuna í Salen...
drykkir fyrir morguninn... og svo var ég með alls kyns varaföt og gat ekki ákveðið í hvaða fötum ég skyldi skíða
því það var slæm veðurspá... en maður vissi líka að um leið og maður hamast...
þá er maður að kafna ef maður er of mikið klæddur...
ég tók því með mér allan fatnaðinn í bílnn og tók endanlega ákvörðun eftir að hafa tekið frá pláss í ráshópi 10
en þar fann maður að það var ekki sérlega kalt þó það yrði vindur og snjókoma...

 

Plástrar fyrir hælana... íþróttaplástur fyrir viðkvæma staði... vaselín á allan líkamann... mittistaska...
dúnúlpan til að vera í fyrir ræsingu, húfan og ullarbelgvettlingarnir fyrir biðina í ráslínunni...
þessi föt áttu þá að fara í gula plastpokann í grindurnar við ráslínuna...

Alger snilld að hafa þennan möguleika þar sem þetta er svo langur tími...
en það reynir samt minna á þetta ef maður er með bíl á bílastæðinu fram að rástíma eins og við höfðum... og ekki svo kalt úti...
þeir sem koma með rútu frá Mora eða bara með rútu á staðinn...
hafa engan samastað og verða að vera úti allan morguninn þar til ræst er kl. 8:00...
eða við gátum ekki séð betur...

 

Írunn og Tinna Líf plástruðu sig á verkjuðum álagsstöðum og þetta reyndist vel...
hef ekki sjálf prófað þetta en það reyndi mest á lærin, nárann og handleggina í þessari keppni
og ég gerði stífar styrktaræfingar frá jólum til að styrkja bakið og magann...
handleggi með lóðalyftingum og planka til að styrkja miðjuna...
Allt æfingar sem ég fékk frá Vasaoppet-ráðleggingum á Youtube...

Við spáðum í núning á höndunum þar sem við höfðum allar fundið fyrir því í lengri æfingunum
að ólin á stöfunum gat nuddast undir þumlinum
og stelpurnar plástruðu sig þar en ég gerði það ekki og fann engan núning
en ég fór samt líka bara 62 kílómetra en var samt þá ekki farin að finna neitt til...

Ég fór eftir ráði frá Írunni sem hún lærði á námskeiði á Ísafirði
að vera duglegur að rétta úr lófunum þegar stafirnir fara aftur fyrir og taka svo utan um þess á milli
og ekki halda bara stíft í stafina allan tímann og þetta var virkilega gott ráð
sem mér var orðið nokkuð tamt fyrir Vasagönguna...

 

Tommi eldaði dýrindis nautasteik hana okkur með kartöflum baðaðar í bernaise sósu og mjög góðu sallati...
þetta gat ekki verið betri máltíð fyrir svona langan keppnisdag...
 járnrautt og próteinríkt kjötið... feita sósan... kolvetnaríkar kartöflurnar... trefjaríkt og vítamínríkt grænmetið...
allt gerði þetta sitt gagn fyrir líkamann næstu klukkutímana...

 

Þetta var flókið... muna eftir öllu... merkja allt... pakka öllu... allt útpælt og úthugsað...
og við allar í fyrsta sinn í keppni á gönguskíðum...

 

Ég tók með íslenska fánann sem átti að nota til að merkja staðinn okkar í ráshóp 10
en svo gleymdum við honum í stressinu þegar við komum á staðinn
en það kom ekki að sök þar sem við vorum búnar að ákveða hvar við yrðum og búnar að sjá staðinn allar
eftir að ég tók hann frá meðan þær náðu í skíðin úr smurningu svo það reyndi ekki á þetta
en NB ef menn eru ekki með staðinn sem þeir tóku frá alveg á hreinu í ráslínunni
þá er erfitt að finna skíðin þegar allir eru að græja sig í ræsingu klukkan átta...

Við nýttum grindurnar sem kennileiti og töldum sporin frá hliðinu til að finna okkar skíði fyrir ræsinguna.

 

Blaðran á hælnum var ennþá að gróa... tveimur vikum eftir særindin...
þrátt fyrir mjög gott atlæti allan tímann... og litla sem enga hreyfingu eða álag á þær...
áþreifanlegt þykkildi yfir blöðrustaðnum og skrítin húð var yfir...

 

Ég plástraði báða hælana með hælsærisplástri og límdi íþróttaplástur yfir álagsstaðinn við stóru tá...
plástraði mig ekki meira... og setti bara vaselín... en hafði smá áhyggjur af eymslum undir tábergi og tám
því þau svæði höfðu kvartað eftir 30 km og 40 km æfingarnar...
en það var svo almennt að ég þorði ekki að vera með það allt útlímt...
tók þess í stað rúlluna með mér í mittistöskuna...

Við vorum búin að ákveða að fara að sofa kl. 20:00
vakna 2:00 - græja okkur í klukkutíma...
leggja af stað 3:00 - keyra um 60 km í um klukkustund (já, enginn hraðakstur á þessu landsvæði almennt NB)...
lenda upp úr 4:00 og finna gott bílastæði helst alveg við ráshóp 10 og wc...
skipta liði og fara annars vegar beint í biðraðirnar til að ná í pláss eins framarlega og hægt væri í ráshóp 10
og hins vegar að ná í skíðin í smurningu...

Við vorum öll komin inn í herbergi fyrir kl. 20:30...
ég tók melatonin sem svefntöflu og sá ekki eftir því...
svaf ágætlega þó ég væri alltaf að rumska samt og hugurinn á hundrað að hugsa...
þær hugsanir runnu saman við drauma og stöku rumsk...
en ég hvíldist furðulega vel og var hissa og ánægð með það...
eitt af mjög mörgu sem gekk glimrandi vel fyrir Vasaloppet
þó ég segi kannski frekar frá því sem ekki gekk vel...

En NB reglan er alltaf sú að hvílast vel nóttina þar á undan fyrir keppni...
maður sefur aldrei vel nóttina fyrir keppni/erfiða fjallgöngu, sérstaklega ekki ef vakna þarf mjög snemma
og því er næst síðasta nóttin mjög mikilvægur hvíldartími...

 

Morgunmaturinn:

AB-mjólk með hindberjabragði... appelsínusafi... gróft brauð með smjöri og osti... súkkulaðimjólk... banani.

Í bílinn fóru svo sama brauðið, gríska jógurtin með múslíinu, bananinn og djúsinn, vatn og powerade.

Þau drukku svo líka kaffi en ég drekk það ekki þannig að súkkulaðimjólkin var mitt kaffi.

Engin magavandamál og þetta var eins og best var á kosið.

 

Við lögðum af stað tæplega 3:20... næstum 20 mín seinni á ferðinni en við ætluðum...
það tafði okkur að vera að skila af okkur húsinu á sama tíma og að fara að ráslínunni...
ekki alveg það hentugasta um miðja nótt rétt fyrir keppni... en upphaflega áætlunin var sú að Tommi færi aftur og gengi frá
en það var ekki að passa með öllum þessum akstri enda átti hann fullt í fangi með að keyra meðfram brautinni og fylgjast með
og aðstoða Írunni meðan á hlaupinu stóð... NB umferðin er þung og hæg allan Vasagöngu-daginn og henni er beint í eina átt... það er ekki hægt að keyra nema í eina átt, frá Salen til Mora...  umferðin er hæggeng og allir að gera það sama...
Það er meira en að segja það að fylgja þátttakendum í Vasaloppet eftir
og í raun ekki hægt að binda sig við að aðstoða fleiri en eina manneskju eins og Tommi gerði 
nema þátttakendur séu tiltölulega á sama tíma að fara þetta...

 

Við tók akstur um miðja nótt í myrkrinu frá Östberg til Salen...

 

Stafirnir á milli okkar Tinnu Lífar... stemningin var mjög góð þarna í miðri nóttinni...

 

Lítil sem engin umferð á leiðinni en þegar við tókum að nálgast
þá sáum við sífellt fleiri bíla sem voru augljóslega í sömu erindagjörðum og við...

Við ætluðum að reyna að keyra sama veg og við fórum heim á leið meðfram brautinni og yfir þar sem snjórinn átti að koma
áður en þeir lokuðu veginum... en þeir voru búnir að loka honum og við urðum að snúa við
en með þessu töpuðum við tíma og lentum enn meira í bílaröðinni að ráslínunni...

 

Þarna jókst stressið og við vorum hundfúl út úr í okkur að hafa ekki verið fljótari á ferð
og farið rétta leið frá byrjun... en það rættist úr þessu því umferðin gekk greiðlega fyrir sig
og fyrr en varði vorum við komin á bílastæðið... þorðum ekki öðru en taka fyrstu útafbeygju inn á það en þau stæði voru of ofarlega þannig að þegar við lögðum af stað gangandi að taka frá stæði í ráshópnum og ná í skíðin hringdi Írunn í Tomma og bað hann að færa bílinn neðar og nær brautinni því það væru enn meira en nóg af bílastæði þar...

Þarna hefði umferðarstjórnun gert mikið... einhverjir með ljósbendla sem skipuðu mönnum í stæði...
því fullt af stæðum voru tóm neðst
og allt að fyllast efst... alger sóun á góðum stæðum...
nema menn hafi viljað vera ofarlega reyndar...

Lexían hér að leita að bílastæðum neðst við ráslínuna... efri bílastæðin fyllast of snemma...
en um leið að spá í hvar þú ert lagður með bílinn upp á að komast aftur af stað til að fylgja keppendum eftir
en þá er ókostur að vera of neðarlega því þá eru menn aftastir í röðinni í þungu umferðina sem fylgir hlaupurunum til Mora.

 

Við skiptum liði og ég fór með stafina okkar að taka frá stæði
á meðan Írunn og Tinna Líf fóru að sækja skíðin úr smurningunni...

Hér er ég að koma að hliði 10 klukkan 4:50 um morguninn eða svo og tilkynningar glymja í hátölurunum svona snemma
á milli þess sem stuðlög voru leikin sem gaf orku og góða stemningu:
https://www.youtube.com/watch?v=UQpsGeFbB0w&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=19

 

Fullt af fólki á svæðinu svona snemma... en enginn ráshópur var opinn nema númer 10...
hinir opnuðu ekki fyrr en kl. 5:00 eða 6:00 og því voru komnar langar raðir þar þegar leið á morguninn...

 

Við vorum hins vegar í góðum málum og gátum farið strax inn á okkar svæði og fengum stæði í fjórðu röð frá línunni í ráshóp 10...
frábær staður og framar öllum vonum... loksins gat maður andað léttar...

Sjá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=upUECVaYlOA&index=4&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS

 

Skíðin okkar komin í stellingar...
við hermdum bara eftir hinum og létum þau ekki liggja á snjónum heldur hanga á stöfunum...

Stemningin var ótrúleg...
og á milli þess sem alls kyns tilkynningar ómuðu um allt í hátölurunum
voru leikin stuðlög sem komu manni í gott skap og breytti kvíðanum í tilhlökkun...
https://www.youtube.com/watch?v=mld2N_N9N60&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=5

 

Írunn og Tinna Líf við hliðið að ráshóp 10... vel gekk að ná í skíðin...
engin biðröð þar og þau voru ekki týnd eins og við höfðum áhyggjur af...
ein af andvökupælingum næturinnar að starfsmenn smurningarinnar hefðu ruglað öllum skíðunum
og þeir fundu ekki okkar áður en blásið var til keppni klukkan átta... neibb... þá þurfti ekki að hafa áhyggjur af því :-)

Og ekki skipti máli þó ég hefði merkt skíðin mín fyrir smurninguna... það var allt í lagi...
enn eitt áhyggjuefnið sem leystist vel úr... það leystist nefnilega vel úr nánast öllum...
nema kannski veðrinu... það gaf sig ekkert...

