Ása Jóhannsdóttir
Miðfellstindur í Bergárdal við Höfn í Hornafirði
6. desember 2020
 

Miðfellstindur í Bergárdal
við Höfn í Hornafirði

Virkilega skemmtileg sunnudagsganga með Jóni frænda. Er s.s. stödd a Höfn og Jón veit að það er sjaldan friður fyrir mér fyrr en búið er að hreyfa kellu. Í dag var stefnan tekin á Miðfellstind en frá Höfn er um 10 mínútna akstur á upphafsstað göngu.

Veðrið hér var eins stillt og hægt er en slatti frost. Allir lækir, sprænur, fossar og ár er svo fallega frosið.

Við upphaf göngu voru nokkur hreindýr að þvælast en þau er alltaf fljót að forða sér þegar meður fer úr bílnum, þó að ég hafi milljón sinnum séð hreindýr þá er það alltaf gaman að rekast a þau.

Við þurftum að rölta aðeins upp með Bergánni áður en við fundum stað til að fara yfir á traustum ís, ííískalt fótabað var ekkert freystandi svona í upphafi ferðar, ég var nú samt með handklæði með en Jón tók frekar stuttlega í vaðhugmyndina.

Þegar yfir Bergána var komið bröltum við uppá Bergárdalsheiðina, en hún er svona klassísk íslensk heiði, alltaf ein hæð í viðbót.

Þegar við vorum komin uppá hana var útsýnið glæsilegt, Ketillaugarfjall, Fláajökull, Skálafellsjökull,Þverártindsegg og fleiri dásamlegir tindar.

Við vorum mest að njóta en ekki þjóta og stoppuðum reglulega til að njóta og taka myndir.

Enginn snjór var að þvælast fyrir okkur fyrr en við vorum komin í þónokkra hæð.

Síðustu 150 metrarnir voru í harðfenni, en ekkert til vandræða.

Ekki tók síðra útsýni við af Miðfellstindi, Endalausidalur, Skeggtindar, Múlatindar,Grasgiljatindur, Papaós og ýmislegt fleira.

Uppá toppnum í 833 metra hæð var frekar kalt svo við drifum okkur niður.

Lentum í smá basli a leið niður þar sem hlíðin var nánast eitt svell, en vel búið og vant fólk fer varlega og skilar sér í heilu lagi heim.

Hvet ykkur til að skoða endalausar gönguleiðir í nágrenni Hafnar,
það er svo mikið meira en Vatnajökull, Skaftafell og Lónsörævi á þessu svæði.

 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir