Laugavegurinn á einum degi
25. - 26. júní 2020
Hafrún Jóhannesdóttir

Laugavegurinn á einum degi
mín upplifun

Þessi áskorun varð til þess að ég skráði mig í Toppfara haustið 2019. Mín upplifun af ferðinni var mjög góð, hópurinn mátulega stór og allir mjög hjálplegir og tillitssamir. Mér fannst ég mjög örugg undir ykkar leiðsögn og naut hverrar stundar í þessu magnaða umhverfi. Mér fannst stoppin okkar vel tímasett og mátulega löng, ég kveið aðeins næturstoppunum vegna þess hversu fljótt manni getur kólnað.

Að fá heitt kaffi/kakóí hverju stoppi var frábært og þakka ég Kolbeini og Bjarnþóru fyrir að hafa tekið með lítinn prímus og leyfa okkur hinum að njóta. Ég tek minn klárlega með í næstu ferð (fékk frá dóttur minni í afmælisgjöf í sumar). Ég var aðeins óviss með nestisþörfina en var með mátulega mikið, fannst ég borða minna en ég hélt að ég myndi gera, átti því smá afgang. Ég var með kjúkling og sæta kartöflu en annars voru það flatkökur, kex, hnetur og orkustykki.

Ég var í léttum Hoka gönguskóm og hlaupabuxum og fannst það mjög þægilegt. Það kom mér á óvart hvað þetta var lítið mál, hvorki hælsæri, nuddsár né þreyta á sjálfri göngunni. Ég skipti yfir í utanvegahlaupaskó í Emstrum og skipti bakpokanum mínum út fyrir minni poka, þannig að síðasta spölinn bar ég nánast ekkert nema drykki og smá nesti.

Erfiðasti kaflinn á göngunni voru sandarnir áður en við komum að Emstrum en annars var þetta bara hverrar mínutu virði. Bara dásamlegt. Það sem mér fannst erfiðast var heimferðin í rútunni og tímarnir þangað til ég komst í rúmið mitt

Þá hafði ég vakað í u.þ.b. 32 tíma. Ég hélt að ég gæti farið í fimmtugsafmæli um kvöldið en það fór ekki svo, ég var komin með mikinn hausverk og leið eins og ég væri fárveik. Það kom mér á óvart hversu hress ég var daginn eftir, fann ekki fyrir neinum eymslum eða þreytu. Mér fannst magnað að ganga inn í nóttina og svo aftur inn í daginn. Mæli klárlega með að prófa þessa gerð af Laugavegsgöngu.

Það sem ég myndi vilja gera öðruvísi næst er að sofa nóttina áður í nágrenni við Landmannalaugar og stytta þann tíma sem maður þarf að vaka, því það var það erfiða við þessa ferð. Takk fyrir þessa frábæru ferð, bíð spennt eftir áskorun fyrir 2021.

Bestu kveðjur, Hafrún
2020.
 

 

 

Við erum á toppnum... hvar ert þú?
www.toppfarar.is


Toppfarar ehf - Viðarrima 52 - 112 Reykjavík - Kt: 581007-2210 - Sími: +354-867-4000 / -899-8185 / -588-5277 - Netfang: bara(hjá)toppfarar.is
Copyright: Höfundarréttur: Bára Agnes Ketilsdóttir