 

Nú vorum við í góðum málum... skíðin komin úr smurningu og stillt upp á góðum stað í ráslínunni...
allt klárt nema að borða og bíða... jú... wc málin voru reyndar eftir...

 

Og að skila af sér töskunni... við drifum fljótlega í því eftir morgunmat í bílnum...
Við spáðum í að skutla þeim bara um leið og við færum að ráslínunni...

 

... en við Írunn vorum of órólegar til að geta beðið með það
og það er engin spurning að gera það sem fyrst...
hafa hlutina eins einfalda og hægt er þegar komið er nálægt klukkan átta...

 

Engin biðröð og allt vel merkt eftir númerum...

 

Röðin í ráshóp 3 klukkan 6:20... mjög löng...

Sjá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=1zH8OQIKVx4&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=7

 

Hinar raðirnar og salernin... þarna voru strax komnar miklar raðir...

 

Bál á svæðinu fyrir þá sem vildu halda á sér hita...
ókosturinn að fá á sig reykjarlykt sem mun fylgja manni allt hlaupið...
eina leiðin fyrir þá sem koma með rútunum er líklega að gera þetta...
og halda á sér hita með hitabrúsa og hlýjum fötum...

Sjá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=SOkwIsW_cfE&index=6&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS

 

Við gengum aftur í bílinn sem var á góðum stað á bílastæðinu...
en ég ákvað að fara svo á wc því ég gat ekki hugsað mér að vera í spreng rétt fyrir startið
eftir alls kyns reynslu með það í kringum maraþonin...
stelpurnar ætluðu að bíða aðeins... en sáu eftir því síðar...

 

Ég eyddi líklega um 30 mínútum í þessari biðröð... salernin voru ekki öll virk... ótrúlegt... allt of fá...
og menn bara biðu og biðu... skelfilegt... og biðraðirnar lengdust um helming frá því ég kom og þar til ég fór...

Best að þurfa sem minnst að fara á wc þarna fyrir ræsingu... en það er samt ekki hjá því komist...
og því mikilvægt að gefa sér góðan tíma í þessar raðir...

 

Hér biðum við í bílnum... borðuðum... tókum verkjalyf...
hefðum betur sleppt því að drekka svona mikinn vökva til að þurfa ekki að pissa í miðri keppni...
og klæddum okkur loks í gönguskíðaskóna...

Allar áætlanir um að sofa í bílnum voru ekki að gera sig...
það var einhvern veginn nóg að gera þennan morgun frá fjögur til átta... magnað...

 

Tíminn leið ótrúlega hratt og allt í einu var klukkan 7:20...

 

 ... og kominn tími á að fara í startið...

Sjá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=szp_q68ELL0&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=8

 

Menn mættir í ráshópana og margir í biðröðum... maður skilur ekki afhverju þeir byrja ekki hlaupið klukkan sjö...
það myndi spara öllum tíma, nýta birtuna betur fyrir þá sem koma seint í mark eða allt til kl. 20:30... engin spurning...
hvílík sóun á dagsbirtu frá 7 til 8... ég sé enga nægilega góða skýringu... það er einfaldlega galið að byrja ekki fyrr...

 

Tommi leit í síðasta sinn á veðurspána... veik vonin um að hún myndi skána var löngu farin...
og við höfðum því ekki horft á spána í heilan sólarhring til að eyða ekki orkunni í svekkelsi...
enda hafði hún bara versnað...

Í beinni lýsingu á Vasaloppet kom fram að aðstæður væru sérlega slæmar
en þær hefðu ekki verið sérstaklega góðar síðustu ár eða allt síðan árið 2012 þegar aðstæður voru með allra besta móti...
á skjánum var sagt að klukkan átta í Salen var hitastigið -2,3 gráður
og vindur í km/klst sem er ekki okkar viðmið og sagði manni lítið...

 

Það snjóaði meira og minna allan þennan morgun en var sem betur fer ekki sérlega kalt...

Sjá myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=4RX8W-wznq8&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=9

 

Fullt af fólki nú þegar komið á staðinn sinn í ráslínunni...
við urðum skyndilega stressaðar en höfðum samt góðan tíma...

 

Ótrúlegur mannfjöldi... stemningin var ólýsanleg...

 

Allir í úlpum utan um keppnisbúninginn... frábært að geta verið í hlýjum fötum alveg fram að ræsingu...
geta bara fleygt gula pokanum í þessar grindur korter í ræs...

 

Raðirnar á wc voru skelfilega langar... menn voru aldrei að ná þessu fyrir klukkan átta...
en skyldan kallaði og menn gátu ekki annað en staðið í biðröðum...
Írunn hafði farið fyrr um morguninn í skjóli við bílinn...
Tinna Líf reyndi að fara upp í skóginn ofan við bílastæðið eins og fleiri gerðu...
en gafst upp þar og því gerðu þær lokatilraun til að komast á wc þarna við ráslínuna en það var vonlaust...
raðirnar voru allt of langar...

 

Upphitun var upp úr hálf átta og það var góð stemning í kringum hana...

Myndband af þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=LWMwkfoFrdg&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=10

 

Við vorum beðnar að taka myndir af fjórum konum og einu karlmanni sem voru fyrir aftan okkur
og báðum þau í staðinn að taka mynd af okkur... dýrmæt mynd á skemmtilegu augnabliki...
sem við hefðum örugglega gleymt að taka annars...

 

Korter í átta lokar svæðið og þá komast menn ekki inn lengur...
eða hvað ? við sáum það reyndar ekki samt...

 

Sumir biðu með það alveg fram á síðustu stundu að fara í skíðin...

 

Biðin á þessari stundu var lítil sem engin... bara mikil spennan í loftinu og allir glaðir og fullir tilhlökkunar...

 

Flestir álíka klæddir og ef það væri ekki snjókoma...
sem sé ekki í einhvers lags skíðabuxum eða hlífðarbuxum yfir...
heldur bara í sínum þröngu skíðabuxum eða hlaupabuxum eins og ég...

 

Sjá konuna fara með gula pokann í grindina...
á þessum tímapunkti var fólk að leita að skíðunum sínum en flestir voru komnir á sinn stað...

 

Írunn var klárlega besta skíðakonan af okkur þremur...
Tinna mjög vön gönguskíðabrautunum í Noregi en lang færust í öllum brekkum
ekki með sömu löngu æfingarnar að baki og við Írunn...
Ég var með góða þolþjálfun að baki en minnstu skíðareynsluna og minnstu skíðatæknina...
og því raðaði ég okkur í þessari röð svo við myndum ekki tefja hvor aðra...
en ef menn vilja halda hópinn í byrjun þá verða þeir að vera í sömu röð
því raðirnar fara svo á mismiklum hraða þegar allt byrjar og þá verða menn fljótt viðskila...

Myndband af ræsingunni hér:
https://www.youtube.com/watch?v=ZTm4_yZYbtE&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=11

 

Skyndilega byrjaði þetta... og við fórum ótrúlega hratt áfram... kom okkur á óvart... við stoppuðum svo ekki fyrr en neðan við brekkuna þar sem allt stíflast og á Youtube vorum við oft búnar að horfa á þetta og ekki skilja afhverju ekki er ræst á mismunandi tímum til að koma í veg fyrir þetta kraðak sem veldur því að við vorum t. d. heilan klukkutíma með þrjá kílómetra... alla þessa hækkun sem er upp í Salen tekin meira og minna í hægagangi að bíða eftir plássi... silandi þarna upp með öllum hinum...

Sjá myndband neðan við brekkuna hér:
https://www.youtube.com/watch?v=xpHnq9nWgfY&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=12

 

En það koma manni samt á óvart hversu hratt tíminn leið...
þegar ég kíkti á úrið þá var svo skrítið að það væru liðnar 30 mín... 50 mín...
og við ennþá að komast upp þessa brekku... og manni fannst þetta varla hafa byrjað... slík var stemningin...

 

Troðningurinn var mikill en allir af vilja gerðir að komast bara áfram og ekki missa staðinn sinn...
við vorum búnar að spá í hvernig ætti að koma í veg fyrir að brjóta stafiina hér sem er víst mjög algengt
og það fólst í því að hafa þá milli fótanna ef maður gat...
en annars mjög þétt upp að sér ef maður varð að styðja sig fyrir utan skíðin...

Og það tókst með ágætum að fara eftir þessari reglu...
maður sá meðfram þvögunni starfsmenn vera með bunka af stöfum af öllum stærðum
tilbúna til að rétta fólki ef stafur brotnaði...

Írunn heyrði eitt sinnið (líklega samt ofar en þarna) menn panta stafi frá miðjunni....
næsti maður hélt kallinu áfram fyrir hann þar til pöntunin barst til konunnar með alla stafina
og sá stafur var svo lóðsaður alla leið til mannsins sem bað um hann í miðjunni...
af því hann get ekki með neinu móti fært sig út í kantinn í þessari þvögu...
segir margt um andrúmsloftið sem þarna var...
þrátt fyrir að menn væru líka að troðast og hugsa hver um sinn hag fyrst og fremst...

 

Við misstum Írunni frá okkur á þessum tímapunkti... mjög fljótlega í brekkunni...
Tinna Líf var ekki sérstaklega grimm í að halda í sitt pláss...
en það krafðist mikillar ákveðni að halda sínu plássi því annars var bara næsti maður mættur og búinn að troða sér framar...
hún verandi hógværasta manneskja sem ég þekki... var ekki að olnbogaskjótast hér upp og ýta mönnum frá sér
heldur frekar að víkja af einskærri kurteisi...
það þýddi að við tvær náðum að vera saman upp brekkuna því ég gaf ekki eftir eina örðu af mínu plássi... 
en Írunn var farin á undan og við sáum hana ekki meira í hlaupinu
en við vorum samt á köflum ótrúlega stutt hvor frá annarri fyrstu tugi kílómetrana áður en það skildi endanlega á milli....

 

Þessi brekka er löng... miklu lengri en sést frá veginum í byrjun...
hún hlykkjast í nokkrum brekkum upp og leynir verulega á sér...
ég man að ég sagði við Tinnu Líf þegar við vorum búnar að vera í 54 mínútur...
að við vorum virkilega ennþá að komast upp úr brekkunni... það var með ólíkindum...
og skiptir því greinilega máli að vera sem framarlegastur til að komast sem fyrst af stað á raunverulegan skíðahraða...

 

Ég tók smá myndband í brekkunni og lenti fyrir tilviljun á afmælissöng að ég held
þar sem allir tóku undir í brekkunni og lýsti það vel stemningunni sem var þarna...
allir glaðir og kátir og að njóta... alveg einstakt að upplifa þetta... sjá hér:

https://www.youtube.com/watch?v=ffjQGvRe3PM&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=19&t=0s

Ég tók engar myndir fyrr en á drykkjarstöð þrjú eftir þetta eða í Risberg...

 

Smagan: 2:01:24 - 11 km - 5:44 km/klst.

Eftir allar brekkurnar upp frá Salen eða Berga réttara sagt
tóku við sléttur berskjaldaðar veðrinu og þær skíðaði ég í nettu sjokki yfir veðrinu og færðinni
en það var mjög gaman að koma í Smagan eftir 11 km göngu og ég fór hratt þar í gegn...
var steinhissa að sjá að ég var heila tvo tíma þangað... þetta hafði liðið á ógnarhraða...
en samt var ég svona skelfilega sein þarna upp eftir...
svo ég stoppaði bara í tvær mínútur og drakk einn berjadrykk og einn orkudrykk...
þeir voru heitir og það var alger snilld fannst mér...
en við vorum ekki allar ánægðar með það, Tinnu fannst skelfing að fá svona heitt vatn og heitan orkudrykk...
hún vildi fá svalandi drykk... eðlilega... við vorum að erfiða... en mér fannst þetta æði...

Dynjandi snjókoma var á móti manni allan tímann, snjórinn flaut um alla braut...
engin spor og maður reyndi að elta næsta mann...

 

Staðan á okkur þremur eftir 15 km...

Ég hélt mig sem mest hægra megin sem byrjandi en reglan með meiri hraða vinstra megin var ekki algild
og næst lengsta akreinin til hægri var sú sem ég notaði líklega mest til að byrja með...
en þar sem engin spor voru þá voru þetta bara för eftir hina á undan og þau runnu oft til
og saman við önnur og allt fór í mask um leið og það komu smá brekkur
og þá var flókið að vita hvort maður átti réttinn eða lak inn á annarra manna slóðir sem komu rennandi við hliðina á manni
og því var kostur að vera fótviss og geta skotið sér til hliðar eins og þurfti sem ég var ekki góð í...

 

Sjá hér skjáskot frá Tomma af árangri Írunnar sem hann deildi á Vasa-síðu Ketilgarpa...
með smáforriti Vasahlaupsins er hægt að fylgjast með nokkrum keppendum
og sjá áætlaðan endatíma miðað við hraðann fram að þessu...
þarna er hennar lokatími kl. 20:55 eða 1,5 klst. seinna en hún raunverulega var...
þessi seinfæri kafli upp í Smagan án efa meginskýringin
en svo átti Írunn eftir að auka meðalhraðann sinn þegar leið á...

Mangsbodarna: 1:36:06 - 13 km - 8,12 km/klst.
Alls búin með 24 km á 3:37:30 klst.

Það voru 11 km í Mangsbodarna frá Smagen... engin vegalengd fannst manni
og mig minnir að þar hafi verið einhverjar brekkur en því miður er ég búin að gleyma því
eins og ég ætlaði að muna þetta mjög vel allt saman...
líklega voru þetta sléttur mest eins og til Smagan þegar upp úr brekkunni var komið...

Man að mér fannst allir fara fram úr mér... líka hæga fólkið en ég fór samt fram úr einhverjum líka
reyndi eins og ég gat að vera rösk og fara hratt og ljúft í gegn
en var mjög upptekin af því að endast og tæma mig ekki svo ég skíðaði að efri vellíðunarmörkum
og var yfirveguð og alls ekki kappsöm en hefði betur verið það eftir á...

Man að ég horfði á kílómetramerkingarnar fara framhjá á miklu auðveldari máta en í maraþoni...
þær þutu framhjá fannst mér stundum... og hvert skilti var kærkomin sýn...
vanlíðanin sem fylgir maraþonhlaupunum var ekki til staðar þarna...
bara erfiðleikarnir við að komast hraðar... það var aðalverkefnið...
það var svo erfitt að koma sér áfram í þessu færi og í raun bara verandi ekki betri skíðamaður líklega...

Ég fékk mér hveitibollu, berjasúpu og orkudrykk í Mangsbodarna
og gaf mér aðeins meiri tíma þar en í Smagan en samt ekkert að ráði held ég...

Þarna hitti ég Tinnu þegar hún var búin að fá sér að borða en ég átti það eftir
en hún ætlaði að smyrja bakið sem var farið að kvarta og ég hélt bara áfram eftir drykkjarstöðinni
og sá hana aldrei aftur fyrr en eftir sturtuna í Mora...

 

Sjá stöðuna á okkur sem Örn tók sem skjáskot á tölvunni eftir 25 - 26 kílómetra...
ég ennþá síðust af okkur þremur og Írunn komin talsvert á undan okkur Tinnu...

 

Risberg: 1:24:34 - 11 km - 7,8 km/klst.
Alls búin með 35 km á 5:02 klst.

Mér fannst það vera tímamót að koma í Risberg... þá búin með 35 km og ég tók myndir og myndbönd hér...

Sjá þegar ég skíða inn, en það var flókið að munda símann...
því þá þurfti ég að stoppa... fara úr stafnum, vettlingnum, opna læsinguna á símann með puttanum...
finna myndavélina og stilla símanum lárétt... þetta var allt vesen skíðandi á sama tíma... haldandi á stöfunum...
í snjókomu og með vindinn framan í sig...  og samt halda áfram að ganga rólega án þess að tefja þá sem komu á eftir mér...
en þessi fáu myndbönd sem ég tók eru ótrúlega dýrmæt... vildi óska að ég hefði tekið fleiri...

https://www.youtube.com/watch?v=X-XazkD1yws&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=13

 

En... nei... ég vildi óska þess líka.. að ég hefði ekki eytt tímanum í þessar myndbandsupptökur og ljósmyndir...
og ekki sóað þessum 15 mínútum í Evertsberg...
því þá hefði ég náð þessum 8 mínútum í Oxberg sem ég þurfti til að ná á undan rauða kaðlinum...

 

Þegar ég hitti Tomma og hætti að taka upp á myndbandið þá stakk ég símanum
í það sem ég hélt að væri brjóstvasinn á jakkanum mínum
en ég hitti ekki án þess að taka eftir því og því lenti ég í því að finna ekki símann
 þegar ég ætlaði að taka myndband á leið frá Risberg...
sem betur fer ætlaði ég að gera það því annars hefði ég ekki tekið eftir því að mig vantaði símann...
ég leitaði í örvæntingu í öllum vösum og fann ekki símann...

Sneri við og fór á móti allri umferðinni sem var að fara í gegnum drykkjarstöðvarnar og fékk mörg hornaugun...
en ég vildi fara að staðnum þar sem ég hitti Tomma og rekja mig þaðan í von um að síminn lægi einhvers staðar í snjónum...
hugsarnar flugu um allt... í símanum voru kortin mín og allar dýrmætu myndirnar og myndböndin úr ferðinni...
gæti verið að einhver hafi fundið símann og látið starfsmenn fá hann...
var nokkuð vit í að fara að spyrjast fyrir um hann fyrr en í markinu...
það voru örugglega svo margir búnir að skíða yfir símann að hann liggur þarna hulinn undir snjónum
og finnst ekki fyrr en næsta sumar...
og þá handónýtur og enginn að finna út úr því að þetta er síminn minn...
ég óð gegnum mannfjöldann og beint gegn umferðinni í algerri örvæntingu...
og fann skyndilega eitthvað detta niður á skíðin mín... síminn !

Hann hafði þá stungist inn á mig án þess að fara í brjóstvasann
og haldist þarna uppi þar sem ég var með mittistöskuna
en dottið í öllum hamagangnum við að fara svona á móti öllum...

Þarna þurfti ég að snúa við... sem var einmitt ekki auðvelt með allt þetta fólk í kringum mig...
en ég útskýrði að ég hefði týnt símanum og fékk bara vinaleg bros á móti og pláss til að athafna mig
sem ég átti ekki von á þar sem ég var að rústa fyrirkomulaginu í gegnum drykkjarstöðina...
svo þetta fór allt vel... mikið sem ég var fegin...

Og til að halda upp á það að vera búin að finna símann
tók ég auðvitað upp smá myndband af því að yfirgefa Risberg...
ég þóttist greinilega hafa nógan tíma og var í engum rauða-kaðals-pælingum...
það sem ég hélt greinilega að ég væri ósnertanleg varðandi þennan kaðal... já, hérna hér... :-)

https://www.youtube.com/watch?v=rVY_6gcdhLU&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=14

 

Sjá hér suma komna úr skíðunum að hvíla sig og borða...
miðað við tímann og rauða kaðalinn sem ég fékk á mig þá voru þessir ekki að komast upp með svona hangs...

Ég man að þegar snjókoman og vindurinn var sem verst í andlitið þá rifjuðust upp allar hjóleiðarnar heim gegn austaáttinni en ég hef hjólað í vinnuna nánast 100% síðustu 7 ár og löngu hætt að skoða veðurspána og spá í hvort ég hjóli eður ei... búin að sjá að veðrið er nánast alltaf mun betra en það lítur út fyrir og spáin segir til um... og þannig var þetta þarna stundum... veðrið var slæmt... en maður var bara að hamast og vanur að hafa vind og snjó í andlitinu... þetta leit verr út en það var í raun... nema stundum... þá var þetta verra en það leit út fyrir...

 

Í Risberg fékk ég mér vatn og berjasúpu og tvö gel... því ég hafði steingleymt að fá mér gel í Mangsbodarna
"eitt gel á hverjum stað nema þeim fyrsta" var mín áætlun
og ég var ólm að létta á þessum úttroðnum vösum á jakkanum mínum...
miðað við orkuna sem ég var með eftir Risberg þá er það mín niðurstaða að tvö gel er tær snilld...
en ég hef aldrei tekið tvö í einu áður í lífinu svo ég get ekki fullyrt neitt nema prófa þetta aftur samt...

Sjá veðrið á myndunum... endalaus snjókoma og vindurinn beint á móti skíðamönnunum...
þeir sem horfðu á voru mjög kuldalegir að sjá... stundum svo sláandi kuldalegir að maður var hreinlega hissa...
og eins og Tommi sagði þá munaði um í hvora átt var horft...
hann fékk snjókomuna í bakið við að horfa á móti skíðafólkinu koma í Risberg...
og hann var feginn að áttin var þá leiðina fyrir sig...
en skíðafólkið hafði ekkert val... þessi snjókoma var beint í andlitið...

 

Evertsberg: 1:43:55 klst. - 13 km - 6,93 km/klst.
Alls búin með 48 km á 6:46 klst.

Það kom mér verulega á óvart að finna svona skýrt fyrir orkunni sem gelin gáfu
það er eina skýringin á því að mér fannst leggurinn á milli Risberg og Evertsberg hraður og auðveldur þrátt fyrir brekkurnar þarna...
meðaltíminn á þessum legg litast að hluta til af öllu veseninu í Risberg stoppustöðinni...
bæði að taka tvisvar upp myndbönd, taka myndir, leita að símanum og tala við Tomma...
allt telur þetta og er fljótt að safnast upp í þessar 8 örlagaríku mínútur sem síðar reyndi svo á...

Auðvelt að vera vitur eftir á... en þetta var ein stærsta lexía sem ég hef þurft að læra í keppni yfir höfuð...
hvílík endemisvitleysa þetta var að vera ekki meðvitaðri um tímann... hef enga afsökun...

Fræga brekkan sem kennd er við Risberg og olli manni martröðum og kvíða allt undirbúningstímabilið
og hefði klárlega valdið því að ég hefði hætt við ef ég hefði vitað að hún var bara ein af mjög mörgum álíka brekkum...
 rann fyrir mér út í margar aðrar eins brekkur... það eina sem sagði manni að þetta hlyti að vera hún
var allur viðbúnaðurinn og áhorfendaskarinn sem var í henni ólíkt öllum hinum brekkunum
þar sem enginn starfsmaður var til að gæta öryggis nema í þessari Risberg brekku... ef þetta var þá hún ?

Þarna voru starfsmenn tilbúnir í köntunum og hjálpuðu þeim sem duttu með því að standa fyrir framan þau svo enginn skíðaði á þau...
og þarna voru margir að horfa á... áhorfendur... sem var yfirleitt ekki í þessum mæli allavega við brekkurnar...
það myndaðist því biðröð efst í brekkunni og menn völdu hvaða legg þeir tóku niður brekkuna...
ég kaus alltaf til að byrja með að vera lengst til hægri en sá fljótlega þegar leið á að það var betra að vera í miðjunni
og jafnvel vinstra megin því þar voru færri sem duttu og töfðu mann...

Var steinhissa á sjálfri mér að detta aldrei... ég fór auðvitað varlega og skalf á beinunum margsinnis...
beygði mig mikið niður... leit örugglega mjög hallærislega út... en mér var alveg sama... ég vildi alls ekki detta... 
og fór svo bara í plóg... fannst ég oft taka sjensinn og átti oft von á að detta... en ég datt aldrei...

Taugalífeðlisfræðilega minnið virtist búa mikið að brekkunum í Heiðmörk þessa einu alvöru æfingu sem ég tók þar...
þar sem ég lét mig svo oft hafa það skíðandi þó ég væri dauðhrædd...
þarna skilaði 40 km æfingin sér aldeilis... án hennar hefði ég gengið niður þessar brekkur... dottið...
og bara stundum tvístigið efst að ákveða hvernig ég ætti að fara þarna niður... eitthvað sem ég sá aðra gera...
og ég gerði reyndar svolítið í fyrstu brekkunum... að tvístíga efst og velja leið niður...
en skyndilega var ég ekki ein af þeim... skyndilega var ég öruggari...
og var farin að koma að þessum brekkum skíðandi og metandi brekkuna um leið og ég rann niður hana,
en ekki stoppandi efst, hikandi, skoðandi... lítandi aftur fyrir mig á líklega árekstraraðila...

Ótrúleg breyting frá því að þora varla í smá brekkur í fyrri heiðmerkuræfingunni þar sem mér fundust mjög saklausar brekkur erfiðar...
þetta var ótrúlegt frelsi... en þarna var færið með mér... ég var vönust þessu blauta, snjósósu - færi þar sem engar brautir voru og bara bunkar af snjó... allar mínar æfingar voru meira og minna í erfiðu færi og erfiðu veðri... að reyna að hitta í eigið spor frá fyrri umferð sem ekki var búið að fenna í á milli... að reyna að renna sem best ofan á ómótuðum snjó... hvað það varðar þá voru aðstæðurnar í Vasaloppet 2019 mér ekki mikið í óhag þó þungt væri þar sem þjálfunarlega séð var ég vönust þessu færi og þessu veðri... rennislétt og fagurmótuð spor í glaðasólskini var í raun bara einu sinni á öllum mínum æfingum... fyrsta æfingin mín, vorið 2018... allar hinar veturinn 2019 voru ekki þannig...

Stundum var færið samt virkilega varasamt...
harðir snjókögglar undir með misfellum í snjónum sem ekki var hægt að sjá fyrir og maður "datt niður"...
því myndi ég segja að það er nauðsynlegt að æfa í alls kyns færi...
og kannski er það einfaldlega raunveruleikinn hjá öllum gönguskíðamönnum á Íslandi almennt...
 ekki rennisléttar brautir heldur alls kyns aðstæður eins og skrautlegt æfingatímabilið mitt segir góða sögu um... frekar harður heimur...
en ég er byrjandi í þessari íþrótt og hef því í raun ekki reynsluna né innsýnina til að átta mig á því...

Mér finnst allavega æfingatímabilið mitt hafa verið skrautlegt og sprenghlægilegt...
og aðstæðurnar í Vasaloppet spegluðu það að ákveðnu leyti... alveg óvænt...
en kannski er þetta bara alltaf svona ef þú ert gönguskíðamaður á Íslandi ?
... ja, ég á eftir að komast betur að því ...

 

Ég kom í Evertsberg eftir 48 km göngu á 6:43 klst. skv gps eða 6:46 skv.flögunni (hliðið er innar en hér)
þar sem ég eyddi strax á leið í markið talsverðum tíma í að taka myndir... eins og bjáni...
já, alger kjáni, sem hélt sig hafa nægan tíma í heiminum...

 

Því miður rennur upplifunin af þessum stöðvum svolítið saman þar sem allt var eins
en ég er að skrifa þetta tveimur til þremur vikum eftir Vasaloppet og þegar er farið að fenna í minningarnar
en það sem ég man var að það var alltaf notalegt að heyra að við værum að nálgast drykkjarstöð...
það fóru að heyrast hróp og köll, flaut og mannamál og maður sá yfirleitt fleiri hús þegar nálgaðist hvern stoppustað...

Það sem meðal annars kom á óvart í Vasaloppet var hversu mikið var um að vera á milli drykkjarstöðvanna...
alls kyns fólk, krakkar og heilu fjölskyldurnar að hvetja, með útilegustemningu í snjónum við eld og með nesti...
alls kyns fyrirtæki að gefa drykki og annað... ég reyndar þáði minnst af því nema í lokin súkkulaði og ávexti milli Evertsberg og Oxberg,
en Írunn og Tinna lentu í því að fá ekki það sem var í boði, það var sum sé bara fyrir ákveðna aðila sem tilheyrðu ákveðnum hópum
eða höfðu pantað þetta áður... í því fólst oft ákveðin höfnun sem gat verið ansi sár fyrir skíðamann
sem er að berjast fyrir lífi sínu í keppninni...

 

Það gerist alveg ótrúlega margt í svona keppnishlaupi... eins og í maraþoni...
öll upplifunin á umhverfinu, áhorfendum, brautinni sjálfri og fólkinu í kring gefur upplifuninni sinn sérstaka svip
og þessir klukkutímar sem fara í þetta, hvort sem það eru 3, 6 eða 12
virðast alltaf vera lygilega og óútskýranlega fljótir að líða...
og það væri alltaf hægt að skrifa mjög langa pistla um hverja reynslu fyrir sig...
sem er kannski að hluta til ástæðan fyrir því að maður gerir þetta aftur og aftur...

Eitt af því sem einkennir svona keppni (nú er ég að tala um maraþonhlaup og ultrahlaup)
og fær hana til að vera alltaf heilt ferðalag,  óvissuferð þar sem þú veist aldrei hvað gerist og hvernig endar
er fólkið sem er á svipuðu róli og þú... ég man sérstaklega eftir konunni í bleiku buxunum sem var mjög fimur gönguskíðamaður
en mjög hæg niður brekkurnar. Hún var hægra megin eins og ég en þegar niður var komið úr brekkunum
þá hægðist alltaf miklu fljótar á henni en mér svo ég lenti oftar en einu sinni í að klessa á hana...
ég þurfti einu sinni að fara út af sporinu hennar og til hægri út af brautinni og skíða í trjánum...
veit ekki hvernig ég fór að þessu... óvani gönguskíðamaðurinn sem ég var...
en mér tókst þetta án þess að detta og þetta gaf mér byr undir báða vængi með að ég gæti alveg skíðað...
við tvær fylgdumst lengi vel að... hún fór fram úr mér á jafnsléttu... ég í brekkunum...
og ég var farin að þola hana alls ekki í lokin og reyndi allt til að stinga hana af...
og grenjaði þegar hún birtist aftur... kannski fannst henni það sama um mig...
og það getur svo vel verið að ég hafi verið svona kona fyrir einhvern annan...
þessi skærappelsínugula sem var svo lengi að skíða á jafnsléttu og hikaði efst í brekkunum...

Eins var ljóshærða konan... sú sem var meira vinstra megin þar sem ég var farin að skíða þegar á leið...
löngu hætt að vera hægra megin þar sem allt of margir voru of hægir eða dettandi...
að hún tók fram úr mér á niðurleið og jafnsléttu... ég tók fram úr henni upp allar brekkurnar
en ég var alltaf mjög rösk upp og fann að þarna var ég með styrk umfram marga aðra...
og eina skýringin var fjallgöngurnar...

Og svo var það vinalega konan sem kom til mín og talaði sænsku og sagðist vera með gott ráð til mín...
ekki beygja mig svona mikið fram... það myndi drepa mig í bakinu þegar á liði gönguna...
og ég þakkaði henni kærlega fyrir... þetta var rétt hjá henni...

Svona sögur eru endalausar... það gerist ótrúlega margt í einni keppni
og því fyrr sem maður rifjar það upp og helst segir frá því til að það festist frekar í minninnu... hvað þá skráir það niður...
sem maður gerir því miður aldrei... að þá er hægt að rifja það upp síðar og minnast alls sem gekk á...

 

Ég velti því mikið fyrir mér á leið í Evertsberg hvort ég ætti að pissa eða ekki...
andlega fannst mér miklum áfanga náð í Evertsberg... þá væri ég hálfnuð og bara þessi eini 14 km langi leggur eftir
og svo þessir þrír stuttu... 9 - 10 - 9 km í Högberg, Eldris og Mora... það yrði allt gott þegar þeir þrír væru bara eftir...
og því væri Evertsberg ákveðinn hálfleikur... ég var komin á fremst hlunn með að sleppa stoppinu
og klára alla þessa löngu leggi og fara svo á wc þegar bara þessir þrír stuttu væru eftir frá Oxberg...
vildi óska að ég hefði tekið þá ákvörðun...

 

En í staðinn tókst mér einhvern veginn að finnast ég hafa nægan tíma og ákvað að taka því rólega í Evertsberg, safna kröftum, borða vel, hveitibollu, súpu og orku, orkugel og fara svo í rólegheitunum á salernið... til þess þurfti ég að taka af mér skíðin... og var lengi að koma þeim aftur á skóna... þurfti nokkrar tilraunir og blástur á pinnana og hvað eina...

Það var löng biðröð á wc og ég hefði átt að taka mynd af henni strax en gerði það bara í lokin
þegar mér var farið að leiðast óskaplega og var að drepa tímann með myndbandsupptöku... jeminn eini... hvílík tímasóun...

 

Lexían sannarlega sú að fara bara út í kant á leiðinni ef manni er mikið mál... en helst sleppa því að pissa... og nr 1...
ekki drekka svona mikið um morguninn, síðasta klukkutímann fram að ræsingu til að þurfa ekki að fara á wc í miðju hlaupi...

Ég mætti í Evertsberg eftir 6:43 klst. göngu... og horfði á úrið þegar ég lagði af stað og þá var hún 6:58... og ég man að ég hugsaði að rauði kaðallinn kæmi eftir tvær mínútur... þá hvarflaði ekki að mér að ég væri í tímaþröng... mér hafði fundist þegar ég horfði á tímamörkin að þau væru frekar rúm og þau voru ekki auðveld að muna... ekkert mál að muna nöfnin á drykkjarstöðvunum og kílómetralengdirnar... en klukkutímana á stöðvunum mundi ég ekki nema 2,5 klst í Smagan, 7 klst. í Evertsberg og 11 klst. í Eldris... og þetta fundust mér allt vera mjög rúmir tímar og tók þá einfaldlega ekki til mín... ótrúlega stór taktísk mistök... kannski var óttinn við að ná ekki yfirleitt að klára þetta svo mikill að hann hleypti einfaldlega ekki að neinum kvíða með lágmarkstíma, kannski var skynsemin bara búin að ákveða að það þýddi ekkert að spá í það... en ég minnist ekki meðvitaðrar slíkrar hugsunar samt...

Sjá myndband sem ég tók þegar mér var farið að leiðast í wc-biðröðinni
en gat greinilega ekki talað fyrir leiðindum:
https://www.youtube.com/watch?v=Usj5tnBCAa8&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=15

 

Tinna Líf lenti á rauða kaðlinum í Evertsberg...
hún fylgdist með tímarammanum á stafnum sínum og sá áður en hún kom að hún myndi ekki ná þessu
og fór því rólega síðasta kaflann...
kom 14 mínútum á eftir kaðlinum og þáði kaffi með þökkum...
gekk í gegnum svipaðar vangaveltur og ég um hvað hún hefði getað gert öðruvísi til að ná að fara lengra...
lenti í sínum vandræðum eins og ég... þyrfti að segja sína sögu því svona reynsla er svo lærdómsrík fyrir alla..
Þetta var ótrúlega sárt en hún var samt eitthvað sáttari en ég að klára ekki.

Í góðu færi veit ég að hún hefði rúllað þessu upp... en ég er ekki svo viss með mig...
ég var ekki með tæknina á hreinu og ekki vön að renna í sporum niður brattar brekkur og detta ekki...
ekki vön að skipta um spor í hörðu færi... en ég veit að ég hafði þolið til að klára þetta...
og styrkinn til að fara hratt upp brekkurnar í plóg... það voru mínir helstu styrkleikar...

 

Staðan eftir 50 km hjá Írunni...

 

Staðan á okkur systrunum eftir 53 km og hér stoppar Tinna Líf í Evertsberg og fær ekki að halda áfram...
grátlega stutt á milli  okkar...

 

Því fór svo að ég fór þessa 14 km í fullkomnu áhyggjuleysi og naut þess virkilega að fara allar brekkurnar niður...
var farin að koma fram á þær án þess að hika mikið... og láta mig gossa niður...
eins og í gamla daga þegar maður vildi ná alla leið í lyftuna eða bílinn án þess að þurfa að ýta sér á svigskíðunum...

Sem ég segi... brekkurnar eru orðnar að mínu uppáhalds í minningunni um Vasaloppet...
ótrúlegt alveg og eitt af mörgu sem varð öðruvísi en ég átti von á...
en ég þekki þær samt ekki sem frosin spor þar sem hraðinn er án efa mun meiri niður í mót...
úff... ég þarf að æfa það fyrir næstu keppni takk fyrir !
Ekkert mál að detta í mjúkan snjó... allt annað í harðfenni og mótuð spor sem gefa ekki eftir...

Oxberg: 1:40 - 14 km - 7,14 km/klst.
Alls 62 km (63,15 skv úrinu) á 8:39 klst. (slökkti ekki strax á úrinu) - 7,3 km/klst.
 

Þegar ég kom í Oxberg kannaðist ég fljótlega við þessa miklu beygju sem þar er
mundi eftir henni á youtube... en hún er villandi þegar komið er að stöðinni, búin að skíða lengi vel á hljóðið og svo að húsunum...
en svo beygir brautin frá stöðinni og virðist fara framhjá henni án þess að koma við...
einn sem var á undan mér... hélt að hann væri að missa af henni og fór út af brautinni og skíðaði á milli sem má eflaust ekki...
kannski vissi hann að rauði kaðallinn var kominn... eða hann var bara að tryggja að hann missti ekki af þessu stoppi...

Ég naut þess að skíða beygjuna án þess að detta... enn einn staðurinn sem ég hafði oft hugsað um að ég gæti dottið á verandi ekki sérlega stöðug á skíðunum... en svo tók ég eftir því að mennirnir á undan mér fóru rólega þennan kafla og ég fór fram úr þeim og mjög mörgum þarna í restina... og hugsaði einmitt hvílíkt hangs þetta væri... þar til ég sé að starfsmenn voru að taka flögurnar af fótleggjum mannanna fyrir framan mig... ég velti því fyrir mér hvort þeir hefðu bara ákveðið að hætta á þessum tímapunkti... ekki viljað halda áfram... og var steinhissa á þeim... en þá stoppaði kona mig og benti á flöguna mína... ég hváði við og skildi ekki hvað hún var að fara... þá sagði hún að þetta væri búið, það væri búið að loka... ég trúði henni ekki, var greinilega svo steinhissa og svo ekki tilbúin til að hætta að hún bauð mér að halda áfram... en flögulaust yrði það þá, því hún tæki flöguna af fætinum af mér núna...

Eftir á að hyggja hefði ég átt að fá að fara í gegnum hliðið ef það var enn mögulegt...
bara til að hafa tímann skráðan í Oxberg, en auðvitað er ég með tímann skráðan í gps-úrinu mínu og allt það...

En þessi tilfinning... að vera stoppaður svona án nokkurs fyrirvara var eftir á að hyggja mjög sjokkerandi og stendur upp úr þessari upplifun... ég margfór yfir þetta í huganum og man að ég spurði konuna horfandi á úrið mitt... 8:38... hvenær þau hefðu lokað... fyrir tíu mínútum sagði hún mjög þreytulega... og námundaði þarna þar sem þetta voru í raun rúmar 8 mín...  lokunartími Oxberg var 8:30... grátlegt að hafa ekki verið meðvitaður um það... ég hafði enga afsökun... átti að vita betur... átti að vera betur undirbúin... átti að vera auðmjúkari gagnvart verkefninu... og finnast það forgangsmál að lemja mig áfram á undan rauða kaðlinum...

 

Sjá myndband af þessu rétt komin í Oxberg þar sem vonbrigðin leyna sér ekki
og ég átta mig skyndilega á að wc-stoppið var örlagaríkt:
https://www.youtube.com/watch?v=4W-Jpa7ufow&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=16

Enn er ég að spyrja mig hvort þetta var hroki, athugunarleysi, reynsluleysi eða afneitun...
og get ekki sagt hver blandan er af öllu þessu fernu...
en mín voru mistökin.... þó segja megi að veðrið og færið var með erfiðara móti...
þá veit ég að ég hefði náð þessu ef ég hefði verið aðeins úthugsaðri...
því líkaminn var ekki búinn á því... langt frá því... hann gat haldið mun lengur áfram...

Sjá hér lágmarkshraðann til að ná hverri drykkjarstöð fyrir sig:

Salen (Berga) – Smagan = 4,4 km/klst
Smagan – Mangsbodarna = 8,96 km/klst
Mangsbodarna – Risberg = 8,8 km/klst
Risberg – Evertsberg = 8,66 km/klst
Evertsberg – Oxberg = 9,3 km/klst
Oxberg – Hökberg = 7,6 km/klst
Hökberg – Eldris = 7,5 km klst
Eldris – Mora = ekki tímamörk

 

Írunn og Tinna höfðu merkt stafina sína með lokatímunum og þær nýttu sér þessa tíma þegar þær skíðuðu...
einhverra hluta vegna hafði það farið framhjá mér þegar þær settu þessar merkingar á stafina sína
ég hefði sannarlega gert það líka með þeim ef ég hefði vitað það...

 

En ég hafði mörg tækifæri til að leggja þetta á minnið og merkja stafina að eigin frumkvæði
Írunn hafði nefnt þetta í undirbúningnum heima á Íslandi, að félagi hennar hefði gert þetta og að fleiri gerðu þetta...
vildi óska að ég hefði vitað þegar stelpurnar merktu stafina og gert þetta með þeim...
bara að skrifa þetta niður og spá í þessa tíma taktístk...
 hefði verið nóg til að ég hefði verið meðvitaðri um að leggurinn frá Evertsberg að Oxberg er einmitt frekar hraður fyrir rauða kaðalinn...

Á þeim legg þarf að maður að skíða 9,3 km á klst... miðað við að vera á undan rauða kaðlinum...
ég var 7,14 km/klst sýnist mér miðað við gps...
lagði af stað 6:58 og kem 8:38 - það er 100 mín með 14 km...

 

Vonbrigði voru gífurleg... ég tók myndband þarna strax og í því er að renna upp fyrir mér að wc-ferðin skipti sköpum...
og þegar ég er að ganga í rúturnar heyri í Íslendinga tala og nefna biðröðina á wc í Evertsberg og að hennar sé sökin...
ég blanda mér óumbeðin í umræðurnar og tek undir þetta með wc...
og er jafn svekkt og þau voru greinilega...
En ég sé mikið eftir því að hafa ekki staldrað lengur við og talað við þau, skil ekkert í mér,
hefði verið gaman að heyra meira hvernig þeim fannst allt vera og þeirra upplifun...
þó ég þekkti þau ekkert, alltaf svo gaman að tala við aðra í sama sporti og heyra önnur sjónarmið en eigin...

 

Fólkið í kringum mig var mis svekkt...
sumir sögðu aðstæðurnar skelfilegar og að þetta hefði aldrei verið að gera sig hvort eð er...
virtust hafa farið í gönguna með það í huga eða voru búin að sætta sig við þetta áður...
aðrir voru svona svekktir eins og ég og ósáttir við að fá ekki að halda áfram...

 

Ótrúlega mikill fjöldi þarna stoppaður af og mikið af flottum göngumönnum...
ég var þá aldrei alger vesalingur úr því ég var í þessum félagsskap...

 

Rúturnar biðu í röðum... ég hafði einmitt séð þær keyra meðfram brautinni á leggnum þegar stutt var í Oxberg... og hugsaði einmitt þá hvaða mikli fjöldi rútna þetta væri eiginlega að keyra þarna að... hvort þær væru virkilega að sækja þá sem ekki fengju að halda áfram... en þær væru nú frekar snemma á ferðinni... ég tók þetta ekki einu sinni þarna til mín... að mín biði að fara upp í eina þeirra frá Oxberg...

Og skyndilega mundi ég eftir starfsmanninum sem hvatti mig meðfram brautinni eftir Evertsberg þegar ég kom niður eina brekkuna á svaka hraða að því er mér fannst og hann hafði sagt á sænsku eitthvað í þá áttina að ég myndi ná þessu ef ég héldi þessum hraða... og þá hafði ég tekið því þannig að hann væri að meina 90 kílómetrana í heild... mér datt aldrei í hug að hann væri að tala um Oxberg...

Og nú skildi ég afhverju ég tók fram úr svona mörgum upp allar brekkurnar frá Evertsberg að Oxberg...
kannski var það ekki af því ég var svona sterk í brekkum upp eftir allar fjallgöngurnar
heldur af því þarna var hópurinn orðinn hægur... og kannski farinn að gefast upp og ætlaði sér aldrei að klára alla 90 km...
alls kyns svona hugsanir fóru af stað og ég fór að lesa í allt sem var að baki.

Og nú skildi ég hvers vegna blóðflögugjafi einn í vinnunni minni sagði strax við mig
þegar ég sagði honum að ég ætlaði í Vasagönguna
að ég skyldi leggja tímana á rauða kaðlinum vel á minnið og passa að lenda ekki í honum...
ég jánkaði þá en tók það aldrei nægilega til mín greinilega...

Nú skildi ég líka afhverju fjöldinn af skíðamönnunum varð sífellt minni þegar á leið... flestir voru farnir framhjá...
allur troðningurinn fyrstu kílómetrana... þetta rjátlaðist og gisaðist sífellt... það voru alltaf fleiri sem voru komnir fram úr mér...
þessu átti ég ekki að venjast í maraþonhlaupunum og var nýr heimur fyrir mér...

Hugsanirnar flugu svona... dögum saman... en svo hætti ég að vorkenna mér...
heimurinn er fullur af skelfilegum harmleikjum á hverri stundu... þetta var ótrúlega ómerkilegt vandamál...
að hafa lent í rauða kaðlinum...

 

En... í rútuferðinni sem tók líklega rúman hálftíma en kannski klukkutíma... hringdi ég í Örn og nánast grét í símann...
eða kannski ekki alveg... en það var samt ekki svo langt í grátinn... fyrstu dagana eftir keppnina...
ég leyfði mér einfaldlega ekki að fara þangað... en það var mjög sefandi að heyra í honum...
hann skildi mig svo vel... veit hvernig þetta er... að leggja svona hart að sér í undirbúningi og þátttöku...
vitandi að maður getur þetta vel... en fá svo ekki að klára... hann reyndar ekki með þá reynslu per se...
en hann vissi hvað lá að baki, hversu miklu er fórnað og hversu sár þessi lífsreynsla er...

 

Hann var frekar svekktur fyrir mína hönd...
sagði mig hafa verið farna að sækja í mig veðrið og komin á fínan tíma þegar leið á...
var steinhissa á að ég hefði lent á rauða kaðlinum...
ómetanlegt að eiga svona góðan mann og um leið vin sem hægt er að tala við um allt sem við kemur keppni eins og þessari...
enda töluðum við stanslaust saman á Kanarí um maraþonhlaup... þau sem voru að baki... og þau sem eru framundan næstu árin...
fáum aldrei nóg af þessu umræðuefni...
hvílíkt lán að eiga lífsförunaut sem er á sama stað og maður sjálfur hvað varðar áhugamál sem taka svona stóran hluta af lífi manns
og eiga í raun í manni hvert bein eins og hlaupin og fjallgöngurnar gera...

 

Hlaupið í heild á Endomondo... ég slökkti ekki alveg strax á úrinu og því endaði það á 8:39.

 

Tölfræðin að hluta... mjög gaman að geta séð þetta...
þegar maður fór fyrstu maraþonin voru ekki einu sinni til gps-úr...
og maður hljóp með tölvuúr og lærði utan að millitíma og var vanur á áætla út frá þeim lokatímann sinn...

Eins æfði maður vegalengdir sem voru áætlaðar út frá akstri á bíl hér áður en gps-úrin komu...
stundum keyrði maður leið sem mann langaði að fara til að sjá nokkurn veginn hversu löng hún væri...

Nú finnst manni maður ekki hafa tekið æfingu ef hún er ekki mæld á úrinu...
nú finnst manni maður ekki getað klárað æfingu nema hún endi á sléttri tölu...
9,7 km hlaupaæfing er ekki til í minni orðabók... auðvitað hleypur maður heila 10 km :-)

Sjá að ég mæli þetta 63,15 km en skv. tölum Vasaloppet eru 62 km í Oxberg.
Ég fór eitthvað til baka í leit að símanum í Risberg... og ég fór á wc í Evertsberg... það skýrir þetta líklega...
en svo eru gps-úrin og tækin aldrei að passa alveg saman hvort eð er og mismunandi mælingar alltaf til staðar almennt.

 

Veðrið...

 

Millitímarnir... hægust fyrstu 5 km upp í Smagan... hröðust 55 km eftir Evertsberg...
þar voru allar brekkurnar niður í mót... samt er meðaltíminn ekki sérlega góður þar í raun, 7,14 km/klst
en líklega er 15 mín wc-stoppið í Evertsberg  að hafa þessi áhrif á meðaltímann...

 

Mér var kalt í rútunni... og því var alger skelfing að fara úr henni í biðraðir úti í snjókomunni til að fara í aðra rútu
sem flutti þátttakendur að endamarkinu þar sem maður varð að geyma skíðin sín og fá númer...
svo taka rútu til að ná í töskurnar og ganga svo svolítinn spöl til að fara í sturtu og fara í annað hús til að borða...
allt vel skipulagt og stýrt og starfsmenn til að spyrja ef maður var ekki viss...

Straumurinn var stöðugur af skíðamönnum um allt...

 

Þetta gekk samt fljótt og vel fyrir sig en veðrið skánaði ekkert...

 

Ótrúleg óheppni að fá þetta veður... það versta í 28 ár... aldrei fleiri ffengið á sig rauða kaðalinn í sögu Vasaloppet...
en samt sýndist manni veðrið ekkert mikið skárra árið 2018 og 2017 á myndböndunum á Youtube...
svo ég myndi alltaf vera undir þetta búinn... og æfa þetta veður ef mögulegt...

 

Leiðbeiningarnar varðandi markið og ræsinguna voru góðar á vef Vasahlaupsins
en mér tókst samt að vera áttavillt þegar ég fór í gegnum þetta allt í myrkrinu ein...

Tinna Líf var svo sæt að hringja í mig þegar ég var í rútunni og þá var hún búin í sturtu og ákvað að bíða eftir mér...
ég lofaði að vera eins fljót og ég gat... við ætluðum saman að borða...
en þetta tók tíma og var heilmikið ferli að fara í gegnum...
á meðan beið hún því miður...

 

Rúturnar fluttu okkur að svæðinu þar sem töskurnar okkar voru sem við settum í gulu rúturnar í ræsingunni í Salen...

 

Þetta var eins og kirkjugarður... öllu snjóað niður og merkingarnar ekki sjáanlegar...

Tók myndband af því líka:
https://www.youtube.com/watch?v=cRWQkgosdOQ&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=17

 

... það þurfti að sópa snjónum af hverjum poka til að sjá númerin...

 

Starfsmennirnir voru samt mjög almennilegir og fundu þetta fyrir mann...
ég hríðskalf og tennurnar bókstaflega glömruðu í munninum á mér...
það var nákvæmlega enginn sjarmur eða stemning yfir þessum hluta endalokanna á Vasaloppet...
eins og þetta hefur alltaf verið dásamlegt... að sækja dótið sitt eftir farsælt maraþonhlaup...
þetta var í fyrsta sinn sem ég sótti dótið eftir keppni án þess að ljúka henni...

Mér fannst ég ekki eiga skilið að sækja töskuna mína...
var ekki búin að vinna inn fyrir því fannst mér einhvern veginn...

 

Með töskurnar báðar á bakinu var svolítill gangur yfir í húsið með sturtunum og svo matnum...
farið að rökkva og skíðafólkið ennþá að... skyndilega áttaði ég mig á að ég var að ganga framhjá brúnni á leið inn í miðbæ Mora...
sneri við og tók myndir og myndband... mjög gaman að sjá þetta...

https://www.youtube.com/watch?v=w_K_IJQrXZQ&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=21

Sturturnar voru sérstök upplifun...
allt í troðningi og við eins og gripir á leið til slátrunar berar að bíða í biðröðum þar til sturta losnaði...
þessi dagur var allur ein stór biðröð hér og þar og um allt...
það er hluti af því að taka þátt í viðburði þar sem þúsundir þátttakenda eru að gera nákvæmlega það sama og þú...

En mikið var gott að fara í sturtu... og hitta Tinnu Líf og ganga með henni í matinn og tala um allt... allt...
hvílík lífsreynsla þetta var... við vorum báðar í sárum... daprar... en samt hnarreistar
og reyndum að gera gott úr þessu öllu og vera þó ánægðar að einni okkar væri vonandi að takast þetta...

 

Mathöllin fyrir þátttakendur var mjög fín... góður matur...

 

Vefja með kjöti, hrísgrjónum og grænmeti... vel úti látið og léttöl með... þetta var vel þegið...
en það var skrítið að finna að maður var alls ekki svona tæmdur eins og maður er eftir maraþon... ekki svona verkjaður...
og aumur allur... haltrandi... saltur... stífur... nei... gönguskíðin fara langtum betur með mann...

 

Meðan við Tinna Líf borðuðum eftir sturtuna kom Tommi og borðaði með okkur,
flott af skipuleggjendum að leyfa aðstandendum að borða líka því það er brjáluð vinna að þjónusta þátttakendur þennan dag...

Hann kom beint frá þvílíkt flottri reddingu þar sem hann keyrði í ofboði að stað sem hann hafði séð þegar hann keyrði frá Högberg
þar sem hægt var að leggja við brautina og sjá skíðamennina og þangað dreif hann sig þegar hann sá að Írunn var líklega að ná að klára ólíkt okkur Tinnu og það var byrjað að rökkva... með höfuðljósið meðferðis til að láta hana fá...
því hennar beið að skíða síðustu 20 kílómetrana í myrkri... sem ég vissi persónulega að var ekkert grín...

Alger snilld hjá honum að ná þessu en nánast um leið og hann kom á þennan stað
sá hann hana og gat skutlað þessu til hennar og lýsingar hennar af aðstæðunum þarna í rökkrinu og svo myrkrinu
með og án höfuðljóss eru ævintýralegar... flestir ekki með ljós og því eltandi þá sem voru með ljós...
en höfuðljós hefur þann ókost að ef það snjóar í myrkri þá lýsast öll snjókornin upp
og það getur verið truflandi eins og hún lýsti vel þrátt fyrir að ljósið hefði samt skipt hana sköpum
enda fékk hún strolluna á eftir sér þegar hún var komin með ljósið...

Vonandi skrifar hún sína ferðasögu...
það er ekkert smá gaman að lesa svona lýsingar á reynslunni af þátttöku eins og í þessu Vasaloppet...

Meðan við borðuðum var Írunn komin í Eldris...
hún var enn að skíða og við sátum bara í vellystingum að borða eftir heita sturtu...
maður fékk bara samviskubit og fylltist um leið stolti yfir systur sinni,
hún er alger nagli og maður vissi að hún myndi klára... hún átti það enda skilið...
þetta var hennar hugmynd... hún var besti skíðamaðurinn af okkur þremur...
og með langtum mesta skammtinn af keppnisskapi og því eru henni allir vegir færir við þessar aðstæður...

 

Við drifum okkur eftir matinn niður að endamarkinu til að taka á móti henni...

 

Hálfgerð jólastemning á torginu í Mora við markið... fallegt en smá skrítið samt líka...

 

Við gengum meðfram brautinni til að byrja með og maður fylltist lotningu og aðdáun í garð þeirra sem þarna voru að klára...
á mun betri hraða en við Tinna höfðum verið á... eins og manni fannst þau samt ekki skíða sérlega hratt í raun...

Mjög gaman að sjá þetta:
https://www.youtube.com/watch?v=J9Wk2txbmtA&list=PLyI-CMoTAd3hDkfldw798phyV0o98ehUS&index=22

Afhverju... afhverju... var maður ekki einn af þessu fólki...

 

Þetta var nefnilega alveg hægt... þrátt fyrir veðrið og færðina...

 

Smáforrit Vasaloppet lætur fylgjendur vita þegar 600 m eru eftir í mark
þannig að þeir geti verið pottþéttir við hliðarlínuna og við vorum því komin tímanlega...

 

Við vorum smá tíma að finna stað til að troða okkur á hvert á sínum mismunandi stað
og það var það langt á milli að við heyrðum ekki hvort öðru...
enda voru stöðug köll og svo tilkynningar í hátalaranum... brjálað að gera...

 

Ég stillti mér upp frekar framarlega við markið því ég ætlaði að taka myndband af lokametrunum og markinu sjálfu...
og fraus á höndunum við að vera svona agalega tilbúin í langan tíma með símann í hendinni...
ætlaði sko að láta loka-myndbandið af þessari sögu vera af henni að koma í mark...

 

En aldrei kom hún... og allt í einu hringdi Tinna Líf í mig... hvar ég væri eiginlega... nú, ég var að bíða...
en þá var Írunn komin í mark fyrir mörgum mínútum og ég hafði misst af henni.
Var mjög svekkt því ég var búin að vera svo samviskusöm að taka þetta allt upp
og það var mikið stílbrot að hafa ekki upptöku af síðustu metrunum hennar...

 

Hvílík tilfnning... engu líkt.. eftir allt sem var að baki...

Mögnuð frammistaða miðað við fyrsta langa keppnishlaupið á gönguskíðum við mjög erfiðar aðstæður...
við vorum hrikalega stolt af henni... þetta sagði allt um hennar persónuleika, hörku, einurð og ákveðni...
hún kom með þessa hugmynd... hún hikaði aldrei eins og við Tinna gerðum margoft...
þess vegna uppskar hún eins og hún sáði...
og átti hvern einasta kílómetra af sigri sem þarna var í þessum 90 stykkjum svo sannarlega skilið...

 

Sjá tímana hennar hér frá upphafi til enda... aðdáunarvert miðað við aðstæður...

 

Þátttakendur eru leiddir í gegnum ákveðna leið þegar þeir klára...
og við fengum ekkert að vera með í því hjá henni...
vissum að við fengjum bara að hitta hana í matnum...
og röltum þangað í rólegheitunum gegnum fallega skreyttan miðbæinn í Mora...

 

Jú, það var jólastemning þetta kvöld...

 

Loksins kom þessi hetja... snillingur... og leit bara vel út...
hafði frá svo mörgu að segja að það var geggjað gaman að sitja þarna og spjalla...
við vorum með smá bjór með okkur og drukkum hann með matnum...

 

Írunn hafði lent í ýmsum hrakningum á þessari 90 km leið...
einhver hafði stungið stafnum sínum þannig á skíðin hennar að skíðið losnaði af bindingunum
og annar skíðað þá á hana þar sem hún lá... hún var marin og bólgin á hendinni...
og hafði þurft að finna skíðið sitt og festa sig aftur en lent í vandræðum með það...

 

Hennar saga er mjög merkileg... hún upplifði aðra hluti en við Tinna...
saga hvers og eins þátttakanda í Vasaloppet er heilt ævinýri út af fyrir sig.... þess vegna gerir maður þetta...
tekur þátt í þessu... getur ekki hætt eftir að fyrsta keppnishlaupið er að baki...

Það er þess virði að skrifa þetta allt niður og setja á veraldarvefinn fyrir alla að lesa...
ég saknaði þess mjög að geta ekki lesið sögur annarra fyrir Vasaloppet...
sem fyrr segir höfðum við frásögn Halldóru Gyðu Matthíasdóttur Proppé... en hvar eru allar hinar reynslusögurnar ?

 

Þeir sem klára Vasaloppet fá svona diplóma... og kort með öllum millitímunum...

 

Írunn sótti sitt hér í höllinni þar sem maturinn var...
við hefðum hugsanlega ekki vitað þetta nema af því Tinna Líf lóðsaði mömmu sína hér í gegn...

 

Dauðþreytt en alsæl með bland af smá svekki fórum við í AirBnB gistinguna okkar í Mora...
sem reyndist vera afnot af hluta af húsi þar sem eigendurnir voru heima í stofu og við því að troða okkur inn á þeirra heimili...
með eingöngu tvö herbergi og því deildum við Tinna einu þeirra...
þetta hljómaði einhvern veginn verra en það svo var... einhvern veginn fór þetta framhjá okkur við pöntunina...
en þau viku fyrir okkur og við fengum að sitja í eldhúsinu... skála í freyðivíni, kóki, nammi og spjalla fram að miðnætti...

 

Einstök stund sem ég ætla að varðveita alla tíð...
það var svo gaman að tala þarna saman um allt... Vasaloppet og bara lífið...
besta í heimi...

 

Það væsti ekkert um okkur Tinnu hér... en maður svaf ekki vel... maður gerir það aldrei eftir svona erfiða keppni...
líkaminn er í sárum... verkjaður og á fullu að lagfæra... hann er vakandi alla nóttina og heldur fyrir manni vöku...
næst ætla ég því að vakna bara snemma og keyra í flug frekar en að liggja lemstruð í rúminu og eyða öllum deginum í akstur til Osló
og komast ekki heim fyrr en daginn eftir... á þriðjudegi...

 

Það snjóaði líka á mánudeginum... og á þriðjudeginum...

 

Við vorum rúma 4 tíma að keyra frá Mora til Osló... skiluðum bílaleigubílnum á flugvellinum...
tókum svo lestina í miðbæinn...

 

... þaðan sem hægt var að ganga frá lestarstöðinni á Hotel City box þar sem enginn starfsmaður tekur á móti manni
heldur er móttakan rafræn og var allt við þetta hótel tær snilld því þarna var þá hægt að hittast niðri í lobbíi með eigin bjór og geyma nesti í ísskáp sem þarna var, horfa saman sem hópur á sjónvarpið ef spennandi leikir voru í sjónvarpinu
en þarna horfði Írunn einmitt á landsleik Íslands og Argentínu í júní 2018
eftir að hafa klárað 240 km hjólakeppni sumarið áður...

 

Við röltum niður í miðbæ Osló og fengum okkur að borða þar...

 

Flugum svo heim daginn eftir... sjá hér hundinn sem fékk að vera eins og hver annar á flugvellinum...
við sáum fleiri hunda ferðast um þennan flugvöll... og það virtist ganga aldeilis vandræðalaust fyrir sig...

 

Sjá efstu menn í Vasaloppet 2019:

Norðmennirnir einokuðu forystuna og hleyptu engum fram úr sér...
hvort þetta hafi verið siðferðislega fallegur leikur er svo spurning...
á eftir að lesa og horfa á lýsinguna á Vasaloppet og heyra umræðuna...

 

En Björset átti skilið að vinna eftir það sem á gekk í fyrra...
svo mikið vissi maður... en samt veit maður ekkert... hlakka til að fá meiri innsýn í þessa íþrótt...

 

Tímar allra Íslendinganna í Vasaloppet 2019:
Alls 111 manns skráðir... 64 mættu við ráslínu... 44 luku keppni...

Aðdáunarverðir tímar hjá mörgum hér þrátt fyrir erfiðar aðstæður...
og sumir komnir í mark þegar ég var stoppuð í Oxberg sem segir allt um muninn á þeirra færni og formi miðað við mig...

 

Fyrstur Íslendinganna var Frímann Sigurðsson á 6:28:46...
og fyrst íslensku kvennanna var Auður Ebeneserdóttir á 7:56:16...
... magnaðir tímar hjá þeim !

Líklegast voru þau bæði að fara í fyrsta sinn í hlaupið en viðtal var við Auði í Mogganum
þar sem hógværð hennar fer ekki á milli mála... aðdáunarvert:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/03/07/i_skidaspor_fodur_sins_i_vasagongunni/

 

Þetta var mergjuð upplifun frá upphafi til enda...

Bæði að æfa fyrir þetta... mun skellihlæja að þessu æfingatímabili mínu... hvílík endemis vesen það nú var...
og upplifa Vasagönguna þessa fyrstu 62 kílómetra... ég mun alltaf naga mig í handarbökin yfir frammistöðunni...
en fyrir mig sem hef alltaf komið í mark... gengið vel í hlaupakeppnum og aldrei lent í að vera dæmd úr leik vegna seinagangs...
þá var þetta mjög dýrmæt lífsreynsla og ég ákvað... með kökkinn í hálsinum sem fór samt ekki fyrr en á fimmta eða sjötta degi held ég..
 að kyngja bara og umvefja þessa lífsreynslu... fagna henni sem góðri innsýn í spor þeirra sem í þessu lenda...

Maraþonhlauparar fá reyndar alltaf að klára... þar eru yfirleitt engin tímamörk...
og sigurinn er alltaf merkilegur þó menn séu lengi að koma í mark finnst manni...
en það eru samt tímamörk í Laugavegshlaupinu og fleiri ultrahlaupum svo nú skil ég það fólk betur...

Sjá þríþraut Vasahlaupsins; 90 km skíðaganga, 90 km hlaup og 90 km hjólreiðar
þessa sömu eða svipaða leið á einu ári...
mjög spennandi og umhugsunarvert og við Örn erum alvarlega að spá í þetta...:-)

 

Sjá vefsíðu hlaupsins:
www.vasaloppet.se

Áhugaverð tölfræði í sögu Vasahlaupsins:
http://www.vasaloppet.se/en/news/facts-statistics-news-and-trivia-for-the-95th-vasaloppet/

Lýsingin í beinu útsendingunni á ensku... fyrir þá sem vilja hvíla sig á sænskunni...:
https://www.youtube.com/watch?v=iLns8VgKpWQ

Sjá fréttina og viðtal við íslensku konuna sem var fyrst á aðdáunarverðum tíma:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2019/03/07/i_skidaspor_fodur_sins_i_vasagongunni/

Sjá mjög áhugaverða og skemmtilega frásögn Gerðar Steinþórsdóttur um þátttöku í Vasagöngunni 2007
þar sem aðstæður voru þá líka sérlega erfiðar og hún lenti í rauða kaðlinum í Risberg
en hún veltir þátttöku kvenna í Vasa frá upphafi fyrir sér, merkilegt að lesa:
Vildi að ég hefði fundið þessa frásögn fyrir okkar ferð...
https://skidagongufelagid.blog.is/blog/skidagongufelagid/entry/845638/

Viðtal við Björn Má Ólafsson sem lenti í að skíða samsíða sænskri söngvakeppnisstjörnu á Vasaloppet 2016:
https://www.visir.is/g/2016160308823

Viðtal við Hugrúnu Hannesdóttur sem fór í Vasaloppet 2012 ásamt 34 öðrum Íslendingum
og fengu þau glimrandi gott veður og aðstæður og snjómikinn vetur að æfa í fyrir brottför:
https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2012/01/26/ekki_sjalfgefid_ad_klara_gonguna/

Sjá mjög skemmtilega ferðasögu af Vasa-Ultra - 90 km hlaupinu sem þrír Íslendingar fóru árið 2018:
https://hlaup.is/displayer.asp?cat_id=35&module_id=220&element_id=29672

Sjá stutta samantekt af öllum myndböndunum sem ég tók í Vasahlaupinu
með smá texta og  nokkrum ljósmyndum en þetta er gert í forriti í símanum sem leyfir bara ákveðið gagnamagn
og því vantar fullt af myndum og texta sem hefði verið gaman að hafa,
en engu að síður skemmtilegt yfirlit og NB öll myndböndin eru svo líka stök á sama spilunarlista á youtube
sem heitir "gönguskíðaævintýrin" inni á Toppfara-youtube-rásinni
þar sem við vonumst til að upplifa fleiri gönguskíðaævintýri með Toppförum næstu árin:
https://www.youtube.com/watch?v=Hk0dLhFV2EY&t=38s
 

Lexíur - mun bæta á hann næstu vikurnar
allar athugasemdir og spurningar vel komnar og ég bæti því við hér:

  • Panta gistingu sem fyrst, helst í mars eða jafnvel febrúar ári á undan.
    við fengum lengra í burtu en við hefðum viljað, öll gisting nálægt Vasa selst strax upp.

  • Æfa langar vegalengdir á skíðunum, í skónum, með stafina og allan fatnað, þ.m.t. skíða- eða sólgleraugun sem á að nota í Vasaloppet.

  • Æfa öll skilyrði færis og veðurs fyrir hlaupið til að vera vanur öllu.

  • Eflaust æfa vel spor og að skipta um spor þó það hafi ekki reynt mikið á það í þetta sinn árið 2019.

  • Skoða vel tímana á rauða kaðlinum, læra þá utan að eða skrifa niður á stafinn eða hendina eða álíka.

  • Taka með höfuðljós - til að athafna sig í ferðinni, um morguninn og vera með til vara í göngunni ef maður er ekki hraður keppandi.

  • Panta fyrirfram smurningu á skíðin sama hvernig þau eru - til að geta fengið þau til sín deginum fyrir keppni.

  • Ekki koma seint að sækja gögnin - það voru miklar biðraðir seinnipartinn á laug fyrir keppnina, fara helst á föstudeginum.

  • Leita að bílastæði neðst við brautina og ekki láta blekkjast af troðningnum efst - ef komið er snemma, eða fyrir kl. 5:00.

  • Ekki gefa eftir þitt pláss í brekkunum og á brautinni, vera ákveðinn með þitt pláss.

  • Ekki eyða neinum óþarfa tíma á drykkjarstöðvunum, fara vel með hverja sekúndu, tíminn líður hratt.

  • Ekki þvælast með drykki með sér, nóg að drekka á drykkjarstöðvunum.

  • Vera með nóg af geli, jafnvel 10 stykki ?

  • Klára öll salernismál fyrir rástímann og ekkert wc á leiðinni nema þá úti í skógi, ekki eyða tíma í biðraðir, þær eru lengi.

  • Leggja vel á minnið hvar búið er að stilla skíðunum upp þegar tekið er frá pláss í ráslínunni, merkja með fána eða húfu ofan á skíðunum eins og við gerðum og nýta kennileitin í umhverfinu... þriðja spor til vinstri frá grindunum í miðjunni eða álíka.

  • Ekki láta aðra stjórna hraðanum og hægja á af því hinir hægja á, fara þá á vinstri hluta brautarinnar (eða hægri stundum var vinstri hægari þó það ætti ekki almennt að vera þannig).

  • Ekki vera of mikið klæddur, maður er að hamast og þó það sé snjókoma og vindur þá er líkaminn heitur af áreynslunni og þarf ekki mikinn fatnað, vera í því sem maður er vanur og líður vel í.

  • Það er skjól af trjánum en þar sem er bersvæði blæs vindurinn, en það var aldrei á mjög löngum köflum svo það er skjól að hluta öðru hvoru alla leið fannst manni, en NB ég þekki ekki leiðina frá Oxberg samt og þar eru sléttur meira og minna ?

  • Vera undir það búinn að lenda í alls kyns ævintýrum á leiðinni og njóta sama hvað :-)

Spurninga sem ég velti fyrir mér en náði ekki að fá svör við:

  • Þarf gleraugu ?
    Já líklega ef það er mikil sól og geislun frá snjónum, myndi æfa notkun þeirra vel á löngum æfingum upp á að vera viss um að þola að hafa þau og að þau liggi vel. Myndi hafa band á þeim þar sem gleraugun fljúga af manni við fall og eins gott að geta sett þau niður á hálsinn ef eitthvað er verið að lagfæra. Hefði viljað vera með gleraugu gegn allri snjókomunni í andlitið en var ekki með nægilega góð gleraugu. Spurning að hafa skyggni í stað gleraugna ef það er úrkoma ?
     

  • Þarf orkugel?
    Já, ekki spurning, þau gefa mikla orku og ég fann áhrifin skýrt þegar ég tók þau eins og ég geria alltaf í keppnishlaupunum líka og þau henta betur en brauðbollan sem var það eina sem mér fannst ekki gott af því sem er í boði í Vasaloppet (súpurnar voru fínar).
     

  • Er nóg af wc?
    Já, það er í boði á hverri drykkjarstöð en mjög langar biðraðir og tími fer í að fara í og úr skíðunum og stundum þarf að fara út á bílastæðið til að fara á wc, þ.e. ganga þó nokkurn spöl svo ég myndi helst sleppa salernisferð ef mögulegt. Æfa vökvabústapinn í keppni og finna réttu línuna þar sem maður er vel vökvaður fyrir álagið en ekki farinn að þurfa að fara á salernið fyrr en eftir keppni.

  • Hvernig hindrar maður að stafirnir brotni?
    Halda þeim eins nálægt sér og hægt er með því að hafa þá milli skíðanna upp fyrstu brekkuna og ef það er ekki hægt í mesta brattanum að stinga þeim eins nálægt sér og hægt er. Það eru aðrir að brjóta stafina með því að skíða á þá eða stingast á þá. Við sáum mikið af brotnum stöfum.

  • Hvað gerir maður ef stafur brotnar?
    Það er starfsfólk meðfram brautinni með allar stærðir af stöfum, getur beðið um 1-2 stafi af þinni stærð, en þarft að skíða þangað til þú sérð þessa stm. Menn voru að kalla eftir þessum stöfum og biðja þá sem voru úti í enda að rétta sér þá yfir mannfjöldann.
     

  • Hvað gerir maður ef maður er óöruggur í brekkum ?
    Um leið og brekkurnar voru brattar hægðist á hópnum og fólk var að velja sér stað til að fara niður og engum var ýtt niður brekkurnar af fjöldanum. Það má ganga niður brekkurnar haldandi á skíðunum og það gerðu það ótrúlega margir fannst mér en það er tímafrekt og mikill missir á rennslinu sem skapast við að renna niður. Myndi því æfa vel brekkur, en ég æfðist hreinlega í Vasahlaupinu sjálfu og styrktist mikið á einni 40 km Heiðmerkuræfingu svo það er alveg hægt að æfa þetta. Myndi alls ekki venja mig á að taka af mér skíðin og ekki leyfa sér að vera krónískt óöruggur, bara æfa brekkur og ná örygginu, var steinhissa hvað þetta var fljótt að koma við að láta sig hafa það.
     

  • Er mikið verið að ýta sér með stöfunum ?
    Já, líklega ef færið er gott og frost en ef það er hlýtt og snjókoma eins og í okkar göngu þá reynir á að geta skíðað og skíðað með höndum og fótum svo ég myndi æfa bæði vel, þ.e. frost og rennifæri og svo hlýtt veður og þungt færi.
     

  • Reynir á blöðrur í lófum eða höndum eða annan núning af stöfunum ?
    Já, hugsanlega og getur orðið fljótt slæmt ef vettllingar eða stafir liggja þannig að það ýtir á einhvern stað. Myndi æfa þetta vel, vettlingana og stafina en eitt gott ráð frá Ísafirði sem ég nýtti mér var að sleppa alltaf takinu á stöfunum á milli skrefa þannig að þegar stafurinn fer aftur fyrir mann þá sleppa alveg og hvíla þannig hendurnar. Stelpurnar plástruðu sig á höndunum, milli þumals og vísifingurs, ég gerði það ekki, var í ullarfingravettlingum og fann ekkert en ég fór bara 62 km - en ég var ekki farin að finna nein eymsli en man eftir þeim á æfingunum svo þetta er viðkvæmt og best að æfa vel langar vegalengdir til að sjá hvort þetta sé álagspunktur.
     

  • Eru líkur á aðstæðum þar sem mikill vindur er eða er maður í skjóli að mestu ?
    Trén á leiðinni skýla vel og því er skjól að hluta, en það eru berskjaldaðir kaflar á leiðinni og í okkar tilviki var heilmikill vindur á köflum í fangið uppi á heiðinni. Veit ekki hvernig síðustu 28 km eru á sléttunum að Mora en það var vindur uppi að Smagan og að Oxberg.

Það sem maður hafði áhyggjur af en leystist vel:

  • Blöðrurnar greru vel og plásturinn hélt alveg.

  • Fékk engar blöðrur og fæturnir þoldu nýju skóna vel.

  • Fengum fínt stæði í ráshóp 10 með því að vera komin um 4:30 á svæðið.

  • Afgreiðsla á skíðunum eftir smurningu um morguninn á keppnisdaginn gekk vel fyrir sig, engin bið.

  • Límmiðarnir á skíðunum skemmdust ekki í smurningunni.

  • Leita að bílastæðum neðst á stæðunum næst rásmarkinu, enginn stm er að stýra umferðinni
    og menn leggja of snemma í efstu stæðin með laus stæði neðst sem er best til að geta farið á wc ofl. meðan beðið er.
    Ókosturinn er sá að þeir sem eru neðstir eru aftastir þegar menn yfirgefa svæðið svo það þarf að hugsa það líka og staðsetja sig þar sem einfaldast er að komast af stað aftur til að fylgja keppendum eftir.

  • Brekkan í byrjun gekk mjög vel og við brutum ekki stafina en þarf að passa það, sáum fullt af brotnum stöfum á leiðinni en starfsmenn eru öðru hvoru með stafi fyrir þá sem lenda í því að brjóta sinn.

  • Fékk ekkert í magann og þoldi vel allt á drykkjarstöðvunum.

  • Ekkert mál að vera með allt þetta dót í vösunum á leiðinni og með mittistöskuna.

  • Nýju skíðin voru fín og rennslið var gott en hef samt enga reynslu til að meta hvort það hafi verið eðlilegt.

  • Risberg brekkan og allar hinar óteljandi brekkurnar voru minna mál en ég átti von á og datt aldrei
    en það duttu samt margir í kringum mig.

  • Þreytan var ekki mikil þegar leið á hlaupið... var enn mjög fersk þegar ég hætti og fann að ég hefði getað klárað
    þó þetta hafi verið krefjandi, engan veginn það sama og hlaupin sem valda miklu meiri verkjum í líkamanum. Skiptir án efa máli að æfa langar vegalengdir fyrir þetta og brekkur með til að sjá hvernig líkaminn er eftir slíka þolraun.

EN...
... ég hefði betur haft áhyggjur af rauða kaðlinum frekar en öllu ofangreindu...
þá hefði ég komist þetta alla leið í mark :-)

Gangi ykkur öllum vel sem eruð að spá í að fara... þetta er kyngimögnuð upplifun sama hvað !

 

 

 

 

 



 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir